Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1630, 144. löggjafarþing 787. mál: fjármálafyrirtæki (nauðasamningar).
Lög nr. 59 9. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (nauðasamningar).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 77. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er heimilt á kröfuhafafundi að taka ákvörðun um ábyrgðarleysi manna sem eiga sæti í slitastjórn fjármálafyrirtækis í slitum, sbr. 4. mgr. 101. gr., vegna ráðstafana skv. 4. málsl. 2. mgr. þessarar greinar. Kröfuhafi sem greiðir atkvæði gegn ráðstöfun skv. 4. málsl. 2. mgr. eða kemur afstöðu sinni á annan sannanlegan hátt á framfæri við slitastjórn áður en ákvörðun er tekin á kröfuhafafundi er óbundinn af slíkri ákvörðun um ábyrgðarleysi.
 2. Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í sama skyni er slitastjórn heimilt að ávaxta eignirnar með fjárfestingum í skuldaskjölum útgefnum af viðskiptabönkum eða sparisjóðum, verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.
 3. Við 2. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði XIX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er slitastjórn heimilt að ráðstafa eignum og öðrum réttindum fjármálafyrirtækis með viðskiptum við Seðlabanka Íslands eða á annan hátt, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Seðlabanka Íslands, eftir atvikum án endurgjalds, til að ljúka megi slitameðferð ef telja má að það þjóni hagsmunum kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda. Skal slitastjórn tilkynna fyrir fram um slíka ráðstöfun á fundi með kröfuhöfum í samræmi við 3. málsl. 3. mgr. Slitastjórn er einnig heimilt að láta fjármálafyrirtæki gangast undir frekari fjárskuldbindingar svo fremi sem það er til að ljúka megi slitameðferð með nauðasamningi og sýnt má telja að það sé í samræmi við hagsmuni kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. a laganna:
 1. Á eftir 2. málsl. 3. mgr. koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Frumvarp að nauðasamningi skal taka til allra eigna fjármálafyrirtækis og hafa að geyma tímasetta áætlun um heildaruppgjör eigna þess. Slitastjórn er heimilt að víkja frá fyrirmælum 1. og 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að heimilt er að bjóða fram greiðslu sem háð verður fyrirvörum um innheimtu og innlausn eigna fjármálafyrirtækis, enda sé slíkra fyrirvara skýrt getið í frumvarpi að nauðasamningi. Slitastjórn er jafnframt heimilt skv. 2. mgr. 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 29. gr. sömu laga, að leggja til í frumvarpi að nauðasamningi að fjárhæð samningskrafna sem fást greiddar að fullu geti samtals numið allt að fjórðungi af heildargreiðslum sem boðnar eru fram í frumvarpi að nauðasamningi. Í frumvarpi að nauðasamningi má einnig kveða á um að gefnir verði út nýir hlutir í fjármálafyrirtækinu sem greiða megi með skuldajöfnun tiltekins hluta kröfu er samþykkt hefur verið við slitameðferðina og sem þáttur í efndum nauðasamnings. Ef sýnt er að eignir fjármálafyrirtækis nægja ekki til að standa við skuldbindingar þess að mati slitastjórnar skv. 5. mgr. 102. gr., sbr. 4. mgr. 103. gr., er heimilt í tengslum við slíka tillögu um hækkun hlutafjár að lækka að fullu eldra skráð hlutafé án endurgjalds til hluthafa og án þess að innköllun eða tilkynningar til hluthafa fari fram samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um hlutafélög.
 2. Í stað orðanna „sömu laga“ fyrra sinni í 3. málsl. 3. mgr., er verður 8. málsl., kemur: laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
 3. Á eftir 3. málsl. 3. mgr., er verður 8. málsl., kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis er slitastjórn einnig heimilt að víkja frá 4. mgr. 30. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að litið verði til stöðu krafna við lok kröfulýsingarfrests, án tillits til framsals þeirra fram að þeim tíma.
 4. Í stað orðanna „þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða“ í 6. málsl. 3. mgr., er verður 12. málsl., kemur: þó að lágmarki 60 og að hámarki 90 hundraðshlutar þeirra atkvæða.
 5. Á eftir 6. málsl. 3. mgr., er verður 12. málsl., koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Samningskröfuhafa sem fer með fyrirsvar vegna safns krafna á hendur skuldara er heimilt að veita einum eða fleiri aðilum umboð til þess að fara með atkvæði vegna kröfu sinnar. Heimilt er í þessu skyni að skipta atkvæði samningskröfuhafans samkvæmt yfirlýsingu hans þar um.
 6. Í stað orðanna „samþykki 70 hundraðshluta“ í 7. málsl. 3. mgr., er verður 15. málsl., kemur: samþykki 60 hundraðshluta.
 7. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis má víkja frá skilyrði 1. mgr. 50. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um að atkvæði sé greitt skriflega á annan hátt en í kröfulýsingu, og dugir þá að atkvæði sé sent rafrænt og hafi sannanlega borist slitastjórn áður en fundur um atkvæðagreiðslu hefst. Skal slitastjórn bóka um slík atkvæði sem borist hafa í fundargerð skv. 4. mgr. 50. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
 8. Á eftir 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 9.      Með kröfu um staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis skal, auk þeirra gagna sem getið er um í 2. mgr. 54. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., fylgja mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum frumvarps að nauðasamningi og áhrifum þess á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika. Héraðsdómari skal hafna kröfu fjármálafyrirtækis um staðfestingu nauðasamnings skv. 1. mgr. 57. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef í vottorði Seðlabanka Íslands kemur fram að frumvarpið teljist raska stöðugleika í gengis- og peningamálum og/eða fjármálastöðugleika.
       Í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis má kveða á um að kröfur skv. 109.–112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. verði fyrst greiddar af eignum fjármálafyrirtækis, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 153. gr. þeirra laga, áður en til greiðslu samningskrafna kemur, án þess að fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða að hlutaðeigandi samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess.
       Hafi ágreiningur um kröfu, sem lýst hefur verið skv. 112.–113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., ekki verið til lykta leiddur við staðfestingu nauðasamnings er slitastjórn heimilt að leggja nauðasamningsgreiðslu, eins og sú greiðsla gæti hæst orðið samkvæmt kröfugerð hlutaðeigandi kröfuhafa, inn á fjárvörsluinnlánsreikning og/eða vörslureikning á nafni fyrirtækisins sem stofnaður er í því skyni að leggja nauðasamningsgreiðslur inn á. Nýti slitastjórn sér slíka heimild skal senda kröfuhafa sem fær greiðslu tilkynningu og telst slitastjórn þá hafa innt nauðasamningsgreiðslu af hendi til viðkomandi kröfuhafa. Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal hlutdeild þeirrar kröfu í innstæðu fjárvörsluinnlánsreikningsins og/eða vörslureikningsins ásamt hlutdeild í áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafan hefur verið viðurkennd, en fé og/eða verðbréf sem eftir kunna að standa skulu renna aftur til fyrirtækisins. Fari hlutagreiðslur fram í fleiri en einum gjaldmiðli má stofna sérstakan reikning fyrir hvern gjaldmiðil. Ef nauðasamningsgreiðslu verður að öðru leyti ekki komið til kröfuhafa í samræmi við ákvæði nauðasamnings vegna atvika er varða kröfuhafann getur slitastjórn efnt samninginn með greiðslu inn á fjárvörsluinnlánsreikning og/eða vörslureikning og að öðru leyti í samræmi við heimildir þessarar málsgreinar.
 10. Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 1. málsl. 4. mgr., er verður 7. mgr., kemur: skv. 3.–6. mgr.


3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Við atkvæðagreiðslu á skiptafundi um frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis verður nýjum kröfum ekki komið fram nema að því leyti sem þeim verður um leið komið að við slit fjármálafyrirtækis skv. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þó þannig að kröfur sem stofnuðust fyrir 1. september 2014 og lýst er á grundvelli 1. eða 5. tölul. þeirrar greinar verður að lýsa fyrir slitastjórn skv. 117. gr. sömu laga í síðasta lagi 15. ágúst 2015.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin taka til nauðasamningsumleitana þeirra fjármálafyrirtækja sem leggja fram frumvarp að nauðasamningi til að ljúka slitum eftir gildistöku laga þessara.

5. gr.

 1. Við gildistöku laga þessara bætast fjórir nýir málsliðir við ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum, svohljóðandi: Þá er Seðlabankanum heimilt, í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum, þ.m.t. kröfuréttindum, fjármálagerningum og eignarhlutum í félögum og öðrum réttindum yfir þeim í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta. Þau verðmæti sem Seðlabankinn veitir viðtöku á grundvelli 2. málsl. renna í ríkissjóð og skulu vera hjá bankanum til varðveislu. Meðferð og ráðstöfun verðmætanna skal hagað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt. Laust fé skal varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands en ráðherra er heimilt að fela sérhæfðum aðila sem starfar í umboði bankans að annast varðveislu annarra verðmæta og umsýslu með þau.
 2. Við gildistöku laga þessara bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, svohljóðandi:
 3.      Við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015 skal:
  1. ekki telja til tekna eftirgjöf skulda eða annarra skuldbindinga sem á sér stað við gerð nauðasamnings lögaðila gegn því að kröfu er breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi, hvort heldur varðar kröfuhafann og/eða skuldarann. Skilyrði fyrir niðurfellingu tekjufærslu skv. 1. málsl. er að rekstrartap ársins og yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað,
  2. ekki telja til skattstofns skv. 3. mgr. 71. gr. tekjur vegna eftirgjafar skulda í tengslum við slitameðferð skattaðila skv. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.


Samþykkt á Alþingi 3. júlí 2015.