Ferill 357. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1634  —  357. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller
um rekstur Hlíðarskóla .


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvers vegna er ekki gerður þjónustusamningur við Akureyrarbæ um rekstur Hlíðarskóla?

    Vísað er í svar mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn þingmannsins þar sem spurt er um Hlíðarskóla og stuðning við verkefni grunnskóla (þingskjal 811, 398. mál). Fram kemur í svari ráðherra að frá árinu 2009 hafi skólinn fengið árlega úthlutað 12 millj. kr. af fjárlögum. Framlagið var síðan fellt niður í frumvarpi til fjárlaga 2015. Ástæða þess að framlagið var fellt niður var að mati ráðuneytisins sú að það væri ekki hlutverk þess að veita fjárstuðning til meðferðarúrræðis við skóla á grunnskólastigi, þ.e. í ljósi laga um grunnskóla, nr. 91/2008.
    Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ekki stutt þjónustu grunnskóla með sérstökum framlögum né gert við þá þjónustusamninga enda fellur slíkt ekki að hlutverki hans í velferðarráðuneytinu. Ráðuneytið hefur þó með óbeinum hætti stutt þjónustu grunnskóla um land allt með sérstöku styrktarframlagi til ART-þjálfunaraðferðarinnar (Aggression Replacement Training) undanfarin ár. Fjárheimildin var tímabundin og var framlag velferðarráðuneytisins árið 2015 27 millj. kr.