Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 5  —  5. mál.
Leiðréttur texti. Viðbót.




Tillaga til þingsályktunar


um framtíðargjaldmiðil Íslands.


Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Björt Ólafsdóttir, Róbert Marshall,
Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu til framtíðar í gjaldmiðilsmálum. Í stefnunni komi fram hver eigi að vera framtíðargjaldmiðill Íslands. Í rökstuðningi með stefnunni verði horft til eftirfarandi þátta:
     a.      að notkun gjaldmiðilsins efli traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma litið,
     b.      að notkun hans auki möguleika á stöðugu verðlagi, lægri vöxtum og betri lífskjörum,
     c.      að gjaldmiðillinn auki frelsi í viðskiptum við útlönd,
     d.      að gjaldmiðillinn henti íslensku atvinnulífi og hafi góð áhrif á atvinnustig og útflutning,
     e.      að gjaldmiðillinn auðveldi hagstjórn, minnki áhættu í íslensku efnahagslífi og sé áhættuminni en aðrir valkostir,
     f.      að gjaldmiðilsstefnan sé vel framkvæmanleg með hliðsjón af þeim öðrum samhliða aðgerðum sem þörf er á á sviði ríkisfjármála, peningamála og í samningum við önnur lönd.
    Stefnan verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu við upphaf haustþings árið 2016.

Greinargerð.

    Tillaga sama efnis var flutt á 144. löggjafarþingi (15. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Efnahagslegur óstöðugleiki, óhóflegar verðlagshækkanir og hátt vaxtastig hafa um langa hríð einkennt íslenskt efnahagslíf með tilheyrandi áhrifum á lífskjör almennings og umgjörð atvinnulífsins. Leiða má að því rök að eitthvert mest aðkallandi verkefnið á sviði efnahagsmála sé að ná viðvarandi stöðugleika án hafta. Náist hann mun áhættan í hagkerfinu minnka, traust myndast og áætlunargerð heimila og fyrirtækja verða auðveldari. Þetta er ein forsenda skynsamlegra fjárfestinga, atvinnuuppbyggingar og heilbrigðra fjármála heimilanna. Að mörgu er að hyggja í þessu mikla verkefni. Eitt af því sem íhuga þarf vel er fyrirkomulag gjaldmiðilsmála. Með öðrum orðum: Ákveða þarf hvaða gjaldmiðill hentar íslensku efnahagslífi best og hvaða efnahagsleg umgjörð þarf að ríkja um hann.
    Skoðun flutningsmanna er að takast þurfi á við þetta álitamál með upplýstri umræðu sem síðan leiði til rökstuddrar ákvarðanatöku. Ekki dugar að ýta þessu álitamáli á undan sér. Óvissa um fyrirætlanir stjórnvalda í þessum efnum er slæm. Kostir Íslands í gjaldmiðilsmálum eru þó nokkrir. Um þá hafa verið skrifaðar vandaðar úttektir. Má þar m.a. nefna yfirgripsmikið og vandað sérrit Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum sem út kom í september 2012. Taka verður pólitíska afstöðu til þeirra kosta sem þar eru metnir álitlegir.
    Flutningsmenn eru vel meðvitaðir um þann veruleika að íslenska krónan verður gjaldmiðill Íslendinga í allra nánustu framtíð. En stefnuna þarf að marka til lengri tíma. Það er ákaflega aðkallandi spurning hvaða efnahagslegi veruleiki muni blasa við á Íslandi eftir að gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt, sem vonandi tekst farsællega. Er líklegt að íslensk króna óheft á frjálsum markaði muni þá henta best? Eða hentar betur að taka upp gjaldmiðilssamstarf við Evrópusambandið, í gegnum ERM 2 og síðar upptöku evru? Margt bendir til að síðari kosturinn sé vænlegri, að mati flutningsmanna tillögunnar. Í þessari tillögu er þó ekki farið fram á annað en það að lagt sé rökstutt mat á kostina og upplýst stefna mörkuð.
    Því má halda fram að skynsamleg og vel rökstudd stefna til langs tíma í gjaldmiðilsmálum hjálpi til við losun gjaldeyrishafta. Rót vandans er skortur á trausti. Fjármagn leitar út úr íslensku hagkerfi vegna skorts á trausti. Skýr stefna í gjaldmiðilsmálum sem nýtur viðurkenningar og skilnings í alþjóðafjármálaumhverfinu, eftir vandaða kynningu, er til þess fallin að auka traust.
    Mat flutningsmanna er að góð gjaldmiðilsstefna verði best byggð á skýrum rökstuðningi þar sem horft er til eftirfarandi þátta:
          Traust. Ákvörðunin um að nota tiltekinn gjaldmiðil á Íslandi til langrar framtíðar verður að vera studd þeim rökum að notkun hans sé til þess fallin að auka traust á íslensku hagkerfi. Gera verður þá kröfu að verðgildi gjaldmiðilsins sé tiltölulega stöðugt og rýrni ekki á skömmum tíma eða sveiflist mjög. Gjaldmiðillinn verður að geta nýst í almennum viðskiptum sem geymsla á verðmætum, til greiðslu launa og til lánaviðskipta.
          Betri lífskjör. Eitt meginhlutverk ríkisvaldsins í efnahagsmálum er að skapa umgjörð sem gerir kjarabætur sem best mögulegar. Skynsamlegt fyrirkomulag gjaldmiðilsmála, með stöðugu gengi, gegnir þar lykilhlutverki. Of algengt er til að mynda í íslensku efnahagslífi að kaupmáttaraukning sé minni en til stóð vegna verðlagshækkana, sem til dæmis geta stafað af stórum afborgunum erlendra lána sveitarfélaga, ríkis og fyrirtækja, sem lækka gengi krónunnar. Eins geta sveiflur í einkaneyslu skapað mikinn þrýsting á gengið. Vextir húsnæðislána eru háir vegna hárrar verðbólgu og of mikillar áhættu í hagkerfinu, m.a. út af gengisóvissu. Af þeim sökum reynist erfitt að afnema verðtryggingu. Í þessu felst mikill kostnaður fyrir almenning.
          Frjáls viðskipti. Mikilvægt er að gjaldmiðillinn sem Íslendingar kjósa að nota sé gjaldgengur í frjálsum alþjóðlegum viðskiptum og hindri ekki eðlilegt og haftalaust flæði fjármagns til og frá landinu. Æskilegt er að gjaldmiðilsstefnan feli í sér heilbrigðan ramma, án teljandi kerfisáhættu, fyrir fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi sem og fjárfestingar innlendra aðila í útlöndum.
          Hagsmunir atvinnulífsins. Gjaldmiðilsstefnan verður að fara saman við stefnu í atvinnumálum. Mikilvægt er að horfa til þess hvort notkun gjaldmiðilsins felur í sér erfiðleika fyrir atvinnulíf, t.d. varðandi gerð rekstraráætlana, eða reisir hindranir í átt til frekari uppbyggingar. Erlend fjárfesting verður að geta átt greiða leið inn í íslenskt hagkerfi. Jafnframt er mikilvægt að skoða hvort gjaldmiðillinn hentar mörgum atvinnugreinum, og eflir þar með fjölbreytni, eða hvort notkun hans ýtir undir fábreytni. Mat á áhrifum gjaldmiðils á útflutning, til minnkunar eða aukningar, er einnig lykilatriði.
          Betri hagstjórn. Meta þarf hvort gjaldmiðillinn og öll umgjörð gengismála sem honum fylgja nýtist vel til árangursríkrar hagstjórnar. Hér er mikilvægt að horfa til reynslu þjóðarinnar í þessum efnum og jafnframt til reynslu annarra þjóða. Í þessu sambandi er einnig vert að skoða hvaða áhrif gjaldmiðillinn hefur á ríkisfjármál, en skuldsettur gjaldeyrisvaraforði til að halda úti íslenskri krónu eins og nú er, með tilheyrandi vaxtagreiðslum, hefur í för með sér umtalsverð áhrif á ríkissjóð.
          Samanburður. Rökstuðningur fyrir gjaldmiðilsstefnunni hlýtur að þurfa að fela í sér samanburð við aðra kosti. Nærtækast er, að mati flutningsmanna, að nálgast þann samanburð með því að leggja mat á þá áhættu sem hver valkostur fyrir sig felur að öllum líkindum í sér fyrir íslenskt efnahagslíf. Enginn valkostur er fullkominn. Allir kostir fela í sér áhættu fyrir efnahagslífið sem mikilvægt er að stjórnvöld séu meðvituð um og reyni eftir fremsta megni að takast á við. Því má aftur á móti halda fram að besti valkosturinn í gjaldmiðilsmálum sé sá sem feli í sér minnstu áhættuna.
          Framkvæmanleiki. Að síðustu er mikilvægt að stefnan í gjaldmiðilsmálum sé raunhæf. Hvað það varðar er nauðsynlegt að tiltaka í rökstuðningi með stefnunni til hvaða annarra aðgerða er nauðsynlegt að grípa, svo sem samningaviðræðna við aðrar þjóðir, og hvernig önnur stefnumörkun þarf mögulega að taka breytingum, til þess að skapa grundvöll og umgjörð stefnunnar.
    Lagt er til að gjaldmiðilsstefnan verði lögð fram í formi þingsályktunartillögu við upphaf haustþings 2015 og fái hefðbundna þinglega meðferð.
    Tillaga þessi er að mestu samhljóða tillögu sem lögð var fram á 143. þingi (7. mál) undir heitinu „Tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum“. Fékk tillagan þá litla efnislega meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd, en jákvæðar umsagnir bárust frá Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og BHM.