Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 9  —  9. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aukinn stuðning við móttöku flóttafólks.


Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Ásta Guðrún Helgadóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björt Ólafsdóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson,
Helgi Hjörvar, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Oddný Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Óttarr Proppé,
Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall, Steinunn Þóra Árnadóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning á móttöku flóttamanna, þ.e. kvótaflóttafólks, til landsins á næstu þremur árum í samvinnu við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Stefnt verði að því að a.m.k. 100 flóttamönnum verði boðin dvöl hér á landi árið 2015, 200 árið 2016 og 200 árið 2017. Sérstök áhersla verði lögð á móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og flóttafólks annars staðar frá sem er í sambærilegri stöðu og viðkvæmir hópar flóttamanna sem Ísland hefur tekið á móti undanfarin ár í samstarfi við Flóttamannahjálpina.
    Vegna langvarandi stríðsástands í Sýrlandi skal jafnframt unnið að aukinni fjölskyldusameiningu Sýrlendinga, m.a. með því að heimila tímabundið veitingu dvalarleyfa til aðstandenda Sýrlendinga sem búsettir eru á Íslandi.
    Þá verði samhliða unnin áætlun um móttöku kvótaflóttamanna sem taki gildi árið 2018 þar sem tryggt verði að Ísland taki á móti flóttafólki til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.

Greinargerð.

    Samkvæmt ársskýrslu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) fyrir árið 2014, sem gefin var út í júní á þessu ári, hafa flóttamenn í heiminum aldrei verið fleiri. Í lok árs 2014 nutu nær 55 milljónir manna aðstoðar Flóttamannahjálparinnar, en það er 12 milljónum fleiri en í árslok 2013. Áætlað er að um 13 milljónir manna hafi misst heimili sín á árinu 2014 samkvæmt skýrslunni.
    Sýrlendingar eru nú fjölmennasti hópur flóttamanna sem Flóttamannahjálpin aðstoðar. Talið er að 3,7 milljónir Sýrlendinga séu á flótta í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Þar að auki er talið að 12,2 milljónir manna innan Sýrlands hafi þörf fyrir mannúðaraðstoð. Afganir eru næstfjölmennastir flóttamanna en voru fjölmennastir um þriggja áratuga skeið. Palestínumenn njóta hins vegar aðstoðar sérstakrar stofnunar, Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).
    Pakistan hefur um skeið hýst flesta flóttamenn allra ríkja heimsins eða um 1,5 milljónir Afgana. Í lok árs 2014 var þó áætlað að Tyrkland hýsti 1,6 milljón Sýrlendinga og þar með flesta flóttamenn á heimsvísu. Önnur ríki sem hafa tekið á móti miklum fjölda flóttamanna eru Líbanon, Íran, Jórdanía, Eþíópía, Kenía og Tsjad. Miðað við íbúafjölda hafa Líbanon og Jórdanía tekið á móti flestum flóttamönnum, en sé miðað við stærð hagkerfisins eru þyngstar byrðar lagðar á Eþíópíu og Pakistan.
    Þótt langflestir flóttamenn séu utan Evrópu eykst straumur flóttamanna þangað eins og fjöldi flóttafólks sem kemur yfir Miðjarðarhafið ber vitni um. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Flóttamannahjálpinni hafa yfir 300.000 flóttamenn komið þá leið til Evrópu það sem af er þessu ári. Er þetta mikil aukning, en um 219.000 flóttamenn fóru yfir Miðjarðarhafið allt árið í fyrra. Gríðarlegur fjöldi örvæntingarfulls flóttafólks lætur lífið í hverri viku í tilraunum sínum til þess að komast til Evrópu frá löndum líkt og Sýrlandi, Afghanistan og Írak, þar sem ríkir stríðsástand, upplausn og stjórnleysi. Áætlað er að 2.500 manns hafi látið lífið á þann hátt það sem af er þessu ári og fer sú tala ört hækkandi með nær daglegum fréttum af slíkum hörmungum.
    Ísland verður að leggja meira af mörkum vegna þess gríðarlega fjölda flóttafólks sem er í heiminum og veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og vernd. Ein leið til þess er að auka fjölda kvótaflóttamanna, en það eru flóttamenn sem hafa flúið upprunaland sitt og dvelja í öðru ríki. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna vinnur að því að koma flóttamönnum frá dvalarríki til þriðja ríkis, t.d. þegar þeir hafa ekki möguleika á að fara aftur til upprunalands síns eða dvalarríkið getur ekki veitt þeim nauðsynlega vernd. Íslensk stjórnvöld geta lagt sitt af mörkum til að bregðast við alþjóðlega flóttamannavandanum, m.a. með móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og öðrum stöðum þar sem fólk er í sambærilegri stöðu og viðkvæmir hópar flóttamanna sem Ísland hefur tekið á móti undanfarin ár í samstarfi við Flóttamannahjálpina. Þar á meðal eru hópar hinsegin fólks og kvenna í neyð, t.d. einstæðar mæður. Að höfðu samráði við Flóttamannhjálp Sameinuðu þjóðanna leggur flóttamannanefnd til tillögur um móttöku kvótaflóttafólks til ríkisstjórnarinnar sem tekur síðan ákvörðun um að taka á móti flóttafólki hér á landi.
    Ljóst er að íslensk stjórnvöld þurfa að taka á móti fleiri flóttamönnum en nú er gert. Norðmenn hafa til að mynda ákveðið að taka á móti 8.000 flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu þremur árum til viðbótar við þann árlega fjölda sem þeir hafa skuldbundið sig til að taka á móti. Með samþykkt tillögunnar um að Ísland tæki á móti a.m.k. 100 flóttamönnum á þessu ári og 200 árlega næstu tvö árin værum við að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr þeirri skelfilegu neyð, ofbeldi, nauðgunum og mansali sem flóttafólk verður fyrir. Á því tímabili gefst stjórnvöldum tími til að undirbúa áætlun um móttöku flóttamanna í samvinnu við Flóttamannahjálpina þannig að Ísland taki á móti flóttafólki til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins. Áætlunin verði gerð til þriggja ára og taki gildi árið 2018. Í áætluninni komi fram áherslur íslenskra stjórnvalda við móttöku flóttamanna, t.d. hvaða flóttamönnum skuli tekið á móti og hvernig fjármögnun verkefnisins skuli háttað.
    Til viðbótar því að auka fjölda kvótaflóttafólks hér á landi er jafnframt lagt til að unnið verði að aukinni fjölskyldusameiningu Sýrlendinga, með hliðsjón af fjölda flóttamanna frá Sýrlandi og ástandsins þar. Þetta mætti gera með því að heimila tímabundið veitingu dvalarleyfa til aðstandenda Sýrlendinga sem búsettir eru hér á landi. Dvalarleyfin geta verið til ákveðins tíma og háð fjöldatakmörkunum, en lögð verði áhersla á að auðvelda fjölskyldusameiningu.