Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 24  —  24. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði.

Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Páll Valur Björnsson,
Svandís Svavarsdóttir, Oddný Harðardóttir, Elsa Lára Arnardóttir,
Líneik Anna Sævarsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að kanna hvernig best megi tryggja að erilshávaði í kennsluhúsnæði skaði ekki rödd og heyrn nemenda, kennara og starfsmanna og hafi ekki neikvæð áhrif á líðan og námsfærni nemenda. Í þeim tilgangi verði hópnum falið að leggja til nauðsynlegar úrbætur á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem liggja fyrir um umfang vandans og jafnvel gera tillögur að laga- og reglugerðarbreytingum sé þess þörf. Starfshópurinn forgangsraði tillögum sínum til úrbóta, m.a. með hliðsjón af kostnaði við framkvæmd þeirra. Jafnframt verði tilgreind ábyrgð einstakra aðila á framkvæmd tillagnanna.
    Eftirfarandi tilnefni einn fulltrúa hver í starfshópinn: mennta- og menningarmálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, heilbrigðisráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga, Heimili og skóli, umboðsmaður barna, Vinnueftirlitið, Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða, Kennarasamband Íslands og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Skýrsla með niðurstöðum hópsins verði kynntar Alþingi eigi síðar en 1. maí 2016.

Greinargerð.

    Tillaga sama efnis var áður lögð fram á 135. löggjafarþingi (549. mál), 136. löggjafarþingi (87. mál), 141. löggjafarþingi (391. mál) og síðast á 144. löggjafarþingi (209. mál). Á 144. löggjafarþingi var málinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar sem sendi það til umsagnar. Þær umsagnir sem bárust um málið voru jákvæðar.
    Hinn 9. nóvember 2006 gaf félagsmálaráðherra út reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum, nr. 921/2006. Í 2. gr. segir að reglugerðinni sé ætlað „að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna sem eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín, einkum álagi er kann að leiða til heyrnarskaða“.
    Eins þörf og setning þessarar reglugerðar var, þá tekur hún aðeins til hluta þess hóps sem á það á hættu að verða fyrir heyrnarskaða, þ.e. starfsmanna og vinnuumhverfis þeirra, en ekki til þess fjölmenna hóps sem eru börn á öllum skólastigum. Í 3. gr. gildandi reglugerðar um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009, sbr. reglugerð nr. 599/2014, er fjallað um að tryggja skuli nemendum og starfsfólki öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, svo sem varðandi hljóðvist.
    Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að hávaði geti haft neikvæð áhrif á líðan og námsfærni barna og unglinga, svo sem lesskilning og málþroska. 1 Er þá bæði horft til bakgrunnshávaða eða hávaða sem kemur t.d. frá loftræsti- og hitakerfum, umferð eða framkvæmdum, og þess hávaða sem myndast inni í kennslurými og er óútreiknanlegur, óstöðugur og ófyrirséður, svokallaður erilshávaði. Yfirvöld verða að tryggja að börnum sé boðið upp á góða vinnuaðstöðu þar sem hávaði er undir þeim mörkum sem getur valdið skaða og að þau geti stundað nám með sem bestum árangri.
    Í bæklingnum „Hljóðvistarkröfur í umhverfi barna – Leiðbeiningar“ sem Umhverfisstofnun gaf út 2012 segir orðrétt: „Hávaði getur haft skaðleg áhrif bæði á heyrn og aðra lífeðlisfræðilega, vitsmunalega og atferlislega þætti hjá börnum. Áhrif á heyrn geta komið fram sem minnkuð eða skert heyrn, minna þol fyrir hávaða eða suð fyrir eyrum (tinnitus). Hávaði getur einnig haft neikvæð áhrif á náms- og tungumálagetu barns, drifkraft og einbeitingu, auk þess að minnisgeta getur minnkað sem og hæfni til að takast á við flókin verkefni. Hávaði getur vakið upp streituviðbrögð hjá börnum sem m.a. koma fram sem aukinn hjartsláttur og hormónaviðbragð, auk þess sem hávaði getur truflað svefnmynstur og hindrað þannig nauðsynlega orkuuppsöfnun líkama og heila. Óbeint getur hávaði haft neikvæð áhrif á röddina, því um leið og barn neyðist til að tala hærra til að yfirgnæfa hávaða getur það leitt til hæsis og hnúta á raddböndum.
    Evrópskar rannsóknir hafa sýnt fram á að langvarandi hávaði hefur neikvæð áhrif á heilsu og frammistöðu barna. Sumum hávaðauppsprettum er ekki hægt að komast hjá, en hægt er að koma í veg fyrir eða minnka neikvæð áhrif af þeirra völdum með góðu skipulagi, hönnun og úrbótum.“
    Ekki þarf því að draga í efa að hávaði í umhverfi fólks getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar og er sérstaklega mikilvægt að hlífa börnum við hávaða eins og kostur er. Sé einnig minnsti grunur um að hávaði geti haft áhrif á námsfærni barna ber að taka slíkt mjög alvarlega. Vitund um skaðsemi erilshávaða í skólum hefur aukist mikið á undanförnum árum og hafa mörg jákvæð skref verið tekin til að minnka hávaða. Má þar nefna útgáfu handbókarinnar „Hlúum að rödd og hlustun“ sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands gáfu út ásamt fleirum. En betur má ef duga skal. Flutningsmenn telja börn og unglinga eiga skýlausan rétt á því að þeim séu tryggðar eins góðar vinnuaðstæður og völ er á. Ýmislegt bendir til þess að hávaði sé víða yfir æskilegum mörkum og við því þarf að bregðast.
    Önnur hlið á þessum vanda snýr að röddinni og þeim skaða sem hún getur hæglega orðið fyrir við þær aðstæður sem einkenna jafnan hljóðvist í kennsluhúsnæði. Þá hugmynd þarf að taka alvarlega að röddin sé atvinnutæki kennara og að því beri að huga að henni út frá vinnuverndarsjónarmiðum. Í því felast ekki aðeins aðgerðir til þess að draga úr erilshávaða í skólabyggingum heldur þarf einnig að huga að fræðslu um rödd, raddbeitingu og raddvernd bæði í grunnnámi kennaranema og á námskeiðum fyrir starfandi kennara.

Neðanmálsgrein: 1
1     Shield og Dockrell: The effects of environmental and classroom noise on the academic attainments of primary school children (2007). eprints.ioe.ac.uk/926/1/Shield2008The_Effects133.pdf