Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 117  —  117. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (textun myndefnis).

Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir,
Elsa Lára Arnardóttir, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Myndefni sem fjölmiðlaveitur miðla skal ávallt fylgja texti á íslensku sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnisins eins nákvæmlega og kostur er.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þetta frumvarp var fyrst flutt á 143. löggjafarþingi (497. mál). Það var síðan endurflutt á 144. löggjafarþingi (108. mál) af Svandísi Svavarsdóttur og fimm þingmönnum öðrum úr röðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Er mælt hafði verið fyrir málinu gekk það til allsherjar- og menntamálanefndar sem óskaði eftir umsögn frá 21 aðila. Átta aðilar sendu umsögn og skiptast þær nokkuð í tvö horn. Fulltrúar heyrnarskertra og talsmenn mannréttinda töldu mikla og sjálfsagða réttarbót felast í málinu en af hálfu fjölmiðlanefndar og 365-miðla var bent á kostnað við verkefnið og lögð voru til útfærsluatriði sem gætu orðið til þess að gera framkvæmd þess auðveldari og umsvifaminni.
    Þar sem þingmálið varð ekki útrætt á síðasta þingi og ekki hafa orðið neinar breytingar á möguleikum heyrnarlausra og heyrnarskertra einstaklinga til að nýta sér myndefni ljósavakamiðla er það flutt að nýju með eftirfarandi greinargerð óbreyttri:
    „Sú breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, sem þetta lagafrumvarp felur í sér, felst í því að fjölmiðlaveitum sem senda út sjónvarpsefni verður skylt að texta það án tillits til þess hvort efnið er á íslensku eða erlendu máli. Er breytingin gerð í því skyni að gera sjónvarpsáhorfendum, sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir að því marki að þeim gagnast ekki talmál í sjónvarpi, kleift að njóta sjónvarpsefnis á íslensku.
    Samkvæmt 29. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, er fjölmiðlaveitum einungis skylt að texta erlent efni sem þær senda út. Í 30. gr. laganna eru fjölmiðlaveitur hins vegar hvattar til þess að „leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun“ með táknmáli, textun og hljóðlýsingu en engin skylda er lögð á fjölmiðlaveiturnar hvað þetta varðar. Er þetta í samræmi við ákvæði 7. gr. III. kafla í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/13/ESB frá 10. mars 2010 þar sem segir að aðildarríki Evrópusambandsins skuli „hvetja veitendur fjölmiðlaþjónustu, sem heyra undir lögsögu þeirra, til að sjá til þess að þjónusta þeirra verði smátt og smátt gerð aðgengileg sjón- eða heyrnarskertu fólki“. Ekki er kunnugt um slíka hvatningu af hálfu íslenskra stjórnvalda aðra en þá sem er að finna í 2. mgr. 6. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, en fjölmiðlanefnd hefur vissulega gert athugasemdir þegar erlent efni hefur verið sent út án íslensks tals eða texta. 1
    Í athugasemdum við 30. gr. frumvarps til laga um fjölmiðla sem lagt var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011 (þskj. 215, 198. mál), er varð að lögum nr. 38/2011, er vakin athygli á því að ákvæðið skyldi ekki veitendur fjölmiðlaþjónustu til að texta ljósvakaefni eða gera það aðgengilegt fyrir fatlað fólk með öðrum hætti. Engin viðurlög liggja við því að senda út dagskrárefni án þess að gera ráðstafanir til að gera það aðgengilegt fyrir heyrnarskerta eða fólk með annars konar fötlun.
    Í kafla 4.3.1 í athugasemdum við áðurnefnt frumvarp til fjölmiðlalaga er leitast við að skýra uppruna og þýðingu 30. gr. frumvarps sem á rætur í c-lið 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/ESB frá 11. desember 2007. Ákvæðið um að aðildarríki ESB og EES skuli hvetja fjölmiðlaþjónustuveitendur í lögsögu þeirra til að gera útsent efni aðgengilegt sjón- og heyrnarskertum ber, að mati höfundar greinargerðarinnar, að skilja svo að umrædd grein skyldi aðildarríkin til sjálfseftirlits og eigi því aðildarríkin að setja eigin reglur um þau efni sem greinin vísar til að því marki sem heimild er til í réttarkerfi þeirra.
    Ríkisútvarpið (RÚV) ohf. – fjölmiðill í almannaþágu og í almannaeigu – hefur sett sér málstefnu 2 eins og áskilið er íslenskri málstefnu, Íslenska til alls, 3 sem samþykkt var á Alþingi með þingsályktun 12. mars 2009 á 136. löggjafarþingi (þskj. 699, 198. mál). Grein 2.6 fjallar um táknmál og textun og segir þar: „Tekið skal mið af þörfum heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli með því að bjóða upp á táknmálsþýðingar og textun innlends sjónvarpsefnis eftir því sem kostur er.“ Er þetta í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem áskilur að heyrnarskertum skuli veittur aðgangur að „fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma“. RÚV textar alla sjónvarpsþætti á íslensku sem eru unnir fyrir fram og einnig fréttatíma sjónvarps. Sjónvarpsþættir sem sendir eru út beint, svo sem Kastljós og vikulegir umræðuþættir um þjóðmál, eru ekki textaðir. Árið 2012 jókst textun á síðu 888 í textavarpi RÚV úr 303 klukkustundum í 408 klukkustundir, eða um 35%. 4 Aðrir ljósvakamiðlar texta aðeins erlent efni og hefur því heyrnarskert fólk takmarkað gagn af útsendingum þeirra á íslensku. Aðrir ljósvakamiðlar en RÚV hafa ekki sett sér málstefnu og texta ekki útsendingar sjónvarpsefnis á íslensku. Ljóst er því að sú brýning um textun í fjölmiðlalögum hefur einungis borið takmarkaðan árangur.
    Textun sjónvarpsefnis á móðurmáli þeirra sem útsendingin er fyrst og fremst ætlað það meginhlutverk að gera heyrnarlausum og heyrnarskertum einstaklingum á viðkomandi málsvæði kleift að njóta þess efnis sem sent er út. Einnig kemur textun sjónvarpsefnis á íslensku að góðum notum fyrir erlent fólk sem ekki hefur full tök á íslensku talmáli en kýs að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum. Fjölmiðlar gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og því er áríðandi að sem flestir geti notið þess efnis sem þeir flytja.
    Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um það hversu margir Íslendingar eru heyrnarskertir en sé miðað við erlendar rannsóknir má reikna með að a.m.k. 10–15% landsmanna búi við heyrnarskerðingu í einhverjum mæli. Heyrnarskerðingu getur fólk hlotið hvenær sem er á æviskeiðinu en heyrnardeyfa er meðal þess sem gjarnan fylgir háum aldri og er langtum algengari hjá fólki á efri árum en æskufólki. 5 Sífellt fleiri Íslendingar ná háum aldri og hlutfall aldraðra hefur farið hækkandi hérlendis undanfarna áratugi. Hinn 1. desember 2014 voru tæp 9% landsmanna 70 ára eða eldri. Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að árið 2020 verði þetta hlutfall 10,2% og 13,7% árið 2030. Enda þótt ýmis læknisfræðileg og tæknileg úrræði gagnist fólki vel til að vinna bug á heyrnardeyfu á efri árum er við því að búast að fólki sem þarf á texta að halda til að geta notið sjónvarpssendinga á íslensku muni fara fjölgandi á næstu árum og áratugum og er full ástæða til að bregðast við því.“
Neðanmálsgrein: 1
1     Sbr. ákvarðanir fjölmiðlanefndar nr. 1/2012 um erlent myndefni á Stöð 2 Sport 5 og Stöð 2 Sport 6 án íslensks tals eða texta, nr. 3/2012 um erlent hljóðefni á Kananum FM100,5 án íslensks tals eða texta og nr. 3/2013 um erlent myndefni á Omega án íslensks tals eða texta.
Neðanmálsgrein: 2
2     Heimasíða RÚV, málstefna, www.ruv.is/node/366997, sótt 21. mars 2014.
Neðanmálsgrein: 3
3     Íslenska til alls. Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu. Reykjavík, menntamálaráðuneytið 2008, bls. 63–64.
Neðanmálsgrein: 4
4     Ársskýrsla Ríkisútvarpsins ohf. 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Reykjavík 2014, bls. 63.
Neðanmálsgrein: 5
5     Sjá t.d. Agrawal, Yuri et.al.: „Prevalence of Hearing Loss and Differences by Demographic Characteristics Among US Adults. Data from the National Health and Nutrition Examination Syrvey, 1999–2004.“ Archives of Internal Medicine (Arch. Intern Med) 2008 (14), bls. 1522–1530. JAMA Internal Medicine archinte.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=414406#References, sótt 20.03. 2014.
    „Deafness and hearing loss. Fact sheet N°300“ á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO),
     www.who.int/mediacentre/factsheets/fs300/en/, sótt 30.3.2014.
    Kristján Sverrisson: „Eftir því sem þjóðin eldist þá fjölgar heyrnarskertum.“ Heyrnarhjálp, fréttabréf, 1. tbl. 17. árg. 2013, bls. 19–22.