Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 149  —  149. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi (sala endurnýjanlegs eldsneytis, lífræn úrgangsefni, rafmagn).

Flm.: Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Willum Þór Þórsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Frá 1. janúar 2020 skal söluaðili eldsneytis á Íslandi tryggja að minnst 5,0% af orkugildi heildarsölu hans af eldsneyti til notkunar í samgöngum á öllu landinu á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Aðeins eldsneyti sem uppfyllir nánari ákvæði 4. gr. má nota til að uppfylla þetta skilyrði.
     b.      Orðin „eða ólífrænum“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Rafmagn sem fengið er úr endurnýjanlegum orkugjöfum má telja 2,5 sinnum á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis til að uppfylla skilyrði 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 144. löggjafarþingi (677. mál) en kom ekki til umræðu og er því endurflutt óbreytt.
    Lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, tóku gildi 5. apríl 2013. Í 3. gr. laganna er kveðið á um að lágmarksorkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa komi til framkvæmda og verði 3,5% á árinu 2014 og 5,0% frá og með árinu 2015. Markmið laganna var samkvæmt 1. gr. þeirra að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Lögin byggjast m.a. á tilskipun 2009/28/EB, frá 23. apríl 2009, um innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa.
    Á fyrsta framkvæmdaári laganna, 2014, fluttu íslensk olíufélög inn þúsundir tonna af lífolíu til uppfyllingar ákvæðis um 3,5% orkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Lífolíunni var blandað í hefðbundna dísilolíu. Innkaupakostnaður þessarar lífolíu er um 550 bandaríkjadölum hærri á hvert tonn en á hefðbundinni dísilolíu. Eldsneytisreikningur Íslendinga varð því nokkur hundruð milljónum króna hærri en ef notast hefði verið við hefðbundna dísilolíu. Um síðustu áramót hækkaði ákvæði um lágmarksorkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi svo í 5,0%. Að óbreyttu má því gera ráð fyrir að aukin gjaldeyrisútgjöld Íslendinga vegna laganna verði síst minni á yfirstandandi ári en á árinu 2014. Þessi mikli kostnaður er í ósamræmi við 1. gr. laganna um að ná markmiðum þeirra með hagkvæmum og skilvirkum hætti.
    Til að ná markmiðum um 5,0% hlutfall á árinu 2015 er einnig hætt við að hafinn verði innflutningur á jurtaetanóli til íblöndunar í bílabensín. Etanól er dýrara en bensín í innkaupum auk þess sem því fylgir mikill kostnaður við flutning, birgðahald, eldvarnir, íblöndun og dreifingu. Orkuinnihald etanóls er aðeins um tveir þriðju af orkuinnihaldi bensíns. Bandaríska umhverfisverndarstofnunin (EPA) gerir ráð fyrir að eyðsla (l/km) í bílvélum aukist um allt að 4,0% við 10% íblöndun etanóls. Það er því ljóst að þótt innlend framleiðsla gæti uppfyllt allt að 4,0% hvað bensín varðar mundi það ekki draga úr innflutningi bensíns vegna hinnar auknu eyðslu.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæðum er skylda söluaðila til sölu endurnýjanlegs eldsneytis verði frestað til ársins 2020. Áætlaður sparnaður Íslendinga við olíuinnkaup á þessum tíma miðað við núverandi verðlag á innfluttum íblöndunarefnum mun skipta milljörðum króna í erlendum gjaldeyri.
    Í athugasemdum við frumvarp til núgildandi laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi frá 141. löggjafarþingi (þskj. 1028 í 605. máli) segir:
    „Árið 2009 innleiddi Evrópusambandið tvær veigamiklar tilskipanir um endurnýjanlega orkugjafa og vistvænt eldsneyti sem innleiddar verða á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, tilskipanir 2009/28/EB um innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa og 2009/30/EB um gæði eldsneytis.
    Tilskipun 2009/28/EB lýtur að heildarmarkmiði Evrópusambandsins um að 20% af orku almennt verði af endurnýjanlegum uppruna. Þá kveður tilskipunin á um að árið 2020 verði 10% af orku sem notuð er í samgöngum af endurnýjanlegum uppruna.“
    Um 75% af almennri orkunotkun Íslendinga er nú þegar af endurnýjanlegum uppruna sem er langt umfram 20% heildarmarkmið Evrópusambandsins fyrir árið 2020. Sá hluti tilskipunarinnar er varðar samgöngur setur einungis markmið fyrir árið 2020. Ekkert rekur því á eftir Íslendingum í þessum efnum fyrir þann tíma.
    Nú er þess jafnframt að vænta að Evrópusambandið endurskoði tilskipanir sínar um þessi mál. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þannig nýlega lagt til breytingar á tilskipun 2009/28/EB í þá átt að takmarka hlutfall lífeldsneytis sem íblöndunarefnis. Ekki er ólíklegt að um frekari endurskoðun verði að ræða á næstu árum í ljósi reynslunnar. Þá er rétt að Ísland noti tímann til 2020 til að kanna möguleika á undanþágum frá íþyngjandi ákvæðum tilskipananna sem eiga ekki erindi við íslenskan veruleika í ljósi yfirburðastöðu landsins hvað endurnýjanlega orkugjafa varðar. Liechtenstein, sem er EFTA-ríki eins og Ísland, hefur þegar fengið slíka undanþágu.
    Krafa um tiltekið hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis dregur úr samkeppni við eldsneytissölu og hækkar aðgangskostnað inn á markaðinn fyrir nýja söluaðila. Íblöndun í hefðbundið eldsneyti fylgir mikill stofnkostnaður við birgðageyma, blöndunarbúnað og auknar eldvarnir, auk umstangs og kostnaðar við sjálfa blöndunina. Þessi kostnaður lendir á endanum á neytendum en er hlutfallslega mestur fyrir nýja og litla söluaðila og dregur úr svigrúmi þeirra til að veita stórum söluaðilum aðhald.
         Í 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga er kveðið á um að endurnýjanlegt eldsneyti sem unnið er úr lífrænum og ólífrænum úrgangsefnum megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að núgildandi lögum segir að þetta ákvæði sé til samræmis við 2. mgr. 21. gr. tilskipunar 2009/28/EB. Það er hins vegar rangt. Ákvæði tilskipunarinnar kveður skýrt á um að einungis sé heimilt að telja eldsneyti sem unnið er úr lífrænum úrgangsefnum tvöfalt.
    Í c-lið 4. gr. tilskipunar 2009/28/EB er skýrt kveðið á um að rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum, og sem notað er til að knýja samgöngutæki, ber að telja 2,5 sinnum að orkuinnihaldi. Láðst hefur að innleiða þennan þátt í löggjöfina. Miðað við núgildandi lög þyrfti þannig 25% bílaflotans að skipta yfir á rafmagn til að ná 10% hlutfalli endurnýjanlegrar orku. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til, og er í samræmi við tilskipun 2009/28/EB, mun einungis 10% bílaflotans þurfa að vera rafmagnsbílar til að uppfylla markmið tilskipunarinnar.