Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 203  —  197. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
með síðari breytingum (barnalífeyrir).

Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir.


1. gr.

    Við 4. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Hið sama gildir ef fyrir liggur að feðrað barn sé móðurlaust af annarri ástæðu en greinir í 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpi þessu er ætlað að stuðla að jafnrétti barna einstæðra foreldra og tryggja að eins sé staðið að opinberum stuðningi við einstæða foreldra, óháð kynferði.
    Meðlagsgreiðslum er ætlað að jafna stöðu barna einstæðra foreldra við stöðu barna sem njóta beggja foreldra við. Í tilvikum þar sem meðlagsgreiðslum er ekki fyrir að fara, svo sem vegna andláts annars foreldris, grípur almannatryggingakerfið inn í með greiðslu barnalífeyris til þess foreldris sem framfærir barn eða annars aðila sem hefur framfærslu barns með höndum.
    Í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, eru tæmandi talin þau tilvik þar sem greiðsla barnalífeyris getur átt sér stað. Í 1. mgr. 20. gr. kemur fram að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað foreldra er látið eða ef það er örorkulífeyrisþegi. Séu báðir foreldrar látnir, eða örorkulífeyrisþegar, greiðist tvöfaldur barnalífeyrir. Í 4. mgr. kemur fram að barnalífeyrir skuli greiddur þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað. Þessu ákvæði er til að mynda beitt í tilvikum þar sem einstæð kona eignast barn með tæknifrjóvgun.
    Lögin gera ekki ráð fyrir greiðslu barnalífeyris í öðrum tilvikum. Samkvæmt laganna hljóðan á faðir móðurlauss barns ekki rétt á greiðslu barnalífeyris, jafnvel þótt meðlagsgreiðslna njóti ekki við, ef móðurleysið stafar af öðru en andláti. Þetta getur til að mynda átt við ef faðir hefur eignast barn með aðstoð staðgöngumóður annars staðar en á Íslandi og í tilvikum þar sem einhleypum manni hefur verið veitt leyfi til ættleiðingar barns skv. 4. mgr. 2. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að við 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar bætist málsliður sem tryggi að réttur einstæðs föður til barnalífeyris einskorðist ekki við andlát móður heldur nái til jafnframt til annarra mögulegra orsaka þeirra aðstæðna. Þannig verði jafnrétti barna einstæðra foreldra tryggt, óháð ástæðum þess að svo sé fyrir komið, í samræmi við þá hugsjón að baki greiðslu barnalífeyris að tryggja öllum börnum lágmarksframfærslu.