Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 266  —  246. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991 (laun þingmanna).

Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Heiða Kristín Helgadóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „trúnaðarstörfum utan þings“ í 1. mgr. kemur: sem og álagi á þingfararkaup og greiðslum vegna útlagðs kostnaðar vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar, ferðakostnaðar og annarra starfskjara, sbr. lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995.
     b.      Á eftir orðunum „þegar skráningu er lokið“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: eða þegar þær liggja fyrir.
     c.      Á eftir orðunum „nýjar upplýsingar“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: um fjárhagslega hagsmuni sína og trúnaðarstörf utan þings.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að upplýsingar um laun og allar greiðslur til þingmanna verði gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir almenning.
    Capacent Gallup kannar árlega traust almennings til ýmissa stofnana samfélagsins í þjóðarpúlsi Gallup. Er Alþingi þar á meðal en traust almennings til stofnunarinnar mælist iðulega lágt. Í könnun sem Capacent Gallup birti í mars sl. báru 18% svarenda mikið traust til stofnunarinnar sem er lækkun úr 24% árið 2014. Árið 2013 gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun fyrir skrifstofu Alþingis og var henni einkum ætlað að athuga hvaða ástæður væru fyrir vantrausti á Alþingi eins og það hefur mælst í könnunum undanfarin ár. Í könnuninni kom í ljós að afar fáir, eða rúmlega 1%, báru mjög mikið eða fullkomið traust til Alþingis. Meiri hluti svarenda, eða 60%, bar frekar lítið eða mjög lítið traust til Alþingis og um 16% sögðust alls ekkert traust bera til Alþingis.
    Það verður að teljast verulegt áhyggjuefni að kjörnir fulltrúar njóti ekki trausts þjóðarinnar. Eflaust eru margar ástæður fyrir því litla trausti sem þingið nýtur. Ein þeirra gæti verið skortur á gagnsæi en í fyrrgreindri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands kom fram að um 87% svarenda taldi að traust þeirra mundi aukast mikið eða nokkuð mikið ef starfið væri gagnsærra. Við þessum skorti á gagnsæi hefur að einhverju leyti verið brugðist. Sem dæmi má nefna að árið 2011 var tekið upp á því að birta fundargerðir af nefndarfundum á vef þingsins og þar með var mæting þingmanna á slíka fundi gerð opinber. Aftur á móti eru starfskjör alþingismanna enn mjög óljós og hefur Alþingi veitt litlar upplýsingar um starfskostnað, svo sem akstursstyrki og dagpeninga einstakra þingmanna, þegar eftir því hefur verið leitað. Laun og starfskjör þingmanna ættu hins vegar að liggja fyrir opinberlega enda fá þingmenn ekki greiddan annan kostnað en þann sem þeim er heimilt að innheimta.
    Fordæmi eru fyrir því að upplýsa um starfskostnað þingmanna. Í kjölfar hneykslismála í neðri deild breska þingsins vegna starfskostnaðarreikninga þingmanna voru samþykkt lög, The Parliamentary Standards Act 2009, þar sem lagður var grundvöllur að stofnun sjálfstæðrar nefndar, The Independent Parliamentary Standards Authority (IPSA), sem á að hafa umsjón með starfskjörum þingmanna. Skömmu síðar voru samþykkt lög, Constitutional Reform and Governance Act 2010, sem nefndin starfar eftir og segir nánar til um starfskjör þingmanna og birtingu upplýsinga um þau.
    Meginhlutverk IPSA, sem rekur sjálfstæða skrifstofu, er nú að ákveða laun þingmanna, starfskjör og eftirlaun og að fara yfir starfskostnaðarreikninga. Einnig sér skrifstofan um launagreiðslur til þingmanna. Nefndin hefur m.a. vald til að draga af greiðslum til þingmanns ef í ljós kemur að hann hafi fengið of mikið greitt. Jafnframt getur þingmaður þurft að greiða þann kostnað sem hlýst af málinu.
    IPSA leggur áherslu á gagnsæi og virka upplýsingagjöf og heldur úti vef með upplýsingum um starfsemi sína. Þar er t.d. hægt að fylgjast með greiðslum til einstakra þingmanna.
    Með frumvarpi þessu er ekki lagt til að sett verði á laggirnar sérstök stofnun, að fordæmi Breta. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að ákvæðum laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, verði breytt á þann veg að upplýsingar um laun og allar greiðslur til þingmanna verði gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir almenning. Með slíkum breytingum má gera ráð fyrir að gagnsæi starfa alþingismanna aukist og væri það liður í að auka traust almennings til Alþingis. Miðað við fyrrgreindar kannanir er mikil þörf þar á.