Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 281  —  128. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um horfur í mönnun heilbrigðisþjónustunnar.


     1.      Hefur staða og horfur í mönnunarmálum heilbrigðisþjónustu á Íslandi verið metin með heildstæðum hætti? Ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður?
    Árið 2006 vann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti fyrstu mannaflaspá sem birt hefur verið. Árin 2011–2012 var unnin í velferðarráðuneytinu ný spá þar sem byggt er á spánni frá 2006. Þar var framreiknuð þörf fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraþjálfara fram til ársins 2030. Sú spá hefur ekki verið birt en er til í ráðuneytinu sem vinnuskjal. Spáin var fyrsta skrefið í frekari greiningu á mannaflaþörf innan heilbrigðiskerfisins en velferðarráðuneytið vinnur að því að styrkja vinnu við mannaflaspár til framtíðar, m.a. með þátttöku í þriggja ára Evrópuverkefni um mannaflaþörf og mannaflaspár. Þess ber að geta að ýmis fagfélög, svo sem félög hjúkrunarfræðinga og lækna, hafa gert mannaflaspár fyrir sínar stéttir og einnig hefur Land­spítali skoðað þróun mannafla hjá stofnuninni og gert áætlanir um þörf út frá því.
    Helstu niðurstöður mannaflaspár frá 2011–2012 fylgja hér á eftir:
    Löggiltar heilbrigðisstéttir á Íslandi eru alls 33 talsins. Teknar voru fyrir fjölmennustu stéttirnar sem mannaflaspá hefur verið unnin fyrir. Þær eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og sjúkraþjálfarar. Niðurstöður spárinnar voru á þá leið að í heildina yrði mönnun lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða nokkuð stöðug miðað við framreikning eftirspurnar eftir þjónustu þeirra í upphafi tímabilsins. Svo dragi úr fjölgun stéttanna upp úr árunum 2015–2017 vegna hækkandi meðalaldurs og þar með vaxandi fjölda starfsfólks sem fer á eftirlaun. Spá um mönnun sjúkraþjálfara sýndi jafnvægi út spátímann, hvort sem horft var til mats á hámarks- eða lágmarksþörf.
    Miðað við forsendur um lágmarksþörf var áætlaður fjöldi heilbrigðisstarfsfólks (framboð) meiri en áætluð þörf fyrir allar stéttirnar fjórar út spátímabilið.
    Ef spáin er borin saman við þróun síðustu ára fjölgaði hjúkrunarfræðingum hraðar en hámarksspá um eftirspurn gerði ráð fyrir á árunum 2010–2013 og árið 2014 var fjöldi þeirra orðinn 250 meiri en spáð var. Mannfjöldi á Íslandi er tæplega 1% meiri en spáð var fyrir um. Læknum hefur á sama tíma fjölgað hægar en áætlað var. Því má gera ráð fyrir að erfiðleikar við mönnun lækna verði fyrr á ferðinni ef ekki koma til önnur úrræði, svo sem breytt nýting mannaflans og verkaskipting.
    Við gerð spárinnar 2011–2012 var gerð könnun á mönnun stöðugilda lækna m.a. hjá Land­spítalanum (LSH), Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Hún leiddi m.a. í ljós að á LSH hafði reynst erfitt að manna stöður lækna í brjósthols­skurðlækningum, bráðalækningum og krabbameinslækningum. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru stöður sérfræðinga í meinafræði, barnalækningum, krabbameinslækningum, barna- og unglingageðlækningum og bæklunarskurðlækningum ómannaðar. Í spánni kemur jafnframt fram að víða hafi reynst erfitt að manna stöður heilsugæslulækna. Á sama hátt var skortur á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum, eins og skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingum, þó svo að heildarfjöldi þeirra þætti nægur.

     2.      Hvernig er samræmi milli fjölda þeirra sem útskrifast þessi árin úr almennu námi og sérnámi á sviði heilbrigðisstétta og ætlaðrar þarfar fyrir sömu fagstéttir næstu ár og einn til tvo áratugi fram í tímann að teknu tilliti til væntrar lýðfræðilegrar þróunar?
    Á eftirfarandi töflum sést fjöldi útskrifaðra úr almennu námi og fjöldi útgefinna sérfræði­leyfa hjá embætti landlæknis.

Fjöldi útskrifaðra heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi á ári.

2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 Meðaltal 2005–2015
Læknakandidatar 44 40 36 49 37 44 44 49 40 53 42 43
Hjúkrunarfræðingar 83 108 103 105 104 126 105 92 125 140 120 110
Sjúkraliðar 115 155 117 221 101 119 - - - - - -
Sjúkraþjálfarar 19 19 13 11 21 18 14 17 22 26 19 18

    Ekki liggja fyrir tölur um fjölda útskrifaðra sjúkraliða síðustu ár en sjá má fjölda útgefinna starfsleyfa í eftirfarandi töflu. Ekki liggja heldur fyrir tölur um fjölda útskrifaðra úr læknis­fræði frá erlendum háskólum en í eftirfarandi töflu má sjá heildarfjölda útgefinna starfsleyfa.

Almenn starfsleyfi gefin út af embætti landlæknis.

2009 2010 2011 2012 2013 2014
Læknar 94 64 57 61 61 45
Hjúkrunarfræðingar 115 138 121 95 126 144
Sjúkraliðar 118 98 115 129 97 126
Sjúkraþjálfarar 29 31 19 17 21 29

Útgefin sérfræðileyfi.

2009 2010 2011 2012 2013 2014
Læknar 53 39 24 46 33 31
Hjúkrunarfræðingar 2 5 8 9 9 10
Sjúkraþjálfarar 3 1 7 4 2 3

    Ekki eru til heildstæðar upplýsingar um hve margt heilbrigðisstarfsfólk fer í sérnám, hvaða nám það fer í eða í hvaða landi. Spár fyrir fjölda mismunandi sérfræðinga hverrar starfs­greinar hafa ekki verið gerðar en vali í sérnám er ekki stýrt af heilbrigðisyfirvöldum. Embætti landlæknis heldur skrá yfir þá sem fá sérfræðingsleyfi hér á landi sem gefur vísbendingu um fjölda þeirra. Vitað er að langflestir læknar fara í sérfræðinám eða um það bil 80–90% svo það hlutfall er hátt.
    Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefur tölur fyrir fjölda útskrifaðra úr framhaldsnámi þar. Síðustu fjögur ár hafa um það bil 10–20% af árgangi útskrifaðra frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands verið með framhaldsnám í hjúkrun, 10–15% með ljósmæðranám og 1–5% með framhaldsmenntun í öðru.
     3.      Hver er meðalaldur helstu fagstétta innan heilbrigðisþjónustunnar núna, hver hefur þró­unin verið og hvaða áhrif hefur aldur fagstétta á mönnun með hliðsjón af vaktavinnu og öðru hliðstæðu?
    Á landsvísu er meðalaldur fagstéttanna sem voru í spánni eins og fram kemur í töflunni.

Meðalaldur heilbrigðisstétta.

2014

Læknar
50,4
Hjúkrunarfræðingar 47
Sjúkraliðar 49,5
Sjúkraþjálfarar 42

    Almennt er þróunin sú að meðalaldur heilbrigðisstéttanna fjögurra fer hækkandi þótt meðalaldur sjúkraþjálfara hækki hægar en hinna stéttanna í byrjun þar sem fyrstu stóru árgangar sjúkraþjálfara komast ekki á eftirlaunaaldur fyrr en eftir 10–15 ár. Hvað lækna varðar er þetta sérstaklega greinilegt í vissum sérgreinum þar sem lítil nýliðun hefur verið. Sama má segja um vissar sérgreinar hjúkrunarfræðinga.
    Áhrif hækkandi aldurs mun geta haft áhrif á mönnun og það mun samkvæmt spánni 2011–2012 koma fram í nánustu framtíð. Ákvæði í kjarasamningum lækna um undanþágu frá vöktum eftir 55 ára aldur hafa þegar skapað vandkvæði varðandi mönnun vakta hjá stofnunum á landsbyggðinni. Hjá hjúkrunarfræðingum hefur sambærilegt ákvæði verið fellt út úr kjarasamningi og sama er að segja um ljósmæður. Hjá sjúkraliðum gildir aldursákvæði í kjarasamningum og getur það valdið vandkvæðum. Vaktavinna sjúkraþjálfara er lítil og hefur ekki afgerandi áhrif á stéttina.
    Á Landspítala hefur þó gengið nokkuð vel að manna vaktir utan dagvinnutíma þrátt fyrir hækkandi aldur margra heilbrigðisstétta. Ungt fólk virðist síður vilja vinna vaktavinnu en þeir sem eldri eru. Verið er að skoða hvað veldur og er sú vinna á byrjunarstig hjá LSH.

     4.      Hvernig er staða og horfur í mönnunarmálum heilbrigðisþjónustunnar í einstökum landshlutum, sbr. 1.–3. lið fyrirspurnarinnar?
    Könnuð var staða og horfur í mönnunarmálum hjá heilbrigðisstofnunum um land allt í september 2015. Meðfylgjandi eru upplýsingar frá stofnununum.

Höfuðborgarsvæðið.
    Landspítali hefur kortlagt mannafla í klínískri þjónustu með tilliti til fjölda stöðugilda í starfsstétt, aldursdreifingar og mats á fjölda þeirra sem fara á eftirlaun á komandi árum.

Fjöldi dagvinnustöðugilda og meðalaldur á LSH 2015.

Heiti stéttarfélags Dagvinnu­stöðugildi Fjöldi Meðalaldur Miðgildi aldurs
Félag geislafræðinga 63 78 45 45
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 1.067 1445 47 46
Félag íslenskra náttúrufræðinga 59 72 46 46
Félag lífeindafræðinga 135 163 48 57
Félagsráðgjafafélag Íslands 44 48 47 48
Iðjuþjálfafélag Íslands 34 37 42 36
Ljósmæðrafélag Íslands 91 135 48 47
Lyfjafræðingafélag Íslands 20 22 45 48
Læknafélag Íslands 444 627 47 46
Sálfræðingafélag Íslands 50 62 44 43
Sjúkraliðafélag Íslands 412 578 45 53
Skurðlæknafélag Íslands 50 72 53 54
Stéttarfélag sjúkraþjálfara 48 59 44 41
Þroskaþjálfafélag Íslands 6 10 46 45

    Hins vegar hefur Landspítalinn ekki sett viðmiðunarmörk fyrir lágmarksmönnun einstakra stétta og því erfitt að setja fjöldatölur fyrir ómönnuð stöðugildi. Safnað hefur verið gögnum er varða fjölda nema í nokkrum fjölmennustu heilbrigðisstarfsstéttunum á sjúkrahúsinu í samanburði við fjölda starfsmanna í sömu greinum á LSH.

Nemendur í nokkrum heilbrigðisgreinum á Íslandi 2015 Stg. fagstétta á LSH Hlutfall
Sjúkraliðar 277 432 64%
Hjúkrunarfræðingar 529 1.076 49%
Ljósmæður 20 94 21%
Læknar 288 537 54%
Geislafræðingar 35 66 53%
Lífeindafræðingar 76 135 56%
Heildarfjöldi nemenda 1.225 2.341

     Á Landspítala hefur einnig farið fram vinna við að kortleggja mannafla í klínískri þjónustu með tilliti til fjölda stöðugilda í starfsstétt, aldursdreifingu og mat á fjölda þeirra sem fara á eftirlaun á komandi árum. Helstu niðurstöður þess mats sem þegar hefur verið unnið eru þessar:
          Lífeindafræðingum fækkar á landsvísu og á LSH, meðalaldur er hár og ónóg nýliðun.
          Sjúkraliðum fjölgar á landsvísu, en þeir skila sér ekki til LSH.
          Skurðstofuhjúkrunarfræðingum fer fækkandi, mest vegna aldurs og lítillar endurnýjunar.
          Svæfingahjúkrunarfræðingum fer fækkandi, mest vegna aldurs og lítillar endurnýjunar.
    Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) eru niðurstöður þær að:
          Sérfræðingar í heilsugæslu geta aðeins mannað um 80% af stöðugildum sérfræðinga og þar sem á vantar eru stöður setnar af öðrum læknum, t.d. sérnámslæknum eða almennum læknum.
          Stöður hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sjúkraliða, sjúkraþjálfara og sálfræðinga eru alla jafna mannaðar og fram til þessa hefur ekki verið vandamál að manna lausar stöður innan þessara faghópa.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Fjögur stöðugildi lækna eru ómönnuð af 20, tvö stöðugildi hjúkrunarfræðinga af 47 og 0,2 stöðugildi sjúkraþjálfara af 1,75 stöðugildum eru ómönnuð. Öll 46 stöðugildi sjúkraliða hjá stofnuninni eru mönnuð og sama er að segja um sálfræðinga í tæpum fimm stöðugildum.
    Starfsmenn nýta sér almennt ekki ákvæði kjarasamninga um aldur til að hætta að taka vaktir. Mikil samkeppni er um lækna, bæði í heilsugæslu og á legudeild. Sérstaklega er erfitt að ráða sérfræðinga (lyflækna) til starfa á legudeildina.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Á Suðurlandi er mönnun frekar góð nema hjá læknum. Tæplega sjö stöðugildi lækna af 26 eru ómönnuð, annars eru engin stöðugildi ómönnuð. Sálfræðingur kemur frá Reykjavík einu sinni í mánuði.

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Á Austurlandi er ekki fastráðið í fjögur stöðugildi lækna af 16. Breytilegt er hve margir eru við verktöku, núna eru mönnuð rúmlega tvö af þeim fjórum stöðugildum sem um ræðir. Eitt af 40 stöðugildum hjúkrunarfræðinga er ómannað, eitt stöðugildi sjúkraliða af 55 og tvö af níu stöðugildum sjúkraþjálfara. Læknaskortur er viðvarandi. Önnur mönnun gengur betur en eins og aðrar heilbrigðisstofnanir í dreifbýli er Heilbrigðisstofnun Austurlands í sam­keppni við þéttbýlið um fagfólk.

Norðurland.
    Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) eru einu ósetnu stöðugildin tvö og hálft stöðugildi lækna. Engar aðrar stöður eru ómannaðar hjá stofnuninni. Mönnun í hjúkrunarfræði er góð eftir tilkomu náms í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Hið sama gildir um sjúkraliða. Langvarandi mönnunarvandi hefur verið hjá sérfræðilæknum við stofnunina, nokkuð misjafnt eftir sérgreinum og tímabilum.
    Við Heilbrigðisstofnun Norðurlands eru 47 læknastöður á svæðinu sem er víðfeðmt. Ekki hefur tekist að fastráða í 10 af stöðunum en það er leyst að mestu með verktöku og öðrum afleysingum. Mönnun annarra stétta er yfirleitt góð, aðeins ein staða hjúkrunarfræðings er ómönnuð. Mönnun sjúkraliða, sjúkraþjálfara og sálfræðinga er almennt góð og engin stöðu­gildi ómönnuð. Vaktavinna hefur ekki mikil áhrif á mönnun, aðeins tveir læknar kjósa að taka engar vaktir. Hjúkrunarfræðingar sækja hins vegar í dagvinnu með hækkandi aldri en á hinar þrjár stéttirnar hefur þetta lítil sem engin áhrif.

Vestfirðir.
    Í fjórum af níu stöðum lækna við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) eru fastráðnir læknar. Auk þess er tveimur sinnt í verktöku og með sérnámslækni. Þrjár stöður eru ósetnar. Tvö stöðugildi hjúkrunarfræðinga af fimm eru ómönnuð. Ófaglærðir eru í flestum stöðum sjúkraliða sem ekki eru mannaðar á Vestfjörðum eins og er. Ein af fimm stöðum sjúkra­þjálfara er ósetin á sunnanverðum Vestfjörðum. Sálfræðingar koma frá LSH tvisvar í mánuði, tvo til þrjá daga í senn.
    Hætta er á að skortur á sjúkraliðum verði viðvarandi og erfitt að spá til lengri tíma. Með hækkandi aldri fækkar þeim sem taka næturvaktir og vaktabyrðin eykst á hinum.

Vesturland.
    Á Vesturlandi eru 18 stöðugildi heilsugæslulækna. Nú eru starfandi 10 fastráðnir heilsu­gæslulæknar og þar við bætast tveir verktakar sem saman sinna fjórum stöðum heilsugæslu­lækna samkvæmt samningi til allt að tveggja ára. Stöður fjögurra heilsugæslulækna eru ósetnar. Varðandi ráðningar sérfræðilækna eru aðstæður ásættanlegar en þó er skortur á nokkrum lykilsviðum.
    Stöðugildi flestra hjúkrunarfræðinga eru setin. Mönnun sjúkraliða er ásættanleg, meðal­aldur er allhár og nýliðun hæg. Sjö fastráðnir sjúkraþjálfarar eru í starfi og mat stofnunar er að tvö stöðugildi sjúkraþjálfara vanti. Ekki hefur reynt á fatsráðningu sálfræðinga þau fimm ár sem stofnunin hefur verið starfandi.

    Í þessu yfirliti frá stofnununum kemur skýrt fram að utan höfuðborgarsvæðisins er mönn­un í stöður lækna stærsta vandamálið og hefur verið um árabil. Með fjölgun námsstaða í heimilislækningum er von um að aðsókn í störf heilsugæslulækna aukist. Á höfuðborgar­svæðinu er skortur í ákveðnum sérgreinum. Horfur í mönnun hjúkrunarfræðinga á lands­byggðinni eru almennt góðar en þó er svæðismunur á því. Nýliðun í sjúkraliðastéttinni er nú meiri en fyrir nokkrum árum.

     5.      Hvaða aðgerðir eða tillögur til úrbóta eru á borðum stjórnvalda til að treysta forsendur mönnunar heilbrigðiskerfisins til framtíðar litið?
    Ráðuneytið fylgist með og framreiknar þörf fyrir mannafla í heilbrigðisþjónustu. Reglu­lega eru haldnir fundir með forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana þar sem farið er yfir starfsemi og rekstur ársins og áætlun til næstu missira. Umtalsvert átak hefur verið gert í að styrkja starfsemi og mönnun heilsugæslunnar í landinu. Þar má nefna eftirfarandi atriði:

Efling heimahjúkrunar.
    Framlög til heimahjúkrunar hækka um 200 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016. Helmingur fjárins fer til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 50 millj. kr. til heilbrigðisstofnunar Norðurlands og 10 millj. kr. til hverar heilbrigðisstofnunar á Vestur­landi, Vestfjörðum, Austurlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum. Þetta fjármagn fer til þess að fjölga stöðugildum í heimahjúkrun.

Fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni.
    Framlög til heilsugæslunnar hækka um tæpar 69 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 til að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni. Markmiðið er að bæta þjónustu heilsugæslunnar með því að fjölga heilbrigðisstéttum i grunnþjónustunni. Unnið er að breskri fyrirmynd um hvernig auka megi aðgengi að sálfræðingum en þar er gert ráð fyrir að einn sálfræðing þurfi á hverja 9.000 íbúa. Þetta þýðir að 36,6 sálfræðinga þyrfti til starfa á landinu öllu. Til að uppfylla það vantar 21,7 stöðugildi. Á árinu 2015 voru 15 stöður sálfræðinga mannaða, í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir fjölgun um átta stöðugildi og er stefnt að því að fjölga stöðum sálfræðinga um 14 alls á næstu tveimur árum svo að unnt verði að bjóða upp á sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Efling á námi í heimilislækningum og í heilsugæsluhjúkrun.
    Á þessu ári hófst samvinna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskólans á Akureyri um að bjóða upp á nýja námsbraut fyrir hjúkrunarfræðinga sem vilja sérhæfa sig í heilsu­gæsluhjúkrun. Verkefnið er liður í áætlun um betri heilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er lögð á að efla heilsugæsluna í landinu. Lagt var upp með sex stöður í heilsugæsluhjúkrun á þessu ári hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis og er í frumvarpi til fjárlaga næsta árs gert ráð fyrir að unnt verði að fjölga námsstöðunum um alls fjórar, hjá heilbrigðisstofnununum á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Jafnframt var námsstöðum í heimilslækningum fjölgað um þrjár á árinu 2015 og enn frekari fjölgun um fjórar stöður er áformuð í frumvarpi til fjárlaga árið 2016. Stefnt að því að námsstöður í heimilislækningum verði þá í öllum heilbrigðisumdæmum.
    Námsstöðum í heimilislækningum hefur þá fjölgað um sjö frá árinu 2014 þegar þær voru 13 og upp í 20 árið 2016.

Önnur aukning fjárveitinga til heilsugæslunnar.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 eru framlög til heilsugæslunnar hækkuð um tæpar 160 millj. kr. sem gerir mögulegt að styrkja mönnun þar enn frekar.

Viðbótaraðgerðir til að treysta forsendur mönnunar heilbrigðiskerfisins.
    Nýafstaðnir kjarasamningar lækna hafa nú þegar haft áhrif þannig að auðveldara hefur verið að manna sérfræðistöður með læknum sem hafa verið búsettir erlendis. Þetta á einkum við um svæfingarlækna og fæðingar- og kvensjúkdómalækna samkvæmt upplýsingum frá Landspítala.
    Haustið 2015 var hleypt af stað verkefni um eflingu framhaldsmenntunar í almennum lyflækningum með samstarfi Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri við Royal College of Physicians í London og hefur ráðuneytið stutt það fjárhagslega.
    Bygging nýs Landspítala er mikilvægur liður í að bæta starfsumhverfi og starfsaðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og búa því betri vinnuskilyrði samhliða bættri þjónustu við sjúklinga.
    Margar stofnanir vinna skipulega við að fá fólk til starfa og hafa m.a. markvisst auglýst eftir starfsfólki í erlendum jafnt sem innlendum fagblöðum og mæta á kynningarfundi hjá fagfélögum og víðar til að hvetja fólk til að sækja um störf. Þær hafa einnig tekið þátt í erlendu samstarfsverkefni sem miðar að því að kortleggja leiðir til að laða að og halda í fólk í heilbrigðsþjónustu í dreifðari byggðum.