Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 286  —  260. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Heiða Kristín Helgadóttir.


1. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðgang að fyrirtækjaskrá, veitingu upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum skrárinnar. Engin gjaldtaka skal þó vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skulu allar upplýsingar sem ekki falla undir ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga birtast í rafrænni uppflettingu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þau gögn úr fyrirtækjaskrá sem eru aðgengileg almenningi eru mjög takmörkuð og gefa til dæmis engar upplýsingar um hver ber ábyrgð á því fyrirtæki sem leitað er að. Upplýsingar um stjórn og ársreikninga þarf, til dæmis, að greiða fyrir og eru þannig ekki aðgengilegar almenningi.