Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 386  —  216. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um fyrningu kynferðisbrota.


     1.      Telur ráðherra eðlilegt að munur sé á reglum um fyrningu brota sem varða við 210. gr. a og 210. gr. b almennra hegningarlaga?
    Ákvæðum 210. gr. a og 210. gr. b var bætt við almenn hegningarlög árið 2012 (lög nr. 58/2012) í tilefni af fyrirhugaðri fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun, sem samþykktur var árið 2007 og undirritaður af Íslands hálfu hinn 4. febrúar 2008. Samkvæmt 33. gr. samningsins ber samningsaðilum að tryggja að fyrningarfrestur til málshöfðunar vegna tiltekinna verknaða framlengist um þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að unnt sé að hefja málsmeðferð með árangursríkum hætti eftir að brotaþoli hefur náð lögaldri og að þessi frestur samsvari alvarleika þess brots sem um ræðir. Nánar tiltekið er um að ræða verknaði sem varða kynferðislega misnotkun, vændi barna og þátttöku barns í klámsýningum (nú 210. gr. b almennra hegningarlaga). Samningurinn gerir ekki kröfu um framlengdan fyrningarfrest vegna verknaða er varða barnaklám (nú 210. gr. a almennra hegningarlaga) eða önnur ákvæði samningsins. Í skýringum við ákvæði 33. gr. samningsins kemur fram að það helgist af meðalhófssjónarmiðum sem taka verði tillit til við rekstur sakamála.
    Fyrrgreindar breytingar voru nauðsynlegar svo fullgilda mætti framangreindan samning Evrópuráðsins, en ekki var gengið lengra í breytingum á fyrningarreglum laganna en ákvæði samningsins gera kröfu um. Var því ekki tekið til skoðunar hvort gera ætti breytingar á fyrningarreglum 210. gr. a um barnaklám. Af því leiðir að um brot gegn gildandi 210. gr. a almennra hegningarlaga gilda almennar reglur laganna um fyrningu þannig að fyrningarfrestur telst frá því refsiverðri athöfn lauk.

     2.      Hvaða rök eru fyrir því að fyrningarreglur eru mismunandi um kynferðisbrot gegn börnum?
    Í 81. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um á hve löngum tíma sök fyrnist. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist sök á 2, 5, 10 eða 15 árum og fer lengd fyrningarfrestsins eftir því hve þung hámarksrefsing liggur við broti. Í 82. gr. er mælt fyrir um upphaf fyrningarfrests og er meginreglan sú að fyrningarfrestur telst frá þeim degi þegar refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Með breytingum sem gerðar voru á almennum hegningarlögum með lögum nr. 61/2007 var framangreindum ákvæðum laganna breytt að því er varðar kynferðisbrot gegn börnum. Þannig er nú kveðið á um í 81. gr. að sök fyrnist ekki vegna tiltekinna brota og í 82. gr. að fyrningarfrestur vegna tiltekinna brota hefjist ekki fyrr en á þeim degi þegar brotaþoli nær 18 ára aldri. Þau rök búa því að baki að láta ekki öll kynferðisbrot gegn börnum lúta sama fyrningarfresti að brotin eru misalvarleg frá sjónarhóli refsiréttar. Því hafa einungis alvarlegustu kynferðisbrot verið gerð ófyrnanleg en fyrningarfrestur vegna annarra kynferðisbrota gegn börnum látinn hefjast við 18 ára aldur brotaþola. Með því hefur verið reynt að koma til móts við þá sérstöðu sem gildir um brot gegn börnum enda getur þannig háttað til að fyrningarfresturinn sé liðinn þegar barn hefur náð þeim þroska sem nauðsynlegur er til þess að það geri sér grein fyrir eðli háttseminnar. Einnig hefur verið tekið mið af því að börn hafa, í sumum tilvikum, takmarkaða möguleika á því að kæra brot sem að þeim beinast. Eins og sjá má af meðfylgjandi yfirliti er meginreglan sú að kynferðisbrot gagnvart börnum eru ófyrnanleg eða fyrningarfrestur hefst ekki fyrir en brotaþoli nær 18 ára aldri.

     Brot sem ekki fyrnast ef brot er framið gagnvart barni yngra en 18 ára:
     1.      Nauðgun (194. gr.).
     2.      Samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja (1. mgr. 200. gr.).
     3.      Samræði eða önnur kynferðismök við kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn o.fl. (1. mgr. 201. gr.).
     4.      Samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára (1. mgr. 202. gr.).
    
     Fyrningarfrestur telst frá þeim degi er brotaþoli nær 18 ára aldri:
     1.      Samræði eða önnur kynferðismök umsjónarmanns eða starfsmanns á tilteknum stofnunum við vistmann (197. gr.).
     2.      Samræði eða önnur kynferðismök sem náð er fram með misneytingu (198. gr.).
     3.      Kynferðisleg áreitni (199. gr.).
     4.      Önnur kynferðisleg áreitni gagnvart barni sínu eða öðrum niðja (2. mgr. 200. gr.).
     5.      Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina (3. mgr. 200. gr.).
     6.      Önnur kynferðisleg áreitni gagnvart kjörbarni, stjúpbarni, fósturbarni, sambúðarbarni o.fl. (2. mgr. 201. gr.).
     7.      Önnur kynferðisleg áreitni gagnvart barni yngra en 15 ára (2. mgr. 202. gr.).
     8.      Tæling (3. mgr. 202. gr.).
     9.      Að nýta sér netið eða aðra fjarskiptatækni til að mæla sér mót við barn yngra en 15 ára í því skyni að hafa við barnið samræði eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega (4. mgr. 202. gr.).
     10.      Að hafa atvinnu eða viðurværi af vændi annarra (3. mgr. 206. gr.).
     11.      Að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis (6. mgr. 206. gr.).
     12.      Nektarsýningar barna (1. mgr. 210. gr. b).
     13.      Limlesting á kynfærum kvenna (218. gr. a).
     14.      Mansal (1. mgr. 227. gr. a).