Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 412  —  233. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Heiðu Kristínu Helgadóttur
um kvíða og þunglyndi meðal unglinga.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja því eftir að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi meðal unglinga eins og hann hefur lýst yfir að gert skuli?
    Ein af þeim tillögum sem settar eru fram í drögum að tillögu um þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára er að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá börnum í grunnskóla. Hvort af þessu verður á næstunni veltur á því að tillagan fái brautargengi Alþingis. Eitt lykilatriðið til að af framkvæmd geti orðið er að Alþingi tryggi fjármögnun verkefnisins.
    Í þeim drögum sem fyrir liggja er áætlað að ábyrgð verkefnisins verði á hendi sveitarfélaga. Þróaðar hafa verið gagnreyndar aðferðir við að skima fyrir kvíða og þunglyndi meðal unglinga og veita þeim aðstoð við að draga úr þessum þáttum. Leiði skimunin í ljós að börn glími við kvíða eða séu í aukinni áhættu að þróa með sér þunglyndi yrði þeim boðin þátttaka í námskeiðum sem miða að því að styrkja þau í að takast á við vandann. Á sama hátt er um gagnreyndar aðferðir að ræða.
    Leiði skimun í ljós alvarlegri vanda þarf að grípa til annarra úrræða. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að styrkja sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar. Jafnframt er lagt til í fyrrnefndum drögum að þingsályktunartillögu að sálfræðiþjónusta innan heilsugæslunnar verði efld verulega á næstu árum. Þá miðar ein tillagan að því að styrkja þjónustu barna og unglingageðdeildar Landspítala. Gangi þessar tillögur eftir verður bæði sálfræðiþjónusta og þjónusta BUGL mun aðgengilegri en nú er og þessi þjónustuúrræði munu þá veita einstaklingsmeðferð þegar þess gerist þörf.

     2.      Eru áform uppi um að efla sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum landsins?
    Samkvæmt lögum um framhaldsskóla ræður skólameistari kennara og aðra starfsmenn skóla. Dæmi mun um að sálfræðingur starfi í framhaldsskóla og er hans þjónusta þá hluti af stoðþjónustu skóla sem er á hendi menntamálayfirvalda en ekki á sviði heilbrigðisráðherra, eins og má m.a. sjá af svari hæstvirts menntamálaráðherra um þetta efni við fyrirspurn á Alþingi 13. október sl.
    Eins og fram kemur í svari við fyrri lið þessarar fyrirspurnar er lagt til í drögum að þingsályktunartillögu um geðheilbrigðisstefnu að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu um land allt á næstu árum. Gangi það eftir yrði aðgengi unglinga í framhaldsskólum jafnt og annarra að sálfræðiþjónustu mun betra en nú er.