Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 506  —  373. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld
(ýmsar breytingar).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna bætist: þó ekki þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota.

2. gr.

    Í stað „0,5%“ í 1. málsl. 2. tölul. 31. gr. laganna kemur: 0,75%.

3. gr.

    Við 1. málsl. 7. mgr. 51. gr. laganna bætist: nema fyrir hendi sé heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings.

4. gr.

    Við 52. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Sé hlutafélagi skipt þannig að öllum eignum og skuldum sé skipt á milli hins skipta félags og/eða þeirra félaga sem við tóku eða urðu til við skiptin, sem heimilisföst eru í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og hluthafar í félaginu sem skipt var fái eingöngu hlutabréf í þeim félögum sem eignir og skuldir deildust á við skiptin, skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Eignarhlutir hluthafa í félögunum skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í því félagi sem skipt er. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga einnig við þegar hlutafélagi er skipt þannig að fleiri en eitt hlutafélag taka við hluta eigna og skulda í upprunalegu félagi. Sé um hlutafélög að ræða sem eru eða yrðu heimilisföst í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.
    Ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, skulu gilda með sama hætti um skiptingu yfir landamæri, m.a. um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu, innlent félag og upplýsingaskyldu, eftir því sem við á, þó þannig að öll þau félög sem taka þátt í skiptingu skulu bera óskipt ábyrgð á þeim sköttum sem lagðir eru á við skiptin. Hafi skiptin í för með sér slit hins upphaflega skipta félags hvílir óskipt ábyrgð á þeim félögum sem við taka.

5. gr.

    Á eftir 53. gr. laganna kemur ný grein, 53. gr. a, svohljóðandi:
    Sé verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði slitið, sbr. lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, þannig að hann sé algjörlega sameinaður öðrum slíkum verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði, skal sameiningin ekki leiða til skattskyldu hjá eigendum þess sjóðs sem slitið er, enda sé um jafngild verðmæti að ræða.
    Ef verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, er breytt í hlutafélag skal sú breyting hvorki hafa í för með sér skattskyldar tekjur hjá eigendum verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðsins né félaginu sjálfu enda hafi eigendur sjóðsins eingöngu fengið hlutabréf í félaginu sem gagngjald fyrir eignarhluti sína í þeim sjóði sem slitið var.

6. gr.

    Á eftir „51.–53. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. laganna kemur: og 53. gr. a.

7. gr.

    Við 56. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði b- og d-liðar 1. mgr. gilda eftir atvikum almenn ákvæði 1. og 2. mgr. við þær aðstæður þegar einstaklingur í atvinnurekstri stofnar við yfirfærslu einstaklingsrekstrar einkahlutafélag sem er heimilisfast í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti. Stofni einstaklingur í atvinnurekstri einkahlutafélag í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a. Tilkynna skal yfirfærsluna til hlutafélagaskrár þess ríkis þar sem einkahlutafélagið er heimilisfast.
    Ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, skulu gilda með sama hætti um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri, m.a. um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu og upplýsingaskyldu, eftir því sem við á, þó þannig að óskipt ábyrgð á þeim sköttum sem eru lagðir á við yfirfærsluna hvílir á einstaklingnum og viðtökufélaginu.

8. gr.

    Á eftir 56. gr. laganna kemur ný grein, 56. gr. a, svohljóðandi:
    Flytji hlutafélag lögheimili sitt eða eignir til annars aðildarríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða til Færeyja skal flutningurinn sem slíkur ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir félagið eða eigendur þess, sbr. þó 2. mgr., enda sé slíkt heimilt samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Sé lögheimili hlutafélags eða eignir þess fluttar til lágskattaríkis á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.
    Ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, skulu gilda með sama hætti um flutning lögheimilis eða eigna yfir landamæri, m.a. um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu og upplýsingaskyldu, eftir því sem við á, þó þannig að við flutning eigna hvílir ábyrgð á þeim sköttum sem yrðu lagðir á við yfirfærsluna á því félagi sem lét eignir af hendi og er heimilisfast hér á landi.

9. gr.

    Í stað „þ.m.t.“ í 2. málsl. a-liðar 3. tölul. 70. gr. laganna kemur: þó ekki gisting og.

10. gr.

    2. mgr. 1. tölul. 73. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Við 1. mgr. 90. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera með rafrænum hætti og að málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við á.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 6. mgr. kemur: og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála.
     b.      Í stað orðsins „vexti“ í 6. mgr. kemur: tekjur.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd upplýsingaöflunar sem ráðist er í til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála, m.a. um áreiðanleikakannanir.

13. gr.

    Í stað tölunnar „30“ í 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna kemur: 60.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
     a.      Í stað „2.000 kr.“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: 5.000 kr.
     b.      Í stað orðanna „að gjaldanda var tilkynnt“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra.
     c.      Í stað „1. ágúst“ í 9. mgr. kemur: 1. júlí.

II. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.

15. gr.

    11. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Persónuafsláttur á staðgreiðsluári.


    
Ríkisskattstjóri skal fyrir upphaf hvers staðgreiðsluárs auglýsa skatthlutfall og fjárhæð persónuafsláttar, svo og ef breytingar verða á staðgreiðsluári, og jafnframt hafa aðgengilegar upplýsingar um persónuafslátt og skiptingu hans sem nauðsynlegar teljast til að ákvarða staðgreiðslu á hverju launatímabili. Persónuafsláttur manna sem öðlast heimilisfesti hér á landi á staðgreiðsluárinu, svo og þeirra manna sem eru skattskyldir skv. 1. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt, skal ákvarðast hlutfallslega miðað við dvalartíma á landinu og miðast við tilkynningu um aðsetursskipti eða aðrar fullnægjandi upplýsingar að mati ríkisskattstjóra.
    Þeir menn og aðilar sem eru skattskyldir hér á landi skv. 2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt, sbr. ákvæði 2. og 3. tölul. 70. gr. þeirra laga, sbr. og 6. tölul. 4. gr. og 6. tölul. 5. gr., geta farið fram á að fá útgefna staðfestingu ríkisskattstjóra þar sem fram kemur skatthlutfall og eftir atvikum persónuafsláttur eftir því sem upplýst er í umsókn þeirra til ríkisskattstjóra. Umsóknin skal lögð fram fyrir lok þess árs sem næst fer á undan staðgreiðsluári eða eigi síðar en mánuði áður en fyrsta greiðsla eða afhending verðmætis á sér stað á staðgreiðsluári.
    Ef launamaður, sem er móttakandi greiðslna frá eða á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, óskar ekki sérstaklega eftir öðru er ríkisskattstjóra heimilt að veita Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar hans.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um skiptingu persónuafsláttar sem draga skal frá staðgreiðslu á hverju greiðslutímabili og önnur þau atriði sem varða ráðstöfun persónuafsláttar.

16. gr.

    12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Ráðstöfun persónuafsláttar.


    
Fyrir upphaf staðgreiðsluárs ber launamanni að gera launagreiðanda sínum grein fyrir nýtingu persónuafsláttar síns og heimila honum ráðstöfun persónuafsláttar á hverju launatímabili við ákvörðun afdráttar staðgreiðslu af launum. Launagreiðandi og launamaður bera sameiginlega ábyrgð á ráðstöfun persónuafsláttar launamannsins þar til launagreiðslum lýkur. Nú hefur launamaður starf með höndum hjá eða á vegum fleiri en eins launagreiðanda og ber launamanni þá að gera launagreiðendum sínum grein fyrir hlutfallslegri nýtingu persónuafsláttar hjá hverjum þeirra eftir því sem við á.
    Hafi launamaður, eða eftir atvikum maki hans, ekki fullnýtt persónuafslátt sinn innan staðgreiðsluársins, svo sem vegna náms, er launagreiðanda heimilt að taka tillit til þess persónuafsláttar sem ónýttur hefur verið á því ári.
    Nýti launamaður sem er annað hjóna eða aðili í sambúð, sbr. 1. mgr. 13. gr., að jafnaði ekki persónuafslátt sinn að fullu hefur hann rétt til þess að heimila maka sínum að nýta þann persónuafslátt sem ónýttur er og bera aðilar sameiginlega ábyrgð á að nýtingin sé með réttum hætti.
    Heimilt er ríkisskattstjóra við samnýtingu persónuafsláttar að upplýsa hvorn maka fyrir sig um stöðu nýtts eða ónýtts persónuafsláttar.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að upplýsa launagreiðanda um nýtingu persónuafsláttar þeirra launamanna sem hjá honum starfa, þar með nýtingu á persónuafslætti maka launamannsins.
    Ríkisskattstjóri skal með reglubundnum hætti kanna nýtingu persónuafsláttar hvers launamanns á staðgreiðsluári og skal hann tilkynna að frekari nýting persónuafsláttar sé óheimil hafi hann bersýnilega verið ofnýttur á staðgreiðsluárinu, þ.m.t. vegna nýtingar á persónuafslætti maka. Tilkynningu um slíkt skal beina til launamanns, maka hans eftir atvikum og/eða launagreiðanda og fer um ábyrgð samkvæmt ákvæðum 30. gr. eftir því sem við á.

17. gr.

    13. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Persónuafsláttur maka.


    Fullnýti annað hjóna, sem samvistum eru, ekki persónuafslátt sinn á staðgreiðsluári er hinum makanum heimilt að nýta það sem ónýtt er, sbr. 3. mgr. 12. gr. Sama gildir um tvo einstaklinga sem búa í óvígðri sambúð og uppfylla skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna staðgreiðsluársins.

III. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, nr. 94/1996, með síðari breytingum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „verðbréfasjóðir, sbr. lög um verðbréfasjóði, nr. 10/1993“ komi: sjóðir sem starfa samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011.
     b.      Á eftir orðunum „með síðari breytingum“ komi: verðbréfafyrirtæki, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

19. gr.

    Í stað „1. ágúst“ í 6. mgr. 12. gr. laganna kemur: 1. júlí.

20. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Erlendir launagreiðendur, með einni nýrri grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Greiðsla tryggingagjalds.

    Erlendum launagreiðanda er heimilt að greiða tryggingagjald vegna starfsmanna sinna sem eru heimilisfastir hér á landi, enda skrái hann sig á launagreiðendaskrá, sbr. 19. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, vegna tryggingagjaldsins.
    Stofn til tryggingagjalds samkvæmt þessari grein er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, skv. 6. gr.
    Greiðsla tryggingagjalds samkvæmt ákvæði þessu skal vera endanleg greiðsla á staðgreiðsluári.
    Um greiðslutímabil, upplýsingar, eftirlit og viðurlög fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara.

V. KAFLI

Breyting á lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fimm“ og „ágúst“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sex; og: júlí.
     b.      Í stað orðsins „ágúst“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: júlí.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, með síðari breytingum.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað „1. ágúst, 1. september og 1. október“ í 2. málsl. kemur: 1. júlí, 1. ágúst og 1. september.
     b.      Í stað „1. ágúst“ í 4. málsl. kemur: 1. júlí.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

23. gr.

    Í stað „1. ágúst“ í 2. og 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: 1. júlí.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum.

24. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ekki skal greiða erfðafjárskatt af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.

IX. kafli

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „staður, höfn eða flugvöllur“ í 1. mgr. kemur: svæði, afmarkað með hnitsetningu.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ráðherra afmarkar staðsetningu tollhafna í reglugerð.
     c.      Í stað orðsins „stöðum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: svæði og möguleikum tollyfirvalda til að viðhafa fullnægjandi tolleftirlit.
     d.      1. tölul. 3. mgr. fellur brott.
     e.      Í stað orðsins „stað“ í 4. mgr. kemur: svæði, tollstjóra reynist ófært að viðhafa þar fullnægjandi tolleftirlit.

26. gr.

    Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingar um farþega og áhöfn.


    Fyrirtækjum sem annast flutning farþega og vöru til og frá landinu er skylt að afhenda tollstjóra upplýsingar um farþega og áhöfn sem nýttar eru við tolleftirlit og til að koma í veg fyrir og rannsaka brot á lögum þessum og öðrum lögum sem lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds ber að framfylgja. Sama skylda hvílir á stjórnendum, eigendum eða umráðamönnum fara sem ferðast til og frá landinu, þar á meðal einkaflugvéla og seglskipa.
    Tollstjóra, lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds er heimilt að skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn í þágu eftirlits, greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum gegn ákvæðum laga þessara og ákvæðum annarra laga.
    Ráðherra kveður nánar á um umfang upplýsingaskyldunnar, afhendingu á upplýsingum til tollstjóra, þar á meðal um form og tímasetningu, og meðhöndlun á þeim í reglugerð. Þar skal einnig kveðið nánar á um fyrirkomulag upplýsingaskipta milli tollstjóra, lögreglu og annarra handhafa lögregluvalds.

27. gr.

    Á eftir orðunum „leyfishafa tollvörugeymslu“ í 1. málsl. 1. mgr. 94. gr. laganna kemur: sem starfar í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu.

28. gr.

    Á undan 181. gr. laganna kemur ný grein, 180. gr. a, svohljóðandi:
    Tollstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða einstaklinga sem brjóta gegn skyldu til að veita upplýsingar skv. 1. mgr. 51. gr. a, sbr. 1. málsl. 3. mgr. þeirrar lagagreinar.
    Ráðherra skal í reglugerð ákveða fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
    Hafi fjárhæð stjórnvaldssekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun þeirra m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Stjórnvaldssektir sem eru lagðar á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. Stjórnvaldssektir sem eru lagðar á fyrirtæki geta numið frá 400.000 kr. til 2.000.000 kr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun tollstjóra um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.

29. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeim leyfishöfum tollvörugeymslu sem fengið hafa starfsleyfi skv. 3. málsl. 1. mgr. 91. gr. og hefur verið heimilað að geyma tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými í tollvörugeymslu fyrir 1. janúar 2016 er eftir þann tíma heimil slík geymsla óháð tilgangi starfa sinna að ákvæðum 94. gr. uppfylltum.

30. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
    Ákvæði 1. gr., 3.–11. og 13.–29. gr. öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2016.
    Ákvæði 2. gr. öðlast gildi 1. janúar og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015.
    Ákvæði 12. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda 1. janúar 2016.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum af ólíkum toga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er annars vegar rökstutt álit og athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er snúa að tilteknum ákvæðum laga um tekjuskatt og laga um tryggingagjald og hins vegar yfirferð fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir ákveðin atriði í skattalöggjöfinni sem talin er þörf á að samræma, einfalda og skýra með gleggri hætti til að styrkja skattframkvæmd og auka réttaröryggi. Þá er einnig að finna í frumvarpinu breytingartillögur sem til eru komnar vegna alþjóðlegra skuldbindinga um upplýsingaskipti á sviði skattamála.

3. Meginefni frumvarpsins.
Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Í fyrsta lagi er lagt til að afnumin verði rúmmálsregla tekjuskattslaga við ákvörðun á því hvort söluhagnaður af íbúðarhúsnæði til eigin nota teljist til skattskyldra tekna.
          Í öðru lagi er lagt til að það hlutfall af tekjum af atvinnurekstri, sem ekki má fara yfir við frádrátt einstakra gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, verði hækkað úr 0,5% í 0,75% ásamt því að gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum verði undanþegnar erfðafjárskatti.
          Í þriðja lagi er lögð til sú breyting að við samruna yfir landamæri sé ekki skylt að leggja fram bankatryggingu, í þeim tilvikum þegar félag hefur fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar, þegar fyrir hendi eru tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningar milli ríkja.
          Í fjórða lagi er lögð til breyting í þá veru að bætt verði við lögin ákvæðum er heimila skiptingu hlutafélaga yfir landamæri. Tillagan, sem er til komin vegna athugasemda frá ESA, felur m.a. í sér að heimilt verði að fresta greiðslu tekjuskatts, sem álagður er við flutning úr landi, um fimm ár í stað greiðslu strax við skattákvörðun.
          Í fimmta lagi er lögð til breyting sem heimilar flutning einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag erlendis og yfirfærslu lögheimilis eða eigna yfir landamæri. Tillagan, sem er til komin vegna athugasemda ESA, felur m.a. í sér að heimilt verði að fresta greiðslu tekjuskatts sem álagður er við flutning úr landi um fimm ár í stað greiðslu strax í kjölfar skattákvörðunar.
          Í sjötta lagi er lagt til að verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir geti sameinast án skattalegra afleiðinga.
          Í sjöunda lagi er lagt til að þau hlunnindi erlendra listamanna, sem felast í greiðslu annarra á ferða- og dvalarkostnaði þeirra, verði ekki talin þeim til tekna.
          Í áttunda lagi er til einföldunar lagt til að ákvæði um afgjaldskvaðarverðmæti verði fellt brott.
          Í níunda lagi er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilt að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera með rafrænum hætti, og að málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við á.
          Í tíunda lagi eru lagðar til breytingar sem heimila skattyfirvöldum að kalla eftir frekari upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála og heimild til handa ráðherra um að setja nánari reglur um framkvæmd upplýsingaöflunarinnar.
          Í ellefta lagi eru lagðar til breytingar á orðalagi tekjuskattslaga þannig að fulls innra samræmis sé gætt við réttaráhrif úrskurða ríkisskattstjóra en almennt er miðað við dagsetningu úrskurðar, svo sem varðandi málskotsrétt, en í áliti umboðsmanns Alþingis er á það bent að við hækkanir á gjaldstofni sé miðað við annað tímamark.
          Í tólfta lagi er lagt til að lágmarksfjárhæð sem innheimt er vegna þinggjalda verði hækkuð úr 2.000 kr. í 5.000 kr.
          Í þrettánda lagi er lagt til að útgáfu skattkorta verði hætt.
          Í fjórtánda lagi er lagt til að verðbréfafyrirtækjum, líkt og bönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum, verði bætt við upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru staðgreiðslu skatts vegna verðbréfaviðskipta skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum.
          Í fimmtánda lagi er lagt til að erlendum launagreiðanda verði heimilt að greiða tryggingagjald fyrir launþega sinn hér á landi til að hann öðlist þau réttindi sem bundin eru við greiðslu þessa gjalds.
          Í sextánda lagi er lögð til breyting á álagningardegi einstaklinga sem undanfarið hefur verið í lok júlí ár hvert. Gert er ráð fyrir að hann verði um mánaðamótin júní/júlí auk þess sem kærufrestur verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga. Með flýtingu álagningar er jafnframt nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á gjalddögum opinberra gjalda og útborgun vaxta- og barnabóta, sem leiðir af breyttum álagningardegi.
          Í sautjánda lagi er lagt til að hugtakið tollhöfn verði endurskilgreint í lögunum á þann hátt að tollhöfn teljist vera innan marka sem ráðherra afmarkar með hnitsetningu í reglugerð.
          Í átjánda lagi er hnykkt sérstaklega á rétti tollstjóra til að afla farþegaupplýsinga og lagt til að honum verði heimilt að beita stjórnvaldssektum ef upplýsingagjöf reynist ófullnægjandi.
          Í nítjánda lagi er lagt til að afmörkuð verði nánar þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að rekstur tollvörugeymslu verði heimilaður og þá sérstaklega í þeim tilvikum þegar tilgangur rekstrarins er ekki að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri slíkra geymsla.

4. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um breytingartillögur frumvarpsins.

4.1. Afnám rúmmálsreglu við ákvörðun hagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
    Að meginreglu er söluhagnaður af fasteignum skattskyldur á söluári samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Sú undantekning kemur fram í 17. gr. laganna að ef maður hefur átt íbúðarhúsnæði í full tvö ár þá er söluhagnaður af því skattfrjáls. Þetta skattfrelsi takmarkast af því að söluhagnaður af þeim hluta húsnæðisins sem er umfram 600 rúmmetra hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetra hjá hjónum er að fullu skattskyldur. Söluhagnaður er mismunur á söluverði og stofnverði að teknu tilliti til fenginna fyrninga og áður fengins söluhagnaðar. Stofnverð er kostnaðarverð eigna.
    Framangreind rúmmálsregla á rót sína að rekja til 4. tölul. 3. gr. laga nr. 7/1972. Frumvarp það sem síðar varð að téðum lögum var á sínum tíma lagt fram með það fyrir augum að dreifa skattbyrðinni á réttlátari hátt en tíðkast hafði. Fyrir gildistöku rúmmálsreglunnar miðaðist skattfrelsið aðeins við eignarhaldstíma og jókst eftir því sem hann var lengri þar til fullu skattfrelsi var náð. Má gera ráð fyrir að rúmmálsreglunni hafi einkum verið ætlað að jafna stöðu þeirra eignaminni og þeirra sem meira áttu.
    Um langa hríð hefur bróðurpartur eignamyndunar landsmanna átt sér stað við kaup og eignarhald á íbúðarhúsnæði. Að starfsævinni lokinni er algengt að menn minnki við sig og innleysi sparifé með sölu húseigna. Því fé sem er innleyst á þennan hátt er oft ætlað að standa undir rekstri heimilis viðkomandi þegar líður á ævikvöldið. Framangreind regla kann í einhverjum tilvikum að hafa komið illa niður á eldri borgurum sem eru sestir í helgan stein og njóta ekki lengur atvinnutekna, en búa í stórum húseignum sem jafnvel erfitt hefur reynst að selja.
    Til að koma til móts við slíkar aðstæður er með frumvarpinu lagt til að framangreind rúmmálsregla verði ekki látin gilda þegar um er að ræða hagnað af sölu íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Verði það samþykkt mun skattskylda söluhagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis til eigin nota aðeins ráðast af tíma eignarhalds, hvort það hafi varað í tvö ár eða skemur.

4.2. Gjafir og framlög til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.
    Í tekjuskattslögum er kveðið á um það að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri megi draga einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,5% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Lagt er til að reglu þessari um hámark frádráttar verði breytt og það hlutfall sem ekki megi fara yfir við frádrátt verði hækkað úr 0,5% í 0,75% ásamt því að gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum verði undanþegnar erfðafjárskatti. Til lengri tíma litið er stefnt að því marki með þessum lagabreytingum að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir geti í auknum mæli aflað sér fjár án beins stuðnings ríkisins.

4.3. Bankaábyrgð vegna skattlagningar við samruna yfir landamæri.
    Með lögum nr. 142/2013, um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, var gerð breyting á 51. gr. laganna sem fjallar um samruna hlutafélaga. Breytingin var gerð eftir dóm EFTA-dómstólsins í málinu nr. E-14/13, dags. 2. desember 2013. ESA hafði þá beint sams konar athugasemdum til íslenska ríkisins að því er varðaði mismunandi reglur vegna skattlagningar við samruna innan lands annars vegar og yfir landamæri hins vegar. Slík mismunun væri brot á reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í kjölfar dómsins var 51. gr. tekjuskattslaga breytt á þann veg að sömu reglur gilda nú hér á landi óháð því hvort samruni fer fram innan eða utan Íslands. Þó er gert ráð fyrir útgönguskatti (e. exit taxation) við samruna yfir landamæri en heimilt er að fresta greiðslu á gjaldföllnum skatti þess félags sem slitið var um fimm ár. Við slíkar aðstæður skal það félag sem fengið hefur frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar leggja fram bankatryggingu til tollstjóra ef hin frestaða fjárhæð er umfram 50 millj. kr. ESA telur að í þeim tilfellum þegar fyrir hendi eru tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningar milli ríkja í tilviki samruna hlutafélaga yfir landamæri, eigi ekki að vera skylt að leggja fram bankatryggingu í þeim tilvikum þegar félag hefur fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar.
    Í frumvarpinu er því lagt til að ef fyrir hendi er tvísköttunarsamningur eða annar alþjóðasamningur, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningur milli ríkja í tilviki samruna hlutafélaga yfir landamæri, verði félagi ekki gert skylt að leggja fram bankatryggingu hafi það fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skv. 5. mgr. 51. gr. tekjuskattslaga. Er með þessu komið til móts við það álit Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 11. nóvember 2015, að krafa um tafarlausa bankaábyrgð, án mats á innheimtuáhættu, stangist á við EES-samninginn. Um er að ræða ívilnandi breytingar miðað við gildandi rétt og má geta þess að Noregur hefur gert sambærilegar breytingar á löggjöf sinni að undangenginni ábendingu ESA.

4.4. Skattlagning félaga við skiptingu yfir landamæri.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að við 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði aukið ákvæðum er fjalla um skattalega meðferð við skiptingu hlutafélaga yfir landamæri í því skyni að koma til móts við áðurnefndar athugasemdir ESA, í rökstuddu áliti, dags. 11. nóvember 2015, að íslenskar reglur um skattlagningu við skiptingu félaga brjóti í bága við EES- samninginn. ESA telur að íslensku reglurnar hindri bæði staðfesturétt félaga og frjálst flæði fjármagns innan EES. Þannig geri íslensku skattareglurnar það að verkum að ekki sé eins aðlaðandi fyrir félög á Íslandi að nýta sér rétt sinn til að stofnsetja sig í öðrum EES-ríkjum. ESA dregur ekki í efa rétt Íslands til þess að skattleggja hagnað sem varð til á meðan fyrirtæki var staðfest á Íslandi. Engu að síður þurfi Ísland að beita vægari úrræðum til þess að vernda skattlagningarrétt sinn. Í stað þess að krefja fyrirtæki um greiðslu skatts af óinnleystum hagnaði þegar þau flytji frá Íslandi geti Ísland t.d. boðið fyrirtækjum að fresta greiðslu skattsins. Ákvæði 51. gr. tekjuskattslaga, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, var breytt með lögum nr. 142/2013 til samræmis við athugasemdir ESA. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 142/2013 er að finna ítarlegar athugasemdir og skýringar vegna þeirrar breytingar.
    Skipting hlutafélaga sem skráð eru hér á landi hefur ekki í för með sér skattskyldu fyrir hluthafa og félögin sem skipt er, enda hafi verið staðið að skiptingunni í samræmi við 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þannig kveður ákvæðið á um að fái hluthafar í hinu skipta félagi eingöngu hlutabréf í þeim félögum sem við taka hefur skipting ekki í för með sér skattskyldu á því tímamarki. Við þessar aðstæður gilda íslenskar skattareglur. Raunveruleg eignaaukning, sem kann að eiga sér stað við slíka skiptingu, kemur þannig fyrst til skattlagningar við slit félags eða í formi söluhagnaðar við sölu hlutabréfa í hinu nýja félagi, ef svo ber undir.
    Í frumvarpinu er lagt til að við skiptingu hlutafélags yfir landamæri í hlutafélag í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum verði lagður tekjuskattur á óinnleystan hagnað sem til hefur orðið hér á landi eins og verið hefur, en veittur verði allt að fimm ára greiðslufrestur á skattinum sé þess óskað. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er komið til móts við athugasemdir ESA, jafnframt því að tryggður er eins og verið hefur skattlagningarréttur Íslands á óinnleystum hagnaði sem myndast hefur í rekstri hér á landi. Þessi skattalega meðferð er í samræmi við þær reglur sem nágrannaríki okkar hafa talið nauðsynlegt að lögfesta til að tryggja skattlagningarrétt sinn og koma eftir atvikum í veg fyrir skattasniðgöngu.
    Skattlagning vegna flutnings á eignum úr landi er sem slík ekki talin andstæð ESB/EES- rétti. Krafa um tafarlausa greiðslu skattfjárhæðar vegna óseldra eigna og annarra réttinda sem að öðrum kosti kæmu ekki strax til skattlagningar hefur samkvæmt dómsniðurstöðum Evrópudómstólsins verið talin geta valdið félögum töluverðum örðugleikum að því er varðar greiðsluflæði og jafnvel þvingað þau til slita. Þessu vandamáli má afstýra með því að fresta greiðslu höfuðstóls skattskuldar og er lagt til að óskipt ábyrgð hvíli á þeim félögum sem að skiptingunni standa. Breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpinu eru því ívilnandi miðað við gildandi rétt.
    Þess má geta að Noregur breytti löggjöf sinni árið 2011, að undangengnu rökstuddu áliti ESA um skattalega meðferð við samruna og skiptingu yfir landamæri. Þá var, eins og áður segir, ákvæði 51. gr. tekjuskattslaga breytt með lögum nr. 142/2013 til samræmis við athugasemdir ESA um samruna hlutafélaga yfir landamæri.

4.5. Skattlagning við yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri.
    Stofni einstaklingur í atvinnurekstri einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins hefur sú yfirfærsla ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann og viðtökufélagið sé félagið skráð hér á landi.
    Til að koma til móts við þær athugasemdir ESA að núgildandi reglur um skattlagningu við yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri brjóti í bága við EES- samninginn er með frumvarpinu lögð til breyting á ákvæðum tekjuskattslaga.
    Lagt er til að yfirfærsla einkarekstrar yfir í einkahlutafélag í öðrum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum verði heimiluð en jafnframt verði lagður tekjuskattur á óinnleystan hagnað sem til hefur orðið hér á landi. Á hinn bóginn verði eiganda hins yfirfærða rekstrar veittur allt að fimm ára greiðslufrestur á skattinum sé þess óskað. Lagt er til að bæði einstaklingurinn og viðtökufélagið beri óskipta ábyrgð á skattgreiðslum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er komið til móts við athugasemdir ESA, jafnframt því að tryggður er eins og verið hefur skattlagningarréttur Íslands á óinnleystum hagnaði sem myndast hefur í rekstri hér á landi. Þessi skattalega meðferð er í samræmi við þær reglur sem nágrannaríki hafa talið nauðsynlegt að lögfesta til að tryggja skattlagningarrétt sinn og koma eftir atvikum í veg fyrir skattasniðgöngu.

4.6. Skattlagning við flutning á lögheimili eða eignum hlutafélags yfir landamæri.
    Til að koma til móts við þær athugasemdir ESA að reglur um skattlagningu við flutning á lögheimili eða eignum hlutafélags yfir landamæri brjóti í bága við EES-samninginn er með frumvarpinu lögð til breyting á ákvæðum tekjuskattslaga, enda sé slíkur flutningur heimill samkvæmt gildandi ákvæðum hlutafélagalaga. Lagt er til að við flutning á lögheimili eða eignum félags yfir landamæri til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða til Færeyja verði lagður tekjuskattur á óinnleystan hagnað sem til hefur orðið hér á landi eins og verið hefur, en veittur verði allt að fimm ára greiðslufrestur á skattinum sé þess óskað, þó þannig að við flutning eigna hvílir ábyrgð á þeim sköttum sem lagðir yrðu á við yfirfærsluna á því félagi sem eignir lét af hendi og heimilisfast er hér á landi. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er komið til móts við athugasemdir ESA, jafnframt því að tryggður er eins og verið hefur skattlagningarréttur Íslands á óinnleystum hagnaði sem myndast hefur í rekstri hér á landi. Þessi skattalega meðferð er í samræmi við þær reglur sem nágrannaríki hafa talið nauðsynlegt að lögfesta til að tryggja skattlagningarrétt sinn og koma eftir atvikum í veg fyrir skattasniðgöngu.

4.7. Skattlagning við samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða.
    Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafa að geyma ákvæði um samruna, annars vegar hlutafélaga, sbr. 51. gr. laganna, og hins vegar sameignarfélaga, sbr. 53. gr. laganna. Engin ákvæði eru til um samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Því hefur í framkvæmd verið litið svo á að við samruna slíkra sjóða sé einu verðbréfi, þ.e. hlutdeildarskírteini, skipt yfir í annað með innlausn á því fyrra og nýkaupum á nýja bréfinu, með tilheyrandi skattalegum afleiðingum, þ.e. uppgjöri tekjuskatts í staðgreiðslu miðað við það sem áunnist hefur við tímamark samruna. Í starfsemi verðbréfa- og fjárfestingarsjóða er algengast að öllum eignum eins sjóðs (samrunasjóðs) sé ráðstafað til annars sjóðs (viðtökusjóðs) gegn útgáfu hlutdeildarskírteina í þeim síðarnefnda til hlutdeildarskírteinishafa samrunasjóðsins og að ekki komi til greiðslu reiðufjár til hlutdeildarskírteinishafa við ráðstöfunina. Skattlagning við slíkar aðstæður getur leitt til óhagræðis og jafnvel tjóns fyrir hlutdeildarskírteinishafa. Í þeim sjóðum þar sem sveiflur eru í ávöxtun getur það skipt hlutdeildarskírteinishafa verulegu máli hvenær samruni á sér stað.
    Lagt er til að sambærilegar reglur verði látnar gilda fyrir samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða um sameiginlega fjárfestingu og gilda um samruna hlutafélaga skv. 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

4.8. Ferða- og dvalarkostnaður erlendra listamanna verði ekki talinn þeim til tekna.
    Greiðslur sem erlendir listamenn fá vegna listviðburða hér á landi eru skattskyldar og staðgreiðsluskyldar. Með tekjum í þessu sambandi teljast hvers konar hlunnindi, þ.m.t. flutningur að og frá landinu, hafi viðtakandi ekki greitt hann sjálfur. Þeim sem inna af hendi greiðslur til erlendra listamanna ber að halda eftir staðgreiðslu af tekjunum og skila til ríkissjóðs. Réttilega afdregin og innborguð staðgreiðsla erlendra listamanna er fullnaðargreiðsla þeirra hér á landi án nokkurs frádráttar og fer ekki fram frekari ákvörðun eða álagning nema jafnframt sé um að ræða skattskyldu vegna fastrar starfsstöðvar hér á landi. Með hliðsjón af því að ferðakostnaður er almennt frádráttarbær frá tekjum listamanna, sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu og með tilliti til jafnræðissjónarmiða er lagt til að þau hlunnindi erlendra listamanna, sem felast í greiðslu annarra á ferða- og dvalarkostnaði þeirra, verði ekki talin þeim til tekna.

4.9. Afgjaldskvaðarverðmæti – brottfall.
    Ákvæði 2. mgr. 1. tölul. 73. gr. tekjuskattslaga um að við mat framtalsskyldra eigna skuli eiganda leigulóðar talið afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar, en leigjanda til eignar mismunur fasteignamatsverðs og afgjaldskvaðarverðmætis, er arfleifð frá gamalli tíð þegar eignarskattur var álagður. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum eru enn nokkrir sem telja afgjaldskvaðarverðmæti af leigulóð fram, þ.e. til frádráttar á fasteignamati eigna, þótt það hafi í raun enga skattalega þýðingu eins og lögin hafa breyst. Ætla verður að hlutaðeigandi framteljendur telji sér skylt að telja fram á þennan máta. Til einföldunar er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott, m.a. með einföldun á skattframtölum og framtalsskyldum einstaklinga í huga.

4.10. Rafræn framtalsskil.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sú meginregla að skil á skattframtölum verði að öllu leyti rafræn. Nú þegar er í lögum heimild þar sem ríkisskattstjóri getur ákveðið að lögaðilum og þeim einstaklingum sem stunda sjálfstæða starfsemi beri að skila skattframtali rafrænt. Þykir tímabært að skrefið sé stigið til fulls, líka gagnvart einstaklingum utan atvinnurekstrar. Við álagningu einstaklinga 2015 voru rafræn framtalsskil orðin 99,74% og pappírsskilin þannig á algjöru undanhaldi. Breyting sem þessi hefur þannig engin áhrif á þorra framteljenda en mun í upphafi kalla á aðstoð við þá sem aðlaga þurfa sig að þeim framtalsmáta sem almennt er nú viðhafður. Samkvæmt gildandi ákvæðum tekjuskattslaga eru þessir framtalsmátar taldir jafngildir, en það hefur í för með sér umtalsvert umstang. Jafnframt er mikil villuhætta sem fylgir því að gera slík skattframtöl á pappír tæk til álagningar og vélrænnar úrvinnslu. Loks er ástæða til að taka fram að kostnaður fylgir því að hafa tvenns konar framtalsmáta og óhagræði er af því að hafa tvenns konar ferla hlið við hlið við framkvæmd á sama verkefni. Ríkisskattstjóri mun eftir sem áður liðsinna þeim framteljendum sem ekki eru í tölvusambandi með aðstoð, m.a. í gegnum síma. Jafnframt hefur ríkisskattstjóri í hyggju að bjóða upp á meiri þjónustu vegna þessa, svo sem lengri opnunartíma, lengri símatíma og heimsóknum til íbúða aldraðra ef óskað verður eftir slíku. Ríkisskattstjóri stefnir að því að taka í notkun nýtt rafrænt skattframtal einstaklinga árið 2017 sem verður mun auðveldara í notkun, veitir framteljendum meiri upplýsingar og gefur þeim tækifæri til að bera saman fyrri framtalsár. Mun þetta marka tímamót í rafrænni stjórnsýslu. Við þær aðstæður stefnir ríkisskattstjóri á að hætta alfarið notkun pappírs við skattskil hér á landi og stjórnsýsla embættisins verði rafræn að fullu. Til þess að svo megi verða er lagt til að ákvæði 90. gr. laga nr. 90/2003 verði breytt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

4.11. Innleiðing á samræmdum staðli um upplýsingagjöf á sviði skattamála.
    Lagðar eru til breytingar á lögum um tekjuskatt sem heimila skattyfirvöldum/ríkisskattstjóra að kalla eftir frekari upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála og heimild til handa ráðherra um að setja nánari reglur um framkvæmd upplýsingaöflunarinnar.
    Tilefnið er yfirlýsing sem fjármála- og efnahagsráðherra undirritaði á fundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í Berlín, þann 29. október 2014, um upptöku nýs samræmds alþjóðlegs staðals um upplýsingaskipti í skattamálum (e. Common Reporting Standard). Yfir 90 ríki hafa skuldbundið sig til að innleiða framangreindan staðal sem varðar víðtæk skipti á upplýsingum frá öllum fjármálastofnunum staðsettum í viðkomandi samningsríki og snýr að tekjum af fjármálagerningum, stöðu reikninga og upplýsingum um hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra.
    Efnahags- og framfarastofnunin og G20-ríkin hafa á síðastliðnum árum unnið ötullega að því að upplýsingaskipti án beiðni verði hið nýja viðmið í upplýsingaskiptum í skattamálum. Ríki sem gert hafa með sér tvísköttunarsamninga, eða eru aðilar að aðstoðarsamningi OECD og Evrópuráðsins, skiptast í dag á upplýsingum samkvæmt beiðni en einnig eru mörg ríki þegar farin að senda reglubundnar upplýsingar án beiðni um ýmsa tekjuflokka til samningsaðila, þar á meðal Ísland. Setning FATCA-laganna (e. Foreign Accounts Tax Compliance Act) í Bandaríkjunum árið 2010 og þeir samningar sem ríki hafa í kjölfarið gert við bandarísk stjórnvöld ýttu einnig undir þessa þróun og bandaríska FATCA- samningsmódelið var notað sem almenn fyrirmynd að hinum samræmda staðli eins og kostur var. Aðildarríki Evrópusambandsins eru þessa dagana að innleiða tilskipun um stjórnsýsluaðstoð (tilskipun ráðsins 2011/16/ESB) sem felur í sér upplýsingaskipti með sama hætti og hinn samræmdi staðall.
    Í júlí 2014 var nýr samræmdur staðall um upplýsingaskipti samþykktur af hálfu OECD auk þess sem samþykkt var fyrirmynd að tvíhliða samkomulagi milli bærra stjórnvalda um hvernig skyldi staðið að þessum upplýsingaskiptum. Í þessum staðli er að finna reglur um áreiðanleikakönnun viðskiptavina (e. due diligence), skýrsluform og öruggar aðferðir til þess að skiptast á upplýsingum auk ítarlegra reglna um hvaða fjármálaafurðir og fjármálafyrirtæki falli hér undir. Um er að ræða innlánsstofnanir, vörsluaðila og fjárfestingarfyrirtæki auk sérgreindra tryggingafélaga. Íslensk þýðing á hinum samræmda staðli er í fylgiskjali I með frumvarpi þessu.
    Samkvæmt staðlinum eiga upplýsingaskiptin að hefjast á árinu 2018 vegna ársins 2017 en Ísland er í hópi yfir fimmtíu ríkja sem ætla að hefja upplýsingaskiptin á árinu 2017 vegna fjármagnstekna sem aflað er á árinu 2016.
    Sú breyting sem hér er lögð til tryggir að skattyfirvöld geti óskað eftir því við fjármálafyrirtæki að þau auðkenni reikningshafa og raunverulega reikningseigendur samkvæmt staðlinum og sendi þeim. Samræmdur staðall um upplýsingagjöf byggist á reglum FATF um áreiðanleikakannanir en FATF er alþjóðlegur framkvæmdahópur sem stofnaður var til þess að vinna að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og frá árinu 1991 hefur Ísland skuldbundið sig til að samræma löggjöf og starfsreglur tilmælum FATF. Frumvarp innanríkisráðherra, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum (139. mál), hefur bein áhrif á efni þessa frumvarps þar sem frumvarp innanríkisráðherra fjallar m.a. um þær kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja við könnun á áreiðanleika viðskiptamanna og að ætíð skuli afla fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda reiknings.

4.12. Gjalddagi skattkröfu.
    Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8140/2014, dags. 10. apríl 2015, er komist að þeirri niðurstöðu að úrskurður fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 16. maí 2014 hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun tollstjóra, dags. 10. febrúar 2014, um að hafna niðurfellingu dráttarvaxta sem lagðir voru á kröfu vegna endurákvörðunar opinberra gjalda kæranda. Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð, dags. 18. desember 2013, um fyrrgreinda endurákvörðun opinberra gjalda með gjalddaga 28. desember 2013 og eindaga 30 dögum síðar, 28. janúar.
    Niðurstaða umboðsmanns var á þá leið að samkvæmt texta ákvæðisins bæri ekki að miða réttaráhrif úrskurða við dagsetningu þeirra, þ.e. póstlagningardag, við ákvörðun á gjalddaga vegna endurákvörðunar skatta og gjalda, heldur við þann dag sem vænta mætti að tilkynning hefði borist skattaðila.
    Það leiðir af áliti umboðsmanns í málinu að lögð er til breyting í frumvarpi þessu á orðalagi 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þannig að fullt samræmi verði annars vegar á réttaráhrifum úrskurða hvað varðar kærufresti og hins vegar gjalddaga. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að ákvörðun um gjalddaga endurákvörðunar opinberra gjalda haldist í hendur við dagsetningu úrskurðar þar um. Viðbótarfjárhæð samkvæmt endurákvörðun fellur þá í gjalddaga 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra um hækkunina í stað annars vegar 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina samkvæmt gildandi lögum eða hins vegar þann dag sem vænta mætti að tilkynning hefði borist skattaðila samkvæmt niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.

4.13. Lágmarksfjárhæð til innheimtu þinggjalda.
    Lagðar eru til breytingar á 112. gr. laganna að því er varðar innheimtu opinberra gjalda. Breytingarnar felast í því að fyrirframgreiðslu þinggjalda og eftirstöðvum þeirra verði skipt þannig niður á gjalddaga að aldrei verði lægri fjárhæð til innheimtu á hverjum gjalddaga en 5.000 kr. Ákvæðið kom inn með lögum nr. 152/2002 og var lágmarksfjárhæð til innheimtu þinggjalda þá 2.000 kr. Sú fjárhæð hefur ekkert breyst og er því lagt til að lágmarkið verði hækkað í 5.000 kr. sem er í samræmi við ákvæði laganna um lágmarksfjárhæð barna- og vaxtabóta.

4.14. Útgáfu skattkorta hætt.
    Í frumvarpinu er gerð sú tillaga að hætt verði að gefa út skattkort en í þess stað veiti ríkisskattstjóri upplýsingar um fjárhæð persónuafsláttar á staðgreiðsluári og heimila nýtingu hans á hverju launatímabili. Gert er ráð fyrir því að við sérstakar aðstæður gefi ríkisskattstjóri út staðfestingu á fjárhæð persónuafsláttar og skatthlutfalli, t.d. þegar um er að ræða menn sem flytja til landsins á staðgreiðsluárinu eða aðila sem bera hér á landi takmarkaða skattskyldu. Þessar breytingar fela ekki í sér að horfið sé frá fyrra fyrirkomulagi um að persónuafsláttur hlutfallist niður á einstök launatímabil innan staðgreiðsluársins. Í stað þess að launamaður framvísi skattkorti sínu að hluta eða öllu leyti hjá launagreiðanda skal hann gera grein fyrir fjárhæð persónuafsláttar síns og hver nýting hans megi vera við ákvörðun staðgreiðslu á hverju launatímabili. Þetta er sama regla og áður gilti, þegar skattkort sýndi skiptingu persónuafsláttar hlutfallslega niður á skattkort eða aukaskattkort til framvísunar hjá launagreiðendum viðkomandi. Við samnýtingu maka eða samskattaðs sambúðarfólks á persónuafslætti á staðgreiðsluári er ríkisskattstjóra heimilt að upplýsa, hvorn maka fyrir sig og eftir atvikum launagreiðanda, um stöðu á nýtingu persónuafsláttar. Ábyrgð á réttri nýtingu persónuafsláttar hvílir áfram á launamanni og eftir atvikum maka hans sem og launagreiðanda.
    Ríkisskattstjóri hefur gefið út um 40.000 skattkort á hverju ári síðastliðin fjögur ár með tilheyrandi umstangi fyrir bæði launagreiðendur og launamenn, sem og ríkisskattstjóra. Í tilefni af því að skattkort verða felld niður er gert ráð fyrir sérstakri þjónustueiningu hjá ríkiskattstjóra sem hafi það verkefni að fylgjast með nýtingu persónuafsláttar hjá launamönnum og launagreiðendum og veita aðstoð, leiðbeiningar eða eftir atvikum stöðva frekari ráðstöfun persónuafsláttar hafi hann verið fullnýttur eða ofnýttur. Í aðstoð ríkisskattstjóra getur m.a. falist að launagreiðanda verði að beiðni launamanns send yfirlit yfir nýtingu persónuafsláttar á staðgreiðsluárinu eða ónýttan persónuafslátt til nýtingar á tilteknu launatímabili. Í framtíðinni er stefnt að því að hver launamaður hafi, á þjónustusíðu sinni hjá ríkisskattstjóra, aðgang að yfirliti þar sem sýndar eru upplýsingar um persónuafslátt, sundurliðun á nýtingu hans og eftirstöðvum á árinu á grundvelli þeirra upplýsinga sem launagreiðendur hafa veitt með staðgreiðsluskilum sínum.

4.15. Undanþága frá staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum taki til allra fjármálafyrirtækja sem hafa leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti.
    Bankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki eru undanþegin staðgreiðslu skatts vegna verðbréfaviðskipta en sú undanþága hefur ekki náð til verðbréfafyrirtækja samkvæmt upptalningu á undanþegnum aðilum í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Það leiðir til þess að halda skal eftir fjármagnstekjuskatti þegar verðbréfafyrirtæki eru aðilar að viðskiptum, þ.e. móttakendur fjármagnstekna, jafnvel þó að þau komi aðeins fram fyrir hönd viðskiptavina sinna. Verðbréfafyrirtækin þurfa síðan að halda eftir fjármagnstekjuskatti við uppgjör gagnvart viðskiptavinum sínum þrátt fyrir að sömu tekjur hafi áður sætt afdrætti á staðgreiðslu að hluta eða öllu leyti. Eðlilegt þykir að undanþágan taki jafnframt til allra fjármálafyrirtækja sem hafa leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti.

4.16. Tryggingagjald erlendra launagreiðenda hér á landi.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um tryggingagjald til að koma til móts við þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, skal einstaklingur sem starfar að jafnaði sem launþegi í tveimur eða fleiri aðildarríkjum heyra undir löggjöf búsetuaðildarríkis ef verulegur hluti starfa hans fer fram í því aðildarríki. Þannig á einstaklingur, sem hefur búsetu í einu aðildarríki og greiðir þar skatta sína en starfar í öðru ríki, ekki að greiða framlag til almannatryggingakerfisins í búseturíkinu heldur þar sem hann starfar.
    Tryggingagjald er skattur sem lagður er á launagreiðanda en felur ekki í sér beint iðgjald vegna tiltekinna launþega, enda gjaldinu ráðstafað með almennum hætti. Innlendum launagreiðanda ber skylda til að greiða tryggingagjald af launum launþega sinna. Á hinn bóginn er ekki heimilt að skylda erlendan launagreiðanda til að standa skil á greiðslu tryggingagjalds hér á landi nema í undantekningartilfellum. Laun sem þannig eru greidd af erlendum launagreiðanda launþega hér á landi mynda því ekki stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.
    Greiðsla tryggingagjalds af launum veitir launþegum ýmis afleidd réttindi. Til að mynda rétt á greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði og hefur það því alfarið verið undir þeim einstaklingum komið sem starfa fyrir erlenda launagreiðendur hér á landi að standa skil á greiðslu tryggingagjaldsins til öflunar réttinda. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að erlendum launagreiðanda verði heimilt að greiða tryggingagjald fyrir launþega sinn hér á landi til að koma í veg fyrir að hann verði án þeirra réttinda hér á landi sem greiðsla samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er forsenda fyrir.

4.17. Breyting á álagningardegi einstaklinga.
    Fjármála- og efnahagsráðherra auglýsir árlega, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, hvenær álagningu á einstaklinga skuli lokið. Undanfarin ár hefur álagningin farið fram í lok júlí ár hvert og hefur kærufrestur verið einn mánuður. Tímasetning á lokum álagningar réðst frá upphafi á skorti á tæknilegri getu til að vinna álagninguna á skemmri tíma. Með gjörbreyttri tækni og breyttum viðhorfum, svo sem auknum heimildum til upplýsingaöflunar, hefur auðnast að leggja nánast fullbúin skattframtöl fyrir allan þorra framteljenda, þannig að sá rúmi tími sem þeim var áður ætlaður til skila á skattframtölum þolir umtalsverða styttingu. Þá hefur öll úrvinnsla á skattframtölum orðið vélræn í þeim mæli að handvirk afgreiðsla heyrir til undantekninga. Að auki hefur ráðuneytið talið bæði heppilegra vegna allrar samantektar á þjóðhagsstærðum og eins með tilliti til þarfa skattgreiðenda að álagning opinberra gjalda liggi fyrir sem fyrst. Því er lagt til að álagningardegi einstaklinga verði flýtt og álagning einstaklinga verði birt um mánaðamótin júní/júlí 2016 og framvegis. Þá er einnig lagt til að kærufrestur verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga frá dagsetningu auglýsingar um lok álagningar.

4.18. Tollhöfn.
    Hugtakið tollhöfn er skilgreint í 1. mgr. 43. gr. tollalaga á þann hátt að til hennar teljist staður, höfn eða flugvöllur, þar sem heimilt er að ferma og afferma för og geyma og tollafgreiða vörur úr þeim án sérstakrar heimildar tollyfirvalda. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 43. gr. skal ráðherra ákveða hvar tollhafnir skuli vera með reglugerð. Það hefur ráðherra gert í 1. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, á þann hátt að þar eru taldir upp staðir eins og Reykjavík, Grundartangi, Akranes, Grundarfjörður o.fl. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 91. gr. tollalaga skal leyfi til reksturs tollvörugeymslu veitt umsækjendum sem hyggjast reka slíka geymslu í tollhöfn. Tollhafnarhugtakið hefur frekari tilgang í tollalögum því að t.a.m. er gert ráð fyrir því að fyrsti og síðasti viðkomustaður fara hér á landi á að vera í tollhöfn auk þess sem tollstjóra er heimilt að gefa út fyrirmæli um að skip megi aðeins hafast við í tollhöfn. Vafi hefur skapast um hvort tollhafnarskilgreiningin feli í sér upptalningu, að tollhöfn geti verið staður, höfn eða flugvöllur, eða hvort með henni sé aðeins átt við að tollhöfn geti verið í höfn eða á flugvelli. Þá hefur það aukið á óvissuna að hafnir og flugvellir eru víða lítt afmarkaðir.
    Í ljósi framangreindrar óvissu sem hefur ríkt um tollhafnarhugtakið og þess vanda sem hún hefur skapað við túlkun ákvæða tollalaga er lagt til að hugtakið tollhöfn verði endurskilgreint í lögunum á þann hátt að tollhöfn teljist vera innan marka sem ráðherra afmarkar með hnitsetningu í reglugerð. Verði breytingin samþykkt mun afmörkun ráðherra á tollhöfnum ekki lengur verða tengd við höfn eða flugvöll heldur einungis ráðast af þörfum atvinnulífsins og möguleikum tollstjóra til að viðhafa fullnægjandi tolleftirlit.

4.19. Skylda til að afhenda upplýsingar um farþega og áhöfn.
    Farþegaupplýsingar eru nýttar af tollyfirvöldum, lögreglu og öðrum landamærastofnunum víða um heim vegna eftirlits á landamærum. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðatollastofnuninni (e. World Customs Organization, skammstafað WCO) safna a.m.k. 60 lönd farþegaupplýsingum með reglulegum hætti og má búast við að fleiri lönd bætist í hópinn á næstu árum. Nýting farþegaupplýsinga við áhættugreiningu gerir landamærastofnunum kleift að beina sjónum sérstaklega að þeim farþegum sem hætta er talin stafa af auk þess sem hún einfaldar og flýtir fyrir afgreiðslu annarra farþega. Áhættugreining farþegaupplýsinga eykur einnig öryggi flugfarþega og áhafna fara. Því hefur að auki verið haldið fram að greining farþegalista auki líkur á að unnt verði að koma auga á erlenda vígamenn, þ.e. menn sem ferðast milli átakasvæða víða um heim til að berjast með hryðjuverkasamtökum. Söfnun og greining farþegaupplýsinga gerir íslenskum stjórnvöldum að sama skapi fært að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn hryðjuverkum, t.d. á norrænum vettvangi.
    Fjölgun hryðjuverka og alvarlegra glæpa sem teygja sig yfir landamæri, t.d. mansal og fíkniefnaviðskipti, hefur m.a. leitt til aukinnar áherslu á öflun og notkun farþegaupplýsinga við eftirlit á alþjóðlegum vettvangi. Innan Evrópusambandsins er í gildi tilskipun ráðsins 2004/82/EB, um farþegaupplýsingar úr vegabréfum (e. Advance Passenger Information, skammstafað API). Þá hafa drög að nýrri tilskipun um farþegalista (e. Passenger Name Record, skammstafað PNR) verið í vinnslu á vegum sambandsins í nokkur ár en ekki enn litið dagsins ljós. Nokkur munur er á API- og PNR-upplýsingum. Í farþegalistum, PNR-listum, er að finna upplýsingar sem safnað er í viðskiptalegum tilgangi, þ.e. upplýsingar sem flugfélag safnar við farmiðabókun eða ferðaskrifstofa safnar við bókun á tiltekinni ferð, t.d. um greiðslumáta við farmiðakaup og hvenær bókun átti sér stað. Farþegaupplýsingum úr vegabréfum, API-upplýsingum, er hins vegar safnað við innritun farþega fyrir flug og þær eru sendar því ríki sem farþegi ferðast til.
    WCO, Alþjóðasamband flugfélaga (e. International Air Transport Association, skammstafað IATA) og Alþjóðaflugmálastofnunin (e. International Civil Aviation Organization, skammstafað ICAO) hafa gefið út leiðbeiningar um notkun farþegaupplýsinga. Þá halda fyrrgreindir aðilar úti alþjóðlegum staðli um farþegaupplýsingar sem kallaður er PNRGOV-staðallinn en drög að tilskipun ESB um farþegalista byggjast á honum. Af hálfu IATA hefur því sjónarmiði verið haldið á lofti að það sé sérstaklega mikilvægt að kröfur ríkja um afhendingu farþegaupplýsinga séu samræmdar og fylgi alþjóðlegum stöðlum.
    Hinn 5. maí 2015 var lagafrumvarp lagt fyrir danska þingið sem er hvað innihald varðar á margan hátt sambærilegt þeim ákvæðum sem hér er lagt til að verði bætt við tollalög. Í danska frumvarpinu er m.a. hnykkt á heimild danskra toll- og skattyfirvalda til að safna farþegaupplýsingum og lagt til að þeim verði veitt heimild til að miðla upplýsingunum til danskra lögregluyfirvalda. Við undirbúning frumvarpsins var litið til efnis og ákvæða danska frumvarpsins, m.a. hvað verndun persónuupplýsinga varðar.
    Þau ákvæði frumvarpsins sem hér er lagt til að bætist við tollalög taka til allra farþegaupplýsinga, hvort sem þeim er safnað vegna ferða flugvéla eða skipa. Þó að í ákvæðunum sé rætt um farþega og áhöfn verður að hafa í huga að yfirgnæfandi meiri hluti farþega kemur til landsins með flugi. Ferðamönnum sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár án þess að fjölgun hafi orðið í hópi tollvarða á flugvellinum. Til að tryggja fullnægjandi tolleftirlit er nauðsynlegt að gera tollyfirvöldum mögulegt að sinna áhættugreiningu á faglegan hátt.
    Lögreglan á Suðurnesjum og tollstjóri safna farþegaupplýsingum og greina þær. Hingað til hefur sjónum þó aðeins verið beint að farþegalistum, PNR-upplýsingum. Upplýsingum úr vegabréfum, API-upplýsingum, hefur enn sem komið er ekki verið safnað hér á landi vegna greiningarstarfs en líklega munu breytingar verða á því í náinni framtíð. API-upplýsingar hafa mikla þýðingu fyrir tolleftirlit en m.a. er gert ráð fyrir þeim í viðauka J1 við endurskoðaða Kyoto-samninginn, sem kveður á um einföldun og samræmingu tollmeðferðar. Þar er gert ráð fyrir að tollyfirvöld haldi öryggisráðstöfunum í lágmarki og setji atvinnulífinu ekki frekari skorður en nauðsynlegt er og mælt með því að aðildarríki nýti sér API- upplýsingar til að liðka fyrir og einfalda tollmeðferð.
    Hjá tollstjóra eru farþegalistar nýttir við eftirlit með innflutningi en lögreglan nýtir þá við eftirlit með fólksumferð. Form afhentra upplýsinga er háð samkomulagi sem náðst hefur við flugfélög, í einhverjum tilvikum fá yfirvöld beinan aðgang að bókunarkerfum flugfélaga en í öðrum eru upplýsingarnar sendar í svokallað G-kerfi ríkislögreglustjóra sem tollstjóri hefur aðgang að. Þá skortir á upplýsingar frá nokkrum flugfélögum.
    Tollstjóri hefur hingað til nýtt ákvæði 3. mgr. 30. gr. tollalaga við öflun farþegalista, PNR-upplýsinga. Þar er kveðið á um að öllum aðilum, bæði tollskyldum og öðrum, sé skylt að láta tollstjóra í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, til nota við almennt tolleftirlit og áhættugreiningu, er hann fer fram á og snerta innflutning vöru eða sendingar sem og flutning farþega til og frá landinu. Ákvæðið á rót sína að rekja til breytingartillögu sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði fram við umfjöllun um lagafrumvarp það sem varð að tollalögum (sjá þskj. 1257 í 493. máli á 131. löggjafarþingi). Af skýringum í nefndaráliti meiri hlutans (þskj. 1256) má sjá að með breytingartillögunni var ætlunin að gera ákvæði 30. gr. tollalaga skýrari og fyllri þannig að ljóst væri að skylt væri að láta í té upplýsingar um farþega fars.
    Í ljósi mikilvægis farþegaupplýsinga við eftirlit, vísbendinga um vilja löggjafans við setningu tollalaga og þróunar við notkun á upplýsingum til að koma í veg fyrir alvarlega glæpi er rétt að hnykkja sérstaklega á rétti tollstjóra til að afla farþegaupplýsinga. Til að tryggja virkni upplýsingaskyldunnar er lagt til að tollstjóra verði heimilt að beita stjórnvaldssektum ef upplýsingagjöf reynist ófullnægjandi.
    Til framtíðar litið er æskilegt að farþegaupplýsingum verði skilað á rafrænan hátt inn í kerfi sem samræmist PNRGOV-staðlinum en það er enn sem komið er ekki mögulegt af tæknilegum ástæðum. Til fróðleiks er rétt að taka fram að upplýsingar sem PNRGOV- staðallinn nær til eru eftirfarandi:
     1.      PNR-númer.
     2.      Dagsetning pöntunar/útgáfu miða.
     3.      Dagsetning fyrirhugaðs ferðalags.
     4.      Nafn/nöfn farþega.
     5.      Heimilisfang, sími og netfang miðakaupanda og ferðamanna.
     6.      Upplýsingar um greiðslu fyrir farmiða, m.a. heimilisfang greiðanda miða.
     7.      Upplýsingar um skipulag ferðar fyrir hvert PNR-númer.
     8.      Vildarklúbbsupplýsingar (e. frequent flyer information).
     9.      Upplýsingar um ferðaskrifstofu sem annast ferðaskipulagningu.
     10.      Ferðastaða farþega, þ.m.t. staðfestingar, innskráning, mæting eða ekki (e. no show og go show).
     11.      Skiptar farþegaupplýsingar (þ.e. þegar í PNR-upplýsingum eins farþega er vísað til PNR-upplýsinga annars farþega).
     12.      Almennar athugasemdir, þ.m.t. allar tiltækar upplýsingar um börn án fylgdar undir 18 ára aldri, svo sem nafn og kyn barnsins, aldur, tungumál, nafn, upplýsingar um forráðamann á brottfararstað og tengsl hans við barnið, upplýsingar um forráðamann á komustað og tengsl hans við barnið og upplýsingar um hvaða ferðaskrifstofa heldur utan um brottför og komu.
     13.      Upplýsingar um farmiða, m.a. númer, útgáfudagsetning, hvort miðinn gildir aðra leiðina eða báðar og sjálfvirk verðvísbending (e. Automated Ticket Fare Quote).
     14.      Sætisnúmer í fari og aðrar upplýsingar um sæti.
     15.      Upplýsingar um sameiginlegt flugnúmer (e. code share information).
     16.      Allar upplýsingar um farangur ferðamanna.
     17.      Fjöldi samferðamanna og nöfn þeirra.
     18.      Allar API-upplýsingar sem flugfélagið safnar (e. Advance Passenger Information).
     19.      Allar breytingar sem verða á upplýsingum sem taldar eru upp í liðum 1–18.
    Allar framangreindar upplýsingar miðast við upplýsingagjöf frá flugfélögum. Við komu skipa sem flytja farþega og ökutæki, sem ferðamenn hyggjast nýta á ferðalögum innanlands, telur tollstjóri mikilvægt að neðangreindum upplýsingum verði einnig safnað:
     1.      Upplýsingar um ökutæki um borð (VEH), þ.e. tegund, lengd og fjöldi.
     2.      Upplýsingar um skráðan eiganda ökutækis.
     3.      Skráningarnúmer ökutækis.

4.20. Tollafgreiddar vörur í tollvörugeymslu.
    Undanfarin missiri hafa tollyfirvöld staðið frammi fyrir nokkrum vanda við beitingu ákvæða 91. og 94. gr. tollalaga þegar sölufyrirtæki hafa sótt um leyfi til rekstrar tollvörugeymslu í eigin vöruhúsum. Í þeim tilvikum hafa sölufyrirtækin yfirleitt í hyggju að geyma ótollafgreiddar vörur og tollafgreiddar á sama svæði innan vöruhúsa sinna og því reynir bæði á ákvæði 91. gr. og 94. gr. tollalaga þegar tekin er afstaða til þess hvort skilyrði rekstrarleyfis séu uppfyllt. Vandi tollyfirvalda kristallast í því að skilyrði fyrir útgáfu leyfis til rekstrar tollvörugeymslu í vörugeymslum sölufyrirtækjanna, þegar ætlunin er að geyma tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými, eru mjög matskennd. Sú staða gerir það að verkum að ófært er að setja skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis sem til lengri tíma litið tryggja að tollstjóra verði mögulegt að viðhafa fullnægjandi tolleftirlit með rekstraraðilum. Til nánari skýringar er rétt að gera grein fyrir ákvæðum 91. og 94. gr. tollalaga og samhengi þeirra.
    Í 91. gr. tollalaga er kveðið á um heimild tollstjóra til að veita leyfi til reksturs tollvörugeymslu í tollhöfn. Við setningu laganna var í 2. málsl. 1. mgr. lagagreinarinnar kveðið á um að slíkt leyfi mætti aðeins veita þeim sem störfuðu í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu en leyfishöfum sjálfum væri óheimilt að geyma þar vörur eða stunda þar aðvinnslu á vörum, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu. Í 94. gr. tollalaga hefur frá setningu laganna verið kveðið á um undanþágu frá þeirri meginreglu tollalaga að óheimilt sé að geyma tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur í sama rými í tollvörugeymslu. Til að slík geymsla sé heimil þurfa tollafgreiddar vörur annars vegar að vera skýrt aðgreindar frá ótollafgreiddum vörum í birgðabókhaldi tollvörugeymslunnar og hins vegar þurfa önnur þau skilyrði að vera uppfyllt sem tollstjóri setur í því skyni að tryggja nauðsynlegt tolleftirlit. Í skýringum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að tollalögum kemur fram að með greininni hafi ætlunin verið að bregðast við breytingum sem orðið höfðu í birgðahaldi sölufyrirtækja vegna tilkomu svokallaðra vöruhótela og stuðla að auknum tækifærum til hagræðingar í starfsemi sölufyrirtækja. Sérstaklega er hins vegar tekið fram að skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt enda sé eftirlit með geymslusvæðum fyrir tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur vandasamara en eftirlit með hefðbundnum geymslusvæðum. Virðist löggjafinn hafa gert ráð fyrir því við setningu tollalaga að tolleftirlit með vöruhótelum yrði strangt.
    Með 5. gr. laga nr. 167/2008 var sú breyting gerð á ákvæðum áðurnefndrar 91. gr. tollalaga að þar var bætt inn heimild fyrir tollstjóra til að víkja frá þeirri meginreglu að leyfi til rekstrar tollvörugeymslu skyldi aðeins veitt þeim sem störfuðu í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem fælist í rekstri tollvörugeymslu. Til að tollstjóra væri heimilt að veita leyfi samkvæmt undanþáguákvæðinu voru þau skilyrði sett að umsækjandi uppfyllti kröfur tollstjóra um fullnægjandi aðstöðu og bókhaldslega aðgreiningu og stæðist áhættumat. Til að sporna við misnotkun var einnig hnykkt á því að með „þeim sem veittu öðrum þjónustu“ í skilningi meginreglunnar væri einnig átt við þá sem veittu öðrum ótengdum aðilum þjónustu.
    Eins og áður segir voru vöruhótel að koma til sögunnar við setningu tollalaga og eðlilegt þótti að sölufyrirtæki fengju notið þess hagræðis sem hlotist gat af því að nýta sér þjónustu þeirra. Á þeim tíma gátu aðeins þeir aðilar fengið leyfi til rekstrar tollvörugeymslu sem störfuðu í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu. Þegar undantekningarákvæði 3. málsl. 1. mgr. 91. gr. tollalaga var bætt við lögin með gildistöku laga nr. 167/2008 varð staðan hins vegar sú að fyrirtæki gátu fengið leyfi til rekstrar tollvörugeymslu óháð því hver tilgangur rekstrarins væri.
    Telja má líklegt að möguleikar sölufyrirtækjanna til hagræðingar aukist fái þau leyfi til rekstrar tollvörugeymslu. Slík leyfisveiting er samrýmanleg þeim rökum sem lágu til grundvallar 94. gr. tollalaga við setningu þeirra. Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 94. gr. tollalaga er mjög matskennt að efni til og því þarf í hverju tilviki að taka tillit til ýmissa sjónarmiða við skýringu þess. Hefur reynst afar erfitt að setja skilyrði samkvæmt ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 94. gr. tollalaga sem eru þess megnug að tryggja fullnægjandi tolleftirlit. Þó svo að e.t.v. megi segja að þau skilyrði sem hafa verið sett á grundvelli ákvæðisins eigi að tryggja viðunandi tolleftirlit með fáum tollvörugeymslum sölufyrirtækja er afar líklegt að vandinn muni magnast til lengri tíma litið ef sölufyrirtækjum sem sækja um leyfi til að reka tollvörugeymslu fjölgar, jafnvel þótt fjölgunin verði óveruleg. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að þær kröfur sem gerðar eru til tollvörugeymsla gera það að verkum að það er helst á færi stærri sölufyrirtækja að uppfylla skilyrði þess að fá að reka tollvörugeymslu. Þá er hluti þess hagræðis sem sölufyrirtæki njóta af því að reka eigin tollvörugeymslu fólgið í því að greiðslum á aðflutningsgjöldum seinkar þar til vara er afgreidd samkvæmt sölupöntun og fjármagnskostnaður þeirra lækkar því að sama skapi. Hin hlið þess er að fjármagnskostnaður færist á ríkið. Samkeppnisstaða stærri fyrirtækja sem reka eigin tollvörugeymslu verður að þessu leyti betri en minni fyrirtækja sem ekki hafa burði til þess að uppfylla skilyrði fyrir rekstri eigin tollvörugeymslu.
    Í ljósi þessa eru lagðar til breytingar á 94. gr. tollalaga. Markmið þeirra er að koma til móts við framangreind sjónarmið og afmarka nánar þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að rekstur tollvörugeymslu verði heimilaður og þá sérstaklega í þeim tilvikum þegar tilgangur rekstrarins er ekki að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri slíkra geymsla. Verði tillagan samþykkt mun tollstjóra aðeins verða heimilt að veita þeim rekstraraðilum tollvörugeymsla heimild til að geyma tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur í sama rými í tollvörugeymslu sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri slíkra geymsla. Samþykkt tillögunnar mun þrengja nokkuð að möguleikum sölufyrirtækja til að reka tollvörugeymslu í eigin vöruhúsi. Á hinn bóginn mun breytingin stuðla að jafnari samkeppnisstöðu slíkra fyrirtækja auk þess sem hún gerir stjórnvöldum betur fært að tryggja skilvirkt og hagkvæmt tolleftirlit með rekstri tollvörugeymsla.

5. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

6. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra.

7. Mat á áhrifum.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Áhrif einstakra tillagna eru þó nokkuð mismunandi og er hér á eftir gerð nánari grein fyrir þeim.
    Gera má ráð fyrir að með breytingum á tryggingagjaldi vegna erlendra launagreiðenda hér á landi kunni tekjur ríkissjóðs að aukast lítillega. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um hversu margir aðilar muni nýta sér heimildina.
    Niðurfelling erfðafjárskatts af gjöfum til góðgerðarmála o.fl. og hækkun hlutfalls frádráttar lögaðila til sömu mála mun lækka tekjur ríkissjóðs eitthvað, en talið er að þau áhrif verði vart meira en 100 millj. kr. Þá mun þrengri skattskylda á erlenda listamenn hafa einhver áhrif til lækkunar og sama gildir um breytingar á rúmmálsreglunni.
    Ákvæði frumvarpsins um skiptingu félaga yfir landamæri, yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag ásamt flutningi á lögheimili eða eignum þess yfir landamæri, ferða- og dvalarkostnað erlendra listamanna og gjalddaga skattkröfu gætu hugsanlega haft einhver áhrif á ríkissjóð, hvort heldur er til hækkunar eða lækkunar á tekjum. Í ljósi þess að fram til þessa hefur ekki reynt á skattlagningu á hagnaði við skiptingu, flutning eða yfirfærslu yfir landamæri hér á landi er engin leið að spá fyrir um áhrif tillagna frumvarpsins á tekjuhlið ríkissjóðs til framtíðar verði þær óbreyttar að lögum.
    Ákvæði frumvarpsins um upplýsingaskipti milli landa, niðurfellingu bankaábyrgðar við samruna yfir landamæri, brottfall afgjaldskvaðarverðmætis og skattlagningu við samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða eru ekki talin leiða til áhrifa á útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Sama á við um þær breytingartillögur frumvarpsins sem snúa að ákvæðum tollalaga.
    Brottfall skattkorta og aukin rafræn framtalsskil ætti að óbreyttu að draga úr kostnaði við skattframkvæmd. Á móti kemur kostnaður við uppfærslu og endurnýjun tölvukerfa hjá skattyfirvöldum sem er bein afleiðing af ýmsum tillögum frumvarpsins. Þegar á heildina er litið ættu samanlögð áhrif að rúmast innan fjárheimilda viðkomandi stofnana verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Áhrif lagasetningarinnar á almannahagsmuni, hagsmunaaðila og stjórnsýslu ríkisins munu ekki verða teljanleg enda að mestu um að ræða leiðréttingar og breytingar á ákvæðum um framkvæmd laganna. Ávinningurinn af samþykkt frumvarpsins verður því mun meiri en hugsanleg neikvæð áhrif, þar sem reglur verða skýrari og gagnsærri sem er til hagsbóta fyrir skattaðila sem og skattyfirvöld.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að rúmmálsregla sú sem m.a. ákvarðar hvort hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis teljist til skattskyldra tekna verði ekki látin gilda þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Verði frumvarpið að lögum mun því skattskylda hagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis til eigin nota aðeins ráðast af tíma eignarhalds, hvort það hafi varað í tvö ár eða skemur.

Um 2. gr.

    Lagt er til að það hlutfall af tekjum af atvinnurekstri, sem ekki má fara yfir við frádrátt einstakra gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, verði hækkað úr 0,5% í 0,75%. Hlutfallið hefur ekki hækkað svo árum skiptir og getur takmarkað möguleika gefanda. Frádráttarákvæðið er afar mikilvægt til öflunar tekna þar sem það hvetur til gjafa. Nánari reglur er að finna í reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir því að ef fyrir hendi er tvísköttunarsamningur eða annar alþjóðasamningur, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningur milli ríkja í tilviki samruna hlutafélaga yfir landamæri, verði ekki gert að skyldu að lögð sé fram bankatrygging í þeim tilvikum þegar félag hefur fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skv. 5. mgr. 51. gr. tekjuskattslaga.

Um 4. gr.

    Millilandaskipting samkvæmt ákvæði þessu tekur einungis til hlutafélaga eða einkahlutafélaga sem heimilisföst eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Gert er að skilyrði að um eiginlegt hlutafélag sé að ræða, þ.e. félag sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð og tekur þannig ekki til annarra félagaforma, svo sem sameignar- eða samlagsfélaga í einni eða annarri mynd. Skv. 1. mgr. skulu eignarhlutir hluthafa í félögum vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í því félagi sem skipt er yfir landamæri. Uppfylla þarf tvö skilyrði, annars vegar þarf algjör skipting eigna, skulda og eigin fjár viðkomandi félaga að eiga sér stað og hins vegar að gagngjald það sem hluthafar í félaginu sem skipt var fá séu eingöngu hlutabréf í þeim félögum sem eignir og skuldir deildust á við skiptin. Í skiptingaráætlun felst samkvæmt íslenskum rétti að félagsstjórnir skiptafélaga gera og undirrita í sameiningu skiptingaráætlun sem geymir upplýsingar þær er fram koma í XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Félög sem staðsett eru í lágskattaríki á Evrópska efnahagssvæðinu falla ekki hér undir nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að þau stundi raunverulega starfsemi.
    Við skiptingu hlutafélags yfir landamæri skal fara með eignir, réttindi, kröfur og skuldbindingar sem eru yfirfærðar í annað félag, sbr. 2. málsl. 3. mgr., sem seldar eða innleystar væru hjá því félagi sem skipt var. Gert er ráð fyrir því að um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu, innlent félag og upplýsingaskyldu skuli ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, gilda með sama hætti um skiptingu yfir landamæri, eftir því sem við á. Það felur einnig í sér að ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli gilda eftir því sem við á um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skatta og gjalda. Hér er m.a. um að ræða útreikninga á gangverði eigna með skiptingaráætlun og þeim skattstofni sem skiptingin hefur í för með sér á því formi sem ríkisskattstóri ákveður. Lagt er til að um óskipta ábyrgð allra þeirra félaga sem taka þátt í skiptum verði að ræða á þeim sköttum sem lagðir eru á við skiptin, en hafi skiptin sem slík í för með sér slit hins upphaflega skipta félags hvílir óskipt ábyrgð á þeim félögum sem við tóku. Eins og í tilfelli samruna yfir landamæri er gert ráð fyrir því að unnt verði að fresta greiðslu skattskuldar um allt að fimm ár. Þá er gert ráð fyrir því að afborgun af höfuðstól skattskuldar skuli eftir skiptinguna nema að lágmarki einum fimmta hluta af hinni frestuðu fjárhæð á hverju tekjuári þar til greitt hefur verið að fullu. Hér er um lágmark að ræða og geta félög greitt hærri fjárhæð kjósi þau það. Gjalddagi er 1. nóvember ár hvert og eindagi er 15 dögum síðar. Dráttarvexti skal reikna í samræmi við 1. mgr. 114. gr. laganna hafi greiðsla ekki farið fram á eindaga. Þá er með tilvísun í 51. gr. laganna einnig gert ráð fyrir því að félag sem fengið hefur frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skuli leggja fram bankatryggingu til tollstjóra ef hin frestaða fjárhæð er umfram 50 millj. kr. og skal bankatrygging tryggja greiðslu höfuðstóls, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Gert er ráð fyrir því að ef fyrir hendi eru tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningar milli ríkja í tilviki skiptingar hlutafélaga yfir landamæri, verði ekki skylt að leggja fram bankatryggingu í þeim tilvikum að félag hafi fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar. Sömu reglur gilda einnig, eftir því sem við á, þegar hið nýja félag er innlent eða um innlent yfirtökufélag er að ræða. Þá eiga ákvæðin um millilandaskiptingu ekki við nema heimild sé fyrir hendi til að afla upplýsinga, þ.e. að Ísland hafi gert tvísköttunarsamning eða upplýsingaskiptasamning við heimilisfestarríki þeirra erlendu félaga sem stofnuð eru eða eru yfirtekin við skiptingu hérlendra félaga, þar sem bærum stjórnvöldum er skylt að láta íslenskum skattyfirvöldum í té nauðsynlegar upplýsingar að því er varðar skatta.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að heimilaður verði samruni verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, sbr. lög nr. 128/2011, án þess að það leiði til skattlagningar fyrir eigendur þeirra sjóða sem slitið er. Fái eigandi hlutdeildarskírteinis einungis jafnvirði þess í hlutdeildarskírteinum í þeim sjóði sem við tekur hefur það því ekki í för með sér skattskyldar tekjur. Þar sem sjóðir þessir eru stofnaðir og reknir af rekstrarfélagi en eru ekki sjálfstæðir lögaðilar eiga þeir sem slíkir hvorki skattaleg réttindi né bera sjálfstæðar skattaréttarlegar skyldur.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á tilvísun í 54. gr. laganna sem leiðir af þeim tillögum sem lagðar eru fram í frumvarpinu.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er gert ráð fyrir því að heimilt verði að einstaklingur í atvinnurekstri stofni einkahlutafélag um rekstur sinn, sem heimilisfast sé í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti. Einkahlutafélagið taki við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins og hafi sú yfirfærsla ekki í för með sér beina skattskyldu tekna fyrir eigandann eða félagið, sbr. það sem síðar segir um brottfararskatt. Stofni einstaklingur í atvinnurekstri á hinn bóginn einkahlutafélag í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a. Þá skal tilkynna yfirfærsluna til hlutafélagaskrár þess ríkis þar sem einkahlutafélagið er heimilisfast.
    Gert er ráð fyrir því að um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu og upplýsingaskyldu skuli ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, gilda með sama hætti um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri, eftir því sem við á. Það felur einnig í sér að ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli gilda eftir því sem við á um framtöl þess einstaklings sem yfirfærir rekstur sinn, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skatta og gjalda. Hér er m.a. um að ræða útreikninga á gangverði eigna og skattstofni á því formi sem ríkisskattstóri ákveður. Eins og í tilfelli samruna yfir landamæri er að breyttu breytanda gert ráð fyrir því að einstaklingi sem stendur að yfirfærslu rekstrar síns verði unnt að fresta greiðslu skattskuldar um allt að fimm ár og að um óskipta ábyrgð á skattgreiðslum sé að ræða. Þá er gert ráð fyrir því að afborgun af höfuðstól skattskuldar skuli eftir skiptinguna nema að lágmarki einum fimmta hluta af hinni frestuðu fjárhæð á hverju tekjuári þar til greitt hefur verið að fullu. Hér er um lágmark að ræða og getur viðkomandi einstaklingur greitt hærri fjárhæð kjósi hann svo. Gjalddagi er 1. nóvember ár hvert og eindagi er 15 dögum síðar. Dráttarvexti skal reikna í samræmi við 1. mgr. 114. gr. laganna hafi greiðsla ekki farið fram á eindaga. Þá er með tilvísun í 51. gr. laganna einnig gert ráð fyrir því að einstaklingur sem fengið hefur frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skuli leggja fram bankatryggingu til tollstjóra ef hin frestaða fjárhæð er umfram 50 millj. kr. og skal bankatrygging tryggja greiðslu höfuðstóls, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Gert er ráð fyrir því að ef fyrir hendi eru tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningar milli ríkja í tilviki skiptingar hlutafélaga yfir landamæri, verði ekki skylt að leggja fram bankatryggingu í þeim tilvikum að einstaklingur hafi fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar. Sömu reglur gilda einnig, eftir því sem við á, þegar hið nýja félag er innlent eða um innlent yfirtökufélag er að ræða. Þá eiga ákvæðin um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri ekki við nema heimild sé fyrir hendi til að afla upplýsinga, þ.e. að Ísland hafi gert tvísköttunarsamning eða upplýsingaskiptasamning við heimilisfestarríki þeirra erlendu félaga sem stofnuð eru eða eru yfirtekin við skiptingu hérlendra félaga, þar sem bærum stjórnvöldum er skylt að láta íslenskum skattyfirvöldum í té nauðsynlegar upplýsingar að því er varðar skatta.

Um 8. gr.

    Með ákvæðinu er gert ráð fyrir því að flytji hlutafélag lögheimili sitt eða eignir til annars aðildarríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda sé það heimilt samkvæmt íslenskri hlutafélagalöggjöf, hafi flutningurinn ekki í för með sér beina skattskyldu fyrir félagið eða eigendur þess. Þess í stað verði eftir atvikum lagður á brottfararskattur. Sé lögheimili eða eignir hlutafélags fluttar til lágskattaríkis á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.
    Gert er ráð fyrir því að um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu og upplýsingaskyldu skuli ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, gilda með sama hætti um flutning á lögheimili hlutafélags eða eigna þess yfir landamæri, eftir því sem við á. Það felur einnig í sér að ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli gilda eftir því sem við á um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skatta og gjalda. Hér er m.a. um að ræða útreikninga á gangverði eigna og skattstofni á því formi sem ríkisskattstóri ákveður. Eins og í tilfelli samruna yfir landamæri, sbr. 51. gr., er gert ráð fyrir því að unnt verði að fresta greiðslu skattskuldar um allt að fimm ár. Þá er gert ráð fyrir því að afborgun af höfuðstól skattskuldar skuli eftir skiptinguna nema að lágmarki einum fimmta hluta af hinni frestuðu fjárhæð á hverju tekjuári þar til greitt hefur verið að fullu. Hér er um lágmark að ræða og geta félög greitt hærri fjárhæð kjósi þau það. Gjalddagi er 1. nóvember ár hvert og eindagi er 15 dögum síðar. Dráttarvexti skal reikna í samræmi við 1. mgr. 114. gr. laganna hafi greiðsla ekki farið fram á eindaga. Þá er með tilvísun í 51. gr. laganna einnig gert ráð fyrir því að félag sem fengið hefur frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skuli leggja fram bankatryggingu til tollstjóra ef hin frestaða fjárhæð er umfram 50 millj. kr. og skal bankatrygging tryggja greiðslu höfuðstóls, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Gert er ráð fyrir því að ef fyrir hendi eru tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningar milli ríkja í tilviki skiptingar hlutafélaga yfir landamæri, verði ekki skylt að leggja fram bankatryggingu í þeim tilvikum að félag hafi fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar. Þá eiga ákvæðin ekki við flutning á heimilisfesti nema heimild sé fyrir hendi til að afla upplýsinga, þ.e. að Ísland hafi gert tvísköttunarsamning eða upplýsingaskiptasamning við heimilisfestarríki þeirra erlendu félaga sem stofnuð eru eða eru yfirtekin við flutning lögheimilis eða eigna hérlendra félaga, þar sem bærum stjórnvöldum er skylt að láta íslenskum skattyfirvöldum í té nauðsynlegar upplýsingar að því er varðar skatta.

Um 9. gr.

    Lagt er til að þau hlunnindi erlendra listamanna, sem felast í greiðslu annarra á ferða- og dvalarkostnaði þeirra, verði ekki talin þeim til tekna.

Um 10. gr.

    Lagt er til að felld verði brott 2. mgr. 1. tölul. 73. gr. laganna þar sem eiganda leigulóðar er talið afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar en leigjanda mismunurinn á fasteignamati og afgjaldskvaðarverðmæti.

Um 11. gr.

    Lagt er til að ríkisskattstjóra verði heimilt að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera með rafrænum hætti, og að málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við á frá og með 1. janúar 2016.

Um 12. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að ríkisskattstjóri geti farið fram á að fjármálafyrirtæki auðkenni reikningshafa og raunverulega eigendur reikninga í þeim gögnum sem óskað er eftir, skv. 92. gr., og mælt er fyrir um í reglugerð sem ráðherra mun setja. Reglugerðinni er ætlað að geyma sams konar reglur og skilyrði og koma fram í samræmdum staðli um upplýsingagjöf, sbr. fylgiskjal I með frumvarpi þessu. Jafnframt er lagt til að í stað orðsins „vexti“ komi orðið „tekjur“ þar sem sú hugtakanotkun er rýmri og tekur til fleiri tegunda tekna. Heimildir ríkisskattstjóra til gagnaöflunar á grundvelli þessa ákvæðis verða þannig ekki eingöngu bundnar við vaxtatekjur af fjármálagerningum heldur nái í raun til hvers kyns tekna sem af slíkum gerningum stafa.
    Lagt er til að bætt verði við nýrri málsgrein við 92. gr. laganna og þannig skerpt á reglugerðarheimild ráðherra. Breytingin miðar að því að veita ráðherra auknar heimildir til að útfæra ákvæði laganna sem varða framkvæmd upplýsingaöflunar og innleiðingu á samræmdum staðli um upplýsingagjöf sem ráðast þarf í til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála, m.a. um framkvæmd áreiðanleikakannana (e. due diligence) en þær reglur er að finna í lögum nr. 64/2006, um peningaþvætti og samræmdum staðli um upplýsingagjöf.

Um 13. gr., c-lið 14. gr., 19. gr. og 21.–23. gr.

    Lagt er til að álagningu einstaklinga verði flýtt og álagning einstaklinga verði birt um mánaðamótin júní/júlí ár hvert í stað loka júlímánaðar. Þá er einnig lagt til að kærufrestur verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga frá dagsetningu auglýsingar um lok álagningar. Talið er heppilegra að kærufrestur sé lengri en nú er kveðið á um þar sem óheppilegt er að lok kærufrests sé á miðju sumarorlofstímabili. Lok kærufrests yrði því í lok ágúst líkt og verið hefur.

Um a-lið 14. gr.

    Lagðar eru til breytingar að því er varðar innheimtu opinberra gjalda. Breytingarnar felast í því að fyrirframgreiðslu þinggjalda og eftirstöðvum þeirra verði skipt þannig niður á gjalddaga að aldrei verði lægri fjárhæð til innheimtu á hverjum gjalddaga en 5.000 kr.

Um b-lið 14. gr.

    Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis, nr. 8140/2014, dags. 10. apríl 2015, er lagt til að ákvörðun um gjalddaga endurákvörðunar opinberra gjalda haldist í hendur við dagsetningu úrskurðar þar um. Viðbótarfjárhæð samkvæmt endurákvörðun fellur í gjalddaga 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra um hækkunina í stað 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina.

Um 15.–17. gr.

    Lagt er til að útgáfu skattkorta verði hætt frá og með 1. janúar 2016 en þess í stað muni ríkisskattstjóri veita upplýsingar um persónuafslátt og nýtingu hans á staðgreiðsluári og hverju launatímabili. Því er gert ráð fyrir að 11., 12. og 13. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda umorðist ásamt fyrirsögnum. Til nánari skýringar vísast í kafla 4.14. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 18. gr.

    Lagt er til að fjármálafyrirtæki, sem hafa leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti, verði undanþegin frá staðgreiðslu af fjármagnstekjum samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, líkt og bankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki.

Um 20. gr.

    Gert er ráð fyrir því að við lög um tryggingagjald bætist nýr kafli um erlenda launagreiðendur tryggingagjalds. Með því að skrá sig á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra er erlendum launagreiðanda gert kleift að greiða tryggingagjald vegna starfsmanna sinna sem heimilisfastir eru hér á landi. Um er að ræða heimild en ekki skyldu enda ekki unnt að skylda erlendan launagreiðanda til að standa skil á greiðslu tryggingagjalds hér á landi nema hann hafi hér fasta starfsstöð eða teljist að öðru leyti innlendur launagreiðandi samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Á hinn bóginn er ekki skylda að greiða tryggingagjald í þeim tilfellum þegar erlendir starfsmenn koma hingað til lands með A-1 (áður E-101) vottorð, er staðfestir að viðkomandi sé almannatryggður í heimalandi sínu. Heimildin og skráningin á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra tekur eingöngu til tryggingagjalds en ekki staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Stofn til tryggingagjalds samkvæmt ákvæðinu er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, skv. 6. gr. laga nr. 113/1990.
    Greiðsla tryggingagjalds samkvæmt ákvæðinu er endanleg greiðsla þess á staðgreiðsluári og kemur því ekki til álagningar og uppgjörs á mismun staðgreiðslu og álagningar síðar.
    Að öðru leyti fer um greiðslutímabil, upplýsingar, eftirlit og viðurlög samkvæmt ákvæðum laganna.

Um 24. gr.

    Lagt er til að gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum verði undanþegnar erfðafjárskatti. Sambærilegt ákvæði var að finna í eldri lögum um erfðafjárskatt en það var fellt brott árið 2004.

Um 25. gr.

    Í frumvarpsgreininni eru lagðar til fimm breytingar á ákvæðum 43. gr. tollalaga. Markmið breytinganna er að eyða þeim vafa sem hefur ríkt um hugtakið tollhöfn og gera ráðherra fært að afmarka tollhafnir með skýrum hætti.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að til tollhafnar teljist svæði, höfn eða flugvöllur verði afmörkun tollhafnar látin ráðast af hnitsetningu sem komi fram í reglugerð. Í lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, er gert ráð fyrir að fasteignaskrá innihaldi hnitsetta afmörkun landa og lóða. Er því gert ráð fyrir að ráðherra afmarki tollhafnir út frá upplýsingum sem m.a. má sækja til Þjóðskrár Íslands.
    Í öðru lagi er lagt til að í stað þess að ráðherra ákveði með reglugerð hvar tollhafnir skuli vera skuli hann afmarka staðsetningu þeirra í reglugerð. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að afmörkunin verði gerð með hnitsetningu, þ.e. að ytri mörk tollhafna verði afmörkuð með hnitum.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á þeim viðmiðum sem ráðherra ber að taka mið af við afmörkun tollhafna. Í stað þess að ráðherra líti eingöngu til þarfa atvinnulífs á viðkomandi stað er gert ráð fyrir að hann líti einnig til þess við afmörkunina að mögulegt verði að viðhafa fullnægjandi tolleftirlit á svæðinu. Með fullnægjandi tolleftirliti er í þessu samhengi átt við eftirlit sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til tolleftirlits lögum samkvæmt að teknu tilliti til krafna um skilvirkni og gæða eftirlits og kostnaðar við það.
    Í fjórða lagi er lagt til að 1. tölul. 3. mgr. 43. gr. falli brott. Þar sem í greininni felst að tenging við hafnir og flugvelli verður ekki lengur til staðar þykir ekki eðlilegt að gera áfram þá kröfu að fullnægjandi aðstaða skuli vera til fermingar og affermingar fara í tollhöfn.
    Í fimmta lagi er lagt til að ráðherra verði heimilað að afturkalla ákvörðun um að tiltekið svæði teljist til tollhafnar ef ljóst þykir að þar verði af einhverjum orsökum ófært að koma fullnægjandi tolleftirliti við, t.d. vegna mikillar fjarlægðar frá starfsstöðvum tollstjóra, af tæknilegum ástæðum eða þar sem sýnt þyki að eftirlitið verði af öðrum ástæðum óvenju umfangsmikið eða kostnaðarsamt.

Um 26. gr.

    Með upplýsingum um farþega í 1. mgr. er átt við hvort tveggja, farþegalista (PNR) og upplýsingar úr vegabréfi farþega (API). Nánar tiltekið er átt við almennar upplýsingar um ferðamenn og ferðir þeirra, svo sem nafn, greiðslumáta, hvenær viðkomandi bókaði farmiða o.s.frv. (sjá upplýsingar sem PNRGOV-staðallinn nær til eins og rakið er í almennum athugasemdum frumvarpsins) en ráðherra ákveður nánari útfærslu og umfang upplýsingagjafarinnar í reglugerð.
    Í greininni er aðeins fjallað um upplýsingar um farþega en rétt er að taka fram að ákvæðið takmarkar ekki skyldu flugfélags til að veita aðrar þær upplýsingar sem flugfélagið býr yfir og hafa þýðingu við tolleftirlit, sbr. 3. mgr. 30. gr. tollalaga.
    Nauðsynlegt er að safna ferðamannaupplýsingum um alla ferðamenn og farmenn sem koma til Íslands eða yfirgefa það til þess að mögulegt verði að standa faglega að áhættugreiningu.
    Undir ákvæðið falla upplýsingar um allar vörur sem fluttar eru til landsins hvort sem þær verða tollafgreiddar eða ekki. Má sem dæmi nefna ökutæki sem ferðamenn flytja með sér til landsins í þeim tilgangi að nota í ferðum um landið.
    Í 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að upplýsingaskylda skv. 1. málsl. 1. mgr. hennar hvíli einnig á stjórnendum, eigendum eða umráðamönnum einkaflugvéla, seglskipa eða annarra fara sem ferðast til og frá Íslandi. Hér er einkum átt við ferðir sem eru tilfallandi en ekki reglubundnar áætlunarferðir sem fyrirtæki standa fyrir. Með ákvæðinu er tekinn af allur vafi um að upplýsingaskyldan hvíli á öllum þeim sem bera ábyrgð á komu fara hingað til lands þrátt fyrir að ferðin sé ekki farin með þann tilgang að leiðarljósi að flytja farþega eða vörur til landsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild tollstjóra, lögreglu og annarra handhafa lögregluvalds til að miðla sín á milli upplýsingum um farþega og áhöfn enda sé um að ræða upplýsingar sem hafa þýðingu vegna greiningarstarfs eða rannsóknar á ætluðum brotum gegn ákvæðum tollalaga og annarra laga sem lögreglu og handhöfum lögregluvalds ber að hafa eftirlit með, greina og rannsaka. Í þágu almannahagsmuna og öryggis borgaranna er mikilvægt að handhafar lögregluvalds geti unnið saman og miðlað upplýsingum sín á milli. Í 3. mgr. 45. gr. tollalaga er mælt fyrir um heimild tollstjóra til að veita lögreglu aðgang að upplýsingum. Þá er í 23. gr. reglugerðar nr. 1212/2007, um för yfir landamæri, mælt svo fyrir að lögregla geti í samráði við önnur yfirvöld ákveðið að stjórnandi loftfars skuli afhenda þeim yfirvöldum skrá yfir farþega og áhöfn. Farþegaupplýsingar eru m.a. skráðar í svokallað G- kerfi sem lögreglan hefur umsjón með en embætti tollstjóra hefur aðgang að. Það horfir til hagræðis fyrir flugfélög að þurfa aðeins að senda upplýsingar á einn stað í hverju landi. Þar sem G-kerfið er samnýtt af tollgæslu og lögreglu er rétt að árétta heimild þeirra til að skiptast á upplýsingum.
    Í 3. mgr. er lagt til að ráðherra verði gert skylt að kveða nánar á um umfang upplýsingaskyldu skv. 1. gr., afhendingu upplýsinga og meðhöndlun tollstjóra á þeim í reglugerð. Er þannig m.a. gert ráð fyrir að ráðherra kveði á um hvaða upplýsingar skuli afhenda, á hvaða formi skuli afhenda þær, hversu oft og hvenær og hvernig fara megi með þær. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra kveði á um hvernig staðið skuli að miðlun upplýsinganna milli tollgæslu og lögreglu og annarra handhafa lögregluvalds.
    Gengið er út frá því að kröfur sem verða gerðar til upplýsingagjafar í reglugerðinni taki mið af kröfum sem koma fram í PRNGOV-staðlinum, PNR-tilskipun Evrópusambandsins og leiðbeinandi reglum WCO, ICAO og IATA. Þó þarf að hafa í huga að alþjóðlegar kröfur til upplýsingagjafar kunna að breytast með tímanum auk þess sem þarfir innlendra tollgæslu geta kallað á frekari breytingar. Þá er að ákveðnu leyti óljóst hvaða kröfur muni verða gerðar til upplýsinga í tilskipun Evrópusambandsins um farþegalista. Þrátt fyrir að tilteknar upplýsingar sem rætur eiga að rekja til PRNGOV-staðalsins séu tíundaðar í almennum athugasemdum frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra geti kveðið á um aðra og ríkari upplýsingagjöf í reglugerðinni reynist það nauðsynlegt með tilliti til innlendra og erlendra krafna til eftirlits, greiningarstarfs og rannsókna tollstjóra og lögreglu. Hvað tíðni upplýsingagjafar varðar er rétt að taka mið af því hvenær raunveruleg þörf fyrir upplýsingarnar skapast og að samræmis sé gætt við kröfur sem eru gerðar í öðrum ríkjum.
    Í reglugerðinni þarf ráðherra að taka afstöðu til þess hve lengi megi geyma upplýsingarnar. Ráðherra er rétt að hafa hliðsjón af því hversu lengi er nauðsynlegt að geyma upplýsingarnar með tilliti til notkunar þeirra við eftirlit, greiningarstarf og rannsóknir tollstjóra og lögreglu. Farþegalista með persónurekjanlegum upplýsingum skal ekki varðveita lengur en nauðsyn ber til en almennt er gengið út frá því að frestir til að eyða slíkum upplýsingum fari ekki yfir tvö ár. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að líta til ákvæða laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga við reglugerðarsmíðina en gert er ráð fyrir að ráðherra óski álits Persónuverndar á ákvæðum reglugerðarinnar fyrir setningu hennar.
    Við reglugerðarsmíðina er ráðherra rétt að ganga út frá því að upplýsingarnar verði aðeins aðgengilegar þeim starfsmönnum tollstjóra og lögreglu sem nauðsynlegt er að hafi aðgang að þeim og upplýsingum verði ekki flett upp eða upplýsingakerfið notað nema þegar það reynist nauðsynlegt. Ekki er gert ráð fyrir að upplýsingaskyld fyrirtæki sendi tollstjóra viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, heldur aðeins almennar persónuupplýsingar sem PNRGOV- staðallinn nær til eins og getið er um í almennum athugasemdum. Með reglugerðinni skal stefnt að því að tryggja stjórnvöldum aðgang að þeim upplýsingum sem þörf er á vegna eftirlits og greiningarstarfa en gæta þess jafnframt að ekki séu gerðar kröfur um afhendingu upplýsinga sem ekki geta talist nauðsynlegar. Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á því að skv. 2. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, fer Persónuvernd með eftirlit með því að farið sé að lögum og öðrum reglum um vinnslu persónuupplýsinga og að bætt sé úr annmörkum og mistökum.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. 94. gr. tollalaga er efnislega kveðið á um að tollstjóri geti ákveðið, að fenginni umsókn leyfishafa tollvörugeymslu, að heimila geymslu tollafgreiddra og ótollafgreiddra vara í sama rými í tollvörugeymslu að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lagt er til að heimildin verði þrengd á þann hátt að tollstjóra verði aðeins mögulegt að veita slíka heimild þeim sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 91. gr. tollalaga. Breytingunni er ætlað að draga úr vafa og vandkvæðum sem undantekningarákvæði 3. málsl. 1. mgr. 91. gr. tollalaga mun leiða af sér til framtíðar litið. Um nánari skýringu vísast til almennra athugasemda frumvarpsins.

Um 28. gr.

    Nauðsynlegt þykir að tollstjóri hafi heimild til að beita fyrirtæki, stjórnendur, eigendur og umráðamenn einkaflugvéla, seglskipa eða annarra fara stjórnsýsluviðurlögum svo mögulegt verði að knýja þessa aðila til að sinna upplýsingagjöf eins og þeim verður skylt að gera samkvæmt ákvæðum 1., sbr. 3. mgr. 51. gr. a. Sú nauðsyn helgast m.a. af því að viðurlögunum er ætlað að stuðla að tímanlegri afhendingu upplýsinga enda er gildi þeirra mest fyrir eða við komu fara. Hefðbundin þvingunarúrræði stjórnvalda stuðla hins vegar ekki nægilega að tímanlegri afhendingu. Tekið skal þó fram að upplýsingar sem berast eftir komu fara hafa eigi að síður umtalsvert gildi, t.d. við greiningarstarf og rannsókn.
    Með viðurlagaákvæðinu er ekki dregið úr heimildum tollstjóra til að beita öðrum aðferðum til að knýja upplýsingaskil fram, t.d. með því að heimila ekki affermingu fars fyrr en farþegalistum hefur verið skilað, sbr. 61. gr. laganna, og að raða flugförum í samráði við flugvallarstjóra með tilliti til þeirrar áhættu sem af flugfarinu stafar, sbr. 54. og 165. gr. laganna.
    Við útfærslu ákvæðisins var m.a. höfð hliðsjón af 62. gr. efnalaga, nr. 61/2013, og 97. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi.

Um 29. gr.

    Verði 27. gr. frumvarpsins samþykkt mun tollstjóra ekki verða heimilt að veita öðrum leyfishöfum tollvörugeymslu leyfi til að geyma tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými í tollvörugeymslu en þeim sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu. Til að skýra stöðu þeirra sem tollstjóri hefur þegar veitt slíkt leyfi eða notið hafa slíkrar heimildar frá því fyrir gildistöku tollalaga, nr. 88/2005, er lagt til að kveðið verði á um hana í ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt því verður slíkum aðilum áfram heimil geymslan eftir gildistöku laganna, óháð því hvort þeir starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu, svo fremi sem þeir teljist uppfylla skilyrði annarra ákvæða 94. gr. laganna.

Um 30. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Efnahags- og framfarastofnunin:

Samræmdur staðall um upplýsingagjöf og áreiðanleikakannanir vegna upplýsinga um fjárhagsreikninga.


I. hluti: Almennar kröfur um upplýsingagjöf

    A.    Með hliðsjón af liðum C til F, skulu tilkynningarskyldar fjármálastofnanir veita eftirfarandi upplýsingar vegna allra tilkynningarskyldra reikninga í sinni vörslu:

        1.    nafn, heimilisfang, heimilisfestarríki, kennitölu eða skattkennitölu (Taxpayer Identification Number:TIN) ásamt fæðingardegi og fæðingarstað (þegar um einstakling er að ræða) vegna allra tilkynningarskyldra aðila sem eru handhafar að slíkum reikningi og þegar um lögaðila er að ræða sem er handhafi slíks reiknings og sem, samkvæmt áreiðanleikakönnun í samræmi við V, VI og VII hluta, eru auðkenndur með einn eða fleiri ráðandi aðila sem tilkynningarskyldan aðila, nafn, heimilisfang, heimilisfestarríki, kennitölu eða skattkennitölu (Taxpayer Identification Number: TIN) ásamt fæðingardegi og fæðingarstað allra tilkynningarskyldra aðila;

        2.     reikningsnúmer (eða virkt ígildi þess sé reikningsnúmer ekki til);

         3.    nafn og kennitölu (ef til staðar) viðkomandi tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar;

         4.    reikningsstaða eða virði (þ.m.t. í tilviki vátryggingarsamninga að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamninga, peningavirði eða endurkaupsvirði) við lok viðeigandi almanaksárs eða annars viðeigandi reikningsskilatímabils eða, hafi reikningnum verið lokað á fyrrnefndu ári eða tímabils, við lokun reikningsins;

         5.    ef um aðra vörslureikninga er að ræða:

              a)    verg heildarfjárhæð vaxta, verg heildarfjárhæð arðs og verg heildarfjárhæð annarra tekna sem myndast vegna þeirra eigna sem viðkomandi reikningur hefur að geyma og í hverju tilviki eru greiddar eða færðar sem tekjur inn á reikninginn (eða með tilliti til reikningsins) á viðeigandi almanaksári eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili; og

              b)    vergur heildarafrakstur af sölu eða innlausn eignar sem er greiddur eða færður sem tekjur inn á reikninginn á viðeigandi almanaksári eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili, þ.e. vergur heildarafrakstur sem viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun hafði til meðferðar sem vörsluaðili, miðlari, tilnefndur aðili eða sem umboðsaðili, með öðrum hætti, fyrir viðkomandi reikningshafa;

         6.    ef um ræðir innlánsreikninga, verg heildarfjárhæð vaxta greidd eða færð sem tekjur inn á reikninginn á viðeigandi almanaksári eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili: og

         7.    ef um er að ræða reikninga, sem er ekki lýst í 5. eða 6. tölul. A-liðar, heildarfjárhæð vaxta sem er greidd viðkomandi reikningshafa eða færð honum til tekna að því er viðeigandi reikning varðar á viðeigandi almanaksári eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili, þ.e. að því er þann reikning varðar sem viðkomandi íslensk tilkynningarskyld fjármálastofnun er loforðsgjafi eða skuldari vegna, þar með talin samanlögð fjárhæð innlausnargreiðslna til reikningshafans á viðeigandi almanaksári eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili.

    B.    Tilgreina skal í veittum upplýsingum mynt allra fjárhæða.

    C.     Þrátt fyrir 1. tölul. A-liðar, að því er varðar tilkynningarskylda reikninga sem eru eldri reikningar, er þess ekki krafist að kennitala (TIN) eða fæðingardagur séu tilgreind ef þær upplýsingar er ekki að finna í gögnum tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar og þess er að öðru leyti ekki krafist að upplýsinganna sé aflað af slíkri tilkynningarskyldri fjármálastofnun skv. innlendum rétti. Þó er tilkynningarskyldri fjármálastofnun skylt að nota réttmæta fyrirhöfn til að afla kennitölu og fæðingardags að því er varðar eldri reikninga fyrir lok annars almanaksárs á því árin sem fylgir á eftir því ári sem slíkir reikningar voru auðkenndir sem tilkynningarskyldir reikningar.

    D.     Þrátt fyrir 1. tölul. A-liðar, er þess ekki krafist að tilgreina kennitölu (TIN) ef (i) kennitala er ekki gefin út af viðkomandi tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi eða (ii) ef innlendur réttur í viðkomandi tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi krefst þess ekki að kennitölur sem gefnar eru út í því lögsagnarumdæmi sé safnað saman.

    E.     Þrátt fyrir 1. tölul. A-liðar, er þess ekki krafist að tilgreina fæðingarstað nema tilkynningarskyld fjármálastofnun sé að öðru leyti skyldug til að afla og tilkynna um hann skv. innlendum rétti og að unnt sé að afla upplýsinganna rafrænt í gagnakerfum sem viðhaldið er af hinni tilkynningarskyldu fjármálastofnun.

    F.    Þrátt fyrir A-lið, eru upplýsingarnar sem tilgreina þarf með hliðsjón af (xxxx) þær sem lýst er í þeim lið, að undanskildum heildarafrakstri sem lýst er í b) 5 tölul. A-liðar.

II. hluti: Almennar kröfur um áreiðanleikakönnun

    A.    Farið er með reikning sem tilkynningarskyldan reikning frá þeim tíma sem hann er auðkenndur sem slíkur að undangenginni áreiðanleikakönnun eins og lýst er í II. til VII. hluta og, nema annað sé tekið fram, skal tilkynna árlega á því almanaksári sem fylgir næst á eftir því ári sem upplýsinganna er aflað.

    B.    Staða eða verðmæti reiknings skal ákvarðað frá síðasta degi almanaksárs eða annars viðeigandi reikningsskilatímabils.

    C.    Þegar ákvarða á stöðu eða viðmiðunarfjárhæð frá síðasta degi almanaksárs, skal ákvarða viðeigandi stöðu eða verðmæti frá síðasta degi reikningsskilatímabils sem lýkur á eða innan þess almanaksárs.

    D.    Hvert lögsagnarumdæmi getur heimilað tilkynningarskyldum fjármálastofnunum að nota þjónustuveitendur í því skyni að uppfylla kröfur um tilkynningarskyldu og áreiðanleikakannanir sem lagðar eru á slíkar tilkynningarskyldar fjármálastofnanir, að því marki sem innlend löggjöf heimilar, en ábyrgð vegna þessara krafna hvílir á tilkynningarskyldu fjármálastofnununum.

    E.    Hvert lögsagnarumdæmi getur heimilað tilkynningarskyldum fjármálastofnunum að beita málsmeðferð áreiðanleikakannana vegna nýrra reikninga á eldri reikninga og málsmeðferð áreiðanleikakannana vegna reikninga að hærra verðmæti á reikninga að lægra verðmæti. Þar sem lögsagnarumdæmi heimilar notkun áreiðanleikakannana vegna nýrra reikninga á eldri reikninga, gilda samt sem áður aðrar reglur um eldri reikninga.

III. hluti Áreiðanleikakannanir vegna eldri reikninga einstaklinga

    Eftirfarandi verklagi skal beitt þegar auðkenna þarf tilkynningarskylda reikninga hjá eldri reikningum einstaklinga.

    A.     Reikningar sem ekki þarf að yfirfara, auðkenna eða tilkynna um.
        Eldri reikning einstaklings, sem er vátryggingarsamningur að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamningur, þarf ekki að yfirfara, auðkenna eða tilkynna um, að því tilskildu að með lögum sé komið með skilvirkum hætti í veg fyrir sölu tilkynningarskyldra fjármálastofnun á slíkum samningum til aðila með heimilisfesti í lögsagnarumdæminu.

    B.     Reikningar að lægra verðmæti. Eftirfarandi verklagi skal beitt að því er varðar reikninga að lægra verðmæti.

        1. Heimilisfang. Ef tilkynningarskyld fjármálastofnun hefur í skrám sínum núverandi heimilisfang reikningshafa sem byggir á skriflegum gögnum, er tilkynningarskyldri fjármálastofnun heimilt að fara með reikningshafa, sem er einstaklingur, sem heimilisfastan í skattalegu tilliti í því lögsagnarumdæmi þar sem heimilisfangið er, í því skyni að ákvarða hvort slíkur einstaklingur, sem er reikningshafi, er tilkynningarskyldur aðili.

        2. Rafræn leit. Ef tilkynningarskyld fjármálastofnun byggir núverandi heimilisfang reikningshafa ekki á skriflegum gögnum eins og lagt er fyrir um í 1. tölul. B-liðs, skal tilkynningarskyld fjármálastofnun yfirfara rafrænt leitarbær gögn sem hún viðheldur að því er varðar sérhverjar eftirfarandi vísbendingar og beita ákvæðum 3. til 6. tölul. B-liðar:

              a)    staðfesting á að reikningshafi sé heimilisfastur í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi;

              b)    núverandi póstfang eða heimilisfang (þ.m.t. pósthólf) í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi;

              c)    eitt eða fleiri símanúmer í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi og ekkert símanúmer í lögsagnarumdæmi sem tilkynnir;

              d)    gildandi fyrirmæli um að millifæra fjárhæðir yfir á reikninga (annarra en innlánsreikninga) sem viðhaldið er í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi;

              e)    núverandi umboð sem er í gildi eða heimild til undirritunar sem veitt er einstaklingi með heimilisfang í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi;

              f)    „varðveislupóstfang“ eða „berist-til“ er eina póstfang reikningshafans í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi sem tilkynningarskyld fjármálastofnunin hefur á skrá um viðkomandi reikningshafa.

         3.    Ef engin af þeim vísbendingum, sbr. 2. tölul. B-liðar, koma fram við rafræna leit er frekari aðgerða ekki þörf fyrr en aðstæður hafa breyst með þeim afleiðingum að ein eða fleiri vísbendingar koma fram sem tengjast reikningnum eða ef reikningurinn verður reikningur að hærra verðmæti.

         4.    Ef einhverjar þeirra vísbendinga, sem taldar eru upp í a) til e) lið 2. tölul. B-liðar, koma fram við rafræna leit eða ef aðstæður breytast með þeim afleiðingum að ein eða fleiri vísbendingar koma fram sem tengjast reikningnum, þá skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun fara með reikningseiganda sem hann væri heimilisfastur í skattalegu tilliti í því lögsagnarumdæmi sem vísbending bendir til, nema það kjósi að beita 6. tölul. B-liðar og ein þeirra undantekninga sem er að finna í undirgrein þeirrar málsgreinar gildi um þann reikning.

         5.    ef að „varðveislupóstfang“ eða „berist-til“ kemur fram við rafræna leit og ekkert annað póstfang eða aðrar vísbendingar sem taldar er upp í a) til e) lið 2. tölul. B-liðar sem auðkenna reikningseiganda, verður tilkynningarskyld fjármálastofnun, með þeim hætti sem telst viðeigandi miðað við aðstæður, að beita aðferðum leitar vegna pappírsfærslna eins og þeim er lýst í 2. tölulið C-liðar, eða reyna að afla yfirlýsingar reikningshafa eða skriflegra sönnunargagna í því skyni að staðfesta skattalegt heimilisfesti reikningseiganda. Ef leit pappírsfærslna leiðir ekki til vísbendinga eða ekki tekst að afla yfirlýsingar frá reikningshafa eða skriflegra sönnunargagna verður tilkynningarskyld fjármálastofnun að tilkynna reikninginn sem óskráðan reikning.

         6.    Þrátt fyrir að vísbendingar finnist skv. 2. tölul. B-liðar þarf tilkynningarskyld fjármálastofnun ekki að fara með reikningseiganda sem heimilisfastan í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi:

              a)    þegar upplýsingar um reikningseiganda hafa að geyma núverandi póstfang eða heimilisfang í tilkynningarskylda lögsagnarumdæminu, eitt eða fleiri símanúmer í tilkynningarskylda lögsagnarumdæminu (og ekkert símanúmer í lögsagnarumdæmi tilkynningarskyldu fjármálastofnunarinnar) eða gildandi fyrirmæli um að millifæra fjárhæðir yfir á reikninga (annarra en innlánsreikninga) sem viðhaldið er í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi, og tilkynningarskyld fjármálastofnun aflar eða hefur áður yfirfarið og viðhaldið slíkum gögnum:
    
                   i)    yfirlýsingu reikningshafa um það eða þau lögsagnarumdæmi þar sem reikningshafinn er heimilisfastur sem ekki inniheldur viðkomandi lögsagnarumdæmi; og

                   ii)    skrifleg sönnunargögn sem staðfesta að reikningshafinn er ekki tilkynningarskyldur.

              b)    þegar upplýsingar reikningshafa hafa að geyma umboð sem er í gildi eða heimild til undirritunar sem veitt er einstaklingi með heimilisfang í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi og tilkynningarskyld fjármálastofnun aflar eða hefur áður yfirfarið og viðhaldið slíkum gögnum:

                   i)    yfirlýsingu reikningshafa um það eða þau lögsagnarumdæmi þar sem reikningshafinn er heimilisfastur sem ekki inniheldur viðkomandi lögsagnarumdæmi; og

                   ii)    skrifleg sönnunargögn sem staðfesta að reikningshafinn er ekki tilkynningarskyldur.

    C.      Viðbótarreglur vegna reikninga að hærra verðmæti. Eftirfarandi verklagi skal beitt að því er varðar reikninga að hærra verðmæti.
    
         1.     Rafræn leit. Að því er varðar reikninga sem eru að hærra verðmæti skal tilkynningarskyld fjármálastofnun yfirfara rafrænt leitarbær gögn sem hún viðheldur að því er varðar sérhverjar eftirfarandi vísbendingar sem lýst er í 2. mgr. B-liðar.

         2.     Leit í skrám á pappírsformi. Ef leitarbærir rafrænir gagnagrunnar viðkomandi tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar hafa að geyma reiti fyrir, og ná til allra þeirra upplýsinga sem lýst er í 3. mgr. C-liðar, þá er frekari leit í skrám á pappírformi ekki nauðsynleg. Ef hinir rafrænu gagnagrunnar ná ekki til allra þessara upplýsinga, þá skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun einnig yfirfara, að því er varðar reikning að hærra verðmæti, gildandi grunnskrá viðskiptavinar og, að því marki sem þau eru ekki til staðar í gildandi grunnskrá viðskiptavinar, eftirfarandi gögn sem tengjast reikningnum og viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun hefur aflað á síðustu fimm árum vegna allra þeirra vísbendinga sem lýst er í 2. mgr. B-liðar:

              a)    nýjustu skriflegu sönnunargögnin sem safnað hefur verið viðvíkjandi reikningnum;

              b)    nýjasta samninginn eða nýjustu gögn um opnum reiknings;

              c)    nýjustu gögn sem viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun hefur aflað í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures 1 ) eða í öðru eftirlitsskyni;

              d)    sérhvert núgildandi form umboðs eða heimildar til undirritunar; og

              e)    öll núgildandi fyrirmæli (annarra en innlánsreikninga) um að millifæra fjármuni.

         3.     Undantekningar þegar gagnagrunnar innihalda fullnægjandi upplýsingar. Tilkynningarskyld fjármálastofnun þarf ekki að framkvæma þá leit í skrám á pappírsformi sem lýst er í 2. mgr. C-liðar ef þær upplýsingar, sem eru rafrænt leitarbærar og viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun hefur undir höndum, hafa að geyma eftirfarandi:

              a)    heimilisfesti reikningshafa;

              b)    heimilisfang og póstfang reikningshafa sem er á skrá hjá viðkomandi tilkynningarskyldri fjármálastofnun;

              c)    símanúmer reikningshafa sem er á skrá, ef þau eru einhver, hjá viðkomandi tilkynningarskyldri fjármálastofnun;

              d)    hvort gildandi fyrirmæli eru fyrir hendi um að millifæra fjármuni á reikningi yfir á annan reikning (m.a. reikning í öðru útibúi viðkomandi tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar eða í annarri fjármálastofnun);

              e)    hvort gildandi „berist-til“ póstfang eða varðveislupóstfang sé fyrir hendi fyrir reikningshafann; og

              f)    hvort fyrirfinnist einhver umboð eða heimildir til undirritunar að því er varðar reikninginn.

         4.     Eftirgrennslan um raunverulega vitneskju þjónustufulltrúa. Til viðbótar við rafræna leit og leit í skrám á pappírsformi, sem er lýst hér að framan, verður viðkomandi tilkynningarskyld fjármálstofnun að fara með sérhvern reikning að hærra verðmæti, sem þjónustufulltrúi hefur umsjón með, sem tilkynningarskyldan reikning (þ.m.t. fjárhagsreikninga sem eru lagðir saman við slíka reikninga að hærra verðmæti), ef þjónustufulltrúinn hefur raunverulega vitneskju um að reikningshafinn sé tilkynningarskyldur aðili.

         5.     Áhrif þess að finna vísbendingar.

              a)    Ef engin þeirra vísbendinga sem eru skráðar í 2. mgr. B-liðar koma fram með aukinni yfirferð reikninga að hærra verðmæti, sem er lýst hér að framan, og viðkomandi reikningur reynist ekki vera í höndum tilkynningarskylds aðila er um getur í 4. mgr. C-lið, þá er ekki frekari aðgerða þörf fyrr en aðstæður hafa breyst með þeim afleiðingum að ein eða fleiri vísbendingar koma fram sem tengjast reikningnum.

              b)     Ef einhverjar þeirra vísbendinga sem eru taldar upp í a) til e) lið 2. mgr. B-liðar, koma fram við aukna yfirferð reikninga að hærra verðmæti, sem er lýst hér að framan, eða ef aðstæður breytast síðar með þeim afleiðingum að ein eða fleiri vísbendingar koma fram sem tengjast reikningnum, þá skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning, að því er varðar hvert tilkynningarskylt lögsagnarumdæmi þar sem vísbending kemur fram, nema hún kjósi að beita ákvæðum 6. mgr. B-liðar og ein þeirra undantekninga sem er að finna í slíkri málsgrein gildi um þann reikning.

              c)    ef að „berist-til“ eða varðveislupóstfang kemur fram við aukna yfirferð reikninga að hærra verðmæti, sem er lýst hér að framan, og ekkert annað heimilisfang eða engar aðrar vísbendingar koma fram sem eru taldar upp í a) til e) lið 2. mgr. B-liðar sem tengjast reikningshafanum, skal tilkynningarskyld fjármálastofnun afla yfirlýsingar frá reikningshafanum eða skjalfest sönnunargögn sem staðfesta skattskylda heimilisfesti reikningshafa. Geti viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun ekki aflað slíkrar yfirlýsingar eða skjalfest sönnunargögn, verður hún að tilkynna reikninginn sem óstaðfestan reikning.

         6.    Ef eldri reikningur einstaklings er ekki reikningur að hærra verðmæti miðað við 31. desember xxxx, en verður reikningur að hærra verðmæti á síðasta degi eftirfarandi almanaksárs, verður viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun að ljúka aukinni yfirferð, sem er lýst í C-lið að því er slíkan reikning varðar, innan sex mánaða frá síðasta degi þess almanaksárs þegar reikningurinn verður reikningur að hærra verðmæti. Ef slíkur reikningur er auðkenndur sem tilkynningarskyldur reikningur, á grundvelli fyrrnefndrar yfirferðar, verður viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun að tilkynna nauðsynlegar upplýsingar um slíkan reikning, að því er varðar það ár þegar bent er á að hann sé auðkenndur sem tilkynningarskyldur reikningur og eftirfarandi ár hvert og eitt, nema reikningshafinn hætti að vera tilkynningarskyldur aðili.

         7.    Þegar tilkynningarskyld fjármálastofnun vinnur aukna yfirferð, sem er lýst í C-lið, vegna reiknings að hærra verðmæti, þarf viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun ekki að vinna slíka yfirferð aftur, aðra en eftirgrennslan þjónustufulltrúa, sem lýst er í 4. mgr. C-lið, vegna sama reiknings að hærra verðmæti á hverju ári eftir það nema að reikningurinn sé óstaðfestur þá skal tilkynningarskyld fjármálastofnun endurtaka slíka eftirgrennslan árlega þar til slíkur reikningur hættir að vera óstaðfestur.

         8.    Ef aðstæður breytast að því er varðar reikning að hærra verðmæti með þeim afleiðingum að ein eða fleiri vísbendingar, sem lýst er í 2. mgr. B-liðar, tengjast reikningnum, þá skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning, að því er varðar hvert tilkynningarskylt lögsagnarumdæmi þar sem vísbending kemur fram, nema hún kjósi að beita ákvæðum 6. mgr. B-liðar og ein þeirra undantekninga sem er að finna í slíkri undirgrein gildi um þann reikning.

         9.    Tilkynningarskyld fjármálastofnun verður að innleiða verklagsreglur sem tryggja að þjónustufulltrúi geti bent á allar breytingar á aðstæðum sem varða tiltekinn reikning. Sem dæmi, ef þjónustufulltrúi fær tilkynningu um að viðkomandi reikningshafi hafi nýtt póstfang í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi, skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun líta á hið nýja póstfang sem breytingu á aðstæðum og skal, kjósi hún að beita 6. mgr. B-liðar, afla allra viðeigandi gagna frá reikningshafanum.

    D.     Yfirferð á eldri reikningum einstaklinga skal vera lokið eigi síðar en xx.xx.xxxx

    E.    Alla eldri reikninga einstaklinga sem hafa verið auðkenndir sem tilkynningarskyldir reikningar samkvæmt þessum hluta skal meðhöndla sem tilkynningarskylda reikninga á hverju ári eftir það, nema að reikningshafinn hætti að vera tilkynningarskyldur aðili.

IV. hluti: Áreiðanleikakannanir vegna nýrra reikninga einstaklinga

    Eftirfarandi málsmeðferð gildir um auðkenningu á tilkynningarskyldum reikningum meðal nýrra fjárhagsreikninga einstaklinga.

    A.    Viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun skal, að því er varðar nýja reikninga einstaklinga, afla yfirlýsingar reikningshafa sem getur verið meðal þeirra gagna er varða opnun reikningsins og gerir viðkomandi tilkynningarskyldri fjármálastofnun kleift að ákvarða skattalega heimilisfesti reikningshafa og að staðfesta réttmæti slíkrar yfirlýsingar reikningshafa á grundvelli þeirra upplýsinga sem viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun aflar í tengslum við opnun reikningsins, m.a. gagna sem er safnað saman í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures).

    B.    Komi fram í yfirlýsingu reikningshafa staðfesting á því að reikningshafinn sé með skattalega heimilisfesti í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning og yfirlýsing reikningshafa skal einnig innihalda skattkennitölu reikningshafans með hliðsjón af slíku tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi (sbr. D-lið í I. hluta) auk fæðingardags.

    C.    Ef aðstæður breytast að því er varðar nýjan reikning einstaklings sem veldur því að viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun veit, eða hefur ástæðu til að ætla, að upprunaleg yfirlýsing reikningshafans er röng eða óáreiðanleg, getur viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun ekki byggt á hinni upprunalegu yfirlýsingu reikningshafa og verður að afla sér gildrar yfirlýsingar reikningshafans sem staðfestir skattalega heimilisfesti reikningshafans.

V. hluti: Áreiðanleikakannanir vegna eldri reikninga lögaðila

    Eftirfarandi málsmeðferð gildir um auðkenningu tilkynningarskyldra reikninga meðal eldri reikninga lögaðila.

    A.     Reikningar lögaðila sem ekki þarf að yfirfara, auðkenna eða tilkynna um. Að því frátöldu að viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun kjósi annað, annað hvort að því er varðar alla eldri reikninga lögaðila eða út af fyrir sig fyrir hvern greinilega auðkenndan hóp slíkra reikninga, er þess ekki krafist að eldri reikningur lögaðila, þar sem staðan eða verðmætið er ekki umfram 250.000 Bandaríkjadali miðað við 31. desember (XXXX), sé yfirfarinn, hann auðkenndur eða tilkynnt um hann sem tilkynningarskyldan reikning fyrr en heildarstaðan á reikningum eða verðmætið fer yfir 250.000 Bandaríkjadali miðað við síðasta dag ársins á einhverju öðru eftirfarandi almanaksári.

    B.     Reikningar lögaðila sem skal yfirfara. Yfirfara skal, í samræmi við þá málsmeðferð sem sett er fram í D-lið í þessum kafla, eldri reikninga lögaðila, sem hafa stöðu eða verðmæti umfram 250.000 Bandaríkjadali miðað við 31. desember xxxx, og eldri reikninga lögaðila sem eru ekki umfram 250.000 Bandaríkjadali miðað við 31. desember xxxx, en heildarstaða þeirra eða verðmæti er yfir 250.000 Bandaríkjadali miðað við síðasta degi ársins á einhverju öðru eftirfarandi almanaksári.

    C.     Reikningar lögaðila með hliðsjón af því hvers konar tilkynninga er krafist. Að því er varðar eldri reikninga lögaðila, sem er lýst í B-lið í þessum kafla, skulu einungis þeir reikningar hljóta meðferð sem tilkynningarskyldir reikningar sem eru í eigu eins aðila eða fleiri sem eru tilkynningarskyldir aðilar eða eru óvirkir lögaðilar sem ekki eru fjármálastofnanir sem hafa einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar.

    D.     Yfirferð til þess að auðkenna reikninga lögaðila sem skal tilkynna um. Að því er varðar eldri reikninga lögaðila, sem er lýst í B-lið í þessum kafla, skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun beita eftirfarandi málsmeðferð við yfirferð í því skyni að ákvarða hvort viðkomandi reikningur sé í höndum eins eða fleiri tilkynningarskyldra aðila, eða í höndum óvirkra lögaðila sem ekki eru fjármálastofnanir sem hafa einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar:

         1.     Ákvarða hvort viðkomandi aðili sé tilkynningarskyldur aðili.

              a)    Yfirfara upplýsingar, sem er viðhaldið í eftirlitsskyni eða vegna tengsla viðskiptavina (þ.m.t. upplýsingar sem er safnað í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini AML/KYC Procedures) til þess að ákvarða hvort upplýsingarnar gefi til kynna að reikningshafinn sé heimilisfastur í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi. Að því er varðar þau atriði sem fram koma í upplýsingum sem gefa til kynna að reikningshafinn sé heimilisfastur í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi, eru hvar reikningshafinn er stofnsettur eða skipulagður eða hvert heimilisfang hans er í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi.

              b)    Ef upplýsingarnar gefa til kynna að reikningshafinn sé tilkynningarskyldur aðili skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning, nema hún afli yfirlýsingar frá reikningshafanum eða ákvarði, með réttmætum hætti á grundvelli upplýsinga sem hún hefur undir höndum eða sem eru öllum aðgengilegar, að reikningshafinn sé ekki tilkynningarskyldur aðili.

         2.     Ákvarða hvort reikningur sé í höndum höndum óvirks lögaðila sem ekki er fjármálastofnun sem hefur einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar. Að því er varðar reikningshafa, sem er handhafi eldri reiknings lögaðila (þ.m.t. lögaðila sem er tilkynningarskyldur aðili) skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun ákveða hvort reikningshafinn sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun sem hefur einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar. Ef einhver hinna stjórnandi aðila í óvirkum lögaðila sem ekki er fjármálastofnun er tilkynningarskyldur aðili, skal fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning. Þegar þetta er ákvarðað skal tilkynningarskyld fjármálastofnun fylgja þeim leiðbeiningum sem kveðið er á um í a) til c) liðar 2. mgr. D-liðar, í þeirri röð sem best á við hverju sinni.

              a)     Ákvarða hvort reikningshafi sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun. Viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun skal, í því skyni að ákvarða hvort reikningshafi sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun, afla sér yfirlýsingar frá reikningshafanum til þess að staðfesta stöðu hans, nema hún geti með réttmætum hætti ákvarðað, á grundvelli upplýsinga sem hún hefur undir höndum eða upplýsinga sem eru öllum aðgengilegar, að reikningshafinn sé virkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun eða fjármálastofnun önnur en fjárfestingaraðili eins og lýst er í b) lið 6. mgr. A-lið í VIII hluta sem er ekki þátttakandi fjármálastofnun í lögsagnarumdæmi.

              b)     Ákvarða hver sé stjórnandi aðili reikningshafa. Tilkynningarskyld fjármálastofnun getur, í því skyni að bera kennsl á stjórnandi aðila reikningshafa, byggt á upplýsingum sem safnað er saman og viðhaldið í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures).

              c)     Ákvarða hvort að stjórnandi aðili óvirks lögaðila sem ekki er fjármálastofnun sé tilkynningarskyldur aðili. Tilkynningarskyld fjármálastofnun getur, í því skyni að ákvarða hvort stjórnandi aðili óvirks erlends lögaðila sem ekki er fjármálastofnun sé tilkynningarskyldur aðili, byggt á:

                   i.    upplýsingum, sem er safnað saman og viðhaldið í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures), í tilfelli eldri reiknings lögaðila, sem einn eða fleiri erlendir aðilar sem eru ekki fjármálastofnanir eru handhafar að, þar sem staðan er ekki umfram 1.000.000 Bandaríkjadali; eða

                   ii.    yfirlýsingu reikningshafa frá reikningshafanum eða stjórnandi aðila í því lögsagnarumdæmi þar sem stjórnandi aðilinn er með skattalega heimilisfesti.

    E.      Tímasetning yfirferðar og viðbótarmálsmeðferðar sem gildir um eldri reikninga lögaðila.

         1.    Yfirferð eldri reikninga lögaðila með heildarreikningsstöðu eða verðmæti umfram 250.000 Bandaríkjadali miðað við 31. desember xxxx verður að vera lokið innan tveggja ára frá 31. desember xxxx.

         2.    Yfirferð eldri reikninga lögaðila með heildarstöðu eða verðmæti sem er ekki umfram 250.000 Bandaríkjadali miðað við 31. desember xxxx, en er umfram 250.000 Bandaríkjadala frá 31. desember á hvaða eftirfarandi ári sem er, verður að vera lokið innan viðkomandi almanaksárs sem kemur á eftir því ári þegar heildarreikningsstaðan eða verðmætið fer yfir 250.000 Bandaríkjadali.

         3.    Ef um er að ræða breyttar aðstæður að því er varðar eldri reikninga lögaðila sem veldur því að tilkynningarskyld fjármálastofnun veit, eða hefur ástæðu til að ætla, að yfirlýsing reikningshafa eða önnur gögn sem tengjast reikningnum, eru röng eða óáreiðanleg, ber tilkynningarskyldu fjármálastofnuninni að endurákvarða stöðu reikningsins í samræmi við þá málsmeðferð sem er sett fram í D-lið.

VI. hluti: Áreiðanleikakannanir vegna nýrra reikninga lögaðila

    Eftirfarandi málsmeðferð gildir um auðkenningu tilkynningarskyldra reikninga meðal nýrra reikninga lögaðila.

    A.     Yfirferð til þess að auðkenna reikninga lögaðila sem er tilkynningarskyldur. Tilkynningarskyld fjármálastofnun skal beita eftirfarandi málsmeðferð vegna nýrra reikninga lögaðila við ákvörðun á því hvort reikningur sé í eigu eins eða fleiri tilkynningarskylds aðila eða í eigu óvirks lögaðila sem ekki er fjármálastofnun með einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar:

         1.     Ákvarða hvort lögaðili sé tilkynningarskyldur aðili.

              a)    Viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun skal, að því er varðar nýja reikninga lögaðila, afla yfirlýsingar reikningshafa sem getur verið meðal þeirra gagna er varða opnun reikningsins og gerir viðkomandi tilkynningarskyldri fjármálastofnun kleift að ákvarða skattalega heimilisfesti reikningshafa og að staðfesta réttmæti slíkrar yfirlýsingar reikningshafa á grundvelli þeirra upplýsinga sem viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun aflar í tengslum við opnun reikningsins, m.a. gagna sem er safnað saman í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures). Ef lögaðili staðfestir að hann sé ekki með skattalega heimilisfesti, má tilkynningarskyld fjármálastofnun reiða sig á heimilisfang aðalskrifstofu lögaðilans við ákvörðun á heimilisfangi reikningshafans.

              b)    Komi fram í yfirlýsingu reikningshafa staðfesting á því að reikningshafinn sé með heimilisfesti í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning eða ákvarði, með réttmætum hætti á grundvelli upplýsinga sem hún hefur undir höndum eða sem eru öllum aðgengilegar, að reikningshafinn sé ekki tilkynningarskyldur aðili að því er varðar slíkt tilkynningarskylt lögsagnarumdæmi.

         2.     Ákvarða hvort að lögaðili sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun með einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar. Að því er varðar reikningshafa, sem er handhafi nýs reiknings lögaðila (þ.m.t. lögaðila sem er tilkynningarskyldur aðili) skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun ákveða hvort reikningshafinn sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun sem hefur einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar. Ef einhver hinna stjórnandi aðila í óvirkum lögaðila sem ekki er fjármálastofnun er tilkynningarskyldur aðili, skal fara með reikninginn sem tilkynningarskyldan reikning. Þegar þetta er ákvarðað skal tilkynningarskyld fjármálastofnun fylgja þeim leiðbeiningum sem kveðið er á um í a) til c) lið 2. mgr. A-liðar, í þeirri röð sem best á við hverju sinni.

              a)     Ákvarða hvort reikningshafi sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun. Viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun skal, í því skyni að ákvarða hvort reikningshafi sé óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun, reiða sig á yfirlýsingu frá reikningshafanum til þess að staðfesta stöðu hans, nema hún geti með réttmætum hætti ákvarðað, á grundvelli upplýsinga sem hún hefur undir höndum eða upplýsinga sem eru öllum aðgengilegar, að reikningshafinn sé virkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun eða fjármálastofnun önnur en fjárfestingaraðili eins og lýst er í b) lið 6. mgr. A-lið í VIII hluta sem er ekki þátttakandi fjármálastofnun í lögsagnarumdæmi.

              b)     Ákvarða hverjir séu stjórnandi aðilar reiknings. Tilkynningarskyld fjármálastofnun getur, í því skyni að ákvarða hverjir séu stjórnandi aðilar reiknings, byggt á upplýsingum sem safnað er saman og viðhaldið í samræmi við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures).

              c)     Ákvarða hvort að stjórnandi aðili óvirks lögaðila sem ekki er fjármálstofnun sé tilkynningarskyldur aðili. Tilkynningarskyld fjármálastofnun getur í því skyni að ákvarða hvort að stjórnandi aðili óvirks lögaðila sem ekki er fjármálstofnun sé tilkynningarskyldur aðili, reitt sig á yfirlýsingu reikningshafa eða slíks stjórnandi aðila.

VII. hluti: Sérstakar reglur um áreiðanleikakannanir

    Eftirfarandi viðbótarreglur gilda um framkvæmd áreiðanleikakönnunar sem er lýst hér að framan:

    A.     Treyst á yfirlýsingu reikningshafa og skrifleg sönnunargögn. Tilkynningarskyld fjármálastofnun getur ekki byggt á yfirlýsingu reikningshafa eða skriflegum sönnunargögnum ef viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun veit, eða hefur ástæðu til að ætla, að yfirlýsing reikningshafa eða skriflegu sönnunargögnin séu röng eða óáreiðanleg.

    B.     Valkvæð málsmeðferð vegna fjárhagsreikninga sem einstakir rétthafar vátryggingarsamninga eða lífeyrissamninga að tilteknu peningvirði eru handhafar að. Tilkynningarskyld fjármálastofnun getur gert ráð fyrir því að einstakur rétthafi (annar en eigandinn) vátryggingarsamnings eða lífeyrissamnings að tilteknu peningvirði, sem þiggur greiðslur vegna dauðsfalls, sé ekki tilkynningarskyldur aðili og getur farið með slíkan fjárhagsreikning sem annars konar reikning en tilkynningarskyldan reikning, nema viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun hafi beina vitneskju um, eða ástæðu til að ætla, að viðkomandi rétthafi sé tilkynningarskyldur aðili. Tilkynningarskyld fjármálastofnun hefur ástæðu til að ætla að rétthafi vátryggingarsamnings eða lífeyrissamnings að tilteknu peningvirði sé tilkynningarskyldur aðili, ef þær upplýsingar sem viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun hefur safnað saman og tengjast viðkomandi rétthafa hafa að geyma vísbendingar eins og er lýst í III. hluta B-lið. Hafi tilkynningarskyld fjármálastofnun beina vitneskju um, eða ástæðu til að ætla, að rétthafinn sé tilkynningarskyldur aðili, skal viðkomandi tilkynningarskyld fjármálstofnun fylgja því verklagi sem kveðið er á um í III. hluta B-lið.

    C.     Samlagning stöðu reikninga og reglur um umreikning gjaldmiðla.

         1.     Samlagning reikninga einstaklinga. Til þess að ákvarða samanlagða stöðu eða verðmæti fjárhagsreikninga, sem einstaklingar eru handhafar að, þarf tilkynningarskyld fjármálastofnun að leggja saman alla fjárhagsreikninga sem tilkynningarskyld fjármálastofnun eða tengdur lögaðili viðheldur, en einungis að því marki sem tölvukerfi viðkomandi tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar tengir fjárhagsreikningana með því að vísa til gagna, svo sem viðskiptavinanúmers eða kennitölu skattgreiðanda, og gerir kleift að leggja saman stöður á reikningum eða verðmæti. Heildarstaða eða heildarverðmæti sameiginlegs fjárhagsreiknings skal tileinkuð hverjum og einum reikningshafa vegna samlagningarkrafna þessa töluliðar.

         2.     Samlagning reikninga lögaðila. Til þess að ákvarða samanlagða stöðu eða verðmæti fjárhagsreikninga, sem lögaðili er handhafi að, þarf tilkynningarskyld fjármálastofnun að taka mið af öllum fjárhagsreikningum, sem viðkomandi tilkynningarskyld fjármálastofnun, eða tengdur lögaðili, viðheldur, en einungis að því marki sem tölvukerfi viðkomandi tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar tengir fjárhagsreikningana með því að vísa til gagna, svo sem viðskiptavinanúmers eða kennitölu skattgreiðanda, og gera kleift að leggja saman stöður á reikningum eða verðmæti. Heildarstaða eða heildarverðmæti sameiginlegs fjárhagsreiknings skal tileinkuð hverjum og einum reikningshafa vegna samlagningarkrafna þessa töluliðar.

         3.     Sérstök samlagningarregla vegna þjónustufulltrúa. Til þess að ákvarða samanlagða stöðu eða verðmæti fjárhagsreikninga, sem aðili er handhafi að, til þess að ákvarða hvort að fjárhagsreikningur sé reikningur að hærra verðmæti, er þess einnig krafist að tilkynningarskyld fjármálastofnun, að því er varðar alla fjárhagsreikninga sem þjónustufulltrúi veit, eða hefur ástæðu til að ætla, að sami aðili eigi, stjórni eða hafi stofnað (í öðrum tilgangi en sem fjármunavörsluaðili), beint eða óbeint, leggi saman alla slíka reikninga.

         4.     Reglur um umreikning gjaldmiðla. Allar fjárhæðir í dölum eru í Bandaríkjadölum sem skal umbreyta í samsvarandi fjárhæðir í öðrum gjaldmiðlum eins og mælt er fyrir um í innlendum rétti.

VIII. hluti: Skilgreiningar

    Merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

    A.    Tilkynningarskyld fjármálastofnun

         1.     „Tilkynningarskyld fjármálastofnun“ merkir fjármálastofnun sem er þátttakandi en er ekki fjármálastofnun sem er þátttakandi en sem er ekki tilkynningarskyld.

         2.     „Lögsagnarumdæmi fjármálastofnunar sem er þátttakandi“ merkir: (i) fjármálastofnun, sem er með heimilisfesti í lögsagnarumdæmi sem er þátttakandi, að undanskildum útibúum þess konar fjármálastofnana sem eru staðsett utan lögsagnarumdæmis sem er þátttakandi; og (ii) útibú fjármálastofnunar, sem ekki eru með heimilisfesti í lögsagnarumdæmi sem er þátttakandi, ef þess konar útibú eru staðsett innan lögsagnarumdæmis sem er þátttakandi.

         3.     „Fjármálastofnun“ merkir vörslustofnun, innlánsstofnun, fjárfestingaraðila eða tilgreint vátryggingafélag.

         4.     „Vörslustofnun“ merkir hvern þann lögaðila sem stundar starfsemi sem að verulegu leyti snýst um að varðveita fjáreignir fyrir reikning annarra. Talið er að aðili stundi starfsemi, sem að verulegu leyti snýst um að varðveita fjáreignir fyrir reikning annarra, ef vergar tekjur viðkomandi lögaðila, sem rekja má til þess að varðveita fjáreignir og veita tengda fjármálaþjónustu, jafngilda eða fara yfir 20 hundraðshluta af vergum tekjum fyrrnefnds lögaðila á öðru hvoru því tímabili sem um getur hér að aftan og er styttra: (i) því þriggja ára tímabili sem lýkur 31. desember (eða síðasta dag uppgjörstímabils árs sem ekki er almanaksár) á undan því ári þegar ákvörðun með útreikning er tekin; eða (ii) því tímabili sem er líftími viðkomandi lögaðila.

         5.     „Innlánsstofnun“ merkir lögaðila sem tekur við innlánum í venjulegri bankastarfsemi eða sambærilegri viðskiptastarfsemi.

         6.     „Fjárfestingaraðili“ merkir lögaðila sem:

              a)     fæst við að stjórna eftirfarandi starfsemi eða rekstri, einni eða fleiri, fyrir viðskiptavin eða fyrir hönd viðskiptavinar:

                   i)    viðskiptum með peningamarkaðsgerninga (tékka, reikninga, innlánsskírteini, afleiður o.s.frv.), erlendan gjaldeyri, gengis- og vaxtabréf og vísitölugerninga, framseljanleg verðbréf eða viðskiptum með framvirkum hráefnum (e. commodity futures trading);

                   ii)    einstaklingsmiðaðri og sameiginlegri stjórnun eignasafns; eða

                   iii)    annars konar fjárfestingu, umsýslu eða stýringu sjóða eða fjármuna fyrir hönd annarra aðila.

              b)    vergum tekjum sem fyrst og fremst stafa frá fjárfestingu, endurfjárfestingu, eða kaup og sölu á fjármunalegum eignum, ef lögðila er stjórnað af öðrum lögaðila sem er innlánsstofnun, vörslustofnun, tilgreint vátryggingarfélag eða fjárfestingaraðili sem tilgreindur er í a) lið 6. mgr. A-liðar.

            Lögaðili telst aðallega stjórna starfsemi þar sem ein eða fleiri af starfssemi þeirri sem lýst er í a) lið 6. mgr. A-liðar, eða að vergar tekjur lögaðilans stafa fyrst og fremst frá fjárfestingu, endurfjárfestingu, eða kaupum og sölu á fjármunalegum eignum skv. ákvæðum b) liðar 6. mgr. A-liðar, ef vergar tekjur lögaðilans jafngilda eða fara yfir 50 hundraðshluta á því tímabili sem er styttra: (i) þriggja ára tímabil sem lýkur 31. desember á undan því ári þegar ákvörðunin er tekin; eða (ii) því tímabili sem er líftími viðkomandi lögaðila. Hugtakið „Fjárfestingaraðili“ felur ekki í sér lögaðila, sem er virkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun, eingöngu af því að hann uppfyllir skilgreininguna í d) til g) lið 9. gr. D-liðar.

            Túlka ber málsgrein þessa með sambærilegum hætti og sams konar orðalagi sem er að finna í skilgreiningu hugtaksins „fjármálastofnun“ í tilmælum FATF (e. Financial Action Task Force).

         7.    Hugtakið „Fjáreign“ felur í sér verðbréf (t.d. hlutdeild í hlutafélagi; sameignarfélagi eða raunverulegan eignarhlut í félagi sem hefur skráða fjármálagerninga á skipulegum verðbréfamarkaði eða í skráðum verðbréfasjóði, skuldabréf, vaxtabréf, eða aðra viðurkennda skuldareign), eignarhlutir í sameignarfélagi, hrávöru, skiptasamninga (t.d. vaxtaskiptasamningar e. interest/basis swaps, gjaldeyrisskiptasamningar e. currency swaps, samninga um vaxtaþak e. interest rate caps, samninga um lágmarksvaxtagrunn e. interest rate floors, hrávöruskiptisamninga e. commodity swaps, hlutafjársskiptisamninga e. equity swaps, hlutabréfavísitöluskiptisamninga e. equity index swaps og aðra svipaða samninga), vátryggingarsamninga eða lífeyrissamninga, eða aðra hagsmunasamninga (þar með taldir framvirkir, frestsamningar og valréttir) í verðbréfum, sameignarfélögum, hrávöru, skiptisamningum, vátryggingarsamningum eða lífeyrissamningnum. Hugtakið „Fjáreign“ felur ekki í sér skuldlausa beina eignaraðild að fasteign (non-debt, direct interest in real property).

         8.     „Tilgreint vátryggingafélag“ merkir lögaðila sem er vátryggingafélag (eða eignarhaldsfélag vátryggingafélags) sem gefur út, eða er skuldbundið til að inna af hendi greiðslur vegna, vátryggingarsamninga að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamninga.

    B.     Fjármálastofnun sem er ekki tilkynningarskyld

         1.    Hugtakið „Ekki tilkynningarskyld fjármálastofnun“ merkir fjármálastofnun sem er:

              a)    opinberir lögaðilar, alþjóðastofnun eða Seðlabanki, aðra en varða greiðslu sem er rakin til skuldbindingar í tengslum við viðskiptalega fjármálastarfsemi af þeim toga sem tilgreint vátryggingafélag, vörslustofnun eða innlánsstofnun stundar;

              b)    eftirlaunasjóður með víðri þáttöku, eftirlaunasjóður með þröngri þáttöku, lífeyrissjóður opinbers lögaðila, alþjóðastofnunar eða Seðlabanka, eða viðurkenndur kreditkortaútgefandi;

              c)    aðrir lögaðilar sem eru í lítilli hættu á að verða notaðir í því skyni að komast hjá skattlagningu, hafa að mestu sömu einkenni og þeir lögaðilar sem lýst er í a) og b) lið 1. mgr. B-liðar, og eru skilgreindir í innlendum rétti sem fjármálastofnun sem er ekki tilkynningarskyld að því gefnu að staða slíks lögaðila sem fjármálastofnun sem er ekki tilkynningarskyld gangi ekki gegn tilgangi hins samræmda staðals um upplýsingagjöf;

              d)    undanþegin sameiginleg fjárfestingarleið;

              e)    sjóður sem er stofnaður skv. lögum tilkynningarskylds lögsagnarumdæmis að því marki að fjárhaldsaðili sjóðsins sé tilkynningarskyld fjármálastofnun sem veitir allar upplýsingar sem krafist er í samræmi við I. hluta að því er varðar alla tilkynningarskylda reikninga sjóðsins.

         2.     Hugtakið „Opinberir lögaðilar“ merkir ríkisstjórn lögsagnarumdæmis, sjálfstæð umdæmi lögsagnarumdæmis (sem, til að forðast vafa, felur í sér ríki, fylki, sýslu eða sveitarfélag) eða stjórnarstofnun eða umboðsskrifstofa alfarið í eigu lögsagnarumdæmis eða eitt eða fleiri af undanfarandi (hvert og eitt „Opinberir lögaðilar“). Þessi flokkur er samansettur af óaðskiljanlegum hlutum, stýrðum lögaðilum og sjálfstæðum umdæmum lögsagnarumdæmis.

              a)    „Óaðskiljanlegur hluti lögsagnarumdæmis“ merkir aðila, samtök, stjórnarstofnanir, skrifstofur, sjóði, umboðsskrifstofur eða aðrar skipulagsheildir, hvernig sem þau eru auðkennd, sem mynda stjórnvöld lögsagnarumdæmis. Hreinar tekjur viðkomandi stjórnvalds verður að færa sem slíkar á eigin reikning þess eða á aðra reikninga lögsagnarumdæmisins og enginn hluti þeirra skal renna til einstaklinga þeim til hagsbóta. Óaðskiljanlegur hluti tekur ekki til neins sem einstaklingur sem er þjóðhöfðingi, opinber starfsmaður eða stjórnandi aðhefst á eigin vegum eða sem einstaklingur.

              b)    Stýrður lögaðili merkir lögaðila sem að formi til er aðskilinn frá lögsagnarumdæmi eða sem myndar með öðrum hætti aðskildan lögaðila samkvæmt lögum, að því tilskildu:

                   i)    að viðkomandi lögaðili sé alfarið í eigu og undir stjórn eins eða fleiri opinberra lögaðila, með beinum hætti eða með milligöngu eins eða fleiri stýrðra lögaðila,

                   ii)    að hreinar tekjur viðkomandi lögaðila sé færðar sem slíkar á eigin reikning hans eða á reikning eins eða fleiri opinberra lögaðila, og enginn hluti tekna viðkomandi lögaðila renni til einstaklinga þeim til hagsbóta; og

                   iii)    að fjáreignir viðkomandi lögaðila gangi til eins eða fleiri opinberra lögaðila við slit.

              c)    Tekjur renna ekki til einstaklinga þeim til hagsbóta ef slíkir einstaklingar eru ætlaðir rétthafar innan áætlunar stjórnvalda og starfsemi tengd áætluninni fer fram í þágu almennings vegna almennrar velsældar eða tengist stjórnsýslu vegna einhvers sviðs stjórnvalda. Þrátt fyrir það sem að framan greinir eru tekjur samt sem áður taldar renna til einstaklinga þeim til hagsbóta ef þær eru til komnar vegna þess að opinber lögaðili er notaður til þess að stjórna viðskiptum á borð við starfsemi viðskiptabanka sem býður fram fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga.

         3.    Hugtakið „Alþjóðastofnun“ merkir hvaða alþjóðastofnun sem er eða stjórnarstofnun eða umboðsskrifstofa alfarið í eigu hennar. Þessi flokkur tekur til allra alþjóðastofnana (m.a. yfirþjóðlegrar stofnunar) (1) sem er aðallega samansett af ríkisstjórnum; (2) sem hefur í raun samning um höfuðstöðvar við lögsagnarumdæmi; og (3) sem aflar tekna sem renna ekki til einstaklinga þeim til hagsbóta.

         4.    Hugtakið „Seðlabanki“ merkir stofnun sem að lögum eða með samþykki stjórnvalda er það helsta yfirvald, annað en sjálf ríkisstjórn lögsagnarumdæmis, sem gefur út gerninga sem er ætlað að fari í umferð sem gjaldmiðill. Innan fyrrnefndrar stofnunar getur verið stjórnsýslueining sem er aðskilin frá stjórnvöldum lögsagnarumdæmis, hvort sem hún er alfarið eða að hluta til í eigu lögsagnarumdæmis.

         5.    Hugtakið „Eftirlaunasjóður með víðri þátttöku“ merkir sjóður stofnsettur í því skyni að sjá fyrir eftirlaunum, örorkubótum eða dánarbótum, eða samsetningu þeirra, til rétthafa sem eru virkir eða fyrrverandi starfsmenn (eða aðilar sem þeir starfsmenn tilnefna) eins vinnuveitanda eða fleiri til endurgjalds fyrir veitta þjónustu, að því tilskildu að viðkomandi sjóður:

              a)    hafi ekki innbyrðis einn rétthafa sem á rétt á meiru en fimm hundraðshlutum af eignum sjóðsins;

              b)    sé háður eftirliti stjórnvalda og veiti upplýsingar til skattyfirvalda; og

              c)    uppfylli a.m.k. eina eftirfarandi krafna:

                   i)    sjóðurinn sé almennt undanþeginn sköttum af fjárfestingartekjum eða fallið sé frá eða lækkuð skattlagning vegna slíkra tekna, vegna stöðu hans sem eftirlauna- eða lífeyriskerfis;

                   ii)    sjóðurinn fái a.m.k. 50 hundraðshluta af heildarframlögum til sín (öðrum en millifærslum eigna frá öðrum kerfum sem er lýst í 5.–7. mgr. í B-lið eða af eftirlauna- og lífeyrisreikningum sem er lýst í a) lið 17. mgr. C-lið), frá þeim vinnuveitendum sem fjármagna hann;

                   iii)    úthlutanir eða úttektir úr sjóðnum séu aðeins heimilaðar ef tilgreindir atburðir verða sem tengjast starfslokum, örorku eða dauða (að undanskildum endurúthlutunum til annarra eftirlaunasjóða sem er lýst í 5.–7. mgr. í B-lið eða inn á eftirlauna- og lífeyrisreikninga sem er lýst í a) lið 17. mgr. C-lið), að öðrum kosti gildi viðurlög um úthlutanir eða úttektir sem eiga sér stað áður en fyrrnefndir tilteknir atburðir verða; eða

                   iv)    framlög (önnur en ákveðin heimiluð framlög sem eru uppbótarframlög (make-up contributions)) til sjóðsins séu takmörkuð með vísan til tekna sem starfsmaðurinn aflar eða megi ekki vera hærri en 50 000 Bandaríkjadalir á hverju ári með því að beita þeim reglum er um getur í II hluta C-lið um samlagningu reikninga og gjaldmiðilsumreikning.

         6.    Hugtakið „Eftirlaunasjóður með þröngri þátttöku“ merkir sjóður stofnsettur í því skyni að sjá fyrir eftirlaunum, örorkubótum eða dánarbótum til rétthafa sem eru núverandi eða fyrrverandi starfsmenn (eða aðilar sem þeir starfsmenn tilnefna) eins vinnuveitanda eða fleiri til endurgjalds fyrir veitta þjónustu, að því tilskildu:

              a)    að viðkomandi sjóður hafi færri en 50 þátttakendur;

              b)    að sjóðurinn sé fjármagnaður af einum vinnuveitenda eða fleiri sem eru ekki fjárfestingaraðilar eða óvirkir aðilar sem eru ekki fjármálastofnanir;

              c)    að framlög starfsmanns og vinnuveitanda til sjóðsins (önnur en millifærslur eigna frá viðurkenndum eftirlaunasjóðum sem er lýst í a) lið 17. mgr. C-lið séu takmörkuð með vísan til tekna og uppbóta sem starfsmaðurinn aflar og hlýtur, eftir því sem við á;

              d)    að þátttakendur, sem ekki hafa heimilisfesti í lögsagnarumdæmi, eigi ekki rétt á meiru en 20 hundraðshlutum af eignum sjóðsins; og

              e)    að sjóðurinn sé háður eftirliti stjórnvalda og veiti upplýsingar til skattyfirvalda.

         7.     Hugtakið „Lífeyrissjóður opinbers lögaðila, alþjóðastofnunar eða Seðlabanka“ merkir sjóð sem er stofnaður af opinberum lögaðila, alþjóðastofnun eða Seðlabanka í því skyni að sjá fyrir eftirlaunum, örorkubótum eða dánarbótum til rétthafa eða þátttakenda sem eru núverandi eða fyrrverandi starfsmenn (eða aðilar sem þeir starfsmenn tilnefna) eða sem eru ekki núverandi eða fyrrverandi starfsmenn, ef þær bætur, sem fyrrnefndum rétthöfum eða þátttakendum er séð fyrir, eru endurgjald fyrir veitta persónulega þjónustu við fyrrnefndan opinberan lögaðila, alþjóðastofnun eða Seðlabanka.

         8.    Hugtakið „Viðurkenndur kreditkortaútgefandi“ merkir fjármálastofnun sem uppfyllir eftirfarandi kröfur:

              a)    viðkomandi fjármálastofnun er fjármálastofnun einungis af þeirri ástæðu að hún er kreditkortaútgefandi sem tekur aðeins við innborgunum þegar viðskiptavinur gengur frá greiðslu umfram reikningsstöðu, þ.e. skuld sem er gjaldkræf að því er kortið varðar, og umframgreiðslunni er ekki umsvifalaust skilað viðskiptavininum aftur; og

              b)    viðkomandi fjármálastofnun skal, frá eða fyrir xx.xx.xxxx, hafa markaða stefnu og verklag, annaðhvort til þess að koma í veg fyrir að innborganir viðskiptavinar sé umfram 50.000 Bandaríkjadali eða til þess að tryggt sé að innborgun viðskiptavinar sem er umfram 50.000 Bandaríkjadali sé endurgreitt viðkomandi viðskiptavini innan 60 daga með því að beita í hvoru tilviki um sig þeim reglum er um getur í II. hluta C-lið um samlögnun reikninga og gjaldmiðilsumreikning. Innborgun viðskiptavinar vísar í þessum skilningi ekki til innistæðna að því marki sem varðar umdeildar færslur, en tekur til innistæðna sem eiga rætur að rekja til vöruskila.

         9.    Hugtakið „Undanþegin Sameiginleg fjárfestingarleið“ merkir fjárfestingar lögaðila, sem er eftirlitsskyldur sem sameiginleg fjárfestingarleið (CIV á e. collective investment vehicle) að því tilskildu að allir eignarhlutir í þeirri sameiginlegu fjárfestingarleið séu í höndum eða fari í gegnum einn eða fleiri undanþegna raunverulega eigendur, einstaklinga eða lögaðila sem eru ekki tilkynningarskyldir aðilar, að undanskildri óvirkri fjármálastofnun sem er ekki tilkynningarskyld en með ráðandi aðila sem eru tilkynningaskyldir aðilar.

             Fjárfestingarlögaðili sem er eftirlitsskyld sameiginleg fjárfestingarleið hættir ekki að falla undir skilgreiningu 9. mgr. B-liðar sem undanþegin sameiginleg fjárfestingarleið eingöngu vegna þess að sameiginlega fjáfestingarleiðin hefur gefið út handahafa hlutabréf á pappír að því tilskildu að:
    
              a)    Sameiginglega fjárfestingaleiðin hafi ekki gefið út og gefi ekki út nein handahafahlutabréf eftir xx.xx.xxxx;

              b)    Sameiginlega fjárfestingaleiðin tekur alla slíka hluti úr umferð við endurkaup;

              c)    Sameiginlega fjárfestingaleiðin lætur fara fram áreiðanleikakönnun í samræmi við II til VII hluta og veitir allar þær upplýsingar sem krafist er að því er varðar alla slíka hluti þegar slíkir hlutir eru auglýstir til innlausnar eða aðrar greiðslur: og

              d)    Sameiginlega fjárfestingaleiðin verður að hafa til staðar stefnu og verklagsreglur sem tryggja að slíkir hlutir verði greiddir upp eða teknir úr umferð eins fljótt og auðið er og í öllu falli ekki síðar en xx.xx.xxxx.

    C.      „Fjárhagsreikningur“

         1.    Hugtakið „Fjárhagsreikningur“ merkir viðskiptareikning sem fjármálastofnun viðheldur og felur í sér Innlánsreikning, Vörslureikning og:

              a)    í tilviki Fjárfestingaraðila annarra en Fjárfestingaraðila sem er fjármálastofnun eingöngu vegna þess að hann stjórnar Fjárfestingaraðila sem lýst er í b) lið 6. mgr. A-liðar, eignarréttindum eða skuldareign í viðkomandi fjármálastofnun;

              b)    í tilviki fjármálastofnunar, sem er ekki lýst í a) lið 1. mgr. C-liðar, eignaréttindi eða skuldareign í viðkomandi fjármálastofnun ef viðkomandi flokkur eignarhluta var stofnaður í því skyni að komast hjá tilkynningum í samræmi við I hluta; og

              c)    allir vátryggingarsamningar að tilteknu peningavirði og lífeyrissamningar, sem fjármálastofnun gefur út eða viðheldur, að undanskildum lífeyri sem tengist ekki fjárfestingum, er óframseljanlegur eða tafarlaus og fellur einstaklingi í skaut og er eftirlaun eða örorkubætur í formi peninga sem eru látin eða látnar í té samkvæmt viðskiptareikningi sem er útilokaður reikningur.

            Hugtakið „Fjárhagsreikningur“ tekur ekki til neinna reikninga sem eru útilokaðir reikningar.

         2.    Hugtakið „Innlánsreikningur“ tekur til allra veltureikninga, sparireikninga, tímabundinna reikninga eða sparnaðarreikninga sem eru vottaðir með innlánsskilríki, sparnaðarskilríki, fjárfestingarskilríki, skuldsetningarskilríki eða öðru álíka skjali sem fjármálastofnun heldur úti í venjubundinni bankastarfsemi eða álíka starfsemi. Innlánsreikningur tekur einnig til fjárhæðar sem vátryggingafélag hefur undir höndum samkvæmt tryggðum fjárfestingasamningi eða álíka samkomulagi um að greiða eða færa til tekna lánsvexti á hana.

         3.    Hugtakið „Vörslureikningur“ merkir reikning (að undanskildum vátryggingarsamningi eða lífeyrissamningi) sem þjónar fjármunalegum eignum annars aðila.

         4.    Hugtakið „Eignaréttindi“ merkir, í tilviki sameignarfélags sem er fjármálastofnun, annað hvort höfuðstólseign eða eignarhlut í hagnaði innan sameignarfélagsins. Í tilviki fjárvörslusjóðs, sem er fjármálastofnun, er litið svo á að eignaréttindi séu í höndum aðila sem litið er á sem stofnanda eða rétthafa alls sjóðsins eða hluta hans eða annarra einstaklinga sem fara með virka og endanlega stjórn sjóðsins. Farið skal með tilkynningarskyldan aðila sem væri hann rétthafi gagnvart erlendum fjárvörslusjóði ef fyrrnefndur tilkynningarskyldur aðili á rétt á því að taka við, beint eða óbeint (til dæmis fyrir milligöngu tilnefnds aðila), skyldubundinni útgreiðslu eða er heimilt að taka við, beint eða óbeint, valkvæðri útgreiðslu frá sjóðnum.

         5.    Hugtakið „Vátryggingarsamningur“ merkir samning (að undanskildum lífeyrissamningi) þar sem útgefandinn fellst á að greiða fjárhæð þegar tiltekinn vátryggingaratburður á sér stað sem leiðir til dauðsfalls, sjúkdómsástands, slyss, bótaábyrgðar eða skemmda á vátryggðri fasteign.

         6.    Hugtakið „Lífeyrissamningur“ merkir samning þar sem útgefandinn fellst á að inna greiðslur af hendi á tímabili sem er ákveðið í heild eða að hluta með vísan til lífslíka eins einstaklings eða fleiri. Hugtakið tekur og til samnings sem er talinn vera lífeyrissamningur samkvæmt lögum, reglugerðum eða venju í þeirri lögsögu þar sem samningurinn var gefinn út og ef í honum er kveðið á um að útgefandinn fallist á að inna greiðslur af hendi svo árum skiptir.

         7.    Hugtakið „Vátryggingarsamningur að tilteknu peningavirði“ merkir vátryggingarsamning (að undanskildum samningum um endurábyrgðartryggingu milli tveggja vátryggingafélaga) sem hefur peningavirði.

         8.    Hugtakið „Peningavirði“ merkir þá fjárhæð sem er hærri en önnur af eftirfarandi: (i) sú fjárhæð sem viðkomandi vátryggingartaka ber réttur til að fá greidda þegar fallið er frá samningi eða honum sagt upp (sem er ákveðin án lækkunar vegna gjalds fyrir að falla frá samningi eða vegna láns í tengslum við vátryggingarsamning) og (ii) sú fjárhæð sem viðkomandi vátryggingartaki getur tekið að láni samkvæmt samningnum eða í samræmi við samninginn. Þrátt fyrir það sem að framan greinir tekur hugtakið „peningavirði“ ekki til fjárhæðar, sem ber að greiða samkvæmt vátryggingarsamningi, þegar:

              a)    eingöngu við andlát hins vátryggða skv. líftryggingarsamningi og þar með talin endurgreiðsla áður greiddra iðgalda enda sé endurgreiðslan lágmarksáhættuendurgreiðsla eins og það hugtak er skilgreint í athugasemdum með staðlinum;

              b)    þegar um bætur fyrir líkamstjón eða bætur úr sjúkratryggingu eða aðrar bætur er að ræða sem eru skaðabætur fyrir efnahagslegt tjón, sem stofnast þegar atburður á sér stað sem viðkomandi hefur tryggt sig gegn;

              c)    með hliðsjón af a) lið 8. tölul. C-liðar, þegar um er að ræða endurgreiðslu til vátryggingartaka á áður greiddu iðgjaldi (þó ekki kostnað við vátrygginguna hvort sem hún hefur verið greidd eða ekki) samkvæmt vátryggingarsamningi (öðrum en líftryggingarsamningi eða lífeyrissamningi) af þeirri ástæðu að slíkur samningur er afturkallaður eða honum sagt upp, að áhætta hefur minnkað á gildistíma vátryggingarsamningsins eða sem leiðir af endurákvörðun iðgjaldsins vegna leiðréttingar færsluvillu eða annarrar álíka skekkju; eða

              d)    þegar um er að ræða arð vátryggingartaka (annan en arð vegna slita samnings) svo fremi sem arðurinn tengist vátryggingarsamningi þar bætur eru eingöngu greiddar þeim sem lýst er b) lið 8. tölul. C-liðar.

              e)    þegar um endurgreiðslu á fyrirframgreiddu iðgjaldi eða innborgun iðgjalds er að ræða vegna vátryggingarsamnings þegar greiðsla iðgjalds fer fram a.m.k. árlega, ef fjárhæð fyrirframgreidda iðgjaldsins eða innborgun iðgjaldsins er ekki hærri en það árgjald sem greiða skal á næsta ári skv. samningnum.

         9.    Hugtakið „Eldri reikningur“ merkir Fjárhagsreikning sem er viðhaldið af tilkynningarskyldri fjármálastofnun þann xx.xx.xxxx.

         10.    Hugtakið „Nýr reikningur“ merkir Fjárhagsreikning sem er viðhaldið af tilkynningarskyldri fjármálastofnun frá og með xx.xx.xxxx.

         11.    Hugtakið „Eldri reikningur einstaklings“ merkir eldri reikning í eigu eins eða fleiri einstaklinga.

         12.    Hugtakið „Nýr reikningur einstaklings“ merkir nýjan reikning í eigu eins eða fleiri einstaklinga.

         13.    Hugtakið „Eldri reikningur lögaðila“ merkir eldri reikning í eigu eins eða fleiri lögaðila.

         14.    Hugtakið „Reikningar að lægra verðmæti“ merkir eldri reikning í eigu einstaklings þar sem samanlögð staða eða verðmæti miðað við 31. desember xxxx fari ekki yfir 1.000.000 Bandaríkjadali.

         15.    Hugtakið „Reikningar að hærra verðmæti“ merkir eldri reikning í eigu einstaklings þar sem samanlögð staða eða verðmæti fari yfir 1.000.000 Bandaríkjadali miðað við 31. desember xxxx eða 31. desember næstu ára á eftir.

         16.    Hugtakið „Nýr reikningur lögaðila“ merkir nýjan reikning í eigu eins eða fleiri lögaðila.

         17.    Hugtakið „Undanþeginn reikningur“ merkir einhvern af eftirtöldum reikningum:

              a)    eftirlauna eða lífeyrisreikning sem uppfyllir eftirfarandi kröfur:

                   i)    Viðkomandi reikningur er háður eftirliti sem persónulegur eftirlaunareikningur eða er hluti af skráðu eða reglufestu eftirlauna- eða lífeyriskerfi sem er ætlað að sjá fyrir eftirlaunum og lífeyri (m.a. örorkubótum eða dánarbótum);

                   ii)    skattfríðindi fylgja viðkomandi reikningi (þ.e. framlög inn á reikninginn, sem að öðrum kosti væru skattskyld samkvæmt íslenskum lögum, eru frádráttarbær eða dregin frá vergum tekjum viðkomandi reikningshafa eða eru skattlögð í lækkuðu hlutfalli eða skattlagningu fjárfestingartekna af reikningnum er frestað eða hlutfall hennar lækkað);

                   iii)    gerð er krafa um árlegar tilkynningar um upplýsingar til skattyfirvalda viðvíkjandi viðkomandi reikningi;

                   iv)    úttektir eru háðar því skilyrði að viðkomandi nái tilteknum eftirlaunaaldri, hljóti örorku eða falli frá, að öðrum kosti gildi viðurlög um úttektir fyrir fyrrnefnda tiltekna atburði; og

                   v)    annaðhvort (i) eru árleg framlög takmörkuð við 50.000 Bandaríkjadali eða lægri fjárhæð eða (ii) hámarksæviframlag inn á reikninginn takmarkast við 1.000.000 Bandaríkjadali eða lægri fjárhæð, með því, í hvoru tilviki um sig, að beita þeim reglum sem um getur í VII. hluta C-liðar um samlagningu reikninga og gjaldmiðilsumreikning.

                       Fjárhagsreikningur sem að öðru leyti uppfyllir skilyrði þessarar málsgreinar, mun ekki af þeirri ástæðu eingöngu, ekki teljast uppfylla slík skilyrði ef að slíkur fjárhagsreikningur getur tekið við eignum eða fjármunum sem fluttir eru frá einum eða fleiri fjárhagsreikningum sem uppfylla skilyrði a) eða b) liðar 17. töluliðar C-liðar eða frá einum eða fleirum eftirlauna eða lífeyrisreikningum sem uppfylla skilyrði í einhverjum af töluliðum 5 til 7 í B-lið.

              b)    reikningur sem uppfyllir eftirfarandi kröfur:

                   i)    viðkomandi reikningur er háður reglusetningu sem sparnaðarleið í öðrum tilgangi en vegna eftirlauna og viðskipti fara fram reglulega á viðurkenndum verðbréfamarkaði eða að reikningurinn er háður reglusetningu sem sparnaðarleið í öðrum tilgangi en vegna eftirlauna;

                   ii)    skattfríðindi fylgja viðkomandi reikningi (þ.e. framlög inn á reikninginn, sem að öðrum kosti væru skattskyld, eru frádráttarbær eða dregin frá vergum tekjum viðkomandi reikningshafa eða eru skattlögð í lækkuðu hlutfalli, eða skattlagningu fjárfestingartekna af reikningnum er frestað eða hlutfall hennar lækkað);

                   iii)    úttektir eru háðar því að tiltekin viðmið séu uppfyllt sem tengjast þeim tilgangi sem sparireikningurinn þjónar (t.d. að gera viðkomandi kleift að njóta menntunar eða læknisþjónustu), að öðrum kosti gildi viðurlög um úttektir áður en fyrrnefnd viðmið eru uppfyllt; og

                   iv)    árleg framlög eru takmörkuð við 50 000 Bandaríkjadali eða lægri fjárhæð, með því að beita þeim reglum er um getur í VII. hluta C-lið um samlagningu reikninga og gjaldmiðilsumreikning.

                       Fjárhagsreikningur sem að öðru leyti uppfyllir skilyrði iv) liðar b) liðar 17. töluliðar C-liðar, mun ekki af þeirri ástæðu eingöngu, ekki teljast uppfylla slík skilyrði ef að slíkur fjárhagsreikningur getur tekið við eignum eða fjármunum sem fluttir eru frá einum eða fleiri fjárhagsreikningum sem uppfylla skilyrði a) eða b) liðar 17. töluliðar C-liðar eða frá einum eða fleirum eftirlauna eða lífeyrisreikningum sem uppfylla skilyrði í einhverjum af 5.–7. töluliðar í B-lið.

              c)    Líftryggingarsamningur sem hefur tryggingartímabil sem lýkur áður en viðkomandi tryggður einstaklingur nær 90 ára aldri, að því tilskildu að umræddur samningur uppfylli eftirfarandi kröfur:

                   i)    lotubundin iðgjöld, sem lækka ekki með tímanum, eru greiðanleg að minnsta kosti árlega á líftíma samningsins eða fram til þess að sá tryggði nær 90 ára aldri, eftir því hvort tímabilið er styttra;

                   ii)    samningurinn hefur enga samningsfjárhæð sem einhver aðili getur haft aðgang að (sem úttekt, lán eða með öðrum hætti) án þess að segja samningnum upp;

                   iii)    sú fjárhæð (önnur en dánarbætur) sem ber að greiða þegar viðkomandi samningur fellur úr gildi eða er sagt upp getur ekki orðið hærri en samanlögð iðgjöld sem eru greidd vegna samningsins, að frádreginni summu gjalda vegna dauðsfalla, sjúkdómsástands og kostnaðar (hvort sem þau eru lögð á í raun eður ei) fyrir það tímabili eða þau tímabil sem samningurinn er í gildi og að frádregnum þeim fjárhæðum sem eru greiddar áður en viðkomandi samningur fellur úr gildi eða er sagt upp; og

                   iv)    samningurinn er ekki í höndum framsalshafa vegna verðgildis.

              d)    Reikningur er alfarið í höndum dánarbús, ef gögn viðvíkjandi þess háttar reikningi hafa að geyma eintak af erfðaskrá hins látna eða dánarvottorð.

              e)    Reikningur sem er stofnaður í tengslum við eitthvað af eftirfarandi:

                   i)    Dómsúrskurð eða dóm.

                   ii)    Sölu, skipti eða leigu á fasteign eða lausafé einstaklinga, að því tilskildu að reikningurinn uppfylli eftirfarandi kröfur:

                        (i)    viðkomandi reikningur er fjármagnaður eingöngu með innborgun, heiðarlega fengnum peningum, vörslufé að fjárhæð sem nægir til þess að tryggja skuldbindingu sem tengist beint viðkomandi viðskiptum, eða með álíka greiðslu, eða er fjármagnaður með fjármunaeign sem er lögð inn á reikninginn í tengslum við sölu, skipti eða leigu á viðkomandi eign;

                        (ii)    viðkomandi reikningur er stofnaður og notaður eingöngu í því skyni að tryggja þá skuldbindingu viðkomandi kaupanda að greiða kaupverð umræddrar eignar, viðkomandi seljanda að greiða óvissar skuldir eða leigusalans eða leigutakans að greiða tjón sem tengist hinni leigðu eign eins og samkomulag er um samkvæmt leigumála;

                        (iii)    fjármunir inni á reikningnum, m.a. tekjur sem hann myndar, verða greiddir út eða þeim skipt í þágu kaupandans, seljandans, leigusalans eða leigutakans (m.a. til þess að efna skuldbindingar fyrrnefndra aðila) þegar eignin er seld, skipti fara fram á henni eða hún er afhent;

                        (iv)    viðkomandi reikningur er ekki tryggingarfé eða þess háttar reikningur sem er stofnaður í tengslum við sölu eða skipti á fjáreign; og

                        (v)    viðkomandi reikningur tengist ekki reikningum sem lýst er í f) lið 17. tölul. C-liðar.

              f)     Innlánsreikningur sem uppfyllir efirfarandi kröfur:

                   i)    reikningur er tilkominn einungis af þeirri ástæðu viðskiptavinur gengur frá greiðslu umfram reikningsstöðu, þ.e. skuld sem er gjaldkræf að því er greiðslukort varðar, og umframgreiðslunni er ekki skilað viðskiptavininum aftur; og

                   ii)    viðkomandi fjármálastofnun skal, frá eða fyrir xx.xx.xxx, hafa markaða stefnu og verklag, annaðhvort til þess að koma í veg fyrir að innborganir viðskiptavinar sé umfram 50 000 Bandaríkjadali eða til þess að tryggt sé að innborgun viðskiptavinar sem er umfram 50 000 Bandaríkjadali sé, með því að beita í hvoru tilviki um sig þeim reglum er um getur í VII hluta C-liðar um samlögnun reikninga og gjaldmiðilsumreikning, endurgreitt viðkomandi viðskiptavini innan 60 daga. Innborgun viðskiptavinar vísar í þessum skilningi ekki til innstæðna að því marki sem varðar umdeildar færslur, en tekur til innistæðna sem eiga rætur að rekja til vöruskila.

              g)    hvern þann reikning annan sem lítil hætta er á að verði notaður í því skyni að komast hjá greiðslu skatta, er að verulegu leyti svipaður þeim reikningum sem lýst er í a) til f) lið 17. tölul. C-liðar, og er skilgreindur sem undanþeginn reikningur samkvæmt innanlandslöggjöf, að því tilskyldu að staða slíks reiknings sem undanþegins reiknings fari ekki í bága við tilgang hins samræmda staðals um upplýsingagjöf.

    D.      „Tilkynningarskyldur reikningur“

         1.    Hugtakið „Tilkynningarskyldur reikningur“ merkir reikning sem er í eigu eins aðila eða fleiri sem eru tilkynningarskyldir aðilar eða eru óvirkir lögaðilar sem ekki eru fjármálastofnanir sem hafa einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar að því tilskyldu að hann hafi verið auðkenndur sem slíkur að að lokinni þeirri áreiðanleikakönnun er um getur í II.–VII. hluta.

         2.    Hugatakið „Tilkynningarskyldur aðili“ merkir merkir tilkynningarskyldan aðila í lögsagnarumdæmi annan en: (i) fyrirtæki hvers hlutabréf ganga reglulega kaupum og sölu á einum eða fleiri viðurkenndum verðbréfamörkuðum; (ii) fyrirtæki sem eru tengdir aðilar fyrirtækjasamsteypu sem lýst er í (i) lið; (iii) eining í eigu stjórnvalda; (iv) Alþjóðleg stofnun; (v) Seðlabanki; eða (vi) fjármálastofnun.

         3.    Hugatakið „Tilkynningarskyldur aðili í lögsagnarumdæmi“ merkir einstakling eða félag sem hefur skattalega heimilisfesti í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi eða dánarbú aðila sem var heimilisfastur í tilkynningarskyldu lögsagnarumdæmi. Að því er þetta varðar skal fara með félag eins og sameignarfélag, hlutafélag eða svipað félag sem ekki telst heimilisfast í skattalegu tilliti, sem heimilisfast í því lögsagnarumdæmi þar sem aðsetur raunverulegrar framkvæmdastjórnar er.

         4.    Hugtakið „Tilkynningarskylt lögsagnarumdæmi“ merkir lögsagnarumdæmi; (i) sem samkvæmt gildandi samningi skuldbindur það til að veita þær upplýsingar sem tilgreindar eru í I. hluta, og sem (ii) sem tilgreint er á birtum lista.

         5.    Hugtakið „Lögsagnarumdæmi sem er þátttakandi“ merkir lögsagnarumdæmi; (i) sem samkvæmt gildandi samningi veitir þær upplýsingar sem tilgreindar eru í I. hluta, og sem (ii) sem tilgreint er á birtum lista.

         6.    Hugtakið „Stjórnandi aðilar“ merkir þá einstaklinga sem fara með stjórn lögaðila. Í tilviki fjárvörslusjóðs merkir fyrrnefnt hugtak stofnandann, vörsluaðilann, verndarann (ef við á), rétthafana eða flokk rétthafa og alla aðra einstaklinga sem fara með virka og endanlega stjórn sjóðsins og í tilviki lagalegs fyrirkomulags annars en fjárvörslusjóðs merkir fyrrnefnt hugtak aðila sem eru í jafngildum eða líkum stöðum. Túlka ber hugtakið „stjórnandi aðilar“ í samræmi við tilmæli Financial Action Task Force (FATF).

         7.    Hugtakið „Lögaðili sem ekki er fjármálastofnun“ (e. NFE) merkir lögaðila sem ekki er fjármálastofnun.

         8.    Hugtakið „Óvirkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun“ merkir (i) lögaðila sem ekki er fjármálastofnun sem er ekki virk fjármálastofnun; eða (ii) fjárfestingaraðila sem lýst er í b) lið 6. tölul. A sem er ekki þátttakandi fjármálastofnun lögsagnarumdæmis.

         9.    Hugtakið „Virkur lögaðili sem ekki eru fjármálastofnun“ (Active NFE) merkir lögaðila sem er ekki fjármálastofnun og uppfyllir einhverjar eftirfarandi viðmiðana:

              a)    innan við 50 hundraðshlutar af vergum tekjum lögaðilans sem er ekki fjármálastofnun á almanaksárinu á undan eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili, eru óbeinar tekjur og innan við 50 hundraðshlutar af eignum lögaðilans sem er ekki fjármálastofnun á undanfarandi almanaksári eða öðru viðeigandi reikningsskilatímabili eru eignir sem mynda, eða er viðhaldið til að mynda, óbeinar tekjur;

              b)    viðskipti með hluti í viðkomandi lögaðila, sem ekki er fjármálastofnun, fara fram reglulega á viðurkenndum verðbréfamarkaði eða viðkomandi lögaðili, sem ekki er fjármálastofnun, er lögaðili sem er tengdur lögaðila sem viðskipti fara fram reglulega með hlutabréf í á viðurkenndum verðbréfamarkaði;

              c)    viðkomandi lögaðili, sem ekki er fjármálastofnun, er stjórnvald, alþjóðastofnun, seðlabanki eða lögaðili sem er alfarið í eigu eins eða fleiri áður upptalinna aðila;

              d)    öll starfsemi viðkomandi lögaðila, sem er ekki fjármálastofnun, felst í því að vera handhafi (í heild eða hluta) útistandandi hluta í, eða að útvega fjármagn og þjónustu til eins eða fleiri dótturfélaga, sem stunda viðskipti eða starfsemi sem ekki er starfsemi fjármálastofnunar, að því undanskildu að lögaðili skal ekki teljast lögaðili, sem ekki er fjármálastofnun, ef hann starfar sem fjárfestingarsjóður (eða kynnir sig sem slíkan), svo sem hlutabréfasjóður sem fjárfestir í óskráðum hlutabréfum, áhættufjármagnssjóður, sjóður til að kaupa skuldsett fyrirtæki (Leveraged buyout fund) eða hvaða önnur fjárfestingarleið sem þjónar þeim tilgangi að eignast eða fjármagna félög og vera síðan handhafi hagsmuna í þeim félögum í formi fjármunaeigna í fjárfestingarskyni;

              e)    viðkomandi lögaðili, sem er ekki fjármálastofnun, hefur ekki enn hafið starfsemi og hefur enga fyrri rekstrarsögu, en fjárfestir í eignum með það að markmiði að stunda starfsemi, aðra en starfsemi fjármálastofnunar, nema að viðkomandi lögaðili, sem er ekki fjármálastofnun, uppfyllir ekki þessa undanþágu eftir þann dag sem kemur næst á eftir 24 mánuðum eftir þann dag þegar upphafleg stofnun viðkomandi lögaðila, sem er ekki fjármálastofnun, átti sér stað;

              f)    viðkomandi lögaðili, sem er ekki fjármálastofnun, hefur ekki verið fjármálastofnun næstu fimm ár á undan og verið er að skipta eignum hans upp eða endurskipuleggja hann til þess að halda rekstri áfram eða hefja hann á ný í starfsemi, sem er önnur en starfsemi fjármálastofnunar;

              g)    viðkomandi lögaðili, sem er ekki fjármálastofnun, fæst fyrst og fremst við fjármögnun og áhættuvarnarviðskipti við eða fyrir tengda lögaðila sem eru ekki fjármálastofnanir og veitir ekki fjármagni eða áhættuvarnarþjónustu til handa neinum lögaðila sem er ekki tengdur lögaðili, að því tilskildu að hópur slíkra tengdra lögaðila fáist aðallega við aðra starfsemi en starfsemi fjármálastofnana;

              h)     viðkomandi lögaðili, sem er ekki fjármálastofnun, uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:

                   i)    hann er stofnaður og rekinn í heimilislögsögu sinni einungis af trúarlegum ástæðum, fyrir góðgerðarmálefni, eða í þágu vísinda, lista, menningar, íþrótta eða menntunar eða hann er stofnaður og rekinn í heimilislögsögu sinni og hann er fagfélag, hagsmunasamtök atvinnugreinar, viðskiptaráð, stéttarfélag, landbúnaðar- eða garðyrkjusamtök, borgaraleg félagasamtök eða samtök sem eingöngu eru rekin til að stuðla að félagslegri velferð;

                   ii)    hann er undanþeginn tekjuskatti í heimilislögsögu sinni;

                   iii)    hann hefur enga hluthafa eða meðlimi sem eiga eignarréttindi í eða hag af tekjum hans eða eignum;

                   iv)    gildandi lög í heimilislögsögu viðkomandi lögaðila sem ekki er fjármálastofnun eða stofnskjöl hans heimila ekki að tekjum eða eignum hans sé útdeilt til eða þær notaðar í þágu, einstaklinga eða lögaðila sem ekki er góðgerðarfélag, nema til þess að inna af hendi góðgerðarverkefni hans eða sem eðlileg greiðsla fyrir þjónustu sem er veitt eða sem greiðsla sem er í samræmi við sanngjarnt markaðsvirði eignar sem viðkomandi lögaðili, sem ekki er fjármálastofnun, hefur keypt; og

                   v)    samkvæmt gildandi lögum í heimilislögsögu viðkomandi lögaðila sem ekki er fjármálastofnun eða stofnskjölum hans skulu allar eignir hans renna til opinberrar stofnunar eða annarrar stofnunar, sem er ekki rekin í hagnaðarskyni, við skipti eða slit eða renna til stjórnvalda í heimilislögsögu lögaðilans sem ekki er fjármálastofnun eða sjálfstæðs umdæmis þeirra stjórnvalda.

    D.      Ýmislegt

         1.     „Reikningshafi“ merkir þann aðila sem sú fjármálastofnun sem viðheldur reikningnum skráir á lista eða auðkennir sem handhafa fjárhagsreiknings. Aðili, annar en fjármálastofnun, sem hefur fjárhagsreikning undir höndum í þágu hagsmuna annars aðila eða fyrir reikning hans sem umboðsaðili, vörsluaðili, tilnefndur aðili, undirritunaraðili, fjárfestingaráðgjafi eða miðlari, skal ekki fara með sem aðila sem hefur fyrrnefndan reikning undir höndum í skilningi samræmds staðals um upplýsingagjöf og skal fara með fyrrnefndan annan aðila sem hafi hann reikninginn undir höndum. Að því er varðar vátryggingarsamninga að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamninga telst reikningshafi vera hver sá aðili sem hefur aðgangsrétt að peningavirðinu eða rétt til þess að breyta því hver rétthafi samningsins er. Geti enginn aðili haft aðgang að peningavirðinu eða breytt því hver rétthafinn er, telst reikningshafinn vera hver sá aðili sem er nafngreindur sem eigandi í samningnum og hver sá aðili sem hefur áunninn rétt til greiðslu samkvæmt skilmálum samningsins. Þegar vátryggingarsamningur að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamningur fellur í gjalddaga skal farið með sérhvern aðila, sem á rétt til þess að fá greiðslu samkvæmt samningnum, sem væri hann reikningshafi.

         2.    Hugtakið „Verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (AML/KYC Procedures)“ merkir reglur um áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar í samræmi við kröfur um aðgerðir gegn peningaþvætti sem gilda um slíkar tilkynningarskyldar fjármálastofnanir.

         3.    Hugtakið „Lögaðili“ merkir lögaðila eða lagalegt fyrirkomulag eins og fyrirtækjasamstæðu, sameignarfélag, fjárvörslusjóð eða stofnun.

         4.    Lögaðili er „Tengdur lögaðili“ við annan lögaðila ef annar þeirra stjórnar hinum eða báðir lúta sameiginlegri stjórn. Að því er þetta varðar tekur stjórn til beins eða óbeins eignarhalds á yfir 50% atkvæða eða verðmætis í lögaðila.

         5.     „Skattkennitala“ merkir kenninúmer skattgreiðanda (TIN) eða samsvarandi ef slíkt kenninúmer skattgreiðanda er ekki til staðar.

         6.    Hugtakið „Skrifleg sönnunargögn“ tekur til einhvers af eftirfarandi:

              a)    búsetuvottorðs sem bær ríkisstofnun gefur út (t.d. ríkisstjórn eða stofnun á hennar vegum eða sveitarfélag) í þeirri lögsögu þar sem viðtakandi greiðslu segist hafa heimilisfesti;

              b)    að því er varðar einstakling, sérhvers gilds auðkennisskilríkis sem bær ríkisstofnun gefur út (t.d. ríkisstjórn eða stofnun á hennar vegum eða sveitarfélag) og hefur að geyma nafn viðkomandi einstaklings og sem er venjulega notað til auðkenningar;

              c)    að því er varðar lögaðila, allra opinberra gagna sem bær ríkisstofnun gefur út (t.d. ríkisstjórn eða stofnun á hennar vegum eða sveitarfélag) sem hafa að geyma nafn viðkomandi lögaðila og annað hvort heimilisfang höfuðstöðva hans í viðkomandi lögsögu, þar sem hann segist hafa heimilisfesti, eða lögsögu þar sem lögaðilinn var stofnaður eða skipulagður;

              d)    allra endurskoðaðra reikningsskila, viðurkenningarskýrslna þriðja lögaðila, beiðna um gjaldþrotaskipti eða skýrslna frá verðbréfa- og kauphallanefnd.

IX. hluti: Árangursrík innleiðing

    Í lögsagnarumdæmi verða að vera til staðar reglur og stjórnsýslumeðferð til að tryggja árangursríka innleiðingu og reglufylgni við tilkynningarskyldu og áreiðanleikakannanir eins og tilgreint er hér að framan, þar með taldar:

    1.    reglur sem koma eiga í veg fyrir að fjármálastofnanir, aðilar eða milliliðir taki upp verklag í því skyni að sniðganga tilkynningarskyldu og kröfur um áreiðanleikakannanir;

    2.    reglur sem skylda tilkynningarskyldar fjármálastofnanir til þess að halda skrár yfir aðgerðir og þau sönnunargögn sem treyst er á í því skyni að framfylgja framangreindum aðgerðum og fullnægjandi ráðstöfunum til að afla þeirra færslna;

    3.    stjórnsýslureglur sem staðfesta reglufylgni tilkynningarskyldra fjármálastofnana við tilkynningarskylduna og kröfur um áreiðanleikakannanir; stjórnsýslureglur sem fylgja eftir tilkynningarskyldum fjármálastofnunum þegar óskráðir reikningar eru tilkynntir;

    4.    stjórnsýslureglur sem tryggja að lögaðilar og reikningar sem skilgreindir eru skv. innlendum rétti sem ekki tilkynningarskyldar fjármálastofnanir og undanþegnir reikningar, haldi áfram að hafa litla áhættu á að verða notaðir í því skyni að komast hjá skatti, og

    5.    árangursrík ákvæði um reglufylgni sem taka á vanefndum.Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (ýmsar breytingar).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Lögin öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2016 ef frá eru talin ákvæði 12. gr. sem öðlast þegar gildi en koma einnig til framkvæmda 1. janúar 2016.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að rúmmálsregla, sem ákvarðar hvort hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis teljist til skattskyldra tekna, verði ekki látin gilda þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota heldur sú regla hvort eigandi hafi búið í íbúðinni í tvö heil ár. Í öðru lagi er lagt til að við samruna yfir landamæri sé ekki skylt að leggja fram bankatryggingu, í þeim tilvikum að félag hafi fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar, þegar fyrir hendi eru tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningar milli ríkja. Í þriðja lagi er lögð til breyting í þá veru að bætt verði við lögin ákvæðum er taka til skattalegrar meðferðar við skiptingu hlutafélaga yfir landamæri. Tillagan felur í sér frestun á greiðslu tekjuskatts sem kann að myndast við samruna um fimm ár í stað greiðslu strax við samrunann. Í fjórða lagi er lagt til að sambærilegar reglur verði látnar gilda fyrir samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða um sameiginlega fjárfestingu, þ.e. að slíkur samruni hafi ekki í för með sér skattskyldu. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt sem heimila skattyfirvöldum/ríkisskattstjóra að kalla eftir frekari upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála og heimild til handa ráðherra um að setja nánari reglur um framkvæmd upplýsingaöflunarinnar. Í sjötta lagi er lagt til að ákvörðun um gjalddaga endurákvörðunar opinberra gjalda haldist í hendur við dagsetningu úrskurðar þar um. Í sjöunda lagi er lagt til að hámark skattafrádráttar vegna gjafa og framlaga til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana verði hækkað úr 0,5% af tekjum í 0,75%. Í áttunda lagi er lagt til að þau hlunnindi erlendra listamanna, sem felast í greiðslu annarra á ferða- og dvalarkostnaði, verði ekki talin þeim til tekna. Í níunda lagi er í frumvarpinu lagt til að fellt verði brott ákvæði tekjuskattslaga er kveður á um það að við mat framtalsskyldra eigna skuli eiganda leigulóðar talið afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar en leigjanda mismunurinn á fasteignamati og afgjaldskvaðarverðmæti. Í tíunda lagi er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilt að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera með rafrænum hætti. Í ellefta lagi eru lagðar til breytingar sem felast í því að fyrirframgreiðslu þinggjalda og eftirstöðvum þeirra verði skipt þannig niður á gjalddaga að aldrei verði lægri fjárhæð til innheimtu á hverjum gjalddaga en 5.000 kr. Fyrstu tvær breytingarnar sem nefndar eru hér á undan eru ekki taldar hafa áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Erfitt er að meta áhrifin af þriðju breytingunni í fjárhæðum en umfang samruna yfir landamæri getur verið mjög breytilegt á milli ára. Sambærilegar reglur sem verði látnar gilda fyrir samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða um sameiginlega fjárfestingu eru ekki taldar hafa áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Ekki er talið að fimmta breytingin, sem felur í sér upplýsingaskipti skattyfirvalda á milli landa, hafi bein áhrif á afkomu ríkissjóðs en vonast er til að skattheimta aukist til framtíðar litið vegna samstarfsins. Sjötta breytingin, um gjalddaga endurákvörðunar opinberra gjalda, gæti falið í sér hvort sem er hækkun eða lækkun á tekjum. Sjöunda breytingin, er felur í sér hækkun á hámarki skattafrádráttar vegna gjafa og framlaga til sjálfseignarstofnana, felur í sér einhverja lækkun tekna sem að öllum líkindum verður innan við 100 m.kr. Níunda breytingin er ekki talin hafa áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er talið að aukin útgjöld eigi eftir að rúmast innan fjárheimilda viðkomandi stofnana vegna tíundu breytingarinnar. Ellefta breytingin hefur óverulega lækkun á tekjum ríkissjóðs í för með sér en verði hún óbreytt að lögum hækkar lágmarksfjárhæð til innheimtu þinggjalda úr 2.000 kr. í 5.000 kr.
    Lagðar eru til breytingar á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er varða persónuafslátt, útgáfu skattkorta, ráðstöfun persónuafsláttar og persónuafsláttar maka. Breytingarnar eru taldar rúmast innan fjárheimilda og ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Lagðar eru til breytingar á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Lagt er til að fjármálafyrirtæki, sem hafa leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti, verði undanþegin frá staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki talið að hún hafi áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs.
    Lagðar eru til breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, þar sem erlendum launagreiðendum verður heimilt að greiða tryggingagjald vegna starfsmanna sinna sem heimilisfastir eru hér á landi til þess að koma í veg fyrir að þeir verði réttlausir hér á landi. Gera má ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist lítillega við þessa breytingu en erfitt er að áætla hversu margir eigi eftir að nýta sér heimildina.
    Lagðar eru til breytingar á tollalögum, nr. 88/2005. Lagabreytingar varða skyldu til að afhenda upplýsingar um farþega og áhöfn og geymslu á tollafgreiddum vörum. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum eru fjárhagsleg áhrif þess á afkomu ríkissjóðs talin óveruleg.
Neðanmálsgrein: 1
    1 AML: Anti Money Laundering
KYC: Know Your Customer