Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 543  —  397. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum (lýðheilsusjóður).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    1. og 2. mgr. 4. gr. b laganna orðast svo:
    Lýðheilsusjóður hefur það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga þessara, sbr. 1. gr., bæði innan og utan embættis landlæknis. Ráðherra ráðstafar fé úr lýðheilsusjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins og í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur skv. 4. mgr.
    Ráðherra skipar stjórn lýðheilsusjóðs. Stjórn sjóðsins skipa þrír fulltrúar, einn tilnefndur af embætti landlæknis, einn tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og formaður sem skipaður er af ráðherra. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í velferðarráðuneytinu. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við embætti landlæknis og gerðu fulltrúar embættisins athugasemdir við það að ekki væri gert ráð fyrir að fulltrúar fagráða ættu sæti í stjórn lýðheilsusjóðs. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun úr lýðheilsusjóði og skipan stjórnar lýðheilsusjóðs.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að gagnsæi við ráðstöfun opinbers fjár við úthlutun styrkja til lýðheilsu- og forvarnamála. Með lögum nr. 28/2011, um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum, og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, vegna stofnunar nýs embættis landlæknis, sem samþykkt voru á Alþingi 30. mars 2011, var kveðið á um að starfræktur skyldi vera lýðheilsusjóður sem hefði það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf sem samræmdist markmiðum laganna, bæði innan og utan embættisins. Lýðheilsusjóður kom í stað Forvarnasjóðs og rennur nú hlutfall af innheimtu áfengisgjaldi til sjóðsins í stað Forvarnasjóðs áður, en jafnframt var gerð sú breyting að í lýðheilsusjóð rynni jafnframt lögboðið framlag af brúttósölu tóbaks. Samkvæmt núgildandi lögum rennur því til lýðheilsusjóðs hlutfall af innheimtu áfengisgjalds í samræmi við ákvæði laga um gjald af áfengi og tóbaki, hlutfall af brúttósölu tóbaks í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir og framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga hverju sinni. Frá árinu 2012 hefur stjórn lýðheilsusjóðs tekið ákvarðanir um úthlutun styrkja úr sjóðnum í samræmi við ákvæði reglugerðar og starfsreglna sem sjóðurinn setur sér.
    Fram til ársins 2011 úthlutaði fjárlaganefnd Alþingis styrkjum til félaga, samtaka og einstaklinga af safnliðum fjárlaga en við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2012 var þessu breytt m.a. til að tryggja gegnsæja meðferð umsókna um styrki úr ríkissjóði. Í tilkynningu frá Alþingi, dags. 16. september 2011, voru þessari breytingu gerð skil og hefur Alþingi frá þeim tíma ákvarðað umfang styrkja til einstakra málaflokka en úthlutun þeirra hefur verið á forræði ráðuneyta, lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta eða annarra sem sjá um og bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum. Þá kom fram í tilkynningunni að gert væri ráð fyrir að ráðuneytin úthlutuðu einungis styrkjum til verkefna sem falla undir málefnasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau féllu ekki undir lögbundna sjóði eða samninga. Með hliðsjón af því setti velferðarráðuneytið reglur um styrkveitingar og hafa styrkir verið veittir m.a. til lýðheilsu- og forvarnaverkefna frá árinu 2012.
    Í þeim tilgangi að hafa betri yfirsýn yfir styrkveitingar til verkefna á sviði lýðheilsu og forvarna eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun úr lýðheilsusjóði, þannig að í stað stjórnar lýðheilsusjóðs sé það í höndum heilbrigðisráðherra að taka ákvarðanir um úthlutun styrkja úr sjóðnum að fengnum tillögum stjórnar lýðheilsusjóðs. Verði frumvarpið að lögum verða styrkveitingar til lýðheilsu- og forvarnaverkefna í betra samræmi við áherslur Alþingis frá árinu 2011 að tryggja gegnsæi við úthlutun styrkja úr ríkissjóði og gildandi reglur um úthlutun styrkja sem heilbrigðisráðherra veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni, m.a. um að ekki skuli ráðstafa styrkjum til aðila sem hlotið hafa styrki úr lögbundnum sjóðum. Þannig verði komið í veg fyrir að umsækjendur sömu verkefna fái bæði úthlutað styrkjum af safnliðum fjárlaga og úr lýðheilsusjóði.
    Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á skipan stjórnar lýðheilsusjóðs. Samkvæmt gildandi lögum er stjórn sjóðsins skipuð sjö fulltrúum, fjórir eru tilnefndir af fagráðum landlæknis, tveir eru fulltrúar landlæknis og formaður er skipaður af ráðherra. Lagt er til að stjórnarmönnum verði fækkað um fjóra fulltrúa þannig að embætti landlæknis eigi einn fulltrúa í stað tveggja, fagráð landlæknis eigi ekki fulltrúa í stjórninni og áfram verði gert ráð fyrir því að formaður stjórnar sjóðsins verði skipaður af ráðherra. Þá er lagt til að einn fulltrúi í stjórn sjóðsins verði tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, en mikilvægt er að í stjórn lýðheilsusjóðs sitji fulltrúi úr fræðasamfélaginu. Með nýrri skipan sjóðsins er leitast við að einfalda og auka skilvirkni í meðferð og afgreiðslu umsókna sem berast sjóðnum.
    Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á fjármögnun sjóðsins. Eftir sem áður verður styrkjum úthlutað til lýðheilsu- og forvarnaverkefna á grundvelli fagþekkingar. Þá hefur frumvarp þetta ekki gefið tilefni til sérstaks mats á samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum (lýðheilsusjóður).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun úr lýðheilsusjóði og skipan stjórnar lýðheilsusjóðs.
    Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér er varðar úthlutun úr sjóðnum er að í stað stjórnar lýðheilsusjóðs er það ráðherra heilbrigðismála sem tekur ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum stjórnar. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir að fækka í stjórn lýðheilsusjóðs úr sjö stjórnarmeðlimum í þrjá. Greiðslur fyrir störf stjórnar lýðheilsu hafa verið hluti af rekstrargjöldum sjóðsins og eru ekki lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi í frumvarpinu. Við þessa breytingu lækkar rekstrarkostnaður sjóðsins lítillega en ráðstöfunarfé til úthlutunar eykst þá í sama mæli.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs.