Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 629  —  156. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga
og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum
(notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti, Hörð Jóhannesson frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Ástu Þórðardóttur og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Margréti Hjálmarsdóttur og Eygló Sif Sigfúsdóttur frá Einkaleyfastofunni, Þórunni Önnu Árnadóttur og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu, Katrínu Maríu Andrésdóttur og Svein Sæland frá Sambandi garðyrkjubænda, Ingu Skarphéðinsdóttur frá Félagi atvinnurekenda og Júlíus Aðalsteinsson frá Bandalagi íslenskra skáta.
    Umsagnir um málið bárust frá Bandalagi íslenskra skáta, Einkaleyfastofunni, Félagi atvinnurekenda, Íslandsstofu, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Matvælastofnun, Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Sambandi garðyrkjubænda, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að nota þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu á vöru og þjónustu án sérstaks leyfis, enda sé varan eða starfsemin íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð, en samkvæmt gildandi lögum þarf leyfi forsætisráðuneytisins fyrir notkun fánans í þessu skyni.

Forsaga málsins.
    Með lögum sem sett voru árið 1998 voru samþykktar breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið þar sem forsætisráðherra var heimilað að veita leyfi til notkunar fánans í vörumerki eða söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Markmiðið með breytingunni var að auka frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Reglugerðin hefur aldrei verið sett, m.a. vegna vandkvæða við að setja gæðastaðla fyrir vörur.
    Fjölmörg þingmál hafa verið lögð fram af þingmönnum og forsætisráðherra með það að markmiði að rýmka og skýra reglur um notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Á 143. löggjafarþingi samþykkti Alþingi að vísa lagafrumvarpi þess efnis til ríkisstjórnarinnar til nánari skoðunar og lagði forsætisráðherra fram frumvarp á 144. löggjafarþingi sem varð ekki útrætt og er nú endurflutt lítið breytt.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fjallaði um þær breytingar sem lagðar eru í til í frumvarpinu á 12. gr. laganna, hugtakanotkun í frumvarpinu, þau skilyrði sem lagt er til að verði lögð til grundvallar við notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu og eftirlit með framkvæmdinni.

Heimildarákvæði.
    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á 4. mgr. 12. gr. laganna að heimilt verði að nota hinn almenna þjóðfána í merki, sbr. þó 2. mgr. þeirrar greinar, eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Í 2. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að óheimilt sé að nota fánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar. Þá er í lokamálslið 4. mgr. 12. laganna kveðið á um að óheimilt sé að nota fánann í firmamerki. Ekki eru lagðar til breytingar á þeirri tilhögun. Meiri hlutinn telur að með vísan til skýrleika sé rétt að bannákvæðin verði öll í 2. mgr. 12. gr. laganna og leggur til breytingu í þá veru.

Hugtakanotkun.
    Í frumvarpinu er lagt til að ekki þurfi sérstakt leyfi ráðuneytisins til að nota hinn almenna þjóðfána við markaðssetningu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar frá Einkaleyfastofunni um að í efnismálsgrein a-liðar 2. gr. frumvarpsins sé hugtakið „merki“ notað í 1. málsl. en „vörumerki“ í 3., 4. og 6. málsl. og að stofnunin telji samræmisins vegna rétt að nota hugtakið merki í ákvæðinu. Við meðferð málsins á fyrri þingum hefur Íslandsstofa beitt sér fyrir því að fá heimild til notkunar þjóðfánans við erlend samstarfsverkefni, svo sem merki sameiginlegrar ferðasýningar sem merkt er með þjóðfánum þátttökulanda. Meiri hlutinn telur að með því að nota orðið merki í stað orðsins vörumerki nái það yfir slík samstarfsverkefni milli landa. Meiri hlutinn tekur þó fram að breytinguna verði að túlka út frá ákvæði 2. mgr. 12. gr. laganna um að óheimilt sé að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með breytingunni muni heimild laganna til að nota fánann í merki einnig ná til svonefndra félagamerkja, sbr. lög nr. 155/2002. Meiri hlutinn áréttar að ekki er verið að leggja til breytingar á bannákvæði 2. mgr. 12. gr. laganna, þ.m.t. banni við notkun fánans í félagamerki.
    Meiri hlutinn leggur auk þess til að í stað orðanna „íslenskur höfundur“ í 5. málsl. efnismálsgreinar a-liðar 2. gr. frumvarpsins verði notuð orðin „íslenskur aðili“ þar sem höfundur að hugverki geti verið of þröng skilgreining.

Skilyrði fyrir notkun þjóðfánans.
    Nefndin fjallaði um þau skilyrði sem lagt er til í frumvarpinu að verði lögð til grundvallar notkun þjóðfánans í merki, á söluvarning, umbúðir eða auglýsingu á vöru og þjónustu.
    Í frumvarpinu er lagt til að meginskilyrðin fyrir því að vara teljist íslensk að uppruna verði að hún sé framleidd hér á landi og að hún sé úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að orðalagið „að uppistöðu til“ sé nokkuð matskennt en meiri hlutinn tekur fram að það felur í sér það viðmið að meiri hluti hráefnisins þurfi að lágmarki að vera innlent hráefni til þess að geta uppfyllt skilyrðið.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram ábendingar um að óheppilegt væri að skilgreina uppruna í frumvarpinu á annan hátt er gert er í upprunareglum EES. Í frumvarpinu kemur fram að sjónarmið að baki reglum um notkun íslenska fánans til markaðssetningar séu í grundvallaratriðum önnur en að baki upprunareglunum. Sem dæmi má nefna að ef upprunareglurnar yrðu lagðar til grundvallar yrði jafnframt girt fyrir að heimilt yrði að merkja íslenskar hönnunarvörur sem framleiddar væru erlendis með íslenska fánanum. Af umsögnum um málið er þó ljóst að þessi munur er ekki nægilega ljós. Meiri hlutinn telur að til þess að skýra þennan mun sé rétt að leggja til að orðin „að uppruna“ verði felld brott úr a-lið 2. gr. frumvarpsins þannig að eftir standi skilyrði um að vara teljist íslensk.

Framleiðsla í 30 ár eða samkvæmt íslenskri hefð.
Í greininni eru einnig lagðar til nokkrar sérreglur um hvenær vara geti talist vera íslensk að uppruna í skilningi laganna þannig að leyfilegt verði að merkja hana með þjóðfánanum. Fyrsta reglan felur í sér að vara sem hefur verið framleidd hér á landi í a.m.k. 30 ár undir sama vörumerki teljist íslensk að uppruna þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti. Sama gildi um matvöru sem er framleidd hér á landi samkvæmt íslenskri hefð. Fyrir nefndinni komu fram sömu sjónarmið og við meðferð málsins á síðasta löggjafarþingi um að skilyrðið um 30 ár gæti verið of strangt þar sem vörur hefðu sjaldan svo langan líftíma og að nær væri að miða við 10–15 ár. Einnig að reglan gæti verið til þess fallin að vinna gegn eðlilegri vöruþróun sem yrði að eiga sér stað, sér í lagi þar sem líftími vöru og þá ekki síst matvöru á markaði væri almennt takmarkaður. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur til þá breytingu á ákvæðinu að miðað verði við 15 ár.

Útfærsla merkingar.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem fer með neytendamál verði heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að Neytendastofu, sem falið er eftirlit með framkvæmdinni samkvæmt frumvarpinu, yrði einnig falið að gefa út nánari reglur um skilyrði fyrir notkun fánans. Meiri hlutinn telur eðlilegt að þeim ráðherra sem fer með neytendamál verði falið að setja reglur um eftirlitið en telur eðlilegt að leitað verði til Neytendastofu með útfærsluna. Meiri hlutinn telur einnig nauðsynlegt að í reglugerðinni verði útfært nánar hvaða kröfur eigi að gera til slíkra merkinga, þ.e. hvort eigi að vera samræmi í þeim, t.d. hvernig liti megi nota, hversu stór fáninn megi vera og hvort hann megi umlykja vöruna eða eigi að vera í tilteknu stærðarhlutfalli við pakkninguna/vöruna. Meiri hlutinn telur eðlilegt að slík atriði verði nánar útfærð með reglugerð og haft samráð við Staðlaráð Íslands við þá vinnu.

Hlutverk Neytendastofu.
    Í frumvarpinu er lagt til að Neytendastofa veiti leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skuli skrásetja. Samkvæmt vörumerkjalögum skal skrásetja vörumerki hjá Einkaleyfastofunni. Með vísan til þess telur nefndin skýrara að það komi fram í ákvæðinu og leggur til að orðunum „hjá Einkaleyfastofunni“ verði bætt við. Meiri hlutinn leggur áherslu á að Neytendastofa hafi samráð við Einkaleyfastofuna við undirbúning leyfisveitingar fyrir notkun fánans í vörumerki þannig að þjónustan sem stofnanirnar veita verði sem allra best.
    Í frumvarpinu er lagt til að eftirlit með notkun almenna þjóðfánans í merkingu á vöru verði falið Neytendastofu og lagt til að um málsmeðferð Neytendastofu, úrræði og viðurlög vegna brota á ákvæðunum og um kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála fari að öllu leyti eftir ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um hvort fela ætti Neytendastofu að hafa eftirlit með notkun skjaldarmerkisins. Skv. 12. gr. a laganna er skjaldarmerkið auðkenni stjórnvalda ríkisins og notkun á því þeim einum heimil. Meiri hlutinn telur rétt að ráðuneytið skoði hvort rétt sé að færa þann hluta eftirlitsins frá lögreglu til Neytendastofu.

Niðurstaða.
    Meiri hlutinn telur að verði frumvarpið að lögum verði unnt að auðkenna betur sérstöðu íslenskra vara og auðvelda íslenskum fyrirtækjum markaðssetningu á vörum og þjónustu. Þá geti heimild til fánamerkingar verið góð viðbót við það starf sem þegar er unnið við markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu. Meiri hlutinn telur að með hliðsjón af neytendasjónarmiðum sé nauðsynlegt að ráðuneytið fylgist með því hvernig notkun á fánamerkingum þróast, m.a. í tengslum við aðrar merkingar sem vísa til fánans, og leggi til breytingar ef þess gerist þörf.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þjóðfánanum verði á engan hátt óvirðing gerð og að hann beri að umgangast af virðingu hér eftir sem hingað til.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt, til viðbótar við framangreindar breytingartillögur, að leggja einnig til tæknilegar breytingar á 2. gr. frumvarpsins sem eru til þess fallnar að auka skýrleika og auk þess í betra samræmi við lögin.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „sbr. þó 7. mgr. 12. gr.“ komi: sbr. þó 10. mgr. 12. gr.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      A-liður 2. gr. orðist svo: Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
                      a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.
                      b.      Í stað 3. og 4. mgr. koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                             Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í merki, sbr. þó 2. mgr., eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk og fánanum ekki óvirðing gerð.
                              Vara telst íslensk ef hún er:
                         a.     framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til,
                         b.     framleidd hér á landi í a.m.k. 15 ár undir sama vörumerki þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti; sama gildir um matvöru sem er framleidd hér á landi samkvæmt íslenskri hefð.
                             Hönnunarvara telst íslensk ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þótt hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika.
                             Hugverk telst íslenskt ef það er samið eða skapað af íslenskum aðila.
                             Neytendastofa veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja hjá Einkaleyfastofunni.
                  b.      Í stað orðanna „skv. 2.–6. mgr.“ í 1. mgr. b-liðar komi: skv. 2.–9. mgr.

Alþingi, 10. desember 2015.

Ögmundur Jónasson,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Brynjar Níelsson. Helgi Hjörvar,
með fyrirvara.
Fanný Gunnarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Árni Páll Árnason,
með fyrirvara.