Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 715  —  382. mál.
Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um
ættleiðingar á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum.


     1.      Hvernig fyrirkomulag er á ættleiðingum ef einstaklingur vill ættleiða munaðarlaust barn úr flóttamannabúðum?
    Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um ættleiðingar sem undirritaður var í Haag í Hollandi árið 1993 (Haag-samningurinn). Samningurinn var gerður með skírskotun til samn­ings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálans) og er megintilgangur hans að tryggja að ættleiðing barns milli landa fari fram með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og að grundvallarréttindi þess séu virt. Þá er tilgangur samningsins einnig að koma í veg fyrir brott­nám barna og verslun með þau. Í Haag-samningnum kemur fram að aðildarríki skuli stuðla að því að gerðir séu samningar um ættleiðingar milli landa, m.a. til að tryggja að það séu þar til bær stjórnvöld og stofnanir sem sjái um að koma barni fyrir í öðru landi. Haag-samningur­inn mælir m.a. fyrir um skilyrði fyrir ættleiðingum milli landa, um hlutverk stjórnvalda, lög­giltra ættleiðingarfélaga og málsmeðferð ættleiðingarmála.
    VI. kafli ættleiðingarlaga, nr. 13/1999, fjallar um ættleiðingar barna erlendis frá og í 34. og 35. gr. laganna er fjallað um ættleiðingarfélög og milligöngu um ættleiðingar.
    Innanríkisráðherra löggildir félög til að hafa milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Lög­gilding skal vera tímabundin og skal í löggildingarskjali greint frá því til hvaða erlendra ríkja löggildingin taki. Eingöngu löggilt ættleiðingarfélög mega hafa milligöngu um ættleiðingar, þau ein mega koma á sambandi milli þeirra sem óska eftir því að ættleiða barn, sem búsett er erlendis, og stjórnvalds og viðurkenndra ættleiðingarfélaga í heimalandi barnsins.
    Reynslan víða um lönd, og ekki hvað síst á Norðurlöndunum, sýnir að öruggast og farsælast sé að löggilt félög er hafa í sinni þjónustu starfsfólk sem hefur reynslu á þessu sviði, annist í sem flestum tilvikum milligöngu um ættleiðingar erlendra barna. Með löggildingu slíkra félaga er stuðlað að því að tryggja að góð samskipti séu við þar til bær stjórnvöld erlendis eða viðurkenndar stofnanir sem annast ættleiðingarþjónustu. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að tryggja að vandlega sé gengið frá samþykki kynforeldra eða þess sem fer með forsjá barns og að ekki fari fram óeðlilegar fjárgreiðslur í tengslum við ættleiðinguna.
    Íslensk ættleiðing er eina löggilta ættleiðingarfélagið hér á landi og hefur það löggildingu frá ráðuneytinu til að hafa milligöngu um ættleiðingar frá Búlgaríu, Filippseyjum, Indlandi, Kína, Kólumbíu, Tékklandi og Tógó. Þess ber einnig að geta að skv. 12. gr. Haag-samnings­ins verður félag sem löggilt hefur verið í móttökuríki einnig að fá heimild eða löggildingu í upprunaríki til þess að geta haft milligöngu um ættleiðingar frá því ríki og því er ekki ein­hliða hægt að ákveða samningsríki. Þannig er ekki mögulegt sem stendur að ættleiða börn frá öðrum löndum en þeim sem talin eru upp hér að framan og engin heimild fyrir hendi um að sérstakt fyrirkomulag geti verið á ættleiðingum barna úr flóttamannabúðum.
     2.      Eru önnur lönd með ákveðið fyrirkomulag á ættleiðingum á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum?
    Innanríkisráðuneytið sendi fyrirspurnir um þetta efni til danskra, finnskra, norskra og sænskra stjórnvalda og óskaði eftir upplýsingum um hvort þau hefðu ákveðið fyrirkomulag á ættleiðingum á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum.
    Líkt og á Íslandi eru ekki fyrirliggjandi neinar heimildir annars staðar á Norðurlöndunum sem leyfa ættleiðingar á börnum úr flóttamannabúðum og engar breytingar þar á eru fyrirhug­aðar. Að mati finnskra stjórnvalda er talið rétt að varast slíkar ættleiðingar þar sem margvís­legar hættur tengjast þeim. Þar á meðal sé mjög mikilvægt að virða þá grundvallarreglu sem á ensku kallast ,,the subsidiarity principle“ en hún felur í sér í stuttu máli að ættleiðing á milli landa eigi einungis að koma til álita eftir að kannað hefur verið til þrautar hvort mögulegt sé að ráðstafa barni með fullnægjandi hætti í heimalandi þess. Í svari finnskra stjórnvalda er einnig bent á að mögulega geti fylgdarlaust barn í flóttamannabúðum átt foreldra eða nána ættingja á lífi. Þá er lögð þung áhersla á að mikilvægt sé að fá samþykki líffræðilegra foreldra barns fyrir ættleiðingu. Ef þau séu á hinn bóginn talin af verði að liggja fyrir staðfesting þess efnis með fullgildum dánarvottorðum. Þannig sé einfaldlega ekki nærri alltaf hægt að ganga úr skugga um það með óyggjandi hætti að börn í flóttamannabúðum séu í raun í þeirri stöðu að ættleiðing sé ásættanlegt úrræði. Önnur ríki á Norðurlöndunum hafa tekið undir þessi sjónarmið Finna.

     3.      Hefur ráðherra skoðað möguleika á því að Íslendingar ættleiði börn frá svæðum sem flóttamenn koma frá á næstu mánuðum? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að auðvelda slíkar ættleiðingar?
    Líkt og að framan greinir er Ísland aðili að Haag-samningi um ættleiðingar frá 1993 sem hefur þann megintilgang að tryggja að við ættleiðingu milli landa séu grundvallarréttindi barns virt, fyllsta öryggis gætt og að komið sé í veg fyrir brottnám barna og verslun með þau.
    Í inngangi Haag-samningsins er jafnramt áréttað að hverju aðildarríki beri að gera viðeig­andi ráðstafanir til þess að börn geti notið umsjár upprunalegrar fjölskyldu sinnar enda í grundvallaratriðum gert ráð fyrir að barni sé almennt fyrir bestu að alast upp hjá foreldrum sínum eða fjölskyldu sinni. Tengsl barns við uppruna sinn og menningu þykja jafnframt mikilvæg svo og möguleiki barns til að halda tengslum við fjölskyldu sína eða aðra nákomna. Þannig er reynt að ráðstafa barni í fóstur eða ættleiða barn innan heimalands þess áður en hugað er að ættleiðingu milli landa. Ættleiðing milli landa getur því aðeins komið til álita ef barn á þess ekki kost að alast upp hjá viðeigandi fjölskyldu í heimalandi sínu. Þessi regla (e. subsidiarity principle) er grundvallarregla í alþjóðasamningum og ber að taka mið af henni við alla stefnumótun og framkvæmd.
    Þá er viðurkennt að mansal eða sala á börnum í tengslum við ættleiðingar á milli landa á sér stað. Sem dæmi hér um er rétt að nefna að í kjölfar hamfaranna á Haítí taldi sérfræðinga­nefnd um Haag-samninginn nauðsynlegt að vekja athygli á aukinni hættu á mansali eða sölu á börnum sem getur skapast í kjölfar styrjalda eða náttúruhamfara. Við þær aðstæður beri að setja í algeran forgang að sameina barn og foreldra eða upprunafjölskyldu. Ótímabærar umsóknir um ættleiðingar eða umsóknir utan hefðbundinna leiða beri markvisst að forðast og stöðva.
    Af öllu ofangreindu virtu er það fylgdarlausum börnum í flóttamannabúðum, að svo stöddu, ekki fyrir bestu að auðvelda ferli við ættleiðingu á þeim til annarra landa – þvert á móti er mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt enda ekki loku fyrir það skotið að fylgdarlaust barn í flóttamannabúðum eigi foreldri á lífi eða aðra nána fjölskyldumeðlimi. Þá er nærtækara, til verndar þessum börnum, að alþjóðlegt mannúðarstarf sem þegar er til staðar í flóttamannabúðum sé eflt og styrkt, svo sem starfsemi Rauða krossins, UNICEF og Flótta­mannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.