Ferill 391. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 718  —  391. mál.
Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur
um skotvopnavæðingu almennra lögreglumanna.


    Ráðuneytið áréttar í upphafi að nú sem fyrr er gengið út frá þeirri meginreglu að lögreglan sé að jafnaði óvopnuð við dagleg störf. Almenn sátt er innan lögreglunnar um það og ekki stendur til að útvíkka núgildandi heimildir til þess að vopna almenna lögreglumenn. Vopnareglur lögreglunnar, verklagsreglur ríkislögreglustjóra og skipulag lögreglu hafa að geyma ítarleg fyrirmæli um skilyrði þess að lögreglumenn geti vopnast og hvernig haga skuli geymslu og umsýslu vopna. Þessar reglur hafa verið birtar og eru öllum aðgengilegar.
    Með reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá árinu 1999, sem byggja á 3. gr. vopnalaga, nr. 16 frá 25. mars 2003, er settur rammi um valdbeitingu og vopnaburð lögreglu og kveðið á um heimildir hennar til að beita tilteknum vopnum, hverjar séu takmarkanir á þeim og hvernig öryggi vopna skuli tryggt. Í reglunum felst stefnumörkun ráðuneytisins um meðferð, notkun og geymslu vopna lögreglunnar. Í reglunum eru sett ítarleg ákvæði um skilyrði þess að lögregla vopnist. Í 19. gr. reglnanna er fjallað um geymslu og afhendingu vopna lögreglu. Þar kemur fram að geyma skuli ákveðin vopn, þar á meðal skotvopn, í læstum hirslum eða aðstöðu, á lögreglustöð. Lögreglustjóri geti þó ákveðið, í samráði við ríkislögreglustjóra, að skammbyssur séu hafðar í lögreglubifreið.
    Með vísan til framangreinds er því ekki um það að ræða, eins og gefið er til kynna með orðalagi fyrirspurnarinnar, að nú standi yfir skotvopnavæðing lögreglunnar.
    Í tilefni af fyrirspurn þingmannsins leitaði ráðuneytið eftir umsögn embættis ríkislögreglustjóra.

     1.      Á hvaða rannsóknum eða þarfagreiningum byggist ákvörðun um að koma vopnabúri fyrir í lögreglubifreiðum sem notaðar eru til almennrar löggæslu og hvar eru þær aðgengilegar?
    Í sérstökum tilvikum og að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra er heimilt að skotvopnum verði komið fyrir í læstum hirslum í lögreglubifreiðum. Byggist slíkt á mati lögreglustjóra að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra að þörf sé á slíku, m.a. í því skyni að stytta viðbragðstíma lögreglu komi til alvarlegra vopnamála.
    Lögð er áhersla á að lögreglan skipuleggi störf sín á grundvelli kerfisbundinnar greiningar á þróun mála hérlendis og erlendis og verkefnamiðaðrar löggæslu þar sem reynt er að nálgast
brot og önnur löggæsluvandamál með það fyrir augum að fyrirbyggja að þau endurtaki sig.
    Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur það hlutverk samkvæmt lögreglulögum að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Greiningardeild ríkislögreglustjóra birti hinn 20. febrúar 2015 mat á hættu á hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum á íslenskt samfélag. Mat deildin hættustig „í meðallagi“, eða hærra en nokkru sinni fyrr. Greiningardeildin hefur síðustu ár gefið reglulega út matsskýrslur um hættu á hryðjuverkum, öðrum stórfelldum árásum og skipulagðri brotastarfsemi. Þá gaf ríkislögreglustjóri út í febrúar 2015 greinargerð um viðbúnaðargetu lögreglunnar.
    Í þessu samhengi er rétt að minna á skýrslu ráðherra til Alþingis um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar á löggæslu hér á landi og gerð löggæsluáætlunar, sem lögð var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013, sbr. þskj. 1277, 687. mál. Í þeirri skýrslu er gerð grein fyrir störfum nefndar sem skipuð var í samræmi við þingsályktun, sem var samþykkt á Alþingi 19. júní 2012, um grundvallarskilgreiningar löggæslu hér á landi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Miðar þingsályktunartillagan að því að skilgreina eðli og umfang lögreglustarfsins auk þess að skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglu er ætlað að sinna og hver kostnaður ríkissjóðs er af lögreglu hverju sinni. Á þeim grundvelli hefur verið þróuð áhættugreiningaraðferð sem miðar að því að skilgreina öryggisstig og þjónustustig löggæslu á grundvelli tilgreindra markmiða og mælikvarða. Stefnt er að því að sú áhættugreining verði lögð til grundvallar við forgangsröðun verkefna lögreglunnar í framtíðinni.

     2.      Hverrar gerðar og stærðar eru þau skotvopn sem komið verður fyrir í vopnabúri lögreglubifreiða?
    Samkvæmt upplýsingum ríkislögreglustjóra er um að ræða Glock, 9 mm skammbyssur.

     3.      Hversu margar lögreglubifreiðar verða búnar skotvopnum, hvar verða þær á landinu og hver er kostnaðurinn við að útbúa lögreglubifreiðar með skotvopnum?
    Ákvörðun um að geyma vopn í lögreglubifreiðum í stað þess að geyma þau á lögreglustöðvum er í höndum viðkomandi lögreglustjóra, að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999. Nokkur lögreglulið á landsbyggðinni hafa geymt vopn í lögreglubifreiðum undanfarin ár sökum þess að mat viðkomandi lögreglustjóra hefur verið að þörf sé á slíku, m.a. í því skyni að stytta viðbragðstíma lögreglu komi til alvarlegra vopnamála.
    Misjafnt er hvort vopn séu að staðaldri geymd í lögreglubifreiðum. Fyrir utan bifreiðar sérsveitar ríkislögreglustjóra eru 18 lögreglubifreiðar búnar skotvopnum í læstum vopnaskápum. Vopnaskápar eru þó í fleiri bifreiðum. Bifreiðarnar eru hjá lögreglustjórunum á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi. Kostnaður við nýja tegund vopnaskápa með ísetningu er um 225 þús. kr. á bifreið.

     4.      Hvaða ástæður eru fyrir því að verja fé til að búa almenna lögreglumenn skotvopnum frekar en að fjölga lögreglumönnum eða efla og treysta starfsmenntun þeirra, t.d. til að fást við rannsókn kynferðisbrota?
    Lögreglan er sú stofnun þjóðfélagsins sem hefur með höndum löggæslu í víðustu merkingu þess orðs og gegnir lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins.
    Hlutverk lögreglunnar er mjög viðamikið og ljóst að forgangsraða verður verkefnum eftir
mikilvægi hverju sinni sem miðast við að tryggja viðunandi þjónustustig og öryggisstig löggæslu. Að mörgu er að hyggja í þeim efnum og eitt útilokar ekki annað. Það skal tekið fram vegna fyrirspurnarinnar að haldin hafa verið námskeið varðandi rannsóknir mála, þar á meðal varðandi rannsóknir kynferðisbrota.
    Í framangreindri skýrslu til Alþingis um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og gerð löggæsluáætlunar, sem m.a. var skipuð fulltrúum allra flokka sem sæti áttu á Alþingi, var gerð eftirfarandi tillaga um tiltekna forgangsröðun varðandi eflingu lögreglunnar og var þeirri forgangsröðun m.a. fylgt við úthlutun þingmannanefndar á viðbótarfjármagni til lögreglunnar á árunum 2014–2015. Forgangsröðun nefndarinnar var þessi:
          1.      Fjölga almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit og bæta nauðsynlegan búnað og þjálfun því tengdu. Aðaláhersla fyrst um sinn væri að efla lögregluna utan höfuðborgarsvæðisins, fyrst og fremst hina almenna löggæslu.
          2.      Styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum. Gert var ráð fyrir að fjölga í rannsóknardeildum, sérdeildum sem starfa á landsvísu og í landamæradeild á Keflavíkurflugvelli.
          3.      Bæta búnað lögreglu og þjálfun lögreglumanna. Komið verði á fastri skipan varðandi síþjálfun og endurnýjun á margvíslegum búnaði lögreglunnar.
    Taldi nefndin brýnt að huga að grunnþáttum í starfi lögreglunnar.
    Í október 2009 kom út skýrsla um grunnþjónustu lögreglunnar sem ríkislögreglustjóri vann að beiðni þáverandi dómsmálaráðherra. Í skýrslunni var leitast við að skilgreina grunnþjónustu lögreglunnar og var niðurstaðan sú að verkefni sem falla undir grunnþjónustuna væru þau sem tengjast beint eða óbeint hlutverki hennar skv. 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
          *      Öryggishlutverkið: að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi.
          *      Afbrotavarnahlutverkið: að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins.
          *      Rannsóknarhlutverkið: að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í sakamálalögum eða öðrum lögum.
          *      Þjónustu- og hjálparhlutverkið: að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að.
          *      Aðstoðarhlutverkið: að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á.
          *      Samstarfshlutverkið: að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu.
    Ljóst er að lögreglustarfið kallar annars vegar á vel menntaða, þjálfaða og útbúna lögreglumenn sem geta sinnt sem mestu af alhliða störfum lögreglunnar. Hins vegar kallar lögreglustarfið einnig í auknum mæli á sérhæfingu, sérmenntun og þjálfun hluta lögreglunnar og sérhæfð vinnubrögð við ákveðna þætti í starfi hennar, hvort heldur er vegna almennra lögreglustarfa eða rannsókna mála.
    Í framangreindri skýrslu til Alþingis um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og gerð löggæsluáætlunar kemur einnig eftirfarandi fram: Eitt af grunnhlutverkum ríkisvaldsins er að tryggja öryggi almennings, samfélagsins og ríkisins. Í þriðju grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna segir: „Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.“ Greininni er ætlað að tryggja að öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa byggi á virðingu fyrir mannréttindum, réttaröryggi og lýðræðislegum grundvallarreglum. Löggjöf og réttarvörslukerfið er sú stoð sem tryggja á réttinn til lífs, frelsis og mannhelgi. Lögreglan gegnir þar mikilvægu hlutverki og á m.a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu.
    Skylda lögreglunnar til aðgerða í því skyni að vernda líf og heilsu borgaranna er ótvíræð. Til þess að geta sinnt skyldum sínum sem allra best þurfa lögreglumenn að hafa til að bera menntun, þjálfun og nauðsynleg tæki, þar á meðal að geta nálgast skotvopn og afla heimildar til að bera þau í þeim tilfellum þegar skotárás er yfirvofandi eða yfirstandandi. Frumkvæðisskylda lögreglu og lögreglumanna til þess að mæta vopnuðum aðilum og tryggja öryggi almennings er ótvíræð. Hættan má þó ekki vera óásættanleg né aðgerðir óforsvaranlegar. Lágmarksforsendur í því efni eru að lögreglumenn hafi réttan og fullnægjandi búnað og hafi fengið fullnægjandi grunn- og viðhaldsþjálfun. Þá verður að hafa í huga vinnuverndarlöggjöf og skyldu vinnuveitanda til að gætt sé fyllsta öryggis og að starfsmenn hafi fullnægjandi þjálfun og búnað. Það er ekki forsvaranlegt að senda óvopnaða lögreglumenn til að takast á við hættulegar aðstæður þar sem skotvopnum er beitt.

     5.      Er það raunin að vopnabúri verði komið fyrir í lögreglubifreiðum á höfuðborgarsvæðinu áður en lögreglumenn á landsbyggðinni verða vopnaðir? Ef svo er, hvað réttlætir þá ráðstöfun með tilliti til staðsetningar og viðbragðstíma sérsveitar lögreglunnar?
    Eins og fram kom hér að framan hafa verið vopn í lögreglubifreiðum á landsbyggðinni í fjöldamörg ár. Ákvörðun um að geyma vopn í lögreglubifreiðum í stað þess að geyma þau á lögreglustöðvum er í höndum viðkomandi lögreglustjóra að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999.
    Nýjar tegundir árásaraðferða brotamanna í nágrannalöndunum mörg undanfarin ár, þ.m.t. annars staðar á Norðurlöndunum, kalla á breytt vinnubrögð lögreglu, m.a. með styttingu viðbragðstíma fyrir augum. Um það efni vísast í framangreindar skýrslur, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar.
    Hvað varðar staðsetningu sérsveitar ríkislögreglustjóra er til þess að líta að hún hefur um árabil verið staðsett á Akureyri auk höfuðborgarsvæðisins.

     6.      Hefur farið fram áhættumat vegna ákvörðunar um að koma vopnabúri fyrir í lögreglubifreiðum sem notaðar eru til almennrar löggæslu, t.d. með tilliti til þess hvort ráðstöfunin auki líkur á því að afbrotamenn vopnist? Ef svo er, hver var niðurstaða þess og hver vann það?
    Rétt er að árétta að ekki stendur til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur að almennir lögreglumenn séu óvopnaðir við dagleg störf né er verið að auka heimildir lögreglu til að vopnast frá því sem nú er samkvæmt reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999. Lögreglan er því ekki að vopnast umfram það sem verið hefur.
    Áhersla lögreglu á það að stytta viðbragðstíma snýr sérstaklega að nýjum tegundum árásaraðferða en ekki vopnaburði hefðbundinna afbrotamanna. Í árásum sem þessum hafa tilræðismenn það að markmiði að deyða eða valda sem flestum skaða. Um er að ræða tilfelli þar sem stöðva þarf árásaraðila án nokkurrar tafar og tryggja vettvang svo hægt sé að veita lífsbjargandi aðstoð. Það að lögreglan stöðvi ekki slíkan verknað og tryggi ekki vettvang þýðir ekki einungis að hún stendur utan við og bíður eftir vopnuðum liðsafla, heldur einnig að annað björgunarlið kemst ekki að til að veita lífsbjargandi aðstoð þeim sem særðir eru.
    Síðasta áratug hafa afbrotahópar hérlendis vopnast eins og lögreglan hefur orðið vör við og haldlagningar á skotvopnum sýna. Á árunum 2010 til nóvember 2015 voru 100 skotvopn tilkynnt stolin og lögreglan lagði hald á alls 784 skotvopn. Á síðustu árum hafa komið upp tilfelli þar sem afbrotamenn hafa beitt skotvopnum hver gegn öðrum. Þeir hafa ekki enn beitt skotvopnum gegn lögreglu í slíkum tilfellum. Þess ber þó að geta að komið hafa upp tilfelli þar sem skotið hefur verið að lögreglumönnum við störf sín.
    Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að afbrotamenn vopnist. Brotamenn vopnast fyrst og fremst gegn hver öðrum, ýmist til þess að verja sig eða til þess að ná völdum. Eins hefur lögregla orðið þess áskynja að afbrotamenn líti á það sem stöðutákn að vera vopnaðir. Almenningur og lögregla getur lent á milli í átökum afbrotamanna eins og orðið hefur raunin annars staðar á Norðurlöndunum.
    Einnig er um það að ræða að afbrotamenn nota vopn við afbrot, svo sem rán, þar sem vopnið er notað til að ógna, eða að vopn sé notað til manndráps. Í ýmsum tilvikum getur einnig komið til þess að afbrotamenn noti vopn í þeim tilgangi að verjast lögreglu en þó er slíkt ekki algilt því oftast tekst lögreglu að leysa slík mál með samningatækni. Í slíkum tilfellum skiptir öllu að lögreglumenn séu vopnaðir til þess að ná árangri með samningatækni.
    Í reynd geta þó ástæður þess að afbrotamenn vopnist verið nánast jafn margvíslegar og afbrotamenn eru margir og því ómögulegt að gera grein fyrir því með tæmandi hætti hér.

     7.      Hvaða þjálfun hafa þeir lögreglumenn fengið sem munu bera vopnin sem geymd verða í vopnabúrum í almennum lögreglubifreiðum, hversu margir lögreglumenn hafa hlotið slíka þjálfun og hvernig skiptist fjöldi þeirra milli kynja?
    Lögreglumenn fá 69 klst. aðgerðarþjálfun árlega, þar með er talin skotvopnaþjálfun. Á þessu ári hafa 355 lögreglumenn hlotið þjálfun, þar af 46 konur og er þá sérsveitin meðtalin.