Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 741  —  461. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum,
og lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum
(afnám verðtryggingar neytendalána).

Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar.


I. KAFLI
Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Neytendalán, þ.m.t. fasteignaveðlán einstaklinga, falla ekki undir ákvæði þessa kafla.

II. KAFLI
Breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum.

2. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    1. og 2. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
    Til þess að tryggja að neytandi sé upplýstur um hvernig þróun greiðslubyrði hefur verið skal lánveitandi áður en samningur sem kveður á um breytilega vexti er gerður veita upplýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um sögulega þróun vaxta og áhrif þeirra á breytingar á greiðslubyrði.
    Neytendastofa skal birta opinberlega á heimasíðu sinni almennar upplýsingar og dæmi um breytingar á greiðslubyrði óverðtryggðra lána sem lánveitendur skulu byggja upplýsingagjöf skv. 1. mgr. á. Neytendastofa skal einnig birta almennar upplýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár. Staðfesting neytanda á að honum hafi verið kynntar þessar upplýsingar, sbr. 10. mgr. 7. gr., telst fullnægjandi upplýsingagjöf skv. 1. mgr.
    

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmið þessa frumvarps er að leggja bann við verðtryggingu neytendalána, ekki síst lána til kaupa á húsnæði. Með neytendalánum er átt við lánasamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög um neytendalán, nr. 33/2013.
    Frumvarp þetta nær ekki til neytendalánasamninga sem þegar hafa verið gerðir og kunna að vera verðtryggðir. Um þá gilda lögin í þeirri mynd sem þau voru við undirritun samnings.
    Ýmis rök hníga að afnámi almennrar verðtryggingar neytendalána, ekki síst þörf á aukinni neytendavernd auk margvíslegra efnahagslegra raka. Í óstöðugu og sveiflukenndu efnahagslífi er áhættan af lánastarfsemi einhliða á herðum lántakandans. Þetta leiddi m.a. til kröfu um almenna niðurfærslu verðtryggðra lána í kjölfar hruns krónunnar 2008. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stóð í kjölfarið fyrir leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána og setti þannig ákveðið fordæmi fyrir því hvernig bregðast skuli við efnahagssveiflum í framtíðinni. Margir lántakendur taka enn verðtryggð lán þrátt fyrir reynsluna af hruni og verðbólgu, enda er greiðslubyrði verðtryggðra lána oft lægri í fyrstu. Í raun má þó efast um að margir þeirra sem taka verðtryggð lán séu tilbúnir til að taka afleiðingum sveiflukennds efnahagslífs. Ferli hins sveiflukennda efnahagslífs er vel þekkt: gengisfelling, verðbólga, hækkandi vextir, lægri kaupmáttur launa, hækkun á höfuðstóli lána og aukin greiðslubyrði lána.
    Verðtrygging hefur einnig virkað sem hvati til lengri lánstíma. 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán hafa verið kölluð Íslandslán, enda sérkenni íslenska lánamarkaðarins. Lántakandi greiðir ekki niður höfuðstól fyrr en á síðari hluta lánstímans, en fram að þeim tíma hækkar höfuðstóll lánsins ár frá ári. Verðtrygging hefur því beinlínis hvatt til skuldsetningar og komið mörgum í koll með yfirskuldsettar eignir.
    Þegar verðtryggingu var komið á 1979 voru aðstæður á fjármálamarkaði með öðrum hætti en nú er. Fjármálakerfið var allt meira og minna í eigu og undir stjórn ríkisins. Vaxtaákvarðanir voru miðstýrðar og fjármagn skammtað eftir geðþótta og fyrirgreiðslu. Afnám verðtryggingar þýðir ekki afturhvarf til þessa kerfis. Vaxtaákvarðanir eru með öðrum hætti nú. Vextir ráðast á markaði og því hafa fjármálastofnanir meira svigrúm nú til að bregðast við verðbólgu og mikilli eftirspurn eftir lánsfé. Með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til yrðu vaxtaákvarðanir Seðlabankans skilvirkara tæki til hagstjórnar og ríkisstjórnir yrðu að taka meiri ábyrgð á hlut ríkisútgjalda við hagstjórn enda hefðu lausatök við stjórn ríkisfjármála bein áhrif á vaxtagreiðslur íslenskra heimila.
    Samfylkingin hefur haft þá stefnu að besta leiðin til að afnema verðtryggingu sé að ganga í Evrópusambandið og taka í kjölfarið upp evru sem gjaldmiðil. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur gert ótímabundið hlé á aðildarviðræðum og vill að krónan verði framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Það er því ljóst að leið Samfylkingarinnar til afnáms verðtryggingar er ekki fær um sinn og nauðsynlegt að leita annarra leiða. Eins og áður segir hefur ríkisstjórnin framkvæmt almenna niðurfærslu á verðtryggðum lánum vegna hruns krónunnar og boðað aðgerðir til að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Framsóknarflokkurinn lofaði afdráttarlaust fyrir síðustu kosningar að verðtrygging yrði afnumin með öllu. Það er því ljóst að staða verðtryggingar á lánamarkaði er í uppnámi og mikilvægt að bregðast við af festu. Þrátt fyrir þessa stöðu er óvíst með öllu hvenær ríkisstjórnin hyggst leggja fram lagafrumvarp um málið. Þess vegna er mikilvægt að löggjafinn dragi úr óvissu með því að banna verðtryggð neytendalán með skýrum hætti.
    Flest bendir til þess að afnám verðtryggingar neytendalána njóti víðtæks stuðnings. Samkvæmt könnun sem Capacent gerði meðal almennings á seinni hluta ársins 2009 reyndust 80% svarenda hlynntir afnámi verðtryggingar. Á seinni hluta ársins 2011 tóku u.þ.b. 37.000 manns undir kröfu um afnám verðtryggingar með þátttöku í undirskriftasöfnun sem Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir. Litlar líkur eru á að krafan minnki í bráð og almenningur sætti sig við verðtrygginguna. Þetta þurfa stjórnvöld að taka alvarlega. Í lýðræðisþjóðfélagi fær kerfi á borð við verðtryggingu ekki staðist til lengdar ef andúð almennings er jafnsterk og almenn og raun ber vitni.
    Í 1. gr. er lagt til að við 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, bætist ákvæði sem undanskilji neytendalán frá ákvæðum VI. kafla laganna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, með sama hætti og t.d. afleiðusamningar eru undanskildir þeim. Eins og áður segir er með neytendalánum átt við lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög um neytendalán, nr. 33/2013.
    Í 2. gr. er lagt er til að sérákvæði 2. málsl. 3. mgr. 21. gr. laga um neytendalán, varðandi upplýsingar um kostnað vegna lánssamninga er kveða á um verðtryggingu, verði fellt brott þar sem almennt verður óheimilt að verðtryggja slíka samninga. Þá er í 3. gr. lagt til að orðalag 25. gr. laganna verði uppfært til samræmis við afnám verðtryggingar neytendalána. Samhliða því almenna banni á verðtryggingu neytendalána sem frumvarp þetta boðar er nauðsynlegt að ráðist verði í heildræna úttekt á öllum lagabálkum sem breytingin kann að hafa áhrif á í því skyni að tryggja samræmi í löggjöf.