Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 742  —  363. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Heiðu Kristínu Helgadóttur um
skipan dómara við Hæstarétt.


     1.      Hefur vinna verið sett af stað við að endurskoða reglur um skipan dómara við Hæstarétt líkt og fram kom í máli ráðherra í þingsal 5. október sl. að gera þyrfti?
     2.      Hefur ráðherra hafið athugun á því hvernig hægt sé að tryggja ákveðna breidd nefndarmanna í dómaranefnd sem sker úr um hæfi umsækjenda um stöður dómara við Hæstarétt?
    Í innanríkisráðuneytinu fer nú fram athugun á hvaða breytingar sé rétt að gera á þeim reglum sem gilda um skipun dómara. Á meðal þeirra atriða sem eru til athugunar eru samsetning dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara, hlutverk nefndarinnar og þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar við skipun í embætti dómara.

     3.      Hvaða aðferðafræði beitir dómaranefndin við mat sitt á hæfi?
    Í 4. gr. reglna um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti nr. 620/2010 er kveðið á um þau sjónarmið sem mat dómnefndar skal byggt á. Ákvæðið er svohljóðandi:

    ,,Sjónarmið sem mat dómnefndar skal byggt á.

    Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi eða umsækjendur séu hæfastir til þess að hljóta umrætt dómaraembætti. Dómnefnd skal gæta þess við mat sitt að samræmis sé gætt þannig að jafnræði sé í heiðri haft. Niðurstaðan skal byggð á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og skal þar byggt á verðleikum umsækjenda með hliðsjón af menntun og reynslu, ráðvendni, hæfni og skilvirkni í starfi, eins og nánar greinir m.a. hér á eftir:
    1. Menntun, starfsferill og fræðileg þekking. Við mat á menntun, starfsferli og fræðilegri þekkingu skal dómnefndin miða við að æskilegt sé að umsækjandi hafi fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar s.s. reynslu af dómstörfum, málflutningi eða öðrum lögmannsstörfum, störfum innan stjórnsýslunnar eða fræðistörfum. Miðað skal við að umsækjandi hafi til að bera almenna og víðtæka lögfræðilega þekkingu og menntun. Þá skal litið til þess hvort umsækjandi hefur stundað framhaldsnám.
    2. Aukastörf og félagsstörf. Dómnefnd ber einnig að líta til aukastarfa umsækjanda, svo sem til setu í úrskurðarnefndum eða annarra skyldra starfa sem nýtast dómaraefni. Loks er heimilt að líta til víðtækrar þátttöku í félagsstarfi.
    3. Almenn starfshæfni. Við mat á almennri starfshæfni skal litið til þess hvort umsækjandi hafi sýnt sjálfstæði, óhlutdrægni, frumkvæði og skilvirkni í starfi og hvort hann eigi auðvelt með að skilja aðalatriði frá aukaatriðum. Æskilegt er að hann hafi reynslu af stjórnun. Umsækjandi skal hafa góða þekkingu á íslensku máli og eiga auðvelt með að tjá sig í ræðu og riti.
    4. Sérstök starfshæfni. Mikilvægt er að umsækjandi hafi einkamála- og sakamálaréttarfar á valdi sínu og geti farið að fyrirmælum laga um samningu dóma og ritað þá á góðu máli. Hann verður að geta stjórnað þinghöldum af röggsemi og sanngirni og afgreitt þau mál sem honum eru fengin bæði fljótt og af öryggi.
    5. Andlegt atgervi. Umsækjandi þarf að eiga auðvelt með mannleg samskipti, bæði við samstarfsmenn og þá sem erindi eiga við hann. Gerð er krafa um að af umsækjanda fari gott orð bæði í fyrri störfum og utan starfa og að reglusemi hans sé í engu ábótavant.“
    Nefndin hefur enn fremur litið í þessum efnum til athugasemda við 2. gr. frumvarps þess, sem varð að 2. mgr. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, en þar segir m.a. svo: „Við mat á hæfni dómaraefna er til margra atriða að líta, svo sem starfsreynslu á sviði lögfræði, hvort heldur hún er á sviði dómstarfa, málflutnings, annarra lögmannsstarfa, fræðistarfa eða innan stjórnsýslunnar, en almennt verður umsækjandi að hafa til að bera almenna og víðtæka lögfræðilega menntun og þekkingu. Rétt er einnig að líta til aukastarfa umsækjanda, svo sem til setu í úrskurðarnefndum eða annarra skyldra starfa sem nýtast dómaraefni. Almennt verður að telja umsækjanda til tekna að hafa yfir að búa fjölbreyttri starfsreynslu, þótt meta verði það hverju sinni. Dómnefndinni er einnig rétt að líta til og að leita sérstaklega eftir umsögnum um störf umsækjanda og þess hvort hann sé skilvirkur í störfum sínum og vinnusamur, hvort hann hafi til að bera hæfni til að skilja aðalatriði frá aukaatriðum og setja álit sitt fram á skiljanlegan hátt, bæði munnlega og skriflega. Er í því skyni unnt að líta til fræðirita, reynslu umsækjanda af málflutningi eða þeirra dóma sem umsækjandi kann að hafa samið. Umsækjandi um dómaraembætti verður enn fremur að geta átt góð samskipti við aðra.“

     4.      Sækja dómarar á Íslandi endurmenntunarnámskeið í siðferði og hvernig skuli tekist á við möguleg hagsmunatengsl sem kunna að koma upp tengd starfi þeirra?
    Hvað varðar fyrri hluta spurningarinnar segir í 3. mgr. 24. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, að dómurum beri að leitast við að halda við þekkingu sinni í lögum. Til þess að stuðla enn frekar að því að dómarar geti viðhaldið þekkingu sinni skal þeim eftir föngum vera gefinn kostur á leyfi og stuðningi til endurmenntunar. Í 3. töl. 1. mgr. 14. gr. sömu laga er dómstólaráði gert að skipuleggja endurmenntun héraðsdómara en ákvæðinu er ætlað að stuðla að aukinni endurmenntun þannig að símenntun verði reglulegur og eðlilegur þáttur í starfi dómenda. Dómstólaráð hefur skipað fagráð sem skipuleggur og heldur reglubundin námskeið fyrir dómara um ýmis svið lögfræðinnar og þá þætti sem stuðlað geta að aukinni þekkingu og hæfni dómara á hverjum tíma.
    Ákvæði dómstólalaga gera ráð fyrir því að þeir einir geti verið skipaðir dómarar sem teljast til þess hæfir í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Þar að auki er gerð krafa um það að dómarar haldi við þekkingu sinni í lögum, að haldin verði endurmenntunarnámskeið í því skyni og að dómurum standi til boða að sækja um leyfi frá störfum til endurmenntunar. Á hinn bóginn er ekki mælt fyrir um það í lögum í einstökum atriðum hvernig dómarar skuli sinna endurmenntunarskyldu sinni og því ljóst að það er á ábyrgð hvers dómara um sig hvernig hann sinnir þeirri skyldu á hverjum tíma. Því er ekki mögulegt að svara því til hvort einhverjir dómarar hafi sótt sér sérstaka fræðslu um siðferði en fagráð um endurmenntun dómara mun ekki hafa haldið sérstakt námskeið þar um.
    Hvað varðar síðari hluta spurningarinnar um hagsmunatengsl segir í 1. mgr. 26. gr. laga um dómstóla að dómara sé óheimilt að taka að sér starf eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki ef slíkt fær ekki samrýmst stöðu hans eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi. Skv. 2. mgr. 26. gr. setur nefnd um dómarastörf almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara og skal dómari tilkynna nefndinni um aukastarf áður en hann tekur við því. Sé ekki getið um heimild til að gegna starfinu í almennum reglum nefndarinnar skal dómari þó fyrir fram leita leyfis hennar til þess. Skv. 3. mgr. 26. gr. setur nefnd um dómarastörf almennar reglur um að hvaða marki samrýmanlegt sé embætti dómara að hann eigi hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Dómari skal tilkynna nefndinni um hlut sem hann eignast í félagi eða fyrirtæki. Sé ekki getið um heimild til að eiga slíkan hlut í almennum reglum nefndarinnar skal dómari þó fyrir fram leita leyfis hennar til þess. Skv. 4. mgr. 26. gr. getur nefnd um dómarastörf með rökstuddri ákvörðun meinað dómara að gegna aukastarfi eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Dómara ber að hlíta slíku banni en heimilt er að leit úrlausnar dómstóla um lögmæti þess. Rétt er að taka fram að nú eru í gildi reglur um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum nr. 463/2000. Reglurnar má finna á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.
    Að frátöldum þeim almennu reglum sem að framan hafa verið raktar gilda hinar sérstöku hæfisreglur 5. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, annars vegar og hins vegar 6. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um hæfi dómara til að taka þátt í meðferð máls. Reglurnar eru sérstakar að því leyti að þær koma til skoðunar við meðferð hvers máls fyrir sig og ber dómara að víkja sæti ef þær aðstæður sem þar er lýst eru fyrir hendi.