Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1151  —  524. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um fiskeldi.


     1.      Hyggst ráðherra standa að heildarendurskoðun á lögum um fiskeldi, sbr. nefndarálit á þskj. 1107 í 319. máli á 143. löggjafarþingi?
         Ákveðið hefur verið að hefja vinnu við endurskoðun laga um fiskeldi og er stefnt að því að leggja fram frumvarp þess efnis á næsta þingi.

     2.      Er verið að vinna að nauðsynlegri innleiðingu reglna og tryggja eftirfylgni þeirra? Hefur nauðsynlegt fjármagn verið tryggt til undirbúningsins eða hvernig er fyrirhugað að það fjármagn verði tryggt?
    Á síðasta ári var unnið að nauðsynlegri innleiðingu reglna með gerð reglugerðar nr. 1170/2015, um fiskeldi, sem tók gildi hinn 11. desember 2015. Meginhluti reglugerðarinnar varðar upptöku norska fiskeldisstaðalsins Norwegian Standard NS 9415:2009 eða annarra alþjóðlegra fiskeldisstaðla sem Matvælastofnun metur að séu sambærilegir við útgáfu rekstrarleyfa til sjókvíaeldis. Innleiðing slíkra reglna/staðla er í samræmi við kröfur sem lögfestar voru með lögum nr. 49/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, um að tryggja skuli að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Með reglugerðinni er kveðið nánar á um þær kröfur sem uppfylla þarf samkvæmt framangreindum stöðlum, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum. Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um fiskeldi, en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna og reglugerðum settum samkvæmt þeim sér framfylgt. Fjármagn var tryggt til vinnu við gerð framangreindrar reglugerðar og þá hefur Matvælastofnun einnig ráðið sérfræðing til starfa til að sinna málaflokknum.

     3.      Hyggst ráðherra stuðla að því að ímynd íslenskrar framleiðsluvöru á þessu sviði verði byggð upp, vernduð og auðguð?
    Með setningu laga nr. 49/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, voru lagðar ríkar kröfur á atvinnugreinina í tengslum við þann eldisbúnað sem skylt væri að nota í sjókvíaeldi auk þess sem sérstakur um­hverfissjóður sjókvíaeldis var stofnaður með það að markmiði að lágmarka um­hverfisáhrif sjókvíaeldis. Því má segja að með þessari lagasetningu sé stuðlað að því að bæta ímynd íslenskrar framleiðsluvöru á þessu sviði. Ráðherra hyggst ekki standa fyrir sérstakri ímyndarherferð vegna málaflokksins enda eðlilegt að þau mál séu í höndum einstakra framleiðenda eða samtaka þeirra, þ.e. Landssambands fiskeldisstöðva.

     4.      Eru fyrirhugaðar takmarkanir á aðkomu erlendra fjárfesta að fiskeldi?
    Slíkar takmarkanir hafa ekki verið skoðaðar né eru fyrirhugaðar, hvað sem síðar kann að verða.

     5.      Hvað er gert til að koma í veg fyrir skaða þegar lax af norskum uppruna er alinn í sjókvíum við Ísland?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar var með lögum nr. 49/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, komið á þeirri reglu að tryggja skyldi að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi stæðist ströngustu staðla sem gerðir væru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Með framangreindri lagabreytingu er það nú forsenda fyrir gildistöku rekstrarleyfis í sjókvíaeldi að eldisbúnaður umsækjenda standist ströngustu staðla. Í reglugerð 1170/2015, um fiskeldi, er nánar kveðið á um þær kröfur sem uppfylla þarf samkvæmt þessum stöðlum. Með kröfum um slíkan eldisbúnað í sjókvíaeldi er lágmörkuð áhætta á erfðablöndun vegna sjókvíaeldis. Jafnframt er ákvæði um veiðar fisks sem sleppur í 13. gr. laga nr. 71/2008 og er þar kveðið á um þá málsmeðferð sem grípa skuli til ef slíkur atburður á sér stað. Í 37. gr. reglugerðar 1170/2015, um fiskeldi, er sú skylda lögð á leyfishafa að hafa viðbragðsáætlun til reiðu vegna slysasleppinga og kynna starfsmönnum hana. Þá er sérstaklega tiltekið í ákvæðinu hvers konar leiðbeiningar skuli koma fram í slíkri viðbragðsáætlun.

     6.      Hyggst ráðherra setja upp vefgátt líkt og gert var í Skotlandi þar sem almenningur og hagsmunaaðilar eiga greiðan aðgang að upplýsingum um um­hverfisáhrif af völdum fiskeldis í sjókvíum?
    Hér er líklega vísað til vefsíðunnar www.aquaculture.scotland.gov.uk sem er í raun samstarf allra helstu hagsmunaaðila í fiskeldi í Skotlandi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að setja upp slíka vefsíðu á Íslandi. Hér er hins vegar um mjög áhugaverða síðu að ræða og verðugt að kanna möguleika á því að setja upp slíka vefgátt á Íslandi.