Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1152  —  711. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að láta fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum, og eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, og íslenskum stjórnvöldum. Í því skyni skipi forseti Alþingis rannsóknarnefnd skv. 1. gr. laga nr. 68/2011. Rannsóknarnefndina skipi fjórir einstaklingar auk formanns sem hafi sérþekkingu á alþjóðaviðskiptum, fjármálum og skattamálum. Nefndin skrái öll aflandsfélög, hvar sem er í heiminum, sem tengjast eða hafa tengst íslenskum aðilum. Gefin verði út í lok nefndastarfsins sérstök aflandsfélagaskrá yfir alla þá sem í hlut eiga þar sem fram komi nöfn hlutaðeigandi félaga og einstaklinga og upplýsingar um staðsetningu skattaskjólanna. Rannsóknarnefndin miðli upplýsingum og niðurstöðum til skattyfirvalda og annarra yfirvalda eftir því sem efni standa til meðan á starfi hennar stendur.
    Rannsóknarnefndin skili Alþingi skýrslu í september 2016 um þá íslensku aðila sem hún hefur orðið áskynja um en lokaskýrslu fyrir 31. desember 2016 sem innihaldi mat á umfangi aflandsstarfseminnar og áhrifa hennar á íslenskt samfélag.
    Jafnframt ályktar Alþingi að fela fjármál- og efnahagsráðherra að stofna sérstakan rannsóknarhóp sem fari yfir og meti skattundanskot og aðra ólögmæta starfsemi, svo sem peningaþvætti, sem kunni að hafa átt sér stað með aflandsfélögum og byggist á upplýsingum og niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Rannsóknarhópurinn starfi með embættum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á þeim forsendum sem skattrannsóknarstjóri ákveður. Fjármála- og efnahagsráðherra sjái til þess að veitt verði fé úr ríkissjóði til þess að kosta viðbótarstarfslið sérfræðinga og annars starfsfólks sem þarf að mati ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra til starfa fyrir rannsóknarhópinn og hlutaðeigandi skattyfirvöld.
    Skattrannsóknarstjóri skili skýrslu um störf og niðurstöður rannsóknarhópsins með ábendingum um úrbætur til forseta Alþingis fyrir lok ágúst 2017.

Greinargerð.

    Í byrjun apríl 2016 tóku að berast upplýsingar úr miklu gagnasafni lögfræðifyrirtækisins Mossack Fonseca & Co. sem hefur höfuðstöðvar í Mið-Ameríkuríkinu Panama en starfrækir útibú víða um heim. Þessi gögn fela m.a. í sér vitneskju um fjölda aflandsfélaga í skattaskjólum sem tengjast íslenskum ríkisborgurum. Ekki hafa allar upplýsingar í umræddum gögnum verið birtar enn sem komið er. Þegar er komið í ljós að mikil brögð hafa verið að því að íslenskir ríkisborgarar hafi stofnað slík félög og að því er virðist langtum meiri en í nálægum löndum. Í þessu sambandi er ástæða til að geta þess að upplýsingarnar í því gagnasafni sem um ræðir tengjast aðeins einni íslenskri fjármálastofnun og má því telja næsta víst að aflandsfélög í eigu Íslendinga séu langtum fleiri en fram er komið, enda störfuðu hér fleiri fjármálafyrirtæki á þeim tíma þegar mest var um að stofnuð væru aflandsfélög fyrir Íslendinga og sóttu þessi íslensku fjármálafyrirtæki þjónustu til fleiri aðila en Mossack Fonseca. Á það skal bent að gögn þrotabúa fjármálafyrirtækjanna sem féllu haustið 2008 kunna að veita upplýsingar um aflandsviðskipti með hlutdeild þeirra.
    Í ljósi þess hve viðamikið hlutverk aflandsfélaga virðist hafa verið í fjárvörslu fyrir íslenska borgara undanfarin ár er mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri einbeitta atrennu að því að afla upplýsinga um fjölda slíkra félaga til að komast að haldbærri vitneskju um hversu stóran hluta íslenska hagkerfisins, afrakstursins af iðju landsmanna og arðs af íslenskum auðlindum, er að finna í aflandsfélögum í skattaskjólum. Munu þessar upplýsingar geta leitt til endurákvörðunar á álagningu skatta eftir því sem ástæða er til og lög heimila en þær munu undir öllum kringumstæðum auka vitneskju stjórnvalda og almennings um fjármálastarfsemi Íslendinga í aflandsfélögum.
    Upplýsingar og vitneskju, sem rannsókn á umfangi og starfsemi aflandsfélaga tengdum Íslendingum leiðir í ljós, ber að nýta til að girða fyrir misnotkun á slíkum félögum og er því lagt til að rannsóknarhópur á forræði skattrannsóknarstjóra fari yfir og meti skattskil vegna fjármuna í slíkum félögum og gefi gaum að því hvort þau kunni að hafa verið nýtt til ólögmætrar starfsemi á borð við peningaþvætti sem er þá viðfangsefni héraðssaksóknara. Lagt er til að hópurinn leggi fram ábendingar og tillögur til stjórnvalda um úrbætur á þeim misfellum sem kunna að koma í ljós.
    Heitið skattaskjól er haft um landsvæði eða ríki þar sem unnt er að koma eignarhaldi á fjármunum svo fyrir að af þeim verði ekki greiddur skattur eða skattheimta verði til muna lægri en í því landi þar sem eigendur fjárins eru skattskyldir. Engir eða lágir skattar eru höfuðeinkenni skattaskjóla. Þar er löggjöf um banka og fjármálastarfsemi lítilfjörleg og starfsemin því ógagnsæ sem verður til þess að erfitt er eða jafnvel ógerlegt að afla upplýsinga um tilvist eða uppruna fjárins. Hið síðarnefnda nýta þeir aðilar sér sem búa yfir illa fengnu fé og ástunda peningaþvætti í skjóli þeirrar leyndar sem skattaskjól veita. Margir þeirra aðila sem koma eignarhaldi á fjármunum sínum fyrir í skattaskjólum gera það í því skyni að skjóta þeim undan skatti eða greiða af þeim lægri skatta en lagðir yrðu á þá í heimalandi þeirra, en aðrir taka þennan kost sökum þess að þeir vilja leyna eignum sínum enda er að jafnaði ekki gerð krafa um gerð og birtingu ársreikninga í dæmigerðum skattaskjólum og er það hluti þeirrar miklu leyndar sem þar ríkir um fjármálastarfsemi.
    Áhrif skattaskjóla eru margvísleg. Þau geta orðið til þess að auka auðlegð fjármagnseigenda sem vista fé sitt þar til að skjóta sér undan sköttum sem lagðir eru á í heimalandi þeirra en það fé sem safnast til fjármagnseigendanna af þessum sökum vantar jafnframt í skattskil í heimalandinu sem verður þá annaðhvort að grípa til þess að draga úr samneyslu á borð við heilbrigðisþjónustu og skólastarf eða þyngja álögurnar á aðra skattgreiðendur. Með þessu móti stuðla skattaskjól að ójöfnuði og grafa undan starfsemi velferðarkerfa og standa í vegi fyrir því að þeim verði komið á fót í fátækari ríkjum jarðarinnar.
    Skattaskjól eru til þess fallin að viðhalda og auka misskiptingu auðs í heiminum og í þeim er varðveittur ágóðinn af ýmis konar ólögmætri starfsemi sem bitnar á almenningi, svo sem vopna- og eiturlyfjasölu, vændi og mansali. Skattaskjól grafa undan velferð og velgengni samfélaga sem sjá á eftir fé sem þar verður til inn í þessi svarthol.
    Skattaskjólum fjölgaði til muna og umfang þeirra jókst samfara auknu frelsi til fjármagnsflutninga og alheimsvæðingu fjármálamarkaða á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Jafnframt tóku alþjóðastofnanir og einstök ríki að berjast gegn þessari starfsemi og neikvæðum afleiðingum hennar. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, leiddi baráttuna framan af og markaði rit stofnunarinnar, Harmful Tax Competition: An Emerging Global Issue, sem út kom árið 1998, allnokkur tímamót á þessu sviði. Þar var leitast við að bregðast við þeirri stöðu sem alþjóðastarfsemin hafði leitt af sér fyrir skattheimtu aðildaríkjanna sem var orðin leiksoppur alþjóðlegrar samkeppni en hafði fram til þessa mótast af skilgreiningum og stefnumörkun stjórnvalda í hverju ríki en. Meðal þess sem fjallað var um í fyrrnefndu riti voru skattaskjól og skilgreiningar á þeim, sbr. bls. 22–25, og skrá um slíka staði.
    Efnahags- og framfarastofnunin og ýmis ríkjasamtök henni tengd, svo sem G-7, G-8 og G-20, hafa skipulagt og tekið þátt í aðgerðum til að vinna gegn starfsemi skattaskjóla, einkum með því að stuðla að samningum um upplýsingagjöf við þau. Í þessu skyni varð til vettvangurinn Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes innan OECD þar sem mótuð var stefna um aðgerðir gegn skattaskjólum og fylgst með framvindu ráðstafana sem miða að því að uppræta hin skaðlegu áhrif sem af þeim hljótast. 1
    Árið 2006 tóku Norðurlönd að vinna að samræmingu aðgerða sinna gegn skattaskjólum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Eins og raunin er með ráðstafanir á vegum OECD felast aðgerðir norrænu ríkjanna einkum í gerð tvíhliða samninga við ríkin sem hýsa skattaskjólin um upplýsingagjöf varðandi eignir og skattskil. Alþjóðasamstarf Íslands í skattamálum á vettvangi OECD, Norrænu ráðherranefndarinnar og ýmissa annarra aðila hefur leitt til þess að gerðir hafa verið fjölmargir samningar um upplýsingagjöf vegna skattamála á undanförnum árum.
    Vitaskuld er hald í þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að vinna gegn hinum óheillavænlegu áhrifum skattaskjóla og ber tvímælalaust að viðhalda þeim og auka. En hvorki hefur verið gerð tilraun til að komast að því hvert umfang slíkrar starfsemi var á þeim árum sem mest gekk á í fjármálalífinu hér á landi né hvert umfangið er nú og áhrif skattaskjóla á íslenskt samfélag hafa ekki verið metin. Í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu er lagt til að þetta verði gert til þess að hið sanna komi í ljós og gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir gegn því að grafið sé undan efnahag landsins og arðinum af auðlindum þess og starfi landsmanna leynt í myrkum afkimum fjármálakerfis heimsins. Markmið þingsályktunartillögunnar er því að upplýsa um umfang og áhrif skattaskjólastarfsemi á íslenskt samfélag og viðleitni til að koma lögum yfir þá sem hafa með rangindum haft fé af samborgurum sínum og samfélaginu öllu.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.oecd.org/tax/transparency/