Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 1180  —  728. mál.Frumvarp til laga

um útlendinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði laga þessara gilda um heimild útlendinga til að koma til landsins, dvöl þeirra hér og rétt til alþjóðlegrar verndar. Með útlendingi er í lögum þessum átt við hvern þann einstakling sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.
    Um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu gilda sérreglur, sbr. ákvæði XI. kafla. Íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögum þessum.
    Íslensk skip í siglingum erlendis og íslensk loftför í flugferðum erlendis falla ekki undir gildissvið laga þessara.

2. gr.
Tilgangur og markmið.

    Tilgangur laga þessara er að kveða á um réttarstöðu og tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, sækja um dvalarleyfi eða dveljast hér á landi samkvæmt lögunum.
    Enn fremur er það tilgangur laga þessara að veita heimild til eftirlits með komu útlendinga til landsins, dvöl útlendinga hér og för þeirra úr landi.
    Lög þessi veita grundvöll fyrir alþjóðlegri vernd erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra einstaklinga sem eiga þann rétt samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda.
    Markmið laga þessara er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi.

3. gr.
Orðskýringar.

     1.      Alþjóðleg vernd: Vernd sem stjórnvöld veita einstaklingi sem hingað leitar og fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins eða í lögum þessum og vernd veitt ríkisfangslausum einstaklingum samkvæmt samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954.
     2.      Brottvísun: Ákvörðun stjórnvalds um að útlendingi sem dvelst hérlendis skuli vísað úr landi og honum bönnuð endurkoma í tiltekinn tíma eða að fullu og öllu.
     3.      Dyflinnarsamstarfið: Samstarf byggt á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 frá 26. júní 2013 um að koma á viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkjanna.
     4.      EES-borgari: Útlendingur sem er ríkisborgari ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
     5.      EFTA-borgari: Útlendingur sem er ríkisborgari ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA).
     6.      Einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu: Einstaklingar sem vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits, eins og t.d. fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæðir foreldrar með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.
     7.      Fjöldaflótti: Þegar fjöldi flóttamanna flýr tiltekið eða tiltekin landsvæði.
     8.      Flóttamaður: Útlendingur sem er utan heimalands síns eða ríkisfangslaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur vegna þess að hann óttast af ríkum ástæðum að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands. Þeir einstaklingar sem falla undir viðbótarvernd teljast einnig flóttamenn samkvæmt lögum þessum.
     9.      Flóttamannasamningurinn: Alþjóðasamningur um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951, sbr. bókun við samninginn frá 31. janúar 1967.
     10.      Frávísun: Ákvörðun stjórnvalds um að vísa útlendingi frá landinu.
     11.      Fylgdarlaust barn: Barn sem kemur fylgdarlaust inn á yfirráðasvæði ríkis, svo lengi sem það hefur ekki í reynd verið tekið í umsjá foreldra eða fullorðins einstaklings sem ber ábyrgð á því samkvæmt lögræðislögum. Þetta á einnig við ef barnið er skilið eftir án fylgdar eftir að það kemur á yfirráðasvæði ríkis.
     12.      Föst búseta: Sá staður þar sem lögheimili manns er, sbr. 1. gr. laga um lögheimili.
     13.      Hagsmunagæslumaður barns: Sá sem gætir hagsmuna barns á ýmsum sviðum og gegnir því hlutverki að aðstoða barnið meðan á málsmeðferð stendur, þ.m.t. að tryggja fylgdarlausu barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi stuðning umfram þá þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga og laga um félagsþjónustu.
     14.      Mansal: Mansal samkvæmt skilgreiningu í 227. gr. a almennra hegningarlaga sem byggist á Palermó-samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og mansalsbókun við samninginn.
     15.      Nám: Samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
     16.      Nánustu aðstandendur: Maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára eða eldri.
     17.      Norrænn ríkisborgari: Ríkisborgarar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, þ.m.t. Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
     18.      Ofsóknir: Athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
     19.      Ólögmæt dvöl: Þegar útlendingur dvelst hér á landi án tilskilinna heimilda eða getur ekki sýnt fram á heimild sína til dvalar.
     20.      Ríkisfangslaus einstaklingur: Einstaklingur sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954.
     21.      Samningur um ríkisfangsleysi: Samningur um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samningur um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961.
     22.      Schengen-ríki: Ríki sem eru þátttakendur í Schengen-samstarfinu.
     23.      Schengen-samstarfið: Samstarf Evrópuríkja á sviði lögreglusamstarfs og landamæraeftirlits sem byggist á Schengen-samningnum.
     24.      Talsmaður: Sá sem talar máli útlendings eða þess sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi og gætir hagsmuna hans við meðferð máls gagnvart íslenskum stjórnvöldum á meðan mál hans er til meðferðar. Talsmaðurinn skal vera lögfræðingur og þegar um er að ræða fylgdarlaust barn skal talsmaðurinn enn fremur vera lögfræðingur sem hefur sérþekkingu á málefnum barna.
     25.      Umsækjandi um alþjóðlega vernd: Útlendingur sem óskar eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur hér á landi.
     26.      Útlendingur: Einstaklingur sem hefur ekki íslenskan ríkisborgararétt.
     27.      Viðbótarvernd: Útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum handahófskennds ofbeldis vegna vopnaðra átaka verði hann sendur aftur til heimalands síns. Sama gildir þegar um er að ræða ríkisfangslausan einstakling.

4. gr.
Almennt um framkvæmd laganna.

    Ráðherra fer með yfirstjórn laga þessara.
    Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, lögregla, sýslumenn, Þjóðskrá Íslands og önnur stjórnvöld annast framkvæmd laga þessara.
    Ráðherra setur reglugerð um starfssvið einstakra stofnana skv. 1. mgr. sem hafa umsjón með framkvæmd laga þessara, aðra umsjón en þá sem tilgreind er sérstaklega hjá öðrum ráðherrum, að því leyti sem lögin og stjórnvaldsfyrirmæli kveða ekki á um það.

5. gr.
Útlendingastofnun.

    Starfrækja skal sérstaka stofnun, Útlendingastofnun, undir yfirstjórn ráðherra.
    Ráðherra skipar forstjóra Útlendingastofnunar til fimm ára í senn. Forstjórinn skal hafa lokið meistaraprófi í lögfræði eða sambærilegu námi.
    Útlendingastofnun gefur árlega út skýrslu um starfsemi sína.

6. gr.
Hlutverk, valdsvið og skipan kærunefndar útlendingamála.

    Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð á grundvelli 7. gr. Úrskurðum nefndarinnar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.
    Við úrlausn mála hefur kærunefnd útlendingamála sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi.
    Ráðherra skipar sjö nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála. Formaður nefndarinnar og varaformaður skulu skipaðir í fullt starf til fimm ára að undangenginni auglýsingu samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og að fenginni umsögn nefndar skv. 5. mgr. Þeir skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Um réttindi þeirra og skyldur fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laun og starfskjör þeirra skulu ákveðin af kjararáði.
    Ráðherra skipar fimm aðra nefndarmenn og jafnmarga til vara til fimm ára í senn. Þeir skulu hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði og hafa sérþekkingu á útlendingamálum. Tveir skulu tilnefndir af Mannréttindaskrifstofu Íslands, einn af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og tveir án tilnefningar. Þess skal gætt að innan nefndarinnar sé jafnan til staðar nauðsynleg sérþekking á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og skulu uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn. Ráðherra ákveður þóknun þeirra.
    Ráðherra skipar þrjá menn í nefnd sem meta skal hæfni umsækjenda um embætti formanns og varaformanns kærunefndar útlendingamála. Nefndin skal láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um umsækjendur.
    Formaður kærunefndar útlendingamála hefur yfirstjórn hennar með höndum. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Formaður úthlutar málum til meðferðar. Hann ræður starfsfólk í samræmi við samþykktar fjárheimildir og ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Varaformaður er staðgengill formanns og gegnir störfum hans þegar formaður er forfallaður eða fjarstaddur.
    Kærunefnd útlendingamála skal að jafnaði birta úrskurði sína, eða eftir atvikum útdrætti úr þeim, sem fela í sér efnislega niðurstöðu á aðgengilegan og skipulegan hátt. Úrskurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna eða annarra persónugreinanlegra auðkenna aðila að viðkomandi málum. Kærunefnd útlendingamála gefur árlega út skýrslu um starfsemi sína. Kostn­aður vegna kærunefndar greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.
Kæruheimild.

    Ákvarðanir Útlendingastofnunar og lögreglunnar samkvæmt lögum þessum er heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Þegar kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki og stofnunin hefur afgreitt málið á grundvelli b-, c-, d-, e- og f-liðar 1. mgr. 29. gr. er frestur til kæru þó fimm dagar.

8. gr.
Málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála.

    Að jafnaði skulu þrír nefndarmenn sitja fundi kærunefndar útlendingamála til að fjalla um hvert mál sem nefndinni berst. Formaður ákvarðar hvernig nefndin er skipuð í hverju máli og skal hann gæta þess að í nefndinni eigi sæti þeir sem besta þekkingu hafa til úrlausnar málsins. Formaður eða varaformaður eiga sæti í nefndinni í öllum málum. Varaformaður hefur sömu heimildir og formaður, sbr. 2. og 3. mgr., til að úrskurða í málum. Formanni er heimilt að ákveða að nefndin starfi deildaskipt.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er formanni nefndarinnar heimilt að úrskurða í þeim málum sem nefndin hefur til meðferðar og varða vegabréfsáritanir, ákvarðanir er snerta málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og frestun réttaráhrifa ákvarðana stofnunarinnar og kærunefndarinnar. Formanni er jafnframt heimilt að úrskurða einum í málum er varða umsókn um alþjóðlega vernd ef:
     a.      kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki og
     b.      Útlendingastofnun hefur afgreitt málið á grundvelli b-, c-, d-, e- og f-liðar 1. mgr. 29. gr.
    Meiri hluta fullskipaðrar nefndar er einnig heimilt að fela formanni að úrskurða einum í öðrum teg­undum mála þar sem nefndin telur að framkvæmd og fordæmi séu svo skýr að ekki sé nauðsynlegt að afgreiða slík mál í deild.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. skulu mál ákvörðuð í samræmi við 1. mgr. ef formaður telur að efnislegur vafi sé á niðurstöðu máls eða vafi sé á að málsatvik hafi verið rannsökuð á fullnægjandi hátt.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sérfróða aðila sér til ráðgjafar og aðstoðar við úrskurði í einstökum málum. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls samkvæmt ákvörðun formanns.
    Nefndin skal meta að nýju alla þætti kærumáls. Hún getur ýmist staðfest ákvörðun að niðurstöðu til, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók þá ákvörðun sem kærð var.
    Málsmeðferð skal að jafnaði vera skrifleg. Í málum skv. IV. kafla og 74. gr. getur nefndin, telji hún ástæðu til, gefið kæranda kost á að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni máls eða einstök atriði þess eftir atvikum. Þá getur nefndin, telji hún ástæðu til, kallað til aðra en kæranda. Hafi formanni verið falið að úrskurða einum í máli sem fellur undir 2. mgr. skal mat á því hvort gefa eigi viðkomandi kost á að koma fyrir nefndina vera í höndum formanns. Formaður eða varamaður hans stýrir störfum nefndarinnar við umfjöllun máls. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfshætti og störf kærunefndar útlendingamála, m.a. um nánari skilyrði fyrir beitingu 2. og 3. mgr.

9. gr.
Flóttamannanefnd.

    Ráðherra sem fer með félagsmál skipar flóttamannanefnd til fimm ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal einn nefndarmaður skipaður að fenginni tillögu ráðherra dómsmála, einn af ráðherra utanríkismála og einn af ráðherra sem fer með félagsmál sem jafnframt er formaður. Formaður skal hafa faglega þekkingu á málefnum flóttafólks. Enn fremur skipar ráðherra þrjá áheyrnarfulltrúa í nefndina samkvæmt tilnefningu frá Útlendingastofnun, Rauða krossinum á Íslandi, og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn nefndarmanna og áheyrnarfulltrúa skulu skipaðir með sama hætti.
    Hlutverk flóttamannanefndar er m.a. að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa skv. 43. gr., hafa yfirumsjón með framkvæmd við móttöku hópa flóttafólks og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er.
    Flóttamannanefnd starfar í samvinnu og samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
    Flóttamannanefnd skal árlega gera ríkisstjórninni grein fyrir störfum sínum og leggur ráðuneyti félagsmála nefndinni til starfsmann.
    Ráðherra sem fer með félagsmál er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um störf flóttamannanefndar og getur falið nefndinni önnur verkefni sem varða málefni flóttamanna en greinir í ákvæði þessu.

10. gr.
Almennar reglur um málsmeðferð.

    Stjórnsýslulög gilda um meðferð útlendingamála nema annað leiði af lögum þessum.
    Ákvörðun sem varðar barn skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi. Barninu skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.

11. gr.
Leiðbeiningarskylda.

    Í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis skal útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Útlendingi skal m.a. leiðbeint um:
     a.      rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað við meðferð máls,
     b.      rétt sinn til að fá sér skipaðan talsmann við meðferð máls á kærustigi, sbr. 3. mgr. 13. gr.,
     c.      rétt sinn til að hafa samband við fulltrúa heimalands síns og viðurkennd mannúðar- eða mannréttindasamtök.
    Í máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd skal útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Útlendingi skal m.a. leiðbeint um:
     a.      rétt sinn til að fá sér skipaðan talsmann við meðferð máls á stjórnsýslustigi, sbr. 1. og 2. mgr. 30. gr.,
     b.      rétt hans til að njóta aðstoðar túlks á stjórnsýslustigi máls,
     c.      rétt hans til að hafa samband við fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins á Íslandi og viðurkenndra mannúðar- eða mannréttindasamtaka.
    Að öðru leyti gildir almenn leiðbeiningarskylda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga um framkvæmd laga þessara.

12. gr.
Andmælaréttur.

    Áður en ákvörðun er tekin í máli útlendings skal hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft að mati viðkomandi stjórnvalds. Réttur til að tjá sig skriflega er þó ekki fyrir hendi þegar útlendingi ber að tjá sig munnlega við starfsmenn landamæraeftirlits eða lögreglu.
    Í máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd eða máli þar sem ákvæði 42. gr. eiga við, svo og í máli er varðar frávísun eða brottvísun, skal stjórnvald eftir fremsta megni sjá um að útlendingurinn eigi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tungumáli sem ætla má að hann geti með sanngirni skilið og tjáð sig á.

13. gr.
Réttaraðstoð.

    Útlendingur á rétt á verjanda í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála þegar krafist er gæsluvarðhalds skv. 115. gr.
    Þegar krafist er aðgerða fyrir dómi skv. 109., 110. og 114. gr. skal dómari skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna sem gæta skal hagsmuna hans í málinu.
    Þegar kærð er ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun dvalarleyfis skal stjórnvald skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna til að gæta hagsmuna hans nema þegar um er að ræða kæru vegna ákvörðunar um brottvísun skv. 2. og 3. mgr. 95. gr., c- og d-lið 1. mgr. 98. gr., b- og c-lið 1. mgr. 99. gr. og a-lið 1. mgr. 100. gr. eða þegar útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd kærir þá ákvörðun að hann hafi einungis fengið dvalarleyfi skv. 74. gr.
    Ef dómari tekur til greina beiðni um að afla upplýsinga fyrir dómi skv. 16. gr. skal kostn­aður útlendings við lögfræðiaðstoð, meðan öflun upplýsinganna fer fram, greiðast úr ríkissjóði.
    Kostn­aður vegna starfa talsmanns greiðist úr ríkissjóði. Heimilt er að krefja útlending um endurgreiðslu kostnaðarins að hluta eða að öllu leyti.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um réttaraðstoð og talsmenn, þar á meðal um fjárhæð þóknunar til talsmanna, frekari skilyrði sem talsmaður þarf að uppfylla og hugsanlegar endurgreiðslur útlendings á kostnaði vegna starfa talsmanns.

14. gr.
Upplýsinga- og tilkynningarskylda útlendinga.

    Útlendingi er skylt að kröfu lögreglu að sýna skilríki og veita upplýsingar, ef þörf er á, svo að ljóst sé hver hann er og hvort dvöl hans í landinu sé lögmæt.
    Við undirbúning máls er heimilt að leggja fyrir útlending, eða þann sem málið varðar, að mæta í samræmi við óskir stjórnvalda þar um og veita upplýsingar sem geta haft þýðingu við úrlausn þess.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð að aðrir en norrænir ríkisborgarar skuli ávallt bera vegabréf eða annað kennivottorð við komu og dvöl hér á landi.

15. gr.
Miðlun upplýsinga úr landi.

    Stjórnvöldum sem fara með málefni útlendinga er heimilt að láta erlendum stjórnvöldum í té upplýsingar um útlending vegna meðferðar á máli er varðar vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd að því marki sem nauðsynlegt er vegna samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram á Íslandi eða í einhverju samningsríkjanna.
    Stjórnvöld mega ekki afla upplýsinga eða veita upplýsingar um einstök mál, er varða umsókn útlendings um alþjóðlega vernd hér á landi, á þann hátt að þeir sem valdir hafa verið að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í máli viðkomandi útlendings geti fengið upplýsingar um mál hans þannig að öryggi viðkomandi eða fjölskyldu hans sé teflt í tvísýnu.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hvaða upplýsingar megi veita og um skilyrði sem þarf að fullnægja til að upplýsingar verði veittar.

16. gr.
Öflun gagna fyrir dómi.

    Útlendingi, svo og stjórnvaldi sem hefur til meðferðar mál útlendings, er heimilt að krefjast þess að upplýsinga, sem ekki verður aflað á annan hátt svo að fullnægjandi sé í máli samkvæmt lögum þessum, verði aflað fyrir dómi eftir reglum XII. kafla laga um meðferð einkamála um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Heimild skv. 1. mgr. gildir ekki þegar til meðferðar er mál gegn útlendingi um frávísun eða þegar sá sem óskað er að gefi skýrslu fyrir dómi er erlendis.

17. gr.
Vinnsla persónuupplýsinga.

    Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, Þjóðskrá Íslands og lögreglu er heimil vinnsla persónuupplýsinga útlendinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, ef sú vinnsla telst nauðsynleg við úrlausn mála.
    Stofnunum skv. 1. mgr. er heimilt að samkeyra persónuupplýsingar útlendinga svo tryggja megi að dvöl þeirra hér á landi sé lögleg. Í því skyni er þessum stofnunum heimilt að afla upplýsinga hjá skattyfirvöldum, Vinnumálastofnun og félagsþjónustu sveitarfélaga. Að öðru leyti fer um þessar samkeyrslur eftir ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Fái Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða Þjóðskrá Íslands upplýsingar sem gætu falið í sér hugsanlegt lögbrot ber viðkomandi stofnun að upplýsa lögreglu eða hlutaðeigandi stjórnvaldi um málið og afhenda þau gögn sem hún gæti krafist.
    Hagstofu Íslands er heimilt að hagnýta skrár Útlendingastofnunar og gögn hennar til hagskýrslugerðar. Útlendingastofnun skal láta Hagstofunni í té afrit af skránum og upplýsingar úr þeim eftir því sem hún óskar og án þess að gjald komi til. Hagstofunni er skylt að fara með gögn frá Útlendingastofnun sem hagskýrslugögn sem um gildir trúnaður.
    Ráðherra setur reglugerð, að fenginni umsögn Persónuverndar, um þær skrár um útlendinga sem skulu haldnar af Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, Þjóðskrá Íslands og lögreglu.

II. KAFLI
Koma og brottför.
18. gr.
Landamæraeftirlit.

    Hver sá útlendingur sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram á landamærastöð eða við næsta lögregluyfirvald. Sama gildir um þann sem fer af landi brott og skal hann sæta brottfarareftirliti. Undanskilin er för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, svo og aðrar ferðir sem eru í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
    Koma til landsins og för úr landi skal fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem ráðherra ákveður. Ákvæði tollalaga gilda um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.
    Ráðherra setur nánari reglur um för yfir landamæri, þar á meðal skilyrði fyrir komu til landsins, tilhögun eftirlits, skráningu upplýsinga og jafnframt um undantekningar frá ákvæðum 1. og 2. mgr. um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Hann setur einnig reglur um skyldu stjórnanda skips eða loftfars til að ganga úr skugga um að farþegar hafi gild ferðaskilríki.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um þátttöku Íslands í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á ytri landamærum á grundvelli skuldbindinga samkvæmt samningi sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999 um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

19. gr.
Vegabréf.

    Við komu til landsins skal einstaklingur hafa gilt vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki nema annað sé ákveðið í lögum þessum eða í reglum sem ráðherra setur. Útlendingastofnun getur, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða viðurkennt önnur skilríki en leiðir af almennum reglum.
    Ráðherra setur reglur um hvaða skilyrðum vegabréf eða annað kennivottorð þarf að fullnægja til að teljast gilt til komu til landsins og dvalar.

20. gr.
Vegabréfsáritanir.

    Útlendingur þarf að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur.
    Útlendingur sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu er undanþeginn áritunarskyldu. Sama gildir um útlending sem hefur bráðabirgðadvalarleyfi gefið út af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann auk þess ferðaskilríki gefin út af sama ríki.
    Vegabréfsáritun, gefin út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, gildir til komu og dvalar hér á landi þann tíma sem tilgreindur er ef það kemur fram í árituninni.
    Ráðherra getur sett reglur um skyldu til að hafa vegabréfsáritun til að fara um flugvöll.
    Vegabréfsáritun skal gilda fyrir eina eða fleiri komur til landsins í allt að 90 daga á nánar tilgreindu tímabili.
    Heimilt er að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef eftirfarandi grundvallarskilyrðum er fullnægt:
     a.      hann hefur gilt vegabréf eða annað gilt kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki við komu til Íslands og annarra Schengen-ríkja og við brottför er gildir a.m.k. þrjá mánuði fram yfir þann tíma sem vegabréfsáritunin sem sótt er um tekur til,
     b.      hann hefur heimild til að ferðast til baka til heimalandsins eða annars ríkis sem gildir a.m.k. þrjá mánuði fram yfir gildistíma áritunarinnar,
     c.      hann hefur nægileg fjárráð sér til framfærslu meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur og til að greiða fyrir ferð til baka til heimalandsins eða annars lands þar sem honum hefur verið tryggður aðgangur eða getur framfleytt sér á löglegan hátt,
     d.      hann getur sýnt fram á tilgang dvalar,
     e.      ekki liggur fyrir ástæða til brottvísunar eða frávísunar hans skv. 98., 99. og 106. gr.,
     f.      hann er ekki skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði meinað að koma til landsins,
     g.      hann telst ekki ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu,
     h.      hann hefur gilda sjúkrakostnaðar- og heimferðartryggingu.
    Ef ástæður sem varða utanríkisstefnu eða almannaöryggi mæla gegn því skal vegabréfsáritun ekki veitt. Sama gildir ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt, svo og þegar grunur leikur á að umsækjandi eða barn hans muni sæta misnotkun eða ofbeldi. Þegar stjórnvald telur sérstaka ástæðu til er heimilt að óska eftir umsögn lögreglu til að afla upplýsinga um sakaferil gestgjafa í því skyni að meta hvort hafna skuli umsókn á grundvelli þessa ákvæðis.
    Ráðherra setur reglur um vegabréfsáritanir, þar á meðal um skilyrði fyrir því að veita þær. Við mat á umsókn um vegabréfsáritun ber auk þjóðernis að taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dveljist lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Heimilt er að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á umsókn um vegabréfsáritun.
    Ráðherra setur reglur um íslenskan hluta upplýsingakerfis um vegabréfsáritanir, þar á meðal persónuvernd við skráningu og meðferð upplýsinga í því kerfi. Með íslenskum hluta upplýsingakerfis um vegabréfsáritanir er átt við rafrænt gagnasafn sem starfrækt er hér á landi og tengt sam­eigin­legu upplýsingakerfi á Schengen-svæðinu.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Heimilt er að fela utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur er heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun. Jafnframt er heimilt að fela utanríkisþjónustu ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að hafna umsókn um vegabréfsáritun.

21. gr.
Langtímavegabréfsáritun.

    Langtímavegabréfsáritun má veita þegar umsækjandi óskar eftir dvöl umfram 90 daga en tilgangur dvalar er ekki af ástæðu sem tilgreind er almennt í dvalarleyfisflokkum og ekki er ætlun umsækjanda að setjast að á landinu. Vegabréfsáritun samkvæmt þessu ákvæði verður ekki veitt til lengri tíma en 180 daga.
    Heimilt er að afturkalla langtímavegabréfsáritun ef útlendingur brýtur gegn skilyrðum áritunar, t.d. með því að stunda atvinnu án heimildar.
    Dvöl samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd langtímavegabréfsáritunar og í hvaða tilvikum heimilt er að gefa út slíka áritun.

22. gr.
Áhafnir skipa og loftfara.

    Útlendingur sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari, eða er laumufarþegi, má ekki ganga hér á land án leyfis lögreglunnar. Ákvæði um stjórnvald í málum vegna frávísunar og um málskot gilda eftir því sem við á.
    Ráðherra setur reglur um land­gönguleyfi útlendra sjómanna við dvöl skips í höfn og um heimild til að meina þeim land­göngu.

III. KAFLI
Málsmeðferðarreglur í málum um alþjóðlega vernd.
23. gr.
Stjórnvald og málsmeðferð.

    Útlendingastofnun tekur ákvarðanir í málum er varða umsóknir samkvæmt ákvæðum þessa kafla og IV. og IX. kafla.
    Við meðferð mála skv. 1. mgr. skal Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu er heimilt að kynna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna efni málsskjala. Einnig er heimilt að kynna mannúðar- eða mannréttindasamtökum efni málsskjala að því leyti sem það er óhjákvæmilegt í tengslum við öflun upplýsinga.
    Íslensk stjórnvöld skulu við framkvæmd ákvæða þessa kafla og IV. kafla eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. flóttamannasamningsins, m.a. um framkvæmd og túlkun þess samnings og laga þessara.
    Umsóknum skv. 36., 37. og 39. gr. skal að jafnaði svarað innan sex mánaða. Umsóknum skv. 1. og 2. mgr. 36. gr. um það hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar skal svarað innan 12 mánaða og umsóknum skv. 37. og 39. gr. skal svarað innan 18 mánaða.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um málsmeðferð Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og lögreglu, m.a. heimildir til að úrskurða um mál á einfaldan og skilvirkan hátt með vísan til fyrri fordæma. Enn fremur er ráðherra heimilt að mæla nánar fyrir um málsmeðferðartíma en í 4. mgr. greinir og stytta kærufresti í allt að 24 klukkustundir, sem og að mæla fyrir um fresti til að leggja fram gögn og greinargerðir, í tilteknum teg­undum mála.

24. gr.
Umsókn um alþjóðlega vernd.

    Umsókn um alþjóðlega vernd skv. IV. kafla skal lögð fram hjá Útlendingastofnun eða lögreglu. Sé umsókn lögð fram hjá lögreglu skal framsenda hana til Útlendingastofnunar. Eftir að skráningu umsóknar um alþjóðlega vernd er lokið tekur Útlendingastofnun hana til meðferðar eins fljótt og kostur er. Útlendingastofnun skal skera úr um hvort maki eða sambúðarmaki, foreldrar og börn eða aðrir ættingjar sem komu með umsækjanda skili sjálfstæðri umsókn um alþjóðlega vernd. Skjalfesta, rannsaka og ákvarða skal um allar umsóknir um alþjóðlega vernd sem koma frá meðlimum fjölskyldu sem sækir um alþjóðlega vernd, ekki aðeins fullorðnum einstaklingum.
    Við umsókn ber umsækjanda að afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem hann hefur í fórum sínum. Sama gildir um maka eða sambúðarmaka umsækjanda og börn hvort sem þau komu með honum eða sækja um alþjóðlega vernd síðar.
    Útlendingastofnun ber að tryggja að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd verði upplýstur um skyldur sínar um að veita þær upplýsingar sem óskað er eftir og um afleiðingar þess að skýra ekki satt og rétt frá eða halda leyndum upplýsingum sem skipt gætu máli við úrlausn málsins.
    Útlendingastofnun skal tryggja að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd verði eins fljótt og unnt er upplýstur um framvindu málsins og réttindi sín, þ.m.t. um skipun talsmanns skv. 30. gr. og hagsmunagæslumanns skv. 31. gr.
    Leiðbeiningar skulu vera skriflegar og/eða aðgengilegar á mynd- eða hljóðmiðli og á tungumáli sem ætla má með sanngirni að umsækjandi geti skilið. Þegar um fylgdarlaust barn er að ræða skulu leiðbeiningar vera í samræmi við aldur þess og þroska.
    Ef um er að ræða fylgdarlaust barn skal fulltrúa hlutaðeigandi barnaverndarnefndar einnig tilkynnt um málið.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um nánari framkvæmd þessarar greinar, m.a. um aðkomu barnaverndarnefnda.

25. gr.
Greining á sérþörfum og stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Umsækjandi um alþjóðlega vernd skal gangast undir læknisskoðun svo fljótt sem verða má frá því að umsókn er lögð fram. Við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skal Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. Teljist umsækjandi vera í slíkri stöðu skal meta hvort hann hafi vegna þessa einhverjar sérþarfir sem taka þyrfti tillit til við meðferð málsins, t.d. þörf fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu. Slíkt mat skal ekki bundið við þann tíma sem sótt er um og ekki skal takmarka rétt einstaklings til sérstakrar aðstoðar þótt sérþarfir, sem stafa af viðkvæmri stöðu hans, komi fram síðar en við umsókn.
    Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru og viðeigandi ákvæði I. og IX. kafla laga þessara gilda ekki um ákvörðun um sérstaklega viðkvæma stöðu skv. 2. mgr. Skilgreining á stöðu skv. 2. mgr. hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð.
    Varði mál samkvæmt þessum kafla barn skulu hagsmunir þess hafðir að leiðarljósi. Barninu skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska, sbr. 2. mgr. 10. gr. Við ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds skal huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Varði mál fylgdarlaust barn eða annan einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu skal reynt að tryggja að starfsmaður með viðeigandi sérþekkingu og reynslu vinni að málinu.
    Sæki fylgdarlaust barn um alþjóðlega vernd skal Útlendingastofnun tryggja að það fái þjónustu og meðferð í samræmi við aldur þess og þroska. Að lokinni umsókn skal stofnunin, eins fljótt og verða má, skipa barninu talsmann skv. 1. mgr. 30. gr. og hagsmunagæslumann skv. 31. gr.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinar þessarar, m.a. um hvernig meta skuli viðkvæma stöðu skv. 2. mgr. og um rannsókn og skráningu einkenna og ummerkja er fallið gætu undir 6. tölul. 3. gr.

26. gr.
Öflun upplýsinga vegna umsóknar um alþjóðlega vernd.

    Að lokinni skráningu umsóknar skal lögregla taka mynd af umsækjanda og fingraförum hans, sbr. 111. gr. Heimilt er að ljósrita ferðaskjöl og kennivottorð sem umsækjandi hefur í fórum sínum. Sama gildir, ef nauðsyn krefur, um önnur skjöl. Lögreglu er heimilt að beita þeim úrræðum sem tilgreind eru í 109. og 110. gr. laganna.
    Til að sannreyna hver umsækjandi um alþjóðlega vernd er skal lögregla, eins fljótt og kostur er, afla persónuupplýsinga um hann. Sama á við um öflun upplýsinga um ferðaleið hans. Lögregla skal, ef þurfa þykir, meta aðstæður og ástand umsækjanda og getur kallað sér til aðstoðar viðeigandi sérfræðinga til að meta hvort umsækjandi geti verið hættulegur sjálfum sér eða öðrum.
    Vakni rökstuddur grunur hjá Útlendingastofnun um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skal gerð, eins ­fljótt og kostur er, aldursgreining skv. 113. gr. Eigi að síður skal ávallt litið svo á við meðferð máls að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera undir lögaldri sé barn þar til annað kemur í ljós með aldursgreiningu eða á annan hátt. Þó er heimilt að víkja frá þessu ef augljóst er að viðkomandi sé lögráða. Neiti útlendingur sem sækir um alþjóðlega vernd að gangast undir aldursgreiningu er óheimilt að byggja synjun umsóknar hans á þeirri ástæðu einni.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

27. gr.
Móttökumiðstöð.

    Ráðherra ber ábyrgð á að til staðar sé móttökumiðstöð, með fullnægjandi móttökukerfi, fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ráðuneytið getur eftir atvikum falið viðeigandi stofnun, sveitarfélagi, félagasamtökum eða öðrum rekstur hennar á grundvelli þjónustusamnings.
    Móttökumiðstöð skal vera opið móttöku- og þjónustuúrræði fyrir umsækjendur skv. 1. mgr. við komu þeirra til landsins, og eftir atvikum fórnarlömb mansals og útlendinga í neyð, og skal tryggja réttindi, öryggi og veita umsækjendum fullnægjandi þjónustu.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um stofnun og almennan rekstur miðstöðvarinnar.

28. gr.
Viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd.

    Starfsmaður Útlendingastofnunar tekur viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd að viðstöddum talsmanni, sbr. 30. gr., eins fljótt og unnt er eftir skráningu umsóknar. Skal talsmanni gefinn kostur á því að ræða við umsækjanda og leiðbeina honum um viðtalið áður en það fer fram.
    Viðtali skal hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í slíku viðtali skal Útlendingastofnun gæta að því hvort taka þurfi sérstakt tillit til umsækjanda vegna persónulegra aðstæðna hans. Túlkur skal vera viðstaddur viðtal nema umsækjandi afþakki sérstaklega slíka þjónustu.
    Við upphaf viðtals þarf að upplýsa umsækjanda um að þær upplýsingar sem hann lætur í té verði lagðar til grundvallar við ákvörðun um umsókn hans. Spyrja þarf umsækjanda hvort hann samþykki að stjórnvöld hér á landi afli upplýsinga um hann frá stjórnvöldum í heimaríki hans eða öðrum stjórnvöldum erlendis. Þetta skal gert ef talin er þörf á því við afgreiðslu málsins með fyrirvara um ákvæði í 2. mgr. 15. gr.
    Sinni umsækjandi ekki boði Útlendingastofnunar í tvígang um að mæta í viðtal samkvæmt þessari grein er stofnuninni heimilt að ákvarða í máli hans án frekari aðgerða. Forsenda þess að beita megi þessu úrræði er að við síðari boðun hafi Útlendingastofnun gert umsækjanda fullnægjandi grein fyrir afleiðingum fjarveru sinnar og að fjarvera hans hafi ekki átt sér réttmætar ástæður. Boðun síðara viðtals, ef til þess kemur, skal gerð með sannarlegum hætti.
    Sá sem tekur viðtal við barn skal hafa sérþekkingu á málefnum barna. Telji Útlendingastofnun að starfsmaður hennar muni ekki hafa nægjanlega þekkingu á málefni tiltekins barns þegar taka skal viðtal við það er stofnuninni heimilt að kveðja til sérfræðing sér til aðstoðar.
    Talsmanni barns skv. 30. gr. og hagsmunagæslumanni skv. 31. gr. skal gefinn kostur á að ræða við barnið og leiðbeina því áður en viðtal fer fram.
    Heimilt er að mynda og taka upp viðtal starfsmanns Útlendingastofnunar við umsækjanda um alþjóðlega vernd sem og viðtal sem tekið er með aðstoð sérfræðinga skv. 5. mgr. Upplýsa skal umsækjanda um slíka upptöku fyrir fram.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd viðtals, einkum að því er varðar viðtöl við börn eða aðra sem vegna stöðu sinnar hafa ríkari þörf en aðrir á vernd eða aðstoð.

29. gr.
Sérstök málsmeðferð – forgangsmeðferð.

    Í málum sem tekin eru til efnismeðferðar geta Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ákveðið að umsókn um alþjóðlega vernd sæti forgangsmeðferð, m.a. þegar:
     a.      líkur eru á að umsókn verði samþykkt eða þegar sérstakar aðstæður umsækjanda mæla með því, t.d. ef um er að ræða fylgdarlaust barn,
     b.      umsókn er bersýnilega tilhæfulaus, þ.e.:
                  1.      útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem ekki er talið að hann þurfi að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr.; sama á við um ríki þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur áður haft aðgang að vernd, eða
                  2.      senda má útlending til ríkis þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr.,
     c.      umsækjandi gefur misvísandi eða ófullkomnar upplýsingar um sig eða hefur ekki borið fyrir sig aðstæður sem gætu fallið undir 37. gr.,
     d.      framkoma umsækjanda eða vísbendingar í gögnum benda til þess að hann geti orðið sjálfum sér eða öðrum til hættu,
     e.      ný umsókn er lögð fram eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hefur áður verið hafnað eða umsókn hefur verið dregin til baka,
     f.      ljóst má telja að umsókn sé lögð fram í kjölfar ákvörðunar um brottvísun.
    Í málum þeim sem greinir í b-lið 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum. Við mat á því hvort ríki teljist öruggt upprunaríki skal m.a. líta til þess hvort í viðkomandi ríki sé stöðugt stjórnarfyrirkomulag sem byggist á viðurkenndum meginreglum um réttarríki. Heimilt er að líta til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á því hvaða upprunaríki teljist örugg. Útlendingastofnun er skylt að halda utan um slíkan lista, uppfæra hann reglulega og birta á vef stofnunarinnar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir því að beita megi forgangsmeðferð samkvæmt þessari grein.

30. gr.
Réttaraðstoð í málum um alþjóðlega vernd.

    Umsækjandi um alþjóðlega vernd á rétt á að Útlendingastofnun skipi honum talsmann við meðferð málsins hjá stjórnvöldum. Sá réttur helst við mögulega kærumeðferð. Talsmaðurinn skal vera lögfræðingur með þekkingu á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
    Heimilt er að skipa ólögráða barni sem sækir um alþjóðlega vernd sérstakan talsmann þrátt fyrir að það sé í fylgd foreldra sinna eða annarra sem fara með forsjá þess.
    Útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd á rétt á aðstoð túlks við meðferð málsins nema hann afþakki sérstaklega slíka þjónustu. Stjórnvald metur hverju sinni hvort leitað skuli aðstoðar túlks hér á landi eða erlendis með þeim miðlum sem henta, t.d. í síma, tölvu eða með annars konar fjarskiptatæki.
    Ákvæði 3. mgr. á við í samskiptum umsækjanda við talsmann sinn sé það nauðsynlegt.
    Að öðru leyti gilda ákvæði 13. gr. um réttaraðstoð þar sem við á.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þar á meðal um talsmenn og þjónustu túlka og þær kröfur sem gera skuli til þeirra og mat fyrir þörf á slíkri þjónustu og þóknun vegna hennar.

31. gr.
Hagsmunagæslumaður barns.

    Barnaverndarnefnd skal án tafar skipa umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem segist vera undir lögaldri, hagsmunagæslumann, sbr. 13. tölul. 3. gr. Heimilt er að víkja frá þessu ef augljóst er að viðkomandi er lögráða, sbr. ákvæði 3. mgr. 26. gr. Ákvæði þetta á við þegar umsækjandinn er ólögráða og dvelur hér á landi án foreldra sinna eða annarra sem fara með forsjá hans eða þegar foreldrar eða þeir sem fara með forsjá umsækjanda geta ekki sinnt skyldum sínum gagnvart honum eða þegar barnaverndarnefnd telur að umsjá barnsins sé ekki fullnægjandi. Ákvæði þetta á einnig við um börn sem talið er að geti verið fórnarlömb mansals.
    Hagsmunagæslumaður skal hafa sérþekkingu á sviði barnaverndar og hafa hreint sakavottorð. Hagsmunagæslumaður skal við meðferð máls gæta ákvæða 13. tölul. 3. gr. Auk þess skal hann sjá til þess að hagsmunir barnsins séu hafðir í fyrirrúmi og að þarfir þess séu uppfylltar á viðeigandi hátt, m.a. hvað varðar búsetu, heilbrigðisþjónustu og möguleika til menntunar. Hagsmunagæslumaður skal m.a.:
     a.      vera viðstaddur skýrslutökur og önnur viðtöl við fulltrúa stjórnvalda,
     b.      vera viðstaddur og gæta hagsmuna barns við aldursgreiningu, sé hennar krafist,
     c.      aðstoða barn við að nýta þjónustu Rauða krossins á Íslandi við leit að nánustu fjölskyldu þegar þess er þörf, og
     d.      fá upplýsingar um stöðu umsóknar barnsins og vera í samskiptum við talsmann barnsins, sbr. 1. mgr. 30. gr.
    Hagsmunagæslumaður, samkvæmt þessu ákvæði, fer ekki með umsjá eða forsjárskyldur umsækjanda samkvæmt barnaverndarlögum.
    Við störf sín skal hagsmunagæslumaður taka tillit til þjóðernis, kyns, tungumáls, trúar- og menningarlegs uppruna barnsins, t.d. með því að tryggja fullnægjandi samskipti við barnið með aðstoð túlks.
    Hagsmunagæslumaður telst formlega hafa lokið störfum þegar:
     a.      barn verður lögráða eða þegar barn sem sagðist vera ólögráða telst lögráða samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar,
     b.      barnaverndarnefnd hefur ráðstafað barni í fóstur,
     c.      barninu er veitt dvalarleyfi hér á landi,
     d.      barn flyst úr landi,
     e.      foreldrar barns eða sá sem fer með forsjá þess getur sinnt forsjárskyldum sínum svo að fullnægjandi sé.
    Hagsmunagæslumaður getur óskað eftir því að verða leystur frá störfum auk þess sem barnaverndarnefnd getur ákveðið að leysa hann frá störfum ef það er talið barni fyrir bestu.
    Kostn­aður vegna starfa hagsmunagæslumanns skal greiddur úr ríkissjóði.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hagsmunagæslumenn, t.d. um þóknun þeirra og hæfisskilyrði.

32. gr.
Refsileysi vegna ólöglegrar komu eða falsaðra eða stolinna skilríkja.

    Umsækjanda um alþjóðlega vernd sem kemur ólöglega hingað til lands eða dvelst hér á landi án heimildar verður í samræmi við 31. gr. samnings um réttarstöðu flóttamanna ekki refsað geti hann sýnt fram á að hann komi beint frá landsvæði þar sem hann hafði ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða var án ríkisfangs og gat ekki öðlast slíkt, sbr. 39. gr., enda gefi hann sig fram við stjórnvöld eins fljótt og unnt er eða færi ella gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það, sem og ástæðu fyrir ólöglegri komu eða dvöl. Leiki vafi á að ákvæði 1. málsl. séu uppfyllt skal hann túlkaður umsækjanda í hag.
    Ef grunur leikur á að útlendingur sem kemur ólöglega hingað til lands eða dvelst hér í landi án heimildar falli undir 1. mgr. skal lögregla kanna hver tilgangur dvalar viðkomandi er.

33. gr.
Réttindi umsækjanda um alþjóðlega vernd.

    Umsækjanda um alþjóðlega vernd skal standa til boða:
     a.      húsnæði,
     b.      lágmarksframfærsla,
     c.      nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Sérstakt tillit skal tekið til þeirra sem hafa sérþarfir eða þurfa sérstaka aðstoð. Barnshafandi konur skulu fá aðgang að mæðravernd og fæðingarhjálp.
    Barn sem sækir um alþjóðlega vernd skal eiga þess kost að stunda skyldunám í grunnskóla eða sambærilegt nám innan hins almenna skólakerfis eða á dvalarstað þess eins fljótt og unnt er.
    Við ákvörðun um húsnæði samkvæmt ákvæði þessu skal meginreglan vera sú að halda fjölskyldum saman. Einnig skal við slíka ákvörðun tekið sérstakt tillit til mögulegra sérþarfa umsækjenda sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
    Börn sem hafa verið fórnarlömb misnotkunar, vanrækslu, pyndinga eða grimmilegrar, ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða hafa þjáðst vegna vopnaðra átaka skulu eiga kost á viðeigandi heilbrigðisþjónustu og sálgæsluþjónustu og annarri nauðsynlegri þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum.
    Fórnarlömbum pyndinga, nauðgana eða annars alvarlegs ofbeldis skal veitt viðeigandi heilbrigðisþjónusta og sálgæsluþjónusta vegna skaða af völdum þess.
    Útlendingi sem sækir um alþjóðlega vernd skal leiðbeint um rétt hans til að sækja um bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. og um réttaráhrif þess.
    Fyrir utan nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, sbr. c-lið 1. mgr., skulu úrræði skv. 1. mgr. að jafnaði ekki veitt ef viðkomandi umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur nægileg fjárráð til þess að bera kostnað af þeim sjálfur. Útlendingi sem veitt hefur verið bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. skal þó áfram tryggður réttur samkvæmt ákvæði þessu í hæfilegan tíma til að verða sér úti um húsnæði og afla sér nægilegra tekna með tilliti til aðstæðna. Ef í ljós kemur að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafði ekki þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var getur Útlendingastofnun krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að fullu eða nokkru leyti.
    Þegar Útlendingastofnun hefur hafnað umsókn ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis um alþjóðlega vernd á hann ekki rétt á þjónustu samkvæmt grein þessari.
    Ráðherra setur, að höfðu samráði við viðeigandi fagráðherra, reglugerð með nánari ákvæðum um réttindi umsækjanda um alþjóðlega vernd, þ.m.t. kröfu um að umsækjandi beri sjálfur kostnað af framfærslu sinni hér á landi og um aðgang að menntun og starfsþjálfun. Ráðherra er jafnframt heimilt að setja í reglugerð að þjónusta við umsækjanda samkvæmt ákvæði þessu sé bundin við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög.

34. gr.
Skráningarskírteini umsækjanda um alþjóðlega vernd.

    Eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hefur verið skráð skal Útlendingastofnun gefa út skráningarskírteini umsækjanda um alþjóðlega vernd svo fljótt sem verða má. Skráningarskírteinið skal gilda í ákveðinn tíma, allt að ári, og skal umsækjandi afhenda það lögreglu eða Útlendingastofnun þegar hann fær útgefið dvalarleyfisskírteini, bráðabirgðadvalarleyfi, ferðaskírteini fyrir flóttamann eða vegabréf fyrir útlending, honum er gert að fara úr landi eða hann fær af öðrum ástæðum vegabréf heimaríkis síns á ný.
    Skráningarskírteini umsækjanda um alþjóðlega vernd gildir ekki sem staðfesting þess að uppgefnar persónuupplýsingar séu réttar. Það gildir ekki sem ferðaskilríki.

35. gr.
Framkvæmd ákvarðana í málum um alþjóðlega vernd eða vernd gegn ofsóknum.

    Ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skv. 36., 37. og 39. gr. skuli yfirgefa landið kemur ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðunin er endanleg á stjórnsýslustigi nema umsækjandi sjálfur óski þess að hverfa úr landi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. frestar kæra ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar sem teknar eru á grundvelli 29. og 36. gr. Ef útlendingur ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 37., 38., 39. eða 42. gr. þegar honum er tilkynnt um að framfylgja eigi ákvörðuninni og ekki kemur fram að afstaða hafi þegar verið tekin til þeirra aðstæðna sem borið er við skal lögregla leggja fyrir Útlendingastofnun ákvörðun um að fresta framkvæmd. Nú telur Útlendingastofnun augljóst að aðstæður séu ekki þannig og má hún þá ákveða að ákvörðunin komi til framkvæmda.
    Ráðherra getur í reglugerð mælt fyrir um málsmeðferð kærunefndar við afgreiðslu beiðna um frestun réttaráhrifa, fresti til að leggja fram slíka beiðni sem má þó ekki vera skemmri en 24 klukkustundir, málsmeðferðartíma og að hvaða skilyrðum uppfylltum beiðni skuli tekin til greina.

IV. KAFLI
Flóttamenn og vernd gegn ofsóknum.
36. gr.
Umsókn um alþjóðlega vernd tekin til efnismeðferðar.

    Umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skal tekin til efnismeðferðar nema:
     a.      umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn vera flóttamaður, fengið vernd í samræmi við flóttamannasamninginn,
     b.      heimilt sé að krefja annað norrænt ríki um að taka við umsækjanda samkvæmt reglum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eða samkvæmt samningi milli Íslands og Færeyja um endursendingu útlendinga sem hingað koma með ferjunni Norrænu,
     c.      heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.
    Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því, t.d. ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 2. mgr. 25. gr., eða ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs.
    Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

37. gr.
Flóttamannahugtakið.

    Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
    Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum handahófskennds ofbeldis vegna vopnaðra átaka verði hann sendur aftur til heimalands síns. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
    Það er ekki forsenda þess að útlendingur teljist flóttamaður skv. 1. eða 2. mgr. að hann hafi fullnægt þeim skilyrðum sem þar koma fram þegar hann yfirgaf land sitt eða land þar sem hann hafði áður reglulegt aðsetur.
    Ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en þaðan sem hann flúði, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður.
    Við mat skv. 1. og 2. mgr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, skal það sem er barninu fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu skal Útlendingastofnun við ákvörðun líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skal Útlendingastofnun taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt grein þessari. Við framkvæmd þessarar greinar skal stofnunin eiga samráð við barnaverndaryfirvöld.
    Ef stjórnvald í máli samkvæmt lögum þessum kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. eigi ekki við um útlending skal það að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr.

38. gr.
Nánar um ofsóknir.

    Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
    Ofsóknir geta m.a. falist í:
     a.      andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi,
     b.      löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla, sem fela í sér mismunun hvort sem er í eðli sínu eða vegna þess að þær eru framkvæmdar á slíkan hátt,
     c.      saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli,
     d.      synjun um notkun réttarúrræða sem leiða til óhóflegrar og mismunandi refsingar,
     e.      saksókn eða refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum þar sem þátttaka í slíkri herþjónustu mundi fela í sér glæpi eða athafnir, sbr. 40. gr.,
     f.      at­höfnum sem beinast sérstaklega gegn konum eða börnum.
    Þegar ofsóknir skv. 1. mgr. eru metnar skal miða við skilgreiningar í a–f-lið 2. mgr. Ekki skiptir máli við mat skv. 1. mgr. 37. gr. hvort umsækjandi hefur þau einkenni eða skoðanir sem vísað er til ef sá sem er valdur að ofsóknum telur svo vera:
     a.      kynþáttur vísar einkum til húðlitar, ætternis og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna,
     b.      trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsi til að skipta um trú,
     c.      þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sam­eigin­lega menningarlega sjálfsmynd, sam­eigin­legan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,
     d.      þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur sam­eigin­leg einkenni eða bakgrunn sem ekki verður breytt eða hefur sam­eigin­leg einkenni eða lífsskoðanir, svo sem kyngervi, sem eru svo mikilvægar sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt eða það er talið til tiltekins þjóðfélagshóps þar sem það er álitið frábrugðið öðrum í samfélaginu; þá skulu fyrrverandi fórnarlömb mansals teljast meðlimir tiltekins þjóðfélagshóps,
     e.      stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.
    Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:
     a.      ríkið,
     b.      hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
     c.      aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

39. gr.
Ríkisfangslausir einstaklingar.

    Ríkisfangslaus einstaklingur er sá sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954. Ríkisfangslaus einstaklingur sem staddur er hér á landi en telst ekki flóttamaður skv. 37. gr. og er ekki útilokaður frá stöðu ríkisfangsleysis skv. 41. gr. hefur sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns samkvæmt umsókn.
    Alþjóðleg vernd samkvæmt þessu ákvæði er veitt á grundvelli samnings um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga. Útlendingastofnun leggur mat á umsókn ríkisfangslauss einstaklings.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um afgreiðslu mála skv. 1. mgr., m.a. hvaða gagna skuli afla og hver bera skuli sönnunarbyrði um ríkisfangsleysi.

40. gr.
Réttur til alþjóðlegrar verndar.

    Flóttamaður skv. 37. gr., sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd.
    Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um:
     a.      flóttamann sem fellur undir D- eða E-lið 1. gr. flóttamannasamningsins,
     b.      flóttamann þegar ríkar ástæður eru til að ætla að:
                  1.      hann hafi framið glæp gegn friði, stríðsglæp eða glæp gegn mannkyninu, eins og skilgreint er í alþjóðlegum samningum sem gerðir eru til þess að setja ákvæði um slíka glæpi,
                  2.      hann hafi framið alvarlegan ópólitískan glæp áður en honum var veitt viðtaka sem flóttamanni,
                  3.      hann hafi orðið sekur um athafnir sem brjóta í bága við tilgang og meginreglur Sameinuðu þjóðanna,
     c.      flóttamann skv. 2. mgr. 37. gr., ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu,
     d.      flóttamann skv. 2. mgr. 37. gr. ef hann hefur yfirgefið heimaland sitt eða land þar sem hann hafði síðast fasta búsetu í þeim eina tilgangi að komast hjá refsingu fyrir eitt eða fleiri brot sem varða fangelsisrefsingu samkvæmt íslenskum hegningarlögum.
    Um útlendinga sem falla undir 2. mgr. en ekki er heimilt að vísa brott vegna ákvæða 42. gr. fer eftir ákvæðum þeirrar greinar.

41. gr.
Útilokun frá réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga.

    Ákvæði 39. gr. um alþjóðlega vernd ríkisfangslausra einstaklinga gildir þó ekki um:
     a.      einstaklinga sem njóta nú þegar verndar eða aðstoðar hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna annarra en Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna meðan þeir njóta slíkrar verndar eða aðstoðar,
     b.      einstaklinga sem þar til bær stjórnvöld þess lands þar sem þeir eru búsettir hafa viðurkennt að njóti þeirra réttinda og beri þær skyldur sem fylgja ríkisfangi í því landi,
     c.      einstaklinga ef ríkar ástæður eru til að ætla:
                  1.      að þeir hafi framið glæp gegn friði, stríðsglæp eða glæp gegn mannúð, eins og það er skilgreint í alþjóðlegum gerningum sem gerðir eru til þess að setja ákvæði um slíka glæpi,
                  2.      að þeir hafi framið alvarlegan ópólitískan glæp utan búsetulands síns áður en þeim er veitt leyfi til að koma til landsins,
                  3.      að þeir hafi gerst sekir um athafnir sem ganga gegn tilgangi og reglum Sameinuðu þjóðanna.

42. gr.
Grundvallarreglan um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu.

    Ekki er heimilt samkvæmt lögum þessum að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Sama gildir um þá einstaklinga sem eru útilokaðir frá réttarstöðu flóttafólks skv. 40. gr.
    1. mgr. á einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
    Vernd skv. 1. og 2. mgr. á við um hvers konar ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.
    Séu aðstæður eins og í 1. mgr. greinir en viðkomandi er undanskilinn alþjóðlegri vernd skv. 40. og 41. gr. er heimilt að veita útlendingi bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. með sérstökum skilyrðum sem koma fram í því ákvæði.

43. gr.
Koma hópa flóttafólks í boði stjórnvalda.

    Útlendingastofnun heimilar komu hópa flóttafólks til landsins að fenginni tillögu flóttamannanefndar, sbr. 9. gr., og í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Sama gildir um útlendinga sem ekki hafa verið skilgreindir sem flóttamenn en koma þaðan sem vopnuð átök fara fram eða frá hamfarasvæði og uppfylla ákveðin skilyrði sett af stjórnvöldum hverju sinni.
    Útlendingastofnun veitir útlendingi sem kemur til landsins á grundvelli þessa ákvæðis réttarstöðu flóttamanns. Útlendingastofnun getur einnig tekið ákvörðun um hvort öðrum útlendingum sem koma til landsins á grundvelli þessa ákvæðis skuli veitt réttarstaða flóttamanns eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
    Ákvæði IV. og V. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt og um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl., og viðeigandi ákvæði III. kafla laga þessara gilda ekki um ákvarðanir skv. 1. mgr.

44. gr.
Sameiginleg vernd vegna fjöldaflótta.

    Þegar um er að ræða fjöldaflótta getur ráðherra ákveðið að beita skuli ákvæðum greinar þessarar. Ráðherra ákveður einnig hvenær heimild til að veita sam­eigin­lega vernd skv. 2. og 3. mgr. skuli falla niður.
    Útlendingi sem er hluti af hópi sem flýr tiltekið landsvæði og kemur til landsins eða er hér þegar ákvæðum greinarinnar er beitt má að fenginni umsókn um alþjóðlega vernd veita vernd á grundvelli hópmats (sam­eigin­lega vernd). Felur það í sér að útlendingnum verður veitt dvalarleyfi skv. 74. gr. Leyfið getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Leyfið er heimilt að endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár frá því að umsækjandi fékk fyrst leyfi. Eftir það má veita leyfi skv. 74. gr. sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Að liðnu einu ári með slíkt leyfi er heimilt að gefa út ótímabundið dvalarleyfi enda séu skilyrðin fyrir því að halda leyfinu enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt, sbr. 58. gr.
    Umsókn útlendings sem fellur undir 2. mgr. um alþjóðlega vernd má leggja til hliðar í allt að þrjú ár frá því að umsækjandi fékk fyrst leyfi. Þegar heimild til að veita sam­eigin­lega vernd skv. 1. mgr. er niður fallin, eða þegar liðin eru þrjú ár frá því að umsækjandi fékk fyrst leyfi, skal tilkynna umsækjanda að umsóknin um alþjóðlega vernd verði því aðeins tekin til meðferðar að hann láti í ljós ótvíræða ósk um það innan tiltekins frests.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um leyfi og um að leggja umsókn til hliðar.

45. gr.
Réttaráhrif alþjóðlegrar verndar.

    Alþjóðleg vernd eða viðurkenning á ríkisfangsleysi einstaklings skv. 37. og 39. gr. hefur í för með sér að útlendingurinn fær réttarstöðu flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings og skal honum veitt dvalarleyfi skv. 73. gr. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af íslenskum lögum og flóttamannasamningnum, samningi um ríkisfangsleysi eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn.
    Maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt kafla þessum, börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Um fjölskyldutengsl sem verða til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram gilda ákvæði VIII. kafla.
    Nú nýtur barn yngra en 18 ára alþjóðlegrar verndar samkvæmt kafla þessum og eiga þá foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi. Nú hefur annað foreldri farið með forsjá barns og nýtur það þá þessa réttar. Þá njóta þessa réttar systkini barnsins sem eru yngri en 18 ára, eru án maka og búa hjá foreldrunum eða foreldrinu.
    Þegar fylgdarlausu barni er veitt alþjóðleg vernd skal barnaverndarnefnd þegar í stað taka til sín forsjá barnsins og tryggja öryggi þess í samræmi við barnaverndarlög og eftir atvikum ráðstafa barninu í fóstur eða aðra vistun.
    Ráðherra setur, í samráði við viðeigandi fagráðherra, reglugerð um hvaða ákvæði, m.a. viðvíkjandi menntun, samfélagsfræðslu og starfsþjálfun, skuli setja um stuðning við þá sem koma í boði íslenskra stjórnvalda skv. 43. gr., þá sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. og mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr., sem og þá sem eru með umsókn til meðferðar.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr., þ.m.t. hvaða skilyrðum 55. gr. skuli vera fullnægt, sem og að umsókn skuli koma fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. hefur verið gefið út til fjölskyldumeðlims hér á landi.

46. gr.
Ferðaskírteini fyrir þá sem njóta alþjóðlegrar verndar og vegabréf fyrir útlendinga.

    Þeim sem nýtur alþjóðlegrar verndar, og dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu, skal að fenginni umsókn veita ferðaskírteini fyrir flóttamenn til ferða til útlanda. Heimilt er að synja um útgáfu ferðaskírteinis þegar:
     a.      þær aðstæður eru fyrir hendi sem leiða mundu til þess að íslenskum ríkisborgara yrði ekki veitt vegabréf skv. 5. gr. laga um vegabréf,
     b.      þær aðstæður eru fyrir hendi að foreldrar fara saman með forsjá barns og annað þeirra hyggst fara með barnið úr landi án samþykkis hins, sbr. 3. mgr. 28. gr. a barnalaga,
     c.      þær aðstæður eru fyrir hendi sem lýst er í F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins,
     d.      útlendingurinn hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er talinn hættulegur samfélaginu,
     e.      ekki er staðfest hver útlendingurinn er eða vafi leikur á um hver útlendingurinn er,
     f.      ástæður sem varða öryggi ríkisins eða stefnu stjórnvalda í utanríkismálum mæla gegn því.
    Nú hefur flóttamaður ferðaskilríki gefið út af öðru ríki og skal hann þá því aðeins fá skírteini gefið út að honum hafi verið veitt hér alþjóðleg vernd eða ótímabundið dvalarleyfi eða skylt sé að gefa hér á landi út ferðaskírteini fyrir flóttamenn í samræmi við þjóðréttarsamning.
    Útlendingur sem hefur eða fær dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar um alþjóðlega vernd, en án þess að vera veitt alþjóðleg vernd, skal fá vegabréf fyrir útlendinga til ferða til útlanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur með reglugerð. Þar má og heimila útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum ef sérstakar ástæður mæla með.
    Með umsókn um ferðaskírteini fyrir flóttamenn eða vegabréf fyrir útlendinga skal umsækjandi afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem hann hefur í fórum sínum.
    Ferðaskírteini skal afturkalla þegar:
     a.      handhafa þess er vísað frá landi á grundvelli f-liðar 1. mgr. 98. gr., d-liðar 1. mgr. 99. gr., b-liðar 1. mgr. 100. gr. eða i-, j- eða k-liðar 1. mgr. 106. gr.,
     b.      handhafi þess útvegar sér ferðaskilríki heimaríkis,
     c.      handhafi þess missir réttarstöðu sína sem flóttamaður við það að fá íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt annars ríkis eða missir hana á annan hátt, sbr. 48. gr.,
     d.      handhafa þess er samkvæmt lögum bannað að yfirgefa landið,
     e.      brottför frá landinu mundi fara í bága við dóm, úrskurð eða ákvörðun stjórnvalda,
     f.      útliti eða efni þess hefur verið breytt á ólögmætan hátt.
    Heimilt er að afturkalla ferðaskírteini þegar:
     a.      aðstæður þær sem um getur í a-, b- eða e-lið 1. mgr. eru fyrir hendi,
     b.      það hefur skemmst eða er ónothæft af öðrum ástæðum,
     c.      ljósmynd eða upplýsingar í því svara ekki lengur til auðkenna handhafa,
     d.      það finnst í vörslu óviðkomandi aðila,
     e.      handhafi þess hefur ekki lengur leyfi til dvalar hér á landi.
    Lögreglan eða starfsmenn utanríkisþjónustunnar geta haldlagt ferðaskírteini til bráðabirgða en skulu senda Útlendingastofnun málið til meðferðar og ákvörðunar um afturköllun eftir atvikum.
    Þegar ferðaskírteini er afturkallað skv. d- og f-lið 5. mgr. eða a–e-lið 6. mgr. skráir Útlendingastofnun ákvörðun um afturköllun í vegabréfaskrá.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði, m.a. um útgáfu, gildissvið og endurnýjun ferðaskírteinis fyrir flóttamenn og vegabréfs fyrir útlendinga, og nánari skilyrði í þessu sambandi.

47. gr.
Gildi erlendra ákvarðana um stöðu flóttamanns.

    Útlendingur, sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki en Íslandi, skal talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Sama á við um einstakling sem staðfest hefur verið að sé ríkisfangslaus. Fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings skal ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

48. gr.
Afturköllun alþjóðlegrar verndar.

    Heimilt er að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr., þ.e. ef:
     a.      hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns,
     b.      hann hefur sjálfviljugur endurheimt ríkisfang sitt sem hann hafði glatað,
     c.      hann hefur öðlast nýtt ríkisfang og nýtur verndar hins nýja heimalands síns,
     d.      hann hefur sjálfviljugur sest að á ný í landi því sem hann yfirgaf eða dvaldist ekki í vegna ótta við ofsóknir,
     e.      hann getur ekki lengur neitað að hagnýta sér vernd heimalands síns vegna þess að aðstæður þær sem höfðu í för með sér að hann var viðurkenndur flóttamaður eru ekki lengur fyrir hendi,
     f.      hann getur horfið aftur til landsins sem hann áður hafði reglulegt aðsetur í vegna þess að aðstæður þær sem leiddu til þess að hann var viðurkenndur flóttamaður eru ekki lengur fyrir hendi, ef um ríkisfangslausan mann er að ræða.
    Ekki skal afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar skv. e- eða f-lið 1. mgr. ef útlendingurinn getur borið fyrir sig ríkar ástæður til þess að neita að hverfa aftur til landsins sem hann áður hafði fast aðsetur í vegna fyrri ofsókna.
    Heimilt er að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef í ljós kemur að útlendingi sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 40. gr. og 1. eða 2. tölul. c-liðar 41. gr. hefur verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi.
    Útlendingastofnun skal tilkynna flóttamanni um það fyrir fram þegar til greina kemur að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar og hvers vegna það kemur til greina. Ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skal stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við.

V. KAFLI
Dvöl.
49. gr.
Dvöl án dvalarleyfis.

    Útlendingi sem þarf vegabréfsáritun til land­göngu er ekki heimilt að dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki, sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, telst jafngilda dvöl hér á landi.
    Norrænum ríkisborgurum er heimilt að dveljast hér á landi án dvalarleyfis.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um dvöl umfram þrjá mánuði ef það leiðir af þjóðréttarsamningi, svo og nánari ákvæði um hvernig reikna skuli dvalartíma.
    Ráðherra er enn fremur heimilt að setja reglugerð um frekari undanþágur frá kröfu um dvalarleyfi.

50. gr.
Hverjir þurfa dvalarleyfi.

    Útlendingur sem hyggst dveljast hér á landi lengur en honum er heimilt skv. 49. gr. þarf að hafa dvalarleyfi.
    Útlendingur sem hyggst ráða sig til starfa hér á landi þarf að hafa dvalarleyfi auk atvinnuleyfis þar sem það er áskilið í lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfunni um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

51. gr.
Skylda til að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins.

    Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skal sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá þessu er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og er:
     a.      maki, sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis,
     b.      barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára,
     c.      umsækjandi um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar skv. 61. gr. eða dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings skv. 64. gr.
    Undantekningar c-liðar 1. mgr. gilda meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar án áritunar.
    Heimilt er að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
    Ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama á við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um undanþágur skv. 3. mgr.

52. gr.
Umsókn um dvalarleyfi.

    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Umsækjandi skal undirrita umsókn eigin hendi þar sem m.a. komi fram að hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda.
    Umsókn skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Útlendingastofnun áframsendir umsóknir um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

53. gr.
Forgangs- og flýtiafgreiðsla umsókna um dvalarleyfi.

    Útlendingastofnun er heimilt að forgangsraða afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi.
    Útlendingastofnun má einnig taka umsóknir um dvalar- og atvinnuleyfi til flýtimeðferðar gegn sérstöku þjónustugjaldi.
    Í undantekningartilvikum er Útlendingastofnun heimilt að flýta meðferð annarra fullbúinna dvalarleyfisumsókna þegar óviðráðanlegar ytri aðstæður krefjast eða vegna annarra sérstakra aðstæðna.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um beitingu heimildar um flýtimeðferð, þar á meðal hvaða dvalarleyfi um ræðir og þau skilyrði sem atvinnurekendur þurfa að uppfylla.
    Útlendingastofnun annast innheimtu þjónustugjalda samkvæmt þessari grein.

54. gr.
Útgáfa dvalarleyfis.

    Dvalarleyfi verður ekki gefið út fyrr en umsókn um dvalarleyfi hefur verið samþykkt, útlendingur er kominn til landsins, hefur gengist undir læknisskoðun samkvæmt vottorði heilbrigðisstofnunar og tilkynnt dvalarstað sinn hér á landi til skráningar. Útlendingastofnun gefur út skírteini til staðfestingar á veitingu dvalarleyfis. Skírteini er gefið út á nafn útlendingsins sem er handhafi dvalarleyfisins. Í því skyni að unnt sé að bera kennsl á rétthafa dvalarleyfis og staðreyna að handhafi þess sé sá sem hann kveðst vera skal tekin stafræn mynd af umsækjanda og prentuð á skírteinið. Í sama tilgangi er ráðherra heimilt að ákveða að dvalarleyfisskírteini skuli innihalda örflögu með þeim upplýsingum sem skráðar eru á kortið auk fingrafara handhafa. Í skírteininu skal m.a. koma fram nafn útlendings, ríkisfang hans, nafn atvinnurekanda þegar það á við og gildistími dvalarleyfisins.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjald fyrir endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis.

55. gr.
Grunnskilyrði dvalarleyfis.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.–IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann eftirtalin grunnskilyrði:
     a.      framfærsla hans skv. 56. gr. og sjúkratrygging sé örugg,
     b.      skilyrði fyrir dvalarleyfi sem fram koma í lögum þessum,
     c.      hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda,
     d.      ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.
    Tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skal vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði skv. a–d-lið 1. mgr.

56. gr.
Trygg framfærsla útlendings sem sækir um dvalarleyfi.

    Útlendingur sem er eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi skal sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi.
    Sýna þarf fram á framfærslu í gjaldmiðli sem skráður er hjá Seðlabanka Íslands.
    Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.
    Ráðherra er heimilt, í samráði við ráðherra sem fer með félagsmál, að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, þ.m.t. um hvað telst trygg framfærsla, hvernig framfærslu skuli háttað svo og í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá þeim kröfum.

57. gr.
Endurnýjun dvalarleyfis.

    Útlendingastofnun er heimilt að endurnýja dvalarleyfi útlendings að fenginni umsókn ef skilyrðum leyfisins er áfram fullnægt. Ef sérstaklega stendur á er þó heimilt að víkja frá skilyrði um trygga framfærslu skv. a-lið 1. mgr. 55. gr., sbr. 56. gr., hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð vegna atvinnuleysis, slyss eða veikinda eða vegna sambærilegra ástæðna og eins ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
    Útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis skal sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Sé sótt um endurnýjun innan tilskilins frests er útlendingi heimilt að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra dvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans. Að öðrum kosti skal útlendingur yfirgefa landið áður en gildistími fyrra dvalarleyfis hans rennur út.
    Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skal réttur til dvalar falla niður og fara skal með umsókn skv. 51. gr.
    Útlendingastofnun getur heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
    Útlendingastofnun getur heimilað útlendingi sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli dvalarleyfis annarra en þeirra sem um getur í 64., 66., 67. eða 68. gr. og sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli áfram­haldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn liggur fyrir enda sæki útlendingur um nýtt leyfi eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi fellur úr gildi og hefur verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði.
    Sæki útlendingur um dvalarleyfi á nýjum grundvelli hér á landi án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. skal hafna umsókn af þeirri ástæðu. Í undantekningartilvikum getur Útlendingastofnun þó heimilað umsækjanda, sem ekki uppfyllir fyrrgreind skilyrði, að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort fella skuli dvalarleyfi niður þegar leyfishafi hefur dvalist erlendis samfellt lengur en þrjá mánuði. Dvalarleyfi útlendings fellur sjálfkrafa niður þegar lögheimili hans, sem skráð var hér á landi, hefur verið skráð erlendis í þrjá mánuði. Þótt dvalarleyfi falli niður kemur það ekki í veg fyrir að útlendingur geti sótt um endurnýjun samkvæmt ákvæði þessu ef það er gert innan gildistíma fyrra dvalarleyfis og sanngirnisástæður mæla með því.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði fyrir endurnýjun dvalarleyfis.

58. gr.
Ótímabundið dvalarleyfi.

    Heimilt er að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru eftirfarandi:
     a.      útlendingur uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi,
     b.      útlendingur sýnir fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt. Útlendingastofnun er m.a. heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.
     c.      útlendingur hefur sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, sbr. þó 9. mgr.,
     d.      ekki eru til meðferðar mál sem valdið geta því að útlendingi verði vísað úr landi, sbr. 1. mgr. 98. gr. eða 1. mgr. 99. gr.,
     e.      útlendingur á ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
    Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá kröfu um að tiltekin skilyrði skv. 2. mgr. séu uppfyllt:
     a.      skilyrði um framfærslu, sbr. b-lið 1. mgr., ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því,
     b.      skilyrði um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár, samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi hér á landi vegna náms skv. 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár eða í þeim tilvikum þegar doktorsnemi hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sérfræðings skv. 61. gr. í að minnsta kosti þrjú ár og lokið doktorsnámi hér á landi.
    Heimilt er í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl skv. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt:
     a.      útlendingi sem á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur haft dvalarleyfi hér á landi samfellt í tvö ár og foreldri hafi haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár,
     b.      útlendingi sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með hinum íslenska ríkisborgara hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar. Sama gildir um útlendinga sem hafa verið í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara enda sé hvorugur aðila giftur,
     c.      útlendingi sem öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu en hefur misst hann eða afsalað sér honum,
     d.      ungmenni sem náð hefur 18 ára aldri og dvalið hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar í fjögur ár eða lengur og hefur stundað nám eða störf hér á landi.
    Heimilt er að veita barni sem fæðist eftir að forsjárforeldri kemur til landsins ótímabundið dvalarleyfi enda hafi foreldrið ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
    Skilyrði 1. mgr. eiga ekki við um þá sem hafa haft dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um ótímabundið dvalarleyfi. Útlendingur sem óskar eftir ótímabundnu dvalarleyfi skal sækja um leyfið til Útlendingastofnunar eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Honum er heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans enda hafi umsóknin borist Útlendingastofnun innan tilskilins frests. Ákvæði 4. og 7. mgr. 57. gr. eiga við um umsóknir sem síðar berast.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort fella skuli niður ótímabundið dvalarleyfi þegar leyfishafi hefur dvalist erlendis lengur en 18 mánuði á fjögurra ára tímabili. Ótímabundið dvalarleyfi útlendings fellur sjálfkrafa niður þegar lögheimili hans, sem skráð var hér á landi, hefur verið skráð erlendis samfellt í 18 mánuði. Að fenginni umsókn má heimila útlendingi lengri dvöl erlendis án þess að ótímabundið dvalarleyfi falli úr gildi.
    Við veitingu ótímabundins dvalarleyfis gefur Útlendingastofnun út skírteini því til staðfestingar skv. 54. gr. Skírteini er gefið út á nafn útlendingsins sem er handhafi leyfisins.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundin dvalarleyfi, þar á meðal um lengri dvöl erlendis skv. 7. mgr. og um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt að kveða þar á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er í reglugerðinni heimilt að kveða á um undanþágur frá skyldu til þátttöku í námskeiði og um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.

59. gr.
Afturköllun.

    Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfi­sveitinguna eða ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.
    Eftir afturköllun leyfis á grundvelli rangra upplýsinga eða þess að leynt var atvikum sem verulega þýðingu gátu haft við útgáfu þess leyfis skal réttarstaða útlendingsins samkvæmt lögum þessum vera eins og hann hefði aldrei fengið útgefið það leyfi og önnur leyfi byggð á sömu forsendum.

60. gr.
Tilkynningarskylda.

    Útlendingur sem fengið hefur dvalarleyfi áður en hann kom til landsins skal innan viku frá komu gefa sig fram við Útlendingastofnun eða embætti sýslumanns utan Reykjavíkur. Sama á við um útlending sem kemur til landsins og hyggst sækja um dvalarleyfi eða að öðru leyti þarfnast slíks leyfis.

VI. KAFLI
Dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku.
61. gr.
Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.,
     b.      tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hefur verið veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að veita til allt að tveggja ára, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að tvö ár í senn, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr.
    Heimilt er að endurnýja leyfi útlendings, sem hefur fengið útgefið dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu og misst starf sitt, í allt að þrjá mánuði frá því að hann missti starfið eða uppsagnarfrestur er liðinn, til þess að hann geti leitað sér annars starfs á grundvelli sérþekkingar sinnar. Þarf þá skilyrði b-liðar 1. mgr. ekki að vera uppfyllt.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

62. gr.
Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi vegna starfs þegar um er að ræða skort á starfsfólki hér á landi. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.,
     b.      tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hefur verið veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal í fyrsta skipti ekki veitt til lengri tíma en eins árs, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að eitt ár til viðbótar, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis.
    Heimilt er að endurnýja leyfi til lengri tíma en skv. 2. mgr. þegar um er að ræða skýrt afmarkaða og tímabundna verkframkvæmd sem tekur lengri tíma en þar greinir. Er þá heimilt að veita dvalarleyfi til þess tíma sem atvinnuleyfið gildir.
    Óheimilt er að veita útlendingi sem haft hefur dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu leyfi samkvæmt ákvæðinu að nýju fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis, frá lokum gildistíma leyfisins. Ákvæði þetta á þó ekki við þegar útlendingur starfar hér á landi skemur en átta mánuði á hverju tólf mánaða tímabili.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

63. gr.
Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk.

    Heimilt er að veita dvalarleyfi vegna starfa íþróttafólks hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur uppfyllir skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr.,
     b.      tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk hefur verið veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal í fyrsta skipti ekki veitt til lengri tíma en eins árs, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja það um allt að tvö ár í senn, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

64. gr.
Dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings.

    Heimilt er að veita útlendingi sem fyrirhugað er að senda hingað til lands til sérhæfðra starfa á vegum atvinnurekanda sem ekki hefur starfsstöð hér á landi dvalarleyfi. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.,
     b.      tímabundið atvinnuleyfi vegna sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf hefur verið veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama samnings, þó aldrei til lengri tíma en nemur gildistíma atvinnuleyfis.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

VII. KAFLI
Dvalarleyfi vegna menntunar og menningarskipta.
65. gr.
Dvalarleyfi vegna náms.

    Heimilt er að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi.
    Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.,
     b.      útlendingur stundar fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla.
    Heimilt er að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu komi þeir til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka og má þá víkja frá aldursskilyrðum 1. mgr.
    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu vegna náms sem fram fer á vinnustöðum hér á landi enda séu m.a. eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
     a.      skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr., og
     b.      tímabundið atvinnuleyfi vegna náms hafi verið veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en tólf mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu af námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða veikindi.
    Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi meistara- og doktorsnema sem vinna að lokaverkefni þrátt fyrir að engum einingum hafi verið lokið á leyfistíma liggi fyrir staðfesting á námsframvindu frá viðkomandi skóla.
    Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi útlendings sem lokið hefur háskólanámi hér á landi í allt að sex mánuði frá útskriftardegi til þess að leita atvinnu á grundvelli sérfræðiþekkingar hans, þrátt fyrir að skilyrði 2. mgr. séu ekki uppfyllt.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. þó b-lið 3. mgr. 58. gr.

66. gr.
Dvalarleyfi vegna samninga Íslands við erlend ríki.

    Heimilt er að veita ríkisborgurum tiltekinna ríkja á aldursbilinu 18–26 ára dvalarleyfi hér á landi á grundvelli samnings sem íslensk stjórnvöld hafa gert við heimaland viðkomandi útlendings um dvöl ríkisborgara þess hér á landi í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess.
    Forsenda fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu er m.a. að skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. séu uppfyllt og að útlendingi hafi ekki áður verið veitt dvalarleyfi á grundvelli slíks samnings hér á landi.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að hámarki veitt til 12 mánaða og er óheimilt að endurnýja slíkt dvalarleyfi.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

67. gr.
Dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða og trúboða.

    Heimilt er að veita útlendingum, eldri en 18 ára, dvalarleyfi hér á landi samkvæmt ákvæði þessu vilji þeir koma til þess að starfa fyrir frjáls félagasamtök sem starfa að góðgerðar- eða mannúðarmálum og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga um tekjuskatt, sem og útlendingum sem koma til dvalar í trúarlegum tilgangi fyrir skráð trúfélög eða þjóðkirkjuna.
    Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.,
     b.      farmiði frá Íslandi í lok tímabils liggi fyrir,
     c.      fyrirliggjandi sé boð til útlendings frá innlendum aðilum, sbr. 1. mgr., um að koma hingað til lands og starfa á þeirra vegum; skýrt komi fram í boðinu hver sé tilgangur dvalar, hversu lengi hún muni vara og hvaða störfum viðkomandi eigi að sinna,
     d.      tengsl skulu vera á milli þess starfs sem útlendingurinn á að inna af hendi og starfsemi aðila, sbr. 1. mgr.
    Útlendingi sem fær útgefið dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu er óheimilt að ráða sig til starfa á íslenskum vinnumarkaði gegn endurgjaldi meðan á dvöl hans stendur.
    Hámarksdvöl samkvæmt ákvæði þessu er tólf mánuðir og er almennt óheimilt að endurnýja dvalarleyfið. Þegar um er að ræða dvöl á vegum skráðs trúfélags eða þjóðkirkjunnar er þó heimilt að endurnýja dvalarleyfið um allt að eitt ár í senn séu skilyrði ákvæðisins enn uppfyllt.
    Heimilt er að víkja frá kröfu 1. mgr. að um samtök sé að ræða ef markmið tiltekins verkefnis er sannarlega í mannúðar- eða góðgerðarskyni.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis nema dvalarleyfi sem veitt er í tengslum við dvöl á vegum skráðs trúfélags eða þjóðkirkjunnar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um kröfur til framfærslu, hvaða skilyrði samtök skuli uppfylla til að teljast viðurkennd samtök og hvaða störfum útlendingi er heimilt að sinna.

68. gr.
Dvalarleyfi vegna vistráðningar.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu á heimili fjölskyldu hér á landi. Umsækjandi þarf að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. og má ekki vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn er lögð fram.
    Vistfjölskylda skal samanstanda af hjónum eða sambúðarmökum með barni eða börnum eða einstæðu foreldri með barn eða börn. Ef vistfjölskylda samanstendur af aðilum sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar þarf a.m.k. annað hjóna eða sambúðarmaka að vera komið með ótímabundið dvalarleyfi. Ekki mega vera fjölskyldutengsl milli umsækjanda og vistfjölskyldu.
    Hver vistfjölskylda getur aðeins haft einn útlending í einu í vistráðningu og skal útvega hinum vistráðna fæði og sérherbergi til afnota á heimili fjölskyldunnar. Útlendingastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum um vistfjölskyldu, m.a. um fjárhagsaðstoð og aðra veitta aðstoð hjá félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags, auk upplýsinga um sakaferil, innan lands og erlendis ef stofnunin telur ástæðu til.
    Umsókn um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal hafnað ef líklegt er talið að umsækjandi muni ekki yfirgefa landið þegar leyfi hans rennur út. Við mat Útlendingastofnunar er m.a. heimilt að byggja á upplýsingum um umsækjanda sjálfan og heimaríki hans, almennri reynslu af umsækjendum í sömu eða svipaðri stöðu og umsækjandi, tilgangi umsóknar, reynslu af vistfjölskyldu og hvort umsækjandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á öðrum forsendum hér á landi. Dvalarleyfi skal jafnframt hafnað ef rökstuddur grunur er um að vistráðning sé notuð til að fá útlending til landsins í þeim tilgangi að misnota starfskrafta hans eða í öðrum ólögmætum tilgangi.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal ekki veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en þess tíma sem hlutaðeigandi samningur um vistráðningu gerir ráð fyrir. Óheimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu. Jafnframt er óheimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku skv. VI. kafla fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins.
    Verði slit á vistráðningu áður en vistráðningartíma samkvæmt samningi aðila er lokið skulu bæði hinn vistráðni og vistfjölskyldan tilkynna það Útlendingastofnun eða þess aðila sem hafði milli­göngu um gerð samningsins ef við á. Hinum vistráðna er heimilt að gera samning um nýja vistráðningu við nýja vistfjölskyldu að uppfylltum öllum skilyrðum ákvæðis þessa. Samanlagður dvalartími hjá vistfjölskyldum skal ekki vera lengri en eitt ár.
    Útlendingur sem dvelst hér á landi samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki heimild til atvinnuþátttöku utan heimilis vistfjölskyldu á dvalartíma, hvorki til að sinna launuðum né ólaunuðum störfum.
    Lögregla skal að beiðni Útlendingastofnunar fara á heimili hins vistráðna og kanna aðstæður, sbr. 110. gr.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Útlendingastofnun skal láta í té nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu og er henni heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki milli­göngu og umsjón með vistráðningum. Hlutverk slíkrar stofnunar eða fyrirtækis skal nánar útfært í reglugerð.
    Ráðherra mælir í reglugerð fyrir um það hvaða reglur skuli gilda um dvöl samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal um það sem fram skal koma í samningi um vistráðningu, skilyrði sem útlendingur og viðkomandi vistfjölskylda þurfa að uppfylla vegna dvalarinnar, svo sem um ábyrgð vistfjölskyldu á heimferð, vasapeninga hins vistráðna, frítíma og vinnutíma sem að hámarki má vera 30 klst. á viku.

VIII. KAFLI
Dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar.
69. gr.
Skilyrði dvalarleyfa vegna fjölskyldusameiningar.

    Nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 65., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. getur með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildir um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda fram­haldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr.
    Dvalarleyfi skv. 70., 71. og 1. mgr. 72. gr. verða ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hefur á síðustu fimm árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga nema synjun um dvalarleyfi mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu fjölskyldumeðlimum hans. Ef það brýtur í bága við forsendur dvalarleyfis fjölskyldumeðlims hér á landi að veita umsækjanda dvalarleyfi skv. 70.–72. gr. er heimilt að synja um dvalarleyfi.
    Umsókn um fyrsta dvalarleyfi skv. 70.–72. gr. skal hafnað ef samþykki fjölskyldumeðlims fyrir útgáfu þess leyfis liggur ekki fyrir.
    Dvalarleyfi skv. 70.–72. gr. skulu ekki veitt til lengri tíma en eins árs nema þegar fjölskyldumeðlimur sá sem umsókn byggist á dvelur hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar skv. 61. gr. sem veita má til allt að tveggja ára í senn. Dvalarleyfi fjölskyldumeðlims útlendings, sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis, getur þó aldrei gilt lengur en leyfi þess sem hann leiðir rétt sinn af. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli ákvæða 70.–72. gr. samkvæmt umsókn ef skilyrði leyfisins eru enn uppfyllt.
    Dvalarleyfi skv. 70.–72. gr. geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis nema sá fjölskyldumeðlimur sem dvalarleyfishafi leiðir rétt sinn af hafi dvalarleyfi sem skapar ekki slíkan grundvöll.

70. gr.
Dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt kafla þessum og að hjúskapurinn eða sambúðin hafi varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Hjúskapur eða sambúð viðkomandi þarf að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Heimilt er að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.
    Heimilt er að beita ákvæðum 1. mgr. þótt hjúskapur eða sambúð hafi varað skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Byggi umsækjandi rétt sinn á útlendingi sem er með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr., mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr., sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. eða fjölskyldusameiningar skv. 72. gr. þarf sá aðili að hafa starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar.
    3. mgr. á ekki við, með fyrirvara um önnur ákvæði þessarar greinar, þegar:
     a.      aðilar voru í hjúskap áður en maki búsettur á Íslandi fluttist hingað til lands eða
     b.      aðilar gengu í hjúskap meðan báðir aðilar höfðu dvalarleyfi hér á landi eða
     c.      aðilar eiga saman barn eða eiga von á barni saman.
    Hægt er að veita frekari undanþágu frá skilyrðum 3. mgr. ef sérstakar aðstæður standa til þess.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd 3. og 4. mgr., þ.m.t. um viðmið varðandi nám og störf hér á landi.
    Makar og sambúðarmakar skulu hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.
    Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé og veitir það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga.
    Útlendingur sem hefur haft dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ef sérstaklega stendur á og ríkar sanngirnisástæður mæla með því fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. ef skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. er fullnægt ásamt einu af eftirfarandi:
     a.      hjúskap eða sambúð hefur lokið með andláti maka nema sérstakar ástæður mæli gegn því,
     b.      hjúskap eða sambúð hefur verið slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur sætt misnotkun eða öðru ofbeldi af hálfu maka. Skilyrði er að það hafi verið tilkynnt lögreglu, barnaverndaryfirvöldum eða önnur gögn bendi til þess. Líta ber til tengsla útlendings við landið og í undantekningartilfellum er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. 55. gr. við útgáfu dvalarleyfis samkvæmt þessum staflið ef framfærsla er ótrygg um skamma hríð,
     c.      útlendingur sýnir fram á að vegna félagslegra eða menningarlegra aðstæðna í heimaríki hans geti honum reynst erfitt að snúa aftur til þess ríkis vegna skilnaðarins eða sambúðarslitanna.

71. gr.
Dvalarleyfi fyrir börn.

    Heimilt er að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61., 70., 73., 74. eða 78. gr.
    Barn skal vera í forsjá aðila sem byggja skal rétt á. Samþykki beggja forsjárforeldra þarf að liggja fyrir við umsókn séu þeir fleiri en einn. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði vegna sérstakra aðstæðna, t.d. ef sannanlega næst ekki í forsjáraðila, enda mæli hagsmunir barnsins með því.
    Sé um ættleiðingu að ræða þarf henni að vera lokið áður en umsókn er lögð fram og hún vera í samræmi við íslensk lög þess efnis.
    Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt þessu ákvæði þrátt fyrir að umsækjandi hafi náð 18 ára aldri enda séu grunnskilyrði dvalarleyfis og fjölskyldusameiningar uppfyllt. Jafnframt er skilyrði að umsækjandi stundi annaðhvort nám eða störf hér á landi, sé búsettur hjá foreldri og sé hvorki í hjúskap né sambúð.
    Heimilt er að víkja frá skilyrðum ákvæðis þessa ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess. Á þetta t.d. við í þeim tilvikum þar sem barnaverndarnefnd hefur tekið yfir forsjá barns eða ef barn er í varanlegu fóstri.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli þessarar greinar, m.a. um skilyrði þess að fósturbarn geti fengið dvalarleyfi.

72. gr.
Dvalarleyfi fyrir foreldra.

    Heimilt er að veita útlendingi sem á barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greinir í 2.–4. mgr. Skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. skulu ávallt vera uppfyllt þegar dvalarleyfi er veitt á þessum grundvelli.
    Heimilt er að veita útlendingi sem er 67 ára og eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.
    Heimilt er að veita útlendingi sem er foreldri íslensks barns sem er yngra en 18 ára og búsett hér á landi dvalarleyfi ef foreldrið fer með eða deilir forsjá barnsins og fullnægir eftirfarandi skilyrðum:
     a.      umsækjandi ætlar að búa með barninu hér á landi,
     b.      umsækjandi er ekki í hjúskap eða sambúð með hinu foreldri barns og
     c.      það er nauðsynlegt til þess að barn geti búið áfram hér á landi.
    Heimilt er að veita foreldri sem fer með forsjá barns sem er yngra en 18 ára og búsett hér á landi dvalarleyfi þrátt fyrir að foreldri og barn muni ekki búa saman ef:
     a.      barn er annaðhvort íslenskur ríkisborgari eða með dvalarleyfi,
     b.      umsækjandi var í lögmætri dvöl hér á landi þegar umsókn var lögð fram,
     c.      umsækjandi hefur haft dvalarleyfi hér á landi sem ekki er unnt að endurnýja á sama grundvelli,
     d.      umsækjandi hefur umgengnisrétt við barnið samkvæmt staðfestum samningi og fyrir liggur að umgengni á sér stað samkvæmt honum og
     e.      það er nauðsynlegt til að viðhalda umgengni við barnið.

IX. KAFLI
Dvalarleyfi vegna alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða og mansals.
73. gr.
Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar.

    Þegar umsækjanda er veitt alþjóðleg vernd samkvæmt ákvæðum 37. og 39. gr. gefur Útlendingastofnun út dvalarleyfi.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal veitt til þriggja ára og er heimilt að endurnýja það að þeim tíma liðnum, nema skilyrði séu til að afturkalla veitingu skv. 48. gr. eða synjun á endurnýjun dvalarleyfis sé nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Endurnýja má dvalarleyfi þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 55. gr. Sé fylgdarlausu barni veitt alþjóðleg vernd skal dvalarleyfi þess gilda þangað til barnið verður lögráða og skal þá að nýju leggja mat á þörf þess fyrir alþjóðlega vernd.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

74. gr.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

    Í þeim tilvikum þegar útlendingur er staddur hér á landi og getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til, má líta til almennra mannúðarsjónarmiða þó svo að skilyrði skv. 37. gr. séu ekki uppfyllt. Ákvæði þessu skal ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. eða 39. gr.
    Heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæði þessu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum eru eftirfarandi:
     a.      að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd,
     b.      að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er,
     c.      að ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda,
     d.      að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
    Ákvæði 2. mgr. gilda ekki um útlending sem einn eða fleiri eftirfarandi liða eiga við um:
     a.      útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,
     b.      útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,
     c.      útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi fengið fullnægjandi skoðun,
     d.      útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
    Heimilt er að víkja frá ákvæðum 3. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu má jafnframt veita þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 55. gr.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal ekki veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu í allt að tvö ár í senn enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins í upphafi ekki breyst.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

75. gr.
Dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals.

    Heimilt er að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að sex mánuði þótt öllum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé ekki fullnægt. Sama gildir um barn viðkomandi ef það er statt hérlendis með foreldri. Við rannsókn málsins skal lögregla veita Útlendingastofnun aðstoð, t.d. við mat á aðstæðum viðkomandi. Þrátt fyrir ákvæði XII. kafla skal ekki vísa viðkomandi einstaklingi brott úr landi á þessu tímabili.
    Nú er rökstuddur grunur um að útlendingur geri tilkall til að vera í stöðu fórnarlambs í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað svo óyggjandi sé og veitir það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef veiting dvalarleyfis er andstæð allsherjarreglu.
    Ef sótt hefur verið um alþjóðlega vernd skv. 37. eða 39. gr. eða grunur er um að þau ákvæði eigi við skal fyrst skorið úr því hvort skilyrði eru til þess að veita slíka vernd áður en þessu ákvæði er beitt.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

76. gr.
Dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals.

    Heimilt er að veita fórnarlambi mansals og barni viðkomandi sem statt er hér á landi endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar sérstaklega stendur á, þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé ekki fullnægt, þegar það telst nauðsynlegt og annað tveggja á við:
     a.      vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi,
     b.      að mati lögreglu vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls.
    Þrátt fyrir ákvæði XII. kafla skal ekki vísa viðkomandi einstaklingi brott úr landi á þessu tímabili.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

77. gr.
Bráðabirgðadvalarleyfi.

    Heimilt er eftir umsókn útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina. Einnig er heimilt að beiðni útlendings sem hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi, sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd,
     b.      að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er,
     c.      að ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda,
     d.      að ekki liggi fyrir beiðni um að annað ríki taki við honum á ný, sbr. 1. mgr. 36. gr.,
     e.      að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoðað við úrlausn máls.
    Heimilt er að víkja frá skilyrðum 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á, t.d. þegar ósanngjarnt eða ómögulegt er að ætlast til þess að umsækjandi framvísi fullnægjandi skilríkjum og er Útlendingastofnun skylt að meta í hverju tilviki hvort þannig sé ástatt. Séu liðnir meira 90 dagar frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst íslenskum stjórnvöldum skal dvalarleyfi samkvæmt þessari grein, samkvæmt umsókn, veitt þó svo að d-liður 1. mgr. eigi við.
    Séu aðstæður með þeim hætti að 1. mgr. 42. gr. eigi við en viðkomandi sé undanskilinn alþjóðlegri vernd skv. 40. og 41. gr. er heimilt að veita útlendingi bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu. Í þeim tilvikum er heimilt að binda leyfið sérstökum skilyrðum sem nauðsynleg þykja eftir atvikum, t.d. heimild til þess að undanskilja rétt til atvinnuþátttöku og krefjast þess að viðkomandi sinni tilkynningarskyldu eða haldi sig á tilteknum stað skv. 114. gr. eða gangist undir önnur þvingunarúrræði skv. XIII. kafla.
    Heimilt er að veita dvalarleyfi samkvæmt þessari grein þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu í allt að eitt ár í senn samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar.
    Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru, viðeigandi ákvæði I. kafla laga þessara, svo og ákvæði þessa kafla, gilda ekki um ákvörðun um bráðabirgðadvalarleyfi. Bráðabirgðadvalarleyfi hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

X. KAFLI
Önnur dvalarleyfi.
78. gr.
Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði annarra dvalarleyfa samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.
    Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi en það leyfi mun ekki verða endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika.
    Fara skal fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til:
     a.      fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða,
     b.      félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla.
    Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess., t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega ósanngjarnt væri að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra.
    Til sérstakra tengsla við landið skv. 2. mgr. geta ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi skv. 64., 65., 66., 67., 68., 75., 76. og 77. gr. Með sérstökum tengslum í ákvæði þessu er auk þess hvorki átt við fjölskyldutengsl viðkomandi útlendings, en um þau fer skv. VIII. kafla, né dvöl á grundvelli 21. gr. Hafi dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi útlendings verið afturkallað á grundvelli 59. gr. þar sem útlendingur hefur við umsókn gegn betri vitund veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfi­sveitinguna, t.d. ef um málamyndagerning skv. 7. mgr. 70. gr. er að ræða eða ef rökstuddur grunur er um það, geta þau tengsl sem útlendingur hefur myndað við landið á þeim tíma ekki talist til sérstakra tengsla og ber að synja um veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu.
    Heimilt er að veita dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu þó að útlendingur hafi um skamman tíma ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 55. gr. um framfærslu ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal ekki veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins í upphafi ekki breyst.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Ráðherra setur reglugerð um m.a. hvaða tilgangur dvalar getur fallið hér undir, hvenær sérstök tengsl við landið teljist vera til staðar og hvenær getur komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr.

79. gr.
Dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs.

    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs að uppfylltum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði annarra dvalarleyfa samkvæmt lögum þessum. Dvalarleyfi skv. þessu ákvæði skal einungis veitt til eins árs í senn. Heimilt er að endurnýja leyfið haldist tilgangur dvalar óbreyttur.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Ráðherra setur reglugerð til leiðbeiningar um hvað teljast skuli til lögmæts og sérstaks tilgangs.

XI. KAFLI
Sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu.
80. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði þessa kafla gilda um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi.
    Ákvæði þessa kafla gilda einnig um aðstandendur EES- og EFTA-borgara sem fylgja EES- eða EFTA-borgara til landsins eða koma til hans. Ákvæði kafla­ns gilda enn fremur um aðstandendur íslenskra ríkisborgara sem fylgja íslenskum ríkisborgara eða koma til íslensks ríkisborgara sem snýr aftur til Íslands eftir að hafa nýtt rétt sinn til frjálsrar farar samkvæmt EES-samningnum eða stofnsamningi EFTA í öðru EES- eða EFTA-ríki.

81. gr.
Koma og dvöl.

    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla veitir rétt til að dveljast hvar sem er á Íslandi nema takmarkanir hafi verið settar samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla kemur ekki í veg fyrir að útlendingur skv. 1. mgr. 80. gr. fái dvalarleyfi samkvæmt öðrum ákvæðum lag þessara.
    Útlendingur sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara má koma til landsins án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári sé hann sannanlega starfsmaður þjónustuveitanda á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki.
    Ekki má neita EES- eða EFTA-borgara um að fá að njóta réttinda sinna á þeim grundvelli einum að viðkomandi sé ekki handhafi skráningarvottorðs skv. 89. gr., vottorðs eða skírteinis sem staðfestir rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 91. gr., skjals sem vottar að umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandendur hafi verið lögð fram eða dvalarskírteinis skv. 90. gr. þar eð viðkomandi getur fært sönnur á rétt með ýmsum öðrum skjölum.
    Aðstandendur, sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar, skulu vera undanþegnir kvöð um vegabréfsáritun ef þeir eru handhafar gilds dvalarskírteinis skv. 90. gr. Slíkar vegabréfsáritanir skulu að öðrum kosti gefnar út án endurgjalds eins fljótt og hægt er og hljóta flýtimeðferð samkvæmt almennum reglum þar um.
    Hafi EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi, sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, ekki nauðsynleg ferðaskilríki eða tilskildar vegabréfsáritanir, sé þeirra krafist, skal áður en slíkum einstaklingum er vísað frá gefa þeim tækifæri til að afla nauðsynlegra skjala eða fá þau send innan sanngjarns tíma eða til að fá framburð sinn staðfestan eða fá viðurkennt á annan hátt að þeir falli undir réttinn til frjálsrar farar og dvalar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um flýtimeðferð skv. 5. mgr.

82. gr.
Dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-borgara.

    Aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir ákvæði þessa kafla hefur rétt til að dveljast með honum hér á landi. Aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skulu óháð ríkisfangi eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi.
    Aðstandandi EES- og EFTA-borgara er:
     a.      maki og sambúðarmaki ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti,
     b.      niðji viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg sem er yngri en 21 árs eða á framfæri borgarans,
     c.      ættingi viðkomandi, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem er á framfæri borgarans.

83. gr.
Réttur til dvalar í allt að þrjá mánuði.

    EES- eða EFTA-borgara sem framvísar gildu vegabréfi eða kennivottorði er heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins svo lengi sem vera hans verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar.
    EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir skilgreiningu 1. mgr. og er í atvinnuleit er heimilt að dveljast hér á landi í allt að sex mánuði frá komu til landsins. Sama gildir um aðstandendur borgarans.
    Dvöl í öðru norrænu ríki skal ekki draga frá dvalartímanum.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um aðstandanda EES- eða EFTA-borgara sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um útreikning á lengd dvalar. Ráðherra sem fer með félagsmál er heimilt að setja frekari fyrirmæli í reglugerð um skilgreiningu hugtaksins ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

84. gr.
Réttur til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir EES- eða EFTA-borgara.

    EES- eða EFTA-borgari hefur rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af eftirtöldum skilyrðum:
     a.      er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi,
     b.      ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og uppfyllir jafnframt skilyrði c-liðar, eftir því sem við á,
     c.      hefur nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan á dvöl hans hér á landi varir,
     d.      er innritaður í viðurkennda námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.
    Krefja má EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 81. gr. Þá má krefja borgarann um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og sýna fram á með yfirlýsingu eða jafngildum aðferðum að hann uppfylli skilyrði d-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 81. gr.
    EES- eða EFTA-borgari sem dvelst á landinu, sbr. a-lið 1. mgr., en hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur heldur stöðu sinni sem slíkur við eftirfarandi aðstæður:
     a.      á meðan hann er tímabundið óvinnufær vegna veikinda eða slyss,
     b.      hann staðfestir að hann sé atvinnulaus án eigin atbeina eftir að hafa unnið við launað starf í meira en eitt ár og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar,
     c.      hann staðfestir að hann sé atvinnulaus án eigin atbeina eftir að lokið er ráðningarsamningi sem er til skemmri tíma en eins árs eða hefur án eigin atbeina misst atvinnu á því tímabili og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar; í því tilviki skal hann halda stöðu sinni sem launþegi í a.m.k. sex mánuði,
     d.      hefji hann starfsnám; sé ekki um að ræða atvinnuleysi fyrir eigin atbeina skal hann einungis halda stöðu sinni sem launþegi ef starfsnámið tengist fyrra starfi hans.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði samkvæmt þessari grein, m.a. um gögn skv. 2. mgr., um skilgreiningu á nægilegu fé, sbr. c-lið 1. mgr., um viðurkenndar námsstofnanir skv. d-lið 1. mgr. og um rétt EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir a-lið 1. mgr. til áfram­haldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans.

85. gr.
Réttur til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir aðstandendur sem eru EES- eða EFTA- borgarar.

    EES- eða EFTA-borgara sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 84. gr. er heimilt að dveljast á landinu á meðan réttur borgarans til dvalar varir. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á sjálfstæðan rétt borgarans til dvalar skv. 84. gr.
    EES- eða EFTA-borgari sem er maki, sambúðarmaki, barn eða ungmenni yngra en 21 árs og fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem á rétt til dvalar skv. d-lið 1. mgr. 84. gr. má dveljast á landinu á meðan réttur borgarans til dvalar varir.
    Ef EES- eða EFTA-borgari fer af landi brott eða fellur frá njóta aðstandendur hans sem eru EES- eða EFTA-borgarar réttar til dvalar svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði 1. mgr. 84. gr. Barn EES- eða EFTA-borgara og það foreldri sem fer með forsjá þess mega dveljast á landinu svo lengi sem barnið er innritað í nám í viðurkenndri námsstofnun.
    Þrátt fyrir lögskilnað, ógildingu hjúskapar eða slit á sambúð heldur aðstandandi EES- eða EFTA-borgara dvalarrétti sínum svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði 1. mgr. 84. gr.

86. gr.
Réttur til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. 85. gr. gilda, eftir því sem við á, um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt skv. a, b- eða c-lið 1. mgr. 84. gr. Sama gildir um maka, sambúðarmaka eða barn eða ungmenni yngra en 21 árs sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. d-lið 1. mgr. 84. gr.
    Við andlát EES- eða EFTA-borgara heldur aðstandandi sem er ekki EES- eða EFTA-borgari dvalarrétti sínum hafi viðkomandi dvalist á landinu sem aðstandandi EES- eða EFTA- borgara í minnst eitt ár fyrir andlát borgarans svo lengi sem viðkomandi uppfyllir skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 84. gr. eða dvelst á landinu sem aðstandandi einstaklings sem uppfyllir þau skilyrði. Barn EES- eða EFTA-borgara og það foreldri sem fer með forsjá þess mega dveljast á landinu ef borgarinn fer af landi brott eða fellur frá, óháð skilyrðum greinarinnar að öðru leyti, svo lengi sem barnið býr hér á landi og er innritað í viðurkennda námsstofnun.
    Þrátt fyrir lögskilnað, ógildingu eða slit á sambúð heldur maki eða sambúðarmaki EES- eða EFTA-borgara sem er ekki EES- eða EFTA-borgari dvalarrétti sínum svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 84. gr. að því tilskildu að:
     a.      hjúskapur eða sambúð hafi varað í minnst þrjú ár, þar af eitt ár hér á landi, þegar skilnaður eða ógilding á sér stað eða sambúð er slitið,
     b.      forsjá barns EES- eða EFTA-borgarans hafi með samningi eða dómi verið fengin viðkomandi maka eða sambúðarmaka,
     c.      viðkomandi maki, sambúðarmaki eða barn/börn hafi orðið fyrir ofbeldi eða annarri alvarlegri misnotkun í hjúskapnum eða sambúðinni,
     d.      viðkomandi maki eða sambúðarmaki fái með samkomulagi eða dómi umgengnisrétt við barn hér á landi.

87. gr.
Réttur EES- eða EFTA-borgara til ótímabundinnar dvalar.

    EES- eða EFTA-borgari sem skv. 84. eða 86. gr. hefur dvalist löglega á landinu samfellt í minnst fimm ár hefur rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Réttur til ótímabundinnar dvalar er óháður skilyrðum 84. og 86. gr. Réttur til ótímabundinnar dvalar fellur niður dveljist viðkomandi utan landsins lengur en í tvö ár samfellt.
    Dvöl erlendis í skemmri tíma en samtals sex mánuði á ári, dvöl erlendis vegna herþjónustu eða dvöl í eitt skipti að hámarki í eitt ár af ríkum ástæðum, svo sem vegna með­göngu, fæðingar, alvarlegra veikinda, náms eða starfsnáms eða starfa sem viðkomandi er sendur til í öðru landi, telst ekki rof á samfelldri dvöl skv. 1. mgr.
    EES- eða EFTA-borgari sem dvalist hefur hér á landi skv. a-lið 1. mgr. 84. gr. öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar þrátt fyrir að hafa ekki haft samfellda búsetu í fimm ár ef hann:
     a.      hefur við starfslok náð lögbundnum ellilífeyrisaldri hér á landi eða hættir í launuðu starfi til að fara snemma á eftirlaun, að því tilskildu að hann hafi dvalist á landinu samfellt lengur en í þrjú ár og starfað hér á landi í minnst tólf mánuði samfellt þegar hann hættir störfum,
     b.      hefur dvalist hér á landi í meira en tvö ár samfellt en hefur orðið að hætta störfum sökum varanlegrar örorku, eða
     c.      hefur starfað í öðru EES- eða EFTA-ríki eftir að hafa starfað og dvalist hér á landi samfellt í þrjú ár og telst hafa dvalist hér áfram, enda hafi hann snúið aftur til heimilis síns hér á landi a.m.k. einu sinni í viku.
    Ef örorka skv. b-lið 3. mgr. er tilkomin vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms sem veitir rétt til bóta úr almannatryggingum, að hluta eða að öllu leyti, falla kröfur um lengd dvalar niður.
    EES- eða EFTA-borgari, sem er aðstandandi einstaklings sem nýtur réttar til ótímabundinnar dvalar skv. 3. mgr. og býr hjá honum, öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar frá þeim tíma þegar réttur til ótímabundinnar dvalar einstaklings sem EES- eða EFTA-borgarinn leiðir rétt sinn af hefst skv. 3. mgr.
    EES- eða EFTA-borgari, sem er aðstandandi einstaklings sem nýtur réttar til dvalar skv. a-lið 1. mgr. 84. gr. og býr hjá honum, öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar við andlát þess fyrrnefnda jafnvel þótt að hinn látni hafi ekki öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 1. eða 3. mgr. ef:
     a.      hinn látni hafði dvalist á landinu í minnst tvö ár samfellt fyrir andlátið,
     b.      hinn látni lést í vinnuslysi eða úr vinnutengdum sjúkdómi.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um skilgreiningu á samfelldri dvöl.

88. gr.
Réttur aðstandenda sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar til ótímabundinnar dvalar.

    Aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem er ekki EES- eða EFTA-borgari en hefur búið með EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 86. gr., og hefur dvalist löglega á landinu samfellt í fimm ár öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Sama á við um aðstandanda sem er ekki EES- eða EFTA-borgari og hefur dvalist löglega á landinu í minnst fimm ár, sbr. 1. málsl. 2. mgr. eða 3. mgr. 86. gr. Réttur til ótímabundinnar dvalar er óháður skilyrðum 84. gr. Réttur til ótímabundinnar dvalar fellur niður dveljist viðkomandi utan landsins lengur en í tvö ár samfellt.
    Dvöl erlendis í skemmri tíma en samtals sex mánuði á ári, dvöl erlendis vegna herþjónustu eða dvöl í eitt skipti að hámarki í eitt ár af ríkum ástæðum, svo sem vegna með­göngu, fæðingar, alvarlegra veikinda, náms eða starfsnáms eða starfa sem viðkomandi er sendur til í öðru landi, telst ekki rof á samfelldri dvöl skv. 1. mgr.
    Réttur til ótímabundinnar dvalar skv. 5. og 6. mgr. 87. gr. gildir einnig um aðstandendur sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, þar á meðal um skilgreiningu á samfelldri dvöl.

89. gr.
Skráningarvottorð.

    EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans sem dvelst hér á landi skv. 84. eða 85. gr. lengur en í þrjá mánuði ber að skrá sig. Frestur til skráningar er þrír mánuðir frá komu til landsins. Skráningarvottorð skal gefið út eins fljótt og unnt er eftir að viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. og 3. mgr.
    Við skráningu EES- eða EFTA-borgara skv. 84. gr. er stjórnvöldum heimilt að óska eftir að hann leggi fram, auk gilds kennivottorðs eða vegabréfs:
     a.      staðfestingu á ráðningu frá vinnuveitanda eða sönnun þess að hann sé sjálfstætt starfandi eða bjóði upp á þjónustu, sbr. a- eða b-lið 1. mgr. 84. gr.,
     b.      staðfestingu á sjúkratryggingu og gögn um að hann hafi nægilegt fjármagn til að framfleyta sjálfum sér og aðstandendum sínum, sbr. c-lið 1. mgr. 84. gr.,
     c.      staðfestingu á innritun viðkomandi í nám í viðurkenndri menntastofnun, staðfestingu á sjúkratryggingu og gögn um að hann hafi nægilegt fjármagn til að framfleyta sjálfum sér og aðstandendum sínum, sbr. d-lið 1. mgr. 84. gr.
    Við skráningu EES- eða EFTA-borgara sem dvelst á landinu sem aðstandandi skv. 85. gr. er stjórnvöldum heimilt að óska eftir að hann leggi fram, auk gilds kennivottorðs eða vegabréfs:
     a.      gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar,
     b.      skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til,
     c.      staðfestingu á framfærslu þegar réttur viðkomandi sem aðstandanda er háður framfærslu EES- eða EFTA-borgarans, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 82. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um framkvæmd skráningar og útgáfu skráningarvottorðs, um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þess og um skyldu EES- eða EFTA-borgara í atvinnuleit til þess að skrá sig fái hann atvinnu eftir að frestur skv. 1. mgr. rennur út.

90. gr.
Dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar og hafa rétt til dvalar skv. 86. gr.

    Útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skal fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins. Staðfesting á umsókn er gefin út um leið og viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. mgr.
    Með umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandanda skulu lögð fram eftirtalin gögn:
     a.      gilt vegabréf,
     b.      gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar,
     c.      skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til,
     d.      staðfesting á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hins, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 82. gr.
    Umsókn um dvalarskírteini skal afgreidd innan sex mánaða frá því að hún er lögð fram. Gildistími dvalarskírteinis er fimm ár frá útgáfudegi eða jafnlangur dvalartíma EES- eða EFTA-borgarans ef hann er styttri en fimm ár. Skírteinið fellur úr gildi ef viðkomandi dvelst utan landsins lengur en í sex mánuði á ári nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um útgáfu skírteinis samkvæmt ákvæði þessu, að fenginni umsókn.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um framkvæmd skráningar og útgáfu dvalarskírteinis, um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þess, um nauðsynleg gögn, sbr. 2. mgr., um gildistíma dvalarskírteinis og um nánari skilyrði þess að tímabundin dvöl erlendis hafi ekki áhrif á samfellda dvöl, sbr. 3. mgr.

91. gr.
Vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. og 88. gr.

    EES- eða EFTA-borgari sem hefur rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skv. 87. gr. fær eftir umsókn vottorð um rétt til ótímabundinnar dvalar svo fljótt sem verða má.
    Útlendingur sem hefur rétt til fastrar búsetu á landinu skv. 88. gr. fær skírteini til staðfestingar á rétti til ótímabundinnar dvalar á grundvelli umsóknar. Umsókn um slíkt skírteini skal afgreidd fyrir lok gildistíma dvalarskírteinis skv. 90. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, þar á meðal um framkvæmd skráningar og útgáfu vottorðs og skírteinis um rétt til ótímabundinnar dvalar og um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þeirra.

92. gr.
Brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulega máli, ef um málamyndagerning að hætti 7. mgr. 70. gr. er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 84., 85. eða 86. gr. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða.
    Heimilt er að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé eða ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga.
    Réttur til dvalar hér á landi skv. a- eða b-lið 1. mgr. 84. gr. fellur ekki niður vegna tímabundinna veikinda eða slyss eða ef um er að ræða þvingað atvinnuleysi EES- eða EFTA- borgara eftir að hann hefur starfað hér á landi lengur en eitt ár.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um takmarkanir á brottfalli dvalarréttar.

93. gr.
Afturköllun dvalarskírteina eða vottorða og skírteina um rétt til ótímabundinnar dvalar.

    Á grundvelli 92. gr. er heimilt að afturkalla skráningarvottorð, dvalarskírteini og vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar.
    Skráningarvottorð og dvalarskírteini er einnig heimilt að afturkalla ef skráning er ógild af öðrum ástæðum.
    Vottorð og skírteini skv. 1. mgr. skulu afturkölluð þegar réttur til dvalar fellur niður skv. 3. málsl. 1. mgr. 87. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 88. gr.
    Dvalarskírteini útlendings sem er ekki EES- eða EFTA-borgari skal afturkalla ef útlendingurinn fær dvalarleyfi samkvæmt öðrum köflum laga þessara.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um afturköllun samkvæmt ákvæði þessu.

94. gr.
Frávísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef:
     a.      viðkomandi fullnægir ekki reglum sem settar eru um ferðaskilríki eða komu til landsins, sbr. þó 6. mgr. 81. gr.,
     b.      viðkomandi hefur verið vísað úr landi og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
     c.      um er að ræða háttsemi sem greinir í 1. mgr. 95. gr.,
     d.      það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
    Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a- og b-lið 1. mgr. en Útlendingastofnun skv. c- og d-lið 1. mgr. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
    Ef meðferð máls skv. 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar 1. mgr. innan þriggja mánaða frá komu til landsins.

95. gr.
Brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
    Brottvísun skv. 1. mgr. er heimilt að ákveða ef framferði viðkomandi felur í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skal ekki ein­göngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar er brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægja ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.
    Einnig er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl skv. 83., 84., 85. eða 86. gr.
    Einstaklingi sem hefur rétt til dvalar skv. 83. gr. er heimilt að vísa brott ef það er talið nauðsynlegt til verndar almannaheilbrigði og stjórnvöld hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun samkvæmt ákvæði þessu.

96. gr.
Endurkomubann EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Brottvísun skv. 1. og 4. mgr. 95. gr. felur í sér bann við komu inn í landið síðar. Endurkomubann getur verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skal sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr.
    Samkvæmt umsókn er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Taka skal ákvörðun um hvort fella eigi endurkomubann úr gildi innan sex mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Sá sem sætir endurkomubanni hefur ekki rétt til að koma til landsins á meðan fjallað er um umsókn hans.
    Við sérstakar aðstæður getur sá sem vísað hefur verið brott, eftir umsókn, fengið heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um heimild EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu.

97. gr.
Takmarkanir á heimild til brottvísunar skv. 95. gr.

    Brottvísun skal þrátt fyrir ákvæði 95. gr. ekki ákveða ef viðkomandi:
     a.      hefur rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. eða 88. gr. nema alvarlegar ástæður liggi til þess á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis,
     b.      er EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans og hefur haft fasta búsetu hér á landi í tíu ár nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi,
     c.      er EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans undir lögaldri nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi; þetta gildir þó ekki um barn ef brottvísun þess er nauðsynleg til að gæta hagsmuna þess eins og kveðið er á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Brottvísun skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skal m.a. tekið mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt.
    Brottvísun skal ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans hafi leitað sér félagslegrar aðstoðar. Þá skal brottvísun aldrei ákveðin af þeirri ástæðu einni að kennivottorð eða vegabréf sé fallið úr gildi.
    Með fyrirvara um ákvæði 95. gr. er ekki heimilt að vísa brott EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans ef viðkomandi:
     a.      uppfyllir skilyrði a-liðar 1. mgr. 84. gr.,
     b.      er í atvinnuleit, svo lengi sem viðkomandi getur lagt fram sönnun þess að hann sé í virkri atvinnuleit og hafi raunverulega möguleika á því að fá atvinnu.

XII. KAFLI
Frávísun og brottvísun.
98. gr.
Brottvísun útlendings án dvalarleyfis.

    Heimilt er að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef:
     a.      hann dvelst ólöglega í landinu,
     b.      hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laga þessara, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum þessum eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið,
     c.      hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     d.      hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
     e.      stjórnvald í Schengen-ríki hefur tekið endanlega ákvörðun um frávísun hans eða brottvísun fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu og dvöl útlendinga,
     f.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Svo framarlega sem 102. gr. á ekki við skal vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef:
     a.      hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr.,
     b.      honum er ekki veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum í samræmi við 2. mgr. 104. gr.:
                  1.      vegna þess að hætta er á að hann muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar,
                  2.      vegna þess að umsókn hans um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hefur verið hafnað þar sem hún þykir bersýnilega tilhæfulaus eða vegna þess að veittar voru rangar eða villandi upplýsingar,
                  3.      vegna þess að hann er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum, sbr. 2. mgr. 104. gr.

99. gr.
Brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi.

    Heimilt er að vísa útlendingi úr landi sem hefur dvalarleyfi ef:
     a.      hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laga þessara eða af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum þessum,
     b.      hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu í útlöndum eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en eitt ár; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     c.      hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en eitt ár eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
     d.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Hafi brotið verið framið áður en útlendingi var veitt dvalarleyfi gilda ákvæði 98. gr.

100. gr.
Brottvísun útlendings sem hefur ótímabundið dvalarleyfi.

    Heimilt er að vísa útlendingi úr landi sem hefur ótímabundið dvalarleyfi ef:
     a.      hann hefur afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og hefur átt sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     b.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Hafi brotið verið framið áður en útlendingi var veitt ótímabundið dvalarleyfi gilda ákvæði 99. gr.

101. gr.
Áhrif brottvísunar og endurkomubann.

    Við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi.
    Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.
    Samkvæmt umsókn má fella úr gildi endurkomubann hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin. Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubann falli úr gildi.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um endurkomubann, þar á meðal um lengd þess.

102. gr.
Vernd gegn frávísun og brottvísun. Takmarkanir við ákvörðun um brottvísun.

    Útlendingi sem fæddur er hér á landi er óheimilt að vísa frá eða úr landi hafi hann frá fæðingu átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá.
    Norrænum ríkisborgara sem búsettur hefur verið hér á landi lengur en þrjá mánuði má því aðeins vísa frá eða úr landi að refsiverð háttsemi hans geti varðað eins árs fangelsi eða meira.
    Brottvísun skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
    Ákvæði 3. mgr. á ekki við þegar brottvísun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna, sbr. f-lið 1. mgr. 98. gr., d-lið 1. mgr. 99. gr. og b-lið 1. mgr. 100. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um mat á aðstæðum skv. 3. mgr.

103. gr.
Hvenær ákvörðun getur komið til framkvæmda.

    Ákvörðun um frávísun skv. 106. gr. má framkvæma þegar í stað. Synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um ótímabundið dvalarleyfi sem sótt er um innan frests skv. 2. mgr. 57. gr. má ekki framkvæma fyrr en ákvörðunin er endanleg. Sama gildir um ákvörðun um afturköllun skv. 59. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi, EES- eða EFTA-borgara sem hefur skráð sig hér á landi skv. XI. kafla eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalist hér á landi lengur en þrjá mánuði. Að öðru leyti gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa.
    Útlendingastofnun er heimilt að fresta um hæfilegan tíma framkvæmd ákvörðunar sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
    Áður en ákvörðun er tekin, sem felur í sér að fylgdarlaust barn skuli yfirgefa landið, skal tryggja barninu aðstoð barnaverndarnefndar til að tryggja að það sem barninu er fyrir bestu sé haft að leiðarljósi. Áður en slík ákvörðun kemur til framkvæmda skal Útlendingastofnun ganga úr skugga um það að í ríkinu sem barninu er vísað er til séu ættingjar, forsjáraðilar eða fullnægjandi móttökuaðstaða fyrir börn.
    Synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 2. mgr. 57. gr. er ekki heimilt að framkvæma fyrr en útlendingnum hefur verið gefinn kostur á að leggja fram kæru.
    Um það hvenær framkvæma má ákvarðanir vegna umsókna um alþjóðlega vernd eða vernd gegn ofsóknum fer skv. 35. gr.

104. gr.
Framkvæmd ákvörðunar.

    Við synjun á umsókn um dvalarleyfi eða endurnýjun á dvalarleyfi þar sem útlendingur er staddur hér á landi skal skýrt kveðið á um heimild hans til áfram­haldandi dvalar hér á landi.
    Í málum skv. 1. mgr. og í öðrum tilvikum þar sem útlendingur hefur ekki rétt til dvalar hér á landi eða ákvörðun felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið skal lagt skriflega fyrir hann að hverfa á brott. Að jafnaði skal Útlendingastofnun veita útlendingi frest í 7–30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Heimilt er að veita styttri frest eða fella hann niður ef:
     a.      hætta er á að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. 3. mgr. 105. gr.,
     b.      umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn,
     c.      slíkt telst nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna,
     d.      útlendingur fellur undir c- eða d-lið 1. mgr. 36. gr. um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi,
     e.      útlendingi er vísað úr landi á grundvelli b-, c- eða d-liðar 1. mgr. 98. gr., 99. gr. eða 100. gr.,
     f.      útlendingi er frávísað eða brottvísað á ytri landamærum Schengen-svæðisins.
    Þegar það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða er Útlendingastofnun heimilt að veita lengri frest en tilgreindur er í 2. mgr. Við mat á því hvort veittur skuli lengri frestur skal hvert tilvik kannað sérstaklega með hliðsjón af aðstæðum útlendings.
    Meðan á fresti skv. 2. mgr. stendur eða þegar framkvæmd ákvörðunar hefur verið frestað skv. 2. mgr. 103. gr. skal tryggt að útlendingur fái eins og kostur er að dveljast með fjölskyldu sinni, sé hún í landinu, og fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og að tekið sé tillit til sérþarfa hans sem kunna að vera fyrir hendi vegna viðkvæmrar stöðu hans. Börnum skal einnig tryggður aðgangur að skyldunámi.
    Útlendingur skal tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt, frestur skv. 2. mgr. er ekki veittur eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Ef sérstaklega stendur á má færa útlendinginn til annars lands en þess sem hann kom frá. Ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES- eða EFTA-ríki skal hann fluttur þangað. Ákvarðanir sem varða framkvæmd verða ekki kærðar sérstaklega. Útlendingi sem fellur undir ákvæðið og ekki hefur gild ferðaskilríki er skylt að afla sér þeirra.
    Málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið frestar ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd hennar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að ákvörðun var tekin.
    Lögregla annast framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um eftirlit með framkvæmd brottvísana.

105. gr.
Þvingunarúrræði til að tryggja framkvæmd ákvörðunar.

    Til að tryggja að ákvörðun skv. 104. gr. verði framkvæmd og í þeim tilvikum sem ætla má að útlendingur komi sér undan framkvæmd hennar eða útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta getur lögregla lagt fyrir útlendinginn að:
     a.      tilkynna sig,
     b.      afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, sbr. 19. gr., og
     c.      halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.
    Fyrirmæli sem greinir í 1. mgr. má því aðeins gefa að ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. 104. gr., eða í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta fyrir samfélagið. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í fjórar vikur nema útlendingurinn samþykki það eða dómari ákveði annað samkvæmt reglum um meðferð sakamála.
    Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. 104. gr., er heimilt að taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Að öðru leyti ber að taka mið af aðstæðum í sérhverju tilviki. Framkvæma skal heildarmat á aðstæðum í máli útlendings þar sem m.a. er litið til þess hvort:
     a.      útlendingur hefur áður komið sér undan framkvæmd ákvörðunar sem fól í sér að hann skyldi yfirgefa landið, t.d. með því að virða ekki veittan frest skv. 2. mgr. 104. gr.,
     b.      útlendingur hefur látið uppi andstöðu sína við að yfirgefa landið sjálfviljugur,
     c.      útlendingi hefur verið vísað úr landi,
     d.      útlendingur hefur verið dæmdur til refsingar eða annarrar öryggisráðstöfunar hér á landi,
     e.      útlendingur hefur ekki verið samstarfsfús við að upplýsa hver hann er,
     f.      útlendingur hefur forðast eða hindrað undirbúning heimfarar,
     g.      útlendingur hefur gefið stjórnvöldum hér á landi rangar upplýsingar vegna umsóknar um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd,
     h.      útlendingur ber ábyrgð á röskun á friði í eða við móttökustöð eða húsnæði umsækjenda um alþjóðlega vernd,
     i.      útlendingur er talinn ógna öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.
    Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála eftir því sem við á. Samsvarandi gildir ef útlendingur gerir ekki það sem nauðsynlegt er til að afla sér ferðaskilríkja, sbr. 5. mgr. 104. gr., og tilgangurinn er að færa útlendinginn fyrir fulltrúa lands sem við á í því skyni að fá útgefin ferðaskilríki.
    Gæsla skal ekki ákveðin lengur en í tvær vikur. Gæslutíma má því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. 104. gr. Má þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur en þó ekki oftar en tvisvar.
    Útlending má hvorki handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun eða dómarinn telur fullnægjandi að útlendingurinn sæti þess í stað úrræðum skv. 1. mgr.
    Þvingunarúrræðum skv. 1. og 4. mgr. má beita þegar ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið er tekin og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar.

106. gr.
Frávísun við komu til landsins.

    Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef:
     a.      hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins,
     b.      honum hefur verið vísað úr landi hér eða í öðru norrænu ríki, endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
     c.      hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni,
     d.      hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar,
     e.      hann hefur hlotið refsingu eins og greinir í c- eða d-lið 1. mgr. 98. gr. eða b- eða c-lið 1. mgr. 99. gr. eða sérstök ástæða er til af öðrum ástæðum að óttast að hann muni fremja hér á landi eða í öðru norrænu landi refsiverðan verknað sem varðað getur fangelsi lengur en þrjá mánuði,
     f.      reglur 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eiga við og ætla má að útlendingurinn muni fara til annars norræns ríkis og að honum muni að öllum líkindum verða vísað þar frá vegna þess að ekki er fullnægt reglum um vegabréf eða vegabréfsáritun eða frávísun er heimil af öðrum ástæðum í viðkomandi ríki,
     g.      hann getur ekki samkvæmt mati læknis ráðið persónulegum högum sínum sjálfur meðan á dvöl hans hér stendur, hætta er á að hann muni með framkomu sinni valda sér eða öðrum tjóni eða hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi,
     h.      hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera við fyrri færslu hans úr landi, sbr. 1. mgr. 107. gr., eða sekt sem honum var gert að greiða meðan á fyrri dvöl hans stóð,
     i.      hann er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu,
     j.      endanleg ákvörðun stjórnvalds í Schengen-ríki um brottvísun eða frávísun liggur fyrir á grundvelli þess að ástæða sé til að ætla að hann hafi framið alvarlega glæpi eða vegna raunverulegra vísbendinga um að hann ætli að fremja slíka glæpi innan Schengen-svæðisins,
     k.      það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, þjóðaröryggis eða alþjóðasamskipta ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
    Nægjanlegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
    Nú ber útlendingur að hann sé flóttamaður skv. 37. gr., ríkisfangslaus einstaklingur skv. 39. gr. eða veitir að öðru leyti upplýsingar sem benda til að ákvæði 1. mgr. 42. gr. eigi við og skal þá leggja málið fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. að því er varðar þann sem hefur vegabréfsáritun eða dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen- samstarfinu.
    Heimilt er að vísa útlendingi frá landi eftir reglum 1. mgr. þótt sjö sólarhringa fresturinn sé liðinn. Þó verður meðferð máls að hefjast innan níu mánaða frá komu hans til landsins.
    Ekki er heimilt að vísa útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi frá landi skv. 5. mgr.

107. gr.
Ábyrgð á kostnaði.

    Útlendingur sem færður er úr landi samkvæmt lögum þessum skal greiða kostnað af brottför sinni. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað af gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að hann fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Krafan er aðfararhæf og hún getur auk þess verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h-lið 1. mgr. 106. gr. Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför. Sama gildir um fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu samkvæmt ákvæði þessu.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við í þeim tilvikum þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd er fluttur til annars ríkis sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram á Íslandi eða í einhverju samningsríkjanna, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr.
    Nú er útlendingi sem komið hefur með skipi eða loftfari vísað frá landi skv. 94. eða 106. gr. og skal þá eigandi farsins eða leigutaki, og á þeirra vegum stjórnandi þess eða umboðsmaður hér á landi, annaðhvort taka útlendinginn um borð á ný eða flytja hann úr landi á annan hátt eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Á sama hátt er þeim skylt að taka fylgdarmenn um borð og greiða kostnað af fylgd með útlendingnum úr landi ef lögregla telur þess þörf.
    Kostn­aður við að færa útlending úr landi, sem ekki fæst greiddur skv. 1. eða 3. mgr., greiðist úr ríkissjóði.
    Nú gengur útlendingur sem þarf leyfi lögreglunnar skv. 22. gr. á land án þess að hafa fengið slíkt leyfi og fer þá eftir reglum 3. mgr. um ábyrgð á kostnaði. Sama gildir þá að jafnaði einnig um kostnað sem hið opinbera kann að hafa af dvöl útlendingsins hér á landi í allt að þrjá mánuði.
    Ábyrgð skv. 3. og 5. mgr. gildir ekki við komu yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

XIII. KAFLI
Þvingunar- og rannsóknarúrræði.
108. gr.
Almennt um rannsókn og rannsóknarúrræði.

    Útlendingi er skylt að veita aðstoð sína til að upplýsa hver hann er, að því marki sem stjórnvald skv. 2. mgr. 4. gr. krefst þess.
    Um rannsóknarúrræði samkvæmt kafla þessum fer eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hvað skylda megi útlending til að gera til að fullnægja skyldu skv. 1. mgr.

109. gr.
Haldlagning.

    Ef vafi leikur á hver útlendingur er við komu til landsins eða síðar getur lögregla lagt hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur gefið upplýsingar um hver hann er. Sama gildir þegar vafi er um fyrri dvalarstað og það skiptir máli um rétt til dvalar hér á landi.
    Lögregla getur lagt fyrir útlending að afhenda vegabréf eða annað kennivottorð ef ástæða er til að ætla að útlendingur muni koma sér undan því að framfylgja ákvörðun um brottvísun, sbr. 3. mgr. 105., eða í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að hann sé talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan því að framfylgja ákvörðun er heimilt að taka tillit til almennrar reynslu af undankomu.
    Lögregla skal leiðbeina útlendingi um að hann geti borið réttmæti haldlagningar undir dómara samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála.

110. gr.
Leit á útlendingi, heimili hans eða í hirslum og hjá samverkamanni.

    Ef rökstuddur grunur leikur á að útlendingur, í bága við fyrirmæli sem greinir í 1. mgr. 108. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um hver hann er eða, í bága við fyrirmæli sem greinir í 14. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um fyrri dvalarstað eða reyni að halda eftir gögnum eða leyni upplýsingum til þess að reyna að koma í veg fyrir að framfylgt verði ákvörðun um brottvísun á grundvelli ákvæða 98.–100. gr. er lögreglu heimilt að leita á útlendingnum, á heimili hans, í herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála. Sama gildir ef rökstuddur grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis eða ekki með vilja beggja, sbr. 7. mgr. 70. gr. Sama gildir jafnframt um aðila sem rökstuddur grunur er um að aðstoði útlending við að halda slíkum gögnum leyndum eða leyni upplýsingum um hver útlendingurinn er.
    Leit skal ákveðin með úrskurði dómara nema sá sem í hlut á samþykki hana eða að brýn hætta sé á að bið eftir úrskurði dómara valdi sakarspjöllum.

111. gr.
Taka ljósmynda eða fingrafara.

    Í þágu máls er heimilt að taka ljósmyndir og fingraför af útlendingi sem:
     a.      getur ekki fært sönnur á hver hann er eða ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn gefi rangar upplýsingar um það hver hann er,
     b.      leitar alþjóðlegrar verndar eða sækir um leyfi samkvæmt lögum þessum,
     c.      hefur verið synjað um alþjóðlega vernd eða leyfi samkvæmt lögum þessum,
     d.      hefur verið vísað frá landi eða úr landi eða ætla má að dveljist hér ólöglega.
    Fingraför sem tekin eru skv. 1. mgr. er heimilt að færa í tölvufærða fingrafaraskrá. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um færslu og notkun gagnagrunna fyrir fingraför, í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

112. gr.
Rannsókn á erfðaefni.

    Við ákvörðun í málum þar sem sýna þarf fram á fjölskyldutengsl er Útlendingastofnun heimilt að óska eftir því við umsækjanda um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi að hann gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis í því skyni til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða ef fyrirliggjandi gögn í því efni eru ekki talin veita fullnægjandi sönnun um skyldleika sem byggt er á eða hefur vægi í málinu. Neiti útlendingur án fullnægjandi ástæðu að gangast undir slíkar rannsóknir skal honum gert ljóst að slíkt kunni að hafa áhrif á stöðu hans og meðferð máls.
    Heimilt er að taka gjald fyrir rannsókn á erfðaefni og skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um skiptingu kostnaðar og um framkvæmd rannsóknar á erfðaefni. Heimilt er að krefja umsækjanda um fulla endurgreiðslu kostnaðar við lífsýnistöku og rannsókn á erfðaefni komi í ljós að viðkomandi hafi gefið upp rangar upplýsingar.

113. gr.
Aldursgreining.

    Ef grunur leikur á að umsækjandi um alþjóðlega vernd eða umsækjandi um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar villi á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur við meðferð máls getur viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skal metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag.
    Óheimilt er að þvinga viðkomandi að gangast undir slíka rannsókn. Neiti útlendingur án fullnægjandi ástæðu að gangast undir slíka rannsókn skal honum gerð grein fyrir því hvaða áhrif slík neitun getur haft á meðferð málsins. Synjun á umsókn um alþjóðlega vernd getur ekki byggst á því ein­göngu að viðkomandi hafi neitað að gangast undir aldursgreiningu.
    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd aldursgreiningar.

114. gr.
Skylda til að tilkynna sig eða dveljast á tilteknum stað.

    Heimilt er að skylda útlending til að sinna reglulegri tilkynningarskyldu um veru sína hér á landi eða dveljast á ákveðnum stað í tilvikum þar sem:
     a.      ekki liggur fyrir hver útlendingurinn er, útlendingurinn neitar að gefa upp hver hann er eða ef rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er,
     b.      útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að hann sé talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum,
     c.      það þykir nauðsynlegt til þess að tryggja framkvæmd þegar tekin hefur verið ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar,
     d.      útlendingurinn hefur hlotið dóm fyrir glæp sem varðar meira en sex mánaða fangelsisvist eða að rökstuddur grunur liggur fyrir um slíkan glæp,
     e.      eini grundvöllur dvalar útlendings hér á landi er bann við endursendingu skv. 42. gr.,
     f.      ætla má að útlendingurinn sé ógn við öryggi ríkisins eða hann af öðrum ástæðum en þeim sem nefndar eru í d-lið hefur ekki virt ákvörðun um að hann skuli hverfa úr landi eða hann getur ekki farið úr landi.
    Ákvarðanir um kröfu um að tilkynna sig eða dveljast á ákveðnum stað skulu teknar af lögreglustjóra.
    Útlendingurinn á rétt á að fá skorið úr því fyrir dómstólum hvort skilyrðin fyrir slíkri ákvörðun séu til staðar og hvort grundvöllur sé fyrir að framfylgja ákvörðuninni. Lögreglan skal leiðbeina útlendingi sem hefur verið skyldaður til þess að tilkynna sig eða dveljast á ákveðnum stað um þennan rétt. Um slíka meðferð máls vísast til XV. kafla laga um meðferð sakamála.
    Fyrirmæli skv. c-lið 1. mgr. er því aðeins heimilt að gefa að ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan því að ákvörðun um brottvísun verði framfylgt, sbr. 3. mgr. 105. gr. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í fjórar vikur nema útlendingurinn samþykki það eða dómari ákveði samkvæmt reglum um meðferð sakamála.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

115. gr.
Handtaka og gæsluvarðhald.

    Heimilt er að handtaka útlending og færa í gæsluvarðhald ef:
     a.      ekki liggur fyrir hver útlendingurinn er, útlendingurinn neitar að gefa upp hver hann er eða ef rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er,
     b.      útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að hann sé talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunir séu í hættu,
     c.      útlendingurinn hefur ekki sinnt kröfu um tilkynningarskyldu eða skyldu til dvalar á ákveðnum stað skv. 114. gr. og mál hans er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum,
     d.      endanleg ákvörðun hefur verið tekin um brottvísun, réttaráhrifum hefur ekki verið frestað og tilgangur handtöku er að flytja hann úr landi. Skilyrði er að brottvísunin sé vegna brots og út frá aðstæðum útlendingsins megi telja líkur til að hann fremji frekari brot,
     e.      útlendingurinn er á íslenskum flugvelli og ætlunin er að senda hann úr landi,
     f.      útlendingurinn telst ógn við þjóðaröryggi samkvæmt mati lögreglu, sbr. 2. mgr. 26. gr., og ætlunin er að senda hann úr landi,
     g.      nauðsynlegt þykir til að tryggja framkvæmd þegar ákvörðun er tekin um að útlendingur skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar,
     h.      útlendingur gerir ekki það sem nauðsynlegt er til að afla sér ferðaskilríkja, sbr. 5. mgr. 104. gr., og tilgangurinn er að færa útlendinginn fyrir fulltrúa þess lands sem við á í því skyni að fá útgefin ferðaskilríki.
    Ekki skal beita þessu ákvæði ef tilkynningarskylda eða krafa um að dveljast á ákveðnum stað skv. 114. gr. er talin nægjanleg til að ná því markmiði sem að er stefnt.
    Þegar þvingunarúrræði skv. d-, e-, g- eða h-lið 1. mgr. er beitt skal gæsluvarðhald ekki ákveðið lengra en tvær vikur. Gæsluvarðhald samkvæmt þessum liðum má því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan því að ákvörðun verði framfylgt, sbr. 3. mgr. 105. gr. Er þá heimilt að framlengja gæsluvarðhald í allt að tvær vikur en þó ekki oftar en tvisvar.
    Útlending er hvorki heimilt að handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun eða fullnægjandi er að útlendingurinn sæti þess í stað öðrum vægari úrræðum þessa kafla.
    Umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem er yngri en 18 ára en eldri en 15 ára, er þá aðeins heimilt að úrskurða í gæsluvarðhald þegar hann hefur sýnt af sér hegðun sem gefur til kynna að hann sé talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Úrræði þessu skal einungis beitt þegar önnur vægari úrræði samkvæmt lögum þessum eða sem mælt er fyrir um í barnaverndarlögum koma ekki til greina eða ná ekki því markmiði sem að er stefnt. Við beitingu þessa ákvæðis skal ávallt taka tillit til aldurs umsækjanda og þarfa hans hverju sinni.
    Lög um meðferð sakamála gilda um handtöku og gæsluvarðhald samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á.

116. gr.
Refsiákvæði.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður:
     a.      af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum eða reglum, banni, boði eða skilyrðum sem sett eru samkvæmt lögunum eða
     b.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir í máli samkvæmt lögum þessum upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi.
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:
     a.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur tilskilið leyfi lögum samkvæmt,
     b.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milli­göngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending eða gefur út eða miðlar yfirlýsingum, umsögnum eða skjölum til notkunar í máli samkvæmt lögum þessum ef hann með því notfærir sér ótilhlýðilega aðstæður útlendingsins,
     c.      af ásetningi með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd eða á annan ótilhlýðilegan hátt tælir útlending til að koma til landsins í því skyni að setjast hér að eða stunda atvinnu,
     d.      lætur öðrum í té vegabréf, ferðaskírteini fyrir flóttamenn, önnur ferðaskilríki eða svipuð skilríki sem heimilt er að nota sem ferðaskilríki og hlutaðeigandi veit eða má vita að útlendingur getur notað þau til að koma til landsins eða til annars ríkis,
     e.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki,
     f.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að koma ólöglega hingað til lands eða annars ríkis,
     g.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aflar eða reynir að afla dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar skv. 7. mgr. 70. gr.,
     h.      hefur í vörslum sínum falsað vegabréf, fölsuð skilríki eða falsaða vegabréfsáritun.
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum að standa að skipulagðri starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis, hvort sem starfsemin er rekin í hagnaðarskyni eða ekki.
    Nú er útlendingur fluttur til landsins með skipi eða loftfari án þess að hafa fullnægjandi ferðaskilríki og stjórnandi skips eða loftfars hefur ekki gengið úr skugga um að hann beri gild ferðaskilríki, sbr. 3. mgr. 18. gr., og er þá heimilt að gera stjórnanda farartækis sekt.
    Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila er heimilt að gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

117. gr.
Heimflutningur.

    Sá sem hefur milli­göngu um að útlendingur flytjist til landsins án tilskilinna leyfa skal greiða allan kostnað við að flytja útlending úr landi.

XIV. KAFLI
Öryggi ríkisins. Tilkynningarskylda.
118. gr.
Sérákvæði vegna öryggis ríkisins o.fl.

    Heimilt er að meina útlendingi land­göngu og synja um útgáfu dvalarleyfis og ótímabundins dvalarleyfis eða setja takmarkanir eða skilyrði ef nauðsynlegt þykir vegna utanríkisstefnu ríkisins, öryggis ríkisins eða mikilvægra þjóðarhagsmuna. Af sömu ástæðum er heimilt að framfylgja ákvörðun fyrr en greinir í 35. og 103. gr. Útlendingastofnun tekur ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð vegna öryggis ríkisins nánari ákvæði um tilkynningarskyldu en segir í 60. gr. eða reglum skv. 119. gr.

119. gr.
Tilkynningarskylda annarra.

    Ráðherra getur sett reglur um:
     a.      að sá sem rekur gististað, af hvers kyns tagi, eða heldur tjaldsvæði og þess háttar skuli halda skrá yfir þá sem þar gista og tilkynna lögreglunni um þá, svo og að aðrir skuli einnig veita lögreglunni upplýsingar um útlendinga sem hjá þeim gista ef ástæða þykir til vegna öryggissjónarmiða eða sérstaks viðbúnaðar,
     b.      að flugrekandi eða stjórnandi loftfars sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og á­höfn,
     c.      að stjórnandi skips sem siglir yfir mörk landhelginnar á leið til eða frá íslenskri höfn skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og á­höfn,
     d.      að sá sem fær útlending í þjónustu sína eða ræður útlending í launaða atvinnu skuli tilkynna það Útlendingastofnun áður en vinnan hefst,
     e.      að atvinnumiðlanir skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem leita eða fá atvinnu,
     f.      að Þjóðskrá Íslands skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem skráðir eru í þjóðskrá,
     g.      að menntastofnanir skuli samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun í té skrá um erlenda námsmenn,
     h.      að stjórnvöld skuli samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun eða lögreglunni í té upplýsingar um nafn útlendings og heimili til nota í máli samkvæmt lögum þessum þrátt fyrir reglur um trúnað í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlögum.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hvaða upplýsingar skrár skv. 1. mgr. skuli hafa að geyma.
    Þeim sem tilkynna á um er skylt að láta í té þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tilkynningarskyldunni verði fullnægt.

XV. KAFLI
Reglugerðir, gildistaka o.fl.
120. gr.
Reglugerðir og reglur.

    Ráðherra setur reglugerð eða reglur um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Starfssvið einstakra stofnana, sbr. 4. gr.
     2.      Réttaraðstoð og talsmenn, sbr. 13. gr.
     3.      Hvaða skrár skuli haldnar og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 17. gr.
     4.      För yfir landamæri og skilyrði fyrir komu, sbr. 18. gr.
     5.      Skilyrði vegabréfa og annarra kennivottorða, sbr. 19. gr.
     6.      Vegabréfsáritanir við komuna til landsins og íslenskan hluta upplýsingakerfis um vegabréfsáritanir, þar á meðal persónuvernd, sbr. 1. og 8. mgr. 20. gr.
     7.      Langtímavegabréfsáritun, sbr. 21. gr.
     8.      Land­gönguleyfi útlendra sjómanna, sbr. 22. gr.
     9.      Framkvæmd á greiningu á sérþörfum og stöðu umsækjanda um alþjóðlega vernd, sbr. 25. gr.
     10.      Stofnun móttökumiðstöðvar, sbr. 27. gr.
     11.      Réttindi umsækjanda um alþjóðlega vernd, sbr. 33. gr.
     12.      Stuðning við einstaklinga sem fá dvalarleyfi á grundvelli 43. gr. og 74. gr., sbr. 45. gr.
     13.      Framkvæmd umsókna um dvalarleyfi, sbr. 52. gr.
     14.      Beitingu flýtimeðferðar á dvalarleyfisumsókn, sbr. 53. gr.
     15.      Gjald vegna endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis, sbr. 54. gr.
     16.      Ótímabundin dvalarleyfi, sbr. 58. gr.
     17.      Dvöl á grundvelli vistráðninga, sbr. 68. gr.
     18.      Sérstök tengsl við landið, sbr. 78. gr.
     19.      Lögmætan og sérstakan tilgang, sbr. 79. gr.
     20.      Eftirlit með framkvæmd brottvísana, sbr. 104. gr.
     21.      Hvað skylda má útlending til að gera til að upplýsa hver hann er, sbr. 108. gr.
     22.      Skiptingu kostnaðar og framkvæmd rannsóknar á erfðaefni, sbr. 112. gr.
     23.      Framkvæmd aldursgreiningar, sbr. 113. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Starfshætti og störf kærunefndar útlendingamála, sbr. 8. gr.
     2.      Störf flóttamannanefndar, sbr. 9. gr.
     3.      Hverjir skuli bera vegabréf eða kennivottorð, sbr. 14. gr.
     4.      Hvaða upplýsingar megi veita erlendum stjórnvöldum og skilyrði þess, sbr. 15. gr.
     5.      Þátttöku Íslands í tengslum við samvinnu á ytri landamærum, sbr. 18. gr.
     6.      Heimildir til að mæla fyrir um málsmeðferð og málsmeðferðartíma í málum vegna umsókna um alþjóðlega vernd, sbr. 23. gr.
     7.      Framkvæmd umsókna um alþjóðlega vernd og aðkomu barnaverndarnefnda, sbr. 24. gr.
     8.      Öflun upplýsinga vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, sbr. 26. gr.
     9.      Framkvæmd viðtala við umsækjanda um alþjóðlega vernd, sbr. 28. gr.
     10.      Nánari skilyrði fyrir beitingu forgangsmeðferðar, sbr. 29. gr.
     11.      Réttaraðstoð í málum um alþjóðlega vernd, m.a. menntun og þóknun talsmanna, sbr. 30. gr.
     12.      Hagsmunagæslumenn, t.d. þóknun og hæfisskilyrði, sbr. 31. gr.
     13.      Málsmeðferð vegna beiðna um frestun réttaráhrifa, sbr. 35. gr.
     14.      Framkvæmd efnismeðferðar á umsóknum um alþjóðlega vernd, sbr. 36. gr.
     15.      Meðferð umsókna um viðurkenningu á ríkisfangsleysi, sbr. 39. gr.
     16.      Stuðning, m.a. viðvíkjandi menntun, samfélagsfræðslu og starfsþjálfun, við þá sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli 73. og 74. gr., sem og þá sem eru með umsókn til meðferðar, sbr. 45. gr.
     17.      Skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu, sbr. 45. gr.
     18.      Framkvæmd m.a. útgáfu og endurnýjunar ferðaskilríkja fyrir flóttamenn og vegabréfs fyrir útlending, sbr. 46. gr.
     19.      Dvöl umfram þrjá mánuði ef það leiðir af þjóðréttarsamningi, sbr. 49. gr.
     20.      Undanþágur frá kröfu um dvalarleyfi, sbr. 49. gr.
     21.      Undanþágu frá skyldunni til að sækja um dvalarleyfi fyrir komu til landsins, sbr. 51. gr.
     22.      Nánari fyrirmæli um grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 55. gr.
     23.      Hvað telst til tryggrar framfærslu umsækjanda um dvalarleyfi, sbr. 56. gr.
     24.      Skilyrði fyrir endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 57. gr.
     25.      Skilyrði fyrir sjálfboðaliða og trúboða, sbr. 67. gr.
     26.      Viðmið varðandi nám og störf umsækjanda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og sambúðar hér á landi, sbr. 70. gr.
     27.      Nánari skilyrði fyrir dvalarleyfi barna, m.a. um skilyrði vegna fósturbarna, sbr. 71. gr.
     28.      Rétt EES- eða EFTA-borgara til dvalar, m.a. um flýtimeðferð, sbr. 81. gr.
     29.      Útreikning á lengd dvalar, sbr. 83. gr.
     30.      Skilgreiningu á hugtakinu ósanngjörn byrði, sbr. 83. gr.
     31.      Rétt EES- eða EFTA-borgara til dvalar lengur en þrjá mánuði, sbr. 84. gr.
     32.      Nánari fyrirmæli um réttindi EES- og EFTA-borgara til ótímabundinnar dvalar, sbr. 87. gr.
     33.      Nánari fyrirmæli um réttindi aðstandenda sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar til ótímabundinnar dvalar, sbr. 88. gr.
     34.      Framkvæmd skráningar, skyldu til skráningar, útgáfu skráningarvottorðs og gjald fyrir vottorð, sbr. 89. gr.
     35.      Skráningu og útgáfu dvalarskírteinis fyrir útlendinga sem ekki eru EES- eða EFTA- borgarar en hafa rétt til lengri dvalar, sbr. 90. gr.
     36.      Framkvæmd skráningar, útgáfu skráningarvottorðs og skírteinis um rétt til ótímabundinnar dvalar og gjald fyrir þau, sbr. 91. gr.
     37.      Takmarkanir og framkvæmd á brottfalli dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans, sbr. 92. gr.
     38.      Endurkomubann og lengd þess, sbr. 101. gr.
     39.      Mat á aðstæðum við frávísun og brottvísun, sbr. 102. gr.
     40.      Undanþágu við frávísun við komuna til landsins að því er varðar þann sem hefur vegabréfsáritun eða dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, sbr. 106. gr.
     41.      Notkun gagnagrunna fyrir fingraför, sbr. 111. gr.
     42.      Skyldu til að tilkynna sig eða dveljast á tilteknum stað, sbr. 114. gr.
     43.      Nánari ákvæði vegna öryggis ríkisins, sbr. 118. gr.
     44.      Tilkynningarskyldu aðila og skráningu, sbr. 119. gr.

121. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017. Jafnframt falla þá úr gildi lög um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.
    Um mál sem borist hafa kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laga þessara, en hafa ekki verið afgreidd með úrskurði, gilda ákvæði þessara laga.

122. gr.
Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum:
     1.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                  a.      2. tölul. fellur brott.
                  b.      Í stað orðanna „Einstaklingur eða fyrirtæki“ í 3. tölul. kemur: Sjálfstætt starfandi einstaklingur, fyrirtæki eða félag, þ.m.t. stofnun, félagasamtök eða annar aðili.
                  c.      Í stað orðsins „Búsetuleyfi“ í 4. tölul. kemur: Ótímabundið dvalarleyfi.
                  d.      Við bætast tveir nýir töluliðir, 7. og 8. tölul., svohljóðandi:
                      7.      Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.
                      8.      Nám: Námsleiðir sem teljast til náms samkvæmt lögum um útlendinga.
     2.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
                  a.      2. mgr. orðast svo:
                      Atvinnurekanda er óheimilt að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, sbr. þó 4. og 5. mgr. 19. gr., eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis enda sé hann ekki undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum.
                  b.      3. mgr. orðast svo:
                      Útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema hann sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum.
     3.      Við 2. málsl. c-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna bætist: en við mat á því hvort svo sé er Vinnumálastofnun m.a. heimilt að líta til viðmiðunarfjárhæða samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald sem og upplýsinga frá Hagstofu Íslands og launakannana sem gerðar hafa verið af óháðum aðilum.
     4.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „krefst sérfræðiþekkingar enda sé ekki um að ræða tímabundið verkefni“ í b-lið 1. mgr. kemur: samkvæmt lögum eða venju hér á landi er þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu; auk þess er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir að þar til bærir aðilar að mati stofnunarinnar votti um að starfið sem um ræðir sé þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu.
                  b.      Í stað orðanna „eins árs“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: tveggja ára.
                  c.      Á eftir orðunum „tvö ár í senn“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: með sömu takmörkunum og þegar leyfið er veitt í fyrsta skipti.
                  d.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir upplýsingum frá atvinnurekanda í tengslum við starf viðkomandi útlendings sem stofnunin telur nauðsynlegar til að meta hvort skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins séu uppfyllt, svo sem upplýsingum um hvort sérfræðiþekking útlendingsins hafi nýst í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna.
                  e.      5. og 6. mgr. falla brott.
     5.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðunum „eitt ár til viðbótar“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: með sömu takmörkunum og þegar leyfið er veitt í fyrsta skipti.
                  b.      Í stað orðsins „sex“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: átta.
                  c.      6. mgr. fellur brott.
                  d.      Í stað orðsins „vinnuafli“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: starfsfólki.
     6.      Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðunum „tvö ár í senn“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: með sömu takmörkunum og þegar leyfið er veitt í fyrsta skipti.
                  b.      3. mgr. fellur brott.
     7.      Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „samkvæmt lögum um útlendinga eða dvalarleyfi skv. 3. mgr. 11. gr. laga“ í a-lið 1. mgr. kemur: dvalarleyfi fyrir foreldra, dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið eða dvalarleyfi á grundvelli lögmæts tilgangs samkvæmt lögum.
                  b.      Í stað orðanna „c- og d-liðar“ í b-lið 1. mgr. kemur: b-, c- og d-liðar.
                  c.      Í stað orðanna „sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: skal eigi veitt.
                  d.      Í stað orðanna „tímabundið atvinnuleyfi um allt að eitt ár í senn“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: það með sömu takmörkunum og þegar leyfið er veitt í fyrsta skipti.
                  e.      3. og 4. mgr. falla brott.
     8.      Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðinu „mannúðarsjónarmiða“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.
                  b.      Í stað orðanna „eða óbundið atvinnuleyfi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: tímabundið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar samkvæmt lögum um útlendinga eða ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.
                  c.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hið sama á við vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem hefur dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga og um er að ræða fram­haldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir hér á landi eða endurnýjað dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem viðkomandi útlendingur hefur lokið námi hér á landi. Þá er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem hefur verið veitt dvalarleyfi fyrir íþróttafólk samkvæmt lögum um útlendinga enda sé gildistími dvalarleyfisins a.m.k. eitt ár.
                  d.      Í stað orðanna „a-, b- og e-liðar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: a- og e-liðar.
                  e.      Orðin „um dvalarleyfi fyrir aðstandendur“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
                  f.      Í stað orðanna „aðstandendur eða búsetuleyfis“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: börn eða ótímabundins dvalarleyfis.
                  g.      Orðin „um dvalarleyfi fyrir aðstandendur“ í 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
                  h.      Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: samkvæmt ákvæði þessu.
                  i.      Orðin „en eins árs en þó aldrei til lengri tíma“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
                  j.      Orðin „um allt að eitt ár í senn“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
                  k.      Í stað orðanna „þarf skilyrði d-liðar“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: þurfa skilyrði a-, d- og e-liðar.
                  l.      4., 5. og 6. mgr. falla brott.
                  m.      Í stað orðanna „Börn“ og „aðstandendur eða búsetuleyfis“ í 7. mgr. kemur: Börnum; og: börn eða ótímabundins dvalarleyfis.
     9.      Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
                  a.      A-liður 1. mgr. orðast svo: skilyrði b-, c- og d-liðar 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt.
                  b.      Á eftir a-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi: starfshlutfall útlendings sé ekki meira en 40%.
                  c.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 2. og 3. mgr., svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir b-lið 1. mgr. er heimilt að veita atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu þegar starfshlutfall útlendings er meira en 40% þegar eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
                      a.      starfið fer fram í námsleyfi samkvæmt námsskrá viðkomandi skóla,
                      b.      útlendingi hafi áður verið veitt endurnýjað dvalarleyfi hér á landi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem hann hefur lokið háskólanámi hérlendis og dvelur hér í atvinnuleit á grundvelli sérþekkingar sinnar,
                      c.      um sé að ræða nám sem fram fer á vinnustað.
                      Þegar um er að ræða nám sem fram fer á vinnustað skal liggja fyrir staðfesting frá hlutaðeigandi menntastofnun, íslenskri eða erlendri eftir því sem við á, um að nám viðkomandi útlendings á vinnustaðnum í nánar tiltekinn tíma sé nauðsynlegur hluti af námi hans hjá stofnuninni.
                  d.      Í stað orðsins „sex“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tólf.
                  e.      Í stað orðanna „samkvæmt lögum um útlendinga“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartími skemmri en gildistími dvalarleyfis.
                  f.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim tilvikum þegar um er að ræða nám sem fram fer á vinnustað skal atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu eigi veitt til lengri tíma en sem nemur þeim tíma sem hlutaðeigandi menntastofnun, íslensk eða erlend eftir því sem við á, hefur tilgreint í staðfestingu sinni skv. 3. mgr.
                  g.      Í stað orðanna „og skilyrðum 1. mgr. er fullnægt“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: með sömu takmörkunum og þegar leyfið er veitt í fyrsta skipti enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt.
                  h.      4. og 5. mgr. falla brott.
     10.      Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
                  a.      1. mgr. orðast svo:
                      Heimilt er að veita útlendingi, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum atvinnurekanda sem ekki hefur starfsstöð hér á landi, tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf, að uppfylltum skilyrðum c–e-liðar 1. mgr. 7. gr.
                  b.      2. mgr. orðast svo:
                      Þjónustusamningur eða samstarfssamningur um kennslu-, fræði- eða vísindastörf, eftir því sem við á, milli atvinnurekanda sem hefur starfsstöð hér á landi og atvinnurekanda sem ekki hefur starfsstöð hér á landi skal liggja fyrir. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða þjónustusamning skal m.a. koma fram í samningi að skilyrði við­skipta­nna sé að starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda annist þjónustuna hér á landi. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða samstarfssamning skal m.a. koma fram í samningi að um sé að ræða starf sem starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda mun gegna hér á landi á grundvelli samstarfs milli hins íslenska atvinnurekanda og erlenda atvinnurekandans í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf og skal þá viðkomandi starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda hafa lokið háskólanámi sem er nauðsynlegt til að gegna því starfi sem um ræðir.
                  c.      Í stað orðsins „þjónustusamnings“ í 3. mgr. kemur: samnings.
                  d.      4. og 5. mgr. falla brott.
                  e.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf.
     11.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 5. mgr.
     12.      17. gr. laganna fellur brott.
     13.      Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „kveðið sé á um annað í lögum þessum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fyrir liggi ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingnum sé heimilt að dvelja hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga.
                  b.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi skal skila til Útlendingastofnunar sem áframsendir hana svo fljótt sem unnt er til Vinnumálastofnunar.
                  c.      Í stað orðanna „og 2. mgr. 9. gr.“ í 2. mgr. kemur: 2. mgr. 9. gr. og 15. gr.
                  d.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í undantekningartilvikum er Vinnumálastofnun heimilt að taka til meðferðar aðrar umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi en að framan greinir enda sé þá um sérstakar aðstæður að ræða.
                  e.      Á eftir 1. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn skal skila til Útlendingastofnunar sem áframsendir hana svo fljótt sem unnt er til Vinnumálastofnunar.
                  f.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                      Þegar atvinnurekandi sækir um tímabundið atvinnuleyfi fyrir útlending skv. 8. gr. getur hann óskað eftir að Vinnumálastofnun taki ákvörðun um heimild útlendingsins til að hefja störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda á afgreiðslutíma umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði er að Vinnumálastofnun hafi veitt tímabundið atvinnuleyfi með fyrirvara um veitingu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar samkvæmt lögum um útlendinga og að atvinnurekandinn ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendingsins komi til þess að honum verði synjað um dvalarleyfið.
                  g.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Útlendingastofnun.
                  h.      5. mgr. fellur brott.
     14.      Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 5. mgr.
                  b.      Í stað orðanna „skilríkjum um tímabundið atvinnuleyfi“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: útgefnum tímabundnum atvinnuleyfum.
                  c.      4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
                  d.      Í stað orðanna „skilríki“ og „þau“ í 2. mgr. kemur: útgefið atvinnuleyfi; og: það.
     15.      Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „íslenskra ríkisborgara“ í c-lið kemur: og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara sem veitt hefur verið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar samkvæmt lögum um útlendinga.
                  b.      Í stað orðanna „dvalarleyfi sem flóttamenn“ í e-lið kemur: dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar.
                  c.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Útlendingar sem hafa fengið ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.
     16.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 23. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „fjórar vikur“ í 1. málsl. kemur: 90 daga.
                  b.      A-liður orðast svo: Vísinda- og fræðimenn, þ.m.t. doktors- og starfsnemar, í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf hér á landi eða sambærilega starfsemi, og skal þá viðkomandi útlendingur hafa lokið háskólanámi í tengslum við það starf sem um ræðir.
                  c.      2. málsl. b-liðar fellur brott.
                  d.      Orðin „fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis“ í d-lið falla brott.
     17.      Á eftir orðunum „er skilyrt við“ í 2. málsl. 24. gr. laganna kemur: atvinnurekandi hefur ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa viðkomandi útlendings.
     18.      Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðinu „skattyfirvalda“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: kærunefndar útlendingamála, félagsþjónustu sveitarfélaga.
                  b.      Í stað orðsins „heimilt“ í 3. mgr. kemur: skylt.
     19.      Í stað orðanna „17. gr.“ í 28. gr. laganna kemur: 27. gr.
     20.      Við 1. mgr. 32. gr. laganna bætist: stofnuninni.
     21.      Í stað orðanna „24. gr. laganna“ í 33. gr. laganna kemur: 34. gr.
     22.      3. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna fellur brott.
     23.      Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðinu „fulltrúar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: ráðherra, þess ráðherra sem fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um útlendinga.
                  b.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: einn frá hverjum aðila.
                  c.      Við 2. mgr. bætast þrír nýir stafliðir, c–e-liður, svohljóðandi:
                      c.      þegar fyrirhugaðar eru breytingar á lögum þessum eða lögum um útlendinga,
                      d.      í tengslum við vinnu að stefnumótun íslenskra stjórnvalda hvað varðar möguleika ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins til að dvelja og starfa hér á landi,
                      e.      ársfjórðungslega til að fara yfir stöðuna hvað varðar þátttöku ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins á innlendum vinnumarkaði.
     24.      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu á gildistíma þeirra. Heimilt er að framlengja tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara að sömu skilyrðum uppfylltum og giltu um veitingu upphaflegu leyfanna.
                      Óbundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.
                      Þrátt fyrir 2. mgr. fellur óbundið atvinnuleyfi úr gildi þegar útlendingur hefur dvalist erlendis samfellt lengur en átján mánuði. Vinnumálastofnun tekur ákvörðun um að fella leyfi úr gildi. Vinnumálastofnun er þó heimilt að fenginni umsókn að veita undanþágu frá tímamörkum 1. málsl. þannig að útlendingur haldi óbundnu atvinnuleyfi þrátt fyrir lengri dvöl erlendis.

123. gr.
Breyting á barnaverndarlögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum: Í stað orðsins „hæli“ í 6. mgr. 15. gr. og e-lið 1. mgr. 65. gr. laganna kemur: alþjóðleg vernd; og: alþjóðlega vernd.

124. gr.
Breyting á lögum um sjúkratryggingar.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum: Í stað orðsins „hæli“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: alþjóðlega vernd.

125. gr.
Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum: Í stað orðanna „búsetuleyfi útgefið“ í 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: útgefið ótímabundið dvalarleyfi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum innanríkisráðuneytisins og þverpólitískrar þingmannanefndar um málefni útlendinga og felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Frumvarp innanríkisráðherra til nýrra laga um útlendinga var lagt fram á Alþingi í janúar 2013 en hlaut ekki afgreiðslu (541. mál 141. löggjafarþings). Það frumvarp var samið í kjölfar skýrslu nefndar sem þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, skipaði um málefni útlendinga utan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) frá júní 2012 og fól í sér heildarendurskoðun á lögum um útlendinga. Vorið 2014 lagði þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, fram nokkrar breytingar á lögum um útlendinga sem byggðust að hluta á því frumvarpi sem var lagt fram í byrjun árs 2013, með nokkrum breytingum. Þær breytingar, sem samþykktar voru á Alþingi 2014, vörðuðu fyrst og fremst málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd, komið var á fót sjálfstæðri kærunefnd útlendingamála auk þess sem gerðar voru breytingar á EES- kafla laganna.
    Sama vor skipaði þáverandi innanríkisráðherra þverpólitíska þingmannanefnd til að endurskoða lög um útlendinga og um leið skoða hvort ástæða væri til frekari aðgerða. Einnig skyldi skoða hvernig móta mætti innflytjendastefnu og löggjöf sem tæki mið af þörfum íslensks samfélags og tryggi um leið mannúð, skilvirkni og farsæla móttöku þeirra sem hingað leita. Nefndina leiddi Óttarr Proppé alþingismaður og auk hans sátu í nefndinni alþingismennirnir Svandís Svavarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Birgitta Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir. Auk þess starfaði með nefndinni fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðherra. Þingmannanefndin hafði það að leiðarljósi að bæta enn frekar íslenska löggjöf um útlendinga í samráði við helstu sérfræðinga á sviðinu, háskólasamfélagið og sjálfa notendur kerfisins. Starfsmenn nefndarinnar voru Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum útlendinga hjá innanríkisráðuneytinu, og Íris Björg Kristjánsdóttir, mannfræðingur og sérfræðingur í málefnum innflytjenda.
    Markmiðið með skipan nefndarinnar var að stuðla að samstarfi milli þingmanna, embættismanna og fræðimanna og stuðla þar með að ábyrgum skrefum í flóknum málaflokki þar sem stefnumótun er unnin að vel ígrunduðu máli með hliðsjón af þverfaglegum rannsóknum. Fjölmargir aðilar, stofnanir, hagsmunasamtök og mannréttindasamtök, komu að undirbúningi frumvarpsins auk þess sem góð samvinna hefur verið við starfsmenn Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins.
    Veturinn 2014–2015 voru haldnir nokkrir samráðsfundir með hagsmunaaðilum nokkurra málaflokka. Má þar helst nefna fulltrúa atvinnulífs og vinnumarkaðar, hagsmunaaðila mennta- og vísindasamfélagsins, helstu sérfræðinga í málefnum barna og fjölskyldna og fulltrúa lögreglunnar, auk þess sem leitað hefur verið ráðgjafar fjölmargra sérfræðinga í einstökum málum sem hafa komið með gagnlegar athugasemdir og ábendingar á tímabilinu. Þá hafa starfsmenn þingmannanefndarinnar átt samstarf við fjölmarga aðila innan háskólasamfélagsins, prófessora, kennara sem og nemendur sem hafa sérhæft sig í rannsóknum sem tengjast lögum um útlendinga á einhvern hátt, auk þess sem nokkurt rannsóknarsamstarf hefur átt sér stað út fyrir landsteinana, þá einna helst við Noreg.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Erlendir ríkisborgarar hafa óskað eftir því í auknum mæli á undanförnum áratugum að setjast að á Íslandi og hefur það verið í takt við aukna fólksflutninga í heiminum. Nágrannaríkin, þar á meðal Noregur, hafa brugðist við þessari þróun og breytt löggjöf sinni, m.a. til að skýra ýmsa óvissuþætti og einfalda umsóknar- og afgreiðsluferli, útlendingum, samfélaginu og stjórnsýslunni til hagsbóta. Endurskoðun á lögum um útlendinga er aðkallandi hér á landi þar sem gott regluverk er ein meginforsenda þess að sem best sátt ríki um málaflokkinn. Ný löggjöf þarf að taka mið af og samræmast þörfum íslensks samfélags með tilliti til hagvaxtar, aukinnar kröfu um samkeppnishæfni landsins og leggja aukna áherslu á mannúð og réttindavernd þeirra sem hingað koma.
    Lög um málefni útlendinga voru fyrst sett hér á landi árið 1920 í fram­haldi af ályktun Alþingis, sem samþykkt var 13. ágúst 1919, þar sem skorað var á landsstjórnina að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frumvarp til laga um „heimild utanríkismanna til þess að ná landsvist á landi hér … og um það, hvenær þeim verði úr landi vísað, og hvaða ráðstafanir stjórnvöld skuli gera í því skyni“. Í kjölfarið voru síðan samþykkt á Alþingi lög um eftirlit með útlendingum, nr. 10 18. maí 1920. Fram að því var hins vegar að finna einstök ákvæði í löggjöfinni sem vörðuðu útlendinga. Í lögunum var m.a. kveðið á um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér og heimild stjórnvalda til að vísa útlendingum úr landi.
    Ný lög um eftirlit með útlendingum, nr. 59 frá 23. júní 1936, leystu af hólmi lögin frá 1920. Nýju lögin fólu ekki í sér verulega breytingu að því frátöldu að þar var að finna ítarlegri ákvæði um eftirlit með útlendingum.
    Árið 1965 fór að nýju fram heildarendurskoðun með lögum nr. 45 12. maí 1965. Sú endurskoðun miðaði fyrst og fremst að því að gera nauðsynlegar breytingar til að Ísland gæti orðið aðili að samningi Norðurlandanna frá 12. júní 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna. Jafnframt voru lögin endurskoðuð að öðru leyti og kveðið nánar á um ýmis atriði, m.a. með sérstöku ákvæði um réttarstöðu flóttamanna, án þess þó að verulega væri hnikað frá ákvæðum fyrri laga.
    Lögum nr. 45/1965 var breytt árið 1993 vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, árið 1999 vegna aðskilnaðar Útlendingaeftirlits frá lögreglu og árið 2000 þegar Ísland hóf þátttöku sína í Schengen-samstarfinu. Síðasta breyting á þeim lögum var með lögum nr. 7/2001 til þess að innleiða Dyflinnarsamninginn um ábyrgð aðildarríkja á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd.
    Með setningu heildarlaga um útlendinga, nr. 96/2002, var síðan horfið frá því að lögin skyldu einvörðungu fjalla um eftirlit með útlendingum. Lögin voru mun ítarlegri en áður – innihéldu 59 greinar í stað 22 – og tóku mið af breyttum viðhorfum í samfélaginu gagnvart útlendingum og mannréttindum. Tekið var ítarlegar á málum er vörðuðu alþjóðlega vernd en áður hafði þekkst ásamt því að innleiddir voru nýir dvalarleyfaflokkar, t.d. dvalarleyfi af mannúðarástæðum og dvalarleyfi vegna aðstandenda. Þar að auki var Útlendingastofnun fest í sessi og henni fengið núverandi nafn en áður kallaðist hún Útlendingaeftirlit. Lögin tóku gildi 1. janúar 2003. Lögunum hefur nokkrum sinnum verið breytt. Þau tóku minni háttar breytingum vegna breytingar á ráðuneytaskipan og vegna fjölgunar í þeim hópi fólks sem fellur undir frjálsan fólksflutning vegna EES og EFTA. Stærstu efnislegu breytingar á lögunum felast í lögum nr. 20/2004, lögum nr. 86/2008, lögum nr. 115/2010, lögum nr. 26/2014 og nr. 64/2014.
    Örar breytingar í málaflokknum hafa kallað á lagabreytingar og um hríð hefur legið fyrir að efna þyrfti til heildstæðrar endurskoðunar á lögum um útlendinga. Brýnt hefur þótt að skýra og breyta sumum ákvæðum laganna, m.a. til að styrkja málsmeðferð og skilvirkni stjórnsýslu og skerpa á ákvæðum um sameiningu fjölskyldu og réttindum barna og samræma ákvæði laganna við tengd ákvæði er varða lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
    Ólíkar ástæður geta búið að baki því að fólk flytur milli landa. Sumir neyðast til að yfirgefa heimkynni sín vegna ofsókna eða stríðsátaka, aðrir fara á milli landa til náms, atvinnu, í leit að betra lífi eða til að sameinast ástvinum sínum og ættingjum. Mikilvægt er að gera skýran greinarmun á flóttafólki annars vegar og fólki sem hefur aðrar ástæður til að vilja setjast að á Íslandi hins vegar, svo sem vegna atvinnu, náms eða fjölskyldutengsla. Hvað fyrrnefnda hópinn varðar er Ísland bundið af alþjóðasáttmálum um flóttafólk og mannréttindi, svo sem nánar er vikið að hér að aftan. Í tilfelli síðarnefnda hópsins er Ísland einnig bundið af alþjóðlegu samstarfi sem hefur áhrif á heimild fólks til að koma hingað til lands og eftir atvikum setjast að. Er þar einkum vísað til Norðurlandasamstarfs sem á sér áratugahefð, til samningsins um Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og samnings EFTA við Evrópusambandið (EES-samningurinn), sem kveður á um eitt atvinnusvæði 30 Evrópuríkja. Ríkisborgarar EFTA og EES-ríkjanna þurfa því ekki sérstakt dvalarleyfi á Íslandi en þeim er gert að skrá sig hér til heimilis ætli þeir að dveljast lengur en í sex mánuði. Um réttindi og skyldur þessa hóps er fjallað í sérstökum kafla í frumvarpi þessu. Útlendingar utan EFTA og EES þurfa almennt dvalarleyfi til að geta dvalist á Íslandi og eru í frumvarpi þessu gerðar veigamiklar breytingar á flokkum dvalarleyfa.
    Þá eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, til samræmis við þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á gildandi rétti með nýjum lögum um útlendinga sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.

III. Meginefni frumvarpsins.
1. Helstu nýmæli.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Sérstaklega er tekið mið af reynslu við framkvæmd laganna til að styrkja lagastoð fyrir henni og að sníða af vankanta. Jafnframt er leitast við að tryggja að efnisatriði frumvarpsins séu aðgengileg fyrir þá sem byggja rétt sinn á þeim.
    Helstu nýmæli frumvarps þessa eru eftirfarandi:
     *      Uppsetningu kafla og ákvæða er breytt með það að markmiði að gera lögin aðgengilegri. Þá eru ákvæði laganna sett fram á einfaldari hátt og með orðskýringum.
     *      Hlutverk stjórnvalda sem tengjast málaflokknum eru skilgreind.
     *      Stuðlað er að samræmingu á milli laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga.
     *      Dvalarleyfaflokkum er breytt og skilyrði dvalarleyfa einfölduð þar sem t.d. er lögð áhersla á að koma til móts við aðstæður atvinnulífsins, vinnumarkaðarins og háskóla- og vísindasamfélagsins.
     *      Heimild til að sækja um dvalarleyfi þrátt fyrir að einstaklingur sé staddur á landinu er rýmkuð þegar um atvinnutengdan tilgang er að ræða.
     *      Lagðar eru til ýmsar breytingar á réttindum og réttindasöfnun sem fylgja dvalarleyfum.
     *      Sérstakur kafli er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
     *      Öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld á grundvelli þessara laga fari í gegnum eina stofnun, Útlendingastofnun. Sama gildir um kærumál sem munu öll berast til kærunefndar útlendingamála.
     *      Áhersla á réttindi barna og umbætur, m.a. með sértækum ákvæðum um réttindi barna í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, skilgreiningu á því hvað er barni fyrir bestu, rétti barna til að umgangast foreldra sína, reynt er að tryggja börnum vernd, m.a. með skipun hagsmunagæslumanns, auk þess sem reglur um aldursgreiningu og vegna fylgdarlausra barna eru endurskoðaðar.
     *      Kaflar um alþjóðlega vernd hafa verið endurskoðaðir og uppfærðir í samræmi við alþjóðlega, evrópska og norræna þróun og aukna kröfu um mannúð og skilvirkni í málsmeðferð og þjónustu.
     *      Breytingar eru lagðar til á kærunefnd útlendingamála þannig að tryggja megi aukna skilvirkni í störfum nefndarinnar og stytta þannig til muna málsmeðferðartíma.
     *      Lag er til að framkvæma beri ákvarðanir Útlendingastofnunar eins fljótt og auðið er þegar um synjun er að ræða í málum umsækjenda sem koma frá öruggum ríkjum og umsóknir þar af leiðandi taldar tilhæfulausar með vísan til flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
     *      Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar veitt til þriggja ára í stað fjögurra.
     *      Heimild fyrir ráðherra að kveða í reglugerð á um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar flóttamanna.
     *      Þegar um er að ræða fjölskyldumyndun sem verður til eftir að flóttamanni er veitt vernd hér á landi eiga við almenn skilyrði til fjölskyldusameiningar sem fela í sér takmarkaðri rétt en í núgildandi framkvæmd.
     *      Nánari leiðbeiningar um sjónarmið sem koma til álita vegna umsókna um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisaðstæðna.
     *      Dvalarleyfi sem fylgdarlausu barni er veitt á grundvelli verndar gildi þangað til barnið nær lögræðisaldri og sé þá þörfin endurmetin.
     *      Ýmsar breytingar eiga að stuðla að því að íslensk stjórnvöld uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar með því að koma ákvæðum tiltekinna samninga til framkvæmda á Íslandi.
     *      Ákvæði um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og eftir atvikum fyrir útlendinga í ólögmætri dvöl eða mansalsfórnarlömb sem stuðla á að aukinni skilvirkni og öryggi og tryggja hagsmuni og mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem og annarra.
     *      Takmarkað er hvenær refsa má umsækjendum um alþjóðlega vernd vegna ólöglegrar komu og/eða falsaðra skilríkja.
     *      Ákvæði um ríkisfangsleysi sem tryggja á sjálfstæðan rétt ríkisfangslausra einstaklinga til alþjóðlegrar verndar. Það er liður í að innleiða samninga um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samning um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961.
     *      Helstu íþyngjandi úrræði sem stjórnvöld geta beitt til að tryggja framkvæmd og markmið laganna hafa verið sett í einn kafla og ákvæði eru gerð skýrari til þess að tryggja aukið gegnsæi og réttaröryggi.
    Hér á eftir verður fjallað sérstaklega um helstu nýmæli frumvarpsins en umfjöllun um þau er enn fremur að finna í athugasemdum við hvern kafla og einstakar greinar eftir því sem við á.

a. Aukin þjónusta og skilvirkni.
    Í málaflokki sem þessum er mikilvægt að veitt sé fullnægjandi þjónusta og að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru séu nýttir sem best. Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar sem stuðla að aukinni þjónustu við útlendinga, sérstaklega umsækjendur um alþjóðlega vernd, erlenda sérfræðinga á vinnumarkaði, námsmenn, rannsakendur og fleiri. Þær breytingar eiga að tryggja aukna skilvirkni og gæði innan stjórnsýslu, hagræðingu við nýtingu fjármagns og, ef vel reynist, styðja við íslenskan vinnumarkað og auka samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu. Til þess að slík markmið geti náðst þurfa þau stjórnvöld er fara með þessi málefni að eiga áfram í virku samstarfi innbyrðis sem og við hlutaðeigandi aðila, auk þess sem ákveðin endurskoðun og sveigjanleiki þarf ávallt að vera til staðar svo lagaumgjörðin vegna erlendra ríkisborgara sé í takti við lýðfræðilega þróun, breytingar og þróun í fólksflutningum í heiminum, efnahagslegar framfarir, stöðu og þarfir vinnumarkaðar, þjóðaröryggi og aðstæður í alþjóðasamfélaginu.

b. Dvalarleyfaflokkar og breytingar á þeim.
    Í frumvarpinu er leitast við að gera skilyrði dvalarleyfa skýrari og lögð áhersla á að það dvalarleyfi, sem útlendingur sækir um, sé í samræmi við tilgang dvalar hans hér á landi. Með þessu er ætlunin að reyna að leysa ýmis álitamál sem komið hafa upp við framkvæmd gildandi laga á undanförnum árum og leitast við að takmarka og skýra matskennd ákvæði eins og kostur er þó svo að eftirláta þurfi stjórnvöldum eitthvert svigrúm við mat þar sem aðstæður krefjast. Ein höfuðaðgreining milli dvalarleyfaflokka fyrir utan hin ýmsu skilyrði er hvort leyfin mynda rétt til varanlegrar búsetu eða ekki. Þau dvalarleyfi, sem fela í sér slíka réttindasöfnun, gefa útlendingi kost á að fá ótímabundið dvalarleyfi til dvalar að fjórum árum liðnum og að öðrum skilyrðum uppfylltum. Nýmæli í frumvarpinu er að réttindasöfnun til ótímabundins dvalarleyfis fylgir útlendingi en ekki dvalarleyfi. Þannig heldur útlendingur áfram að vinna sér inn rétt til ótímabundins dvalarleyfis þótt hann skipti um grundvöll dvalar, að því gefnu að bæði leyfi feli í sér rétt til ótímabundins dvalarleyfis. Þá er gert ráð fyrir að í undantekningartilvikum geti útlendingur byggt rétt til ótímabundins dvalarleyfis á grundvelli dvalarleyfis sem almennt veitir ekki slíkan rétt. Má hér nefna sem dæmi þegar útlendingur sem verið hefur á námsmannaleyfi fær nýtt leyfi sem veitir rétt til ótímabundins dvalarleyfis, þá getur sá tími sem hann dvaldist á fyrra leyfi talist til réttindasöfnunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með þessari breytingu er verið að bregðast við gagnrýni á núgildandi lög, m.a. hvað varðar þá framkvæmd að réttindasöfnun tapist þegar fólk fer úr einu leyfi á annað og geti þar með ekki náð að afla sér réttinda á landinu þrátt fyrir áralanga búsetu.

c. Breytingar á málsmeðferð um alþjóðlega vernd.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur í öðrum Evrópuríkjum, einkum helstu tilskipunum sem í gildi eru innan ESB um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd. Um ítarlegar reglur er að ræða í þessum tilskipunum og miða þær að lágmarkssamræmingu innan Evrópusambandsins en heimila þó jafnframt betri vernd í einstökum ríkjum. Við gerð frumvarpsins hefur verið tekið mið af fyrrgreindum reglum og er eftir atvikum gerð frekari grein fyrir áhrifum þeirra þar sem við á í athugasemdum með hverri grein.
    Í samræmi við það sem lagt var til með breytingum á lögum um útlendinga árið 2010 í því skyni að komast hjá ósamræmi og óvissu um það hvernig eigi að framfylgja lögum. Þótt íslenska ríkið sé ekki skuldbundið til þess að innleiða umræddar tilskipanir eru, líkt og sagði í athugasemdum við frumvarp breytingalaganna árið 2010, íslenskar og evrópskar reglur samofnar vegna samvinnu Íslands og Noregs við Evrópusambandið. Er það vegna samstarfs sem byggist á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 frá 26. júní 2013 samkvæmt nýjustu útgáfu, um að koma á viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands leggur fram í einu aðildarríkjanna (hér eftir Dyflinnarsamstarfið).
    Við málsmeðferð í málum er varða alþjóðlega vernd skipta helst máli tilskipanir 2013/33/ESB um lágmarkskröfur varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd (hér eftir tilskipun 2013/33/ESB um móttöku), 2013/32/ESB frá 26. júní 2013 um lágmarkskröfur til málsmeðferðar í aðildarríkjum við veitingu og afturköllun á stöðu flóttamanns (hér eftir tilskipun 2013/32/ESB um málsmeðferð) og 2011/95/ESB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnast alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar.
    Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að íþyngjandi úrræðum skuli aðeins beitt ef brýn nauðsyn krefur. Lagðar eru til breytingar á kafla um þvingunarúrræði þar sem greint er á milli gæsluvarðhalds og annarra úrræða og sett nánari skilyrði um það hvenær heimilt er að beita slíkum úrræðum.
    Einnig eru lagðar til breytingar sem eiga að stuðla að skilvirkari stjórnsýsluframkvæmd en stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir að meðferð mála á þessu sviði taki of langan tíma og að grípa þurfi til aðgerða svo stytta megi biðtíma umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir úrlausn mála sinna.
    Umsækjendur um alþjóðlega vernd mega í ljósi stöðu sinnar almennt teljast vera í viðkvæmri stöðu en sumir eru í erfiðari stöðu en aðrir. Hingað til lands geta komið einstaklingar sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna. Viðkomandi einstaklingar geta haft sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki með fullu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Í frumvarpi þessu er þess krafist að Útlendingastofnun geri einstaklingsbundið mat með hjálp viðeigandi sérfræðinga á því hvort viðkomandi umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu eins ­fljótt og kostur er eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram og veiti honum viðeigandi aðstoð vegna þeirra sérþarfa sem hann kann að hafa. Einnig er lagt til að fram fari mat á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd geti verið hættulegir sjálfum sér eða öðrum. Mikilvægt er að matið fari fram eins fljótt og kostur er en má hins vegar ekki vera skilyrt við komu til landsins heldur verður að vera möguleiki á endurmati síðar í umsóknarferlinu. Í frumvarpinu er þannig lögð áhersla á að skilgreina og skipuleggja það ferli sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fara í gegnum allt frá því að umsókn er lögð fram og þar til niðurstaða er fengin í mál þeirra með það að markmiði að tryggja skilvirka og mannúðlega málsmeðferð þar sem tekið er tillit til mögulegra sérþarfa og persónulegra aðstæðna umsækjenda. Jafnframt er þeim ætlað að tryggja öryggi þeirra sem hingað leita sem og annarra.

d. Móttökumiðstöð.
    Í núgildandi lög vantar ákvæði um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hefur það að markmiði að greina sem fyrst í ferlinu þá sem geta talist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og tryggja að þeir fái viðeigandi málsmeðferð, aðstoð og þjónustu og að upplýst sé um atriði sem haft geta þýðingu við ákvörðun í máli þeirra.
    Þrátt fyrir að vilji sé hjá stjórnvöldum og stofnunum sem að málaflokknum koma til þess að tryggja réttindi umsækjenda í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem og öryggi þeirra og annarra er ekki fyrir hendi sérstakt greiningarferli eða kerfisbundin upplýsingasöfnun til að greina umsækjendur um alþjóðlega vernd.
    Framangreint má ráða af athugasemdum sem komið hafa fram bæði hjá nefnd um málefni útlendinga utan EES og í samráðsferli í tengslum við undirbúning frumvarps þessa. Ákvæði sem veita umsækjendum í sérstaklega viðkvæmri stöðu rétt eða aðstoð umfram aðra verða gagnslítil séu ekki tæki til staðar til þess að greina hverjir falla í þann flokk. Greiningin er ekki aðeins mikilvæg fyrir umsækjandann, svo sem að hann fái notið viðeigandi heilbrigðisþjónustu, heldur einnig til að stjórnvöld geti uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Það getur reynst mikilvægt fyrir mat á því hvort viðkomandi umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist flóttamaður að ljósi sé varpað á fortíð hans og líkamlegt og andlegt ástand og eykur það líkur á því að rétt ákvörðun sé tekin í málinu. Þess vegna er mikilvægt að tryggja þessum hópi réttindi og hjálp í samræmi við sérþarfir hans og móta á sama tíma feril sem tryggir að það sé í raun og veru mögulegt. Þetta hefði ekki einungis í för með sér mannúðlegri meðferð fyrir umsækjendur heldur má einnig ætla að umtalsvert hagræði geti af því hlotist fyrir stjórnvöld.
    Lagt er til að sett verði á laggirnar móttökumiðstöð þar sem leitast verði við að greina þá sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og sérþarfir þeirra. Í þessari miðstöð þyrfti að fara fram samvinna ýmissa aðila, Útlendingastofnunar, lögreglu, félagasamtaka, barnaverndaryfirvalda og félagsþjónustu, heilbrigðisyfirvalda og annarra sem þurfa að koma að málum umsækjenda um alþjóðlega vernd svo að vel sé. Hugsunin er að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti fengið nauðsynlega fagþjónustu á einum stað, þ.m.t. læknisþjónustu, en hún kann jafnframt að vera áríðandi til að renna stoðum undir frásögn umsækjanda, svo sem hafi viðkomandi sætt pyndingum eða vanvirðandi meðferð. Að sama skapi þarf að veita stjórnvöldum svigrúm til að geta gripið til ráðstafana ef rökstuddur grunur er um að ógn stafi af umsækjanda um alþjóðlega vernd og gert er ráð fyrir að slíkt mat fari fram í miðstöðinni. Miðstöð þessi er ætluð til hagsbóta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og á að tryggja að mannréttinda þeirra sé gætt. Hugmyndin er sú að miðstöðin sé fyrst og fremst til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd en þó væri æskilegt að þar væri einnig unnt að taka á móti útlendingum í ólögmætri dvöl og hugsanlegum fórnarlömbum mansals. Í frumvarpinu er kveðið á um reglugerðarheimild til handa ráðherra til að útfæra nánar hlutverk og starfsemi móttökumiðstöðvarinnar.

e. Kærunefnd útlendingamála.
    Með lögum nr. 64/2014, um breyting á lögum nr. 96/2002, um útlendinga, var sjálfstæðri kærunefnd í útlendingamálum falin endurskoðun ákvarðana Útlendingastofnunar í stað ráðuneytis. Slíkar breytingar á stjórnsýslu höfðu verið til umræðu um nokkurt skeið hér á landi en það fyrirkomulag að innanríkisráðuneytið endurskoði ákvarðanir Útlendingastofnunar hafði verið gagnrýnt á þeim forsendum að ráðuneytið geti ekki talist óháður og óhlutdrægur úrskurðaraðili í málum þar sem undirstofnun þess tekur hina kæranlegu ákvörðun. Gagnrýnin kom frá umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norður-Evrópu bæði árin 2009 og 2012 og ítrekað af hálfu Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI), síðast í skýrslu nefndarinnar eftir heimsókn hennar til Íslands árið 2011. Þá voru svipuð sjónarmið sett fram af hálfu Rauða krossins á Íslandi árin 2009, 2010 og 2011.
    Árið 2010 urðu breytingar á lögum um útlendinga í samræmi við skýrslu nefndar sem þáverandi dómsmálaráðherra skipaði til að gera tillögur að úrbótum í hælismálum. Í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar kom fram að ekki bæri að skipa sérstaka úrskurðarnefnd á kærustigi, m.a. vegna þess að með þeirri breytingu yrðu tengsl ráðherra og viðkomandi stjórnvalds rofin. Bæri að líta svo á að sjálfstæðir úrskurðaraðilar innan stjórnsýslunnar heyrðu til undantekninga enda væri meginregla íslensks réttar að ráðherrar bæru ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar. Þá benti nefndin einnig á að vegna hæfisreglna, sem leiddi af stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, gæti ráðherra ekki haft afskipti af meðferð eða afgreiðslu einstakra mála án þess að ráðherra og undirmenn hans yrðu vanhæfir. Þegar litið væri til alls þessa, sem og þeirra röksemda hversu fá mál væru kærð til ráðuneytisins og til endurskoðunarvalds dómstóla, taldi nefndin að „ekki [væri] rétt að leggja til að settur [væri] á fót sérstakur og sjálfstæður úrskurðaraðili sem einvörðungu [hefði] til umfjöllunar kærur vegna ákvarðana Útlendingastofnunar í hælismálum“. Vegna þessa var ekki kveðið á um sjálfstæða úrskurðarnefnd við lagabreytingar á grundvelli skýrslunnar um meðferð hælismála, sbr. lög nr. 115/2010. Allsherjarnefnd tók undir þessa nálgun í nefndaráliti en þar sagði að ef sett yrði á fót sjálfstæð úrskurðarnefnd „væri ráðherraábyrgð afnumin í þessum málum, sem ekki [væri] almennt til bóta, og hætt [væri] við að hún reyndist kostnaðarsöm“. Nefndin taldi jafnframt rétt að láta reyna á úrbætur sem fólust í lagabreytingunum áður en komið yrði á fót sérstakri úrskurðarstofnun af þessu tagi.
    Árið 2012 kom út skýrsla nefndar um málefni útlendinga utan EES sem skipuð var fulltrúum innanríkis-, utanríkis- og velferðarráðuneyta. Nefndinni var ætlað að móta heildstæða stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum útlendinga utan EES og m.a. líta til meðferðar mála í heild. Á grundvelli tillagna nefndarinnar lagði þáverandi innanríkisráðherra fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt var til að sett yrði á laggirnar sjálfstæð kærunefnd. Frumvarpið varð ekki útrætt í meðförum þingsins. Nokkur samfélagsleg umræða hefur verið á síðastliðnum árum um málefni umsækjenda um alþjóðleg vernd og meðferð umsókna um alþjóðlega vernd í stjórnkerfinu. Sérstaklega hefur verið fjallað um langan málsmeðferðartíma. Innanríkisráðuneytið réðst í átak til að stytta málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd vorið 2013 svo sem áður greinir. Í tengslum við átakið hefur verið unnið að tillögum til úrbóta á lagaum­hverfi og verklagi í málaflokknum. Í því skyni var m.a. leitað fanga hjá Norðmönnum enda byggjast gildandi íslensk lög um útlendinga að meginstefnu til á eldri lögum um útlendinga í Noregi. Ljóst þótti að sjálfstæð kærunefnd sem tæki til meðferðar kærur á úrskurðum Útlendingastofnunar væri heillaspor í málaflokknum. Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk hafa öll sjálfstæða úrskurðarnefnd eða úrskurðardómstól vegna mála er varða útlendinga og var við undirbúning frumvarps þess er varð að lögum nr. 64/2014 litið til fyrirkomulags annars staðar á Norðurlöndum.
    Í frumvarpi þessu eru ákvæði um kærunefnd að mestu leyti samhljóða frumvarpi því er varð að lögum nr. 64/2014. Þó eru lagðar til nokkrar breytingar, m.a. um fjölgun nefndarmanna við málsmeðferð nefndarinnar, t.d. til þess að gera nefndinni kleift að starfa í deildum. Meginefni breytinga þessara er í fyrsta lagi að auka skilvirkni og gæði málsmeðferðar í útlendingamálum hér á landi og er í þessu samhengi litið til fyrirkomulags úrskurðarnefndar um um­hverfis- og auðlindamál samkvæmt nýjustu lagabreytingum sem gerðar voru til þess að auka skilvirkni og hagræði í vinnu þeirrar nefndar.

f. Réttarstaða fylgdarlausra barna.
    Á íslenskum stjórnvöldum hvíla þjóðréttarskyldur að tryggja börnum, sem sækja um alþjóðlega vernd, sérstaka vernd, sbr. 22. gr. barnasáttmálans. Á undanförnum árum hefur verið gerð aðgerðaáætlun um meðferð mála þegar börn eiga í hlut (skýrsla starfshóps dómsmálaráðuneytisins frá 2004 um vegalaus börn) auk þess sem aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali frá 2013–2016 tekur til barna sem eru fórnarlömb mansals. Þá hefur Útlendingastofnun sett verklagsreglur: Reglur um meðferð hælisbeiðna fylgdarlausra barna og ungmenna frá 22. apríl 2009 og Vinnureglur Útlendingastofnunar um málsmeðferð í málum sem varða börn án forsjármanna frá 22. apríl 2009. Í tilskipunum, sem varða réttarstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd, er fjallað sérstaklega um fylgdarlaus börn, sbr. tilskipun 2013/33/ESB um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd þar sem mælt er fyrir um talsmann, skipun forsjáraðila (eða umsjón barnaverndaryfirvalda), vistun barna og almennt um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang við ákvarðanir. Í tilskipun 2013/32/ESB um málsmeðferð koma fram lágmarkskröfur um málsmeðferð þar sem fylgdarlaus börn eiga í hlut, þar á meðal um hlutverk talsmanns, um viðtal við umsækjanda og um aldursgreiningu barna.
    Í skýrslu nefndar um meðferð hælismála frá árinu 2009 voru lagðar til sérstakar breytingar vegna flóttabarna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Var brugðist við þeim tilmælum með lögum nr. 115/2010. Í erindi Íslandsdeildar UNICEF til nefndar um málefni útlendinga utan EFTA og EES er lögð rík áhersla á að mál umsækjenda um alþjóðlega vernd á barnsaldri skuli meðhöndla í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Einnig hafa fleiri aðilar, t.d. Rauði krossinn á Íslandi, gert sambærilegar athugasemdir.
    Við vinnslu frumvarpsins hefur verið lögð áhersla á að bæta réttarstöðu barna, sérstaklega fylgdarlausra barna, sem sækja um vernd hér á landi. Lagt er til að komið verði á fót formlegri málsmeðferð fyrir fylgdarlaus börn í samræmi við það sem lagt var til í skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan EES. Í samræmi við skýrsluna, alþjóðlegar skuldbindingar og ábendingar sérfræðinga í málaflokknum eru helstu tillögur frumvarpsins hvað það varðar eftirfarandi:
          Gengið er út frá því að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera barn sé álitinn barn við meðferð máls nema það þyki afar ósennilegt eða annað komi í ljós með aldursgreiningu eða öðrum hætti.
          Umsækjendur um alþjóðlega vernd á barnsaldri skulu fá þá aðstoð og þjónustu sem aldur þeirra og staða krefst, m.a. búsetuúrræði við hæfi.
          Tryggja verður að barni sé kleift að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í samræmi við aldur og þroska.
          Tryggja verður að fulltrúar stjórnvalda sem koma að máli barns sem er umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sérþekkingu og þjálfun til að taka viðtöl við börn í þessum sporum og að viðtöl séu tekin við aðstæður sem henta aldri og þroska barnsins.
          Tryggja verður aðkomu barnaverndaryfirvalda að máli barns sem er umsækjandi um alþjóðlega vernd bæði í málum sem tekin eru til efnismeðferðar og þeim sem varða mögulegar endursendingar á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins.
          Ef nauðsynlegt er að aldursgreining fari fram skal umsækjandi upplýstur um ferlið framundan, hugsanleg frávik og hvaða áhrif aldursgreining hefur á framvindu máls. Tryggt skal að slíkt mat gangi ekki gegn mannhelgi.
          Ef ekki hefur tekist að leiða í ljós aldur umsækjandans með nægilega tryggum hætti, þrátt fyrir aldursgreiningu, skal viðkomandi njóta vafans og vera meðhöndlaður sem barn.
          Hafi aldursgreining leitt í ljós að umsækjandi um alþjóðlega vernd sé ekki barn kemur sú niðurstaða og sú staðreynd að hann hafi haldið öðru fram ekki í veg fyrir að umsókn hans verði tekin til meðferðar með sjálfstæðum hætti.
          Börnum, sem hafa verið fórnarlömb misnotkunar, vanrækslu, pyndinga eða grimmilegrar, ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða hafa þjáðst vegna vopnaðra átaka, skal tryggður aðgangur að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og sálgæsluþjónustu og annarri nauðsynlegri þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum.
          Fylgdarlausum börnum skal skipaður sérstakur hagsmunagæslumaður sem ber aðrar skyldur en talsmaður almennt.
    Mikill munur getur verið á þörfum fylgdarlausra barna og annarra umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þar sem um er að ræða börn án foreldra þurfa þau ekki aðeins lagalega aðstoð heldur þarf einnig að gæta að hagsmunum þeirra á öðrum sviðum og að þörfum þeirra sé mætt, t.d. er varðar húsnæði, menntun og heilbrigði. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að fylgdarlaus börn þurfa hvað mesta aðstoð og eru í hvað viðkvæmastri stöðu. Mikilvægt er að sérhæfður einstaklingur, eftir því sem tök eru á, sæki rétt barnsins gagnvart stjórnvöldum og gæti að því að sjónarmið þess heyrist varðandi meðferð mála. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum við einstök ákvæði.

g. Ríkisfangsleysi og samningar Sameinuðu þjóðanna.
    Ákvæði frumvarpsins um ríkisfangsleysi eru að miklu leyti nýmæli og tryggja sjálfstæðan rétt ríkisfangslausra einstaklinga til alþjóðlegrar verndar hér á landi. Breytingarnar byggjast á tveimur alþjóðasamningum: Samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samningi um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. Ríkisfangslaus einstaklingur er einstaklingur sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum. Með ákvæðinu er því gerður greinarmunur á ríkisfangslausum einstaklingi og flóttamanni en í eldri lögum féllu þeir undir sama ákvæði. Með sérákvæði um ríkisfangslausa einstaklinga er réttarstaða þeirra gerð tryggari. Ríkisfangslaus einstaklingur á rétt á sömu alþjóðlegu vernd og flóttamaður og eiga þau ákvæði frumvarpsins því að jöfnu við um ríkisfangslausan einstakling. Sæki einstaklingur um alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis og flóttamannasamnings skal leyst úr þeim málum samhliða. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis getur lagt fram umsókn þegar hann er staddur hér á landi, það er ekki skilyrði að hann sé í lögmætri eða varanlegri dvöl. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun taki á móti umsóknum um alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis en hún hefur ekki málsmeðferð af sjálfsdáðum. Útlendingastofnun skal þó í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga leiðbeina um slíka umsókn telji hún það eiga við. Á grundvelli þessara breytinga eiga ríkisfangslausir einstaklingar sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns og einnig sama rétt á þjónustu, umönnun og réttindum og umsækjendur um alþjóðlega vernd og þeir sem slíkrar verndar njóta.

2. Kaflar frumvarpsins.
    Frumvarpið samanstendur af 125 greinum í 15 köflum. Kaflaskipting miðar að því að afmarka efnisþætti laganna betur, m.a. með það að leiðarljósi að gera lögin skýrari og læsilegri, svo hægt sé að draga skýrar fram þau atriði er varða hvern og einn þátt. Við uppbyggingu frumvarpsins er m.a. byggt á norsku lögunum en einnig á núverandi lögum sem og tillögum ýmissa aðila. Í I. kafla um stjórnsýslu og málsmeðferð er fjallað um gildissvið laganna, tilgang og markmið og framkvæmd. Í II. kafla um komu og brottför er fjallað um landamæraeftirlit, vegabréfsáritanir. Í III. kafla eru ákvæði um málsmeðferðarreglur um alþjóðlega vernd sem m.a. kveða á um málsmeðferð, einstaklingsbundna greiningu, móttökumiðstöð, réttindi og framkvæmd mála og í IV. kafla um efnisreglur um alþjóðlega vernd er fjallað um flóttamannahugtakið, ofsóknir, ríkisfangsleysi, grundvöll mannúðarsjónarmiða og fleira.
    Í V. kafla er fjallað um grunnskilyrði dvalar og búsetu og er fjallað um hverjir megi dvelja á landinu án dvalarleyfis, hverjir þurfa leyfi og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. Í VI. kafla er fjallað um dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku, í VII. kafla um dvalarleyfi vegna menntunar, rannsókna og menningarskipta og í VIII. kafla um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í IX. kafla er fjallað um þau dvalarleyfi sem veitt eru vegna alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða eða mansals og í X. kafla um önnur dvalarleyfi.
    Í XI. kafla er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um EES og EFTA. Í XII. kafla eru ákvæði um frávísun og brottvísun, í XIII. kafla um þvingunar- og rannsóknarúrræði, í XIV. kafla er að finna ýmis sérákvæði og í XV. kafla er fjallað um reglugerðir, gildistöku o.fl. Loks er ákvæði til báðabirgða um kærunefnd útlendingamála.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
1. Samræmi við stjórnarskrá.
    Nefnd um málefni útlendinga utan EES lagði til að heimild ráðherra til að setja reglugerð um skilyrði dvalarleyfa yrði afnumin á grundvelli 66. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að með lögum skuli skipa rétti útlendinga til að koma til landsins og fara frá landinu. Er reglugerðarheimildin felld út í frumvarpinu en áfram eru í frumvarpinu reglugerðarheimildir um ýmis útfærsluatriði er varða framkvæmd laganna eða nánari útfærslu á skilyrðum sem lögin setja enda getur slíkt í eðli sínu verið breytingum háð. Í reglugerð getur hins vegar aldrei verið kveðið á um takmarkaðri réttarstöðu eða þrengri skilyrði en lög kveða á um. Skilyrði dvalar eru því sett fram í frumvarpinu og því sem þar kemur fram ætlað að vera tæmandi listi. Hins vegar verða óumflýjanlega breytingar á útfærslu þessara skilyrða, svo sem upphæð framfærslu og því hvað teljast fullnægjandi gögn, og slíkt er heimilt að útfæra í reglugerð án þess að það stangist á við 66. gr. stjórnarskrárinnar.

2. Samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ísland hefur gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Við samningu frumvarpsins hefur verið tekið tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga Íslands þannig að sem best samræmi verði milli laga og þjóðréttarreglna. Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir helstu þjóðréttarsamningum sem Ísland er bundið af á þessu sviði. Fléttast þeir víða inn í lögin og hefur víða verið tekið tillit til þeirra en þegar slíkt er gert er það almennt tekið fram í athugasemdum við einstakar greinar.

a. Samningur um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951.
    Hinn 30. nóvember 1955 fullgilti Ísland samning um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 (hér eftir nefndur flóttamannasamningurinn en samningurinn hefur einnig verið nefndur Genfarsamningurinn) og tók hann gildi hér á landi 1. mars 1956. Hinn 26. apríl 1968 var einnig fullgiltur viðbótarsamningur um breytingu á samningnum um stöðu flóttamanna frá 31. janúar 1968.
    Í 1. gr. flóttamannasamningsins er hugtakið flóttamaður skilgreint. Skv. A-lið ákvæðisins telst sá útlendingur flóttamaður sem „er utan heimalands síns … af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða [sá], sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa þangað aftur“. Samkvæmt þessu verður útlendingur að hafa raunverulega ástæðu til að óttast ofsóknir til að skilgreiningin eigi við um hann. Ekki er fyrir hendi samræmd alþjóðleg túlkun á flóttamannahugtakinu sem einstök lönd eru bundin af. Það er því hvers lands að taka afstöðu til þess hvort útlendingur telst flóttamaður. Hins vegar hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gefið út handbók sem gefur leiðbeiningar um túlkun hugtaksins. Þótt ekki sé fyrir hendi einhlít túlkun á flóttamannahugtakinu hefur verið talið að mat á því hvort útlendingur teljist flóttamaður verði á hvíla á hlutlægum grundvelli. Þannig má sá sem hefur það mat á hendi ekki láta jákvæða eða neikvæða afstöðu til útlendings eða heimalands hans hafa áhrif á matið. Kjarni flóttamannahugtaksins felst í því að útlendingur hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur (e. well-founded fear of being persecuted) og að ofsóknir verði raktar til kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana. Þannig falla þeir utan hugtaksins sem flýja heimaland af öðrum ástæðum, svo sem vegna náttúruhamfara, hungursneyðar eða bágs efnahagsástands.
    Samkvæmt flóttamannasamningnum getur útlendingur ekki gert kröfu um það eitt og sér að verða viðurkenndur sem flóttamaður. Mat í þeim efnum fer ekki fram nema við úrlausn þess hvort útlendingi verði veitt tiltekin réttindi sem bundin eru við flóttamenn, svo sem með veitingu alþjóðlegrar verndar eða útgáfu ferðaskilríkja samkvæmt flóttamannasamningnum. Í C–F-lið 1. gr. samningsins er mælt fyrir um að við ákveðnar aðstæður falli niður réttur útlendings til þeirrar verndar sem hann hefur notið samkvæmt samningnum eða að hann sé útilokaður frá slíkri vernd. Í C-lið er að finna brottfallsástæður en meginefni ákvæðisins er að samningurinn hætti að gilda um útlending sem sjálfviljugur notfærir sér á ný vernd heimalands, endurheimtir þar sjálfviljugur ríkisfang, öðlast nýtt ríkisfang eða flytur til heimalands. Einnig fellur niður vernd samkvæmt samningnum ef ekki eru lengur fyrir hendi þær aðstæður sem leiddu til þess að útlendingur var viðurkenndur sem flóttamaður. Skv. D–F-lið nýtur útlendingur ekki verndar samkvæmt samningnum ef hann nýtur verndar eða aðstoðar hjá stofnunum eða deildum Sameinuðu þjóðanna öðrum en erindreka Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna eða ef stjórnvöld þess lands, sem útlendingur hefur sest að í, hafa viðurkennt að hann njóti þeirra réttinda og beri þær skyldur sem fylgja ríkisfangi í því landi. Einnig nýtur útlendingur ekki verndar flóttamannasamningsins ef hann hefur framið glæp gegn friði, stríðsglæp eða glæp gegn mannkyninu eins og slíkir glæpir eru skilgreindir í alþjóðlegum samningum. Sama gildir er útlendingur hefur framið alvarlegan ópólitískan glæp utan þess lands þar sem leitað er alþjóðlegrar verndar eða hann hefur orðið sekur um athafnir sem brjóta í bága við tilgang og meginreglur Sameinuðu þjóðanna.
    Flóttamannasamningurinn hefur að geyma skuldbindingar fyrir aðildarríkin um að veita flóttamönnum tiltekna réttarvernd. Samningurinn mælir ekki fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að veita flóttamönnum alþjóðlega vernd heldur hefur hann að geyma ákvæði um réttarstöðu flóttamanns meðan hann dvelst í samningsríki. Þannig segir í 3. gr. samningsins að beita skuli ákvæðum hans um alla flóttamenn án manngreinarálits vegna kynþátta, trúarbragða eða ættlands. Í 4. gr. er mælt fyrir um frelsi flóttamanna til að iðka trú sína og til trúarlegrar uppfræðslu barna sinna. Í 12. gr. er að finna ákvæði um persónu- og sifjaréttindi flóttamanns og í 13. og 14. gr. er mælt fyrir um vernd eignarréttinda hans. Þá er í 15. gr. ákvæði um félagafrelsi og í 16. gr. ákvæði um rétt flóttamanns til að leita til dómstóla. Í III. kafla samningsins er síðan að finna ákvæði um atvinnuréttindi flóttamanns og IV. kafli hefur að geyma ýmis ákvæði um velferðarmál flóttamanna.
    Í V. kafla flóttamannasamningsins er að finna reglur um þá vernd sem flóttamenn njóta. Skv. 31. gr. skulu aðildarríkin ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða dvalar þar ef komið er beint frá landi þar sem lífi þeirra eða frelsi er ógnað enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir ólöglegri komu eða dvöl. Einnig skal flóttamanni, sem löglega dvelst í aðildarríki, ekki vísað úr landi nema vegna öryggis landsins eða allsherjarreglu, sbr. 32. gr. Þá er í 33. gr. að finna bann við því að senda flóttamann brott eða endursenda hann til ríkis þar sem lífi hans eða frelsi er ógnað vegna kynþáttar hans, þjóðernis, aðildar að sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana. Þetta á þó ekki við ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta flóttamann hættulegan öryggi landsins eða ef hann er talinn hættulegur þjóðfélaginu vegna þess að hann hefur með endanlegum dómi verið fundinn sekur um mjög alvarlegan glæp. Því hefur verið haldið fram að þessi regla um bann gegn brottvísun eða endursendingu (non-refoulement) sé þjóðréttarregla á grundvelli þjóðréttarvenju og sé því bindandi fyrir ríki án tillits til alþjóðasamninga.

b. Samningar á sviði mannréttinda.
    Ísland á aðild að ýmsum mannréttindasamningum sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Þessir samningar geta haft áhrif á réttarstöðu útlendinga en þar er að finna ákvæði sem mæla fyrir um tiltekin réttindi þeirra, svo sem hér verður nánar rakið. Þeir þjóðréttarsamningar á þessu sviði sem koma til álita eru:
          samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950, ásamt samningsviðaukum, öðru nafni mannréttindasáttmáli Evrópu sem nú hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62 19. maí 1994,
          samningur um afnám alls kynþáttamisréttis frá 21. desember 1965,
          samningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 16. desember 1966,
          samningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt valkvæðri bókun frá 16. desember 1966,
          samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 18. desember 1979,
          samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984 með breytingu frá 9. september 1992,
          samningur um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989,
          Palermó-samningurinn gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi frá 15. nóvember 2000 og mansalsbókun við hann frá sama degi.
    Þjóðréttarsamningar á sviði mannréttinda eru venjulega ekki bundnir við ríkisborgara eða þá sem búsettir eru í viðkomandi aðildarríki og eiga því einnig við um útlendinga sem þar dveljast. Þannig segir í 1. mgr. 2. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi að sérhvert ríki, sem er aðili að samningnum, takist á hendur að virða og ábyrgjast öllum einstaklingum innan landsvæðis síns og undir lögsögu sinni réttindi þau sem viðurkennd séu í samningnum. Þá segir í 6. gr. samnings um afnám alls kynþáttamisréttis að aðildarríkin skuli tryggja öllum innan lögsögu sinnar raunhæfa vernd og úrræði með til þess bærum dómstólum eða öðrum ríkisstofnunum vegna allra athafna sem í felast kynþáttamisrétti og brjóta gegn mannréttindum þeirra og grundvallarfrelsi samkvæmt samningnum. Loks segir í 1. mgr. 2. gr. samnings um réttindi barnsins að aðildarríkin skuli virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum.
    Hliðstætt við þau ákvæði, sem hér hafa verið rakin, segir í 1. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að samningsaðilar skuli tryggja hverjum þeim sem dvelst innan yfirráðasvæðis þeirra réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla samningsins. Í 16. gr. er þó gildissvið samningsins takmarkað gagnvart útlendingum og aðildarríkjunum veitt heimild til að setja skorður við stjórnmálaumsvifum þeirra. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt og þing Evrópuráðsins hefur farið fram á að það verði fellt úr gildi.
    Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur að geyma ákvæði um heimild til að vísa útlendingum úr landi. Í 4. gr. samningsviðauka nr. 4 er lagt bann við því að hópar útlendinga séu gerðir landrækir. Í þessu felst að meta verður hvert mál sjálfstætt og því verður útlendingi ekki vísað úr landi af þeirri ástæðu einni að hann sé hluti af einhverjum hópi útlendinga. Í 1. gr. samningsviðauka nr. 7 eru síðan réttarfarsreglur um brottvísun útlendinga. Þar segir að útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skuli ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög. Einnig skal útlendingi vera heimilt að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni, fá mál sitt tekið upp að nýju og fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða þeim sem það stjórnvald tilnefnir. Heimilt er þó að vísa útlendingi brott áður en hann neytir þessara réttinda þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis.
    Í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er einnig vikið að réttindum útlendinga sem vísa á úr landi. Þar segir í 13. gr. að aðeins megi vísa úr landi útlendingi, sem er á löglegan hátt á landsvæði aðildarríkis, eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög og skal honum leyfast, nema þar sem brýnar ástæður vegna þjóðaröryggis krefjast annars, að skjóta andmælum/rökstuðningi gegn brottvísuninni til lögbærs stjórnvalds eða þeirra sem sérstaklega eru til þess tilnefndir af því lögbæra stjórnvaldi og fá mál sitt tekið til endurskoðunar og hafa málsvarnarmann í þessu skyni. Við fullgildingu samningsins var af Íslands hálfu gerður fyrirvari við þetta ákvæði að því leyti sem það var ekki í samræmi við gildandi lög um rétt útlendings til að koma að andmælum vegna ákvörðunar um brottvísun hans. Fallið var frá þessum fyrirvara á grundvelli breytinga á lögum um eftirlit með útlendingum með lögum nr. 133 31. desember 1993.
    Í samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er vikið að réttindum útlendinga. Skv. 3. gr. samningsins skal ekkert aðildarríki vísa úr landi, endursenda eða framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum. Þegar ákveðið er hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi skulu þar til bær yfirvöld hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal eftir því sem við á, hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot.

c. Samstarf Norðurlandanna.
    Norðurlöndin hafa um langa hríð haft með sér samvinnu um málefni útlendinga og landamæraeftirlit og hluti af því samstarfi er það sem nefnt hefur verið Norræna vegabréfasambandið. Í samstarfinu felst að sam­eigin­legar reglur gilda um réttindi norrænna ríkisborgara í löndunum og um réttarstöðu útlendinga sem eru ekki norrænir ríkisborgarar. Þetta samstarf hvílir á tveimur meginstoðum en þær eru annars vegar bókun frá 22. maí 1954 um að leysa ríkisborgara annarra Norðurlanda undan skyldu til að hafa í höndum vegabréf og dvalarleyfi við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu og hins vegar samningur frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna, ásamt viðbótarbókun frá 20. maí 1963, breytingum frá 27. júlí 1979 og viðaukum frá 2. apríl 1973 og 18. september 2000. Bókunin tók gildi að því er Ísland varðar 1. desember 1955 en samningurinn (sem gengur undir nafninu norræni vegabréfaeftirlitssamningurinn) 1. janúar 1966.
    Bókunin og samningurinn eru grundvöllur að frjálsri för fólks á milli Norðurlandanna. Í því felst að ríkisborgarar Norðurlandanna eru undanþegnir vegabréfaskyldu og útlendingum, sem ekki eru norrænir ríkisborgarar, er leyft að ferðast beint frá einu landi til annars innan landanna á viðurkenndum landamærastöðvum án þess að vera háðir vegabréfaskoðun. Af þessu leiðir að vegabréfaskoðun fer ein­göngu fram við norræn útmörk ríkjanna og þurfa bæði norrænir ríkisborgarar og ríkisborgarar annarra ríkja að sæta slíku eftirliti, sbr. 2. gr. samningsins. Þótt vegabréfaskoðun sé felld niður milli Norðurlandanna er ríkjunum heimilt að gera úrtakskönnun við landamæri sín og annars norræns ríkis en í því felst að útlendingi verður gert að sýna vegabréf sitt og láta í té þær upplýsingar sem óskað er eftir, sbr. 8. gr.
    Með því að fella niður vegabréfaskoðun við landamæri milli Norðurlanda hafa ríkin falið hvert öðru að hafa sam­eigin­lega vegabréfaskoðun á norrænum landamærum gagnvart öðrum ríkjum. Þetta sam­eigin­lega eftirlit hvílir á þeirri forsendu að hvert landanna skuldbindur sig til að taka aftur við útlendingi sem ekki er norrænn ríkisborgari og hafna hefði átt af hlutaðeigandi ríki við útmörk þess ef útlendingurinn hefur ferðast án heimildar frá þessu ríki til annars norræns ríkis, sbr. 10. gr. samningsins. Einnig skuldbinda ríkin sig til að leyfa ekki útlendingi, sem annað norrænt ríki hefur vísað úr landi, að koma inn í landið án sérstaks leyfis, sbr. 9. gr.
    Í 1. mgr. 6. gr. samningsins segir að ríkin eigi að vísa burt við hin norrænu útmörk sín sérhverjum útlendingi sem:
     a.      ekki hefur í höndum gilt vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem hlutaðeigandi yfirvöld í aðildarríkjunum geta viðurkennt sem gilt vegabréf,
     b.      hvorki hefur nauðsynlegt leyfi til að fara inn í hlutaðeigandi ríki eða vinna þar né slíkt leyfi í öðru norrænu ríki sem útlendingurinn ætlar að ferðast til,
     c.      álíta verður að hvorki hafi nægjanlegt fé til fyrirhugaðrar dvalar né heimferðar,
     d.      álíta verður að muni ekki vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt,
     e.      hefur áður verið dæmdur til fangelsisrefsingar og gera má ráð fyrir að muni fremja afbrot í norrænu ríki eða búast má við að muni fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða óleyfilegt fréttastarf í ríkjunum,
     f.      er í einhverju ríkjanna færður á skrá yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er ríkjunum einnig heimilt að hafna hvaða útlendingi sem er þegar af öðrum ástæðum á ekki að veita honum leyfi til að koma inn í eitt eða fleiri af ríkjunum. Norræni vegabréfaeftirlitssamningurinn felur ekki í sér skyldu fyrir ríkin í einstökum tilvikum til að vísa útlendingi frá landi og fær engan veginn haggað því að hvert ríki fyrir sig tekur sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Hins vegar verða ríkin að haga löggjöf sinni í samræmi við 6. gr. samningsins og hafa hliðsjón af því ákvæði þegar tekin er ákvörðun um hvort útlendingi verði vísað frá landi.
    Auk þess sem hér hefur verið rakið hefur samningurinn einnig að geyma nánari reglur um sam­eigin­legt eftirlit með útlendingum sem þurfa að hafa vegabréfsáritun, sbr. 2. og 4. gr., og um skyldu ríkjanna til að krefjast þess að útlendingar, sem dveljast í ríki lengur en þrjá mánuði, skuli sækja um dvalarleyfi, sbr. 5. gr. samningsins.
    Vegna þátttöku Norðurlandanna í Schengen-samstarfinu gerðu ríkin með sér samkomulag sem undirritað var 18. september 2000 um viðauka við vegabréfaeftirlitssamninginn þar sem kveðið er á um frávik frá honum að því leyti sem það er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt Schengen-samningnum. Í viðaukanum segir m.a. að þrátt fyrir ákvæði f-liðar 1. mgr. 6. gr. samningsins geti samningsríki því aðeins vísað burt útlendingi, sem færður er á skrá annars samningsríkis yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi, að útlendingurinn hafi jafnframt verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfið. Einnig segir að þrátt fyrir ákvæði 9. gr. samningsins geti samningsríki því aðeins meinað útlendingi, sem annað samningsríki hefur vísað úr landi, að koma án sérstaks leyfis að útlendingurinn hafi verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfið. Þá er tekið fram í viðaukanum að túlka beri samninginn í samræmi við viðeigandi Schengen-reglur og frekari þróun þeirra. Breytingar eru þó ekki aðrar en nauðsynlegt er vegna Schengen- samstarfsins og rýmri ákvæði sem samrýmast Schengen-reglum standa óbreytt. Þannig er heimilt að leyfa útlendingi, sem hefur dvalarleyfi í norrænu landi, að njóta hagstæðari reglu við dvöl í öðru norrænu landi en útlendingi sem hefur dvalarleyfi í Schengen-landi sem ekki er norrænt.

d. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2 13. janúar 1993, var samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið lögfestur. Á grundvelli samningsins njóta útlendingar, sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjunum, réttinda af ýmsu tagi hér á landi. Samningurinn hefur því mikil áhrif á réttarstöðu þeirra útlendinga sem falla undir samninginn. Í 1. mgr. 1. gr. EES- samningsins segir að markmið hans sé að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði. Til að ná þessu markmiði felur samstarfið í sér sex þætti og er einn þeirra frjálsir fólksflutningar, sbr. b-lið 2. mgr. sömu greinar. Frjálsir fólksflutningar eru reyndar einn hluti af hinu fjórþætta frelsi Evrópusambandsins (ESB) en það tekur að auki til frjáls flæðis vöru, þjónustu og fjármagns.
    EES-samningurinn felur í sér að reglur ESB gilda um rétt launþega og sjálfstætt starfandi fólks til að flytja búferlum innan Evrópska efnahagssvæðisins og setjast að þar sem það getur hafið störf. Þessi réttur nær einnig til fjölskyldu viðkomandi, svo og þeirra sem látið hafa af störfum vegna aldurs og óska eftir að dveljast áfram þar sem þeir höfðu síðast stundað atvinnu. Þá nær þessi réttur einnig til námsmanna og fleiri. Ákvæði um þetta eru í 1.–3. kafla III. hluta samningsins og í V. og VIII. viðauka við samninginn.
    Í 28. gr. EES-samningsins er fjallað um frjálsa för launþega en þar er því slegið föstu að slíkt frelsi skuli vera tryggt innan EES. Þetta frelsi felur í sér afnám allrar mismununar launþega í aðildarríkjunum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Á grundvelli þessa frelsis hefur launþegi m.a. rétt til að þiggja atvinnutilboð sem raunverulega eru lögð fram og fara að vild í þeim tilgangi um yfirráðasvæði aðildarríkjanna, dveljast í ríkjunum í atvinnuskyni í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli um starfskjör ríkisborgara viðkomandi ríkis og loks að dveljast áfram í ríki eftir að hafa starfað þar. Nánari ákvæði um frelsi launþega til flutninga eru síðan í viðeigandi gerðum ESB sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn en þær er að finna V. viðauka samningsins. Einni af þessum gerðum, reglugerð nr. 1612/68/EBE, sbr. reglugerðir nr. 312/76/EBE og nr. 2434/92/EBE, eins og henni var breytt með EES-samningnum, var veitt lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993. Með lögum um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 64/2014, var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 158/2007 frá 7. desember 2007 um breytingu á V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES- samninginn frá 2. maí 1992. Jafnframt var þá innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sam­eigin­leg viðmið og skilyrði fyrir brottvísunum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.
    Í 29. gr. samningsins er fjallað um réttindi launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til almannatrygginga. Þetta ákvæði miðar að því að greiða fyrir frjálsum fólksflutningum en mikilvæg forsenda fyrir slíku frelsi er að réttur til almannatrygginga glatist ekki við búferlaflutninga milli landa. Einnig eru ákvæði í 30. gr. til að auðvelda frjálsa fólksflutninga en þar segir að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi.
    EES-samningurinn felur í sér heimild fyrir borgara aðildarríkjanna til að setjast að og hefja atvinnurekstur hvar sem er innan EES. Um svokallaðan staðfesturétt er fjallað í 31.–35. gr. EES-samningsins en sá réttur nær bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Staðfesturéttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin. Innan ramma ákvæða EES-samningsins skulu engin höft vera á rétti ríkisborgara aðildarríkis til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, sbr. 31. gr. samningsins. Í VIII. viðauka samningsins er að finna þær gerðir ESB sem gilda um staðfesturétt og hafa verið teknar upp í EES-samninginn.
    Í 36.–39. gr. EES-samningsins er fjallað um frelsi ríkisborgara aðildarríkjanna til að veita þjónustu á yfirráðasvæði aðildarríkis enda þótt viðkomandi hafi staðfestu í öðru aðildarríki. Samkvæmt 37. gr. samningsins er þeim sem veitir þjónustu heimilt að stunda starfsemi sína tímabundið í því ríki þar sem þjónustan er veitt með sömu skilyrðum og það ríki setur eigin ríkisborgurum. Með þjónustu í skilningi ákvæðisins er einkum átt við starfsemi á sviði iðnaðar og viðskipta, starfsemi handverksmanna og sérfræðistörf.

e. Schengen-samstarfið.
    Aðild Íslands að Schengen-samstarfinu byggist á samningi milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um þátttöku síðargreindu landanna í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999. Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 26. maí 2000. Í athugasemdum við þingsályktunartillögu þess efnis er ítarlega fjallað um Schengen-samstarfið. Framkvæmd samstarfsins á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum hófst 25. mars 2001 svo sem áður er getið.
    Kjarni Schengen-samstarfsins felst í grundvallaratriðum í tvennu. Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna en með því er stuðlað að frjálsri óhindraðri för einstaklinga um innri landamæri þátttökuríkja og hins vegar í stuðningsaðgerðum til að tryggja öryggi borgara á svæðinu. Schengen-samstarfið tekur einnig til annarra málefna á sviði útlendingalöggjafar og má þar helst nefna samræmingu á persónueftirliti á ytri landamærum þátttökuríkjanna og samvinnu um útgáfu vegabréfsáritana sem m.a. felur í sér að samræmd áritun gildir á öllu Schengen-svæðinu. Þá eru sam­eigin­legar reglur um vissa þætti málsmeðferðar vegna beiðni um alþjóðlega vernd bein afleiðing Schengen-samstarfsins.
    Í Schengen-samstarfinu hafa ítarlegar reglur verið settar um landamæraeftirlit og önnur málefni sem varða útlendinga og réttarstöðu þeirra. Þessi ákvæði er einkum að finna í II. bálki (2.–38. gr.) samnings frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 (hér eftir nefndur Schengen-samningurinn) en sá bálkur ber heitið „Afnám eftirlits á innri landamærum og för fólks“. Auk Schengen-samningsins hafa ýmsar aðrar Schengen-gerðir þýðingu varðandi málefni á sviði útlendingalöggjafar og er gerð grein fyrir þeim á viðeigandi stöðum í frumvarpinu.

f. Dyflinnarsamstarfið.
    Ísland á aðild að evrópsku samstarfi er varðar ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd en þátttaka Íslands í þessu samstarfi er liður í Schengen-samstarfinu.
    Dyflinnarreglugerðin er hluti af sam­eigin­legu kerfi Evrópusambandsins vegna umsókna um alþjóðlega vernd (e. Common European Asylum System). Dyflinnarsamstarfið var í fyrstu byggt á samningi aðildarríkja Evrópusambandsins um ábyrgð á meðferð beiðna um alþjóðlega vernd, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990. Sá samningur var leystur af hólmi með reglugerð ráðsins (EB) 343/2003. Ísland samþykkti Dyflinnarreglugerðina með tilkynningu til ráðs Evrópusambandsins þann 6. maí 2003, sbr. auglýsingu nr. 14/2003 sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda. Árið 2013 tók gildi ný Dyflinnarreglugerð nr. 604/2013/EB sem ætlað var að bæta réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur hún öðlast gildi á Íslandi.
    Markmið samstarfsins er að koma á fót skýrum reglum um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram í aðildarríkjunum til þess að koma í veg fyrir að vafi leiki á um hvar umsókn skuli tekin til meðferðar. Ætlunin er að tryggja að umsókn um alþjóðlega vernd hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og koma þar með í veg fyrir að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Reglugerðin geymir viðmið um það hvaða ríki ber ábyrgð á efnislegri umfjöllun umsóknar um alþjóðlega vernd og er um þau fjallað í III. kafla hennar. Reglugerðin lýtur þannig ein­göngu að því að ákveða hvaða ríki ber ábyrgð á umfjöllun umsóknar en ekki að því hvernig eigi að meta umsóknina efnislega. Árið 2013 voru gerðar breytingar á viðmiðunum m.a. til að mæta dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu en að auki var leitast við að tryggja betur réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Séu til staðar slíkir gallar á móttöku eða málsmeðferð umsækjenda í því aðildarríki sem ber ábyrgðina að hætta sé á að umsækjandi verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. réttindaskrár Evrópusambandsins (sambærileg 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu) skal aðildarríkið þar sem umsækjandi er staddur eftir atvikum taka til meðferðar umsóknina þótt það beri ekki ábyrgð á slíkri meðferð, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Í 33. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er mælt fyrir um eftirlitskerfi, viðbúnað og krísustjórn. Samkvæmt þeim ákvæðum er aðildarríkjum falið að vinna náið með EASO (European Asylum Support Office) til að koma í veg fyrir að móttökukerfi þeirra láti undan vegna mikils fjölda umsókna með þeirri áhættu að móttökukerfin standi ekki undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.
    Með breytingum árið 2013 var einnig m.a. breytt reglum varðandi leiðbeiningar fyrir umsækjendur, fylgdarlaus ungmenni, fjölskyldusameiningar, rétt til frestunar réttaráhrifa og skýrari reglur settar um skipti á heilbrigðisupplýsingum. Var breytingunum ætlað að bregðast við gagnrýni sem sett hafði verið fram á Dyflinnarsamstarfið. Eftir sem áður er aðildarríkjunum þó ávallt heimilt að taka til meðferðar umsókn um alþjóðlega vernd þótt það beri ekki ábyrgð á slíkri meðferð, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Jafnframt er heimilt með vísan til mannúðarsjónarmiða að sameina umsækjendur sem eru háðir hvor öðrum, t.d. á grundvelli fjölskyldutengsla.
    Með aðild Íslands að Dyflinnarsamstarfinu hefur ríkið skuldbundið sig til að fylgja og virða þær reglur sem felast í Dyflinnarreglugerðinni. Með hliðsjón af þessu beita íslensk stjórnvöld sem starfa að útlendingamálum ákvæðum reglugerðarinnar við mat á því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram hér á landi.

V. Samráð.
    Pólitískt samráð við gerð þessa frumvarps var ívið umfangsmeira en almennt gerist þar sem þverpólitísk þingmannanefnd vann að gerð þess í umboði innanríkisráðherra með fulltrúum allra flokka á Alþingi. Sérfræðingar í velferðarráðuneytinu, Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun tóku virkan þátt í vinnu við gerð frumvarpsins er sneru að sérfræðiþekkingu þeirra en auk þess var haft samráð við aðrar stofnanir, sérfræðinga, hagsmunaaðila og félagasamtök. Þingmannanefndin átti á tímabilinu fjölmarga formlega samráðsfundi með hagsmunaaðilum og sérfræðingum í málaflokknum, aðilum atvinnulífs og vinnumarkaðar, hagsmunaaðilum og sérfræðingum í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, sérfræðingum í málefnum barna og fjölskyldna, lögreglu og fulltrúum mennta- og vísindamála. Við gerð frumvarpsins var auk þess haft samráð við sérfræðinga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Rauða krossinum á Íslandi, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands og kærunefnd útlendingamála, enn fremur fulltrúa barnaverndaryfirvalda, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, Íslandsstofu og Fjölmenningarseturs.
    Auk þess voru sérfræðingar þingmannanefndarinnar í samskiptum við fræðimenn á Íslandi sem og erlendis, m.a. sérfræðinga er unnu að núgildandi útlendingalöggjöf í Noregi sem mikið er byggt á í frumvarpinu. Reynt var að taka tillit til atriða eða vandkvæða sem upp hafa komið við framkvæmd þeirra laga auk þess sem reynt var að tryggja að það sem hefði reynst vel í Noregi, skilaði sér í íslensku löggjöfina eins og við gat átt.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem stuðla að bættri þjónustu við útlendinga, sérstaklega erlenda sérfræðinga, námsmenn og rannsakendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þær breytingar eiga að tryggja aukna skilvirkni og gæði innan stjórnsýslu, hagræðingu við nýtingu fjármagns og styðja við íslenskan vinnumarkað og auka samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu.
    Kostnaðaráhrif frumvarpsins snúa aðallega að starfsemi Útlendingastofnunar. Lagðar eru til breytingar á lagaum­hverfi og að hluta til starfsháttum Útlendingastofnunar. Gera þarf breytingar á tölvukerfum Útlendingastofnunar, eyðublöðum og leiðbeiningum, og viðbótardvalarleyfisflokkar kalla á forritunarbreytingar. Skipa þarf börnum yngri en 18 ára, sem sækja um alþjóðlega vernd, eigin talsmenn. Ráðuneytið áætlar að umræddar breytingar leiði til 18 m.kr. einskiptiskostn­aður vegna búnaðar og innleiðingar frumvarpsins. Áætlað er að viðvarandi árlegur rekstrarkostn­aður verði 16,2 m.kr. sem svarar til 4,5% af fjárheimildum Útlendingastofnunar 2016. Í 53. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild Útlendingastofnunar til innheimtu þjónustugjalds fyrir forgangs- og flýtiafgreiðslu umsókna um dvalarleyfi sem áætlað er að muni skila 5 m.kr. auknum ríkistekjum. Gert er ráð fyrir að útgjöld stofnunarinnar aukist samsvarandi. Í frumvarpinu er kveðið á um móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur og er kostn­aður vegna hennar áætlaður 75 m.kr sem búið er að gera ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Eins er gert ráð fyrir fjölgun nefndarmanna í kærunefnd útlendingamála úr þremur í sjö sem að sama skapi er gert ráð fyrir í fjárlögum 2016. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til breytingar með það að markmiði að auka skilvirkni og draga úr ýmsum veikleikum til samræmis við það sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Erfitt er að meta fjárhagsáhrif þessara breytinga en þó má gera ráð fyrir að þær verði frekar til lækkunar útgjalda ríkissjóðs til þessara mála.
    Í fjárlögum 2016 er samtals varið 1.041 m.kr. til útlendingamála sem lúta að fjárlagaliðum innanríkisráðuneytisins. Fjárveitingin skiptist þannig að 355 m.kr. fara til fjárlagaliðar 06- 398 Útlendingastofnun, 556 m.kr. til 06-399 Hælisleitendur og 130 m.kr. til 06-190 Fastanefndir, en þar undir er rekstur kærunefndar útlendingamála. Kostn­aður þessara mála var 97 m.kr. árið 2011, 221 m.kr. árið 2012, 436 m.kr. árið 2013, 463 m.kr. árið 2014 og 748 m.kr. árið 2015.
    Frumvarpið hefur verið til umræðu milli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og starfshóps um frumvarpið á nokkrum fundum. Það var niðurstaða þeirra að óljóst yrði með þennan kostnað og yrði að skoða það sérstaklega í tengslum við setningu reglugerða, sem gert er ráð fyrir að verði settar, til að mynda varðandi 39. og 45. gr. frumvarpsins. Því er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á kostnað sveitarfélaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 39,2 m.kr. en þar af eru 18 m.kr. einskiptiskostn­aður. Á móti þessum útgjöldum koma auknar ríkistekjur að fjárhæð 5 m.kr. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í útgjaldaramma gildandi fjárlaga. Mun því þurfa að finna þeim stað í útgjaldaramma þessa málaflokks innanríkisráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin fjallar um gildissvið laganna. Ákvæðum laganna er ætlað að gilda um yfirráðasvæði hins íslenska ríkis en þó fyrst og fremst landið sjálft þar sem um er að ræða ákvæði um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi. Með stjórnarskipunarlögum, nr. 97 28. júní 1995, voru sett ákvæði í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar um að rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi, skyldi skipað með lögum. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til stjórnarskipunarlaganna segir að með þessu sé fyrst og fremst lögð skylda á löggjafann að setja lög til að girða fyrir að framkvæmdarvaldið hafi ákvörðunarvald um þessi efni án skýrra lögákveðinna skilyrða. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við þennan áskilnað stjórnarskrárinnar.
    Í 1. mgr. segir að ákvæði laganna gildi um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér. Ákvæðið nefnir ekki för úr landi. Er skýringin á því sú að skv. 3. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar verður engum meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Þó er heimilt að stöðva brottför manns úr landi með lögmætri handtöku. Þetta kemur hins vegar ekki í veg fyrir að settar séu reglur um eftirlit með brottför úr landi, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 18. gr. frumvarps þessa.
    1. mgr. greinir auk þessa frá því að ákvæði laganna gildi um rétt útlendinga til alþjóðlegrar verndar samkvæmt stefnu íslenskra stjórnvalda og alþjóðlegum skuldbindingum. Er þar átt við skyldu íslenska ríkisins til að taka við einstaklingum er uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Þessum skilyrðum og þessari skyldu er lýst m.a. í IV. kafla.
    Í 1. mgr. segir enn fremur að ákvæðunum sé ætlað að gilda um útlendinga en útlendingur telst hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt, sbr. lög nr. 100/1952. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að mismunandi reglur gildi um einstaka hópa útlendinga. Þannig hafa ýmis ákvæði frumvarpsins að geyma sérreglur um norræna ríkisborgara. Þá leiðir af aðild Íslands að þjóðréttarsamningum, annars vegar samningi um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sbr. lög nr. 16/1971, og hins vegar samningi um ræðissamband frá 24. apríl 1963, sbr. lög nr. 4/1978, að ákvæðin geta ekki nema að hluta til náð til útlendinga sem eru starfsmenn sendiráða eða ræðisskrifstofa eða fjölskyldna þeirra. Sama er um aðra útlendinga sem njóta úrlendisréttar. Samkvæmt 2. mgr. gilda sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og sérreglur sem fram koma í XI. kafla.
    Með 3. mgr. er lögð áhersla á að íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögunum. Þannig segir í 18. gr. að hver sá sem kemur til landsins skuli gefa sig fram á landamærastöð eða við næsta lögregluyfirvald. Þá verða ýmsar skyldur lagðar á íslenska ríkisborgara í tengslum við tilkynningarskyldu, ábyrgð á kostnaði og refsiábyrgð eftir því sem við á. Einnig geta verið lagðar skyldur á íslenska ríkisborgara sem hyggjast fá til sín útlendinga, svo sem fjölskyldumeðlimi eða einstaklinga sem koma hingað á grundvelli vistráðningar.
    Í 4. mgr. er tekið fram að íslensk skip í siglingum erlendis og loftför í flugi erlendis falli ekki undir gildissvið laganna hvað varðar heimild til að koma til landsins eða dveljast á landinu. Lögin gilda hins vegar um íslensk skip sem verið hafa í siglingum erlendis þegar þau koma til íslenskrar hafnar sem og íslensk loftför eftir komu til íslensks flugvallar.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er tilgangi og markmiði laganna lýst.
    Í 2. mgr. segir að lögunum sé ætlað að veita heimild til að hafa nauðsynlegt eftirlit með komu til landsins og för úr landi og með dvöl útlendinga hér á landi. Útlendingur á að þjóðarétti ekki rétt til að flytja til annars lands til að setjast þar að. Um það fer þá eftir landslögum. Stjórnvöld geta þurft að hafa eftirlit með og stjórn á komu og flutningi útlendinga til landsins. Þannig getur þurft að takmarka komu útlendinga vegna atriða sem varða öryggi ríkisins eða almennings. Frumvarpið hefur þannig að geyma sérstakan kafla um komu og brottför (sjá II. kafla), auk annarra ákvæða um þetta efni.
    Í 3. mgr. kemur fram að lögin eigi að vera grundvöllur fyrir alþjóðlega vernd erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra einstaklinga sem eiga þann rétt samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda. Er umrætt ákvæði nýmæli.
    Í 4. mgr. er markmiði laganna lýst en það er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málum útlendinga. Hugtakið mannúð hefur verið skilgreint víða en oftast þó með vísan til gildis lífs, manngæsku og virðingar, sbr. skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan EFTA og EES. Það að hugtakið mannúð sé yfirgripsmikið og teygjanlegt hugtak á ekki að draga úr gildi hugtaksins og mikilvægi þess að leitast við að skilgreina mannúðleg sjónarmið við meðferð mála útlendinga. Telja verður að mannréttindasamningar, sem íslenska ríkið er aðili að, veiti leiðbeiningar um hvernig megi nálgast það markmið að lög um útlendinga og málsmeðferð samkvæmt þeim sé mannúðleg. Meðal þeirra samninga sem leggja skal til grundvallar túlkun og framkvæmd þessara laga í því skyni að tryggja mannúð er flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmáli Evrópu, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Palermó-samningurinn gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi, einkum mansalsbókun við hann. Markmiðið um skilvirka málsmeðferð er hluti af þessu. Er þá m.a. horft til þess að með lögunum verði leitast við að stytta meðferðartíma, tryggja sanngjarna málsmeðferð o.fl.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er nýmæli í lögum um útlendinga. Sum hugtök í gildandi lögum um útlendinga eru ekki skýrð á fullnægjandi hátt en skýringar á tilteknum hugtökum er að finna innan um einstök ákvæði. Markmið orðskýringanna er að gera lögin aðgengilegri og tryggja samræmda framkvæmd. Orðskýringarnar eru fengnar úr gildandi lögum, öðrum lögum, alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og norrænum lögum. Í orðskýringunum felast oft atriði er geta aðstoðað við túlkun annarra ákvæða laganna sem og þessara athugasemda. Athygli skal vakin á breyttri hugtakanotkun er varðar alþjóðlega vernd. Í núgildandi lögum er talað um að veita einstaklingum, sem hingað leita og uppfylla skilyrði þess að teljast flóttamenn, hæli. Meðan mál þeirra er til meðferðar eru þeir kallaðir hælisleitendur. Hér er lagt til að notað verði hugtakið alþjóðleg vernd og vísað þá til þeirra sem hennar óska sem umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þykir þetta ná betur utan um réttarstöðu þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og er í samræmi við þróun í hugtakanotkun á alþjóðavettvangi, í löggjöf og reglum Evrópusambandsins, sem og á öðrum Norðurlöndum.

Um 4. gr.

    Greinin tilgreinir hverjir skuli annast framkvæmd laganna og hvernig verkaskiptingu milli þeirra skuli háttað. Ráðherra, sem fer með málefni útlendinga, fer skv. 1. mgr. með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum.
    Í 66. gr. stjórnarskrárinnar segir að með lögum skuli „skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi“. Í núgildandi lögum er veitt heimild fyrir því að setja frekari skilyrði fyrir dvöl útlendinga í reglugerð, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2002. Með þessu frumvarpi er sú heimild felld brott. Nauðsynlegt verður þó að setja reglur sem kveða nánar á um framkvæmd laganna og skýra skilyrði þau sem útlendingum eru sett fyrir dvöl á landinu. Slíkt þykir ekki brjóta í bága við fyrrnefnt stjórnarskrárákvæði.
    Samkvæmt 2. mgr. verður framkvæmd laganna einkum í höndum Útlendingastofnunar og lögreglunnar. Þá sér Þjóðskrá Íslands um skráningu útlendinga og grunnupplýsinga um þá í þjóðskrá hér á landi. Stofnunin gegnir jafnframt sérstöku hlutverki varðandi skráningu EES- og EFTA-borgara, sbr. ákvæði XI. kafla frumvarpsins. Af öðrum stjórnvöldum er koma að framkvæmd laganna má nefna Vinnumálastofnun sem sinnir framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga og á fjölmarga snertifleti við ákvæði laga um útlendinga. Þá má nefna barnaverndarnefndir sem koma að ýmsum framkvæmdaratriðum er varða börn. Einnig er gert ráð fyrir að sendiráðum, fastanefndum og ræðismönnum verði ætlað að taka á móti umsóknum um vegabréfsáritun og dvalarleyfi og gefa út áritanir að fenginni heimild Útlendingastofnunar, svo sem verið hefur. Sendiráðum, fastanefndum og ræðismönnum kann einnig að verða heimilað að taka ákvörðun um útgáfu vegabréfsáritana. Utanríkisráðuneytið hefur einnig hlutverki að gegna, svo sem að því er varðar erlenda stjórnarerindreka, við gerð milliríkjasamninga um afnám vegabréfsáritana og við framkvæmd reglna um vegabréfsáritanir. Þá sinna bæði utanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið málum sem varða flóttamenn.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ráðuneyti málefna útlendinga kveði á um starfssvið einstakra stofnana að því leyti sem lögin kveða ekki á um það, svo sem að því er varðar tengsl Útlendingastofnunar, lögreglunnar og utanríkisþjónustunnar.

Um 5. gr.

    Grein þessari er ætlað að styrkja lagagrundvöll Útlendingastofnunar og þeirra verkefna sem henni er með lögum falið að sinna. Ekki er verið að leggja til breytingar á verksviði Útlendingastofnunar heldur er lagt til að núverandi framkvæmd og hlutverk verði fest í lög.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skylduna til að starfrækja Útlendingastofnun undir yfirstjórn ráðherra.
    Í 2. mgr. er fjallað um hæfi og skipun forstjóra Útlendingastofnunar. Sérstaklega er kveðið á um að forstjóri Útlendingastofnunar hafi embættispróf í lögfræði eða hafi lokið sambærilegu námi. Ráðherra skipar forstjóra til 5 ára í senn. Heimilt er að skipa forstjóra Útlendingastofnunar til áfram­haldandi 5 ára að upprunalegum tíma liðnum.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er kveðið á um sérstaka úrskurðarnefnd, kærunefnd útlendingamála, sem tekur til meðferðar kærur á niðurstöðum stjórnvalda í málum samkvæmt frumvarpi þessu. Ákvæðið er að mestu leyti sambærilegt ákvæði í núgildandi lögum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að kærunefndin skuli vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Ráðherra getur þannig ekki gefið nefndinni fyrirmæli um meðferð eða úrlausn einstakra mála og er hún óháð öðrum stjórnvöldum í störfum sínum. Í samræmi við það er jafnframt áréttað að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og verður lögmæti þeirra því einungis borið undir dómstóla. Rétt er hins vegar að árétta að þrátt fyrir þessa stöðu nefndarinnar fer ráðherra eftir sem áður með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir í samræmi við þá ábyrgð sem á honum hvílir samkvæmt íslenskri stjórnskipan. Sjálfstæði nefndarinnar felst því einkum í því að ráðherra hefur ekki heimild til að hafa bein afskipti eða önnur áhrif á málsmeðferð eða niðurstöður í einstökum málum. Af þeirri ábyrgð sem hvílir á ráðherra leiðir meðal annars að honum er heimilt í reglugerð að mæla nánar fyrir um málsmeðferð og málsmeðferðartíma, sbr. t.d. 10., 23. og 35. gr. Eitt af meginmarkmiðum laganna er að tryggja skilvirka og sanngjarna málsmeðferð og er því nauðsynlegt að slíkar heimildir séu til staðar.
    Með 2. mgr. þykir rétt að taka af öll tvímæli um valdheimildir nefndarinnar með því að kveða á um að þær séu hinar sömu og ráðherra hefur vanalega sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi. Í því felst að nefndin getur endurskoðað þær ákvarðanir sem til hennar er skotið, bæði að formi og efni, staðfest ákvarðanir eða fellt úr gildi og eftir atvikum vísað máli til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Í því felst jafnframt að nefndinni sé heimilt með úrskurði, telji hún það rétta niðurstöðu, að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka tiltekna ákvörðun, svo sem að gefa út leyfi sem nefndin telur að umsækjandi eigi rétt á.
    Í 3. mgr. er skipun nefndarinnar nánar lýst. Lagt er til að nefndarmönnum sé fjölgað um fjóra miðað við núverandi löggjöf og að í nefndinni verði sjö nefndarmenn sem ráðherra skipar og fimm til vara. Þá er lagt til að bæði formaður og varaformaður hafi starfið að aðalstarfi til að tryggja getu nefndarinnar til að takast á við fyrirsjáanlega fjölgun mála.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um skipun annarra nefndarmanna en þeir eru fimm og skulu jafnmargir skipaðir til vara. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Mannréttindaskrifstofu Íslands og einn af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Hinir tveir skulu skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Allir nefndarmenn þurfa að uppfylla almenn skilyrði 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með ákvæðinu er fallið frá sérstökum skilyrðum um hæfi nefndarmanna í eldri lögum en þess í stað gerð sú krafa að allir nefndarmenn séu lögfræðimenntaðir. Ákvarðanir kærunefndarinnar lúta í mörgum tilvikum að flóknum lagalegum úrlausnarefnum og er því talið mikilvægt að formaður og aðrir nefndarmenn séu lögfræðimenntaðir. Í 5. mgr. er kveðið á um skipan hæfnisnefndar til að meta hæfi formanns og varaformanns.
    Langur málsmeðferðartími í útlendingamálum hefur verið tilefni athugasemda frá umboðsmanni Alþingis en töluvert hefur verið lagt í að bæta og stytta málsmeðferð í hælismálum á síðustu árum og hefur það skilað árangri, m.a. með þeim áfanga að öll ný hælismál séu afgreidd á innan við 90 dögum. Ljóst er að verkefnafjöldi kærunefndarinnar er mikill og hefur málum fjölgað hratt. Markmið breytinga þessara er að auka skilvirkni og sveigjanleika kærunefndar útlendingamála með því að fjölga nefndarmönnum auk þess að gera nefndinni kleift að starfa í deildum, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 6. mgr. veitir formaður kærunefndar nefndinni forstöðu og fer með rekstur hennar og starfsmannahald. Varaformaður er staðgengill formanns og gegnir störfum hans þegar formaður er forfallaður eða fjarstaddur.
    Í 7. mgr. er lagt fyrir nefndina að birta úrskurði sína eða útdrætti úr þeim sem fela í sér efnislega niðurstöðu. Þeir skulu birtir án nafna, kennitalna og annarra persónugreinanlegra auðkenna aðila að viðkomandi málum. Þá ber einnig að líta til sjónarmiða er varða persónuvernd einstaklinga en úrskurðir í málaflokknum varða að jafnaði viðkvæmar persónulegar aðstæður og ber að taka tillit til þess við birtingu. Birting á forsendum úrskurða er talin til þess fallin að styrkja réttaröryggi og fyrirsjáanleika í beitingu regluverksins.

Um 7. gr.

    Á grundvelli núgildandi lagaákvæðis eru ákvarðanir Útlendingastofnunar kæranlegar til nefndarinnar en þó sæta ákvarðanir er varða frávísun og brottvísun einstaklinga frá landinu á grundvelli almannahagsmuna og almannahættu enn kæru til ráðuneytisins. Í framkvæmd hefur þessi uppskipting mála þótt flókin og erfiðleikum háð, enda mál sem varða málefni útlendinga oft margbrotin og varða ýmsa þætti aðra þó svo að almannahagsmunir komi þar við sögu. Lögð er til sú breyting að framangreind mál sæti einnig kæru til kærunefndar útlendingamála líkt og önnur mál sem heyra undir lög um útlendinga. Með breytingunni er m.a. leitast við að einfalda stjórnsýslu í málaflokknum. Auk þessa er lagt til að í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins er varða forgangsmeðferð, þegar kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki og stofnunin hefur afgreitt málið á grundvelli b-, c-, d-, e- og f-liðar 1. mgr. 29. gr., verði frestur til kæru styttri, eða fimm dagar.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um meginreglur varðandi meðferð mála fyrir kærunefndinni. Gert er ráð fyrir að ráðherra mæli í reglugerð fyrir um nánari þætti málsmeðferðar.
    Auka þarf skilvirkni kærunefndar útlendingamála með því að fjölga nefndarmönnum um fjóra, sbr. 6. gr. frumvarpsins, auk þess að gera nefndinni kleift að starfa í deildum eins og lagt er til í 1. mgr. Mikið hagræði getur verið fólgið í þessu, það ætti að stuðla að fjölgun funda kærunefndarinnar og greiða þar með fyrir meðferð mála. Í 1. mgr. er kveðið á um að þrír nefndarmenn að jafnaði skuli sitja fundi kærunefndarinnar til að fjalla um hvert mál sem nefndinni berst. Með því að gera formanni kleift að ákveða að nefndin starfi deildaskipt og fjölga nefndarmönnum er mögulegt að skipta nefndarmönnum eftir þörfum í tvær deildir. Hér mætti nefna sem dæmi að nefndin gæti sett upp sérstaka deild um mál er varða kærur vegna málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun og mál sem eiga að sæta forgangsmeðferð. Einnig væri mögulegt að skipa í deildir eftir eðli mála til að auka sérhæfingu nefndarmanna og stuðla þannig að skilvirkni nefndarinnar.
    Helstu áhrif þessara breytinga eru aukin hagkvæmni og skilvirkni í störfum kærunefndar útlendingamála sem auk viðeigandi fjölda starfsmanna nefndar eftir álagi hverju sinni ætti að leiða til þess að málsmeðferðartími hjá nefndinni ætti að styttast.
    Í 2. mgr. er formanni veitt heimild til þess að úrskurða einum í ákveðnum teg­undum af málum sem nefndin hefur til meðferðar, málum er varða vegabréfsáritanir, ákvarðanir er snerta málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, frestun réttaráhrifa í tengslum við ákvarðanir Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar. Einnig hefur formaðurinn heimild til að úrskurða einum í málum er varða umsókn um hæli ef kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki og Útlendingastofnun hefur afgreitt málið á grundvelli forgangsmeðferðar skv. b-, c-, d-, e- og f-lið 1. mgr. 29. gr.
    Í 3. mgr. er meiri hluta fullskipaðrar nefndar veitt heimild til að fela formanni að úrskurða einum í málum þar sem skýr fordæmi og framkvæmd eru til staðar. Er þá miðað við að nefndin geti falið formanni að úrskurða einum í tilteknum teg­undum dvalarleyfismála eða öðrum málum sem heyra undir nefndina þar sem ekki sé nauðsynlegt í ljósi skýrrar framkvæmdar að afgreiða slík mál í deild. Formaður skal hins vegar vísa slíku máli til nefndarinnar telji hann að fyrir hendi sé efnislegur vafi um þau málsatvik og lagaatriði sem verulega þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins. Með málsatvikum getur t.d. verið átt við aðstæður í heima- eða móttökuríki. Er í frumvarpinu sleginn sá varnagli að ákvarða skuli mál samkvæmt því í samræmi við 1. mgr. ef formaður telur að efnislegur vafi sé á niðurstöðu máls eða vafi sé á að málsatvik hafi verið rannsökuð á fullnægjandi hátt. Þótt ætla megi að nefndin leggi ákveðið mat á það hvenær slík heimild samkvæmt þessari málsgrein er nýtt skal almennt miðað við að ákvæðið sé túlkað þröngt. Með breytingum skv. 2. og 3. mgr. er leitast við að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni nefndarinnar í samræmi við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum, sbr. athugasemdir ýmissa hagsmunaaðila í málaflokknum. Mál sem falla undir 2. og 3. mgr. skulu ákvörðuð í samræmi við 1. mgr. ef formaður telur að efnislegur vafi sé á niðurstöðu máls eða vafi sé á að málsatvik hafi verið rannsökuð á fullnægjandi hátt.
    Ákvæði 5. mgr. heimila nefndinni að kalla sér til ráðgjafar sérfróða aðila eftir þörfum. Heimildin er mikilvæg þar sem reynt getur á ólík atriði við úrlausn þeirra mála sem nefndinni eru falin í hinum ýmsu lögum. Þeir ráðgjafar, sem nefndin getur leitað til samkvæmt þessari grein, eiga ekki sæti í nefndinni við úrlausn mála. Um hæfiskröfur, sem gerðar verða til þeirra, fer eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar.
    6. mgr. greinir frá því hvernig málum lýkur hjá nefndinni, þ.e. með staðfestingu ákvörðunar, breytingu hennar, andstæðri niðurstöðu eða vísun til baka til þeirrar stofnunar sem tók ákvörðunina. Í þessu felst að kærunefndin er bær til að meta allar hliðar máls, formlegar og efnislegar.
    Í 7. mgr. er kveðið á um að málflutningur skuli að jafnaði vera skriflegur og er það í samræmi við íslenska stjórnsýsluframkvæmd. Með frumvarpinu er nefndinni veitt rýmri heimild til þess að meta í hvaða málum þörf er á að kærandi komi sjálfur fyrir nefndina en umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sæta hefðbundinni efnismeðferð vegna umsóknar eiga rétt á því óski þeir þess. Fyrst og fremst er sú ástæða lögð til grundvallar að trúverðugleiki geti verið ráðandi þáttur við ákvarðanatöku og því sé bæði sanngjarnt og mannúðlegt að umsækjendur geti eftir atvikum komið sjónarmiðum sínum beint á framfæri við nefndina. Þrátt fyrir að þetta fyrirkomulag sé ekki algengt í íslenskri stjórnsýslu er talið mikilvægt að fara þessa leið að hluta til, til að treysta enn frekar réttláta málsmeðferð í svo veigamiklum málum sem umsóknir um alþjóðlega vernd eru. Hafi formanni verið falið að úrskurða einum í máli sem fellur undir 2. mgr. skal mat á því hvort gefa eigi viðkomandi kost á að koma fyrir nefndina vera í höndum formanns. Ef í ljós kemur að lokinni slíkri fyrirtöku að uppi sé efnislegur vafi um málsatvik og lagaatriði er gert ráð fyrir því að málið breyti um farveg og fari til úrskurðar hjá fullskipaðri nefnd.
    Þá er nefndinni fengin heimild til að kalla í fyrirtöku umsækjendur um önnur dvalarleyfi, eða aðra aðila máls, og gefa þeim færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri enda telji nefndin ríka ástæðu til þess. Má ætla að þetta geti gagnast í málum sem einnig geta varðað trúverðugleika, svo sem þegar grunur er um málamyndahjúskap eða í málum er varða sameiningu fjölskyldu. Á þessi heimild ekki einungis við um umsækjanda dvalarleyfis heldur er nefndinni heimilt að kalla til sín aðra er málið varðar.
    Loks kemur fram að formaður eða varamaður hans stýri störfum nefndarinnar við umfjöllun máls. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
    Þá er kveðið á um það í 8. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um störf kærunefndarinnar.

Um 9. gr.

    Ákvæðið um flóttamannanefnd er nýmæli þrátt fyrir að slík nefnd hafi verið starfandi með breytilegum hætti síðan 1956 þegar Ísland tók í fyrsta sinn formlega á móti hópi flóttafólks. Nefndin var sett á laggirnar árið 1995 og hét þá Flóttamannaráð Íslands. Með tímanum breyttist hlutverk nefndarinnar og um leið nafn hennar í flóttamannanefnd. Nefndin hefur starfað í umboði ráðherra félagsmála þrátt fyrir að vera samstarfsverkefni nokkurra ráðuneyta og að fjármögnun hafi að stærstum hluta komið frá ráðuneyti utanríkismála þar sem fjármögnunin er hluti af framlagi Íslands til þróunarsamvinnu. Nefndin hefur unnið í samræmi við ákvæði í lögum um útlendinga sem segir að Útlendingastofnun skuli heimila hópum flóttamanna komu til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda að fenginni tillögu Flóttamannaráðs Íslands.
    1. mgr. fjallar um hvernig flóttamannanefnd skuli skipuð og hverjir skuli eiga sæti í henni. Lögð er til sú breyting að fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi Útlendingastofnunar og fulltrúi Rauða krossins á Íslandi verði í nefndinni sem áheyrnarfulltrúar. Sveitarfélög gegna viðamiklu hlutverki í móttöku flóttafólks og með hliðsjón af því er komið til móts við ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga um að eiga fulltrúa í nefndinni, ekki síst til að tryggja samræmingu þjónustu á milli sveitarfélaga og árangursríkt samstarf. Rauði krossinn hefur unnið lengi að málefnum flóttafólks og hefur víðtæka þekkingu á málaflokknum og því er talið mikilvægt að fulltrúi samtakanna sitji á fundunum en þá sem áheyrnarfulltrúi. Þá var talið mikilvægt að Útlendingastofnun væri með áheyrnarfulltrúa í flóttamannanefnd með tilliti til hlutverks stofnunarinnar og sérþekkingar í málaflokknum. Að öðru leyti er skipan nefndarinnar í samræmi við það fyrirkomulag sem hefur verið undanfarin ár.
    2. mgr. fjallar um hlutverk nefndarinnar sem er m.a. að leggja til við ríkisstjórn Íslands heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa, hafa yfirumsjón með móttöku hópanna og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er. Meginverkefni flóttamannanefndar er að leggja fram tillögur til ríkisstjórnarinnar að höfðu samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um móttöku kvótaflóttafólks og hafa umsjón með aðstoð og þjónustu við það. Áður en ákvörðun liggur fyrir skal Útlendingastofnun fjalla formlega um hvert mál og staðfesta að ekki séu annmarkar á því að veita viðkomandi einstaklingum vernd á Íslandi.
    3. mgr. lýsir mikilvægi þess að flóttamannanefnd starfi náið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna við ákvörðun um val á flóttafólki, undirbúning og eftirfylgni.
    Samkvæmt 5. mgr. er ráðherra heimilt að setja reglugerð um störf nefndarinnar og önnur verkefni sem ráðherra getur falið nefndinni að vinna.

Um 10. gr.

    1. mgr. felur í sér almenna tilvísun til þess að við meðferð mála samkvæmt lögunum skuli fara eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, nema annað leiði af öðrum ákvæðum laganna. Mál samkvæmt lögunum falla undir stjórnsýslu ríkisins og því gilda stjórnsýslulögin um þau. Í þeim tilvikum sem frumvarpið hefur að geyma sérákvæði gilda þau ákvæði.
    Í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um að ákvarðanir er varða barn skuli teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi. Barni skuli ávallt veittur réttur til að tjá sig og tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska en ákvæði þar um er m.a. að finna í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í barnalögum.

Um 11. gr.

    Greinin er samhljóða 25. gr. gildandi laga eftir breytingar árið 2010 fyrir utan nokkrar viðbætur sem eru til komnar vegna breytinga á öðrum ákvæðum er varða þau réttindi sem skylda er að leiðbeina um samkvæmt þessu ákvæði. Greininni er skipt upp eftir því hvort annars vegar um brottvísun, frávísun eða afturköllun leyfis er að ræða eða umsókn um hæli hins vegar.
    1. mgr. lýsir leiðbeiningarskyldu við brottvísun, frávísun eða afturköllun leyfis. Í a-lið er lýst rétti til að leita aðstoðar lögmanns á eigin kostnað, í b-lið rétti til að fá skipaðan talsmann við mál á kærustigi og í c-lið er lýst rétti til að hafa samband við mannúðar- og mannréttindasamtök. 2. mgr. lýsir sérstökum leiðbeiningum sem veita skal umsækjanda um alþjóðlega vernd, m.a. um rétt hans til löglærðs talsmanns við alla stjórnsýslumeðferð, auk réttar til þjónustu túlks og réttar hans til að hafa samband við ýmis samtök er geta veitt honum liðsinni. Leiðbeiningarskylda hvílir á öllum stjórnvöldum og einskorðast ekki við framangreind atriði heldur skal leitast við að veita útlendingi eins miklar upplýsingar um mál hans og kostur er. Efni greinarinnar takmarkar ekki með neinum hætti rétt útlendings til að hafa samband við eða fá liðsinni hvers sem hann óskar.
    Í skýrslu nefndar sem starfaði árið 2009 og fjallaði um meðferð hælisumsókna kom fram að ábyrgð íslenskra stjórnvalda á að tryggja að upplýsingar bærust hælisleitendum með skýrum hætti væri rík. Mikilvægt væri að tilkynningar, bréf og ákvarðanir frá Útlendingastofnun bærust hælisleitanda tryggilega og að tryggt væri að hann skildi efni viðkomandi skjals. Vísaði nefndin sérstaklega til álits umboðsmanns Alþingis frá 1. apríl 2009 í máli nr. 5261/2008 sem varðaði birtingu ákvörðunar um brottvísun sem skýrt dæmi um að stjórnvöld hefðu ekki gengið úr skugga um að þessi þáttur málsmeðferðar væri í lagi en sömu sjónarmið ættu við um mál um frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis.
    Í ákvæðinu er tilgreint að leiðbeiningarnar skuli veittar á máli sem ætla má að útlendingurinn geti skilið. Er það ekki einskorðað við móðurmál hans enda getur komið upp sú staða að stjórnvöld hafa ekki tök á að kalla til þjónustu einstakling sem talar sama tungumál og einstaklingur sem um ræðir. Þó er sanngjarnt að leggja þær skyldur á stjórnvöld að reyna eftir fremsta megni að kynna ákvörðun á tungumáli sem ætla má að viðkomandi geti skilið. Jafnframt er lögð sú skylda á stjórnvald sem veitir leiðbeiningarnar að ganga úr skugga um að þær hafi komist til skila, ef kostur er.
    Í 3. mgr. er vísað í 7. gr. stjórnsýslulaga og er mikilvægt að stjórnvöld líti á leiðbeiningarskyldu sína í eins víðum skilningi og kostur er.

Um 12. gr.

    Ákvæðið er í flestu samhljóða 24. gr. laga nr. 96/2002. Þegar útlendingur beinir til stjórnvalda umsókn samkvæmt lögunum ætti afstaða hans að hafa komið fram á fullnægjandi hátt og því þyrfti venjulega ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málið. Réttur útlendings til að tjá sig skriflega er ekki fyrir hendi þegar honum ber að tjá sig munnlega við landamæraeftirlit eða lögreglu.
    Samkvæmt 2. mgr. skal stjórnvald eftir því sem unnt er sjá um að í máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd eða máli þar sem ákvæði 42. gr. eiga við, svo og í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun dvalarleyfis, eigi útlendingur kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tungumáli sem hann getur tjáð sig á svo að viðunandi sé. Þetta felur ekki í sér rétt útlendings til að leggja fram sjónarmið á eigin máli eða máli heimalands. Af ákvæðinu leiðir að stjórnvaldinu ber að útvega túlk þegar þess er þörf þannig að útlendingurinn geti tjáð sig svo að viðunandi sé. Stjórnvaldi ber að sjá til þess að útlendingurinn hafi hæfilegan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Frestur ræðst af eðli ákvörðunar hverju sinni og kann því að vera stuttur í málum vegna frávísunar. Frest má þó ekki ákvarða svo stuttan að útlendingurinn eigi ekki raunverulegan kost á að tjá sig.

Um 13. gr.

    Greinin byggist á 34. gr. gildandi laga um útlendinga og kveður á um rétt útlendings til réttaraðstoðar. Nauðsynlegt þykir að útlendingi gefist kostur á réttaraðstoð í tilteknum málum er varða mikilsverða hagsmuni hans. Er um að ræða skipun verjanda eða talsmanns úr hópi lögmanna við meðferð mála fyrir dómi og skipun talsmanna við meðferð mála hjá stjórnsýslu. Ákvæði þetta á við um umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem og aðra útlendinga en aukin réttaraðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd er tilgreind í 30. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. skal skipa útlendingi verjanda í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála þegar krafist er gæsluvarðhalds skv. 115. gr. Um greiðslu vegna starfa verjanda fer jafnframt í samræmi við sakamálalög.
    Samkvæmt 2. mgr. skal skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna þegar fyrir dómi er krafist aðgerða skv. 109., 110. eða 114. gr. Hlutverk talsmanns er að koma fram fyrir hönd útlendings og gæta hagsmuna hans.
    Samkvæmt 3. mgr. á útlendingur einnig rétt á að það stjórnvald sem hefur kærumál hans til meðferðar skipi honum talsmann þegar kærð er ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun dvalarleyfis. Undanþegin eru þó nánar tiltekin mál þar sem ekki eru talin efni til að mæla sérstaklega fyrir um réttaraðstoð. Þegar talsmaður er skipaður við meðferð máls fyrir stjórnsýslu þykir ekki nauðsynlegt að gera kröfu um að hann sé lögmaður eins og þegar talsmaður er skipaður skv. 1. og 2. mgr. Er þetta í samræmi við gildandi löggjöf.
    Samkvæmt 4. mgr. á útlendingur rétt á að kostn­aður hans við lögfræðiaðstoð meðan öflun upplýsinga fer fram fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði.
    Samkvæmt 5. mgr. greiðist kostn­aður vegna starfa talsmanns úr ríkissjóði en heimilt er að krefja útlending um endurgreiðslu kostnaðarins að hluta til eða að öllu leyti.
    Samkvæmt 6. mgr. skal ráðherra setja reglugerð en nauðsynlegt þykir að tilgreina reglur um réttaraðstoð og talsmenn, þar á meðal um fjárhæð þóknunar til talsmanna, þau skilyrði sem talsmenn þurfa að uppfylla og endurgreiðslur útlendings á kostnaði vegna starfa talsmanns.

Um 14. gr.

    Greinin kveður á um upplýsinga- og tilkynningarskyldu útlendinga og er sambærileg 53. gr. gildandi laga. Ekki er ætlast til að lögð verði frekari skylda á útlendinga en nauðsynlegt er.
    Samkvæmt 1. mgr. er útlendingi skylt að kröfu lögreglunnar að sýna skilríki og, ef þörf krefur, veita upplýsingar svo að ljóst verði hver hann er og um lögmæti dvalar hans í landinu. Ákvæðið gildir um útlendinga sem dveljast í landinu en um útlending, sem kemur til landsins, gilda ákvæði 19. gr. Skilríki, sem áskilin eru, geta verið vegabréf eða annað kennivottorð sem er viðurkennt sem ferðaskilríki, sbr. 19. gr., en annars konar skilríki mundu og geta verið fullnægjandi, t.d. ökuskírteini, nafnskírteini með mynd og greiðslukort með mynd. Bent skal á að skv. 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er lögreglunni heimilt að krefjast þess að hver maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar. Ef útlendingur getur ekki gert grein fyrir sér eða hann sýnir ekki skilríki getur komið til að beita þurfi úrræðum skv. XIII. kafla. Hér má og nefna b-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga en þar er ákvæði sem heimilar lögreglu að handtaka þann sem hefur hér ekki landvistarleyfi.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til að setja reglur um skyldu útlendinga til að bera vegabréf eða annað kennivottorð við dvöl hér á landi. Tekið er fram að norrænir ríkisborgarar skuli undanþegnir þeirri skyldu, sbr. samkomulag Norðurlandanna um það efni, auk þess sem ákveða má að aðrir útlendingar skuli undanþegnir.
    Upplýsingaskylda skv. 3. mgr. hvílir aðeins á einstaklingi sem er aðili máls sem er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Er honum gert skylt að mæta sjálfur og veita upplýsingar sem geta haft þýðingu við úrlausn máls. Stjórnvald sem fer með mál, eftir atvikum lögregla eða Útlendingastofnun, getur lagt þessa skyldu á einstaklinga.

Um 15. gr.

    1. og 3. mgr. eru efnislega sambærilegar 26. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Með greininni er lagt til að stjórnvöldum sem fara með málefni útlendinga verði heimilt að láta erlendum stjórnvöldum í té upplýsingar um útlending vegna meðferðar á máli er varðar vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd að því marki sem nauðsynlegt er vegna skuldbindinga Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu og samstarfi samkvæmt Dyflinnarsamningnum. Einnig er lagt til að ráðherra geti sett nánari reglur um hvaða upplýsingar megi veita og um skilyrði sem þarf að fullnægja til að upplýsingar verði veittar. Þessi heimild er til að fullnægja þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir með þátttöku í Schengen-samstarfinu.
    Í Schengen-samstarfinu er í ákveðnum tilvikum gert ráð fyrir upplýsingagjöf milli þátttökuríkjanna um málefni sem varða útlendinga. Skv. 16. gr. Schengen-samningsins skal ríki sem gefur út vegabréfsáritun til útlendings af mannúðarástæðum eða vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga, þótt hann fullnægi ekki skilyrðum fyrir komu inn á Schengen-svæðið, gera öðrum ríkjum grein fyrir þeirri ákvörðun. Í slíkri tilkynningu þarf að veita upplýsingar um viðkomandi útlending, svo sem nafn, fæðingardag, þjóðerni, útgáfudag og útgáfustað áritunar og ástæður fyrir útgáfu hennar. Nánari reglur um miðlun upplýsinga vegna vegabréfsáritana er að finna í 14. viðauka við sam­eigin­leg fyrirmæli til sendiráða og ræðisskrifstofa. Einnig er gert ráð fyrir að upplýsingum um útlendinga verði miðlað milli þátttökuríkjanna vegna útgáfu dvalarleyfis til útlendings sem er skráður í Schengen-upplýsingakerfið til að honum verði meinuð koma á svæðið, sbr. 25. gr. Schengen-samningsins. Þá er gert ráð fyrir miðlun upplýsinga skv. 15. gr. Dyflinnarsamningsins, svo sem nánar var rakið í almennum athugasemdum. Eftir því sem samstarf þátttökuríkjanna þróast má gera ráð fyrir að teknar verði ákvarðanir um frekari upplýsingagjöf milli ríkjanna um málefni sem varða útlendinga.
    2. mgr. er nýmæli og er greininni ætlað að koma í veg fyrir að stjórnvöld eigi, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., samskipti um mál umsækjenda um alþjóðlega vernd við þá aðila sem hafa verið valdir að ofsóknum eða annarri meðferð er getur verið grundvöllur réttar til verndar. Yfirleitt er um að ræða stjórnvald í heimalandi en þetta getur einnig eftir atvikum átt við aðra aðila. Iðulega ætti að vera ljóst við meðferð máls hverjir þetta eru en ef vafi leikur á hvort það getur skapað hættu fyrir umsækjanda um alþjóðlega vernd eða fjölskyldu hans að miðla um hann upplýsingum skulu stjórnvöld ganga úr skugga um það áður en upplýsingum er dreift.

Um 16. gr.

    Greinin samsvarar 28. gr. gildandi laga um útlendinga og fjallar um heimild útlendings og stjórnvalds sem fer með mál hans samkvæmt lögunum til að afla upplýsinga fyrir dómi. Greinin felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rannsóknarskyldu stjórnvalds. Bæði stjórnvald og útlendingur geta lagt fram beiðni. Skilyrði er að upplýsinganna verði ekki aflað á annan hátt svo að fullnægjandi sé. Sem dæmi má nefna að nauðsynlegt þyki að yfirheyra vitni í þágu rannsóknar máls en viðkomandi neiti að tjá sig fyrir stjórnvaldi. Það er dómari sem ákveður hvort skilyrði eru til að fallast á beiðni. Um meðferð mála er vísað til XII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Samkvæmt 2. mgr. gildir heimild til öflunar gagna fyrir dómi ekki þegar til meðferðar er mál gegn útlendingi um frávísun. Heimildin tekur þá ekki heldur til máls samkvæmt lögunum sem er til meðferðar samtímis máli vegna frávísunar, t.d. beiðni um alþjóðlega vernd. Nauðsynlegt er að meðferð máls vegna frávísunar sé hraðað. Því þarf að koma í veg fyrir að útlendingur geti notað heimild til að leita eftir skýrslutöku fyrir dómi í þeim tilgangi að tefja mál. Þá tekur heimildin ekki heldur til öflunar gagna þegar sá sem óskað er að gefi skýrslu fyrir dómi er erlendis.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um heimild Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála, Þjóðskrár Íslands og lögreglu til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd laganna. Er einnig ráðgert að heimilt verði eftir þörfum við vinnslu persónuupplýsinga að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar, lögreglu, skattyfirvalda, ­sveitarfélaga og Þjóðskrár. Geta slík upplýsingaskipti milli stjórnvalda verið mjög mikilvæg fyrir framkvæmd laganna, t.d. að Útlendingastofnun geti fengið upplýsingar úr málaskrá lögreglunnar, sem tengjast brotastarfsemi útlendings, sem mundi koma í veg fyrir að honum yrði veitt dvalarleyfi. Eins leiðir ákvæðið til þess að lögregla fær skýra heimild til aðgangs að upplýsingum annarra stofnana um það hvort útlendingur er með tilskilin leyfi þegar lögregla sinnir eftirliti með útlendingum. Hafa ber í huga að sérreglur gilda áfram um takmörkun aðgangs að upplýsingum lögreglu í tengslum við Schengen-upplýsingakerfið, sbr. ákvæði laga nr. 16/2000. Ákvæðið felur jafnframt í sér heimild fyrir Útlendingastofnun til að tilkynna Þjóðskrá Íslands um brottvísun útlendinga og EES- og EFTA-borgara skv. XIII. og XIV. kafla frumvarpsins vegna skráningar í þjóðskrá. Með sama hætti væri Útlendingastofnun heimilt að tilkynna Þjóðskrá Íslands hvort endurkomubann sé tímabundið eða varanlegt og jafnframt ef endurkomubann er fellt úr gildi.
    Upplýsingar um afbrot teljast viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Þessi heimild til vinnslu persónuupplýsinga tekur mið af 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga en þar er gert ráð fyrir að ákvæði annarra laga mæli fyrir um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Það skal áréttað sérstaklega að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þessu ákvæði er einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt er með hliðsjón af lögbundnu hlutverki Útlendingastofnunar. Um meðferð stofnunarinnar á persónuupplýsingum fer eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og á það einnig við um eftirlit Persónuverndar með vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnuninni.
    Í 2. mgr. er lögð sú skylda á hendur stofnununum að afhenda upplýsingar um möguleg lögbrot til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds ef þær verða slíks áskynja í störfum sínum. Er með þessu verið að undirstrika mikilvægi þess að opinberar stofnanir starfi saman að því markmiði að farið sé að lögum og reglum hér á landi. Sambærilegt ákvæði er í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
    3. mgr. er nýmæli og er henni ætlað að tryggja að Hagstofa Íslands geti uppfyllt skyldur sínar í samræmi við lög nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð.
    Samkvæmt 4. mgr. skal ráðherra, að fenginni umsögn Persónuverndar, setja reglur um hvaða skrár skulu haldnar af Útlendingastofnun og lögreglu.

Um 18. gr.

    Í greininni er fjallað um landamæraeftirlit og er gert ráð fyrir að slíku eftirliti verði hagað í samræmi við þær reglur sem gilda innan Schengen-samstarfsins. Greinin er nær samhljóða 4. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Samkvæmt 1. mgr. skal hver sá útlendingur sem kemur til landsins þegar í stað gefa sig fram við landamæraeftirlit eða næsta lögregluyfirvald. Sama skylda hvílir einnig á þeim sem fer af landi brott. Þessi skylda hvílir ekki aðeins á útlendingum heldur einnig íslenskum ríkisborgurum. Ákvæðið tekur mið af ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 562/2006 um för yfir landamæri, sbr. áður 6. gr. Schengen-samningsins, þar sem gert er ráð fyrir eftirliti á landamærum bæði við komu og brottför af Schengen-svæðinu. Eftirlitinu ber að haga í samræmi við þá grein samningsákvæðis reglugerðar um för yfir landamæri en í grófum dráttum má segja að það feli í sér athugun á því hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir komu og brottför af Schengen-svæðinu. Þessi könnun á m.a. að taka tillit til þess hvort fyrir hendi sé eitthvert þeirra atriða sem leiða á til þess að útlendingi verði vísað frá við komu til landsins, sbr. 98. gr. frumvarpsins. Eftirlit samkvæmt þessari grein á við um ytri landamæri Schengen-svæðisins og gildir því gagnvart þeim sem koma frá ríkjum sem ekki taka þátt í því samstarfi. Beinlínis er tekið fram að eftirlitið eigi ekki við um þá sem fara yfir innri landamæri Schengen-svæðisins og er hér fylgt ákvæðum 1. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins um að persónueftirliti skuli ekki framfylgt við för yfir innri landamæri.
    Með innri landamærum er átt við sam­eigin­leg landamæri þátttökuríkjanna á landi, svo og flughafnir fyrir innansvæðisflug og hafnir fyrir reglubundnar ferjusiglingar sem eru ein­göngu á milli hafna á yfirráðasvæðum þátttökuríkjanna án viðkomu í höfnum sem eru utan þessara yfirráðasvæða, sbr. skilgreiningu í 1. gr. samningsins. Frá tilkynningarskyldu má að öðru leyti víkja með reglum sem ráðherra setur. Slík undanþága gæti t.d. náð til þeirra sem eru í á­höfn skips eða loftfars og munu halda áfram störfum. Afnám persónueftirlits á innri landamærum hefur hins vegar engin áhrif á tollgæslu þar sem 4. mgr. 2. gr. samningsins um eftirlit með vörum gildir ekki gagnvart Íslandi og Noregi, sbr. 1. hluta viðauka A við Brussel- samning um þátttöku Íslands og Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerða frá 18. maí 1999.
    Í 2. mgr. segir að koma til landsins og för úr landi skuli fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem ráðherra ákveður. Þetta ákvæði er efnislega samhljóða 1. mgr. 3. gr. Schengen-samningsins og í samræmi við gildandi reglur, sbr. reglugerð um landamærastöðvar og tilkynningarskyldu flytjenda, nr. 223/2001. Reglur um þetta má finna í reglugerð nr. 1212/2007 um för yfir landamæri.
    Samkvæmt 3. mgr. setur ráðherra nánari reglur um komu- og brottfarareftirlit, sbr. 6. gr. Schengen-samningsins, svo og um undantekningu frá ákvæðum 1. og 2. mgr. og er þá höfð hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins sem felur í sér heimild til að taka upp tímabundið persónueftirlit á innri landamærum vegna allsherjarreglu eða þjóðaröryggis. Einnig eru þar settar reglur um skyldu stjórnanda skips eða loftfars til að ganga úr skugga um að ferðamenn hafi gild ferðaskilríki.
    Með 4. mgr. er ráðherra heimilað að setja reglur um þátttöku í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á landamærum á grundvelli Schengen- samstarfsins. Með Schengen-samningnum var eftirlit með ferðum manna yfir innri landamæri samningsríkjanna fellt niður en eftirlitið á ytri landamærum ríkjanna styrkt. Þátttaka í sam­eigin­legum verkefnum á þessu sviði er Íslandi mikilvæg og þykir þess vegna rétt að heimila ráðherra að setja nánari reglur um það hvernig samstarfinu skuli háttað í framkvæmd, þ.e. þegar það kallar ekki á að gerðar séu breytingar á lögum.

Um 19. gr.

    Greinin er sambærileg 5. gr. gildandi laga um útlendinga og fjallar um skyldu útlendinga til að hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki við komu til landsins, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Undanþága frá vegabréfaskyldu getur leitt af samningum við önnur ríki, sbr. samkomulag Norðurlandanna frá 1954 um það efni.
    Í 2. mgr. er lagt til að Útlendingastofnun geti, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða önnur viðurkennd skilríki en leiðir af almennum reglum. Slík undanþága kann að verða veitt fyrir fram og þá meðhöndluð á svipaðan hátt og umsókn um vegabréfsáritun. Vafi kann og að leika á við komu til landsins. Ákvörðun um slíka undanþágu verður að byggjast á mati á aðstæðum hverju sinni.
    Þá er í 3. mgr. gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hvaða skilyrðum vegabréf eða annað kennivottorð þurfi að fullnægja til að teljast gilt til ferðar til landsins og dvalar. Helstu kröfur, sem gerðar eru til vegabréfs, eru að það sé gefið út af þar til bæru yfirvaldi í því ríki þar sem handhafinn er ríkisborgari, að það veiti handhafa þess rétt til að koma aftur til útgáfuríkisins eða þriðja ríkis og að það hafi að geyma fullnægjandi upplýsingar svo að greina megi hver handhafi þess er. Þá þarf vegabréf að bera með sér að það sé í gildi. Ýmis önnur ferðaskilríki eru viðurkennd sem ferðaskilríki í stað vegabréfs, svo sem kennivottorð gefin út af ýmsum ríkjum á meginlandi Evrópu. Samkvæmt EES-samningnum er skylt að viðurkenna slík kennivottorð gefin út í aðildarríkjunum. Hér koma einnig til álita önnur skilríki, t.d. ferðaskírteini fyrir sjómenn (sjóferðabækur) o.fl. Um lista viðurkenndra ferðaskilríkja vísast til viðauka við reglugerð nr. 1212/2007 um för yfir landamæri.

Um 20. gr.

    Í greininni er fjallað um vegabréfsáritanir og er hún að mestu leyti samhljóða 6. gr. gildandi laga um útlendinga. Í 1. mgr. er lagt til að meginreglan verði sú að útlendingur þurfi að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins. Ef áritunarskyldur útlendingur kemur til landsins án áritunar er heimilt að vísa honum frá landi skv. a-lið 1. mgr. 98. gr. Ráðherra getur sett reglur um að áritunar sé ekki þörf. Þessar undanþágur geta varðað ríkisborgara einstakra landa, eftir atvikum bundið við tiltekin erindi, t.d. ferðamenn, svo sem verið hefur. Slíkar undanþágur byggjast að sumu leyti á gagnkvæmum samningum ríkja en geta einnig verið ákveðnar einhliða. Í inngangsorðum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins kemur fram að löndin „vilja í meginatriðum stefna að því að samræma kröfur um vegabréfsáritun og vilja leitast við að koma á samræmdum venjum að því er snertir veitingu vegabréfsáritana“. Þá segir í 9. gr. Schengen-samningsins að Ísland hafi með þátttöku í Schengen-samstarfinu skuldbundið sig til að fylgja sam­eigin­legri stefnu í málefnum sem varði för fólks, „sérstaklega með tilliti til reglna um vegabréfsáritanir“. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir (vegabréfsáritunarreglurnar, e. Visa Code), sem tók við af 3. kafla II. bálks samningsins, eru síðan nánari ákvæði um vegabréfsáritanir. Í reglum sem ráðherra setur er gert ráð fyrir að mælt verði fyrir um hvenær lögreglunni skuli heimilt samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar, og að nánari skilyrðum fullnægðum, að leyfa útlendingi land­göngu sem kemur til landsins án áritunar.
    Vegabréfsáritun felur í sér heimild fyrir handhafa áritunarinnar til að koma til landsins og dveljast hér í tiltekinn tíma. Þessi heimild er þó háð almennum takmörkunum sem gilda um rétt til að koma til landsins og dveljast hér á landi, þar á meðal reglum um frávísun. Ástæða þessa er bæði sú að könnun, sem fram fer við meðferð á umsókn um vegabréfsáritun, byggist oft á ótraustum forsendum en einnig að aðstæður útlendingsins eftir að áritunin var gefin út kunna að hafa breyst. Þar með geta skapast forsendur fyrir því að vísa viðkomandi frá landi eða úr landi. Vegabréfsáritun getur hvort heldur verið færð inn á vegabréf eða gefin út á sérstöku skjali.
    Í 2. mgr. kemur fram að útlendingur sem hefur dvalarleyfi útgefið af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu er undanþeginn áritunarskyldu. Þetta markast af því að útlendingur með slíkt leyfi getur ferðast frjálst um yfirráðasvæði hinna Schengen-ríkjanna í allt að 90 daga, sbr. 1. mgr. 21. gr. Schengen-samningsins og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 562/2006, um för yfir landamæri, sem leysti af hólmi hluta samningsins. Í 1. gr. samningsins kemur fram að með dvalarleyfi er átt við leyfi sem þátttökuríki gefur út og veitir rétt til dvalar á yfirráðasvæði þess. Með dvalarleyfi er hins vegar ekki átt við bráðabirgðaleyfi til dvalar á yfirráðasvæði þátttökuríkis á meðan beiðni um alþjóðlega vernd eða umsókn um dvalarleyfi er til meðferðar. Skv. 2. mgr. 21. gr. samningsins hefur útlendingur með slíkt bráðabirgðaleyfi og ferðaskilríki útgefin af sama ríki sömu heimild til að ferðast um Schengen-svæðið og útlendingur með dvalarleyfi. Því er lagt til að útlendingur með þessi leyfi verði einnig undanþeginn áritunarskyldu.
    Í 3. mgr. segir að vegabréfsáritun, sem gefin er út af ríki sem tekur þátt í Schengen- samstarfinu, hafi gildi hér á landi. Þetta er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum skv. 9. og 10. gr. Schengen-samningsins um samræmda vegabréfsáritun og sam­eigin­lega stefnu ríkjanna í þeim málum. Til að vegabréfsáritun útgefin af öðru ríki hafi gildi hér á landi verður það að koma fram í árituninni. Í 16. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir Schengen- samningsins er gert ráð fyrir að þátttökuríkin geti gefið út vegabréfsáritun sem gildir ein­göngu fyrir viðkomandi ríki. Áritun annars Schengen-ríkis af því tagi hefur því ekki gildi hér á landi.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett reglur um skyldu til að hafa vegabréfsáritun til að fara um flugvöll. Slíkar reglur taka m.a. mið af b-lið 11. gr. Schengen-samningsins þar sem fjallað er um þessar áritanir í ákvæðum reglugerðar um vegabréfsáritanir. Áritunin er bundin við tiltekið svæði flughafnarinnar og því má viðkomandi ekki yfirgefa það og fara inn á landsvæði ríkisins.
    Samkvæmt 5. mgr. getur vegabréfsáritun gilt fyrir eina eða fleiri komur til landsins og til allt að 90 daga dvalar á nánar tilgreindu tímabili. Ákvörðun um hvort veita skuli vegabréfsáritun og til hve langs tíma hlýtur að ráðast af tilefni og öðrum ástæðum.
    Í 6. mgr. eru ákvæði um lágmarksskilyrði fyrir útgáfu samræmdrar vegabréfsáritunar sem gildir á öllu Schengen-svæðinu. Að fenginni reynslu þykir nauðsynlegt að lögin sjálf hafi að geyma slíkt ákvæði en skilyrði þessi eru nánast óbreytt færð úr 1. mgr. 6. gr. gildandi laga. Ákvæðið er heimildarákvæði fyrir útgáfu vegabréfsáritunar en felur ekki í sér skyldu stjórnvalda til slíkrar útgáfu enda er rétt að hafa hugfast að íslensk stjórnvöld eru bundin af þeim reglum sem samþykktar hafa verið á vettvangi Schengen-samstarfsins og af framkvæmd ríkja sem eru í fyrirsvari fyrir Ísland við útgáfu vegabréfsáritana.
    Í 7. mgr. er kveðið á um varnagla vegna útgáfu vegabréfsáritana ef ástæður sem varða utanríkisstefnu eða almannaöryggi mæla gegn veitingu vegabréfsáritunar. Í lokamálslið segir þó að þegar grunur leikur á að umsækjandi um vegabréfsáritun eða barn hans muni sæta misnotkun eða ofbeldi í ferð sinni hingað til lands skuli ekki veita vegabréfsáritun. Brýnt þykir að veita stjórnvöldum sérstaka heimild til að hafna umsókn um vegabréfsáritun ef hætt er við að umsækjandi eða barn hans lendi í slíkum aðstæðum en hér er um ákveðin verndarsjónarmið að ræða. Í tilvikum þar sem slíkur grunur er uppi væri til að mynda hægt að styðjast við sakaferil gestgjafa hér á landi sem yrði þá í höndum lögreglu að kanna. Í einhverjum tilvikum kann slík vitneskja að liggja fyrir án þess að leita þurfi til lögreglu eftir þeim upplýsingum. Gert er ráð fyrir að rökstuddur grunur dugi hér sem ástæða synjunar.
    Í 8. mgr. er veitt heimild til að setja reglur um vegabréfsáritanir, þar á meðal um frekari skilyrði fyrir veitingu vegabréfsáritunar. Auk þess er lagt til að lögfest verði ákveðin sjónarmið sem við skuli miða við mat á umsókn um vegabréfsáritun. Þykir rétt að bæta úr því að nú er ekki að finna neina vísbendingu um það í settum rétti eftir hvaða sjónarmiðum skuli farið þegar umsókn um vegabréfsáritun er afgreidd utan upptalningar á nokkrum ófrávíkjanlegum skilyrðum fyrir áritun í gildandi reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003. Þessi sjónarmið styðjast við markmið laganna yfirleitt og hafa mótast í framkvæmd Schengen- ríkjanna. Við mat á einstökum atriðum er nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja enda er stefnan að þessu leyti í framkvæmd mótuð að öllu verulegu leyti á sam­eigin­legum vettvangi þeirra. Leiðir það af eðli samstarfsins að mikilvægt er að samræmis sé gætt á þessu sviði svo að sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.
    Í 9. mgr. er lögð til heimild til handa ráðherra til að setja reglur um notkun og aðgang að sam­eigin­legu upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir, þar á meðal ábyrgðaraðila kerfisins, heimildir fyrir aðgangi, skráningu og uppflettingu í kerfinu, öryggi og persónuvernd við skráningu og meðferð upplýsinga. Tillöguna má rekja til þess að á vettvangi Schengen- samstarfsins hefur frá því í október 2011 verið starfrækt sam­eigin­legt upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (e. Visa Information System). Með kerfinu er átt við rafrænt gagnasafn upplýsinga frá þátttökuríkjum Schengen-samstarfsins til notkunar á öllu Schengen-svæðinu. Um upplýsingakerfið er fjallað í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2008/767.
    Í 10. mgr. er tekið fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Miðað er við að umsóknir um vegabréfsáritun verði lagðar fram í skrifstofum sendiráða og ræðisskrifstofa erlendis og þær sendar Útlendingastofnun til ákvörðunar svo sem verið hefur. Viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofa mun síðan gefa áritunina út að fenginni heimild Útlendingastofnunar. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra geti heimilað utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Slík heimild yrði veitt að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Hún gæti náð til tiltekinna sendiráða eða ræðisskrifstofa. Loks er lagt til að heimilt verði að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Með lögum nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, var bætt við 8. mgr. 6. gr. laganna málslið þess efnis að þegar sérstaklega standi á sé heimilt að fela utanríkisþjónustu ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að synja umsókn um vegabréfsáritun, sbr. 1. gr. laga nr. 83/2012. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laga nr. 83/2012 kemur m.a. fram að eitt þeirra ríkja sem annast hafi fyrirsvar fyrir Ísland við útgáfu vegabréfsáritana á undanförnum árum hafi sett fram það skilyrði fyrir áfram­haldandi fyrirsvari að það fengi heimild til að hafna umsókn um vegabréfsáritun þegar ástæða þætti til og í takt við samræmdar reglur um vegabréfsáritanir. Segir enn fremur að til að forða því að sú staða komi upp að Ísland hafi ekkert fyrirsvar í tilteknum ríkjum hafi þótt nauðsynlegt að opna fyrir heimild handa fyrirsvarsríki til að hafna umsókn um vegabréfsáritun þegar sérstaklega stæði á. Það geti t.d. átt við þegar ríki hafnar því að annast fyrirsvar nema slík heimild sé fyrir hendi. Gert sé ráð fyrir að meginreglan verði áfram sú að Útlendingastofnun fái þær umsóknir til afgreiðslu sem vafi leikur á um eða til stendur að hafna. Sú meginregla komi fram í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 810/2009 um vegabréfsáritanir (vegabréfsáritunarreglurnar, e. Visa Code) en að auki er sú meginregla mikilvæg í ljósi þess að heimild til handa fyrirsvarsríki að synja um vegabréfsáritun feli í sér framsal á valdi til töku stjórnvaldsákvörðunar. Sé því um undantekningu að ræða sem beita megi þegar sérstaklega stendur á.
    Í Schengen-samstarfinu er ein­göngu gert ráð fyrir að sendiráð og útsendir ræðismenn gefi út vegabréfsáritun. Með gildistöku Schengen-samstarfsins hefur heimild kjörræðismanna til að gefa út áritun fallið niður. Til að bæta þjónustuna við þá sem hingað ætla hefur nú verið gert samkomulag við ýmis Schengen-ríki um að sendiráð þeirra og ræðismenn annist útgáfu vegabréfsáritana hingað til lands.

Um 21. gr.

    Ákvæði 21. gr. eru nýmæli. Í framkvæmd hefur verið rætt að þörf sé á heimild til að veita vegabréfsáritun sem gildir lengur en 90 daga í ákveðnum tilvikum. Þau tilvik eiga það flest sam­eigin­legt að um er að ræða dvöl einstaklinga sem ætla að koma hingað til lands í lengri heimsóknir eða í ákveðnum tilgangi og verkefni viðkomandi taka lengri tíma en 90 daga. Hugsunin að baki ákvæðinu er að heimila komu einstaklinga hingað til lands sem ekki vilja setjast hér að en þurfa eða vilja dvelja á Íslandi í ákveðnum tilgangi sem getur ekki verið grundvöllur dvalarleyfis. Var ákveðið að fara þá leið að nýta heimild til að gefa út langtímavegabréfsáritun frekar en að veita dvalarleyfi í öllum tilvikum. Helgast það af því að mun meiri vinna liggur að baki veitingu dvalarleyfis og útgáfa dvalarleyfa er í raun óþörf í þeim tilvikum sem hér um ræðir. Ætli umsækjandi sér ekki að setjast að á Íslandi til framtíðar og ekki þiggja hér laun er þarflaust að búa til kennitölu fyrir viðkomandi og skrá hann í þjóðskrá. Mun þessi leið því vera til hagræðis bæði fyrir einstaklinginn og íslensk stjórnvöld.
    Áritanirnar eru jafnframt til hagsbóta fyrir umsækjendur því að skilyrði fyrir útgáfu þeirra eru ekki jafn ströng og fyrir útgáfu dvalarleyfis og opnar jafnframt fyrir komu hingað til lands í tilvikum sem hingað til hafa ekki fallið undir lögin. Þau tilvik geta komið upp að umsækjandi hafi fengið vegabréfsáritun til styttri tíma en 90 daga og óski eftir framlengingu. Sé óskað eftir lengri tíma en 90 dögum eiga reglur um langtímavegabréfsáritun við. Í öðrum tilvikum eiga við reglur um almenna vegabréfsáritun. Hér skal þó bent á að í gildi eru samningar milli Íslands og nokkurra ríkja sem heimila framlengingu hefðbundinna vegabréfsáritana í allt að 180 daga og halda þeir gildi sínu. Skal í þeim tilvikum skoða í samræmi við eðli máls hvort gefa skuli út langtímaáritun eða einungis framlengja vegabréfsáritunina.
    Um langtímavegabréfsáritanir er fjallað í reglugerð (EB) nr. 265/2010, sem er breytingareglugerð á reglugerð (EB) nr. 562/2006 (Schengen-landamærareglurnar, e. Shengen Border Code). Tilgangur breytingarinnar var sá að auðvelda för einstaklinga með langtímavegabréfsáritun um yfirráðasvæði aðildarríkja reglugerðarinnar. Langtímavegabréfsáritun er landsáritun, líkt og gefin er út þegar einstaklingur hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi. Hún er því ígildi dvalarleyfis að sumu leyti, t.d. heimilar hún ferðalög til og frá Íslandi eins og ef einstaklingurinn hefði dvalarleyfi. Hún veitir hins vegar minni réttindi en dvalarleyfi að öðru leyti, t.d. veitir hún ekki rétt til kennitölu eða ótímabundins dvalarleyfis. Þau tilvik sem í framkvæmd hafa verið felld undir dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs en mundu nú vera færð undir langtímavegabréfsáritun eru t.d. tilvik þar sem aðili hefur slasast eða veikst hér á landi og þörf er á að framlengja dvalarleyfi fyrir hann og aðstandanda á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur eða vegna dómsmáls sem útlendingur er aðili að og stendur yfir fyrir íslenskum dómstólum. Er þá talið eðlilegt að hann fái að vera á landinu til að sækja rétt sinn og fylgjast með framgangi mála.
    Í 1. mgr. kemur fram að veita má útlendingi sem óskar eftir lengri dvöl en 90 daga langtímavegabréfsáritun að því gefnu að tilgangur dvalar hans falli ekki undir aðra dvalarleyfisflokka og fullvíst sé að umsækjandinn ætli sér ekki að setjast að á landinu. Ekki er heimilt að endurnýja langtímavegabréfsáritun þannig að gildistími hennar verði lengri en 180 dagar nema í þeim tilvikum þar sem heimilt er að gefa út áritun til lengri tíma. Miðað er við að um sé að ræða 180 daga samfellt. Ekki er gert ráð fyrir að langtímavegabréfsáritun sé skipt niður í nokkur tímabil eins og hægt er að gera með þá 90 daga sem unnt er að fá sem almenna vegabréfsáritun. Sjónarmiðin þar að baki eru að eftir sex mánuði er í dag skylt að skrá lögheimili á Íslandi og þá getur myndast almenn skattskylda hjá útlendingi hér á landi. Hyggist umsækjandi dveljast á Íslandi umfram þennan tíma þarf viðkomandi að sækja um dvalarleyfi og sækja um það áður en vegabréfsáritun rennur út. Sé það ekki gert þarf viðkomandi að yfirgefa landið meðan umsókn er í vinnslu.
    Í 2. mgr. kemur fram að atvinnuþátttaka er almennt ekki heimil fyrir einstaklinga sem fá útgefna langtímavegabréfsáritun nema í þeim tilvikum þar sem einstaklingar falla undir lög um atvinnuréttindi útlendinga og er þá heimilt að stunda atvinnu í allt að 90 daga án atvinnuleyfis. Kemur það í hlut Vinnumálastofnunar að meta hvort starf teljist falla undir lög um atvinnuréttindi útlendinga.
    Í 4. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að útfæra nánar í reglugerð hvernig framkvæmd skuli háttað og í hvaða tilvikum gefa megi út slíkar langtímavegabréfsáritanir.

Um 22. gr.

    Greinin hefur að geyma sérreglu um áhafnir skipa og loftfara, svo og um laumufarþega. Útlendingi sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari er ekki heimilt að ganga á land án leyfis lögreglu. Ábyrgð á þessu hvílir á skipstjóra eða umboðsmanni útgerðar sem tilkynnir lögreglunni um fyrirhugaða afskráningu og leitar heimildar til land­göngu. Sama gildir um laumufarþega. Ákvæði um stjórnvald í málum vegna synjunar land­göngu og um málskot gilda eftir því sem við á. Ef laumufarþegi ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 1. mgr. 37. gr. skal leggja mál fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir sérstökum reglum um land­gönguleyfi útlendra sjómanna við dvöl skips í höfn og um heimild til að meina þeim land­göngu. Á grundvelli gildandi laga um útlendinga er í gildi reglugerð um för yfir landamæri nr. 1212/2007. Felur hún í sér ákvæði um almenna heimild áhafna til land­göngu meðan skip er í höfn, þó þannig að lögregla geti meinað þeim land­göngu ef nauðsyn ber til, auk þess sem heimild væri til eftirlits þegar ástæða þykir.

Um III. og IV. kafla.

    III. kafli greinir frá meðferð á umsókn um alþjóðlega vernd og er viðbót við almennar reglur IV. kafla. Þar er kveðið á um hlutverk stofnana og réttindi og réttarstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd. Vakin er athygli á því að samkvæmt frumvarpinu eiga nú ríkisfangslausir einstaklingar sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns og falla því einnig undir ákvæði þessa kafla, sem og önnur ákvæði er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd og þá sem slíkrar verndar njóta.

Um 23. gr.

    Ákvæðið er sambærilegt 50. gr. gildandi laga um útlendinga fyrir utan 4. mgr. sem er nýmæli.
    Samkvæmt 1. mgr. skal Útlendingastofnun taka ákvörðun í málum sem varða flóttamenn, þ.e. um vernd gegn brottvísun eða endursendingu, réttarstöðu flóttamanns og alþjóðlega vernd, svo og um ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.
    Í 2. mgr. er lögð sérstök rannsóknarskylda á Útlendingastofnun þar sem tekið er fram að hún skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra gagna við meðferð máls. Þessi skylda kemur einnig fram í 10. gr. stjórnsýslulaga. Einnig segir í ákvæðinu að upplýsinga í málum flóttamanna, ríkisfangslausra einstaklinga og þeirra sem sæta ofsóknum sé heimilt að afla frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Tekið er sérstaklega fram að þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu megi kynna Flóttamannastofnuninni efni málsskjala. Flóttamannastofnun getur komið að máli hvort heldur er að frumkvæði umsækjanda eða umboðsmanns hans eða að frumkvæði stjórnvalds. Sama heimild til að kynna efni málsskjala gildir einnig gagnvart mannúðar- og mannréttindasamtökum að því leyti sem það er nauðsynlegt í tengslum við öflun upplýsinga. Taka verður sjálfstæða afstöðu til þess hvaða samtök af því tagi skuli falla undir ákvæðið og meta hvaða skjöl skuli kynnt þeim. Þegar þessum aðilum hafa verið kynnt málsskjöl hvílir þagnarskylda á þeim.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að íslensk stjórnvöld skuli við framkvæmd og ákvarðanir í málum sem varða alþjóðlega vernd eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. samnings um réttarstöðu flóttamanna, m.a. er varðar framkvæmd og túlkun þess samnings og laga þessara.
    Í 4. mgr., sem er nýmæli, er lagt til að meðferð máls um alþjóðlega vernd á stjórnsýslustigi, skv. 36., 37. gr. og 39. gr., skuli að jafnaði ekki taka lengri tíma en sex mánuði en aldrei lengur en 12 mánuði í málum á grundvelli 1. og 2. mgr. 36. gr. um það hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar og 18 mánuði við efnismeðferð umsóknar, sbr. 37. gr. Með þessu er sett ákveðið viðmið í löggjöf um málsmeðferðartíma en slíkt er í samræmi við tillögur í skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan EFTA og EES. Styttri málsmeðferðartími á ekki að koma niður á gæðum málsmeðferðar og vandvirkni við vinnslu máls og sum mál geta kallað á lengri úrlausnartíma, svo sem vegna þess að þau eru flókin, gögn skortir eða umsækjandi vinnur ekki með stjórnvöldum. Þess ber að geta að í 31. gr. tilskipunar 2013/32/ESB um málsmeðferð er gert ráð fyrir að umsækjanda um alþjóðlega vernd skuli tilkynnt um það sérstaklega ef ekki er hægt að taka ákvörðun í máli hans innan sex mánaða eða að yfirvöld skuli tilkynna umsækjanda, eftir kröfu hans, hvenær vænta megi niðurstöðu.
    Í 5. mgr. er ráðherra fengin heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um málsmeðferð og málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og lögreglu við vinnslu mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Þar sem meginmarkmið laganna er að tryggja skilvirka og sanngjarna málsmeðferð við vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd þykir nauðsynlegt að ráðherra hafi heimild til að mæla nánar fyrir um málsmeðferðarreglur þar sem skilvirkni hvílir oftar en ekki á því að skýrar reglur gildi um meðferð mála þegar þau flytjast frá einu stjórnvaldi til annars. Þá er einnig mælt fyrir um að ráðherra geti sett reglur sem feli í sér heimildir til að úrskurða í málum með einfaldari og skilvirkari hætti með vísan til fyrri fordæma. Sú heimild er hugsuð til þess að gefa stjórnvöldum tækifæri til að hraða vinnslu mála þar sem skýr fordæmi og framkvæmd eru til staðar. Ástæða þess að þessum ákvæðum þykir betur komið fyrir í reglugerð er að þróun í málaflokknum er ör og rétt að hægt sé að aðlaga málsmeðferðarreglur að breyttum aðstæðum með skjótum hætti. Með tilvísun til einfaldari málsmeðferðar er horft til þess að hægt sé að kveða á um styttri tímafresti í málum, mæla fyrir um tiltekin atriði sem skuli sæta sérstakri skoðun og hafa aukið vægi við mat á máli. Jafnframt væri unnt að veita stofnunum og kærunefnd heimild til að fara fram á að t.d. kærum sé skilað inn á þar til gerðum eyðublöðum og efla þannig faglega yfirferð mála á skemmri tíma. Þá mætti ljá því vægi í reglugerð að aðstæður í tilteknum ríkjum hafi verið skoðaðar áður, t.d. að lagt hafi verið mat á aðstæður í öðrum ríkjum Dyflinnarsamstarfsins áður en mál eru tekin til skoðunar og að niðurstaða slíkrar skoðunar geti leitt til skjótari afgreiðslu eða að mál skuli tekið til ítarlegri skoðunar. Þá er ráðherra einnig veitt heimild til að kveða á um skemmri málsmeðferðartíma en segir í 4. mgr. Þar sem markmið stjórnvalda um skjóta og skilvirka málsmeðferð á hverjum tíma þurfa að vera skýr þykir eðlilegt að ráðherra geti gefið fyrirmæli í reglugerð um skjótari málsmeðferð, þ.m.t. að stytta kærufresti í ákveðnum teg­undum mála.

Um 24. gr.

    Greinin byggist á 50. gr. a sem kom inn í lög um útlendinga árið 2010 en felur þó í sér nokkrar breytingar.
    Í 1. mgr. er fjallað um hvar umsókn skuli lögð fram, en í flestum tilfellum er það gert hjá lögreglu á landamærum. Getur umsókn verið hvort heldur er skrifleg eða munnleg og skal hún án tafar send til Útlendingastofnunar. Í samræmi við almenn sjónarmið og leiðbeiningar samkvæmt tilskipun 2013/32/ESB um málsmeðferð er gert ráð fyrir því að allir fullorðnir aðstandendur staðfesti að þeir óski eftir alþjóðlegri vernd með sama hætti og umsækjandi.
    2. mgr. kveður á um að umsækjandi um alþjóðlega vernd og aðstandendur hans afhendi skilríki sín en það er hluti af rannsókn málsins. 3. mgr. er sambærileg 5. mgr. 50. gr. a í núverandi lögum og kveður á um upplýsingaskyldu útlendings en einnig skyldu stjórnvalds til að greina honum frá afleiðingum þess ef rangt er sagt frá.
    4. mgr. kveður á um skyldu Útlendingastofnunar til að láta í té upplýsingar um málsmeðferð o.fl. eins fljótt og unnt er til þess að umsækjandi viti hvernig umsóknarferlið er og hvert hans hlutverk er við málsmeðferðina.
    5. mgr. kveður á um að leiðbeiningarnar séu skriflegar eða aðgengilegar á mynd eða hljóðmiðli og séu á tungumáli sem sanngjarnt er að ætla að útlendingur skilji. Einnig skal tryggt að börnum séu veittar upplýsingar er samræmast aldri þeirra og þroska.
    6. mgr. kveður á um að barnaverndarnefnd sé upplýst um og komi að málum er varða fylgdarlaus börn. Er það óbreytt vinnulag frá því sem lýst er í 3. mgr. 50. gr. a í gildandi lögum.
    Heimild ráðherra samkvæmt þessu ákvæði til að setja reglugerð er fyrst og fremst ætlað að skýra verkaskiptingu stjórnvalda og aðkomu að máli í upphafi.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um það að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli gangast undir læknisskoðun svo fljótt sem verða má frá því að umsókn er lögð fram.
    Ákvæði 2. mgr. eru nýmæli og er í samræmi við tilskipun 2013/33/ESB um móttöku þar sem gert er gert ráð fyrir að við málsmeðferð skuli sérstakt tillit tekið til umsækjenda um alþjóðlega vernd sem teljast vera í viðkvæmri stöðu. Til þess að mögulegt sé að taka tillit til sérþarfa umsækjenda er nauðsynlegt að fram fari mat á aðstæðum hvers og eins. Með þessari málsgrein er tryggt að snemma í málsmeðferð fari fram heildstætt mat á stöðu umsækjenda í þessu tilliti en jafnframt lögð sú skylda á yfirvöld að einskorða ekki slíkt mat við einn tímapunkt og taka tillit til þess ef frekari upplýsingar koma fram á öðrum stigum máls. Skylda er lögð á stjórnvöld að gera ráðstafanir í því skyni að bera möguleg kennsl á og skrá einkenni og ummerki um pyndingar eða annað alvarlegt líkamlegt og andlegt ofbeldi, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi. Í reglugerð sem sett væri samkvæmt þessu ákvæði skal byggja á handbók um rannsókn og skráningu pyndinga og annarrar grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar (Istanbúlsamningurinn).
    Í 3. mgr. er áréttað að ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru og viðeigandi ákvæði I. og IX. kafla frumvarps þessa gilda ekki um ákvörðun um sérstaklega viðkvæma stöðu skv. 2. mgr. Skilgreining á stöðu skv. 2. mgr. hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð.
    Í 4. mgr. er kveðið á um meginreglu barnaréttar að varði mál barn skuli stjórnvöld hafa það að leiðarljósi sem barni er fyrir bestu. Barninu skal gefið tækifæri til að tjá sig og taka skal tillit til sjónarmiða þess í samræmi við aldur þess og þroska, sbr. 5. mgr. 24. gr. frumvarpsins. Þegar ákvörðun í máli barns er háð mati skal líta til möguleika barns á að vera með fjölskyldu sinni, til öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska. Þegar barn er fylgdarlaust eða þegar mál varðar einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu skal það eftir atvikum tryggt að starfsmaður með sérþekkingu og reynslu, sem viðeigandi er fyrir hvert tilvik fyrir sig, vinni að málinu. Þá skal starfsfólki vera tryggður aðgangur að endurmenntun og fræðslu í málaflokknum til þess að það sé í stakk búið að vinna að málum er þarfnast sérstakrar aðgæslu eða þekkingar.
    Í 5. mgr. er áréttaður réttur fylgdarlausra barna til þjónustu og meðferðar í samræmi við aldur og þroska.

Um 26. gr.

    Greinin byggist á 50. gr. b gildandi laga um útlendinga en er nokkuð breytt.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að lögregla skuli skrá umsókn en einnig er þar áréttað að ákveðnar rannsóknarheimildir skv. XIII. kafla eigi við í þessum málum.
    Upphaf 2. mgr. er óbreytt frá 1. mgr. 50. gr. b í núverandi lögum þar sem framkvæmd rannsóknarþátta og aðkoma ríkislögreglustjóra að því að sannreyna deili á umsækjanda er skýrð. Hér er lögreglu einnig áskilið að meta hvort útlendingur teljist hættulegur sjálfum sér eða öðrum og heimilað er að leggja til þætti úr mati á því hvort einstaklingur teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Með þessu mati er átt við að metnar séu líkur á því að útlendingurinn muni skaða sjálfan sig eða fremja ofbeldisglæpi eða aðra glæpi hér á landi og er lögreglu gefið nokkurt svigrúm um það til hvaða þátta skuli horft við slíkt mat.
    Ákvæði 3. mgr. er nokkuð breytt frá 2. mgr. 50. gr. b í núverandi lögum sem fjallar um sama efni. Fyrsta breyting á ákvæðinu er sú að áskilið er að aldursgreining fari fram eins ­fljótt og kostur er. Séu aðrar leiðir til að skera úr um aldur viðkomandi færar, svo sem með fáanlegum upplýsingum erlendis frá eða samtali við viðkomandi umsækjanda, er þó rétt að reyna þær áður en aldursgreining fer fram. Það er áríðandi að réttar upplýsingar um aldur liggi fyrir sem allra fyrst enda hefur það áhrif á málsmeðferð. Í annan stað er nú mælt svo fyrir að farið skuli með mál umsækjanda, sem kveðst vera barn, eins og um barn sé að ræða þar til annað kemur í ljós. Þetta er gert til að tryggja börnum alla þá vernd sem þau þurfa án þess að þau þurfi að bíða aldursgreiningar. Þykja þeir hagsmunir vega þyngra en það sjónarmið að einhverjir sem ekki eru börn kunni að fá meiri aðstoð en þeir eiga rétt á og skulu þeir einstaklingar njóta þess vafa sem er um aldur þeirra. Heimilt er að víkja frá þessu ef augljóst er að umsækjandi sem kveðst vera barn er það ekki en er þá átt við annað hvort eitthvað sem kemur fram í gögnum í fórum útlendingsins eða ef útlit og framkoma útlendingsins sýnir með augljósum hætti að viðkomandi geti ekki verið yngri en 18 ára. Í þriðja lagi er tekin út krafa um að útlendingur sé upplýstur um afleiðingar þess að neita að gangast undir aldursgreiningu en nánar er fjallað um það í 113. gr. Að öðru leyti er ákvæðið byggt á 25. gr. tilskipunar 2013/32/ESB um málsmeðferð.
    Samkvæmt 4. mgr. er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd greiningar samkvæmt þessari grein.

Um 27. gr.

    Greinin er nýmæli og kveður á um móttöku útlendinga sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi og stofnun móttökumiðstöðvar. Miðstöðin á að vera fyrsta móttöku-, greiningar- og búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd en mögulegt getur verið að samnýta þá starfsemi fyrir aðra einstaklinga í sambærilegum aðstæðum, svo sem hugsanlegra fórnarlamba mansals og útlendinga sem eru í ólögmætri dvöl hér á landi. Miðstöðin skal sett á fót með það að leiðarljósi að sérþekking í málaflokknum nýtist sem best og að umsækjandi um alþjóðlega vernd fái góða og skjóta þjónustu. Í móttökumiðstöðinni skal leitast við að mæta þörfum hvers og eins og er markmiðið að tryggja skilvirkan framgang máls viðkomandi og upplýsingaöflun. Jafnframt yrði í móttökumiðstöð leitast við að tryggja að umsækjandi fái úrræði við sitt hæfi. Gert er ráð fyrir að í móttökumiðstöð geti farið fram læknisskoðun, sálfræðiþjónusta og önnur þjónusta. Einnig færi þar fram einstaklingsbundið mat á því hvort útlendingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 2. mgr. 25. gr., og mat á því hvort viðkomandi teljist hættulegur sjálfum sér eða öðrum, sbr. 2. mgr. 26. gr., auk þess að þar gæti verið mögulegt að vera með aðstöðu til þess að vista útlendinga sem krafist er að haldi sig á ákveðnum stað, sbr. 114. gr.
    Í lokamálsgrein er sú skylda lögð á ráðherra að setja reglugerð um móttökumiðstöðina þar sem nánar er kveðið á um stofnun og almennan rekstur miðstöðvarinnar og framkvæmd á mati á því sem lýst er í 3. mgr. 25. gr. og viðmiðum sem hafa skal til hliðsjónar við slíkt mat.

Um 28. gr.

    Ákvæðið tekur mið af 50. gr. c í gildandi lögum um útlendinga en eykur nokkuð við efnislegt inntak þess.
    Í 1. mgr. er áskilið að tekið skuli viðtal við alla umsækjendur um alþjóðlega vernd, að starfsmaður Útlendingastofnunar taki viðtalið eða sérfræðingur á hennar vegum, t.d. í málum barna, og skal talsmaður vera viðstaddur. Er þetta í samræmi við tillögur nefndar um meðferð umsókna um hæli sem og tilskipun 2013/32/ESB um málsmeðferð.
    Ákvæði 2. mgr. byggjast á 3. mgr. 15. gr. í framangreindri tilskipun og kveður á um að tryggt skuli að tekið sé tillit til aðstæðna umsækjanda. Getur þá t.d. verið átt við það að umsækjandi teljist í viðkvæmri stöðu eða að taka þurfi tillit til menningar eða trúar viðkomandi umsækjanda. Einnig þarf að taka tillit til kyns viðkomandi og skulu aðilar eiga þess kost að vera spurðir af starfsmanni og túlki af sama kyni en það getur sérstaklega átt við ef meintar ofsóknir fela í sér brot á kynfrelsi einstaklings eða á einhvern hátt þannig að gagnstætt kyn gæti haft áhrif á framburð umsækjanda. Mikilvægt er einnig að allar umsóknir um alþjóðlega vernd séu skjalfestar, rannsakaðar og ákvörðun um þær tekin og að meðlimir fjölskyldu sem sækir um hæli hafi allir rétt til að tjá sig. Skulu þeir eftir fremsta megni vera teknir í viðtal einir og sér en ekki sam­eigin­lega með öðrum fjölskyldumeðlimum, t.d. ættu konur ekki að vera spurðar að eiginmönnum viðstöddum. Einnig er mikilvægt að allir fjölskyldumeðlimir, þ.m.t. börn, hafi rétt til að tjá sig og að mark sé á því tekið miðað við aldur þeirra og þroska. Viðtöl við foreldra eða forráðamenn skulu einnig fela í sér að rannsakað sé ástand barns og beiðni þess um alþjóðlega vernd.
    Í 2. mgr. er einnig kveðið á um að túlkur skuli kallaður til ef nauðsynlegt er og á það við ef talið er að viðkomandi geti ekki tjáð sig með fullnægjandi hætti á máli sem sá sem tekur viðtalið skilur. Í þessu skyni er Útlendingastofnun veitt svigrúm til þess að meta þörf fyrir túlkun og útfærslu hennar í framkvæmd.
    Í 3. mgr. er lögð sú skylda á stjórnvald að gera umsækjanda grein fyrir því hvernig upplýsingar úr viðtali eru notaðar. Einnig er þar kveðið á um það að inna skuli umsækjanda eftir samþykki fyrir gagnaöflun frá erlendum stjórnvöldum. Hann getur neitað því að slík gagnaöflun megi fara fram og þá er rétt að benda honum á að upplýsingar, sem þar gætu komið fram, gætu verið mikilvægar til stuðnings máli hans. Þá skal forðast að láta skort á þessum upplýsingum hafa neikvæð áhrif á mál útlendingsins, með tilliti til sjónarmiða sem liggja að baki ákvæðum 2. mgr. 15. gr.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að viðtal þurfi ekki að fara fram ef umsækjandi mætir ekki til viðtals tvívegis án réttmætrar ástæðu. Þetta er gert til þess að mál umsækjanda, sem mætir ekki til viðtals þrátt fyrir boðun, tefjist ekki úr hófi. Er þetta m.a. í samræmi við tilskipun 2013/32/ESB um málsmeðferð þar sem heimild er fyrir því að taka ákvörðun í máli án þess að til viðtals komi en einnig er kveðið á um það í þeirri tilskipun að slíkt skuli eitt og sér ekki leiða til neikvæðrar niðurstöðu.
    Ákvæði 5. mgr. byggist á 3. mgr. 50. gr. c gildandi laga og á 25. gr. tilskipunar 2013/32/ESB um málsmeðferð. Kveður greinin á um það hvernig viðtali við börn skuli háttað og er aðalinntak greinarinnar að þeir starfsmenn sem komi að málum er varða börn hafi sérþekkingu á málefnum og sérþörfum barna. Sé þeim ekki til að dreifa hjá stofnuninni er ætlunin að hún sæki sér aðstoð slíkra sérfræðinga þegar kostur er.
    Í 6. mgr. er kveðið á um það að talsmaður barns skuli eiga kost á því að undirbúa barnið fyrir viðtalið.
    Í 7. mgr. er heimiluð upptaka á viðtölum við umsækjanda um alþjóðlega vernd eftir að hann hefur verið upplýstur um slíka upptöku. Er þetta gert til að auðvelda sönnunarfærslu og flýta fyrir meðferð mála.
    Samkvæmt 8. mgr. er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd viðtala og þá sérstaklega hvað varðar börn og aðra þá sem stöðu sinnar vegna þurfa ríka vernd og aðstoð.

Um 29. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er að mestu samhljóða 50. gr. d í gildandi lögum um útlendinga þar sem fram koma heimildir til að ákveða flýtimeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Lögð er til sú breyting að ekki verði lengur talað um flýtimeðferð heldur forgangsmeðferð, þar sem ákvæðið veitir ekki heimild til þess að falla frá neinum málsmeðferðarreglum laganna, heldur ein­göngu heimild til forgangsröðunar umsókna. Heitið flýtimeðferð hefur því verið villandi. Heimild til forgangsröðunar umsókna veitir nauðsynlegan sveigjanleika svo unnt sé skipuleggja og hagræða vinnslu mála svo að málsmeðferð geti gengið hraðar. Mælt er fyrir um hvers konar mál séu til þess fallin að sæta forgangsmeðferð á grundvelli ákvæðisins. Annars vegar er um að ræða að mál sé þess eðlis að líkur séu á að alþjóðleg vernd verði veitt. Þá er gert ráð fyrir að forgangsmeðferð fari fram þegar um fylgdarlaus börn er að ræða eða þegar talið er rétt að flýta meðferð umsóknar vegna sérstakra aðstæðna einstaklings. Þá er einnig skýrt tekið fram að kærunefnd útlendingamála hafi sömu heimildir til að beita forgangsmeðferð og Útlendingastofnun.
    Á hinn bóginn er mælt fyrir um forgangsmeðferð vegna þess að telja megi umsókn bersýnilega tilhæfulausa vegna reglna um öruggt heimaland eða öruggt þriðja land, eins og kemur fram í b-lið 1. mgr. Sama gildir ef þær upplýsingar, sem umsækjandi hefur gefið, eru ófullkomnar eða misvísandi og gefa ekki tilefni til að ætla að viðkomandi sé flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr., eða njóti verndar skv. 2. mgr. 37. gr., hætta er á að umsækjandi muni með framkomu sinni stofna sér eða öðrum í hættu eða um endurtekna umsókn er að ræða eftir synjun umsóknar eða eftir að umsókn hefur verið dregin til baka eða ef telja má víst, eftir atvikum málsins og gögnum, að umsókn sé einungis gerð í því skyni að tefja að ákvörðun um brottvísun verði framfylgt. Ljóst er að þar sem um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á hefðbundinni meðferð umsóknar verður að gera ráð fyrir þröngri túlkun ákvæðisins. Taka skal sérstakt tillit til þeirra umsækjenda sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu við mat á því hvort rétt sé að beita forgangsmeðferð.
    Í 2. mgr. ákvæðisins, sem er að mestu í samræmi við gildandi löggjöf, er lagt til að Útlendingastofnun verði veitt heimild til að styðjast við lista um svokölluð örugg þriðju ríki við afgreiðslu hælisumsókna sem þykja bersýnilega tilhæfulausar eins og tíðkast víða í nágrannaríkjum Íslands, til að mynda Noregi og Danmörku. Skýrari leiðbeiningar eru nú gefnar í lögum um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að ríki teljist öruggt upprunaríki. Við mat á því hvort ríki geti talist öruggt upprunaríki verði litið til þess hvort þar sé stöðugt stjórnarfyrirkomulag sem byggist á viðurkenndum meginreglum um réttarríki (e. rule of law). Í því samhengi þarf að horfa til fleiri þátta sem varða t.d. stöðugleika stjórnarfyrirkomulags, efnahagslega stöðu viðkomandi ríkis og innri stjórnsýslu ríkisins. Hér má t.d. hafa hliðsjón af svokölluðum Kaupmannahafnarviðmiðum sem notuð eru á vettvangi Evrópusambandsins til þess að meta hvort ríki uppfylli skilyrði til að sækja um aðild að sambandinu. Að auki er gert ráð fyrir að til þess að um öruggt upprunaríki sé að ræða verði ríkið að vera aðili að helstu alþjóðlegu mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna. Þá er gert ráð fyrir því að áður en ákvörðun er tekin um að bæta landi á listann séu niðurstöður skoðaðar í málum hér á landi varðandi það ríki sem um ræðir en jafnframt að heimilt sé að líta til reynslu og framkvæmdar annarra aðildarríkja Schengen-samstarfsins. Ekki er gerð sú krafa að engum frá viðkomandi ríki hafi verið veitt vernd en ljóst er að synjunarhlutfall umsókna frá viðkomandi ríki á ársgrundvelli þarf að vera hátt. Hér yrði þó að taka tillit til þess að þegar fjöldi umsókna frá ríki væru fáar eða jafnvel óþekktar þyrfti það ekki að leiða til þess að ríki færi ekki á listann, mætti hér sem dæmi nefna ríki eins og Noreg. Þá þarf einnig að líta til þess við mat á því hvort ríki fari á listann hversu auðveldlega viðkomandi getur snúið til baka til Íslands verði ákvörðun snúið í kæruferli. Má þar benda á ríki þar sem ekki er gerð krafa um vegabréfsáritun til að ferðast til Íslands eða inn á Schengen-svæðið. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun muni halda utan um slíkan lista í samvinnu við ráðuneytið með skipulegum og reglubundnum hætti og hann verði uppfærður reglulega.
    Þá er gert ráð fyrir því að frekari reglur, m.a. um viðmið um að umsókn teljist tilhæfulaus, verði settar í reglugerð. Yrði áfram miðað við þá framkvæmd að meta þurfi hvert mál eftir aðstæðum umsækjanda og öllum málsatvikum.

Um 30. gr.

    Greinin er nýmæli og kveður á um þá réttaraðstoð sem umsækjendum um alþjóðlega vernd stendur til boða umfram aðra umsækjendur samkvæmt lögunum. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja rétt umsækjanda og að sjónarmið hans komist á framfæri á öllum stigum máls en einnig að málsmeðferð sé skilvirk.
    Í 1. mgr. er lagt til að umsækjanda um alþjóðlega vernd sé skipaður talsmaður. Talsmaðurinn skal vera lögfræðingur með þekkingu á málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Réttur umsækjanda um alþjóðlega vernd til talsmanns helst við mögulega kærumeðferð málsins.
    Í 2. mgr. er heimiluð skipun sérstaks talsmanns fyrir barn þrátt fyrir að það ferðist með forsjáraðila eða foreldrum sínum. Ástæða þessa er að hagsmunir barnsins geta eftir atvikum verið aðrir en hagsmunir foreldra og þarfir þess aðrar. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að sami talsmaður gæti hagsmuna fleiri en eins fjölskyldumeðlims nema það sé talið stríða beinlínis gegn hagsmunum barnsins.
    Í 3. mgr. er fjallað um aðgengi að túlkum en umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á þjónustu túlks sé það nauðsynlegt. Ákvæðið var lagt til af nefnd um meðferð hælisumsókna er starfaði 2009 en hún lagði einnig áherslu á að lögfest væru viðbrögð við því ef ekki fengist túlkur hér á landi, frestir í því sambandi og aðstoð túlka gegnum síma, t.d. ef leita þyrfti túlkaþjónustu í öðrum löndum. Benti nefndin á að nánari fyrirmynd að ákvæði um réttindi hælisleitanda að þessu leyti mætti einkum sjá í 10. gr. tilskipunar 2005/85/EB um málsmeðferð sem nú er að finna í 12. gr. tilskipunar 2013/32/ESB. Í frumvarpi þessu er áréttað til viðbótar að önnur fjarskiptaform séu einnig valkostur en að öðru leyti er ákvæðið samhljóða fyrri ákvæðum.
    Í 4. mgr. er til áréttingar að túlkaþjónusta skv. 3. mgr. eigi ekki ein­göngu við um samskipti við stjórnvald heldur einnig samskipti við talsmann teljist slíkt nauðsynlegt. Almennt ber að tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd góð samskipti við talsmann þeirra svo túlka skal þetta vítt.
    Í 5. mgr. er vísað til ákvæðis 13. gr. um réttaraðstoð að öðru leyti.
    Í 6. mgr. kemur fram heimild ráðherra til þess að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins. Skal þar útfært hvernig reglur um talsmenn skulu vera og þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og á hvaða grundvelli, sem og útfærsla á túlkaþjónustu, hvaða menntun túlkar skulu hafa og reynslu, sem og þóknun til þeirra. Þá skulu reglur settar um hvernig þörf fyrir túlkaþjónustu skal metin í hverju tilviki fyrir sig.

Um 31. gr.

    Greinin er nýmæli og er ætlað að tryggja fylgdarlausum börnum, sem sækja um vernd, viðbótaraðstoð við þann lögbundna stuðning sem barnarverndaryfirvöld og félagsþjónusta standa að til að gæta að sértækum þörfum þeirra og réttindum. Hér má t.d. nefna aðstoð við barn við að afla sér heilbrigðisþjónustu, menntunar, félagslegra réttinda og annars sem barnið á rétt á samkvæmt lögum og með hliðsjón af ákvæðum barnasáttmálans. Gæta þarf að því að hlutverk hagsmunagæslumanns skarist ekki við hlutverk samhæfingaraðila máls innan félagsþjónustunnar.
    Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna ályktaði um stöðu fylgdarlausra barna árið 2005 (Almennar athugasemdir nr. 6, liður 33). Nefndin leggur þar til að skipa skuli fylgdarlausu barni hagsmunagæslumann sem fylgir barninu og er upplýstur og hefur rétt til þátttöku í öllum aðgerðum er varða barnið, m.a. umsóknarferli um alþjóðlega vernd, útvegun búsetustaðar, heilbrigðisþjónustu og menntunar og fleira er barnið þarf á að halda. Í ályktuninni kemur m.a. fram sú krafa að skipa skuli hagsmunagæslumann eins snemma og auðið er og að hann skuli sinna barninu þar til það fullorðnast eða yfirgefur landið. Einnig kemur fram að hann skuli vera sérþjálfaður til að sinna slíku hlutverki. Hagsmunagæslumaðurinn sé þannig tengiliður milli barnsins og aðila þeirra er veita barninu þjónustu eða barnið þarf aðgang að.
    Ákvæðið sem hér er lagt til er samið með hliðsjón af norskum útlendingalögum. Með ákvæðinu er fylgdarlausum börnum, og eftir atvikum öðrum börnum, tryggður aðgangur að þjónustu hagsmunagæslumanns.
    Í 1. mgr. segir að barnaverndarnefnd á því svæði þar sem fylgdarlaust barn er statt skuli gert viðvart um veru þess án tafar. Þar kemur jafnframt fram að barnaverndarnefnd skipi fylgdarlausu barni hagsmunagæslumann í samræmi við 3. mgr. 26. gr. Hagsmunagæslumaður kemur þá m.a. að aldursgreiningu en ef hún skilar þeirri niðurstöðu að viðkomandi teljist ekki vera á barnsaldri telst störfum hans lokið.
    Í 2. mgr. er tiltekið til hverra ákvæðið nær. Það nær til fylgdarlausra barna yngri en 18 ára sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ákvæðið nær einnig til barna sem grunur leikur á um að séu fórnarlömb mansals eða eftir atvikum annarra barna sem barnaverndarnefnd telur nauðsynlegt að hún hafi forsjá með. Gert er ráð fyrir því að barnaverndarnefnd hafi svigrúm í mati á því hvenær aðstæður barns séu slíkar að hagsmunum þess væri betur borgið í umsjá barnaverndar.
    Í 3. mgr. er sérstaklega áréttað að hagsmunagæslumaður þurfi að hafa sérþekkingu á sviði barnaverndar og hreint sakavottorð. 4. mgr. lýsir nokkrum skyldum hagsmunagæslumanns og lágmarkskröfu til þeirrar þjónustu sem hann veitir. Honum er ætlað að upplýsa barnið og gæta hagsmuna þess gagnvart íslenskum stjórnvöldum, sbr. þó 5. mgr. þar sem tekið er fram að hagsmunagæslumaður fari ekki með forsjá barnsins og beri ekki ábyrgð á daglegri umsjá og umönnun.
    Áréttað er í 6. mgr. að hagsmunagæslumaður skuli við störf sín taka tillit til þjóðernis, kyns, tungumáls sem og trúar- og menningarlegs uppruna barns, t.d. með því að tryggja árangursrík og fullnægjandi samskipti við barnið með notkun túlks.
    Í 7. mgr. er í a–d-lið útlistað hvenær hagsmunagæslumaður telst hafa lokið störfum sínum en getur hann þó skv. 8. mgr. óskað eftir því að vera leystur frá störfum en einnig getur barnaverndarnefnd leyst hann frá störfum ef það er talið barni fyrir bestu.
    Ákvæði 9. og 10. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.

    Greinin er nýmæli og í samræmi við tillögur í skýrslu nefndar þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, um málefni útlendinga utan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) frá júní 2012 og athugasemdir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins á Íslandi, UNICEF á Íslandi og fleiri aðila. Hér á landi hefur sú framkvæmd verið viðtekin að dæma umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma til landsins með ólöglegum hætti, svo sem með því að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum, í 30 daga fangelsi skv. 155. eða 157. gr. almennra hegningarlaga. Í skýrslu nefndarinnar er á bls. 49–51 greint frá þeirri gagnrýni sem þessi framkvæmd hefur sætt, m.a. af hálfu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins á Íslandi, UNICEF á Íslandi og lögmanna sem starfa við þennan málaflokk hér á landi. Skv. 1. mgr. 31. gr. flóttamannasamningsins er óheimilt að refsa flóttamönnum fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum ef þeir koma beint frá landi þar sem aðstæður voru fyrir hendi sem skapa grundvöll fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar. Hljóti umsækjandi, sem hefur verið dæmdur til refsingar eins og að framan greinir, alþjóðlega vernd hér á landi kann að vera að slíkt sé ekki í fullu samræmi við ákvæði flóttamannasamningsins.
    Auk þess skilyrðis að koma beint úr slíkum aðstæðum er áskilið að flóttamaður í slíkri stöðu gefi sig fram án ástæðulauss dráttar og beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu eða dvöl, líkt og fram kemur í 1. mgr., eða sé ríkisfangslaus og af þeirri ástæðu ekki handhafi fullnægjandi skilríkja. Rétt er að taka fram að það að koma beint frá svæði þar sem lífi eða frelsi útlendingsins er hætta búin undanskilur ekki ferðalög til lands sem hann hefur dvalist í til skemmri tíma í þriðja landi. Hins vegar telst útlendingur, sem fengið hefur alþjóðlega vernd í öðru ríki, dvalist hefur í þriðja landi til lengri tíma eða gefið sig fram við stjórnvöld þar og óskað eftir alþjóðlegri vernd, almennt ekki koma beint úr hættu nema þær aðstæður hafi skapast þar sem mynda grundvöll fyrir rétti til alþjóðlegrar verndar, sbr. 37., 38. eða 39. gr. Á þetta m.a. við ef líkur voru til þess að hann yrði sendur til baka til upprunalands án fullnægjandi meðferðar máls síns. Þegar 1. mgr. er beitt er almennt gert ráð fyrir að útlendingi gefist færi á að rökstyðja mál sitt og að fram fari einstaklingsbundið mat á því hvort gildar ástæður hafi verið fyrir útlending að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum.
    Ákvæði 2. mgr. eiga við um þá sem ekki hafa sótt um alþjóðlega vernd og er lögreglu gert að kanna tilgang dvalar hafi útlendingar komið ólöglega til landsins, m.a. til að skera úr um hvort ákvæði greinarinnar eigi við og leiðbeina útlendingi um næstu skref.

Um 33. gr.

    Greinin byggist á 47. gr. b í gildandi lögum um útlendinga en í henni eru einnig nokkur nýmæli.
    Ákvæði 1. mgr. eru sambærileg 2. mgr. 47. gr. b en í stað þess að kveðið sé á um reglugerðarheimild er mælt fyrir um ákveðin grundvallarréttindi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd, og ríkisfangslausir einstaklingar skv. 39. gr., skuli njóta, svo sem að þeim standi til boða húsnæði, lágmarksframfærsla, nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna andlegra veikinda, sem og nauðsynleg túlkaþjónusta. Húsnæði skal teljast fullnægjandi dvalarstaður samkvæmt íslenskum lögum og reglum og viðmið um lágmarksframfærslu skulu vera viðmið sem sett eru á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Réttur til heilbrigðisþjónustu vísar til bráðnauðsynlegrar þjónustu sem ekki þolir bið eða veldur viðkomandi sársauka. Þannig á umsækjandi rétt á meðferð sem ekki er hægt að tefja vegna þess að ljóst þyki að umsækjandi líði mikinn sársauka eða hætta sé á að sjúkdómur þróist eða að einkenni festist í sessi. Innan þessa ramma fellur einnig sálfræðiþjónusta, þjónusta geðlækna, og þjónusta ýmissa sérfræðinga. Börn yngri en 18 ára njóta fulls aðgangs að íslensku heilbrigðiskerfi líkt og Íslendingar meðan þau dveljast hér á landi. Hvað túlkaþjónustu varðar er almennt átt við þjónustu við þær aðstæður sem þegar hafa verið nefndar, þ.e. í samskiptum við stjórnvöld og talsmenn umsækjenda. Þá er einnig tekið fram að barnshafandi konur skuli eiga rétt á aðgangi að mæðravernd og fæðingarhjálp en það er nauðsynlegt, ekki aðeins til að tryggja heilbrigði konunnar sem um ræðir heldur einnig barns hennar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um aðgang barna að menntun. Með menntun á dvalarstað barnsins er átt við undirbúningsmenntun sem kann að þurfa til þess að búa barnið undir menntun í íslensku skólakerfi, t.d. til þess að það hafi nægilegan bakgrunn til að stunda nám með jafnöldrum sínum eða til þess að það hafi nægilegan grunn í íslensku.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um meginregluna að fjölskyldur skuli deila húsnæði og vera saman þegar ákvörðun um húsnæði er tekin samkvæmt ákvæði þessu. Ákvæðið á sér stoð í 2.–3. mgr. 18. gr. tilskipunar 2013/33/ESB um móttöku og er ætlað að tryggja fjölskyldum rétt til að deila húsnæði sé þess kostur en einnig kemur fram að taka skuli tillit til umsækjenda í viðkvæmri stöðu. Getur t.d. verið átt við með því að tryggja að einstaklingar, sem hafa sætt misnotkun, séu ekki vistaðir með ákveðnum hópum eða að börn séu vistuð við aðstæður sem þeim henta.
    Í 4. mgr. er undirstrikaður réttur barna sem hafa orðið fyrir erfiðri lífsreynslu til viðeigandi þjónustu og skal reynt að veita eins víðtæka þjónustu og kostur er og þörf er talin á. Ákvæðið byggist á 2. mgr. 23. gr. tilskipunar 2013/33/ESB um móttöku.
    Í 5. mgr. er áréttaður réttur fórnarlamba alvarlegs ofbeldis til aðstoðar. Greinin byggist á 20. gr. móttökutilskipunarinnar.
    Í 6. mgr. er sett sú skylda á stjórnvald að leiðbeina um kost umsækjanda um alþjóðlega vernd á bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. og hvaða kosti slíkt leyfi hefur fyrir útlending, m.a. mögulegan rétt til atvinnuþátttöku.
    Í 7. mgr. er mælt fyrir um að umsækjandi skuli að jafnaði greiða fyrir þá þjónustu sem hann fær hafi hann ráð á því. Á þetta þó ekki við um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu skv. c-lið 1. mgr. Umsækjandi sem veitt hefur verið bráðabirgðadvalarleyfi á grundvelli 77. gr. skal áfram eiga rétt samkvæmt ákvæðinu í ákveðinn tíma, sem sanngjarn getur talist, til þess að viðkomandi geti orðið sér úti um húsnæði og nægilegar tekjur, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna viðkomandi. Þó er tekið fram að komi í ljós að viðkomandi hafi ekki haft þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var getur Útlendingastofnun krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að hluta eða að öllu leyti.
    Í 8. mgr. er að finna sérreglu varðandi EES-/EFTA-ríkisborgara sem sækir um alþjóðlega vernd. Að lokinni málsmeðferð á fyrsta stjórnsýslustigi er kveðið á um að umsækjandi eigi ekki lengur rétt á þjónustu sem hælisleitandi og yrði honum því vísað úr slíkri þjónustu svo skjótt sem ákvörðun liggur fyrir í máli hans. Sem EES-/EFTA-ríkisborgari á útlendingur ríkan rétt til að setjast hér að og getur hann nýtt sér slíkar heimildir. Þykir ákvæðið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir misnotkun á úrræðum fyrir hælisleitendur. Þá eiga einstaklingar frá þessum ríkjum almennt rétt til að dvelja hér á landi og ekki eðlilegt að beitt sé frávísun eða brottvísun í málum þeirra nema á grundvelli ákvæða um EES-/EFTA- ríkisborgara. Þessi regla gildir hvort sem viðkomandi unir eða kærir synjun Útlendingastofnunar.
    Í 9. mgr. er kveðið á um reglugerðarheimild fyrir ráðherra, þ.m.t. kröfu um að umsækjandi beri sjálfur kostnað af framfærslu sinni hér á landi, aðgang að menntun og starfsþjálfun og um vistunarúrræði þeirra sem ekki geta séð fyrir sér sjálfir meðan umsókn um alþjóðlega vernd er tekin til meðferðar. Ráðherra getur jafnframt kveðið á um að þjónusta við umsækjanda samkvæmt ákvæðinu sé bundin við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög. Reglugerðarheimildin nær einnig til réttinda umsækjenda til heilbrigðisþjónustu. Skal hún unnin í samráði við ráðherra sem fer með heilbrigðisþjónustu.

Um 34. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 4.–5. mgr. 47. gr. b í gildandi lögum um útlendinga. Mælt er fyrir um að skráningarskírteini skuli gefið út fyrir umsækjanda um alþjóðlega vernd svo ­fljótt sem verða má. Hlýtur það alltaf að fara eftir atvikum hversu fljótt er talið rétt að gefa út slíkt skírteini og má gera undantekningu frá því ef útlendingi verður þegar vísað frá landi eða ef hann verður sendur til annars lands þar sem efnismeðferð umsóknar fer fram. Í 6. gr. tilskipunar 2013/33/ESB um móttöku er miðað við að skírteini sé gefið út innan þriggja daga frá því að hælisumsókn var lögð fram. Frekari reglur um útgáfu skírteinis og tímafresti eiga að koma fram í reglugerð sem sett er með heimild í lögunum.

Um 35. gr.

    Ákvæði þetta er sambærilegt ákvæði í gildandi lögum um útlendinga en felur í sér nýmæli um að stjórnvöldum sé ekki heimilt að framfylgja ákvörðun um að umsækjandi skuli yfirgefa landið skv. 36., 37. og 39. gr. fyrr en ákvörðunin er endanleg á stjórnsýslustigi. Skuli þetta vera meginreglan en víkja megi frá henni ef umsækjandi óskar sjálfur eftir því að hverfa úr landi. Ákvæðið tekur mið af athugasemdum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdum Rauða krossins á Íslandi þar sem lögð hefur verið áhersla á að kærumeðferð á stjórnsýslustigi sé óaðskiljanlegur hluti réttlátrar og skilvirkrar málsmeðferðar hælisumsókna. Bent hefur verið á að fjöldi flóttamanna í Evrópu fær ekki viðurkenningu á stöðu sinni fyrr en að lokinni kærumeðferð. Því sé ljóst að kærumeðferð og frestun réttaráhrifa synjunar á fyrsta stjórnsýslustigi getur verið mikilvæg trygging þess að þeir sem þurfa alþjóðlega vernd fái þá vernd sem þeir eiga rétt á meðan tekin er endanleg ákvörðun í máli þeirra. Ekki sé loku fyrir það skotið að röng ákvörðun sé tekin á fyrsta stjórnsýslustigi og sé það réttur flóttamanns að fá hana endurskoðaða á meðan hann er staddur í móttökuríki þar sem minni líkur eru á því að flóttamaður eigi ekki þess kost að fylgja eftir kæru og fá henni breytt, sé hann ekki á landinu. Því er þetta úrræði mjög mikilvægt til þess að tryggja að grundvallarreglan um „non-refoulement“, eða bann við endursendingum, sé ekki brotin.
    Í 2. mgr. er að finna undantekningu frá ákvæði 1. mgr., þ.e. að kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar sem teknar eru á grundvelli 29. og 36. gr. laganna. Í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að lög megi mæla svo fyrir að ekki sé hægt að sækja um frestun réttaráhrifa. Þrátt fyrir það ákvæði verður að horfa til alþjóðlegra skuldbindinga, þar á meðal 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns sem og dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli þess ákvæðis. Til að mæta þeim sjónarmiðum og á sama tíma að tryggja skilvirka málsmeðferð og verja getu móttökukerfis umsækjenda um alþjóðlega vernd til að þjónusta þá sem þurfa á aðstoð að halda er lagt til í 4. mgr. að ráðherra fái heimild til að kveða nánar á um í hvaða tilvikum fresta skuli réttaráhrifum ákvörðunar samkvæmt beiðni þar um. Slíkar reglur mundu m.a. taka mið af athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga. Meðal þeirra sjónarmiða sem mælt geta gegn því að beiðni um frestun réttaráhrifa verði samþykkt er hversu líklegt er að ákvörðun verði breytt sem og hvort almannahagsmunir mæli gegn frestun, t.d. hvort ákvörðunin hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Í málefnum hælisleitenda væri þannig heimilt að líta til fyrri reynslu af ákvörðunum stjórnvalda varðandi viðkomandi ríki. Það markmið að tryggja að hægt sé að taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd telst til mikilvægra almannahagsmuna í þessu samhengi. Einnig yrði að líta til þess hvort ákvörðun teldist sérstaklega íþyngjandi eða líkleg til þess að valda viðkomandi tjóni sem erfitt yrði að ráða bót á. Í því samhengi mætti líta til þess hversu auðvelt yrði fyrir viðkomandi að snúa aftur til Íslands yrði ákvörðun snúið, t.d. hvort til staðar séu svipuð sjónarmið og liggja að baki ákvörðun um að upprunaríki sé sett á lista yfir örugg ríki.
    Í 3. mgr. segir að ef útlendingur ber fyrir sig ástæður sem greinir í 37., 38., 39. eða 42. gr. þegar honum er tilkynnt um að framfylgja eigi ákvörðuninni og ekki kemur fram að afstaða hafi verið tekin til þeirra ástæðna sem borið er við skal lögregla leggja ákvörðun um að fresta framkvæmd fyrir Útlendingastofnun. Ef Útlendingastofnun telur augjóst að aðstæður séu ekki með þeim hætti að nauðsynlegt sé að fresta réttaráhrifum má hún ákveða að ákvörðunin komi til framkvæmda. Er hér um að ræða varnagla þegar ekki er tekin afstaða til framangreindra ákvæða í ákvörðun á fyrsta stjórnsýslustigi og hefur lögregla heimild til þess að meta aðstæður í þeim tilvikum. Útlendingastofnun hefur þó úrslitavald yfir ákvörðun lögreglunnar ef stofnunin metur hana ástæðulausa.

Um 36. gr.

    Greinin byggist á 46. gr. a gildandi laga um útlendinga, sbr. breytingalög nr. 115/2010. Efni þessarar greinar grundvallast á alþjóðasamstarfi, sem Ísland tekur þátt í, um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd, einkum og sér í lagi þátttöku í Schengen-samstarfinu og í samstarfi ríkja á grundvelli Dyflinnarsamningsins, svo sem nánar er rakið í almennum athugasemdum við frumvarp þetta.
    Í 1. mgr. eru rakin þau skilyrði sem geta verið fyrir hendi svo að stjórnvöld megi hafna því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Í fyrsta lagi er um það að ræða að umsækjanda hafi verið veitt alþjóðleg vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eins og mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. Er þá skilyrði að um virka vernd sé að ræða í samræmi við flóttamannasamninginn (e. „effective protection“). Í öðru lagi er í a-lið ákvæðisins um að ræða regluna um fyrsta griðland en eins og greinir í athugasemdum með ákvæðinu í núgildandi lögum er við það miðað að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og veitt getur honum vernd. Í orðalagi ákvæðisins koma fram skilyrði þess að ákvæðið eigi við, þar á meðal að stjórnvöld hafi gengið úr skugga um að verði umsækjandi sendur til ríkisins þurfi hann ekki að óttast ofsóknir eða að verða sendur áfram til heimalands síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) eða þar sem hætta er á ómannúðlegri eða vansæmandi meðferð. Í b-lið ákvæðisins eru tekin upp ákvæði gildandi laga um að vísa megi útlendingi sem komið hefur frá norrænu ríki aftur til þess ríkis í samræmi við norræna vegabréfaeftirlitssamninginn. Samningurinn er enn í gildi en hefur að nokkru marki misst gildi sitt vegna Dyflinnarreglugerðarinnar sem gildir á Norðurlöndunum. Í síðari hluta c-liðar er vísað til þess að sömu reglur gildi um þá sem koma hingað til lands frá Færeyjum. Eins og fram kemur í skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna er í gildi samningur milli Íslands, Færeyja og Smyril Line, sem síðast var endurnýjaður 30. mars 2004, um endursendingu útlendinga sem hingað koma með ferjunni Norrænu sem kemur að landi á Seyðisfirði. Benti nefndin á að lagareglur skorti um meðferð þessara mála. Samkvæmt samningnum er um það að ræða að Færeyjar skuldbinda sig til að taka við þeim útlendingum sem vísað er frá á Seyðisfirði og hefði verið vísað frá Schengen-ríki ef landamæraeftirlit hefði farið fram í Færeyjum. Þetta á þó ekki við um útlendinga sem þurfa að hafa vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu, í Færeyjum og á Íslandi en sem samkvæmt dvalarleyfi eða gildri vegabréfsáritun, sem gildir á öllu Schengen-svæðinu, mega koma til Íslands en er samt sem áður heimilt að vísa brott við komu til Íslands vegna íslenskra lagareglna. Er samningurinn byggður á þeirri forsendu að ekki fari fram landamæraeftirlit þegar Norræna kemur til Færeyja, þ.e. ferjan er ekki tæmd, en lögreglan í Færeyjum fer með landamæraeftirlit sem tekur til þeirra sem koma í land í Þórs­höfn og þeim sem fara frá Þórs­höfn með ferjunni. Tekur samningurinn til fleiri atriða en þar sem reynir á reglur um alþjóðlega vernd en slík mál geta þó komið til álita og er eðlilegt að fella meðferð mála þar sem sótt er um alþjóðlega vernd við þessar aðstæður í sama farveg og á við um önnur tilvik þar sem endursending til fyrsta griðlands fer fram án efnismeðferðar. Er í samræmi við þetta í b-lið ákvæðisins tilvísun til samnings Íslands og Færeyja. Eðlilegt er að frekari reglur séu í reglugerð um framkvæmd þessara mála. Í c-lið ákvæðisins er vísað til endursendingar samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni og er þar áréttað að á grundvelli samninga sem Ísland er aðili að geta íslensk stjórnvöld óskað eftir því að annað ríki taki við umsækjanda um alþjóðlega vernd ef svo stendur á.
    Í 2. mgr. er áréttað að hafi umsækjandi slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða að sérstakar ástæður mæli með því skuli taka mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum ástæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna heilsufars eða þungunar eða átt erfitt uppdráttar í viðtökulandi vegna mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns. Til sérstakra aðstæðna geta einnig talist þau tilvik þegar afgreiðsla á máli sem fellur undir c-lið 1. mgr. hefur dregist lengur en 12 mánuði og ástæður þess eru ekki á ábyrgð umsækjanda. Í öllum málum er varða endursendingar útlendinga til þriðja lands skal fara fram ítarlegt mat á aðstæðum viðkomandi útlendings og aðstæðum og ástandi í móttökuríki. Er hér miðað við að stjórnvöldum sé eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Er ákvæðinu einnig ætlað að taka til þess ef varhugavert þykir að beita ákvæðum 2. mgr. 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og senda hælisleitendur til ríkja í Evrópu þar sem ástæða þykir að ætla að meðferð eða aðbúnaður hælisleitenda sé í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar. Enn yrði byggt á því að um einstaklingsbundna ákvörðun væri að ræða þannig að metið væri hvort varhugavert væri að senda tiltekinn hælisleitanda til annars ríkis samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Það færi þá eftir almennum málsmeðferðarreglum laganna hver meðferð hælisumsóknarinnar yrði hér á landi eftir að ákvörðun yrði tekin um að taka hana til efnismeðferðar.
    Í 3. mgr. er áréttað að ef beiting 1. mgr. leiðir til þess að brotið verður gegn 42. gr. um bann við að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu skuli taka mál til efnismeðferðar hér á landi.
    Þá er í 4. mgr. að finna reglugerðarheimild til handa ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar.

Um 37. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 44. gr. gildandi laga um útlendinga, nr. 96/2002, þó með ákveðnum nýmælum varðandi svokallaða viðbótarvernd og málefni barna sem óska verndar.
    Í 1. mgr. er að finna skilgreiningu á því hver telst vera flóttamaður samkvæmt lögunum, í samræmi við A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, sbr. bókun við samninginn frá 31. janúar 1967. Flóttamaður telst þannig vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa þangað aftur. Hugtakið útlendingur tekur samkvæmt ákvæðinu til allra þeirra sem hafa ekki íslenskan ríkisborgararétt, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, og tekur því einnig til þeirra einstaklinga sem eru ríkisfangslausir. Skilgreiningin undanskilur ekki þá sem hafa ríkisfang ESB-ríkis.
    Ákvæði 2. mgr. samsvara 2. mgr. 44. gr. núgildandi laga og fjallar um svokallaða viðbótarvernd. Slíkt ákvæði var leitt í lög með lögum nr. 115/2010, um breyting á lögum nr. 96/2002, um útlendinga, og byggðist m.a. á skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna og þróun í evrópskri og norrænni löggjöf. Í þessu felst að þeir verði skilgreindir sem flóttamenn sem eiga rétt á því að njóta verndar vegna hættu á dauðarefsingu, ofsóknum, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði þeir sendir aftur til heimalands síns eða lands þar sem þeir höfðu áður reglulegt aðsetur, ef um ríkisfangslausan einstakling er að ræða. Þar sem afmörkun hugtaksins viðbótarvernd skiptir verulegu máli um það hvaða skyldur ríki taka á sig er rétt að taka fram að íslenska ákvæðið er sniðið eftir sambærilegu ákvæði norskra útlendingalaga. Í því ákvæði er ekki vísað sérstaklega til skilgreiningar sem er að finna í 15. gr. tilskipunar 2004/83/EB um flóttamenn (nú tilskipun 2011/95/ESB en ákvæðið hefur verið tekið óbreytt úr fyrri tilskipun). Í þeirri grein er alvarlegur skaði skilyrði fyrir veitingu viðbótarverndar auk þess sem þar fellur undir alvarleg og einstaklingsbundin ógn gagnvart lífi eða persónu einstaklings vegna tilviljanakennds ofbeldis sem viðgengst í stríðsátökum í landi hans eða alþjóðlega. Eins og fram kemur í skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna frá árinu 2009 hefur dómstóll ESB komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir orðalag ákvæðis tilskipunarinnar sé ekki hægt að gera kröfu um að viðkomandi geti sannað að ofbeldi vegna stríðsátaka beinist sérstaklega að honum (Mál C-465/07 Elgfaji v Staatssecretaris van Justitie, sbr. skýrslu nefndarinnar á bls. 30). Í skýringum með ákvæði norsku laganna var tekið fram að ekki væri ástæða til þess að lögfesta þetta skilyrði sérstaklega en að ákvæðið eins og það er lögfest veiti sambærilega vernd og lágmarksvernd tilskipunarinnar, auk þess sem vernd gegn því að senda fólk brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non- refoulement) komi því ákvæði til fyllingar. Var ákveðið að fara sömu leið hér á landi. Við þetta atriði hafa komið fram athugasemdir, m.a. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossinum á Íslandi, þar sem óskað er eftir því að þessi skilgreining verði tekin sérstaklega upp í ákvæðinu. Í ljósi þessa, sem og þeirrar framkvæmdar sem hefur verið hér á landi, hefur sérstaklega reynt á viðkomandi skilyrði við ákvörðun um veitingu viðbótarverndar. Þykir því tilefni til þess að tiltaka sérstaklega að ákvæði þetta eigi einnig við um útlendinga sem eiga á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða verði þeir sendir aftur til heimalands síns og vísast þar til skaða af völdum handahófskennds ofbeldis vegna vopnaðra átaka. Útlendingar sem falla undir þessa málsgrein teljast flóttamenn og verður staða þeirra sem slíkra viðurkennd eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. er að ræða og eiga þeir rétt á alþjóðlegri vernd skv. 63. gr. laganna með sama hætti og flóttamenn skv. 1. mgr. þessarar greinar.
    Ákvæði 3. mgr. eru sambærileg 3. mgr. 44. gr. gildandi laga um útlendinga en með henni er staðfest að til flóttamanna teljist einnig þeir sem óska eftir því að vera viðurkenndir sem flóttamenn eftir að hafa verið utan heimalands síns um nokkra hríð en voru ekki flóttamenn þegar þeir yfirgáfu land sitt (flóttamaður sur place). Staða sur place-flóttamanna er viðurkennd samkvæmt flóttamannasamningnum og veltur mat á því hvort um flóttamenn sé að ræða á sömu sjónarmiðum og annars er þegar samningurinn á við. Er þetta ákvæði í samræmi við norsku útlendingalögin. Eins og í norsku lögunum er miðað við að þörf á alþjóðlegri vernd geti risið vegna breyttra aðstæðna í heimalandi og einnig ef einstaklingur grípur fyrst til aðgerða sem skapa þörf á alþjóðlegri vernd eftir að hann hefur yfirgefið heimaland sitt. Miðað er við að um einstaklingsbundna ákvörðun sé að ræða og að um málsmeðferð fari eftir sömu reglum og ákvörðun um alþjóðlega vernd. Í samræmi við tilmæli Flóttamannastofnunar í athugasemdum við 5. gr. tilskipunarinnar yrði því áfram við það miðað að mat yrði lagt á það fyrst og fremst hvort sýnt er fram á að skilyrðum laganna um flóttamenn sé fullnægt. Mat á aðstæðum fer eftir sömu sjónarmiðum og mat á umsókn um alþjóðlega vernd. Þá verður að gæta að meginreglunni um að vísa fólki ekki á brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) ef ákvörðun yrði tekin um að veita viðkomandi ekki alþjóðlega vernd.
    Í 4. mgr. er nýmæli er tekur mið af samsvarandi ákvæði í norskum lögum og í tilskipun 2011/95/ESB um flóttamenn en með henni er veitt undanþága frá 1. og 2. mgr. í tilfellum þar sem útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns og getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt. Þetta hugtak um raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands (e. internal flight) er ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf en getur hins vegar komið til athugunar við mat á því hvort viðkomandi útlendingur teljist flóttamaður. Rétt er þó að taka fram að þess er ekki krafist í alþjóðlegri löggjöf að einstaklingur sem sætir ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimalandi sínu áður en hann sækir um alþjóðlega vernd í öðru landi, með öðrum orðum þarf umsókn um alþjóðlega vernd ekki að vera lokaúrræði. Við beitingu þessa ákvæðis skal gætt að því að það leiði ekki til þess að grafið sé undan þeim grundvallarmannréttindum sem löggjöf um alþjóðlega vernd byggist á, réttinum til þess að flýja eigið land og sækja um alþjóðlega vernd og banni við endursendingum þangað sem líf eða frelsi viðkomandi kann að vera í hættu. Beiting ákvæðis þessa getur aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður og getur því ekki verið grundvöllur fyrir synjun á því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist flóttamaður hér á landi hefur verið litið til þess hvort viðkomandi geti fengið vernd í öðrum hluta heimalands síns. Því þykir tilefni til þess að skýra með löggjöf við hvaða aðstæður heimilt er að beita slíkri undanþágu til þess að tryggja samræmi í framkvæmd og að heimildinni sé beitt í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda. Ákvörðun um það hvort viðkomandi útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands getur aðeins farið fram eftir einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem eru í því landi. Í tilvikum þar sem stjórnvöld eða hópar eða samtök, sem stjórna ríkinu, eru valdir að ofsóknum skal gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skal tekið tillit til ýmissa þátta sem ekki verða tæmandi taldir hér, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þegar um er að ræða fylgdarlaust barn skal litið til möguleika barnsins á umönnun og væntanlegra aðstæðna og byggt á því við ákvörðun hvað barninu er fyrir bestu.
    Ákvæði 5. mgr. eru nýmæli en þar er kveðið á um að við mat á 1. og 2. mgr. í málum er varða börn skuli hafa það sem barninu er fyrir bestu að leiðarljósi. Er ákvæðið í samræmi við meginreglur barnaréttar en einnig tekur það tekur mið af norskum lögum og tilskipun 2011/95/ESB um flóttamenn. Þar er tekið fram að það sem barni sé fyrir bestu skuli vera forgangsatriði í framkvæmd í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Sérstaklega skal líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, auk þess að taka skal tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skal Útlendingastofnun taka skriflega afstöðu til hagsmuna barnsins. Við framkvæmd þessarar greinar skal stofnunin eiga samráð við barnaverndaryfirvöld.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að ef umsókn útlendings sem óskar eftir alþjóðlegri vernd hafnað skuli stjórnvald að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort viðkomandi eigi rétt til dvalarleyfis af mannúðarástæðum skv. 74. gr.

Um 38. gr.

    Greinin byggist á 44. gr. a gildandi laga um útlendinga en hefur tekið nokkrum breytingum.
    Í greininni er skýrt hvað felst í hugtakinu ofsóknir sem vísað er til í 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir sem kalla á alþjóðlega vernd eru, hverjir geta verið valdir að ofsóknum og vegna hvaða einkenna eða eiginleika ofsóknir beinast að þeim sem eru ofsóttir. Ákvæðið fékk núverandi mynd með breytingalögum nr. 115/2010 og byggðist á skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 kemur fram að tekið hafi verið mið af norsku útlendingalögunum sem og ákvæðum tilskipunar 2004/83/EB um flóttamenn. Eins og kemur fram í aðfaraorðum tilskipunarinnar er tilgangur hennar að samræma viðmið í ríkjum Evrópusambandsins um það hvaða einstaklingar þarfnast alþjóðlegrar verndar, bæði flóttamenn skv. A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins og aðrir þeir sem njóta viðbótarverndar. Er skilgreining á ofsóknum þáttur í þeirri samræmingu. Tilskipun 2004/83/EB hefur nú verið endurskoðuð með nýrri tilskipun um flóttamenn, tilskipun 2011/95/ESB, þar sem sömu sjónarmið eiga við.
    Ákvæði 1. mgr. eru nær samhljóða 1. mgr. 44. gr. a gildandi laga um útlendinga en samkvæmt henni eru ofsóknir athafnir, sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða og ákvæðið er nægilega rúmt til að áfram verði tekið mið af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar við mat á hverju máli um sig. Skilgreiningin tekur mið af 1. mgr. 9. gr. í tilskipun 2011/95/ESB þar sem vísað er í alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum þeim grundvallarmannréttindum sem ríkjum er óheimilt að víkja frá skv. 2. mgr. 15. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, jafnvel á hættutímum. Þá er gert ráð fyrir að samsafn athafna geti haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling og athafnir sem taldar eru upp. Er þetta einnig í samræmi við leiðbeiningar Flóttamannastofnunarinnar, sbr. lið 53 í handbók um réttarstöðu flóttamanna, þar sem einnig er vísað í samsafn af ástæðum, svo sem ýmiss konar mismunun sem er samtvinnuð öðru mótlæti (t.d. slæmu öryggisástandi í landinu), sem geta leitt til þess að um ofsóknir eða ótta við ofsóknir sé að ræða. Telja verður að 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar taki mið af viðmiðum um langvarandi mismunun en það getur leitt til þess að einstaklingur geti fullnægt skilyrðum um ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli en efnisatriði hennar var að mestu að finna í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 115/2010. Til frekari skýringar á afmörkun hugtaksins ofsóknir er talið ráðlegt að ákvæði 2. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/95/ESB um flóttamenn verði tekið upp í löggjöfina. Í þessari grein tilskipunarinnar eru nefnd eftirfarandi dæmi um athafnir sem fela í sér ofsóknir, þó að ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða. Sérstaklega skal tekið fram að undir c-lið 2. mgr. kunna að falla einstaklingar sem hafa þurft eða eiga á hættu að sæta saksókn eða refsingu fyrir að ljóstra upp um athafnir eða gera opinber gögn sem þagnarskylda hvílir á samkvæmt lögum þess ríkis sem í hlut á.
    Ákvæði 3. mgr. eru að mestu leyti samhljóða 2. mgr. 44. gr. a gildandi laga. Þar er tilgreint hvers beri að líta til við mat á ofsóknum en sambærileg viðmið eru talin upp í hliðstæðu ákvæði norsku útlendingalaganna og taka þau mið af 10. gr. tilskipunar 2011/95/ESB um flóttamenn, að öðru leyti en því að tekið er fram að frelsi til að skipta um trú falli undir hugtakið trúarbrögð. Er í því efni tekið mið af handbók Flóttamannastofnunar, liðum 71–73, og er sambærilegri afmörkun fylgt í frumvarpinu. Að því er varðar d-lið málsgreinarinnar er einnig tekið mið af tilmælum Flóttamannastofnunarinnar um skilgreiningu á þjóðfélagshópi. Þannig er nægilegt að eitt af þeim skilyrðum sem þar eru talin sé uppfyllt. Í norsku lögunum og í tilskipuninni er gert ráð fyrir því að bæði sé um það að ræða að einstaklingur tilheyri ákveðnum þjóðfélagshópi vegna einkenna sem hann getur ekki eða vill ekki breyta og að samfélagið afmarki þjóðfélagshópinn sem slíkan vegna hinna sam­eigin­legu einkenna. Mælir Flóttamannastofnunin með því að ríki veiti vernd í báðum tilvikum til þess að ekki komi til þess að einstaklingar sem þurfa á alþjóðlegri vernd að halda geti ekki notið hennar. Af þeim þjóðfélagshópum sem geta fallið undir framangreint ákvæði má sem dæmi nefna fólk sem sætir ofsóknum vegna kyns, kynhneigðar eða kynvitundar og börn sem eru neydd til hjúskapar, þvinguð til hernaðar eða eru fórnarlömb annars ofbeldis. Algengt er í framkvæmd á Norðurlöndunum og innan aðildarríkja Evrópusambandsins að kyn, aðallega félagslegt, þ.e. kynvitund og kyngervi og þær ofsóknir sem taldar eru kynbundnar, tilheyri ákveðnum þjóðfélagshópi. Eru þá til að mynda konur sem hafa orðið fyrir eða hræðast kynferðisofbeldi, kynfæralimlestingar og þess háttar látnar falla innan flokksins þar sem þær eiga það sam­eigin­legt að kyn þeirra í víðum skilningi þess orðs er ástæða ofsókna. Hafa skal í huga að framkvæmd og löggjöf á þessu sviði er afar breytileg og eðlilegt að túlkun ákvæðis þessa sé breytileg með sama hætti, m.a. til þess að tryggja að þeir sem þurfi vernd geti fengið hana. M.a. af þeim ástæðum er ekki talið eðlilegt að tilgreina sérstaklega ákveðna hópa í ákvæðinu sjálfu enda yrði það aðeins gert í dæma skyni og ætti í engum tilvikum að vera tæmandi eða bundið við skilgreiningar þess tíma sem ákvæðið kemur inn í löggjöfina. Á þessu er ein undantekning en hún varðar fórnarlömb mansals og er það nýmæli í ákvæði þessu sem byggist á leiðbeiningum Flóttamannastofnunar. Þetta þýðir að fórnarlömb mansals, sem eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum við endurkomu til heimalands, teljast flóttamenn skv. 1. mgr. 37. gr. ef ástæður ofsóknanna má rekja til þess að um er að ræða fórnarlömb mansals. Ef ofsóknirnar koma til af öðrum orsökum getur 2. mgr. 37. gr. átt við eða önnur ákvæði, t.d. dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 74. gr.
    Ákvæði 4. mgr. eru samhljóða 3. mgr. 44. gr. a gildandi laga og skýrir hver getur verið valdur að ofsóknum. Samkvæmt athugasemdum við greinina í frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 er miðað við afmörkun norsku laganna auk þess sem miðað er við að áfram verði stuðst við leiðbeiningar Flóttamannastofnunarinnar við skýringu á ákvæðinu. Athygli er þá vakin á því að þessi málsgrein á einnig við þegar skilyrði 2. mgr. 37. gr. eru metin öndvert við 1., 2. og 3. mgr. greinarinnar sem taka aðeins til 1. mgr. 37. gr.

Um 39. gr.

    Greinin er nýmæli þar sem fram kemur að ríkisfangslausir einstaklingar eigi sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns.
    Um ríkisfangsleysi er fjallað í tveimur alþjóðasamningum: Samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samningi um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. Ísland hefur ekki fullgilt þessa samninga en fyrir liggur ákvörðun stjórnvalda um að leggja samningana fyrir Alþingi svo leiða megi ákvæði þeirra í íslenska löggjöf. Hvatinn að þeirri vinnu er barátta Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna með það að leiðarljósi að eyða ríkisfangsleysi á heimsvísu. Hún hófst í nóvember 2014 og mun standa í 10 ár. Markmið Flóttamannastofnunarinnar er að eyða ríkisfangsleysi í heiminum, leysa vandamál tengd ríkisfangsleysi, koma í veg fyrir að ríkisfangslausum fjölgi og taka upp verklag til að auðvelda að bera kennsl á ríkisfangslausa þjóðfélagshópa.
    Skilgreiningin á ríkisfangslausum einstaklingi kemur fram í 1. mgr. 1. gr. samnings um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga og merkir „einstaklingur sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum.“
    Samkvæmt ákvæðinu á ríkisfangslaus einstaklingur sem er staddur hér á landi en telst ekki flóttamaður skv. 37. gr. sjálfstæðan rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli ríkisfangsleysis síns. Skilyrði samkvæmt greininni er að umsækjandi sé staddur hér á landi en ekki er skilyrði að hann sé í lögmætri eða varanlegri dvöl.
    Vernd samkvæmt ákvæðinu er veitt í samræmi við þá vernd sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og leiðbeiningar sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út. Þar er mælt fyrir um að ríkisfangslausir einstaklingar skuli að mestu njóta sömu réttinda og aðrir útlendingar í viðkomandi ríki eða ríkisborgarar ríkisins við ákveðnar aðstæður. Þá er sérstaklega tekið fram í samningnum að ekki skuli vísa ríkisfangslausum einstaklingi á brott sem dvelst löglega í landinu nema vegna þjóðaröryggis eða allsherjarreglu.
    Tekið er fram í ákvæðinu að útlendingur þurfi að sækja um að fá stöðu ríkisfangslauss einstaklings. Aðildarríki samningsins hafa farið mismunandi leiðir að þessu umsóknarferli og heimila sum ríki að umsókn sé borin upp munnlega ef aðstæður málsins mæla með því, t.d. ef umsækjandi er barn eða kann ekki að skrifa. Lagt er til að umsókn verði skrifleg og ef umsækjandi á í erfiðleikum með það verði honum veitt aðstoð. Ekki er lagt til að Útlendingastofnun skuli af sjálfsdáðum hefja málsmeðferð á grundvelli ríkisfangsleysis heldur þarf útlendingur að sækja um viðurkenningu á stöðu sinni. Í ljósi leiðbeiningarreglu stjórnsýslulaga skal Útlendingastofnun þó leiðbeina viðkomandi telji stofnunin að umsækjandi geti verið ríkisfangslaus og að það væri honum til hagsbóta að sækja um viðurkenningu á þeim grunni. Komi upp að umsækjandi um alþjóðlega vernd á grundvelli flóttamannasamningsins óski jafnframt eftir stöðu ríkisfangslauss einstaklings skal leysa úr þeim málum samhliða.
    Mat á umsókn um ríkisfangsleysi er í höndum Útlendingastofnunar. Ekki var talið rétt að setja reglur um það mat í lög en heimilt er að setja slíkt í reglugerð ef þörf er á. Ljóst er að úrlausn þessara mála mun alltaf vera háð mati að miklu leyti og er rétt að stofnunin setji sér reglur um hvernig þessi mál skuli unnin og hvernig matið fari fram, líkt og þegar verið er að meta umsóknir um alþjóðlega vernd á grundvelli flóttamannasamningsins.

Um 40. gr.

    Greinin byggist að hluta til á 46. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Ákvæði 1. mgr. eru sambærileg 1. mgr. 46. gr. núgildandi laga og kveður á um að flóttamaður, í skilningi 37. gr. sem er á landinu eða kemur til landsins, eigi samkvæmt umsókn rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi. Réttur þessi nær hins vegar ekki til flóttamanna sem eru utan marka landsins.
    Ákvæði 2. mgr. samsvara 2. mgr. 46. gr. núgildandi laga og fjallar um undantekningar frá fyrrgreindri meginreglu. Réttur til verndar nær þannig ekki til flóttamanna sem svo er ástatt um sem rakið er í a–d-liðum málsgreinarinnar.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. tekur vernd ekki til flóttamanns sem fellur undir D- eða E-lið 1. gr. flóttamannasamningsins. D-liðurinn felur í sér að viðkomandi nýtur verndar eða aðstoðar hjá stofnunum eða deildum Sameinuðu þjóðanna öðrum en erindreka Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna. E-liðurinn áréttar að flóttamannasamningurinn taki ekki til manns sem þar til bær stjórnvöld þess lands, sem hann hefur sest að í, hafa viðurkennt að njóti þeirra réttinda og beri þær skyldur sem fylgja ríkisfangi í því landi. Í þessu samhengi skal við túlkun tekið mið af handbók Flóttamannastofnunarinnar um réttarstöðu flóttamanna.
    Samkvæmt b-lið 2. mgr. nær vernd ekki til flóttamanns sem ríkar ástæður eru til að ætla að hafi framið alvarlega glæpi, svo sem nánar er greint í ákvæðinu. Er þetta í samræmi við F-lið flóttamannasamningsins. Í 2. tölul. b-liðar skal miða við tillögur Flóttamannastofnunar um túlkun tilskipunar 2004/83/EB um flóttamenn og þau tímamörk þegar umsækjandi leggur fram umsókn um hæli hér á landi, en ekki síðar, eins og heimilað er í tilskipun 2004/83/EB sem er samhljóða núgildandi ákvæði tilskipunar 2011/95/ESB. Er þessu viðmiði einnig fylgt í norsku lögunum með vísan til þeirrar niðurstöðu Flóttamannastofnunarinnar að þetta ákvæði tilskipunarinnar sé ekki í samræmi við flóttamannasamninginn.
    Í c- og d-lið 2. mgr. er tekið fram að viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. verði ekki veitt ef ástæða er til að álíta viðkomandi umsækjanda hættulegan eða ef hann hefur yfirgefið land sitt til að komast hjá refsingu, svo sem nánar er gerð grein fyrir í ákvæðinu. Er þessi takmörkun heimiluð skv. 2. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins. Í athugasemdum Flóttamannastofnunar við þágildandi 14. gr. tilskipunar 2004/83/EB um flóttamenn, sem veitti sambærilega heimild, kemur fram að gera verði greinarmun á heimild 2. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins til að neita flóttamönnum um vernd gegn því að vera vísað brott í þeim tilvikum sem þar eru upp talin annars vegar og því að synja flóttamanni um alþjóðlega vernd og réttarstöðu flóttamanns hins vegar. Flóttamannasamningurinn gerir ekki ráð fyrir því að 2. mgr. 33. gr. veiti heimild til þess að synja flóttamanni um alþjóðlega vernd vegna þeirra ástæðna sem taldar eru upp í 2. mgr. 33. gr. samningsins. Í samræmi við túlkun Flóttamannastofnunarinnar og í samræmi við þá leið sem farin er í norsku lögunum á þessi undantekning á rétti til að fá alþjóðlega vernd aðeins við um þá sem falla undir 2. mgr. 37. gr. en ekki um flóttamenn skv. 1. mgr. 37. gr., sbr. A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins.
    D-liður 2. mgr. styðst við sambærilegt ákvæði norsku útlendingalaganna og 3. mgr. 17. gr. í tilskipun 2004/83/EB um flóttamenn (nú sama grein tilskipunar 2011/95/ESB). Kemur þar fram að synja megi um alþjóðlega vernd þeim sem óskar eftir vernd vegna ástæðna sem greinir í 2. mgr. 37. gr. frumvarps þessa ef brottför frá heimalandi er til þess eins að forðast refsingu þar. Gera verður ráð fyrir að sömu sönnunarreglur gildi um ástæðu brottfarar eða flótta frá heimalandi sem endranær. Í því tilviki að sýnt sé fram á að viðkomandi óttist ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð koma almenn sjónarmið til skoðunar, m.a. vernd gegn því að vera vísað brott.
    Í 4. mgr. er vísað til 42. gr. vegna meðferðar mála útlendinga sem falla undir 2. mgr. en er ekki heimilt að vísa brott.

Um 41. gr.

    Í greininni koma fram svokallaðar útilokunarástæður frá stöðu ríkisfangsleysis. Greinin byggist á útilokunarástæðum sem fram koma í 2. mgr. 1. gr. samnings um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga. Samkvæmt ákvæðinu eiga einstaklingar í tilgreindum stöðum ekki rétt á vernd samkvæmt samningnum og lögunum þrátt fyrir að vera ríkisfangslausir. Um er að ræða einstaklinga sem hafa ekki þörf á vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, t.d. vegna þess að þeir hafa fengið vernd á öðrum grunni eða eiga ekki skilið að fá vernd vegna annarra ástæðna, t.d. ef ríkar ástæður eru til að ætla að viðkomandi hafi framið stríðsglæp eða glæp gegn mannkyni.
    A-liður á við um þá einstaklinga sem falla undir „The United Nations Relief and Works Agency for Palestinian Refugees in the Near East“. Það er eina verkefni Sameinuðu þjóðanna sem fellur nú undir þetta ákvæði og var það sett með þá einstaklinga í huga.
    B-liður á við um þá einstaklinga sem þegar hafa örugga búsetu í einhverju ríki og hafa ríkari rétt á þeim grundvelli en þeir mundu hafa samkvæmt samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga. Hvert tilfelli þarf að meta fyrir sig. Þau réttindi sem hér er átt við eru efnahagsleg og félagsleg réttindi sem eru sambærileg þeim sem ríkisborgarar þess ríkis hafa sem og bann við brottvísun. Einstaklingur sem hefur þessi réttindi hefur ekki þörf á vernd samkvæmt samningnum. Þessi regla gildir einungis ef einstaklingurinn hefur rétt til að snúa til baka til þess ríkis og búa þar. Ef svo er ekki eiga ákvæði samningsins og laganna við. Það athugist að í ákveðnum tilvikum getur verið eðlilegt að beita ekki þessu ákvæði. T.d. ef einstaklingur sem á rétt til búsetu í ákveðnu ríki hefur aldrei búið þar og hefur engin tengsl við ríkið.
    Í c-lið eru taldar upp þrjár ástæður fyrir því að einstaklingur sem er ríkisfangslaus á ekki rétt á stöðu vegna ríkisfangsleysis. Í fyrsta hluta eru glæpir sem falla undir lögsögu alþjóðasakamáladómstólsins. Annar hluti nær til þeirra sem hafa framið stórfelld afbrot í annarri lögsögu. Þriðji hluti á t.d. við alvarleg brot á reglum og tilgangi Sameinuðu þjóðanna en hefur oft verið talinn takmarkast við einstaklinga í æðstu stöðum.

Um 42. gr.

    Greinin er í samræmi við 45. gr. gildandi laga um útlendinga en þó með nokkrum breytingum er einkum varða uppsetningu. Ákvæðið hefur sætt gagnrýni fyrir að vera óskýrt, m.a. af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Rétt er að vekja athygli á því að öll ríki Evrópusambandsins eru bundin af meginreglunni um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) samkvæmt skuldbindingum í alþjóðlegum mannréttindasamningum og eftir viðurkenndum reglum þjóðaréttar. Kemur ákvæðið þannig sjálfstætt til skoðunar ef vísað er til þess, m.a. í þeim tilvikum þegar taka á ákvörðun um frávísun eða brottvísun til annars lands en heimalands útlendings, sbr. orðalag 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að 1. mgr. verði að mestu óbreytt frá ákvæði 1. mgr. 45. gr. gildandi laga að því leyti að þar kemur fram meginreglan um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement), sem kemur m.a. fram í 33. gr. flóttamannasamnings. Er lagt til að áfram verði byggt á þeirri framkvæmd sem fyrir hendi er og skýringum Flóttamannastofnunarinnar á meginreglunni.
    Í 2. mgr. er tekið fram að skv. 1. mgr. sé einnig óheimilt að endursenda útlendinga til svæða þar sem ekki er tryggt að þeir verði ekki sendir áfram til svæðis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu.
    Í 3. mgr. segir að vernd skv. 1. og 2. mgr. eigi við um hvers konar ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.
    Samkvæmt 4. mgr. getur komið til þess að viðkomandi sé undanskilinn alþjóðlegri vernd skv. 40. og 41. gr. en þrátt fyrir það sé skv. 1. mgr. óheimilt að senda hann úr landi þar sem það mundi leiða til þess að líf viðkomandi eða frelsi kynni að vera í hættu. Í slíkum tilvikum er heimilt að veita viðkomandi bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. með sérstökum skilyrðum sem fram koma í því ákvæði.

Um 43. gr.

    Greinin svarar til 51. gr. gildandi laga um útlendinga og fjallar um komu flóttafólks til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda. Þeirri skipan hefur verið komið á að ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að taka á móti hópi flóttamanna að fenginni tillögu frá flóttamannanefnd og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Felur ákvörðunin í sér fjölda flóttamanna, þjóðerni þeirra og dvalarstað. Í ákvörðuninni skal jafnframt koma fram hverjar eru forsendur hennar að öðru leyti.
    Í 2. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun veiti útlendingi sem hingað kemur til lands á grundvelli ákvæðisins, í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, réttarstöðu flóttamanns. Nauðsynlegt er að Útlendingastofnun fjalli formlega um mál þeirra flóttamanna og réttarstöðu en sú ákvörðun skal tekin í samræmi við ákvörðun stjórnvalda. Útlendingastofnun getur einnig ákveðið að taka á móti hópum útlendinga sem ekki teljast flóttamenn. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kann að telja þörf á að finna slíkum hópum samastað. Útlendingastofnun skal heimila komu slíkra hópa til landsins eins og ef um hópa flóttamanna væri að ræða ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði sem sett eru af stjórnvöldum hverju sinni og tekur ákvörðun um hvort þeim skuli veitt réttarstaða flóttamanns.
    Af tilvísun til IV. og V. kafla stjórnsýslulaga í 3. mgr. leiðir m.a. að ákvarðanir skv. 1. mgr. þarf ekki að rökstyðja enda um ívilnandi ákvarðanir að ræða.

Um 44. gr.

    Greinin samsvarar 51. gr. a gildandi laga um útlendinga.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra, er fer með málefni útlendinga, geti tekið ákvörðun um að við sérstakar aðstæður þegar fjöldi flóttamanna flýr tiltekið landsvæði skuli beitt sérstökum ákvæðum greinarinnar sem fela í sér heimild til að veita dvalarleyfi á grundvelli sam­eigin­legrar verndar. Ákvörðun um það hvenær slíkt ástand hefur skapast að ástæða sé til að tala um fjöldaflótta er að jafnaði tekin að undangengnu samráði, innan lands sem utan, þar á meðal við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Með sama hætti mun ráðherra taka ákvörðun um hvenær slík ákvörðun skuli niður falla.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar ákvörðun skv. 1. mgr. hefur verið tekin er unnt að veita þeim sem frá slíku svæði koma vernd á grundvelli hópmats (sam­eigin­lega vernd) og að útlendingar sem þannig koma fái dvalarleyfi sem myndar ekki grundvöll til útgáfu ótímabundins dvalarleyfis. Slíkt leyfi mætti hvort heldur sem er endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár frá því að leyfi var fyrst veitt, sbr. 3. mgr. Heimild til að framlengja leyfi felur í sér að Útlendingastofnun getur af sjálfsdáðum framlengt leyfi. Þá er miðað við að endurnýjun eða framlenging verði að jafnaði til eins árs í senn. Að árunum þremur liðnum er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sam­eigin­legrar verndar sem getur myndað heimild til útgáfu á ótímabundnu dvalarleyfi. Á þessu stigi kann útlendingur hins vegar að leggja fram ósk um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til meðferðar, sbr. 4. mgr., og ef orðið verður við þeirri beiðni eða dvalarleyfi verður veitt á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 76. gr., kemur dvalarleyfi, sem reist er á mati á einstaklingnum, í stað dvalarleyfis sem byggt er á sam­eigin­legri vernd. Að liðnu einu ári með slíkt dvalarleyfi, sem byggist á sam­eigin­legri vernd, er heimilt að gefa út ótímabundið dvalarleyfi enda séu skilyrði til að halda slíku leyfi enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt, sbr. 58. gr.
    Ákvörðun um sam­eigin­lega vernd nær fyrst og fremst til útlendinga frá viðkomandi svæði sem koma til landsins eftir að ákvörðunin er tekin. Útlendingur, sem er í landinu og á mál óafgreitt hjá stjórnvöldum, fellur einnig undir ákvörðunina. Ákvörðunin útilokar ekki að mál hljóti meðferð sem umsókn um alþjóðlega vernd en skv. 4. mgr. er hins vegar heimilt að leggja slíkar umsóknir til hliðar í allt að þrjú ár. Að því leyti sem ákvörðun um að tilteknir flóttamenn frá viðkomandi svæði megi koma til landsins í flóttamannahópi sem ekki er kominn til landsins þegar ákvörðun er tekin skv. 1. mgr. mundi slíkur hópur hins vegar ekki falla undir ákvörðun um sam­eigin­lega vernd.
    Samkvæmt 4. mgr. er heimilt að leggja umsókn um alþjóðlega vernd til hliðar í allt að þrjú ár frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi. Þegar heimildin til að veita sam­eigin­lega vernd er niður fallin eða þegar þrjú ár eru liðin frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi verður umsókn um alþjóðlega vernd þó ekki tekin sjálfkrafa til meðferðar. Er þá áskilið að umsækjanda um alþjóðlega vernd skuli tilkynnt að umsóknin verði ekki tekin til meðferðar nema hann láti í ljós ótvíræða ósk um það innan tilskilins frests.
    Í 5. mgr. segir að Útlendingastofnun taki ákvörðun um leyfi og um að leggja umsókn til hliðar.

Um 45. gr.

    Greinin byggist á 47. gr. gildandi laga um útlendinga en er að nokkru breytt. Hún fjallar um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar.
    Samkvæmt 1. mgr. veitir alþjóðleg vernd útlendingi réttarstöðu flóttamanns og hann fær dvalarleyfi skv. 73. gr. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af lögum um útlendinga og öðrum íslenskum lögum, svo og flóttamannasamningnum, samningi um ríkisfangsleysi eða öðrum þjóðréttarsamningum. Flóttamannasamningurinn tilgreinir ýmis réttindi sem flóttamaður skal njóta, sem og réttindi ættingja flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru breytt frá gildandi lögum og kveðið er með skýrari hætti á um rétt aðstandenda flóttafólks til alþjóðlegrar verndar hér á landi. Með þessum ákvæðum er gert ráð fyrir að nánustu ættingjar flóttamanns, þ.e. makar, sambúðarmakar og börn þeirra undir 18 ára aldri, eigi einnig rétt á vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Þá hefur réttur flóttamanns til nýrrar fjölskyldumyndunar verið færður til núgildandi framkvæmdar en í því felst takmarkaðri heimild til samræmis við VIII. kafla. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem fengið hefur alþjóðlega vernd hér á landi og vill stofna til hjúskapar með einstaklingi utan EES þarf að hafa stundað nám hér á landi eða vinnu síðastliðin fjögur ár og sýna fram á framfærslugetu.
    Ekki eru dæmi þess í framkvæmd að foreldrar fygldarlauss barns sem dvelst hér á landi hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Skv. núgildandi lögum og framkvæmd verður að telja að slíkt leyfi hefði verið veitt á grundvelli sérstakra tengsla við landið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem og barnaverndarsjónarmið. Með ákvæði 3. mgr. eru tekin af tvímæli um það að í þessum tilvikum eigi foreldri eða foreldrar barns sem er yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd.Í ákvæðinu er vísað til þess að foreldri eða foreldrar hafi farið með forsjá barns en rétt er að taka fram að lög og reglur um forsjá barna geta verið ólíkar milli landa. Inntak þessa fer eftir því sem unnt er að skilgreina með hliðsjón af inntaki forsjár að íslenskum lögum. Flóttamaður getur verið í þeirri stöðu að geta ekki sýnt fram á forsjá að lögum þess ríkis sem hann flúði eða vill flýja. Við mat á því hvort þessi heimild sé fyrir hendi skal fyrst og fremst litið til hagsmuna barnsins, sbr. m.a. 3. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989. Þótt liðin sé nokkur tími frá því að fjölskyldan bjó saman skal það ekki hafa áhrif á niðurstöðu, enda gæti fjölskylda hafa sundrast á flótta, að því gefnu að hagsmunum barnsins sé best borgið með því að vera sameinað foreldrum sínum eða foreldri að nýju. Þá geta systkini, sem eru yngri en 18 ára og búa með foreldrum sínum eða því foreldri sem mun fá alþjóðlega vernd hér á landi, einnig átt rétt til verndar hér á landi. Veigamikil rök hníga að því að heimila flóttafólki að sameinast fjölskyldum sínum eins og unnt er. Það er þó ávallt skilyrði sameiningar þegar börn eiga í hlut að hún sé barni fyrir bestu. Einnig þarf að vega og meta þau sjónarmið sem geta komið upp í tengslum við veitingu dvalarleyfis fyrir aðstandendur í málum þar sem börn fá vernd hér á landi ein­göngu á grundvelli þess að þau hafi verið fylgdarlaus og án umönnunaraðila. Verður að telja að í mörgum þeim tilvikum væri eðlilegt að sameining fjölskyldu færi fram í heimalandi. Annars er hætt við að hvati skapist til þess að senda börn einsömul til landsins í þeim tilgangi að verða öðrum fjölskyldumeðlimum úti um heimild til dvalar hér á landi. Við þetta mat verður þó að hafa hliðsjón af fyrrgreindum sjónarmiðum um það sem barni er fyrir bestu, m.a. í ljósi þeirra tengsla sem það hefur myndað við landið og aðstæðna í heimalandi.
    Í 4. mgr. greinarinnar er fjallað um fylgdarlaus börn. Er hún lítt breytt frá gildandi lögum og kveður hún á um að skipa skuli barni forsjáraðila eða sjá um vistun þess þegar því hefur verið veitt alþjóðleg vernd.
    Í 5. mgr. er kveðið á um reglugerðarheimild sem á sér að hluta fyrirmynd í núgildandi lögum um það hvaða reglur skuli setja um stuðning við þá einstaklinga sem koma í boði íslenskra stjórnvalda skv. 43. gr., þá sem fengið hafa alþjóðlega vernd hér á landi samkvæmt kafla­num og þá sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. og mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr., m.a. um menntun, samfélagsfræðslu og starfsþjálfun. Einnig er veitt heimild til að setja reglur um að bráðabirgðadvalarleyfi eða skráningarskírteini umsækjanda um alþjóðlega vernd geti veitt sömu réttindi og dvalarleyfi flóttamanns.
    Í 6. mgr. er kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra til að kveða nánar á um skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu flóttamanna, þ.m.t. hvaða skilyrði 55. gr. skuli uppfyllt fyrir veitingu og að auki að takmarka rétt til fjölskyldusameiningar við umsóknir sem lagðar eru fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að fjölskyldumeðlimur fær dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 73. gr. Ráðherra er því heimilt að setja slíkar reglur bæði til að skýra nánar hvaða kröfur skuli vera uppfylltar sem og til þess að takmarka álag sem gæti leitt af mikilli fjölgun flóttamanna hingað til lands á skömmum tíma.

Um 46. gr.

    Greinin byggist á 48. gr. gildandi laga um útlendinga en er að nokkru breytt. Kveðið er á um rétt flóttamanns til að fá útgefið ferðaskírteini fyrir flóttamenn og er ákvæðið í samræmi við 28. gr. flóttamannasamningsins. Greinin kveður og á um rétt útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd, en hefur ekki verið veitt hún, til sérstaks vegabréfs fyrir útlendinga. Greinin er nokkuð breytt en breytingarnar fela fyrst og fremst í sér að reglugerðarheimild um synjun og afturköllun ferðaskilríkja er felld brott en þess í stað eru þau skilyrði lögfest sem áður voru sett í reglugerð. Þetta er gert vegna þess að um ríka hagsmuni er að ræða auk þess sem slíkt snertir 66. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til komu og dvalar.
    Ákvæði 1. mgr. eru breytt og í stað þess að tilgreina að sérstakar ástæður megi liggja til grundvallar synjun á veitingu skírteinis eru ástæðurnar tíundaðar en þær ástæður eru m.a. svipaðar og takmarkanir á útgáfu vegabréfa auk annarra atriða.
    Ákvæði 2. mgr. eru að mestu óbreytt frá ákvæði gildandi laga og vísar til aðstæðna þar sem útgáfa ferðaskírteinis ætti að vera óþörf enda hafi útlendingur undir höndum annað ferðaskilríki.
    Ákvæði 3. mgr. eru að mestu óbreytt frá ákvæði gildandi laga og kveður á um það að útlendingur sem hefur sótt um alþjóðlega vernd og hefur fengið dvalarleyfi án þess að fá stöðu flóttamanns njóti sama réttar til útgáfu ferðaskírteinis. Er gert ráð fyrir að ráðherra kveði á um það hvenær þetta á við með reglum.
    Í 4. mgr., sem einnig er úr gildandi lögum, er kveðið á um að einstaklingar afhendi önnur ferðaskilríki sín við útgáfu ferðaskírteinis enda einungis ætlunin að ferðast sé samkvæmt einu skilríki í senn.
    Í 5. og 6. mgr. er kveðið á um það annars vegar hvenær afturkalla skuli ferðaskírteini og hins vegar hvenær heimilt er að gera það. Bæði ákvæðin er að finna í gildandi reglugerð um útlendinga. Hið fyrrnefnda á við um aðstæður þegar forsendur skírteinis eru brostnar, svo sem þegar annað skilríki er gefið út af Íslandi eða öðru landi eða brottför er bönnuð. Síðarnefnda ákvæðið á aðallega við þegar um tilraun til misnotkunar getur verið að ræða en þá er stjórnvaldi heimilt að meta aðstæður.
    Í 7. mgr. er lögreglu og erlendum sendiskrifstofum heimilað að haldleggja skírteini til bráðabirgða en Útlendingastofnun tekur endanlega ákvörðun um slík mál.
    Í 8. mgr. er fjallað um skráningu afturköllunar og 9. mgr. felur í sér heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð nánari fyrirmæli en þó ekki um synjun eða afturköllun.

Um 47. gr.

    Greinin er sambærileg 49. gr. gildandi laga um útlendinga og fjallar um áhrif þess að útlendingi hefur verið ákvörðuð staða flóttamanns eða sem staðfest hefur verið að sé ríkisfangslaus í öðru ríki. Á því er byggt að ákvörðun í einu ríki um stöðu flóttamanns bindur ekki stjórnvöld í öðru ríki. Hins vegar er eðlilegt og í samræmi við 20.–21. gr. ályktunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna EC/SCP/5 frá 24. ágúst 1977 að slík ákvörðun um viðurkenningu á stöðu í öðru ríki sé ekki vefengd nema ákvörðunin sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

Um 48. gr.

    Greinin er sambærileg 47. gr. a gildandi laga um útlendinga og kveður á um skilyrði fyrir afturköllun alþjóðlegrar verndar. Ákvæðið á stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamningsins og er sambærilegt ákvæði að finna í norskum útlendingalögum. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skal túlkun fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók Flóttamannastofnunar. Rétt þykir að hafa heimildarákvæði sem þetta í lögum þótt líklegt sé að ekki reyni oft á það þar sem útlendingur hefur myndað tengsl við land þar sem hann nýtur alþjóðlegrar verndar og jafnvel fengið ótímabundið dvalarleyfi áður en aðstæður breytast í heimalandi eða fyrra búsetulandi. Getur reynt á þetta ákvæði þegar um er að ræða flóttamenn skv. 1. og 2. mgr. 37. gr., sem og fjöldaflóttaákvæði skv. 44. gr.
    Ávallt skal miðað við að ákvörðun byggist á mati á aðstæðum hvers einstaklings. Greinin er einnig með fyrirvara um beitingu 1. mgr. 42. gr. um bann við endursendingum þar sem sú grein á við.
    Í 11. gr. og 16. gr. þágildandi tilskipunar 2004/83/EB um flóttamenn var ríkjum veitt svigrúm til að túlka e- og f-liði ákvæðisins með áherslu á hvort aðstæður í heimalandi hefðu breyst varanlega til bóta þannig að endurskoða mætti mat á því hvort viðkomandi hefði ríka ástæðu til að óttast ofsóknir. Í athugasemdum Flóttamannastofnunar við þessi ákvæði tilskipunarinnar ítrekar hún mikilvægi þess að ríki meti fyrst og fremst skilyrðið um að viðkomandi geti sýnt fram á ríkar ástæður til þess að neita að hverfa aftur vegna fyrri ofsókna, sbr. nánar handbók Flóttamannastofnunar.
    Ákvæði 2. mgr. endurspeglar orðalag flóttamannasamningsins og kveður á um að ekki skuli afturkalla alþjóðlega vernd ef útlendingurinn getur borið fyrir sig ríkar ástæður til þess að neita að hverfa aftur til landsins sem hann áður hafði fast aðsetur í.
    Þá er í 3. mgr. heimild til að afturkalla alþjóðlega vernd ef síðar kemur í ljós að flóttamaður hefur gerst sekur um þau alvarlegu brot sem talin eru í 1. og 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 40. gr. og 1. eða 2. tölul. c-liðar 2. mgr. 41. gr., þ.e. a- og c-lið 1. gr. E í flóttamannasamningnum. Er þessi málsgrein í samræmi ákvæði norskra laga.
    Samkvæmt 4. mgr. ber Útlendingastofnun að tilkynna flóttamanni um það þegar til greina kemur að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar og ástæður þess. Við þær aðstæður skal stjórnvald athuga hvort sjónarmið 74. gr. eða 42. gr. komi til skoðunar áður en alþjóðleg vernd er afturkölluð.

Um V. kafla.

    Í V. kafla eru sett fram almenn skilyrði fyrir dvöl útlendinga á landinu, hvernig leyfi­sveitingum er háttað og hvaða almennu skilyrði þarf að uppfylla ásamt því hvernig umsóknarferlið er, hverjir þurfa sérstök leyfi og hvaða heimildir leyfin veita almennt.

Um 49. gr.

    Ákvæðið fjallar um það hverjir geti komið til landsins og sé heimilt að dvelja á Íslandi án dvalarleyfis.
    Ákvæði 1. mgr. er að mestu samhljóða 1. mgr. 8. gr. gildandi laga um útlendinga og tekur mið af 20. og 21. gr. Schengen-samningsins. Málsgreinin nær til þeirra útlendinga frá ríkjum utan Schengen-svæðisins sem ýmist þurfa vegabréfsáritun við komu til landsins eða njóta áritunarfrelsis. Skýrt er kveðið á um að þeir útlendingar sem þurfa vegabréfsáritun megi ekki dveljast lengur hér á landi en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Hið sama gildir um þá útlendinga sem njóta áritunarfrelsis en dvöl þeirra án dvalarleyfis takmarkast við 90 daga í samræmi við reglur Schengen-samningsins.
    Samkvæmt 2. mgr. eru norrænir ríkisborgarar undanþegnir áskilnaði um dvalarleyfi í samræmi við samkomulag Norðurlandanna um það efni frá 1954. Í gildandi lögum um útlendinga eru fleiri hópar sem er heimilt að dveljast hér án dvalarleyfis en betur þótti fara á því að veita þeim ótímabundið dvalarleyfi án þess að uppfylla skilyrði um fyrri dvöl enda réttarstaða þeirra sem hafa ótímabundið dvalarleyfi um margt skýrari. Í 58. gr. kemur fram hvaða hópar þetta eru.
    Ákvæði 3. mgr. eru í samræmi við lokamálslið 1. mgr. 8. gr. gildandi laga um útlendinga og veitir ráðherra heimild til að setja reglugerð um dvöl umfram 90 daga ef það leiðir af þjóðréttarsamningi. Þessi heimild er í samræmi við 2. mgr. 20. gr. Schengen-samningsins. Þá er lagt til að unnt verði að setja nánari reglur um útreikning dvalartíma. Þær reglur yrðu að taka mið af Schengen-samningnum og norræna vegabréfaeftirlitssamningnum. Til lengri dvalar þarf jafnan sérstakt leyfi.
    Ákvæði 4. mgr. eru í samræmi við 3. mgr. 8. gr. gildandi laga um útlendinga en í henni felst heimild til ráðherra til að setja reglugerð um frekari undanþágur frá kröfu um dvalarleyfi. Slík undanþága gæti t.d. náð til þeirra sem koma til stuttrar dvalar og undanþegnir eru atvinnuleyfi skv. 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.

Um 50. gr.

    Ákvæðið byggist á 9. gr. gildandi laga um útlendinga og fjallar um að hver sá sem ekki hefur heimild til dvalar hér á landi og hyggst dveljast lengur en vegabréfsáritun kveður á um, eða lengur en 90 daga, skuli hafa dvalarleyfi.
    Í 2. mgr. er fjallað um þá kröfu að útlendingur sem hyggst ráða sig í vinnu þurfi, auk atvinnuleyfis, þar sem það er áskilið í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, að hafa dvalarleyfi. Jafnframt er tekið fram, í samræmi við ákvæði í lögum um atvinnuréttindi útlendinga sama efnis, að útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfunni um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Um 51. gr.

    Ákvæðið byggist á 1. mgr. 10. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Meginreglan við umsókn um dvalarleyfi er að útlendingur megi ekki vera staddur á Íslandi þegar sótt er um heimild til dvalar í upphafi líkt og fram kemur í 1. mgr. Þannig er almennt ekki ætlast til þess að útlendingur sem dvelur hér á landi á grundvelli vegabréfsáritunar sæki um dvalarleyfi meðan á dvöl stendur nema í sérstökum tilvikum. Er þetta m.a. gert til að gæta þess að útlendingar gefi upp raunverulegan tilgang fyrir dvöl hér á landi strax í upphafi en reyni ekki að komast fram hjá reglum með því að koma fyrst inn í landið á grundvelli annars leyfis þar sem gerðar eru minni kröfur. Í a- og b-lið málsgreinarinnar er tilgreint í hvaða tilvikum sé heimilt að víkja frá þeirri meginreglu, svo sem í tilfellum er varða fjölskyldutengsl en slíkt er gert til að tryggja það að fjölskylda geti verið sameinuð meðan á málsmeðferð stendur séu þeir fjölskyldumeðlimir komnir til landsins á annað borð. C-liður er nýmæli sem fjallar um að útlendingar sem hyggjast sækja um störf sem krefjast sérfræðiþekkingar eða sérhæfðir starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamninga megi dvelja hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi á þeim grundvelli.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að aðilar skv. c-lið 1. mgr. séu þó ekki undanskildir kröfu um vegabréfsáritun sé hún fyrir hendi.
    Í 3. mgr. er einnig almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá þessu skilyrði ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því og er ætlunin að þessu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir eru í húfi.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að hafna skuli dvalarleyfum sem útlendingar sækja um séu þeir staddir hér á landi án þess að vera undanskildir meginreglunni. Auk þess gildir þetta í tilvikum þar sem skilyrði til að koma til landsins eru ekki uppfyllt fyrr en við samþykkt umsóknar. Að auki skal sama regla gilda í þeim tilvikum þegar umsækjandi sem ekki er undanskilinn meginreglunni kemur til landsins áður en stjórnvöld hafa afgreitt umsóknina, t.d. á grundvelli áritunarfrelsis eða á grundvelli áritunar til annars aðildarríkis Schengen- svæðisins.
    Í 5. mgr. er lagt til að ráðherra fái heimild til að setja nánari fyrirmæli um hvaða tilvik geti fallið undir undanþáguheimild í 3. mgr. Til dæmis gætu slík tilvik verið vegna nemenda sem koma til Íslands í stuttan tíma til þess að sækja tímabundin námskeið í skólum sem eru reknir á vegum Sameinuðu þjóðanna og er í fram­haldinu veitt tímabundin námsvist. Hérna mætti líka vísa til þess að hér séu starfsmenn við sérhæfð störf sem frestast um skamman tíma vegna óviðráðanlegra þátta, eins og t.d. veðurs, og störfin eru liður í stærri framkvæmd sem hefur verulegt samfélagslegt gildi.

Um 52. gr.

    Greinin byggist á 2. mgr. 10. gr. gildandi laga um útlendinga og lýsir ferli við umsókn um dvalarleyfi. Auk þess er nýmæli í greininni þar sem fest er í sessi sú framkvæmd að Útlendingastofnun taki á móti umsóknum um atvinnuréttindi og áframsendi til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu, í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga. Í 2. mgr. er fjallað um framlagningu gagna og í 3. mgr. er sú skylda lögð á herðar ráðherra að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og um gögn og vottorð sem krafa er gerð um. Þetta er mikilvægt þar sem ekki má ætla Útlendingastofnun einni ákvörðunarvald í þessum efnum. Æskilegt er að reglugerðin sé unnin í nánu samráði við Útlendingastofnun. Við vinnslu þessa frumvarps komu fram ábendingar um að það geti reynst útlendingum miserfitt að afla tilskilinna gagna, einkum einstaklingum sem koma hingað til skemmri dvalar með skömmum fyrirvara, svo sem vegna náms, starfa eða íþrótta. Á þetta einkum við um kröfu um sakavottorð en í sumum ríkjum getur reynst nánast ómögulegt að afla slíkra gagna. Hefur m.a. reynt á þetta í tilfellum útlendinga frá ríkjum með veikt stofnanakerfi sem koma til skammrar dvalar í tengslum við sérsniðið nám eða tímabundið íþróttastarf. Í slíkum tilfellum þarf að vera mögulegt að víkja frá ýtrustu kröfum um gagnaskil. Gögnum sem fylgja umsókn skal þó ávallt ætlað að staðfesta það að skilyrði sem tilgreind eru í hverju leyfi séu uppfyllt.

Um 53. gr.

    Greinin byggist að hluta á 23. gr. gildandi laga um útlendinga og veitir Útlendingastofnun heimild til að forgangsraða afgreiðslu umsókna með ákveðnum hætti.
    Er þessu ákvæði m.a. ætlað að gera það mögulegt að koma til móts við þarfir fyrirtækja sem þurfa að ráða fólk til starfa án frekari tafa en hjá verður komist. Jafnframt er gert ráð fyrir að Útlendingastofnun hafi heimild til að hraða afgreiðslu námsmannaleyfa en oft er nauðsynlegt að þau séu afgreidd hratt svo að viðkomandi geti hafið nám, t.d. að hausti. Fjölgun erinda til Útlendingastofnunar hefur óhjákvæmilega leitt til þess að mál þurfa að bíða afgreiðslu og er þá mikilvægt að stofnunin hafi heimild til að forgangsraða verkefnum.
    Í sama skyni er kveðið á um svonefndar hraðafgreiðslur. Þar er átt við að hafi fyrirtæki sýnt af sér vönduð vinnubrögð um nokkurn tíma og getu til að standa undir kröfum um mjög vandaða vinnslu umsókna sé heimilt að afgreiða umsókn þótt ekki hafi öll gögn borist. Fyrirtækið ábyrgist þá að skila inn fullnægjandi gögnum fyrir hönd útlendings. Fyrirkomulagið hefur verið í gildi síðan það var lögfest árið 2008 og hefur reynst mörgum fyrirtækjum vel.
    Í 2. mgr. er það nýmæli lagt til að taka megi þjónustugjald fyrir flýtiafgreiðslu til þess að tryggja að hægt sé að sinna þessum málum án þess að það valdi óhóflegum töfum á öðrum málum. Þjónustugjaldi er ætlað að standa straum af útlögðum kostnaði stofnunar vegna flýtiafgreiðslu og á gjaldið að nægja til að endurspegla þörf á starfshlutfalli til að sinna þessum verkefnum á hverjum tíma.

Um 54. gr.

    Í greininni er rakið það ferli sem fer fram eftir að dvalarleyfi hefur verið samþykkt og kveðið á um útgáfu dvalarskírteina.
    Ákvæði 1. mgr. eru að mestu samhljóða 10. gr. a gildandi laga um útlendinga. Eftir að Útlendingastofnun hefur farið yfir umsókn og metið hvort skilyrðum dvalarleyfis sé fullnægt er umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að útlendingur gangist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu hans til landsins. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt og útlendingurinn er kominn til landsins verður hann að skila inn vottorði um læknisskoðun innan tilskilins frests og ganga frá skráningu lögheimilis hér á landi áður en dvalarleyfi er gefið út. Samþykkt dvalarleyfisumsóknar er að þessu leyti skilyrt, því að gangist útlendingur ekki undir læknisskoðun innan tilskilins frests eða í ljós komi að hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi, sem getur varðað frávísun skv. g-lið 1. mgr. 106. gr. frumvarpsins, er dvalarleyfið ekki gefið út. Rétt þykir að lögin hafi að geyma skýrt ákvæði þessa efnis. Eftir að dvalarleyfið hefur verið veitt gefur Útlendingastofnun út skírteini til útlendings til staðfestingar á dvalarleyfinu með þeim upplýsingum sem getið er í ákvæðinu. Sami búnaður er notaður við stafræna myndatöku og við móttöku umsókna um vegabréf fyrir íslenska borgara. Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um að upplýsingar á korti, auk fingrafara handhafa, verði skráðar í örflögu á kortinu. Um er að ræða sambærilegar kröfur og gerðar eru við útgáfu vegabréfa og er ákvæðið um skráningu fingrafara á kortið sambærilegt við 3. mgr. 3. gr. laga nr. 136/1998, um vegabréf, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2006.
    Í 3. mgr. er að finna gjaldtökuheimild fyrir endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis samkvæmt nánari fyrirmælum ráðherra með reglugerð. Útgáfa dvalarleyfisskírteina er kostnaðarsöm og umsóknargjald mætir þeim kostnaði aðeins að hluta til. Lagt er til að heimilt verði að taka gjald vegna endurútgáfu gildandi skírteinis og ætti það þá við í tilfellum þar sem skírteini glatast og útlendingur þarf að fá nýtt skírteini. Er þetta sambærilegt við aðra skírteinaútgáfu á Íslandi þar sem heimilt er að taka gjald ef viðkomandi einstaklingur týnir skírteini sínu.

Um 55. gr.

    Greinin byggist á 1. mgr. 11. gr. gildandi laga um útlendinga. Í ákvæðinu eru útlistuð skilyrði sem allir sem hyggjast sækja um dvalarleyfi hér á landi þurfa að uppfylla nema sérstaklega sé vikið frá þeim í grein um viðkomandi dvalarleyfi. Þessi skilyrði eru aldrei tæmandi fyrir veitingu dvalarleyfis heldur þarf, eftir því hvers konar dvalarleyfi er sótt um, að uppfylla ýmis önnur skilyrði er koma fram í greinum þeim sem lýsa viðkomandi dvalarleyfum en slíkt er reyndar inntak b-liðar 1. mgr. Ákvæðin eru lítið breytt frá gildandi lögum.
    Í a-lið 1. mgr. er fjallað um framfærslu og sjúkratryggingu. Í 56. gr. frumvarpsins er nánar vikið að því hvað telst trygg framfærsla. Sjúkratrygging er nauðsynleg þar til útlendingur öðlast rétt til almannatrygginga samkvæmt reglum sem um þær gilda. Í b-lið 1. mgr. er hnykkt á því að útlendingur þurfi að uppfylla skilyrði dvalarleyfis og er þá átt við önnur skilyrði sem tilgreind eru í viðkomandi greinum. Í c-lið 1. mgr. er skilyrði um að útlendingur samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Í d-lið 1. mgr. er það skilyrði dvalarleyfis líkt og í gildandi lögum að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingnum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Þau atvik, sem geta leitt til synjunar, eru ákvæðin um frávísun og brottvísun ásamt ýmsum öðrum ákvæðum.
    Í 2. mgr. eru nýmæli, en rétt þótti að taka sérstaklega fram að skilyrði útgáfu dvalarleyfis sé að raunverulegur tilgangur dvalar sé í takti við það dvalarleyfi sem sótt er um en krafa þessa efnis er í gildandi reglugerð um útlendinga. Þetta getur oft verið erfitt að meta við umsókn en getur orðið forsendubrestur síðar meir ef útlendingur gerir annað hér á landi en hann gaf til kynna í umsókn sinni. Nauðsynlegt þykir að geta tekið á slíku þegar þörf er á. Er þetta mögulegt með þessari lagasetningu þar sem dvalarleyfaflokkar eru mun skýrari og ítarlegri en í fyrri lögum en áður hefði verið erfitt að framfylgja ákvæði sem þessu.
    Í 3. mgr. er heimild til ráðherra að útfæra skilyrði 1. mgr. nánar í reglugerð og er þá fyrst og fremst átt við framkvæmd þeirra skilyrða. Ekki er gert ráð fyrir að frekari grunnskilyrði séu í reglugerð.
    Að lokum ber að nefna að í 11. gr. gildandi laga um útlendinga, sem er að mörgu leyti hliðstætt þessu ákvæði, er vikið að dvöl á grundvelli lögmæts sérstaks tilgangs. Í frumvarpi þessu hefur þessi heimild verið tekin út og þeir sem áður hafa talist falla undir það ákvæði fengið stað í öðrum dvalarleyfum, t.d. dvalarleyfum fyrir sjálfboðaliða.

Um 56. gr.

    Greinin byggist að meginstefnu til á 2. mgr. 11. gr. gildandi laga um útlendinga. Auk þess eru í greininni ákvæði úr gildandi reglugerð um útlendinga sem þótti betur fara á að kæmu fram í lögum. Í 1. mgr. er kveðið á um að framfærsla skuli trygg þann tíma sem sótt er um að dveljast hér á landi.
    Í 2. mgr. kemur fram að eigið fé, námslán eða námsstyrkur viðkomandi þarf að vera í viðurkenndum gjaldmiðli sem er skráður hjá Seðlabanka Íslands.
    Í 4. mgr. kemur fram að ráðherra geti með reglugerð sett nánari reglur um framfærslu, þ.m.t. um hvað telst trygg framfærsla, við hvaða upphæðir skuli miða, en þær skulu þó aldrei vera lægri en lágmarksframfærsla sveitarfélaga kveður á um, hvernig framfærslu skal háttað, svo og í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá reglunum. Samráð skal haft við ráðuneyti, félagsþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga við undirbúning þessarar reglugerðar og skal fara fram reglulegt endurmat á því hvað teljist trygg framfærsla.

Um 57. gr.

    Greinin byggist á 14. gr. gildandi laga um útlendinga. 1. mgr. samsvarar gildandi ákvæði og fjallar um endurnýjun dvalarleyfis. Í hverjum dvalarleyfisflokki er tekið sérstaklega á því hvaða skilyrðum endurnýjun er háð. Heimilt er að víkja frá almennu kröfunni um trygga framfærslu skv. 56. gr. við endurnýjun dvalarleyfis ef sýnt er fram á að slíkt ástand hafi einungis varað stutt, orsökin sé tímabundin og ef ætla má að ástandinu ljúki fyrr en síðar. Gert er ráð fyrir nokkru svigrúmi í þessu samhengi til að gæta sanngirni.
    Samkvæmt 2. mgr. skal útlendingur sækja um endurnýjun dvalarleyfis í síðasta lagi fjórum vikum áður en leyfi hans rennur út. Útlendingi er þá heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans. Sæki útlendingur ekki um innan þessara tímamarka ber honum að yfirgefa landið þegar gildandi dvalarleyfi hans rennur út.
    Í 3. mgr. kemur fram að leggi útlendingur fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eftir að gildistími þess er runninn út, þá telst hún ekki umsókn um endurnýjun heldur ný umsókn um dvalarleyfi, sbr. ákvæði 51. gr. Beri þá útlendingi að yfirgefa landið nema undanþágur 51. gr. eigi við.
    Í 4. mgr. er veitt undantekning frá 3. mgr. samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar ef afsakanlegt er að umsókn hafi borist eftir tilskilinn frest eða vegna ríkra sanngirnisástæðna. Sem dæmi um afsakanleg tilvik má nefna ef útlendingur hefur verið alvarlega veikur eða hann hefur af óviðráðanlegum ástæðum þurft að fara fyrirvaralaust til heimalands án þess að hafa haft tök á að leggja inn umsókn um endurnýjun. Sem dæmi um tilvik, sem ekki falla undir greinina, er ef útlendingur ber því við að hann hafi ekki vitað að leyfi hans væri að renna út eða að umboðsmaður hans hafi gert mistök. Ef útlendingur sækir of seint um endurnýjun dvalarleyfis, þ.e. eftir að leyfi hans rennur út, er hann í þeirri stöðu að þurfa að sækja um nýtt leyfi en ekki endurnýjun. Þetta verður til þess að útlendingur missir uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis, eftir atvikum. Vegna þessa verður í anda markmiðs um mannúð að líta sérstaklega til þessa við ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein sem og hvort líklegt sé að dvalarleyfi fáist endurnýjað. Við mat á því hvort umsækjanda sé heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar hans skal hafa þýðingu hvort líklegt sé að dvalarleyfið verði veitt og hvort dvalarleyfi það er útlendingur óskar endurnýjunar á sé þess eðlis að það myndi grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis. Hins vegar yrði að líta á það leyfi sem yrði eftir atvikum veitt sem nýtt leyfi.
    Í 5. mgr. eru nýmæli, en samkvæmt henni er Útlendingastofnun heimilt að ákveða að útlendingar, aðrir en þeir sem dveljast á grundvelli þeirra leyfa sem talin eru í málsgreininni, sem eru yfirleitt styttri leyfi þar sem ekki er gert ráð fyrir áfram­haldandi dvöl, þurfi ekki að yfirgefa landið til þess að sækja um dvalarleyfi á nýjum grundvelli. Á þetta við þegar útlendingur leggur inn umsókn um dvalarleyfi minnst fjórum vikum áður en fyrra leyfi rennur út og þegar hann hefur verið í löglegri dvöl hér á landi í a.m.k. níu mánuði. Í sumum tilfellum þar sem útlendingur á að öllum líkindum rétt á öðru dvalarleyfi, t.d. vegna starfs eða sem aðstandandi, getur verið íþyngjandi fyrir hann að þurfa að fara úr landi og sækja að nýju um dvalarleyfi erlendis frá. Þetta getur t.d. átt við ef útlendingur, sem kemur til landsins á grundvelli dvalarleyfis vegna atvinnuþátttöku, giftir sig á landinu og hyggst dveljast áfram án þess að vera í því starfi sem atvinnuþátttakan grundvallaðist á. Þó er rétt að árétta að umsækjendur sem falla undir undanþáguákvæði 1. mgr. 51. gr. mundu alltaf eiga rétt til dvalar á meðan umsókn er til meðferðar.
    Í 6. mgr. er kveðið á um heimild til að hafna umsóknum um dvalarleyfi á nýjum grundvelli í þeim tilvikum þar sem umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði 5. mgr. en nauðsynlegt er að skýr synjunarheimild sé til staðar til þess að koma í veg fyrir að umsækjendur geti nýtt sér framkomna umsókn til að framlengja dvöl hér á landi. Jafnframt er kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu til þess að dveljast á landinu ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því en við það mat yrði litið til sambærilegra ástæðna og greinir í 50. gr. frumvarpsins um hverjir þurfi dvalarleyfi.
    Í 7. mgr. er fjallað um það að Útlendingastofnun taki ákvörðun um niðurfellingu dvalarleyfis eftir þriggja mánaða samfellda dvöl erlendis. Gilda þá reglur stjórnsýslulaga um meðferð máls. Ef leyfishafi hefur flutt lögheimili sitt og hefur dvalist lengur en þrjá mánuði erlendis fellur leyfið sjálfkrafa niður án þess að stofnunin taki um það sérstaka ákvörðun.
    Í 8. mgr. kemur fram að ráðherra geti með reglugerð sett nánari skilyrði um endurnýjun dvalarleyfis.

Um 58. gr.

    Með frumvarpinu er horfið frá því að nota orðið búsetuleyfi yfir ótímabundið dvalarleyfi. Sú breyting þykir vera til skýringar á eðli og tilgangi leyfisins. Hugsunin með ótímabundnu dvalarleyfi er að það sé ætlað fyrir varanlega dvöl og veitir það ýmis réttindi í því samhengi, t.d. ríkari vernd gegn brottvísunum.
    Í 1. mgr. er tiltekið það meginskilyrði að útlendingur þurfi að hafa dvalist hér á landi samfellt í fjögur ár til þess að fá ótímabundið dvalarleyfi. Útlendingur þarf einnig að hafa dvalist hér þann tíma á grundvelli leyfis sem veitir grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis en slíkt gildir almennt um leyfi sem ætluð eru til lengri dvalar. Það hvort dvalarleyfi skapar grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis er tekið fram í hverju ákvæði um dvalarleyfi. Gert er ráð fyrir að skemmri dvöl erlendis, t.d. vegna orlofs, starfs eða náms, leiði ekki til þess að dvölin teljist ekki samfelld. A–e-liðir málsgreinarinnar eru byggðir á 1. mgr. 15. gr. núgildandi laga. A-liður er nokkuð breyttur en í honum kom áður fram að útlendingur þyrfti að hafa dvalist hér á sama grundvelli allan tímann sem hann dvaldist hér á landi. Rökin fyrir því voru að þá væri komin sú festa á búsetu hans hér á landi sem teldist eðlileg við veitingu ótímabundins dvalarleyfis. Lagt er til að þetta skilyrði verði tekið út en meginástæða þess er að slík festa sem um var rætt á þeim tíma á að jafnaði við með sama hætti þótt útlendingurinn hafi skipt um grundvöll dvalar, svo framarlega sem öll leyfin sem hann hefur dvalist samkvæmt veiti á annað borð grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis. Við þessa breytingu getur t.d. einstaklingur, sem hefur komið til landsins á grundvelli sérfræðistarfa en svo skipt yfir á aðstandendaleyfi, fengið ótímabundið dvalarleyfi eftir fjögurra ára heildardvöl. Enn frekari breyting er á þessu skilyrði í 3. mgr. sem er vikið að hér á eftir. Íslenskunámskeið er áfram skilyrði en markmið með slíku námskeiði er að veita útlendingi innsýn í tungumálið til að auðvelda honum þátttöku í íslensku þjóðfélagi. D-liður byggist á b-lið 1. mgr. 15. gr. gildandi laga um útlendinga en þó er orðalagi ákvæðisins nokkuð breytt. Ákvæðið ber að túlka með þeim hætti að áður en umsókn um ótímabundið dvalarleyfi er afgreidd skuli taka afstöðu til hugsanlegs brottvísunarmáls hvort sem slíkt mál kemur upp fyrir eða eftir að umsókn er lögð fram. Þannig er skýrt að leiði mál ekki til brottvísunar hafi það ekki áhrif á ótímabundið dvalarleyfi viðkomandi.
    Í 2. mgr. eru veittar tvær undanþágur frá skilyrðum 1. mgr. Í a-lið er gert ráð fyrir sams konar undanþágu og í 56. gr. um framfærslu á umsóknartíma ef sýnt er að slíkt ástand sé tímabundið. B-liður er nýmæli sem er sérstaklega hugsað fyrir námsmenn sem alla jafna safna ekki dvalartíma til ótímabundins dvalarleyfis. Hér væri um að ræða námsmenn sem búa hér áfram á öðrum grunni eftir að þeir hafa lokið námi sínu, t.d. á grundvelli dvalarleyfis vegna sérfræðiþekkingar. Þá er, ef um samfellda dvöl er að ræða, heimilt að veita ótímabundið dvalarleyfi þótt útlendingur hafi einungis dvalist hér á landi í tvö ár á grundvelli dvalarleyfis sem veitir söfnun réttinda til ótímabundins dvalarleyfis ef samfelld dvöl hans er eftir sem áður fjögur ár eða í þeim tilvikum þegar doktorsnemi hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sérfræðings skv. 61. gr. í að minnsta kosti þrjú ár og lokið doktorsnámi hér á landi. Þessi breyting byggist á þeirri röksemd að það sé í þágu hagsmuna íslensks samfélags að einstaklingar sem hafa menntað sig hér á landi og auk þess dvalið hér í tiltekinn tíma fái áfram­haldandi dvalarrétt hér á landi.
    Ákvæði 3. mgr. eru nýmæli þar sem veitt er undanþága frá skilyrði um dvalartíma. Þannig er heimilt að veita þeim einstaklingum, sem taldir eru upp í ákvæðinu, ótímabundið dvalarleyfi. Þessir aðilar féllu áður undir ákvæði um dvöl án dvalarleyfis en réttara þykir í ljósi þess að staða þeirra sé m.a. látin gilda á við ótímabundið dvalarleyfi í lögum um íslenskan ríkisborgararétt og til að tryggja áfram­haldandi réttindi þeirra við breytingu á hjúskaparstöðu að skýra réttarstöðu þeirra að þessu leyti. A-liður 4. mgr. samsvarar c-lið 2. mgr. 8. gr. gildandi laga um útlendinga en það ákvæði var með lögum nr. 86/2008, um breyting á lögum um útlendinga, sett til samræmis við lög um íslenskan ríkisborgararétt. Tekur a-liður 4. mgr. bæði til lögráða og ólögráða útlendinga.
    4. mgr. er samhljóða 3. mgr. 15. gr. núgildandi laga og varðar heimild til að veita barni sem fæðist hér á landi ótímabundið dvalarleyfi þegar forsjárforeldri sjálft hefur ótímabundið dvalarleyfi. Er ákvæðinu ætlað að tryggja stöðu barns við þær aðstæður svo að það njóti sömu dvalarréttinda og forsjárforeldri þess.
    Ákvæði 5. mgr. eru efnislega sambærileg við c-lið, 1. mgr. núgildandi laga sem felst í undanþágu fyrir þá sem fengið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarleyfis.
    Ákvæði 6. og 8. mgr. eru nánast óbreytt frá núgildandi lögum.
    Ákvæði 7. mgr. lýtur að þeirri forsendu að hlutaðeigandi búi hér á landi. Því er tekið fram að ótímabundið dvalarleyfi falli niður þegar leyfishafi hefur verið búsettur eða dvalist í raun erlendis samfellt lengur en 18 mánuði. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun þurfi að taka sjálfstæða ákvörðun um brottfall leyfisins. Þá er gert ráð fyrir að fallast megi á umsókn útlendings um lengri dvöl erlendis án þess að leyfið falli úr gildi. Það getur t.d. átt við þegar útlendingur fer tímabundið til náms, starfa eða til dvalar hjá ættingjum.
    Í 9. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Þar skal m.a. kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar þátttöku. Gert er ráð fyrir að hvert námskeið standi í u.þ.b. 2–3 mánuði og verði stundað samhliða vinnu. Þá er heimilt að mæla fyrir um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og hafa því til staðfestingar staðist próf. Loks er lagt til að heimilt verði að ákveða með reglugerð gjald fyrir þátttöku í námskeiði skv. 1. mgr. og fyrir að þreyta próf svo víkja megi frá kröfu um setu á slíku námskeiði. Í samræmi við almennar reglur er miðað við að slíkt gjald taki mið af kostnaði við námskeiðahald og próf, þ.m.t. er umsjón og skipulag, kennslu- og námsgögn og launakostn­aður. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði áætlað með hliðsjón af meðalþátttöku og því tæki það ekki mið af raunverulegri þátttöku í hvert og eitt skipti.

Um 59. gr.

    Greinin samsvarar 16. gr. gildandi laga um útlendinga. 1. mgr. fjallar um afturköllun dvalarleyfis og ótímabundins dvalarleyfis. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun verði heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfi­sveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis eða það að öðru leyti leiðir af almennum stjórnsýslureglum. Meta verður hverju sinni hvort heimild þessi skuli nýtt.
    Í 2. mgr. er tekinn af allur vafi um það að útlendingur, sem aflað hefur leyfis á grundvelli rangra upplýsinga eða hefur leynt atvikum við leyfi­sveitinguna, skuli vera eins settur og ef leyfi hefði ekki verið gefið út og mundi hið sama gilda ef hann hefði áður haft dvalarleyfi á grundvelli rangra upplýsinga, þ.e. að þau dvalarleyfi sem aflað var á grundvelli rangra upplýsinga myndi ekki réttindi. Dvöl á grundvelli dvalarleyfis, sem verður afturkallað, telst því ekki til dvalartíma á Íslandi ef byggt er á slíku leyfi við umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Verður að teljast óeðlilegt að útlendingur, sem aflað hefur leyfis á þennan hátt, geti að einhverju marki öðlast betri rétt en sá sem aldrei hefur fengið útgefið leyfi.

Um 60. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 1. mgr. 17. gr. gildandi laga um útlendinga og kveður á um skyldu útlendings til að tilkynna um komu sína til landsins og dvöl hér á landi. Í fyrsta lagi er útlendingi, sem fengið hefur dvalarleyfi áður en hann kom til landsins, skylt að gefa sig fram við Útlendingastofnun eða embætti sýslumanns utan Reykjavíkur innan viku frá komu. Meginreglan er að dvalarleyfi fyrsta sinni skuli gefið út áður en komið er til landsins, sbr. 51. gr. Nauðsynlegt er að yfirvöld hafi vitneskju um komu þeirra sem fá dvalarleyfi, m.a. til að ákvarða gildistíma dvalarleyfisins og ganga frá útgáfu þess. Gert er ráð fyrir að útlendingurinn mæti sjálfur hjá Útlendingastofnun eða hlutaðeigandi sýslumanni utan Reykjavíkur. Jafnframt mundi þá verða gengið eftir því að skilyrðum dvalarleyfis sé fullnægt, t.d. um læknisvottorð, ef því er að skipta. Sama tilkynningarskylda hvílir á útlendingi sem hyggst sækja um dvalarleyfi eða að öðru leyti þarfnast slíks leyfis. Slíkt mundi einkum eiga við um þá sem undanþegnir eru meginreglunni um að fyrsta dvalarleyfi skuli hafa verið veitt fyrir komu til landsins, sbr. 51. gr.

Um VI. kafla.

    VI. kafli fjallar um dvalarleyfi sem veitt eru sérstaklega vegna atvinnuþátttöku en undir það fellur einnig íþróttafólk.

Um 61. gr.

    Greinin lýsir dvöl sem heimiluð er vegna atvinnuþátttöku á grundvelli sérfræðiþekkingar og er í samræmi við 12. gr. gildandi laga um útlendinga. Í 1. mgr. er mælt fyrir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla. Í 2. mgr. kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skuli í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en tveggja ára en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að tvö ár í senn enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. Gildistími leyfisins fylgir gildistíma atvinnuleyfisins nema aðrar ástæður mæli með skemmri gildistíma, t.d. gildistími vegabréfs.
    Ákvæði 3. mgr. eru nýmæli en þar segir að hægt sé að framlengja leyfi útlendings sem fengið hefur dvalarleyfi á grundvelli þessa ákvæðis í allt að þrjá mánuði ef hann hefur misst starf sitt. Er það gert svo að hann hafi möguleika á að sækja um nýtt starf á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar.
    Í 4. mgr. er að lokum lagt til að dvalarleyfið geti orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Um 62. gr.

    Greinin lýsir dvöl sem heimiluð er vegna atvinnuþátttöku á grundvelli skorts á starfsfólki og er byggð á 12. gr. a gildandi laga um útlendinga. Í 1. mgr. koma fram þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt. Í 2. mgr. kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skuli í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að eitt ár til viðbótar enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt. Gildistími leyfisins fylgir gildistíma atvinnuleyfisins nema aðrar ástæður mæli með skemmri gildistíma, t.d. gildistími vegabréfs. Með 2. mgr. er þannig gert ráð fyrir því að útlendingur geti aðeins starfað á grundvelli leyfisins í 2 ár, nema undantekningarákvæði 3. mgr. eigi við.
    Samkvæmt 3. mgr. er heimilt að endurnýja leyfi til lengri tíma en skv. 2. mgr. þegar um er að ræða skýrt afmarkaða og tímabundna verkframkvæmd sem tekur lengri tíma en þar greinir. Er þá heimilt að veita dvalarleyfi þangað til verkframkvæmd lýkur eða til þess tíma sem atvinnuleyfið gildir. Í samræmi við viðkomandi atvinnuleyfi er gert ráð fyrir að hér sé um að ræða leyfi sem ekki er unnt að endurnýja nema í takmarkaðan tíma.
    Í 4. mgr. kemur fram að óheimilt sé að veita útlendingi, sem haft hefur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu, leyfi samkvæmt ákvæðinu að nýju fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins. Ákvæðið eigi þó ekki við þegar útlendingur starfar hér á landi skemur en átta mánuði á hverjum tólf mánuðum.
    Í 5. mgr. kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu veiti ekki rétt til ótímabundins dvalarleyfis.

Um 63. gr.

    Greinin lýsir dvöl sem heimiluð er vegna atvinnuþátttöku á grundvelli íþróttaiðkunar, þ.e. komi útlendingur til starfa hér á landi sem íþróttamaður eða þjálfari hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Greinin er byggð á 12. gr. b gildandi laga um útlendinga.
    Í 1. mgr. koma fram þau skilyrði sem þarf að uppfylla.
    Í 2. mgr. segir að dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skuli í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma atvinnuleyfis. Þá er heimilt að endurnýja leyfið um allt að tvö ár í senn enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. Gildistími leyfisins fylgir gildistíma atvinnuleyfisins nema aðrar ástæður mæli með skemmri gildistíma, t.d. gildistími vegabréfs.
    Samkvæmt 3. mgr. getur leyfi á þessum grundvelli orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Um 64. gr.

    Greinin lýsir dvöl sem heimiluð er vegna starfa sérhæfðra starfsmanna á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamninga. Í athugasemdum við 10. gr. laga nr. 86/2008, um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, kemur fram að á grundvelli ákvæðis 12. gr. a um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli verði einnig veitt dvalarleyfi þegar Vinnumálastofnun hefur veitt tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings. Gildistími slíks leyfis mundi ávallt fylgja gildistíma atvinnuleyfis og því að jafnaði ekki vera veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama þjónustusamnings. Til þess að skerpa á löggjöfinni í samræmi við markmið frumvarpsins er hér lagt til að kveðið verði á um dvalarleyfi á þessum grundvelli í sérstöku ákvæði. Er það jafnframt í samræmi við það markmið að dvalarleyfisflokkur endurspegli raunverulegan tilgang dvalar.
    Enn fremur er dvalarleyfið í tengslum við þjónustusamning víkkað svo að það nái einnig til sérhæfðra starfsmanna sem starfa hér á landi á grundvelli samstarfs á sviði kennslu-, fræði- eða vísindastarfa.
    Í 1. mgr. koma fram þau skilyrði sem þarf að uppfylla.
    Samkvæmt 2. mgr. skal leyfi samkvæmt ákvæði þessu að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama samnings í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga.
    Þar sem um skammtímadvöl er að ræða er ekki um réttindasöfnun til ótímabundins dvalarleyfis að ræða en í 3. mgr. segir að dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu geti ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Um VII. kafla.

    VII. kafli fjallar um dvalarleyfi vegna menntunar og menningarskipta, en þar er átt annars vegar við ungmenni sem koma til landsins í vistráðningu eða á grundvelli samninga Íslands um vinnudvöl ungmenna og hins vegar við námsmenn og fræðimenn.

Um 65. gr.

    Greinin lýsir dvöl sem byggð er á ákvæðum 12. gr. e í gildandi lögum um útlendinga en þó með nokkrum breytingum. Dvalarleyfi vegna náms er veitt útlendingum sem hyggjast stunda fullt nám hér á landi og er forsenda leyfisins sú að umsækjandi hafi fengið skólavist í viðurkenndum háskóla á Íslandi. Við mat á því hvort um fullt nám sé að ræða skal að jafnaði miða við 30 ECTS á önn eða samsvarandi.
    Í 2. mgr. er lýst þeim skilyrðum sem umsækjandi þarf að uppfylla. Við mat á því hvort skilyrði telst uppfyllt getur verið þörf á að heimila aukinn sveigjanleika við matið, m.a. þegar fyrirséð eða líklegt er að nemandi eigi von á framfærslu-, náms- eða rannsóknarstyrk. Þetta er gert með það að markmiði að koma í veg fyrir að nám tefjist vegna utanaðkomandi atriða, t.d. tímafresta erlendra styrkja.
    Samkvæmt 3. mgr. er heimilt að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu ef þeir koma til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka. Skilyrði 2. mgr. gilda um skiptinema að undanskilinni kröfunni um að umsækjandi þurfi að vera 18 ára og eldri enda eru skiptinemar sem koma á vegum slíkra samtaka til landsins oft 16 til 18 ára. Er ekki um að ræða neina breytingu frá núverandi fyrirkomulagi.
    Í 4. mgr. eru nýmæli og er þar lýst heimild sem hægt er veita útlendingi til að stunda nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum á Íslandi. Að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. þarf umsækjandi auk þess að hafa fengið tímabundið atvinnuleyfi vegna náms á grundvelli laga um atvinnuréttindi þar sem lögð hefur verið fram staðfesting frá menntastofnun, íslenskri eða erlendri eftir því sem við á, um að starf viðkomandi útlendings hér á landi sé nauðsynlegur hluti af námi hans við stofnunina.
    Ákvæði 5. mgr. eru nýmæli. Sú breyting að gefa megi út dvalarleyfi vegna náms til tólf mánaða í senn í stað sex mánaða eins og kveðið var á um áður byggist á athugasemdum sem fram komu við ritun frumvarpsins en bent var á það óhagræði sem tíð endurnýjun leyfis hefði í för með sér ásamt jákvæðri reynslu af samningum við einstaka háskóla og deildir um lengri endurnýjunartíma námsmannaleyfa. Lengri gildistími verður þó að vera háður samkomulagi stjórnvalda og viðkomandi menntastofnunar þar sem kveðið skal á um tilkynningarskyldu viðkomandi menntastofnunar til Útlendingastofnunar í þeim tilvikum þar sem námsárangur er ófullnægjandi innan gildistíma dvalarleyfisins. Í slíkum tilvikum yrði leyfi viðkomandi útlendings afturkallað. Þá hefur verið sett inn heimild til að endurnýja dvalarleyfi ef óviðráðanlegar ástæður valda því að fullnægjandi námsárangri hafi ekki verið náð. Þessar ástæður þurfa að vera óviðráðanlegar fyrir námsmanninn, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður. Það telst ekki til óviðráðanlegra ástæðna ef námsmaður er t.d. að vinna það mikið meðfram námi að hann nær ekki prófum, en nær að stunda vinnu þrátt fyrir veikindi.
    Við endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 5. mgr., þarf að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því er átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningafjölda tveggja anna og er nóg að leyfishafi nái t.d. 50% af heildareiningafjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn. Er þannig komið til móts við þá erlendu námsmenn sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum í nýju landi og við nýjar aðstæður eða ef skortur á framboði á námskeiðum í háskóla hamlar þátttöku í fullu námi.
    Ákvæði 6. mgr. eru nýmæli og lýsa heimild til að endurnýja dvalarleyfi meistara- og doktorsnema sem vinna að lokaverkefni, þrátt fyrir að engum einingum hafi verið lokið á leyfistíma, liggi fyrir staðfesting á námsframvindu frá viðkomandi skóla. Útlendingi, sem hefur haft atvinnuleyfi sem námsmaður, er heimilt að sækja um endurnýjun á því atvinnuleyfi til þess að halda starfi sínu áfram meðan leit að starfi á hans sérsviði stendur yfir.
    Í 7. mgr. er að finna nýmæli og er ætlað að gefa útlendingi, sem lýkur námsgráðu í samræmi við dvalarleyfi vegna náms, tækifæri í allt að sex mánuði til þess að leita sér starfs á grundvelli nýfenginnar sérfræðiþekkingar. Er þetta leyfi hugsað sem brú milli námsmannaleyfis og sérfræðingaleyfis. Leyfið er að hámarki gefið til sex mánaða frá útskriftardegi úr námi. Þá þarf útlendingur að uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. Leyfi kann því að vera veitt í styttri tíma en sex mánuði eða eftir atvikum í samræmi við framfærslu útlendings.
    Í 8. mgr. er áréttað að dvalarleyfið getur ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Um 66. gr.

    Greinin er byggð á ákvæðum 12. gr. c í gildandi lögum um útlendinga og er ekki um mikla efnislega breytingu að ræða. Með samningum við erlend ríki í þessu samhengi er einkum átt við samninga sem ætlað er að veita ungu fólki á aldursbilinu 18–26 ára tækifæri til að auka víðsýni sína með því að gefa því kost á að kynna sér lífshætti og viðhorf annarra þjóða í leik og starfi. Slíkir samningar eru þekktir í öðrum ríkjum, svo sem þar sem ungu fólki á tilteknu aldursbili er gefið færi á að dveljast að hámarki eitt ár í samningsríki og kynnast menningu, þjóð og störfum og er Ísland að stíga fyrstu skrefin í gerð slíkra samninga. Gert er ráð fyrir að ákvæði 55. gr. um grunnskilyrði dvalarleyfis verði ávallt að uppfylla auk þeirra reglna sem um slíka dvöl munu gilda samkvæmt samningunum. Þá er það skilyrði að útlendingi hafi ekki áður verið veitt dvalarleyfi á þessum grundvelli hér á landi. Gildistími dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu er að hámarki 12 mánuðir og óheimilt er að endurnýja leyfið. Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu myndar ekki grundvöll fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis enda ávallt um takmarkaðan dvalartíma að ræða.

Um 67. gr.

    Greinin er nýmæli og við gerð ákvæðisins var horft til skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan EFTA og EES og tillögur Útlendingastofnunar um að kveða þurfi á um sérstakan dvalarleyfisflokk fyrir sjálfboðaliða eða trúboða sem koma til landsins á vegum innlendra félagasamtaka eða skráðra trúfélaga. Markmiðið með dvölinni er að stunda ólaunuð sjálfboðaliðastörf eða störf á vegum trúfélaga. Einstaklingum í þessari stöðu hefur áður verið veitt dvalarleyfi í lögmætum og sérstökum tilgangi en lagt er til að ákvæði þess efnis verði afnumin úr núgildandi lögum. Er þessi breyting í samræmi við það markmið frumvarpsins að dvalarleyfi endurspegli raunverulegan tilgang dvalar.
    Í 1. mgr. kemur fram að heimilt sé að veita útlendingum dvalarleyfi hér á landi sem náð hafa 18 ára aldri og hingað vilja koma til þess að starfa fyrir viðurkennd góðgerðar- og/eða sjálfboðaliðasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og eru undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem og útlendingum sem koma til dvalar í trúarlegum tilgangi fyrir skráð trúfélög og þjóðkirkjuna, ef við á. Er almennt gert ráð fyrir að samtök sem falla undir ákvæði þetta starfi á alþjóðavísu.
    Í 2. mgr. koma fram skilyrði dvalarleyfisins. Þau eru m.a. að fyrirliggjandi sé boð frá innlendum samtökum eða trúfélögum til að koma hingað til lands og starfa á þeirra vegum og að skýrt komi fram hvaða störfum viðkomandi útlendingur muni sinna. Þá skal einnig koma fram um hve langa dvöl er að ræða og hver tilgangur dvalar sé.
    Í 3. mgr. kemur fram að útlendingi sem dvelst á landinu á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu sé óheimilt að inna af hendi önnur störf á íslenskum vinnumarkaði gegn endurgjaldi meðan á dvöl stendur. Viðkomandi útlendingur þarf því m.a. að geta sýnt fram á framfærslu skv. 56. gr. með öðrum hætti en með launatekjum hér á landi.
    Samkvæmt 4. mgr. skal dvalartími samkvæmt þessu leyfi aldrei vera lengri en tólf mánuðir og er jafnframt óheimilt að endurnýja slík dvalarleyfi. Í sérstökum tilvikum er þó heimilt að endurnýja leyfi útlendinga sem dvelja hér á landi í trúarlegum tilgangi. Er hér einkum átt við útlendinga sem dvelja hér til lengri tíma, svo sem nunnur og presta. Talið var nauðsynlegt að hafa undanþágu fyrir nunnur og presta til þess að viðhalda núverandi framkvæmd sem löng hefð er fyrir og ekki var talin geta heyrt undir önnur ákvæði frumvarps þessa. Ekki þótti heldur ástæða til að búa til sérstakt ákvæði einungis í þessu skyni.
    Í 5. mgr. er undantekningarregla um að heimilt sé að víkja frá kröfu 1. mgr. um að samtök sé að ræða ef markmið tiltekins verkefnis er sannarlega í góðgerðar- eða mannúðarskyni. 5. mgr. veitir þannig heimild fyrir ríkisstofnanir, sveitarfélög og einkafyrirtæki til að fá til sín sjálfboðaliða í viðfangsefni á þeirra vegum svo lengi sem verkefnin eru í góðgerðar- eða mannúðarskyni.
    Samkvæmt 6. mgr. getur útlendingur sem dvelst samkvæmt þessu leyfi ekki fengið þann tíma talinn til réttindasöfnunar vegna ótímabundins dvalarleyfis enda er ekki ætlunin að útlendingar festi rætur hér á landi við þessar aðstæður nema leyfið sé veitt í tengslum við dvöl á vegum skráðs trúfélags eða þjóðkirkjunnar.
    Samkvæmt 7. mgr. er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari reglur, m.a. um hvaða skilyrði samtök skuli uppfylla til að teljast viðurkennd góðgerðar- og/eða sjálfboðaliðasamtök.

Um 68. gr.

    Ákvæði um vistráðningu hafa verið í lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga um nokkurn tíma. Ákvæði þetta byggist á 12. gr. d gildandi laga um útlendinga en er þó breytt í veigamiklum atriðum. Skilgreining á vistráðningu, sem stuðst hefur verið við, byggist á samningi Evrópuráðsins um „au pair“-ráðningar þar sem slík ráðning er skilgreind sem „tímabundin móttaka fjölskyldna, í skiptum fyrir ákveðna þjónustu, á ungum, erlendum einstaklingum sem koma til þess að auka tungumálakunnáttu sína og jafnvel faglega þekkingu, jafnframt því að víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn með því að öðlast meiri þekkingu á landi því sem þeir koma til“. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er því um að ræða eins konar menningarskiptasamning sem hvorki fellur undir skilgreiningar um námsmenn né almenna starfsmenn. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir talsvert miklum breytingum á ákvæðum um vistráðningar í því skyni að auka við skilyrði þau er liggja til grundvallar vistráðningu. Tillögur í skýrslu starfshóps um málefni útlendinga utan EES og EFTA liggja til grundvallar þessum skilyrðum. Þar kemur m.a. fram að mikil fjölgun hafi orðið á umsóknum um þessi leyfi og upp hafi komið grunur um að leyfi á þessum grunni séu misnotuð þannig að raunverulegur tilgangur útlendings sé annar en vistráðning eða þá að vistráðning sé notuð til þess að fá útlendinga til landsins í þeim tilgangi að misnota þá.
    Í 1. mgr. kemur fram að vistráðning sé framkvæmd á grundvelli sérstaks samnings. Umsækjandi þarf að fullnægja grunnskilyrðum dvalarleyfis skv. 1. og 2. mgr. 29. gr. og vera á tilteknum aldri þegar umsókn er lögð fram. Árétta skal þó að það er vistfjölskylda sem ber ábyrgð á framfærslu en ekki hinn vistráðni og þarf vistfjölskylda því að sýna fram á fullnægjandi framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.
    Í 2. mgr. eru sett skilyrði um samsetningu vistfjölskyldu. Vistfjölskylda skal hafa góða þekkingu á íslensku samfélagi. Fram hefur komið að tilgangur vistráðningar er m.a. að kynnast menningu landsins sem farið er til og verður því að gera þá kröfu að vistfjölskylda hafi aðlagast íslensku samfélagi að einhverju marki. Í því skyni er gerð sú krafa að annað vistforeldri sé komið með ótímabundið dvalarleyfi ef hvorugt þeirra er íslenskt. Ekki er talið raunhæft að leggja sérstakt próf fyrir vistfjölskyldu til að kanna þekkingu á íslensku samfélagi. Hins vegar er litið svo á að með því að hafa dvalið hér á landi í að minnsta kosti fjögur ár hljóti viðkomandi að hafa öðlast einhverja þekkingu á íslensku samfélagi. Í sama tilgangi er kveðið á um að sé annað vistforeldri með sama þjóðerni og hinn vistráðni verði það vistforeldri að hafa búið hér á landi í að lágmarki fjögur ár og er þá miðað við að um löglega dvöl sé að ræða. Þessu skilyrði er jafnframt ætlað að reyna að koma í veg fyrir að sótt sé um vistráðningu fyrir ættingja en borið hefur á því að reynt hafi verið að misnota ákvæðið með þeim hætti að sótt er um vistráðningu fyrir ættingja sem ekki uppfylla skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu. Í lokamálslið ákvæðisins er svo lagt bann við því að fjölskyldutengsl séu á milli umsækjanda og vistfjölskyldu. Er þetta í samræmi við núgildandi framkvæmd og það sem kom fram í greinargerð með gildandi lögum um útlendinga. Verður ekki talið að markmiði vistráðningar um menningarskipti verði náð ef um fjölskyldutengsl milli aðila er að ræða.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að vistfjölskyldu er einungis heimilt að hafa einn útlending í senn í vist. Þá eru talin upp skilyrði sem vistfjölskylda þarf að uppfylla til að aðstæður hins vistráðna á heimilinu verði taldar fullnægjandi. Hinn vistráðni þarf að fá fæði og húsnæði án endurgjalds og skal vistfjölskylda standa straum af þeim kostnaði. Hinn vistráðni skal hafa sérherbergi á heimili vistfjölskyldu til afnota. Ber að líta til þess að hinn vistráðni hafi viðunandi aðstöðu inni á heimili vistfjölskyldu, svo sem að herbergi sé nægilega rúmgott, hafi glugga og sé læsanlegt. Til að tryggja með sem bestum hætti að aðstæður hins vistráðna séu viðunandi er Útlendingastofnun heimilt að óska eftir upplýsingum um vistfjölskyldu hjá félagsþjónustu. Þær upplýsingar sem óskað getur verið eftir eru t.d. um hvort vistfjölskylda hafi þurft á fjárhagsaðstoð að halda. Annað dæmi getur verið hvort á heimili vistfjölskyldu sé barn sem þarfnast sérstakrar aðstoðar vegna t.d. fötlunar, veikinda, einhverfu, ofvirkni eða annarra skyldra aðstæðna.
    Ákvæði 4. mgr. eru nýmæli. Þar er stjórnvöldum veitt heimild til að gera einstaklingsbundið mat, fyrst og fremst á hinum vistráðna en jafnframt á vistfjölskyldu, m.a. til að kanna hvort líkur séu til að viðkomandi yfirgefi ekki landið við lok starfstíma. Við það mat má m.a. líta til fyrri umsókna hins vistráðna um önnur dvalarleyfi, fyrri reynslu stjórnvalda af viðkomandi vistfjölskyldu og fyrri reynslu af vistráðningum frá heimalandi hins vistráðna. Hafi umsækjandi áður sótt um annað dvalarleyfi og umsókn verið hafnað geta eftir atvikum verið líkur til þess að tilgangur hins vistráðna með dvöl sé annar en framangreindur almennur tilgangur vistráðninga. Þetta þarf að meta hverju sinni og er hægt að óska skýringa frá viðkomandi útlendingi eða vistfjölskyldu í því samhengi. Þá skal hafna umsókn ef grunur er um að ætlunin sé að dveljast í öðrum tilgangi en vegna vistráðningar eða rökstuddur grunur sé um að vistráðning sé notuð til þess að fá útlendinga til landsins í þeim tilgangi að misnota þá. Reglur þessar eru settar til verndar hinum vistráðna og jafnframt til að koma í veg fyrir misnotkun á vistráðningarheimildinni. Dæmi eru þess í framkvæmd að vistráðnir hafi horfið úr landi án þess að vitað sé um afdrif þeirra. Þá eru jafnframt dæmi þess að vistráðnir hafi verið látnir vinna óeðlilega mikið á heimili vistfjölskyldu, hafi mátt þola hótanir og að vasapeningum þeirra hafi verið haldið eftir. Þau tilvik koma líka reglulega upp að vistráðnir ganga í hjúskap hér á landi til málamynda. Virðist vera að í einhverjum tilvikum sé litið á vistráðningu sem auðvelda leið til að flytja inn annaðhvort ódýrt vinnuafl eða til að afla fjölskyldumeðlimum dvalarleyfis á Íslandi gegnum aðrar leiðir en fjölskyldusameiningu. Er ákvæði þessu ætlað að stemma stigu við framangreindu.
    Í ljósi tilgangs dvalar þeirra sem ráða sig í vist á heimili hér á landi er ekki gert ráð fyrir að hinn vistráðni dveljist á landinu lengur en eitt ár skv. 5. mgr. Er því miðað við að hinn vistráðni snúi aftur til heimalands síns að dvalartíma loknum en ekki er unnt að endurnýja dvalarleyfi vegna vistráðningar né getur það skapað grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis.
    Í 6. mgr. er kveðið á um skyldu hins vistráðna og vistfjölskyldu til að tilkynna um slit á ráðningarsamningi til stjórnvalda og er hinum vistráðna heimilt að gera samning við nýja vistfjölskyldu að skilyrðum þessa ákvæðis uppfylltum. Slit á vistráðningu geta komið til í þeim tilfellum þar sem vistfjölskylda stendur ekki við skyldur sínar samkvæmt ákvæði þessu. Einnig getur komið til að vistfjölskylda segi upp samningi ef í ljós kemur að hinn vistráðni stendur ekki við skuldbindingar sínar. Ráðningarslit geta jafnframt orðið í öðrum tilvikum eins og t.d. ef vistfjölskyldu og hinum vistráðna kemur einfaldlega ekki saman af einhverjum ástæðum. Þá er jafnframt mikilvægt að unnt sé að aðstoða hinn vistráðna við að komast til síns heima verði ráðningarslit, t.d. í þeim tilfellum þegar vistfjölskylda stendur ekki við þau skilyrði sem henni eru sett. Enn fremur eru ýmis önnur skilyrði sett á dvalarleyfi vegna vistráðningar til þess að tryggja rétt hinna vistráðnu. Rétt er að benda á að mikilvægt er að hinn vistráðni í ljósi viðkvæmrar stöðu geti leitað réttar síns ef á honum er brotið á heimili vistfjölskyldu. Ef skilyrðum leyfisins er ekki framfylgt af vistfjölskyldu felur það í sér að hinn vistráðni getur sagt upp samningnum og snúið heim.
    Í 7. mgr. kemur fram að réttur til atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði sé ekki til staðar en þess misskilnings hefur gætt að vistráðnir megi jafnframt stunda aðra atvinnu hér á landi.
    Í 8. mgr. er að finna nýmæli sem kveður á um að lögregla skuli að beiðni Útlendingastofnunar fara á heimili hins vistráðna og kanna aðstæður. Er tilgangur ákvæðisins öðru fremur að koma í veg fyrir misnotkun vistráðinna einstaklinga og gæta þess að þeim sé boðið upp á nægjanlega góða aðstöðu á heimili. Ákvæðið nær jafnframt til þeirra tilvika þegar grunur vaknar hjá stofnuninni um að dvöl hins vistráðna sé að öðru leyti ekki í samræmi við tilgang dvalar, t.d. að hann búi ekki hjá vistfjölskyldu. Nauðsynlegt er að brugðist sé skjótt við þegar upp koma tilvik þar sem öryggi eða heilsu hins vistráðna getur verið stefnt í hættu.
    Samkvæmt 9. mgr. getur leyfi á þessum grundvelli ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Samkvæmt 10. mgr. skal Útlendingastofnun leggja til eyðublöð vegna samnings um vistráðningu. Stofnunin hefur umsjón með veitingu dvalarleyfa á þessum grundvelli en samkvæmt sama ákvæði er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki milli­göngu og umsjón með vistráðningum. Hlutverk slíkrar stofnunar eða fyrirtækis skal nánar útfært í reglugerð. Gert er ráð fyrir því að milli­gönguaðili um vistráðningu geti haft nokkurs konar gagnagrunn um umsækjendur um vistráðningu þar sem haldið er utan um umsóknir aðila sem hafa áhuga á að koma til Íslands í vist sem og fjölskyldur sem óska eftir að fá til sín einstakling í vist. Talið er að í einhverjum tilvikum megi koma í veg fyrir misnotkun á vistráðningarleyfinu með þessum hætti enda getur milli­gönguaðili haldið utan um upplýsingar um hinn vistráðna sem og vistfjölskyldurnar. Með þessu mætti t.d. sporna að einhverju leyti við því að einstaklingar fari í vist til ættingja.
    Í 11. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglur um dvöl samkvæmt ákvæðinu og skilyrði sem þarf að uppfylla. Er sérstaklega gert ráð fyrir að nánar verði útfært í reglugerð hvernig skyldu vistfjölskyldu um ábyrgð á greiðslu heimferðar verði fullnægt. Til að tryggja skilvirka beitingu gæti verið nauðsynlegt að láta vistfjölskyldur leggja fram flugmiða eða tryggingu fyrir flugmiða til heimferðar hins vistráðna til stjórnvalda. Þá skal nánar útfært í reglugerð hvað koma skuli fram í samningi um vistráðningu, svo sem lengd vinnutíma, frítíma o.fl. Gert er ráð fyrir að vinnutími verði ekki lengri 30 stundir á viku en að jafnaði má miða við 5 klst. á dag og að hinn vistráðni fái nægjanlegan tíma til að sinna áhugamálum sínum. Þá er vísað til vasapeninga í stað launa en nánari reglur um lágmarksupphæð skulu settar með reglugerð.

Um VIII. kafla.

    Í VIII. kafla er fjallað um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og er honum ætlað að vera greinargóð lýsing á því á hvaða grundvelli aðstandendur þeirra sem þegar dveljast hér á landi geta komið til landsins. Kaflinn felur í sér breytingu frá gildandi lögum um útlendinga en í þeim er aðeins fjallað um dvalarleyfi aðstandenda í einu ákvæði, 13. gr. Meginregla samkvæmt núgildandi lögum hefur verið sú að sá sem hefur varanlega búsetu hér á landi eða dvelst hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis geti átt rétt á að fá til sín nánustu fjölskyldumeðlimi. Með nánustu fjölskyldumeðlimum er átt við maka, sambúðarmaka, börn viðkomandi yngri en 18 ára á framfæri hans og í forsjá hans og foreldra eldri en 67 ára, þar sem það á við.
    Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að meginreglan um hverjir geti átt rétt á dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar breytist verulega. Ákveðið var að fara þá leið að skilgreina grunnskilyrði fjölskyldusameiningar og setja sérstök skilyrði fjölskyldusameiningar í sérákvæði fyrir hvern flokk. Sú framsetning var talin einfaldari og skýra betur hverjir geta átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Nýmæli er m.a. það að námsmenn í fram­haldsnámi eiga nú rétt á fjölskyldusameiningu maka, sambúðarmaka og barna. Það nýmæli er einnig að finna í kafla­num að einstaklingar sem hafa komið hingað til lands sem börn geta öðlast sjálfstæðan rétt til dvalar að lokinni fjögurra ára samfelldri dvöl hér á landi. Hingað til hafa þessir einstaklingar verið háðir því að foreldrar þeirra sæki sér réttindi. Breyting þessi er því mikil réttindaaukning fyrir einstaklinga sem eru í þessari stöðu.
    Síðustu ár hefur framkvæmdin verið sú að þeir einstaklingar sem ekki falla undir skilgreiningu laganna á aðstandanda hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Það hefur ekki þótt heppileg framkvæmd þar sem ákvæðið gerir ekki sömu kröfur til grunnskilyrða og 13. gr. gildandi laga um útlendinga. Hér er því lagt til að þessir einstaklingar falli undir skilgreininguna á aðstandanda í samræmi við raunverulegan tilgang hans til dvalar.

Um 69. gr.

    Greinin er byggð á 13. gr. gildandi laga um útlendinga og lýsir því hver eru grunnskilyrði fjölskyldusameiningar.
    Í 1. mgr. eru taldir upp hverjir geti átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar enda séu grunnskilyrði dvalarleyfis uppfyllt sem og viðeigandi ákvæði þar sem réttur til fjölskyldusameiningar er ólíkur eftir teg­undum dvalarleyfa. Skilyrði um fasta búsetu á við um alla sem eiga rétt til fjölskyldusameiningar.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar 4. mgr. 13. gr. gildandi laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu fær útlendingur ekki útgefið dvalarleyfi á grundvelli þessa kafla ef fyrir liggur að aðstandandi hans hér á landi hefur fengið dóm eða þurft að sæta öryggisráðstöfun fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga. Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali, heimilisofbeldi og öðrum alvarlegum brotum og á sér fyrirmynd m.a. í dönskum og norskum lögum. Ákvæðið í frumvarpi þessu spannar þó yfir styttra tímabil en það danska en nær yfir fleiri brotaflokka. Norska ákvæðið er einnig sett fram með öðrum hætti þó að það feli í sér sömu verndarsjónarmið. Reynslan hefur sýnt að öðru hverju koma upp tilvik þar sem aðalhvati umsækjanda fyrir að ganga í hjúskap með aðila búsettum hér á landi er að eignast möguleika á bættum lífskjörum fyrir sig og ef til vill börn sín. Í sumum tilvikum verða hinir sömu einstaklingar fórnarlömb ofbeldis og sæta misnotkun á heimilinu. Oftast er þá um að ræða tilvik þar sem umsækjandi er kona en karlkyns maki er búsettur hér á landi. Þegar fyrir liggur vitneskja um að nánasti aðstandandi hér á landi hefur verið dæmdur fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum þykir ástæða til að ætla að umsækjandi geti vegna þeirra brota verið í sérstakri hættu á að verða sjálfur fyrir ofbeldi eða sæta misnotkun af hálfu aðstandandans. Á hinn bóginn er ljóst að slík synjun getur í einstökum tilvikum verið íþyngjandi. Er því lagt til að ákvæðið feli jafnframt í sér þann varnagla að ekki skuli synja umsóknar um dvalarleyfi ef synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim sem brotið framdi eða nánustu ættingjum hans. Við matið verður m.a. að taka mið af því hvers eðlis og hversu alvarlegt brotið er, gegn hverjum það beindist og hvort um ítrekuð brot sé að ræða. Ef brot var ekki alvarlegt, beindist ekki gegn heimilisfólki og hefur ekki verið ítrekað yrði litið svo á að synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu ættingjum hans. Þá verður að gera greinarmun á þeim málum þar sem umsækjandi hefur búið í sínu heimaríki með aðstandanda og þeir vilja flytjast saman til Íslands og þeim tilvikum þar sem einstaklingar með ofbeldisferil vilja stofna nýja fjölskyldu með maka sem þeir hafa ekki búið með áður. Ef um er að ræða sameiningu fjölskyldufólks, sem áður hefur búið saman um nokkurt skeið, mundi skilyrðið um ósanngjarna ráðstöfun oftast vera talið fyrir hendi. Þá þarf að taka mið af því hvort viðkomandi umsækjandi um dvalarleyfi sé eða hafi verið búsettur hér á landi þegar til kynna þeirra var stofnað sem hjúskapur eða sambúð byggist á. Bætt hefur verið inn því nýmæli að ekki sé heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar brjóti leyfið í bága við forsendur dvalarleyfis þess sem dvelst hér á landi. Til dæmis getur þetta átt við ef aðstandandi á Íslandi er fórnarlamb misnotkunar af hálfu viðkomandi umsækjanda sem nýtur dvalarleyfis á grundvelli tengsla við fórnarlambið.
    Í 3. mgr. er kveðið á um aðstæður þegar fjölskyldumeðlimur eða maki hér á landi hefur ekki áhuga á því að fá umsækjanda hingað til lands og samþykkir ekki að viðkomandi fái að dveljast hér á landi á grundvelli tengsla við sig. Þetta getur t.d. verið ef aðstandandi hefur áhyggjur af misnotkun eða ofbeldi af hálfu umsækjanda. Á þetta einungis við þegar um er að ræða fyrstu umsókn um dvalarleyfi samkvæmt þessum kafla. Hér er um heimild að ræða og getur Útlendingastofnun ákveðið að veita dvalarleyfi þrátt fyrir að aðstandandi hér á landi sé á móti því. Ólíklegt er að slík tilvik komi upp en áhersla er þó lögð á að þetta er heimildarákvæði en ekki er skylda fyrir Útlendingastofnun að hafna umsókn í þessum tilvikum. Ekki var talið rétt að heimila synjun á þessum grundvelli í öðrum tilvikum en þegar um er að ræða fyrsta dvalarleyfi hér á landi til að forðast misnotkun sem gæti falist í því að umsækjendur verði fyrir hótunum eða öðrum þrýstingi af hálfu þeirra sem réttur þeirra til dvalar byggist á.
    Í 4. mgr. er fjallað almennt um endurnýjun leyfa samkvæmt kafla þessum en meginatriði er að gildistími þeirra sé aldrei lengri en gildistími leyfis aðstandanda hér á landi ef svo ber undir.
    Ákvæði 5. mgr. samsvara 7. mgr. 13. gr. gildandi laga um útlendinga og kveður á um að dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu geti orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis nema sá útlendingur, sem aðstandandi leiðir rétt sinn af, hafi sjálfur dvalarleyfi sem ekki getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Kemur þetta í veg fyrir að aðstandandi geti haft betri rétt en sá sem hann leiðir rétt sinn af.

Um 70. gr.

    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu á við um einstakling sem er í hjúskap eða sambúð með einstaklingi hér á landi og hyggst dveljast hér á landi með honum. Skilyrði er að báðir aðilar hafi náð 18 ára aldri hvort sem um hjúskap eða sambúð er að ræða.
    Í 3. mgr. er lýst undanþágum frá þeim skilyrðum er fram koma í 1. mgr. Í fyrsta lagi um tímalengd skráðrar sambúðar sem getur átt við í þeim tilvikum þegar aðilar eiga barn saman eða eiga von á barni saman og ætla sér að búa saman hér á landi. Með þessu er styrktur réttur til sameiningar fyrir pör sem eiga börn saman eða eiga von á barni saman með skírskotun til ákvæða barnasáttmálans sem veitir börnum rétt til umönnunar foreldra sinna þar sem þess er kostur. Þá er heimilt að víkja frá skilyrðum um tímalengd skráðrar sambúðar og skráningar erlendis ef heildstætt mat á aðstæðum aðila leiðir í ljós að ósanngjarnt eða ómögulegt er að krefjast þess að sambúð hafi verið skráð í tvö ár, t.d. vegna löggjafar eða aðstæðna í heimaríki eða sérstakra aðstæðna ábyrgðaraðila og maka hans og hægt er að sýna fram á sambúð með öðrum hætti.
    Ákvæði 3. og 4. mgr. eru nýmæli sem sækja fyrirmynd sína til norsku útlendingalaganna. Með ákvæðinu er leitast við að tryggja að aðstandandi hér á landi sé einstaklingur sem sé þátttakandi í íslensku samfélagi og nær þetta takmarkandi ákvæði því til þeirra dvalarleyfa sem ekki grundvallast á störfum eða námi viðkomandi útlendings.
    Umsækjanda um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu verður ekki veitt slíkt leyfi ef útlendingur sá sem hann sækir leyfi sitt til dvelst á Íslandi á grundvelli þeirra dvalarleyfa sem talin eru upp í 3. mgr. fyrr en að lokinni fjögurra ára dvöl hér á landi og að öðrum grunnskilyrðum uppfylltum. Fjögurra ára skilyrðið miðast við sama tíma og það tekur að fá rétt á ótímabundnu dvalarleyfi. Með störfum er átt við launaða atvinnu á íslenskum vinnumarkaði. Með fullu námi er átt við 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið falla ekki hér undir fyrir utan þau námskeið sem í boði eru fyrir flóttamenn til aðlögunar að íslensku samfélagi og þegar það er hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Störf eða nám, sem fara fram með viðeigandi heimild á meðan mál viðkomandi er til meðferðar hjá stjórnvöldum, skulu teljast með við mat á því hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Ekki er þess krafist að starf eða nám sé samfellt og má skiptast í nokkur tímabil sem lögð eru saman auk þess sem það er ekki skilyrði að viðkomandi fjölskyldumeðlimur sé við nám eða störf þegar sótt er um leyfi ef skilyrðum ákvæðis þessa er þegar fullnægt. Umönnun barna telst til starfa samkvæmt ákvæði þessu á meðan viðkomandi útlendingur á rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og á meðan viðkomandi barn hefur ekki möguleika á leikskólavist auk þess sem ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um frekari undanþágur vegna umönnunar barna. Hið sama á við þegar fjölskyldumeðlimur er á örorkubótum, eftirlaunum eða þarf að nýta veikindarétt eða rétt til atvinnuleysisbóta. Markmiðið með þessu er að fjölskyldumeðlimur sýni fram á að hann sé virkur þátttakandi í samfélaginu og maki hans ætti þannig hægara um vik að gerast einnig þátttakandi í samfélaginu. Þau atriði sem hér eru tilgreind eru sett fram til leiðbeiningar en eru ekki tæmandi upptalning.
    Í 4. mgr. eru tilteknar aðstæður þar sem skilyrði 2. mgr. eiga ekki við. Ákvæðið á ekki við ef aðilar gengu í hjúskap eða gátu barn áður en fjölskyldumeðlimur hér á landi fluttist til landsins eða ef til hjúskapar var stofnað eða til getnaðar kom á meðan þeir dvöldust báðir á Íslandi í lögmætri dvöl. Það er ekki nægjanlegt í þessu samhengi að umsækjandi og aðstandandi hér á landi eigi saman barn eða eigi von á barni til að undantekningin eigi við. Það er jafnframt skilyrði að aðilar séu annaðhvort í hjúskap eða sambúð.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimild til þess að víkja frá skilyrðum 2. mgr. og getur slíkt átt við í undantekningartilvikum ef ráðstöfun væri sérstaklega íþyngjandi eða fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu ættingjum hans. Sérstakar ástæður þurfa að koma til, t.d. að ómögulegt sé að viðkomandi fjölskyldumeðlimur og umsækjandi hans geti stofnað til fjölskyldu í öðru landi og getur það t.d. átt við í málum þar sem útlendingur hefur fengið alþjóðlega vernd hér á landi.
    Í 6. mgr. er það skilyrði sett að hjón þurfi að búa saman og skuli halda saman heimili. Borið hefur á því að umsækjendur búi ekki saman en segist eigi að síður vera í hjúskap. Í sumum tilvikum getur það verið eðlilegt vegna atvinnu annars eða beggja hjóna. Þegar slíkt er uppi er heimilt að veita undanþágu frá því að hjón eða sambúðaraðilar búi saman ef einungis um tímabundið ástand er að ræða, t.d. vegna náms eða vinnu. Undanþáguna skal túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur og á hún ekki við um tilvik þar sem aðstandandi hér á landi sætir eða mun sæta fangelsisrefsingu.
    Ákvæði 7. mgr. er nánast samhljóða 3. mgr. 13. gr. gildandi laga um útlendinga. Þó er hin svokallaða 24 ára regla felld brott. Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. að til afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvort annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.
    Með ákvæðinu er einnig tekinn af allur vafi um að brjóti stofnun hjúskapar í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki um gildan gerning að ræða og hann veiti þar af leiðandi ekki rétt til dvalarleyfis. Þetta á t.d. við um hjónavígslu ef hjónin eða annað þeirra voru börn eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt at­höfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar (vígsluheimild) í því landi þar sem vígslan fór fram og þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga (ordre public), í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að sé maki yngri en 24 ára skuli ávallt kannað hvort ástæða sé til að ætla að um málamynda- eða nauðungargerning sé að ræða. Með breytingum á lögum um útlendinga árið 2004 var lögfest hin svonefnda 24 ára regla sem fól í sér að ekki var heimilt að veita dvalarleyfi aðstandanda til maka sem var yngri en 24 ára. Átti sú regla sér fyrirmynd í dönskum lögum. Sætti reglan nokkurri gagnrýni, m.a. á þeim forsendum að þetta aldursviðmið ætti sér enga aðra stoð í lögum. Á hinn bóginn getur einstaklingur verið í viðkvæmri stöðu sökum ungs aldurs og þess vegna var ákveðið með breytingalögum nr. 86/2008 að viðhalda sérstakri rannsóknarskyldu stjórnvalda varðandi mögulegan málamyndahjúskap þegar makinn sem hingað hyggst flytjast er yngri en 24 ára. Tilgangur ákvæðisins er þannig að gæta að rétti þeirra sem kunna að vera minni máttar í hjúskap sökum ungs aldurs. Hins vegar má spyrja hvort ástæða sé til að gera sjálfstæða könnun á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða ef ljóst er að báðir aðilar eru á svipuðum aldri og að líklegt sé að jafnræði ríki með þeim. Hér er lagt til að þessi skylda verði afnumin en áréttað skal mikilvægi þess að sjálfstæð athugun fari fram ef sjáanlegt valdamisræmi er milli hjóna eða sambúðarfólks. Slíkt valdamisræmi kemur m.a. til ef mikill aldursmunur er milli aðila, svo sem 10 ár eða meira, og þá sérstaklega ef hinn innlendi aðili, sem dvalarleyfið verður bundið við, er eldri. Þá ber að líta til kyns en erlendar konur geta verið í veikari stöðu í hjúskap sökum hefðbundinna kynhlutverka og kynbundins ofbeldis. Með þessu móti er jafnframt áréttað að aldur einn og sér gefur ekki til kynna hvort um málamyndahjúskap sé að ræða. Því getur þurft að fara fram sjálfstæð skoðun á hjúskap fólks á ólíkum aldri.
    Ákvæði 8. mgr. byggjast á 6. mgr. 13. gr. gildandi laga um útlendinga og veitir ákvæðið útlendingum, sem hafa dvalist hér á grundvelli dvalar fyrir maka eða sambúðarmaka, heimild til að dveljast hér áfram í tilteknum tilfellum þrátt fyrir að forsendur leyfisins hafi brostið vegna slita á hjúskap eða sambúð. Útlendingurinn héldi þá dvalarleyfi sínu og fengi endurnýjun á dvalarleyfi fyrir aðstandanda þrátt fyrir að hann teldist strangt til tekið ekki lengur til aðstandanda. Athygli er vakin á því að þessi heimild veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Óski einstaklingur með dvalarleyfi á þessum grunni t.d. eftir því að ganga aftur í hjúskap er það ekki heimilt nema viðkomandi sæki um dvalarleyfi á grundvelli sem heimilar fjölskyldusameiningu.
    Í fyrsta lagi á þetta við í þeim tilfellum þar sem maki hefur fallið frá nema sérstakar ástæður mæli gegn því, t.d. að viðkomandi útlendingur hafi orðið valdur að dauða maka síns eða hjúskapur eða sambúð hafi varað í mjög skamman tíma.
    Í öðru lagi er heimilt að veita dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu ef fjölskyldumeðlimur, þ.e. maki, hefur beitt umsækjanda eða barn hans ofbeldi eða misnotkun í hjúskap eða sambúð. Það sjónarmið, sem býr að baki þessu ákvæði, er að ekki skuli skapa aðstæður þar sem útlendingur telur sig knúinn til að vera áfram í hjúskap eða sambúð svo að hann haldi dvalarleyfi sínu ef viðkomandi einstaklingur eða börn hans sæta misnotkun eða ofbeldi af hálfu maka. Ekki hefur þýðingu hvor aðilinn hefur haft frumkvæði að sambúðarslitunum. Við heildarmat á aðstæðum umsækjanda verður m.a. að taka tillit til atburða, alvarleika þeirra og kringumstæðna, hvort þeir séu hluti af hegðunarmynstri eða hvort um einstakan atburð hafi verið að ræða. Almenn óánægja í hjúskap eða sambúð, ágreiningur eða mismunandi hugmyndir um verkaskiptingu í hjúskap eða sambúð eru ekki nægileg til að byggja á við beitingu ákvæðisins. Þá er gert ráð fyrir að skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. verði að vera uppfyllt, t.d. að útlendingur hafi áfram trygga framfærslu og húsnæði. Ekki er hægt að leggja strangar kröfur á útlendinginn um sönnunarbyrði um aðstæður og ástæður sambandsslita þó að reynt skuli að sýna fram á misnotkunina eða ofbeldið eftir fremsta megni eða leiða líkur að því að það hafi átt sér stað en Útlendingastofnun á sönnunarmatið um þessi atriði. Auk framburðar viðkomandi hafa lögregluskýrslur, læknaskýrslur, yfirlýsing frá Kvennaathvarfi eða önnur vottorð þýðingu og ákærumeðferð vegna ofbeldisbrota er til þess fallin að mæla með útgáfu leyfis á grundvelli þessa ákvæðis. Þá skiptir einnig máli að hjúskapur, staðfest samvist eða sambúð hafi ekki varað í skamman tíma.
    Í þriðja lagi getur dvalarleyfi þetta átt við ef útlendingurinn sýnir fram á að hann mundi vegna skilnaðar eða sambúðarslita eiga erfitt uppdráttar í upprunalandi vegna félagslegra eða menningarlegra ástæðna. Í þeim tilvikum verður að meta tengsl útlendings við landið og hvort mjög íþyngjandi sé fyrir útlending eða það skapi honum mikil vandræði að snúa til baka til heimalands miðað við breytta félagslega stöðu. Er nauðsynlegt að hafa slíkan varnagla þar sem þekkt er t.d. að konur frá tilteknum löndum eru í verri stöðu en áður sem fráskildar og er þeim jafnvel útskúfað úr samfélaginu.

Um 71. gr.

    Börn fá samkvæmt gildandi lögum um útlendinga dvalarleyfi sem aðstandendur. Hér er lagt til nýtt ákvæði til að skýra betur skilyrði fyrir dvalarleyfi til barna og tryggja réttindi þeirra. Áréttað skal að með barni samkvæmt ákvæði þessu er bæði átt við kynbarn og kjörbarn enda hafi ættleiðing verið veitt af þar til bærum yfirvöldum í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis fyrir flutning ábyrgðaraðila og barns til Íslands. Eins og endranær verður þó einnig að gera þann allsherjarfyrirvara að ættleiðingin gangi ekki í berhögg við grunnreglur íslenskra laga. Um ættleiðingar af hálfu þeirra sem eru búsettir á Íslandi fer samkvæmt lögum um ættleiðingar og alþjóðasamningum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi á grundvelli dvalarleyfis eða heimildar foreldris til búsetu. Sé um kjörbarn að ræða þarf ættleiðingarferli að vera lokið áður en umsókn er lögð fram.
    Í 2. mgr. kemur fram það grunnskilyrði að barn skuli vera í forsjá þess aðila sem byggja skal rétt á. Séu forsjárforeldrar tveir þarf samþykki hins forsjáraðila barns að liggja fyrir. Heimilt er að veita undanþágur frá þessu ef ekki næst til foreldrisins eða aðrar sérstakar ástæður mæla með veitingu dvalarleyfis án samþykkis þess enda mæli hagsmunir barnsins með því. Þetta getur t.d. átt við ef viðkomandi einstaklingur finnst ekki eða ef ómögulegt er að ná til hans með öðrum hætti. Ágreiningur útlendinga um það hvar barn þeirra á að búa telst ekki falla þar undir.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ungmenni, sem eru með dvalarleyfi á grundvelli ákvæðis þessa, geta fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað þrátt fyrir að vera eldri en 18 ára enda séu grunnskilyrði dvalarleyfisins uppfyllt, til að búa hjá foreldri sínu eða foreldrum. Nær þetta þannig utan um þann hóp ungmenna sem býr hjá foreldrum sínum hér á landi en hefur ekki öðlast rétt til ótímabundins dvalarleyfis. Í slíkum tilfellum getur komið upp sú staða að barnið missir dvalarleyfisgrundvöll sinn við 18 ára aldur. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir slíkar aðstæður, þ.m.t. með vísan til þess að á Íslandi er algengt að ungmenni ljúki fram­haldsskólanámi um tvítugt og búi hjá foreldrum sínum á þeirra framfæri fram að því. Þá er áréttað að skilyrði fyrir veitingu eða endurnýjun dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu sé að barn eða ungmenni sé hvorki í hjúskap né sambúð.
    Í 5. mgr. er stjórnvöldum veitt undanþáguheimild til að bregðast við sérstökum aðstæðum þar sem hagsmunir barns krefjast. Við slíkt mat skal ávallt haft samráð við barnaverndaryfirvöld ef grunur leikur á að barn búi við óviðunandi aðstæður. Getur þetta t.d. átt við ef í ljós kemur eftir að barn hefur flust til Íslands að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í upphafi voru ekki uppfyllt eða að skilyrði endurnýjunar séu af öðrum orsökum brostin. Sem dæmi má nefna ef barnaverndaryfirvöld þurfa að grípa til þess úrræðis að taka barn í sína umsjá. Þessi heimild þarf að vera fyrir hendi meðan íslensk stjórnvöld leysa úr málefnum viðkomandi barns. Um undanþáguheimild er að ræða sem þarf að skýra þröngt en árétta ber að heimildin er sett til verndar hagsmunum barns.
    Þá er í 6. mgr. heimild fyrir ráðherra að setja frekari reglur í reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis. Sérstaklega er bent á heimild ráðherra til að setja reglugerð um dvöl fósturbarna. Til að koma í veg fyrir misnotkun og hugsanlegt mansal þarf regluverk í kringum slíkt að vera mjög skýrt.

Um 72. gr.

    Dvalarleyfi skv. 2. mgr. er efnislega óbreytt frá gildandi löggjöf og tekur til foreldra útlendings eða maka hans sem eru eldri en 67 ára og óska eftir að dveljast hér á landi hjá afkomendum sínum. Ákveðið var að taka út kröfu um að foreldrar eldri en 67 séu á framfæri barns síns hér á landi enda sé slíkt ekki í samræmi við lög um félagsþjónustu.
    3. og 4. mgr. eru nýmæli og kveða á um erlent foreldri íslensks barns eða barns sem búsett er hér á landi. Dæmi um það eru t.d. ef foreldrarnir eru ekki lengur í hjúskap eða í sambúð eða ef annað foreldri hefur fallið frá. Er þá foreldrinu heimil dvöl hér á landi að uppfylltum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. Með þessu ákvæði er höfð hliðsjón af ákvæðum barnasáttmálans er lúta að rétti barns til að njóta umönnunar foreldris síns þar sem þess er kostur. Ákvæði þetta tryggir að barn í stöðu sem þessari geti búið áfram hér á landi þótt aðstæður breytist hjá foreldrum þess, einkum vegna skilnaðar, sambúðarslita eða andláts.

Um 73. gr.

    Greinin svarar til 12. gr. j gildandi laga um útlendinga.
    Samkvæmt 2. mgr. skal leyfið gilda í þrjú ár eins og mælt er fyrir um í 24. gr. tilskipunar 2011/95/ESB um lágmarksgildistíma dvalarleyfa fyrir flóttamenn. Það sama gildir um fjölskyldumeðlimi þeirra, þar sem við á, eins og tilskipunin kveður á um. Nánar er fjallað um heimild til fjölskyldusameiningar í ákvæði 45. gr. og VIII. kafla frumvarps þessa.

Um 74. gr.

    Efnisinnihald greinarinnar er lítið breytt frá 12. gr. f gildandi laga um útlendinga en þó hefur dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið verið aðskilið frá þessu leyfi en ákvæði um það er að finna í 78. gr. Ljóst er að við mat á því hvort rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita dvalarleyfi verður nú að líta til þess að þeir sem geta sýnt fram á þörf á vernd skv. 37. gr. laganna eiga rétt á að fá hæli og njóta réttarverndar sem flóttamenn. Því verður að ætla að ekki reyni oft á það að gefa þurfi út dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Eigi að síður getur það komið til að þótt ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrðum 37. gr. sé fullnægt þarfnist útlendingurinn samt sem áður verndar. Er þá gert ráð fyrir því að gefa megi út dvalarleyfi skv. 74. gr. og yrði þá tekið mið af svipuðum sjónarmiðum og er gert við mat á öðrum ákvæðum kafla þessa, t.d. 37. og 42. gr. frumvarpsins, svo sem almennra aðstæðna í heimalandi eða því landi sem hann yrði sendur til, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi eru nægilega tryggð.
    Eins og nú er yrði miðað við að alltaf færi fram efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd auk heildarmats á öllum þáttum málsins áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði veitt.
    Með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum er, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm er að ræða og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Meðferð telst ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í heimalandinu en viðkomandi á ekki rétt á henni. Jafnframt kunna að eiga hér undir mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða eru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hefur hafist hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Læknisvottorð og eftir atvikum önnur læknisfræðileg gögn þurfa að liggja fyrir þegar stjórnvöld taka ákvörðun um dvalarleyfi á þessum forsendum.
    Með erfiðum félagslegum aðstæðum viðkomandi er vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og má þar sem dæmi nefna aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimalandi, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti mundi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Forsenda þess að dvalarleyfi verði veitt á grundvelli 74. gr. í tilvikum eins og þeim sem nefnd eru hér að framan er að vernd verði ekki veitt samkvæmt öðrum ákvæðum IV. kafla en svo kynni oft að vera.
    Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti er einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Getur því einnig komið til að útlendingur við þessar aðstæður geti notið verndar skv. 37. gr. Þykir þó rétt að hafa áfram almenna heimild í ákvæði þessu og fer beiting þess eftir mati á öllum aðstæðum. Það gæti auk þess sem áður er rakið tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki en ekki yrði að jafnaði talið að ákvæðið tæki til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts.
    Loks er lagt til í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Þannig kæmi til greina að minni kröfur yrðu gerðar til að börn nytu verndar og fengju dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. ef þau fá ekki hæli samkvæmt umsókn eða ættu ekki rétt á dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Í samræmi við framkvæmd annars staðar yrði einnig tekið tillit til þess hvernig aðstæður í heimalandi væru, þ.m.t. hvort framfærsla barns væri örugg og forsjáraðilar til staðar ef barni er synjað um dvalarleyfi, einkum ef um fylgdarlaust barn er að ræða.
    Í 2. mgr. 74. gr. kemur fram að hafi verið sótt um alþjóðlega vernd skv. 37. eða 39. gr. skuli fyrst skorið úr um það hvort skilyrði fyrir slíkri vernd séu til staðar áður en ákvæði þessu er beitt. Það er m.a. vegna þess að ákvæði 74. gr. er hugsað sem undantekningarákvæði sem á að taka til sérstakra aðstæðna.
    Tekið er fram í 1. mgr. greinarinnar að ekki skuli veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef óskað hefur verið eftir alþjóðlegri vernd nema málið hafi verið tekið til efnislegrar meðferðar og skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. eða 39. gr. Komi í ljós eftir veitingu leyfis þessa að útlendingur uppfylli skilyrði þeirra ákvæða skal hann öðlast þau réttindi sem alþjóðleg vernd veitir. Er það í samræmi við uppbyggingu frumvarpsins og leiðbeiningar frá Flóttamannastofnuninni og er ætlað að koma í veg fyrir að mál sem með réttu eiga undir ákvæði laganna um flóttamenn verði afgreidd á þessum grundvelli.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli en heimild sú sem hún veitir byggist á 4. mgr. 12. gr. f í gildandi lögum um útlendinga. Þar er kveðið á um að veita megi útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef hann hefur dvalist á grundvelli bráðabirgðadvalarleyfis lengur en í tvö ár. Þessi grein kveður á um heimild til að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða. Er hér um að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum. Hér er ekki gert að skilyrði að útlendingur hafi þurft að dveljast hér á bráðabirgðadvalarleyfi.
    Í a–d-lið 2. mgr. eru talin skilyrði fyrir því að veita megi þetta leyfi og eru þar að mestu endurtekin skilyrði fyrir bráðabirgðadvalarleyfi að undanskildum d-lið 1. mgr. 77. gr. sem á ekki við ef umsóknin er enn til meðferðar.
    Í 3. mgr. er tilgreint í hvaða aðstæðum leyfi þetta verður ekki veitt, m.a. í þeim tilfellum þar sem útlendingur á sjálfur sök á því að mál hefur tafist eða hann hefur að öðru leyti ekki verið samvinnuþýður við úrlausn málsins.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að heimilt sé að víkja frá skilyrðum 3. mgr. og getur það t.d. átt við ef ekki er mögulegt fyrir útlending, sem að öðru leyti er samvinnuþýður, að afla gagna frá heimalandi sínu, t.d. um það hver hann er. Málsgreinin veitir einnig heimild til að víkja frá grunnskilyrðum 55. gr.
    Í 5. mgr. er kveðið á um endurnýjun og gildistíma sem eru óbreytt ákvæði frá núverandi lögum og í 6. mgr. er kveðið á um að dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Um 75. gr.

    Greinin er samsvarar 12. gr. h í gildandi lögum um útlendinga og fjallar um veitingu dvalarleyfa fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals. Mælt er fyrir um að Útlendingastofnun skuli veita útlendingi dvalarleyfi í allt að sex mánuði en þó ekki skemur en þrjátíu daga sé fyrir hendi grunur um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals.
    Eins og fram kemur í 2. mgr. er þó ekki nægilegt að gera tilkall til dvalarleyfis á þessum grundvelli til að eiga rétt til þess heldur verður að vera fyrir hendi skilyrði 1. mgr. ákvæðisins um að grunur leiki á að viðkomandi sé fórnarlamb mansals. Þannig getur viðkomandi þurft að sýna fram á að skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að tilkall til dvalarleyfis á þessum grundvelli sé gert í þeim tilgangi einum að afla sér dvalarleyfis án þess að nokkuð annað styðji við frásögn viðkomandi. Ef hin sérstöku skilyrði eru fyrir hendi skal veita dvalarleyfið jafnvel þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 55. gr. laganna sem fjallar um grunnskilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi hér á landi. Þá er einnig mælt fyrir um að ekki skuli vísa viðkomandi aðila úr landi á þessum tíma þrátt fyrir að brottvísunarheimildir XII. kafla laganna geti átt við.
    Ákvæðið sækir fyrirmynd sína til 13. gr. samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og uppfyllir jafnframt skuldbindingar skv. 2. mgr. 10. gr. samningsins og 1. mgr. 7. gr. Palermó-bókunarinnar. Mikilvægt er að fórnarlamb mansals fái tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal og er ákvæðinu ætlað að stuðla að því. Í Evrópuráðssamningnum er þetta tímabil nefnt afturbata- og umþóttunartímabil og er því jafnframt ætlað að stuðla að því að fórnarlamb mansals geti tekið upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld. Ákvæði þessu er ekki ætlað að hafa áhrif á rannsókn og saksókn vegna umræddra brota en í því felst að ákvörðun fórnarlambs um að vinna með yfirvöldum við að upplýsa brot kemur ekki í veg fyrir skyldu þess samkvæmt lögum til að bera vitni í málinu. Gert er ráð fyrir því að hinu ætlaða fórnarlambi standi ýmis úrræði til boða á gildistíma dvalarleyfisins sem ætlað er að stuðla að uppbyggingu þess meðan á afturbata- og umþóttunartímabilinu stendur.
    Umsókn um dvalarleyfi getur borist Útlendingastofnun hvort sem er frá hinu hugsanlega fórnarlambi eða eftir öðrum leiðum, svo sem í gegnum lögreglu eða aðra aðila sem koma að mansalsmálum, svo sem sérfræði- og samhæfingarteymi um mansal sem starfar á grundvelli aðgerðaáætlunar gegn mansali sem samþykkt var á fundi ríkisstjórnar Íslands 17. mars 2009. Í sumum tilvikum getur þannig háttað til að ekki sé hafin lögreglurannsókn á því máli sem um ræðir og er veiting dvalarleyfisins óháð því hvort slík rannsókn fari fram en eins og áður hefur komið fram er dvalarleyfinu m.a. ætlað að gefa hugsanlegu fórnarlambi svigrúm til þess að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins. Vegna þessa þykir ekki rétt að takmarka veitingu dvalarleyfisins við þau fórnarlömb sem leitað hafa til lögreglu. Hins vegar þykir rétt vegna alvarleika mansalsbrota að Útlendingastofnun leiti umsagnar lögreglu um þær dvalarleyfisumsóknir sem stofnuninni berast. Það er þó ekki skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfisins að lögreglu sé kunnugt um mál umsækjanda eða telji ástæðu til að hefja sérstaka rannsókn á því. Stofnuninni getur jafnframt reynst nauðsynlegt vegna skyldu sinnar til að upplýsa mál nægilega áður en ákvörðun er tekin í því að leita umsagnar annarra aðila sem komið hafa að máli fórnarlambsins. Slíkir aðilar geta t.d. verið félagsmálayfirvöld, heilbrigðisyfirvöld, Vinnumálastofnun eða frjáls félagasamtök.

Um 76. gr.

    Greinin er að efnisinnihaldi sambærileg 12. gr. i í gildandi lögum um útlendinga. Í henni er mælt fyrir um heimild Útlendingastofnunar til að gefa út endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar talið er að dvöl fórnarlamba mansals hér á landi sé nauðsynleg vegna persónulegra aðstæðna þeirra og/eða vegna samvinnu þeirra við yfirvöld í tengslum við rannsókn eða við meðferð sakamáls. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína til 14. gr. samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og fullnægir einnig skuldbindingum skv. 1. mgr. 7. gr. Palermó- bókunarinnar. Leyfið er endurnýjanlegt og uppfyllir því tilmæli bókunarinnar um að fórnarlambi sé gert kleift að vera um kyrrt á landinu. Í því felst jafnframt að unnt er síðar ef grundvöllur áfram­haldandi dvalar fórnarlambs hér á landi breytist að veita aðra teg­und dvalarleyfis, þar á meðal dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, að uppfylltum sérstökum skilyrðum fyrir einstökum teg­undum slíkra dvalarleyfa. Í greinargerð með samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali kemur fram að persónulegar aðstæður fórnarlambs geti verið allt frá öryggi eða heilsufari þess til fjölskylduaðstæðna. Tafarlaus endursending fórnarlamba mansals til heimalands þeirra þykir leiða til þess að fórnarlömb greini síður frá reynslu sinni eða beri vitni gegn þrælasölum sínum. Vitnisburður fórnarlamba mansals þykir afar mikilvægur í baráttunni gegn mansali en sé hann ekki fyrir hendi er talið erfiðara að koma í veg fyrir að önnur fórnarlömb falli í sömu gildru. Talið er að eftir því sem unnt er að veita fórnarlömbum meiri vissu fyrir því að réttinda þeirra og hagsmuna sé gætt, þeim mun betri upplýsingar geti þau gefið yfirvöldum. Möguleiki á dvalarleyfi sé því hvati til frekari samvinnu af þeirra hálfu.

Um 77. gr.

    Ákvæðið fjallar um bráðabirgðadvalarleyfi og er lítið breytt frá 12. gr. g gildandi laga um útlendinga. Útlendingastofnun getur gefið út bráðabirgðadvalarleyfi fyrir útlending í undantekningartilvikum. Um er að ræða tilvik þar sem útlendingur uppfyllir hvorki skilyrði til að öðlast dvalarleyfi né alþjóðlega vernd og þá heldur ekki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þessi tilvik eru nánar tiltekið af tvennum toga. Annars vegar er unnt að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd bráðabirgðadvalarleyfi sem gildir þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina. Hins vegar er heimilt að veita útlendingi bráðabirgðadvalarleyfi sem fengið hefur endanlega synjun um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi og gildir þá bráðabirgðadvalarleyfið þar til synjunin kemur til framkvæmda.
    Meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd getur af ýmsum ástæðum tekið langan tíma, m.a. vegna gagnaöflunar í tengslum við rannsókn og meðferð máls og einnig geta verið örðugleikar á að framfylgja synjun um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi. Af þeim sökum þykir rétt að unnt verði að veita útlendingi sem þannig stendur á fyrir bráðabirgðadvalarleyfi til að gera honum kleift að afla sér tekna með vinnu sér til framfærslu. Ekki er þó gert ráð fyrir að þessi heimild taki sjálfkrafa til allra sem þannig stendur á um og eru ákveðin skilyrði sett í stafliðum 1. mgr. Í a-lið er kveðið á um skýrslutöku og á þetta við nema skýrslutaka hafi dregist óhóflega vegna ástæðna sem ekki má rekja til umsækjanda sjálfs. Í b- og e-lið er fjallað um það ef ekki er vitað hver útlendingur er og um almennan skort á samvinnu við úrlausn máls. Þannig er bráðabirgðadvalarleyfi ekki veitt ef umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á töf máls síns, svo sem vegna þess að hann hefur ekki verið samvinnuþýður við úrlausn máls. Þegar skilríkjalaus útlendingur neitar að upplýsa hver hann er eða láta í té upplýsingar um ríkisfang eða heimaland og ekki er vitað hvaðan hann kemur er ekki hægt að beita synjun alþjóðlegrar verndar. Þar sem ástæðan er sú að útlendingur neitar samvinnu við úrlausn málsins verða hins vegar ekki forsendur til útgáfu dvalarleyfis til bráðabirgða.
    Í 2. mgr. er veitt heimild til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. og er henni ætlað að vera undantekning. Það getur átt við þegar ekki er hægt að uppfylla eitthvert skilyrðanna en það sé tilkomið vegna aðstæðna sem umsækjandi hefur ekki stjórn á, t.d. ef ekki er hægt að afla frá heimalandi fullnægjandi skilríkja um það hver útlendingur er. Málsgreinin veitir einnig heimild til að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. 55. gr. líkt og í öðrum ákvæðum er varða vernd.
    Í 5. mgr. er kveðið á um gildistíma en ætlunin er að leyfið gildi meðan óvissuástand varir.
    Tilgangur ákvæðisins er þannig fyrst og fremst sá að leggja grunn að því að veita megi útlendingnum heimild til atvinnu svo að hann geti framfleytt sér. Er því í 6. mgr. tekið sérstaklega fram að bráðabirgðadvalarleyfi hafi ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum. Með þessu er undirstrikað að slíkt leyfi er samkvæmt eðli sínu aðeins til bráðabirgða. Af þessum ástæðum er einnig takmarkaður réttur til andmæla, rökstuðnings o.fl.
    Ákvæði 7. mgr. eru í samræmi við gildandi lög og er áréttað að dvalarleyfi til bráðabirgða veiti ekki réttindasöfnun til ótímabundins dvalarleyfis.

Um 78. gr.

    Greinin felur í sér breytingar á núgildandi löggjöf en sambærilegt ákvæði er að finna í 12. gr. f gildandi laga um útlendinga. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Hér er hins vegar lagt til, í samræmi við skýrslu um málefni útlendinga utan EES, að ákvæðinu verði skipt upp með þeim hætti að annars vegar sé heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla og hins vegar á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þegar veitt er dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða er heimilt að víkja frá kröfu um að grunnskilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt, þ.m.t. kröfu um framfærslu. Er það nauðsynlegt til að tryggja að markmið þess ákvæðis náist, þ.e. að veita stjórnvöldum svigrúm þegar kemur að mati á aðstæðum umsækjenda sem teljast mætti ómannúðlegt að synja um dvalarleyfi. Þessi sjónarmið eiga hins vegar ekki við með sama hætti þegar litið er til sérstakra tengsla og þykir því rétt að skilja þar á milli.
    Við framkvæmd gildandi laga um útlendinga hafa verið veitt dvalarleyfi við ýmsar aðstæður með vísan til sérstakra tengsla, m.a. vegna fjölskyldusameiningar sem ekki fellur undir 13. gr. gildandi laga, þ.e. fyrir ættingja sem ekki teljast nánustu aðstandendur samkvæmt því ákvæði. Samkvæmt frumvarpi þessu falla þær aðstæður nú undir VIII. kafla frumvarpsins. Í ákvæði þessu er því fjallað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið af öðrum ástæðum en vegna fjölskyldutengsla en í 74. gr. er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Breytingar sem ákvæði þetta felur í sér eru að miklu leyti í samræmi við leiðbeinandi sjónarmið innanríkisráðuneytisins varðandi þennan leyfaflokk sem gefin voru út í mars 2014.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. uppfylltum að veita útlendingi eldri en 18 ára dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins ef hann fellur ekki undir önnur dvalarleyfi samkvæmt lögunum.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er hugtakið sérstök tengsl nánar skilgreint en í því geta einkum falist tengsl sem útlendingur hefur myndað á þeim tíma sem hann hefur dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi en það leyfi fáist hins vegar ekki endurnýjað eða sé afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika.
    Í 3. mgr. er skilgreint hvað geti talist til sérstakra tengsla sem útlendingur hefur myndað í lögmætri dvöl hér á landi. Fram þarf að fara heildstætt mat á tengslum hverju sinni áður en leyfið er veitt. Við það mat kemur til álita fyrri dvöl útlendings á Íslandi, sbr. þó takmarkanir skv. 5. mgr. Skal skoða hvert mál sjálfstætt og tengsl útlendings við Ísland metin í samhengi við tengsl hans við önnur lönd, t.d. heimaland eða fyrra dvalarland, í því skyni að meta hvort tengsl hans við Ísland séu orðin meiri en við viðkomandi land. Sem dæmi má nefna útlending sem hefur byggt dvalarrétt sinn á hjúskap en við skilnað misst rétt sinn til dvalar hér á landi og getur ekki öðlast dvalarrétt á öðrum grundvelli. Hann getur á þeim tíma sem hann var í hjúskap hafa myndað sterk tengsl við landið og þá ef til vill misst tengsl sín við heimaland. Við matið þarf jafnframt að líta til þess tíma sem útlendingur hefur dvalist hér á landi og hvernig hann hefur aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Ólíklegt er að sterk tengsl myndist við skamma dvöl. Í þessu samhengi má miða við að lágmarki tveggja ára dvöl hér á landi. Við matið þarf einnig að horfa til þess hvort útlendingur hafi verið dæmdur fyrir afbrot hér á landi en slíkt væri ekki til þess fallið að renna stoðum undir umsókn hans.
    Í 4. mgr. kemur fram að þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki haft búsetu hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi.
    Í 5. mgr. eru talin upp þau tengsl sem geta ekki verið grundvöllur dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla en þau eru tengsl útlendings á grundvelli dvalarleyfa fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- og þjónustusamninga, sbr. 64. gr., dvalarleyfa vegna náms, sbr. 65. gr., dvalarleyfa vegna samninga Íslands við erlend ríki, sbr. 66. gr., dvalarleyfa vegna sjálfboðaliða og trúboða, sbr. 67. gr., dvalarleyfa vegna vistráðningar, sbr. 68. gr., dvalarleyfa fyrir fórnarlamb mansals, sbr. 76. gr., og bráðabirgðadvalarleyfa, sbr. 77. gr. Sjónarmið sem búa hér að baki eru að í framangreindum tilvikum dvelst útlendingur hér á landi á grundvelli dvalarleyfa sem mörkuð eru ákveðin og skýr tímamörk, ávallt er um skammtímadvöl að ræða og í afmörkuðum tilgangi. Þá er einnig áréttað að með sérstökum tengslum sé ekki átt við fjölskyldutengsl viðkomandi útlendings en um þau fari skv. VIII. kafla. Í 6. mgr. er tekið fram, í samræmi við það sem segir í 59. gr. um afturköllun dvalarleyfis, að útlendingur geti ekki talist hafa myndað tengsl við landið í dvöl sinni hér hafi hún byggst á leyfi sem aflað hefur verið á grundvelli rangra upplýsinga eða þegar útlendingur hefur leynt atvikum við leyfi­sveitinguna. Þetta á einnig við ef rökstuddur grunur er um að svo sé, þó svo að leyfið hafi ekki þá þegar verið afturkallað, t.d. ef útlendingur hefur byggt rétt sinn til dvalar á hjúskap sem talinn er hafa verið málamyndagerningur skv. 7. mgr. 70. gr. en skilið við maka sinn áður en leyfið var afturkallað á þeim grundvelli.
    Í 7. mgr. er veitt undanþága frá skilyrði um fullnægjandi framfærslu hafi viðkomandi um skamman tíma ekki uppfyllt skilyrði 29. gr. um framfærslu og ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, svo sem ef sýnt er fram á að slíkt ástand hafi einungis varað stutt. Er um undanþáguheimild að ræða sem túlka skal þröngt.
    Í 8. og 9. mgr. er kveðið á um endurnýjun dvalarleyfis og að dvalarleyfið geti myndað grundvöll ótímabundins dvalarleyfis.
    Í 10. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að útfæra nánar í reglugerð hvaða tilgangur dvalar geti fallið undir ákvæðið og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo að sérstök tengsl séu talin vera til staðar.

Um 79. gr.

    Ákvæði um dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs hefur verið í lögum um útlendinga í nokkurn tíma. Ákvæðið hefur náð til þeirra tilfella þegar engin önnur dvalarleyfisákvæði ná utan um tilgang dvalar hér á landi en hann hefur eigi að síður verið þess eðlis að rétt hefur þótt að veita dvalarleyfi hér á landi. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. gildandi laga um útlendinga er undantekning og hefur verið skýrt þröngt. Ekki er ætlunin að breyta þeirri túlkun heldur einungis skerpa á þeirri framkvæmd sem verið hefur og bæta við því sem þótt hefur vanta til að ákvæðið virkaði nægjanlega vel í framkvæmd.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. uppfylltum að veita útlendingi eldri en 18 ára dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins ef hann fellur ekki undir önnur dvalarleyfi samkvæmt lögunum og tilgangur dvalar sé bæði lögmætur og sérstakur. Þau tilvik sem í framkvæmd hafa verið felld undir dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs eru t.d. tilvik þar sem aðili hefur slasast eða veikst hér á landi og þörf er á að framlengja dvalarleyfi fyrir hann og aðstandanda á meðan sjúkrahúsdvöl stendur eða vegna dómsmáls sem útlendingur er aðili að er fyrir íslenskum dómstólum. Er þá talið eðlilegt að hann fái að vera á landinu til að sækja rétt sinn og fylgjast með framgangi mála. Jafnframt hafa verið felld undir þetta ákvæði leyfi fyrir einstaklinga sem hafa komið hingað til lands á grundvelli vistráðningar en af einhverjum ástæðum hefur þurft að framlengja dvöl viðkomandi án þess að það hafi verið hægt á grundvelli vistráðningarákvæðisins, í öllum tilvikum vegna veikinda barns. Þau tilvik sem hér um ræðir eru þegar barn á heimili hefur bundist hinum vistráðna með þeim hætti að það sé mat lækna og annarra sérfræðinga að það mundi draga verulega úr lífsgæðum barns, t.d. stefna í hættu árangri sem náðst hafi, ef viðkomandi þyrfti að yfirgefa landið. Í frumvarpi þessu er áhersla lögð á að sé þörf á aðstoð á heimili vegna langveiks barns skuli leita annarra leiða en vistráðningar, t.d. dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Þessi tilvik geta þrátt fyrir það komið upp og þykir eðlilegt að þá verði þau felld undir þetta ákvæði þegar ekki reynist unnt að veita dvalarleyfi á öðrum grunni og aðstæður mæla með því.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að dvalarleyfið skuli einungis veitt til eins árs í senn og ekki endurnýjað nema tilgangur dvalar sé óbreyttur. Það hefur þótt galli að dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs hafi ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
    Áhersla er lögð á að reglugerð skuli endurskoðuð reglulega með tilliti til nýrra tilvika sem ekki falla undir neinn dvalarleyfisflokk og hugsanlega væri rétt að fella undir lögmætan tilgang. Útlendingastofnun skal meta á hvort tilgangur geti talist lögmætur og sérstakur en ráðherra skal setja ákvæði til leiðbeiningar í reglugerð. Það vill þó bera við að þau tilvik sem upp koma séu of ólík því sem áður hefur verið tekin afstaða til. Í þeim tilvikum er eðlilegra að ráðherra setji ákvæði í reglugerð en að Útlendingastofnun taki stefnumótandi ákvörðun án atbeina ráðherra.

Um XI. kafla.

    Kaflinn svarar til VI. kafla gildandi laga um útlendinga.

Um 80. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. gildir kaflinn um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), hér eftir nefndir EES-borgarar, og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), hér eftir nefndir EFTA-borgarar, til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. kemur fram að ákvæði kafla­ns gilda einnig um aðstandendur EES- og EFTA-borgara, svo fremi sem þeir fylgi EES- eða EFTA-borgara eða koma til hans í því ríki þar sem EES- eða EFTA-borgarinn dvelst. Ákvæði kafla­ns gilda jafnframt um aðstandendur íslenskra ríkisborgara svo framarlega sem þeir fylgja íslenskum ríkisborgara eða koma til íslensks ríkisborgara sem snýr aftur til Íslands eftir að hafa nýtt rétt sinn til frjálsrar farar samkvæmt EES-samningnum eða stofnsamningi EFTA í öðru EES- eða EFTA-ríki.

Um 81. gr.

    Í ákvæðinu er að finna reglur um heimild EES- og EFTA-borgara til að koma til landsins og dveljast hér. Í 1. mgr. kemur fram að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum kafla­ns veiti rétt til að dveljast hvar sem er á Íslandi nema takmarkanir hafi verið settar samkvæmt lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Samkvæmt 2. mgr. kemur réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum lagakafla­ns ekki í veg fyrir að útlendingur samkvæmt ákvæði þessu fái dvalarleyfi samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.
    Samkvæmt ákvæði 3. mgr. er útlendingi, sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara, heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári sé hann sannanlega starfsmaður þjónustuveitanda á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki.
    Í 4. mgr. kemur fram að ekki megi neita EES- eða EFTA-borgara um að fá að njóta réttinda sinna á þeim grundvelli einum að viðkomandi sé ekki handhafi skráningarvottorðs skv. 89. gr., skjals eða skírteinis sem staðfestir rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 91. gr., skjals sem vottar að umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandendur hafi verið lögð fram eða dvalarskírteinis skv. 90. gr. þar eð viðkomandi getur fært sönnur á rétt með ýmsum öðrum skjölum. Þetta skilyrði kemur fram í 1. mgr. 25. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem innleidd var með 5. gr. laga nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, en í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA hafi gert athugasemdir við að þetta ákvæði hafi ekki verið innleitt hérlendis.
    Í 5. mgr. kemur fram að aðstandendur skuli vera undanþegnir kvöð um vegabréfsáritun ef þeir eru handhafar gilds dvalarskírteinis skv. 90. gr. laganna. Slíkar vegabréfsáritanir skulu gefnar út án endurgjalds eins fljótt og hægt er og hljóta flýtimeðferð. Umrætt ákvæði er í samræmi við 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 6. mgr. kemur fram að hafi EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi sem er ekki EES- eða EFTA-borgari ekki nauðsynleg ferðaskilríki eða tilskildar vegabréfsáritanir, sé þeirra krafist, skuli áður en slíkum einstaklingum er vísað frá gefa þeim tækifæri til að afla nauðsynlegra skjala eða fá þau send innan sanngjarns tíma eða til að fá framburð sinn staðfestan eða fá viðurkennt á annan hátt að þeir falli undir réttinn til frjálsrar farar og dvalar. Er þetta í samræmi við 4. mgr. 5. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 7. mgr. ákvæðisins er síðan heimild til að setja frekari fyrirmæli í reglugerð.

Um 82. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-borgara en skv. 1. mgr. á aðstandandi EES- eða EFTA-borgara, sem dvelst löglega hér á landi, rétt til að dveljast með honum hérlendis. Ákvæðið kveður á um dvöl aðstandenda en nýmæli er að finna í 2. málsl. 1. mgr. um að aðstandendur EES- eða EFTA-borgara, sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, skuli óháð ríkisfangi eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi. Er þetta í samræmi við 3. mgr. 17. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 2. mgr. er tilgreint hverjir séu aðstandendur EES- eða EFTA-borgara. Undir hugtakið maki fellur einnig samvistarmaki.

Um 83. gr.

    Greinin er í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2004/38/EB og kveður á um rétt EES- eða EFTA-borgara til dvalar í allt að þrjá mánuði hér á landi. Ákvæðið gildir einnig um aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sem ekki er EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf, sbr. 4. mgr. Í 1. mgr. kemur fram að EES- eða EFTA-borgari megi koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins svo lengi sem hann hefur framvísað gildu vegabréfi eða kennivottorði og verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi. Er það í samræmi við 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út leiðbeiningar varðandi túlkun tilskipunar 2004/38/EB frá 2. júlí 2009 (e. Communication from the Commission to the European Parliament and the Council on guidance for better transposition and application of Directive 2004/38/EC on the rights of citizens of the Union and their family members to move and reside freely within the territory of the Member States). Þar kemur m.a. fram að við mat á því hvort einstaklingur sé talinn ósanngjörn byrði á gistiríkinu verði viðkomandi ríki að framkvæma meðalhófspróf. Ríki verði í þeim efnum að líta til þriggja atriða. Í fyrsta lagi til þess í hversu langan tíma viðkomandi hafi þegið bætur, hvort líklegt sé að breyting verði á högum viðkomandi fljótlega og hversu lengi viðkomandi hafi verið búsettur í gistiríkinu. Í öðru lagi þarf að athuga persónulegar aðstæður, þ.e. tengsl viðkomandi og fjölskyldu hans í gistiríkinu og hvort einhverjar sérstakar aðstæður sem varða viðkomandi þurfi að taka til skoðunar, svo sem aldur, heilsufar, fjölskyldu og efnahagslegar aðstæður. Í þriðja lagi er það upphæð bóta, þ.e. hversu miklar bætur viðkomandi hefur þegið, hvort bakgrunnur viðkomandi bendi til þess að hann hafi ítrekað þegið félagslega aðstoð og hvort viðkomandi hafi lagt eitthvað af mörkum til félagslega kerfisins í aðildarríkinu. Með þessu er vísað til þess að hafi einstaklingur greitt skatta og sinnt skyldum sínum við samfélagið sé ekki hægt að halda því fram að hann reynist ósanngjörn byrði gagnvart gistiríkinu.
    Í 2. mgr. segir að EES- eða EFTA-borgari sem falli undir skilgreiningu 1. mgr. og sé í atvinnuleit megi dveljast hér á landi í allt að sex mánuði frá komu til landsins svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi. Hið sama gildi um aðstandendur EES- eða EFTA-borgarans.
    Í 3. mgr. kemur fram að dvöl í öðru norrænu landi skuli ekki draga frá dvalartímanum og er það ákvæði að finna í 1. mgr. 35. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Í 4. mgr. kemur fram að ákvæði 1. mgr. gildi einnig um aðstandanda EES- eða EFTA- borgara, sem ekki sé EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf.
    Þá segir í 5. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja frekari fyrirmæli í reglugerð um útreikninga á lengd dvalar. Þá er ráðherra, er fer með málefni félagsmála, heimilt að setja frekari fyrirmæli í reglugerð um skilgreiningu hugtaksins „ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar“.

Um 84. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði, í fyrsta lagi fyrir EES- eða EFTA-borgara, í öðru lagi fyrir aðstandendur sem eru EES- eða EFTA-borgarar og í þriðja lagi fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Þessi ákvæði eru í samræmi við 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem hefur að hluta til verið innleidd í lögin. Með lögum nr. 83/2012 var orðalagi c-liðar 36. gr. þágildandi laga um útlendinga breytt þannig að viðkomandi varð að þiggja nægilegar fastar reglubundnar greiðslur eða eiga nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á dvalartímabilinu og hafa fullnægjandi sjúkratryggingu, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 83/2012.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að krefja megi EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 81. gr. Þá er heimilt að krefja EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og sýna fram á með yfirlýsingu eða jafngildum aðferðum að hann uppfylli skilyrði d-liðar 1. mgr. , sbr. þó 4. mgr. 81. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að EES- eða EFTA-borgari sem dvelst á landinu, sbr. a-lið 1. mgr., en hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur haldi stöðu sinni sem launþegi eða sjálfstætt starfandi við tilteknar aðstæður.
    Í 4. mgr. kemur fram að ráðherra geti sett nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um gögn skv. 2. mgr., um skilgreiningu á nægilegu fé, sbr. c-lið 1. mgr., um viðurkenndar menntastofnanir skv. d-lið 1. mgr. og um rétt EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir a-lið 1. mgr. til áfram­haldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans, en þetta síðastnefnda samsvarar heimild í gildandi lögum um útlendinga.

Um 85. og 86. gr.

    Í ákvæðunum er áréttað að aðstandendur EES- eða EFTA-borgara haldi rétti sínum til dvalar þegar EES- eða EFTA-borgari fer af landi brott eða fellur frá og við skilnað, ógildingu hjúskapar eða slit á sambúð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi ákvæði koma að hluta til fram í 12. og 13. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem hafa ekki verið innleiddar í lögin en í aðfaraorðum með tilskipunar 2004/38/EB kemur fram að aðstandendur skuli njóta verndar að lögum við andlát ríkisborgara aðildarríkis ESB, skilnað, ógildingu hjúskapar eða slit staðfestrar samvistar. Þá skuli að teknu tilhlýðilegu tilliti til fjölskyldulífs og mannlegrar reisnar og við sérstakar aðstæður til verndar gegn misnotkun gera ráðstafanir til að tryggja að við slíkar aðstæður haldi þeir aðstandendur sem dveljast þegar á yfirráðasvæði gistiaðildarríkis dvalarrétti sínum á persónubundnum grundvelli ein­göngu.
    Ákvæðin þarfnast að öðru leyti ekki frekari skýringa.

Um 87. og 88. gr.

    Ákvæðin fjalla um rétt til ótímabundinnar dvalar fyrir EES- eða EFTA-borgara og aðstandendur þeirra, hvort sem þeir eru EES- eða EFTA-borgarar eða ekki. Þetta ákvæði er í samræmi við 16. og 17. gr. tilskipunar 2004/38/EB en þau ákvæði hafa að hluta til verið innleidd, sbr. 39. gr. gildandi laga um útlendinga. Í aðfaraorðum tilskipunar 2004/38/EB kemur fram að réttur ríkisborgara aðildarríkis ESB, sem hafa kosið að setjast að í gistiaðildarríki til ótímabundinnar dvalar, mundi efla vitund fólks um ríkisborgararétt í aðildarríkjum ESB og sé lykilþáttur í því að stuðla að félagslegri samheldni sem sé eitt af grundvallarmarkmiðum sambandsins. Því sé rétt að mæla fyrir um rétt til ótímabundinnar dvalar fyrir alla ríkisborgara aðildarríkja ESB og aðstandendur þeirra sem hafa dvalist í gistiaðildarríki í samræmi við þau skilyrði sem mælt er fyrir um í tilskipuninni samfleytt í fimm ár án þess að gripið hafi verið til ráðstafana til brottvísunar þeirra.
    Ákvæðin þarfnast að öðru leyti ekki frekari skýringa.

Um 89. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skráningu EES- og EFTA-borgara og aðstandenda sem dveljast á landinu skv. 84. eða 85. gr. Er þetta í samræmi við 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um þau gögn sem stjórnvöldum er heimilt að óska eftir að EES- eða EFTA-borgari og aðstandendur leggi fram. Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi við skráningu samkvæmt ákvæðinu, þ.e. að Þjóðskrá annist það hlutverk eins og hún hefur gert frá 1. ágúst 2008.
    Þá kemur fram í 4. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð frekari fyrirmæli samkvæmt ákvæðinu, m.a. um gjald fyrir útgáfu skráningarvottorðs sem ætlað er að standa undir kostnaði við útgáfuna.

Um 90. gr.

    Í greininni er kveðið á um dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA- borgarar og eiga rétt til dvalar samkvæmt lögunum. Ákvæðið er í samræmi við 9., 10. og 11. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 2. mgr. er kveðið á um þau gögn sem leggja skal fram með umsókn um dvalarskírteini og í 3. mgr. er kveðið á um afgreiðslufrest fyrir umsókn um dvalarleyfisskírteini og gildistíma þess.
    Í 4. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um útgáfu skírteinis samkvæmt ákvæðinu að fenginni umsókn.
    Þá er í 5. mgr. reglugerðarheimild þar sem m.a. er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir útgáfu dvalarskírteinis sem ætlað er að standa straum af kostnaði við útgáfuna.

Um 91. gr.

    Í greininni er kveðið á um vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. og 88. gr. laganna. Umrætt ákvæði er í samræmi við 19. og 20. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Gert sé ráð fyrir að Útlendingastofnun gefi út staðfestingu á rétti til ótímabundinnar dvalar hvort sem er í formi vottorðs eða skírteinis.
    Í 1. mgr. segir að EES- eða EFTA-borgari, sem eigi rétt til ótímabundinnar dvalar á landinu skv. 87. gr., fái eftir umsókn vottorð um rétt til ótímabundinnar dvalar svo fljótt sem verða má. Umrætt ákvæði er í samræmi við 19. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 2. mgr. kemur fram að útlendingur sem eigi rétt til búsetu á landinu skv. 88. gr. fái skírteini til staðfestingar á rétti til ótímabundinnar dvalar eftir umsókn. Umsókn um slíkt skírteini skuli afgreidd fyrir lok gildistíma dvalarskírteinis skv. 88. gr.
    Þá kemur fram í 3. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt ákvæðinu í reglugerð, m.a. um heimild til þess að taka gjald fyrir útgáfu vottorðs og skírteinis um rétt til ótímabundinnar dvalar til að standa undir kostnaði við útgáfuna. Þá er heimilt að ákveða í reglugerð að aflað skuli lífkenna í formi andlitsmyndar og fingrafara og þau varðveitt í skírteini sem útgefið er samkvæmt þessu ákvæði.

Um 92. gr.

    Í greininni er kveðið á um brottfall dvalarréttar. Greinin er í samræmi við 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB þar sem gert er ráð fyrir því að aðildarríkin geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að sporna við misnotkun á þeim réttindum sem tilskipunin mælir fyrir um, t.d. vegna málamyndahjúskapar.
    Í 1. mgr. kemur fram að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum kafla­ns fellur niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulega máli, ef um málamyndagerning er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en samræmist kafla­num. Sama eigi við ef um aðra misnotkun er að ræða.
    Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti eða ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga.
    Í 3. mgr. er tekið fram hvenær dvalarréttur fellur ekki niður jafnvel þótt viðkomandi útlendingur uppfylli ekki lengur skilyrði a- eða b-liðar 1. mgr. 84. gr. um rétt til dvalar.
Samkvæmt 4. mgr. skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum kafla­ns fellur niður.

Um 93. gr.

    Í greininni er að finna heimildir til að afturkalla dvalarskírteini eða vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar. Í 1. mgr. kemur fram að afturkalla megi á grundvelli ákvæðisins skráningarvottorð, dvalarskírteini og vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar.
    Í 2. mgr. segir að skráningarvottorð og dvalarskírteini megi einnig afturkalla ef skráning er ógild af öðrum ástæðum.
    Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skulu vottorð og skírteini, sem nefnd eru í 1. mgr., afturkölluð þegar réttur til dvalar fellur niður skv. 3. málsl. 1. mgr. 87. gr. og 4. málsl. 88. gr.
    Í 4. mgr. kemur fram að dvalarskírteini útlendings, sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, skuli afturkalla ef útlendingurinn fær dvalarleyfi samkvæmt öðrum köflum laganna.
    Í 5. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun samkvæmt ákvæðinu.

Um 94. gr.

    Í greininni er kveðið á um frávísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins er þó gerður fyrirvari með vísan til 6. mgr. 81. gr. sem kveður m.a. á um tækifæri til að afla nauðsynlegra skjala eða fá þau send innan sanngjarns tíma áður en slíkum einstaklingum er vísað frá. Orðalag d-liðar 1. mgr. ákvæðisins er í samræmi við orðalag tilskipunar 2004/38/EB en þar kemur fram að takmarka megi réttinn til frjálsrar farar og dvalar á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis.

Um 95. gr.

    Í greininni er kveðið á um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi. Í 1. mgr. kemur fram að heimilt sé að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
    Í 2. mgr. er m.a. áréttað að fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt, sbr. 2. mgr. 27. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 3. mgr. kemur fram að einnig sé heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl skv. 83., 84., 85. eða 86. gr.
    Í 4. mgr. kemur fram að heimilt sé að vísa úr landi einstaklingi, sem hefur rétt til dvalar skv. 84. gr., ef það er talið nauðsynlegt til verndar heilsu almennings og stjórnvöld hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara. Þeir sjúkdómar sem geta réttlætt brottvísun með skírskotun til almannaheilbrigðis er hver sá sjúkdómur sem getur valdið farsótt eins og skilgreint er í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem og aðrir smitsjúkdómar af völdum sníkjudýra í samræmi við ákvæði laga um sóttvarnir. Ekki er heimilt að vísa úr landi EES- eða EFTA- borgara eða aðstandanda hans með skírskotun til almannaheilbrigðis ef lengri tími en þrír mánuðir eru liðnir frá komu til landsins.
    Í 5. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun.

Um 96. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um endurkomubann EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Ákvæðið er í samræmi við 32. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 1. mgr. kemur fram að brottvísun skv. 1. og 4. mgr. 95. gr. laganna feli í sér bann við komu í landið síðar. Endurkomubann geti verið tímabundið eða varanlegt en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skal sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laganna.
    Í 2. mgr. kemur fram að samkvæmt umsókn megi fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og sýna að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá skal taka ákvörðun um hvort fella eigi endurkomubann úr gildi innan sex mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Sá sem sætir endurkomubanni hefur ekki rétt til að koma til landsins á meðan fjallað er um umsókn hans. Eru þessi ákvæði í samræmi við 32. gr. tilskipunar 2004/38/EB en í aðfaraorðum tilskipunarinnar segir að í samræmi við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, sem bannar aðildarríkjum að taka ákvarðanir um að útiloka einstaklinga sem tilskipunin tekur til frá yfirráðasvæði sínu fyrir lífstíð, sé rétt að staðfesta að ríkisborgarar aðildarríkja ESB og aðstandendur þeirra, sem hafa verið útilokaðir frá yfirráðasvæði aðildarríkis, eigi rétt á því að leggja fram nýja umsókn að hæfilega löngum tíma liðnum og í öllum tilvikum þegar þrjú ár eru liðin frá endanlegu endurkomubanni (e. exclusion order).
    Í 3. mgr. kemur fram að við sérstakar aðstæður geti sá sem vísað hefur verið á brott fengið, eftir umsókn, heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun.
    Í 4. mgr. segir að Útlendingastofnun taki ákvörðun um heimild EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu.

Um 97. gr.

    Í greininni kveðið á um takmarkanir á heimild til brottvísunar skv. 95. gr. Ákvæðið er í samræmi við 28. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í 1. mgr. kemur fram að þeim EES- eða EFTA- borgurum eða aðstandendum þeirra sem hér hafa rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 83. og 84. gr. verði veitt aukin vernd gegn brottvísun þannig að þeim verði ekki vísað úr landi nema alvarlegar ástæður er varða allsherjarreglu eða almannaöryggi krefjist þess. Þá er einnig kveðið á um það að tilteknum hópi EES- eða EFTA-borgara eða aðstandendum þeirra verði veitt aukin vernd þannig að þeim sem hafa dvalist hér löglega í lengri tíma en tíu ár verði ekki vísað úr landi nema brýnar ástæður er varða almannaöryggi krefjist þess. Sama gildi um ólögráða einstaklinga nema annað verði talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins eins og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 kveður á um (meginreglan um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. 3. gr. sáttmálans).
    Í 2. mgr. koma fram dæmi um atriði sem Útlendingastofnun ber að leggja mat á varðandi aðstæður EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans þegar ákvörðun um brottvísun kemur til álita.
    Í 1. málsl. 3. mgr. áréttað að brottvísun skuli ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans leiti til kerfis félagslegrar aðstoðar. Er þetta í samræmi við 3. mgr. 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB en í aðfaraorðum tilskipunarinnar kemur fram að svo lengi sem einstaklingar með dvalarrétt eru ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiaðildarríkinu skuli þeim ekki vísað úr landi. Brottvísun skuli því ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að leitað sé til kerfis félagslegrar aðstoðar. Þá segir að við mat á því hvort bótaþegi sé orðinn ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiaðildarríkinu og hvort það skuli varða brottvísun skuli gistiaðildarríkið kanna hvort um er að ræða tímabundna erfiðleika og taka tillit til þess hve lengi viðkomandi hefur dvalist í landinu, til persónulegra aðstæðna og til þess hve mikla aðstoð hann hefur þegið. Ekki skuli undir neinum kringumstæðum beita brottvísun gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum eða fólki í atvinnuleit samkvæmt skilgreiningu Evrópudómstólsins nema það sé gert á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Í 2. málsl. 3. mgr. segir að brottvísun skuli aldrei beitt af þeirri ástæðu einni að kennivottorð eða vegabréf sé fallið úr gildi og er það í samræmi við 2. mgr. 15. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Ákvæði 4. mgr. eru byggð á ákvæði 4. mgr. 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB.

Um XII. kafla.

    Kaflinn fjallar um frávísun við komu til landsins og brottvísun útlendings sem dvelst hér á landi. Í honum er greint frá skilyrðum þess að beita megi þeim aðferðum auk þess hvaða sjónarmið skulu lögð til grundvallar við að framfylgja slíkum ákvörðunum en framkvæmdinni er lýst í 104. gr.

Um 98. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um í hvaða tilvikum er heimilt að vísa úr landi útlendingi sem er án dvalarleyfis (brottvísun). Sú breyting er lögð til frá 20. gr. gildandi laga um útlendinga að aðgreina brottvísunarheimildirnar í tvær greinar eftir því hvort útlendingur hefur dvalarleyfi eða er án þess. Kemur þessi aðgreining til vegna innleiðingar á tilskipun 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl (e. Directive 2008/115/EC of the European Parliament and of the Council of 16 December 2008 on common standards and procedures in Member States for returning illegally staying third-country nationals). Sömu reglur eiga ekki við að öllu leyti um brottvísun þessara hópa. Þannig er til að mynda gert ráð fyrir að undanfari brottvísunar vegna ólögmætrar dvalar sé að útlendingi er veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum, þ.e. án atbeina lögreglu, en það á ekki endilega við um útlending sem hefur dvalarleyfi en til stendur að vísa úr landi á grundvelli refsidóms. Við samningu ákvæðisins var horft til norskra laga.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. er heimilt að vísa útlendingi brott ef hann dvelst ólöglega í landinu. Er þá heimild nú að finna í a-lið 1. mgr. 20. gr. gildandi laga og hvíla sömu sjónarmið að baki ákvæðinu hér. Dvöl útlendinga hér á landi verður að vera í samræmi við ákvæði laga en ólögmæt dvöl brýtur gegn megintilgangi laga um útlendinga og ber því að líta slíkt alvarlegum augum. Þá er Ísland bundið af tilskipun 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl og er því skuldbundið til að bregðast við ólögmætri dvöl útlendinga í landinu þar sem viðkomandi dvelst um leið ólöglega á Schengen-svæðinu.
    Samkvæmt b-lið er í fyrsta lagi heimilt að vísa útlendingi brott ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna. Hér undir mundu sem fyrr geta fallið fleiri en eitt brot gegn lögunum sem hvert fyrir sig telst ekki alvarlegt. Í öðru lagi er heimilt að vísa útlendingi brott sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi hefur gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum. Þessi heimild er nýmæli en sambærilegt ákvæði er í norsku útlendingalögunum og er það ákvæði haft sem fyrirmynd hér. Þykir rétt að lögfesta heimild til að bregðast við því þegar útlendingur hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum. Slík upplýsingagjöf er jafnframt refsiverð skv. b-lið 1. mgr. 116. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi er skv. b-lið heimilt að vísa útlendingi brott sem kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Áfram er gert ráð fyrir að undir þetta mundu geta fallið ákvarðanir um að vísa útlendingi frá landi, synjun á umsókn um fyrsta dvalarleyfi eða endurnýjun leyfis eða synjun á umsókn um hæli þegar dvalarleyfi verður ekki heldur veitt á öðrum grundvelli eða afturköllun leyfis. Þessir útlendingar hafa ekki lengur leyfi til að dveljast í landinu. Aðrir útlendingar kunna hins vegar að dveljast ólöglega í landinu án þess að fyrir liggi ákvörðun um að þeir skuli yfirgefa landið. Þá mundi eftir atvikum mega beita brottvísun á grundvelli a-liðar eða frávísun á grundvelli 5. mgr. 106. gr.
    Samkvæmt c-lið er áfram heimild til brottvísunar ef útlendingur hefur afplánað refsingu erlendis á síðustu fimm árum eða verið dæmdur þar til refsingar á sama tíma enda geti brotið að íslenskum lögum varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Það er því refsiramminn sem slíkur samkvæmt íslenskum lögum sem skiptir máli. Samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna refsiverðrar háttsemi sem fellur undir liðinn.
    Samkvæmt d-lið er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða verið dæmdur oftar en einu sinni á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar. Hér er það einnig refsiramminn samkvæmt íslenskum lögum sem skiptir máli. Heimildin er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í e-lið er að finna nýmæli sem felur í sér heimild til brottvísunar ef stjórnvald í Schengen- ríki hefur tekið ákvörðun um frávísun hans eða brottvísun fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu eða dvöl útlendinga. Ákvæðið er byggt á b-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2001/40/EB um gagnkvæma viðurkenningu á ákvörðunum um brottvísun ríkisborgara utan EES. Ákvæðið felur í sér að hafi útlendingi verið vísað brott frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu og sú ákvörðun er í gildi er unnt að framfylgja ákvörðuninni strax eftir atvikum þannig að hann verði sendur beint til heimalands eða þess ríkis sem tekur við honum án þess að senda þurfi hann fyrst til þess ríkis sem tók ákvörðunina.
    Samkvæmt f-lið er loks heimilt að vísa útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Ákvæðið er samhljóða d-lið 1. mgr. 20. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli sem leiðir af tilskipun 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Ákvæðið byggist á a- og b-lið 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar en nýmælið felst í því að kveða á um skyldu til að vísa útlendingi brott í nánar tilteknum tilvikum en hingað til hafa brottvísunarheimildir laga um útlendinga falið í sér heimild en ekki skyldu til brottvísunar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meginregla tilskipunarinnar er sú að útlendingi í ólögmætri dvöl skal veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Fresturinn getur verið mislangur eða 7–30 dagar allt eftir því hvernig aðstæðum útlendings er háttað. Yfirgefi útlendingur ekki landið eins og fyrir hann hefur verið lagt skal honum vísað úr landi. Þau tilvik, sem skyldan tekur til, eru annars vegar þegar útlendingur í ólögmætri dvöl hefur ekki yfirgefið landið sjálfviljugur innan veitts frests skv. 2. mgr. 104. gr. frumvarpsins og hins vegar þegar útlendingi í ólögmætri dvöl hefur ekki verið veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum, sbr. sama ákvæði. Samkvæmt ákvæðinu og 2. mgr. 104. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að útlendingi í ólögmætri dvöl verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur þegar:
     a.      hætta er á að útlendingur fari ekki sjálfviljugur,
     b.      umsókn um dvalarleyfi hefur verið hafnað vegna þess að hún þykir bersýnilega tilhæfulaus eða veittar voru rangar eða villandi upplýsingar við umsóknina eða
     c.      útlendingur er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.
    Ákvæðum 2. mgr. greinar þessarar og 2. mgr. 104. gr. frumvarpsins er ætlað að endurspegla fyrrnefnda meginreglu tilskipunarinnar.

Um 99. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um heimildir til að vísa úr landi útlendingi sem hefur dvalarleyfi hér á landi. Heimildirnar í 1. mgr. eru nánast þær sömu og í 98. gr. að undanskildum a- og e-lið 1. mgr. 98. gr. en um sömu heimildir vísast til athugasemda við 98. gr. Við samningu ákvæðisins var jafnframt horft til norskra laga.
    Ákvæði 2. mgr. felur í sér að útlendingur verður að hafa fengið útgefið dvalarleyfi þegar brot er framið til að geta notið góðs af þeirri vernd gegn brottvísun sem ákvæði þetta veitir þeim sem hafa dvalarleyfi. Hafi brotið verið framið áður en dvalarleyfi var gefið út gildir 98. gr. eftir því sem við á.

Um 100. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um hvenær heimilt er að vísa frá eða úr landi útlendingi sem hefur ótímabundið dvalarleyfi en þær heimildir eru óbreyttar frá 21. gr. gildandi laga um útlendinga. Þeim útlendingum sem hafa ótímabundið dvalarleyfi er því aðeins heimilt að vísa frá landi eða úr landi að um hafi verið að ræða afplánun refsingar eða refsidóm fyrir háttsemi þar sem refsirammi að íslenskum lögum er þriggja ára fangelsi eða meira (a-liður 1. mgr.), þ.e. hærri en segir í 98. og 99. gr. eða þess sé nauðsyn vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Ástæða þótti til að bæta við almannahagsmunum til samræmis við ákvæði 98. og 99. gr. Ef um er að ræða afplánun refsingar eða refsidóm hér á landi er áskilið að slíkt hafi átt sér stað árið áður. Samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna refsiverðrar háttsemi.
    Ákvæði 2. mgr. felur í sér að útlendingur verður að hafa fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi þegar brot er framið til að geta notið góðs af þeirri vernd gegn brottvísun sem ákvæði þetta veitir þeim sem hafa ótímabundið dvalarleyfi. Hafi brotið verið framið áður en ótímabundið dvalarleyfi var gefið út gildir 99. gr. eftir því sem við á.

Um 101. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um áhrif brottvísunar og endurkomubanns. Ákvæðið er nánast samhljóða 20. gr. c gildandi laga um útlendinga, að hluta til 57. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 og að hluta er verið að innleiða ákvæði úr tilskipun 2008/115/EB. Skv. 1. mgr. fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfi úr gildi þegar endanleg ákvörðun um brottvísun liggur fyrir.
    Samkvæmt 2. mgr. felur brottvísun í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt, þ.e. gilt fyrir fullt og allt eða verið tímabundið, þ.e. gilt um tiltekinn tíma. Lagt er til að lágmarkstími endurkomubanns verði færður niður í tvö ár þannig að endurkomubanni verði að jafnaði ekki markaður skemmri tími en tvö ár í stað þriggja áður. Tvær ástæður liggja einkum að baki þessari tillögu að breyttu viðmiði, annars vegar sú að lágmarkstími endurkomubanns fyrir EES-borgara er tvö ár og hins vegar sú að með innleiðingu á tilskipun 2008/115/EB er verið að herða framkvæmdina á brottvísun útlendinga sem hér dveljast í ólögmætri dvöl. Samkvæmt ákvæðum þessa kafla er til að mynda skylda að vísa brott útlendingi í ólögmætri dvöl að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Má sem dæmi nefna að hafi útlendingur einungis dvalist á landinu örfáum dögum lengur en honum var heimilt og af einhverri ástæðu ekki virt þann frest sem honum var veittur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum ber að vísa honum brott en samkvæmt tilskipuninni væri ekki val um slíka ákvörðun. Til að milda þau áhrif, sem harðari framkvæmd kann að hafa, þykir því rétt að leggja til styttri lágmarkstíma endurkomubanns. Var sú leið einnig farin í Noregi en þar var þó gengið lengra og lágmarkstími bundinn við eitt ár. Gert er ráð fyrir að viðmið um endurkomubann verði útfærð í reglugerð.
    Endurkomubann felur samkvæmt ákvæðinu jafnframt í sér bann við komu útlendings sem ekki er norrænn ríkisborgari til annars norræns lands án sérstaks leyfis. Samkvæmt umsókn má fella úr gildi endurkomubann enda hafi aðstæður breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin. Er það í samræmi við 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Í tilskipuninni er þó ekki gerð nánari grein fyrir hvaða tilvik falla undir sérstakar mannúðarástæður en ljóst er að ríkjunum er veitt svigrúm til túlkunar og mats á þeim aðstæðum sem fyrir hendi eru hverju sinni. Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem hefur verið vísað úr landi að heimsækja landið án þess þó að ákvörðun um endurkomubann falli úr gildi. Við ákvörðun um hvort útlendingi skuli heimiluð endurkoma skal m.a. tekið mið af persónulegum högum viðkomandi og fjölskyldu hans.
    Í 4. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að setja frekari ákvæði um endurkomubann. Gert er ráð fyrir að í þeirri reglugerð verði t.d. sett viðmið um lengd endurkomubanns í tilteknum tilvikum.

Um 102. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er óheimilt að vísa á brott útlendingi sem fæddur er á Íslandi og hefur átt hér fasta búsetu. Auk fæðingar hér á landi þarf að hafa verið um að ræða órofna búsetu allan tímann. Skemmri dvöl erlendis mundi þó ekki leiða til þess að búseta teljist rofin, t.d. vegna orlofs, starfs eða náms.
    Samkvæmt 2. mgr. er því aðeins heimilt að vísa norrænum ríkisborgara úr landi, sem átt hefur heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði, að hin refsiverða háttsemi geti varðað eins árs fangelsi eða meira.

Um 103. gr.

    Í greininni eru ákvæði um hvenær einstakar ákvarðanir geta komið til framkvæmda og eru 1. og 4. mgr. nær samhljóða 1. og 2. mgr. 31. gr. gildandi laga um útlendinga. Um ákvarðanir í málum um alþjóðlega vernd gilda ákvæði í 35. gr.
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. er heimilt að framfylgja ákvörðun um frávísun skv. 106. gr. þegar í stað í samræmi við almennar reglur. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér skyldu til að framfylgja ákvörðun um frávísun þegar í stað heldur verður það háð mati stjórnvalds. Um kærufrest fer skv. 7. gr. Ákvæðið breytir ekki þeirri reglu að æðra stjórnvald hafi heimild til að ákveða að kæra fresti framkvæmd ákvörðunar. Þá ber að gæta þess að útlendingi, sem vill kæra ákvörðun, gefist tími til að leggja fram kæru. Skv. 2. málsl. 1. mgr. má ekki framfylgja synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um ótímabundið dvalarleyfi ef sótt er um innan þess frests sem greinir í 2. mgr. 57. gr., þ.e. a.m.k. mánuði áður en leyfið fellur úr gildi, fyrr en ákvörðunin er endanleg. Ákvörðun er endanleg þegar kærufrestur er úti eða fyrir liggur endanleg stjórnsýsluákvörðun í kærumáli. Sama á við skv. 3. málsl. um ákvörðun um afturköllun skv. 59. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalist hér á landi lengur en þrjá mánuði. Hvað norræna ríkisborgara varðar er haft í huga að þeir þurfa ekki dvalarleyfi, sbr. 2. mgr. 50. gr. Af ákvæðinu leiðir að réttarstaða norrænna ríkisborgara verður ekki lakari en útlendinga með dvalarleyfi en slíkt leyfi þarf ef útlendingur hyggst dveljast hér lengur en þrjá mánuði. Skv. 4. málsl. gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga að öðru leyti um frestun réttaráhrifa. Ákvörðun getur þá komið til framkvæmda þótt ákvörðun sé ekki orðin endanleg, einnig áður en kærufrestur rennur út.
    Ákvæði 2. mgr. eru nýmæli og byggjast á 2. lið 9. gr. tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Þar er lagt fyrir að vegna heilbrigðisástæðna eða aðstæðna sem gera brottvísun ómögulega, t.d. ef ekki fæst flugsæti eða þess háttar, skuli fresta brottvísun. Ákvæði 2. mgr. er víðara og heimilar stjórnvöldum meira mat á því hvenær heimilt er að fresta brottvísun því að orðalagið snýr almennt að sérstökum aðstæðum.
    Ákvæði 3. mgr. byggjast á 10. gr. brottvísunartilskipunarinnar en þar er kveðið á um að það sé haft að leiðarljósi við brottvísun sem barni sé fyrir bestu og að þess bíði ásættanlegar aðstæður í því landi sem senda á það til, einkum að til staðar sé einhver sem getur séð um barnið.
    Samkvæmt 4. mgr. gilda sérákvæði um synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 2. mgr. 57. gr. Þeirri synjun er ekki heimilt að framfylgja fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru og aldrei fyrr en liðnir eru tveir sólarhringar frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina.

Um 104. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um hvernig framfylgja skuli ákvörðun. Framkvæmd ákvörðunar samkvæmt lögum um útlendinga snýr fyrst og fremst að ákvörðunum sem fela í sér að útlendingur yfirgefi landið og því er það umfjöllunarefni greinarinnar. Að jafnaði hverfur útlendingur í löglegri dvöl á brott þegar dvalartími án vegabréfsáritunar, vegabréfsáritun eða dvalarleyfi rennur út og hefur ekki verið endurnýjað. Sé það ekki gert á útlendingur á hættu að ákvörðun verði tekin um að hann skuli yfirgefa landið. Ákvæði greinarinnar eiga einnig við þegar tekin er ákvörðun um brottvísun skv. 98.–100. gr. en þau ákvæði mæla fyrir um það hvenær megi vísa útlendingum í löglegri dvöl úr landi.
    Ákvæðum 1. mgr. er ætlað að koma í veg fyrir að óvissa myndist um heimild útlendings til dvalar þegar hann hefur verið staddur á landinu við umsókn en fengið synjun.
    Í 2. mgr. er því lýst þegar ljóst er að útlendingur þarf að yfirgefa landið. Þá er honum að jafnaði gefinn frestur til að yfirgefa landið að eigin frumkvæði. Er þetta í samræmi við 7. gr. tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Í ákveðnum tilvikum er, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, ekki veittur slíkur frestur, svo sem hafi útlendingur gefið mjög rangar upplýsingar, hætta er á að hann reyni að fara í felur eða viðkomandi telst hættulegur.
    Í 3. mgr. er heimild til að lengja þann frest sem talað er um í 2. mgr. ef nauðsynlegt telst vegna sanngirnissjónarmiða en þar er átt við ýmsar aðstæður sem geta átt við útlendinginn, t.d. skóladvöl barna, tækifæri til að taka saman eigur sínar og fjölskyldulíf.
    Í 4. mgr. er áréttað að útlendingur skuli njóta ákveðinna grundvallarréttinda á fresti þeim er greinir í 2. mgr. og er ákvæðið byggt á 14. gr. tilskipunar 2008/115/EB.
    Í 5. mgr. eru lagðar skyldur á herðar útlendingnum að sýna fram á brottför sína og tilkynna hana yfirvöldum. Hún veitir einnig heimild að liðnum fresti skv. 2. mgr. til að færa útlending úr landi hafi hann ekki orðið við kvöð um brottvísun. Miðað er við að flestir fari sjálfviljugir úr landi innan þess frests sem gefinn er en í þeim tilvikum þar sem þeir gera það ekki eru þeir færðir úr landi og að auki er kveðið á um endurkomubann en nánar er vikið að því í umfjöllun um 101. gr.
    Meginreglan er sú að útlendingur er fluttur til þess lands er hann kom frá, að jafnaði til heimalands útlendingsins, en jafnframt er gefin heimild til að flytja hann annað ef þannig stendur á en forsenda þess er að það ríki sé tilbúið að taka við honum. Útlendingur getur óskað þess að vera sendur til lands þar sem hann getur sýnt fram á heimild til land­göngu og skal þá að jafnaði orðið við þeirri ósk. Ef útlendingur hefur dvalarheimild í öðru EES/EFTA- ríki skal hann sendur þangað. Eru þessi ákvæði í takt við 3. lið 3. gr. og 8. gr. brottvísunartilskipunarinnar.
    Í 8. mgr. er kveðið á um heimild til ráðherra til að setja reglugerð um eftirlit með framkvæmd brottvísana í samræmi við 6. lið 8. gr. brottvísunartilskipunarinnar. Þar er kveðið á um sjálfstætt eftirlitskerfi með brottvísunum. Ýmsar leiðir eru til innleiðingar þessu eins og fram hefur komið í mismunandi framkvæmd Evrópuríkja. Sum ríki hafa falið félagasamtökum þetta hlutverk en önnur hafa falið það stofnunum hliðstæðum umboðsmanni Alþingis. Er þá ætlunin að slíkar stofnanir hafi aðgang að málsgögnum er varða brottvísanir og geti að eigin frumkvæði eða eftir ósk útlendings tekið mál til nánari skoðunar. Er þetta m.a. gert til þess að reyna að tryggja að ekki sé brotið gegn grundvallarmannréttindum þeirra útlendinga sem vísað er brott.

Um 105. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá eldri lögum en þar er kveðið á um þau úrræði sem lögreglu er heimilt að beita til að framfylgja ákvörðun þegar nauðsynlegt þykir, m.a. þar sem lögfest voru hlutlæg viðmið fyrir lögreglu til að styðjast við þegar meta þarf hvort hætta sé á að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar. Skylda til að lögfesta slík viðmið kemur fram í 3. gr. brottvísanatilskipunarinnar. Gert er ráð fyrir að heimilt sé að taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Að öðru leyti verður að fara fram mat á aðstæðum í sérhverju tilviki fyrir sig. Við heildarmatið er lagt til að m.a. skuli litið til þess hvort útlendingur hafi áður komið sér undan framkvæmd ákvörðunar sem fól í sér að hann skyldi yfirgefa landið, útlendingur hafi látið uppi andstöðu sína við að yfirgefa landið sjálfviljugur, útlendingi hafi verið vísað úr landi, útlendingur hafi verið dæmdur til refsingar eða annarrar öryggisráðstöfunar hér á landi, útlendingur hafi ekki verið samstarfsfús við að varpa ljósi á hver hann er eða upplýsa um deili á sér, útlendingur hafi forðast eða hindrað undirbúning heimfarar, útlendingur hafi gefið stjórnvöldum rangar upplýsingar vegna umsóknar samkvæmt lögunum, útlendingur beri ábyrgð á röskun á friði í eða við móttökustöð eða húsnæði hælisleitenda eða útlendingur sé talinn ógna öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.

Um 106. gr.

    Greinin hefur að geyma heimildir til að vísa útlendingi frá landi. Ákvæðið er að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum. Það tekur mið af 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og 5. gr. reglugerðar (EB) 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), sem var innleidd hér á landi í reglugerð um för yfir landamæri nr. 1212/2007. Norræna samninginn ber að skoða með hliðsjón af viðauka við hann sem var gerður til að fullnægja skuldbindingum Norðurlandanna samkvæmt Schengen- samningnum þannig að ákvæði þessara tveggja samninga rekist ekki á. Þá verður að hafa í huga að nokkur ákvæði Schengen-samningsins, sem var tekið mið af við samningu gildandi laga, hafa verið leyst af hólmi með Schengen-landamærareglunum.
    Heimildir til frávísunar við komu til landsins eru taldar upp í 1. mgr. Skv. a-lið er heimilt að vísa útlendingi frá landi sem ekki fullnægir reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins. Reglur þær sem hér er vísað til er m.a. að finna í II. kafla frumvarpsins um komu og brottför en einnig reglum sem leiðir af þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Er þar helst að nefna reglugerð nr. 1212/2007, um för yfir landamæri, sem eins og áður segir byggist á Schengen-landamærareglunum og reglugerð nr. 1160/2010, um vegabréfsáritanir, sem byggist á reglugerð (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir (vegabréfsáritunarreglurnar, e. Visa Code). Ákvæðið svarar til a-liðar 1. mgr. 18. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Samkvæmt b-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem vísað hefur verið úr landi hér eða í öðru norrænu ríki og ef endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins. Ákvæðið er nú að finna í b-lið 1. mgr. 18. gr. gildandi laga. Það byggist á f-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins en samkvæmt því ákvæði er heimilt að vísa frá útlendingi sem í einhverju aðildarríkjanna er færður á skrá yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi. Þrátt fyrir það er íslenskum stjórnvöldum heimilt að leyfa þeim sem er með endurkomubann að koma til landsins.
    Samkvæmt c-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem ekki hefur tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins. Meginreglan er að dvalar- og atvinnuleyfa skal aflað áður en komið er til landsins. Einnig er heimilt að vísa útlendingi frá landi ef hann getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni. Hér er fylgt efnislega samhljóða ákvæði í c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Í 5. gr. reglugerðar nr. 1212/2007 um för yfir landamæri eru m.a. talin upp gögn sem landamæraverði er heimilt að krefja útlending um til sönnunar á að skilyrðum fyrir komu sé fullnægt og geta stutt frásögn útlendings um tilgang dvalar.
    Samkvæmt d-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem ekki getur sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Meta þarf hverju sinni hvenær útlendingur telst hafa nægileg fjárráð til framfærslu og til heimferðar. Skv. 5. gr. reglugerðar nr. 1212/2007 um för yfir landamæri skal við mat á því hvort útlendingur teljist hafa nægileg fjárráð m.a. tekið mið af lengd og tilgangi dvalar. Mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem útlendingur sé handhafi að. Þá kæmi jafnframt til skoðunar hvort útlendingur hafi fengið dvalar- og atvinnuleyfi áður en hann kemur til landsins. Skilyrði um nægileg fjárráð til heimferðar yrði t.d. fullnægt með framvísun farmiða.
    Samkvæmt e-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem hlotið hefur refsingu eins og greinir í c- eða d-lið 1. mgr. 98. gr. eða b- eða c-lið 1. mgr. 99. gr. frumvarpsins eða sérstök ástæða er til af öðrum ástæðum að óttast að hann muni fremja hér á landi eða í öðru norrænu landi refsiverðan verknað sem varðað getur fangelsi lengur en þrjá mánuði, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins. Heimildir til frávísunar og til brottvísunar eru þær sömu þegar svo stendur á að útlendingur hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem getur varðað meira en þriggja mánaða fangelsi að íslenskum lögum. Það er sjálfur refsiramminn samkvæmt íslenskum lögum sem hér skiptir máli. Sem dæmi um tilvik, sem fallið geta undir þetta, má nefna útlendinga sem fremja auðgunarbrot sem ferðamenn og óróaseggi sem fylgja keppnisliðum í knattspyrnu. Ákvæðið getur einnig náð til þess að útlendingur hlýtur refsingu hér á landi eftir komu til landsins. Ekki er þörf á að meta hvort ástæða sé til að ætla að útlendingurinn muni brjóta af sér eftir komu til landsins. Það að útlendingurinn hefur framið refsiverðan verknað er í sjálfu sér talið hafa í för með sér ítrekunarhættu. Ef á hinn bóginn eitthvað bendir til að ástæðulaust sé að óttast nýjan refsiverðan verknað mundi þó tæplega rétt að vísa útlendingi frá landinu. Ástæður, sem greinir í síðari hluta e-liðar, um að útlendingur kunni að fremja refsiverðan verknað og hér gætu komið til, geta t.d. verið upplýsingar frá alþjóðalögreglunni Interpol eða að vopn eða tæki finnast í fórum útlendings sem benda til að hann komi til landsins til að fremja afbrot.
    Samkvæmt f-lið er heimilt að vísa útlendingi frá landi ef reglur 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eiga við og ætla má að hann muni fara til annars norræns ríkis og að honum muni að öllum líkindum verða vísað frá landi þar vegna þess að ekki er fullnægt reglum um vegabréf eða vegabréfsáritun eða frávísun er heimil af öðrum ástæðum í viðkomandi ríki. Ákvæðið vísar til allra frávísunarástæðna í 6. gr. samningsins. Svo sem fram kemur í athugasemdum við f-lið 1. mgr. 18. gr. í frumvarpi til gildandi laga verður beiting þessa ákvæðis að byggjast á mati á því hvort útlendingurinn ætli að fara annað. Farmiði til annars ríkis gæti þannig verið fullnægjandi tilefni.
    Ákvæði g-liðar svarar til g-liðar 1. mgr. 18. gr. gildandi laga en hér er tilgreind ástæða þess að útlendingur geti ekki ráðið persónulegum högum sínum sjálfur að mati læknis, þ.e. vegna þess að hann þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi. Er þessari viðbót ætlað að útfæra ákvæðið nánar. Skv. g-lið er jafnframt heimilt að vísa frá landi útlendingi ef hætta er á að hann muni með framkomu sinni valda sér eða öðrum tjóni. Sama gildir ef hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi. Við mat á því hvort þessari frávísunarheimild verður beitt verður eftir sem áður að líta til allra aðstæðna útlendings, þ.m.t. hvort hann njóti umsjár samferðamanna eða honum sé tryggð viðhlítandi umönnun hér á landi.
    Samkvæmt h-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi ef hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera af fyrri færslu hans úr landi. Um þetta vísast til 1. mgr. 107. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt i-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi sem er skráður í Schengen- upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu til landsins. Þetta ákvæði leiðir af d-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 för fólks yfir landamæri (Schengen- landamærareglurnar).
    J-liður veitir heimild til að frávísa útlendingi þegar endanleg ákvörðun stjórnvalds í Schengen-ríki um brottvísun eða frávísun liggur fyrir á grundvelli þess að ástæða sé til að ætla að hann hafi framið alvarlega glæpi eða vegna raunverulegra vísbendinga um að hann ætli að fremja slíka glæpi innan Schengen-svæðisins. Ákvæðið byggist á 1. mgr. 3. gr. tilskipunar nr. 2001/40/EB um gagnkvæma viðurkenningu á ákvörðunum um brottvísun ríkisborgara utan EES. Með því að viðurkenna ákvörðun annars Schengen-ríkis um frávísun eða brottvísun á grundvelli þeirra ástæðna sem ákvæðið byggist á er tryggt að útlendingurinn ferðist ekki til baka til viðkomandi lands í gegnum ytri landamæri Íslands. Enn fremur verður þá ekki nauðsynlegt að senda útlending til baka til þess ríkis sem tók ákvörðunina, í þeim tilvikum þegar viðkomandi kemur til Íslands áður en ákvörðunin er framkvæmd.
    Samkvæmt j-lið er heimilt að vísa útlendingi frá landi ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, þjóðaröryggis eða alþjóðasamskipta ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Þetta ákvæði svarar til e-liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar).
    Ákvæði 2. mgr. eru að hluta til óbreytt en samkvæmt málsgreininni er nægjanlegt að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins sem greinir í upphafi 1. mgr. Að jafnaði mun ákvörðun um frávísun tekin í beinum tengslum við komu til landsins. Meðferð máls telst að öðru leyti hefjast þegar útlendingi er tilkynnt að honum kunni að verða vísað frá landi eða eftir atvikum að hann er handtekinn eða færður til yfirheyrslu. Tekin er út sérstök heimild sem er til staðar í núgildandi ákvæði að ef útlendingi er meinuð innganga í landið til bráðabirgða sé heimilt að skylda hann til að tilkynna sig eða dveljast á tilteknum stað, sbr. 114. gr. frumvarpsins, og ef þess er talin þörf er heimilt að handtaka útlendinginn og fara fram á gæsluvarðhald, sbr. 115. gr. frumvarpsins, enda sé heimildin til staðar í þeim ákvæðum sem vísað er til sé þörf á beitingu þeirra.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef útlendingur ber að hann sé flóttamaður eða veitir að öðru leyti upplýsingar sem benda til að ákvæði 37. gr. eigi við skuli leggja málið fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar. Ákvæði þetta svarar til 3. mgr. 18. gr. gildandi laga.
    Lagt er til að 4. mgr. haldist einnig óbreytt miðað við núgildandi lög og að þar verði áfram að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglur sem víkja frá skilyrðum 1. mgr. þegar í hlut á útlendingur sem hefur vegabréfsáritun eða dvalarleyfi útgefið af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Á grundvelli þessarar heimildar verður unnt að fullnægja skuldbindingum skv. a-lið 4. mgr. 5. gr. Schengen-landamærareglnanna og 18. gr. Schengen- samningsins um heimild útlendinga til gegnumferðar á leið til annarra ríkja sem taka þátt í samstarfinu.
    Ákvæði 5. og 6. mgr. samsvara 19. gr. gildandi laga. Rétt þykir að hafa frávísunarákvæðin í einni grein óháð því hvort frávísun fer fram við eða eftir komu til landsins.

Um 107. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um hver beri ábyrgð á kostnaði sem hlýst af því að útlendingur verður að fara úr landi. Greinin er sambærileg 56. gr. gildandi laga um útlendinga.
    Samkvæmt 1. mgr. skal útlendingur, sem færður er úr landi, greiða kostnað vegna brottfarar sinnar. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað við gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að hann fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Út frá því er gengið að útlendingur fari sjálfviljugur úr landi og á eigin kostnað áður en heimilaður dvalartími er liðinn. Ef hins vegar útlendingur er færður úr landi skal hann greiða kostnað sem skapast af því, svo og kostnað af gæslu sem þörf er á í því sambandi en það getur verið kostn­aður við gæslu fyrir brottför og vegna fylgdarmanna. Stjórnvöld þurfa að geta sýnt fram á nauðsyn gæslu og fylgdar, t.d. þannig að útlendingurinn hafi reynt að komast undan framkvæmd ákvörðunar um að yfirgefa landið eða lýst því yfir að hann muni reyna það. Þá er í ákvæðinu kveðið á um aðfararhæfi kröfunnar og að krafan geti verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h- lið 1. mgr. 106. gr., svo og um heimild lögreglu til að leggja hald á farseðla, sem finnast í fórum útlendingsins, til notkunar við brottför.
    Í 2. mgr. kemur fram að 1. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd er fluttur til annars ríkis sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram á Íslandi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um ábyrgð eiganda skips eða loftfars eða leigutaka farsins, svo og stjórnanda fars eða umboðsmanns. Ef útlendingi, sem komið hefur með fari, er vísað frá landi bera þessir aðilar ábyrgð á að færa útlendinginn úr landi. Er þá um þrjá kosti að ræða, að taka útlendinginn aftur um borð, að flytja hann úr landi með öðrum hætti eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Auk þess ber þeim skylda til að taka fylgdarmenn um borð og greiða kostnað vegna fylgdar með útlendingnum úr landi ef lögregla telur þess þörf. Útlendingur ber ábyrgð á kostnaði þessum skv. 1. mgr. en ábyrgð farsins er til vara. Í reynd lendir það hins vegar yfirleitt á flytjanda að innheimta kostnaðinn hjá útlendingum.
    Ef útlendingur greiðir ekki sjálfur kostnað við för sína úr landi og greiðsla fæst ekki heldur frá flytjanda stendur ríkissjóður straum af kostnaði, sbr. 4. mgr.
    Í 5. mgr. er ákvæði um ábyrgð á kostnaði vegna útlendings sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari eða er laumufarþegi og gengur í land án leyfis.
    Samkvæmt 6. mgr. eru flytjendur undanþegnir ábyrgð skv. 3. og 5. mgr. þegar farið er um innri landamæri Schengen-svæðisins. Telja verður í ósamræmi við reglur Schengen- svæðisins um afnám persónueftirlits á innri landamærum að leggja slíka ábyrgð á flytjendur.

Um XIII. kafla.

    Í kafla­num er fjallað um þau úrræði sem lögregla og önnur stjórnvöld hafa til að tryggja framkvæmd laganna, m.a. gæsluvarðhald, aldursgreiningu, húsleit, refsiákvæði o.fl. Í gildandi lögum um útlendinga eru ákvæði þess efnis á víð og dreif um lögin. Með þessum kafla er lagt til að sameina á einn stað öll þvingunar- og rannsóknarúrræði sem heimil eru á grundvelli laganna til hagræðis fyrir útlendinga sem leiða rétt sinn af lögunum og þeirra stjórnvalda sem starfa á grundvelli þeirra.

Um 108. gr.

    Í greininni er fjallað almennt um rannsókn og rannsóknarúrræði á grundvelli laganna. Ákvæði 1. mgr. eru í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Í málsgreininni er tekið á því að vafi kann að vera um það hvort útlendingur er sá sem hann segist vera. Meðan það liggur ekki ljóst fyrir er útlendingnum skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa það. Stjórnvald skv. 2. mgr. 4. gr. sem fer með mál getur gefið slík fyrirmæli. Vafi kann einnig að koma upp um deili á útlendingi sem stjórnvöld hafa talið sig vita deili á. Þótt útlendingur hafi um árabil dvalist á landinu og deili á honum hafi virst rétt getur hlutaðeigandi stjórnvald lagt fyrir útlendinginn að veita atbeina sinn í þessu skyni enda sé ástæða til að ætla að það sem skráð er um deili á útlendingnum sé ekki rétt. Mjög hefur færst í vöxt að útlendingar komi til landsins án þess að hafa nokkur skilríki eða þeir framvísa fölsuðum skilríkjum. Margir farga einnig skilríkjum sínum og gera stjórnvöldum þannig erfitt um vik að ganga úr skugga um hverjir þeir raunverulega eru. Miðað er við að útlendingur, sem framvísar ekki tilskildum skilríkjum, fái ekki land­göngu. Hins vegar þykir nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um að útlendingur fái landvist á réttum forsendum, ekki síst með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu að stjórnvöld skulu við úrlausn máls gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá telst það vera andstætt þjóðfélagshagsmunum að í landinu sé búsettur fjöldi einstaklinga sem ekki er vitað hverjir raunverulega eru.
    Í 2. mgr. er lagt til að um rannsóknarúrræði samkvæmt þessum kafla laganna skuli fara eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að nánari reglur verði settar í reglugerð um hvað skylda megi útlending til að gera til að fullnægja skyldu skv. 1. mgr. Hér gæti t.d. verið um að ræða upplýsingagjöf, afhendingu nánar tilgreindra skjala eða þátttöku í tungumálaprófi. Er þetta ákvæði í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga.

Um 109. gr.

    Greinin er að mestu leyti í samræmi við 2. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Mikilvægt er að stjórnvöld geti sannreynt deili á útlendingum sem koma hingað til lands og dveljast hér á landi. Lögreglunni er þar með veitt heimild skv. 1. mgr. ef vafi leikur á hver útlendingur er við komu til landsins eða síðar til að leggja hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur verið til upplýsinga um hver útlendingur er. Sama á við ef vafi er um fyrri dvalarstað útlendings og það skiptir máli um rétt til dvalar hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. getur lögregla lagt fyrir útlending að afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, ef ástæða er til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar um brottvísun skv. 3. mgr. 105. gr. eða í þeim tilvikum sem útlendingur er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.
    Samkvæmt 3. mgr. er heimilt að bera réttmæti haldlagningar undir dómara, sbr. lög um meðferð sakamála, og skal lögregla benda útlendingi á þann rétt.

Um 110. gr.

    Greinin er að mestu leyti í samræmi við 3. og 4. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Í 1. mgr. er kveðið á um úrræði sem lögregla hefur ef útlendingur veitir ekki atbeina til að upplýsa hver hann er eða um fyrri dvalarstað eða reynir að koma í veg fyrir framkvæmd ákvörðunar um brottvísun. Er þá annars vegar um að ræða að útlendingurinn, í bága við fyrirmæli sem greinir í 1. mgr. 108. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um hver hann er og hins vegar að hann, í bága við fyrirmæli sem greinir í 14. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um fyrri dvalarstað. Þá nær leitarheimild lögreglu einnig til þess þegar rökstuddur grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað í því skyni að útlendingur fái hér dvalarleyfi eða til hjúskapar hefur verið stofnað án vilja beggja aðila, sbr. 7. mgr. 70. gr. Lagt er til að ákvæðið eigi einnig við þegar útlendingur reynir að halda eftir gögnum eða leynir upplýsingum til þess að reyna að koma í veg fyrir framkvæmd ákvörðunar um brottvísun á grundvelli 98.–100. gr. laganna. Lögreglu er við framangreindar aðstæður heimilt að leita á útlendingnum sjálfum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Heimild til leitar felur í sér heimild til leitar í fötum útlendingsins og í farartæki hans. Þá er lagt til að leitarheimild lögreglu nái einnig yfir aðila sem rökstuddur grunur er um að aðstoði útlending við að halda slíkum gögnum leyndum eða leyni upplýsingum um hver útlendingur er.
    Samkvæmt 2. mgr. skal leit ákveðin með úrskurði dómara nema sá sem í hlut á samþykki hana eða brýn hætta sé á að bið eftir úrskurði dómara valdi sakarspjöllum, sbr. ákvæði laga um meðferð sakamála. Er þetta ákvæði í samræmi við 4. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga.

Um 111. gr.

    Greinin er í samræmi við 5. og 6. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Með 1. mgr. er lögreglu veitt heimild til að taka ljósmyndir og fingraför útlendings. Þau tilvik þar sem heimild þessi gildir eru tilgreind nánar í fjórum liðum. Í fyrsta lagi þegar útlendingur getur ekki fært sönnur á hver hann er eða ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn gefi rangt upp hver hann er. Slíkt mundi t.d. vera heimilt ef grunur er um að útlendingur framvísi fölsuðu vegabréfi eða vegabréfi sem varðar annan mann en hann sjálfan. Í öðru lagi ef útlendingur leitar alþjóðlegrar verndar eða sækir um leyfi samkvæmt lögunum. Í þriðja lagi ef útlendingi hefur verið synjað um alþjóðlega vernd eða leyfi samkvæmt lögunum og í fjórða lagi ef útlendingi hefur verið vísað frá landi eða úr landi eða ætla má að hann dveljist hér ólöglega.
    Í 2. mgr. er tekið fram að fingraför megi færa í tölvufærða fingrafaraskrá og að ráðherra geti sett frekari reglur í reglugerð um færslu og notkun slíkra gagnagrunna. Við slíka færslu og notkun ber að fylgja reglum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Um 112. gr.

    Greinin er að hluta til í samræmi við 8. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Í 1. mgr. er lagt til að Útlendingastofnun verði heimilt að krefjast rannsóknar á erfðaefni, þ.e. DNA- rannsóknar, í málum þar sem sýna þarf fram á fjölskyldutengsl á grundvelli laganna.
    Neiti útlendingur án fullnægjandi ástæðu að gangast undir slíkar rannsóknir skal honum gerð grein fyrir að sú ákvörðun geti haft áhrif á stöðu hans og meðferð máls. Ekki er nóg að útlendingur neiti að gangast undir slíkar rannsóknir heldur verður hann að hafa greinargóða ástæðu fyrir því svo að það hafi ekki áhrif á stöðu máls hans. Að öðrum kosti er stjórnvöldum heimilt að taka ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
    Í 2. mgr. er ráðherra heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um framkvæmd rannsóknar á erfðaefni, m.a. hvernig málsmeðferð í slíkum málum skuli háttað og um greiðslu kostnaðar vegna slíkra rannsókna. Í ákvæðinu er jafnframt að finna gjaldtökuheimild, enda þarf að vera mögulegt að krefja útlending um að standa straum af kostnaði, ekki síst ef kemur í ljós að útlendingur hefur gefið upp rangar upplýsingar.

Um 113. gr.

    Greinin er að hluta til í samræmi við 2. mgr. 50. gr. b gildandi laga um útlendinga. Í 1. mgr. er lögreglu veitt heimild að beiðni Útlendingastofnunar til að gera aldursgreiningu með líkamsrannsókn á útlendingi vegna umsóknar um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfis fyrir aðstandendur þegar grunur leikur á að umsækjandi villi á sér heimildir eða segi rangt til aldurs við meðferð máls. Framkvæmd ákvæðisins mun einkum eiga við um fylgdarlaus börn sem sækja um alþjóðlega vernd en einnig þykir rétt að ákvæðið veiti möguleika á að kanna aldur umsækjanda í öðrum tilvikum. Niðurstaða slíkrar rannsóknar skal metin í samhengi við önnur atriði málsins. Skv. 2. mgr. er óheimilt að þvinga útlending til að gangast undir slíka rannsókn. Neiti hann hins vegar að gangast undir slíka rannsókn án fullnægjandi ástæðu skal gera honum grein fyrir að slík neitun getur haft áhrif á meðferð máls hans. Synjun á umsókn um alþjóðlega vernd má þó ekki byggjast á því ein­göngu að viðkomandi hafi neitað að gangast undir aldursgreiningu. Hins vegar má taka mið af því við ákvörðun málsins eins og annarra þátta. Læknisskoðun samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram með fullri virðingu fyrir sæmd einstaklingsins, ekki vera meira íþyngjandi en þörf er á og framkvæmd af hæfu heilbrigðisstarfsfólki til þess að tryggja áreiðanlega niðurstöðu. Þeir sem sæta slíkri rannsókn skulu upplýstir áður en rannsóknin fer fram, á tungumáli sem ætla má með sanngirni að þeir geti skilið, um næstu skref og mögulega þýðingu niðurstöðu rannsóknar fyrir málið. Ákvæðið tekur mið af leiðbeiningum í 25. gr. tilskipunar 2013/32/EB um málsmeðferð.
    Samkvæmt 3. mgr. skal ráðherra setja nánari reglur í reglugerð um framkvæmd aldursgreiningar, líkt og hvernig málsmeðferð hennar skuli fara fram og hverjir skulu vera viðstaddir og framkvæma slíka rannsókn.

Um 114. gr.

    Greinina er að hluta til að finna í 7. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Skv. 1. mgr. er heimilt að skylda útlending til að tilkynna sig eða dveljast á ákveðnum stað í ákveðnum tilvikum. Stjórnvöldum er ekki heimilt að ganga lengra en þörf er á hverju sinni til að ná því markmiði sem að er stefnt, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Gert er ráð fyrir að gæsluvarðhald sé lokaúrræði sem hægt er að grípa til að undangengnum öðrum vægari úrræðum sem ekki hafa skilað tilskildum árangri eða teljast ófullnægjandi. Á það hefur reynt fyrir Hæstarétti en með dómi hans í máli nr. 379/2004, sem var kveðinn upp þann 15. september 2004, felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð héraðsdóms um að útlendingur skyldi sæta gæsluvarðhaldi þar sem ekki þótti nægilega sýnt fram á að nauðsyn væri á því á grundvelli laga um útlendinga þar sem ekki væru tiltækar aðrar léttbærari aðgerðir til að tryggja að ákvörðun um að útlendingurinn skyldi yfirgefa landið yrði framfylgt. Af dómnum má skýrt ráða að útlendingur, sem ekki er vitað hver er og hefur ekki gefið réttar upplýsingar um hver hann er, verður ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald nema gripið hafi verið til annarra vægari úrræða fyrst, enda þótt um sé að ræða mann sem ekki uppfyllir skilyrði laganna til dvalar í landinu og enginn veit hver er.
    Aukist hefur að útlendingar, sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi og ekki er vitað hverjir eru, sýni af sér hegðun sem gefur til kynna að af þeim stafi hætta. Þá er jafnframt dæmi um líkamsárás gagnvart almennum borgara og önnur afbrot. Nauðsynlegt er að lögregla geti lagt fyrir viðkomandi útlending að dveljast á ákveðnum stað áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald. Með hugtakinu ákveðnum stað er t.d. átt við tiltekinn bæjarhluta eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem hér um ræðir.
    Í 2. mgr. kemur fram að ákvarðanir um að útlendingur tilkynni sig eða dveljist á ákveðnum stað skuli teknar af lögreglustjóra.
    Samkvæmt 3. mgr. á útlendingur rétt á að fá skorið úr því fyrir dómstólum hvort skilyrðin fyrir slíkri ákvörðun séu til staðar og hvort grundvöllur er fyrir að framfylgja ákvörðuninni. Þá skal lögreglan leiðbeina útlendingi, sem hefur verið skyldaður til þess að tilkynna sig og/eða dveljast á ákveðnum stað, um þennan rétt. Um slíka meðferð máls vísast til XV. kafla laga um meðferð sakamála.
    Í 4. mgr. kemur fram að fyrirmæli skv. c-lið 1. mgr. megi því aðeins gefa að ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar um brottvísun skv. 3. mgr. 105. gr. Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar er heimilt að taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í fjórar vikur nema útlendingurinn samþykki það eða dómari ákveði samkvæmt reglum um meðferð sakamála.

Um 115. gr.

    Greinina er að hluta til að finna í 7. mgr. 29. gr. gildandi laga um útlendinga. Skv. 1. mgr. má handtaka útlending og færa í gæsluvarðhald við tilteknar aðstæður.
    Í 2. mgr. kemur fram að ekki skuli beita þessu ákvæði ef tilkynningarskylda eða krafa um að dveljast á ákveðnum stað skv. 114. gr. er talin nægjanleg til að ná því markmiði sem að er stefnt.
    Í 3. mgr. segir að þegar þvingunarúrræðum skv. d-, e-, g- eða h-lið 1. mgr. er beitt skuli gæsluvarðhald ekki ákveðið lengra en tvær vikur. Gæsluvarðhald má því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar sem greinir í 3. mgr. 105. gr. Má þá framlengja gæsluvarðhald í allt að tvær vikur en þó ekki oftar en tvisvar.
    Samkvæmt 4. mgr. má hvorki handtaka né úrskurða útlending í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun eða fullnægjandi er að útlendingurinn sæti þess í stað öðrum léttbærari úrræðum kafla­ns.
    Í 5. mgr. segir að umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem sé yngri en 18 ára en eldri en 15 ára, megi aðeins úrskurða í gæsluvarðhald þegar hann hefur sýnt af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta. Þá skal úrræði þessu einungis beitt þegar önnur vægari úrræði samkvæmt lögum þessum eða sem mælt er fyrir um í barnaverndarlögum koma ekki til greina eða ná ekki því markmiði sem að er stefnt. Við beitingu þessa ákvæðis skal enn fremur ávallt taka tillit til aldurs umsækjanda og þarfa hans.
    Í 6. mgr. kemur fram að lög um meðferð sakamála gildi um handtöku og gæsluvarðhald samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á.

Um 116. gr.

    Í greininni kemur fram hvaða háttsemi skuli refsiverð samkvæmt lögunum, hver sé refsirammi og hverjar séu saknæmiskröfur og er hún í samræmi við 57. gr. gildandi laga um útlendinga. Bæði íslenskir ríkisborgarar og erlendir geta bakað sér refsiábyrgð. Gert er ráð fyrir að brot geti varðað sektum eða fangelsi. Refsihámark er sex mánuðir skv. 1. mgr. og tvö ár skv. 2. mgr. Skv. 3. mgr. er refsihámark enn hærra eða sex ár ef um er að ræða skipulagða starfsemi sem rekin er í hagnaðarskyni til að aðstoða útlendinga við að koma með ólögmætum hætti til landsins eða til annars lands. Þessu til viðbótar gilda ákvæði 2. mgr. 49. gr. almennra hegningarlaga en þar er heimilað að dæma fésektir jafnframt refsivist þegar ákærði hefur aflað sér eða öðrum fjárvinnings með broti eða það hefur vakað fyrir honum.
    Í 4. mgr. er að finna heimild til að gera stjórnanda skips eða loftfars sekt ef útlendingur er fluttur til landsins án þess að hafa fullnægjandi ferðaskilríki. Í þessu felst að sá sem annast flutning verður að kanna og fullvissa sig um að útlendingur hafi ferðaskilríki áður en hann er fluttur hingað, sbr. reglur skv. 3. mgr. 4. gr. gildandi laga um útlendinga. Ef slíkt brot er framið í starfsemi lögaðila fer um refsiábyrgð eftir 5. mgr. Með þessu ákvæði er fullnægt skuldbindingu skv. 26. gr. Schengen-samningsins.
    Samkvæmt 5. mgr. er heimilt að leggja sekt á lögaðila ef brot er framið í starfsemi lögaðilans, t.d. eiganda skips eða loftfars. Um slíka refsiábyrgð fer eftir reglum II. kafla A almennra hegningarlaga. Í 6. mgr. er loks tekið fram að refsa skuli fyrir tilraun eða hlutdeild í broti eftir því sem segir í reglum III. kafla almennra hegningarlaga.

Um 117. gr.

    Greinin er nýmæli en hún kveður á um það að sá sem hefur milli­göngu um að útlendingur flytjist til landsins án tilskilinna leyfa skuli greiða allan kostnað við að flytja útlending úr landi.

Um XIV. kafla.

    Í kafla­num er kveðið á um sérákvæði og úrræði vegna öryggis ríkisins auk þess sem hann leggur á herðar ýmsum aðilum þá skyldu að koma á framfæri upplýsingum sem þeir kunna að búa yfir um útlendinga.

Um 118. gr.

    Greinin er nær óbreytt frá 52. gr. gildandi laga. Í henni felst að réttur sem útlendingur ella hefur til að koma til landsins eða dveljast í landinu gildi ekki ef nauðsynlegt þykir vegna utanríkisstefnu ríkisins, öryggis ríkisins eða mikilvægra þjóðarhagsmuna.
    Ef þessar aðstæður eru til staðar má þannig meina útlendingi land­göngu og synja um útgáfu dvalarleyfis og ótímabundið dvalarleyfi eða setja takmarkanir eða skilyrði. Einnig má við þessar aðstæður framfylgja ákvörðun fyrr en greinir í 20. og 83. gr.
    Vegna öryggis ríkisins er einnig heimilt, ef nauðsyn þykir, að setja nánari reglur um tilkynningarskyldu en greinir í 34. gr. eða reglum skv. 129. gr.

Um 119. gr.

    Greinin er nær samhljóða 54. gr. gildandi laga. Hún felur í sér heimild til ráðherra að ákveða að þeir einstaklingar og stofnanir sem þar eru taldar skuli veita lögreglunni eða Útlendingastofnun tilteknar upplýsingar. Stjórnvöldum, sem fara með málefni útlendinga, ber nauðsyn til að vita hvernig háttað er dvöl þeirra í landinu, svo sem hvar hlutaðeigandi dvelst eða hvort hann stundar eða hyggst stunda atvinnu, svo að staðreyna megi að fylgt sé reglum um dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Tilkynningarskyldan er bundin við tiltekin atriði, sbr. nánar a–g-lið 1. mgr., sem ráðherra er bundinn af þegar reglur eru settar. Ákvæði um trúnað, sem vísað er til í h-lið, eru í 62. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Samkvæmt 2. mgr. getur ráðherra sett nánari reglur um hvaða upplýsingar skrár skuli hafa að geyma. Þær upplýsingar mundu einkum lúta að nafni útlendings, fæðingardegi/kennitölu og þjóðerni. Önnur atriði geta einnig átt við, svo sem upplýsingar um dvalarstað, komudag eða ferðaskilríki.
    Nýmæli er heimild ráðherra til að kveða á um skyldu flugrekanda til að láta lögreglunni í té skrá um farþega og á­höfn þegar loftfar kemur frá útlöndum eða fer til útlanda eftir atvikum. Samkvæmt ákvæði gildandi laga er einungis kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglur um að stjórnandi loftfars, sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda, skuli láta lögreglunni slíka skrá í té. Þetta fyrirkomulag hefur ekki reynst sem skyldi enda hafa skrár um farþega og á­höfn ekki borist lögreglu með fullnægjandi hætti til þessa. Mikilvægt er að bregðast við þessu með breytingu á lögunum og í fram­haldinu reglugerð þar sem nánari útfærsla yrði á ákvæðinu. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um frumkvæðisskyldu flugrekanda eða stjórnanda loftfars eftir atvikum um að skila til lögreglu umræddum skrám innan tilskilins frests. Mikilvægt er að framangreindar skrár berist lögreglu innan tilskilins frests, ekki síst með tilliti til baráttunnar við ólöglega glæpastarfsemi.
    Til að tilkynningarskyldunni verði fullnægt er þeim sem gefa skal fyrrgreindar upplýsingar skylt að láta þær í té. Ekki verður þó krafist annarra upplýsinga en þeirra sem nauðsynlegar eru.

Um 120. gr.

    Til skýrleika er í greininni hafður sá háttur á að tilgreina í einni grein öll ákvæði þar sem ráðherra er skylt eða heimilt að setja reglugerð og reglur, en fjölda slíkra ákvæða er að finna í frumvarpinu. Í 1. mgr. er yfirlit yfir reglugerðir og reglur sem ráðherra er skylt að setja og í 2. mgr. er yfirlit yfir það sem ráðherra er heimilt.

Um 121. gr.

    Lagt er til að gildistaka laganna verði 1. janúar 2017 svo að stjórnsýslan fái svigrúm til að uppfæra leiðbeiningar, umsóknareyðublöð og tölvukerfi að breyttu lagaum­hverfi. Lagt er til að breyttar reglur um málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála taki til þeirra mála sem verða enn til meðferðar við gildistöku laganna, þ.e. þeirra mála sem ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður í.

Um 122. gr.

    Um 1. tölul.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að ekki verði lengur veitt óbundið atvinnuleyfi á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 12. tölul. þessarar greinar. Þess í stað er gert ráð fyrir að þeim sem veitt hefur verið ótímabundið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli nýrra laga um útlendinga sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu verði jafnframt heimilt að ráða sig til starfa hérlendis án takmarkana. Verði þeir þar með undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi, sbr. 15. tölul. greinarinnar. Er því í ákvæði þessu gert ráð fyrir að 2. tölul. 3. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott.
    Lagt er til að bætt verði við 3. tölul. 3. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga að með fyrirtæki sé meðal annars átt við félög, stofnanir, félagasamtök og aðra þá aðila, þ.m.t. einstaklinga, sem eru með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi eða eignarhaldi er háttað. Enn fremur er gert ráð fyrir að kveðið verði með skýrum hætti á um að litið sé á sjálfstætt starfandi einstaklinga sem atvinnurekendur í skilningi laganna. Er hér með öðrum orðum kveðið á um að með orðinu atvinnurekandi í lögum um atvinnuréttindi útlendinga sé átt við alla þá aðila sem ráða til sín starfsfólk til starfa gegn greiðslu launa þar sem viðkomandi atvinnurekandi er þá jafnframt skráður sem launagreiðandi í launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra. Er þetta lagt til í því skyni að taka af allan vafa í tengslum við hvaða aðilar teljist atvinnurekendur í skilningi laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þykir þetta mikilvægt svo koma megi í veg fyrir að atvinnurekendur, þ.m.t. stofnanir og félagasamtök, séu að ráða til sín starfsmenn sem ekki eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi, svo sem vegna tiltekinnar sérfræðiþekkingar viðkomandi útlendinga, án þess að þeim hafi verið veitt atvinnuleyfi hér á landi.
    Þar sem í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að í stað búsetuleyfis, sbr. gildandi lög um útlendinga, verði útlendingum veitt ótímabundið dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sbr. 58. gr. frumvarps þessa, er jafnframt gert ráð fyrir að í lögum um atvinnuréttindi útlendinga verði vísað til ótímabundins dvalarleyfis í stað búsetuleyfis þar sem það á við. Er því í ákvæði þessu gert ráð fyrir að í stað orðsins búsetuleyfis í 4. tölul. 3. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga komi ótímabundið dvalarleyfi.
    Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er útlendingi óheimilt að starfa hér á landi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi nema á grundvelli óbundins atvinnuleyfis. Í því skyni að kveða skýrt á um það í lögum um atvinnuréttindi útlendinga hverjir teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna er í ákvæði þessu lagt til að við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður þar sem fram kemur að með sjálfstætt starfandi einstaklingi sé átt við hvern þann sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Í þessu sambandi er þó rétt að leggja á það áherslu að ekki er um breytingu að ræða frá efni gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga heldur einungis verið að skýra nánar ákvæði 3. mgr. 6. gr. laganna.
    Þá er lagt til að við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður þar sem kveðið verði á um að með námi sé átt við þær námsleiðir sem teljast til náms eins og það er skilgreint í lögum um útlendinga, sbr. 14. tölul. 3. gr. frumvarps þessa. Er það lagt til í því skyni að koma í veg fyrir misræmi við túlkun á því hvað teljist til náms, annars vegar samkvæmt lögum um útlendinga og hins vegar samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
    Um 2. tölul.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er hverjum manni, félagi eða stofnun sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, óheimilt að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni að starfa án atvinnuleyfis. Þar sem gert er ráð fyrir að í 3. gr. laganna verði skýrt kveðið á um hverjir geti verið atvinnurekendur í skilningi laganna, sbr. 1. tölul. þessarar greinar, þykir nægjanlegt að taka fram í 2. mgr. 6. gr. laganna að atvinnurekendum sé óheimilt að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni að starfa án atvinnuleyfis. Enn fremur þykir rétt að taka fram í ákvæðinu sjálfu að þetta eigi þó einungis við í þeim tilvikum þegar viðkomandi útlendingur er ekki undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögunum.
    Þá er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um í 3. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga að útlendingi sé óheimilt að starfa hér á landi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi nema á grundvelli óbundins atvinnuleyfis, sbr. gildandi ákvæði, verði kveðið á um að útlendingi sé óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Eru breytingar þessar í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 12. tölul. greinarinnar þar sem skýrt er nánar hverjir teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi frumvarps þessa. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við það ákvæði, eftir því sem við getur átt.
    Um 3. tölul.
    Áfram er lögð áhersla á að útlendingum sem ráðnir eru til starfa á innlendum vinnumarkaði séu tryggð laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um hverju sinni, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða störf sem falla utan gildissviðs kjarasamninga er lagt til að í c-lið 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði kveðið á um að Vinnumálastofnun sé meðal annars heimilt að líta til viðmiðunarfjárhæða samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald við mat á því hvort laun og önnur starfskjör viðkomandi útlendinga séu til jafns við laun og önnur starfskjör heimamanna í því skyni að tryggja að í slíkum tilvikum séu laun viðkomandi útlendinga sambærileg launum heimamanna. Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti í framangreindum tilvikum jafnframt litið til upplýsinga frá Hagstofu Íslands sem og launakannana sem gerðar hafa verið af óháðum aðilum. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að við meðferð umsókna um tímabundin atvinnuleyfi vegna starfa sem falla utan gildissviðs kjarasamninga geti Vinnumálastofnun litið til annarra atriða en kjarasamninga við mat á því hvort laun og önnur starfskjör sem viðkomandi útlendingi bjóðast séu til jafns við laun og önnur starfskjör heimamanna svo koma megi eins vel og unnt er í veg fyrir að í ráðningarsamningi viðkomandi útlendinga sé kveðið á um lakari laun en heimamenn njóta. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald komi helst til skoðunar þegar um er að ræða ráðningarsamninga þar sem samið hefur verið um föst laun eða heildarlaun enda eru viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald ekki einskorðaðar við mánaðarlaun fyrir dagvinnu.
    Um 4. tölul.
    Við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga hefur ekki þótt nægjanlega skýrt til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvaða störf það eru sem geta talist störf sem krefjast sérfræðiþekkingar þeirra sem þeim gegna skv. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Er því í ákvæði þessu lagt til að við framangreint mat skuli líta til gildandi laga á hverjum tíma sem og venju hér á landi þar sem miðað skuli við að um sé að ræða starf sem krefst sérfræðiþekkingar þegar það starf sem um ræðir er þess eðlis að aðrir en þeir sem hafa tiltekna sérfræðiþekkingu geti ekki gegnt því. Er því ekki gert ráð fyrir að starf teljist starf sem krefst sérfræðiþekkingar af þeirri ástæðu einni að atvinnurekandi óski eftir að starfsmaður með tiltekna sérfræðiþekkingu gegni því þegar um er að ræða starf þar sem almennt eru ekki gerðar slíkar kröfur til þeirra sem slíkum störfum gegna samkvæmt íslenskum lögum eða venju á innlendum vinnumarkaði. Auk þess er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir að þar til bærir aðilar að mati stofnunarinnar votti að starfið sem um ræðir sé þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu. Er í þessu sambandi meðal annars átt við að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands og/eða aðrir þar til bærir aðilar votti um gildi nýsköpunarverkefnis samkvæmt nánari reglum þar um sé um slíkt verkefni að ræða enda telji stofnunin slíkt nauðsynlegt. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að kveða skýrt á um í 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga til hvaða sjónarmiða Vinnumálastofnun skuli líta við mat á því hvort tiltekið starf sé þess eðlis að það krefjist sérfræðiþekkingar þess sem ráðinn verður til að gegna því. Á þetta ekki síst við svo Vinnumálastofnun verði unnt að leggja mat á hvort skilyrði ákvæðisins hvað varðar eðli starfsins sem um ræðir sé uppfyllt áður en lagt er mat á hvort þau skilyrði sem fram koma í ákvæðinu og lúta að sérþekkingu viðkomandi útlendings sem ætlað er að gegna starfinu séu uppfyllt.
    Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga skal eigi veita atvinnuleyfi sem veitt er í fyrsta skipti samkvæmt ákvæðinu til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi. Jafnframt kemur fram að heimilt sé að framlengja atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðinu um allt að tvö ár í senn enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Í ákvæði þessu er lagt til að heimilt verði að veita tímabundin atvinnuleyfi skv. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga í allt að tvö ár en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi þegar um er að ræða atvinnuleyfi sem veitt er í fyrsta skipti. Er þetta lagt til í því skyni að koma til móts við þarfir atvinnulífsins um sérhæfða þekkingu að þessu leyti þannig að ekki þurfi eins oft og áður að endurnýja tímabundin atvinnuleyfi hér á landi sem veitt eru vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar. Í þessu sambandi ber þó að leggja áherslu á mikilvægi þess að Vinnumálastofnun hafi eftirlit með því að skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis skv. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga haldi áfram að vera uppfyllt eftir að leyfi hefur verið veitt og nýti sér jafnframt, eftir því sem við á, heimildir sínar skv. 24. gr. laganna eins og lagt er til í frumvarpi þessu að því ákvæði verði breytt, sbr. 17. tölul. þessarar greinar. Jafnframt er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að sömu takmarkanir gildi við framlengingu tímabundins atvinnuleyfis skv. 8. gr. laganna og gilda í tengslum við veitingu leyfisins í fyrsta skipti. Er þetta lagt til þannig að samræmis gæti að þessu leyti milli ákvæða laganna er lúta að veitingu atvinnuleyfa en ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Enn fremur hefur við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga þótt skorta á heimildir Vinnumálastofnunar til að óska eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi atvinnurekendum sem stofnuninni hafa þótt nauðsynlegar svo unnt sé að meta hvort skilyrði framlengingar atvinnuleyfa á grundvelli 8. gr. laganna séu uppfyllt. Er því í ákvæði þessu gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir þeim upplýsingum frá hlutaðeigandi atvinnurekanda í tengslum við starf viðkomandi útlendings sem stofnunin telur nauðsynlegar í því skyni að meta hvort skilyrði framlengingar atvinnuleyfis útlendingsins séu uppfyllt. Er í þessu sambandi meðal annars átt við upplýsingar um hvort sérfræðiþekking útlendingsins hafi nýst í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna. Kemur þessi heimild Vinnumálastofnunar til viðbótar þeirri almennu heimild stofnunarinnar til að afla gagna í þeim tilvikum þegar sótt er um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem kveðið er á um í 3. mgr. 19. gr. laganna.
    Í ákvæðinu er lagt til að 5. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði felld brott. Er þetta lagt til þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að sækja um atvinnuleyfi hér á landi fyrir útlendinga þegar fyrir liggur ákvörðun Útlendingastofnunar um að þeim sé heimilt að dvelja hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga, sbr. 13. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við það ákvæði, eftir því sem við getur átt.
    Þá er lagt til að 6. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði felld brott. Er það í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 12. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við það ákvæði, eftir því sem við getur átt.
    Um 5. tölul.
    Í ákvæði þessu er lagt er til að skýrt verði kveðið á um að sömu takmarkanir gildi við framlengingu tímabundins atvinnuleyfis skv. 9. gr. laganna og gilda í tengslum við veitingu leyfisins í fyrsta skipti. Er þetta lagt til þannig að samræmis gæti að þessu leyti milli ákvæða laganna er lúta að veitingu atvinnuleyfa en ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er óheimilt að veita útlendingi sem haft hefur tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðinu atvinnuleyfi að nýju samkvæmt ákvæðinu fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma fyrra leyfisins. Fram kemur að þetta eigi þó ekki við þegar útlendingur starfar hér á landi skemur en sex mánuði á hverjum tólf mánuðum. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að fyrrnefnt sex mánaða tímabil verði lengt í átta mánuði. Er þetta lagt til í því skyni að koma til móts við þá þörf sem virðist vera á vinnumarkaði eftir árstíðabundnu starfsfólki en í slíkum tilvikum er oft um að ræða einstaklinga sem eru ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins sem ekki eru undanskildir kröfu um tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Sem dæmi um störf í þessu sambandi má nefna störf í tengslum við ferðaþjónustu en ljóst er að koma ferðamanna hingað til lands utan hefðbundins sumarleyfistíma hefur aukist undanfarin missiri.
    Enn fremur er í ákvæðinu gert ráð fyrir að 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott en það er í samræmi við 12. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við það ákvæði, eftir því sem við getur átt.
    Þá er gert ráð fyrir að í stað orðsins vinnuafl í fyrirsögn ákvæðisins verði notað orðið starfsfólk.
    Um 6. tölul.
    Í ákvæði þessu er lagt til að skýrt verði kveðið á um að sömu takmarkanir gildi við framlengingu tímabundins atvinnuleyfis skv. 10. gr. laganna og gilda í tengslum við veitingu leyfisins í fyrsta skipti. Er þetta lagt til þannig að samræmis gæti að þessu leyti milli ákvæða laganna er lúta að veitingu atvinnuleyfa en ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að 3. mgr. 10. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði felld brott en það í samræmi við 12. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við það ákvæði, eftir því sem við getur átt.
    Um 7. tölul.
    Í frumvarpi þessu er meðal annars gert ráð fyrir að í nýjum lögum um útlendinga verði kveðið á um að heimilt verði að veita útlendingum dvalarleyfi fyrir foreldra, dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. frumvarpsins, eða dvalarleyfi á grundvelli lögmæts tilgangs, sbr. 79. gr. frumvarpsins. Í lögum um atvinnuréttindi útlendinga er ekki að finna heimild til veitingar tímabundins atvinnuleyfis hér á landi á sama grundvelli og því er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að við 1. mgr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga bætist heimild til að veita þeim útlendingum atvinnuleyfi hér landi sem fengið hafa umrædd dvalarleyfi. Þess ber þó að geta að útlendingar sem koma til með að uppfylla skilyrði þessara ákvæða og fá umrædd dvalar- og atvinnuleyfi hefðu að óbreyttum lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga og þar með atvinnuleyfi skv. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Er því í raun ekki um efnislega breytingu að ræða hvað þetta varðar.
    Enn fremur er í ákvæði þessu lagt til að eitt af skilyrðum þess að heimilt sé að veita tímabundið atvinnuleyfi skv. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sé að b-liður 1. mgr. 7. gr. laganna sé uppfylltur en þar er gert að skilyrði að fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein. Er þetta lagt til í ljósi þess að mikilvægt þykir að áður en atvinnuleyfi er veitt sé tryggt að laun og önnur starfskjör viðkomandi útlendings séu til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um líkt og gert er að skilyrði í c-lið 1. mgr. 7. gr. laganna. Í því skyni að meta hvort svo sé þykir mikilvægt fyrir Vinnumálastofnun að fá umsögn stéttarfélags áður en stofnunin tekur ákvörðun um hvort veita eigi tímabundið atvinnuleyfi hér á landi enda fellur það í hlut aðila vinnumarkaðarins að túlka kjarasamninga og hafa eftirlit á innlendum vinnumarkaði með því að farið sé að gildandi kjarasamningum á hverjum tíma.
    Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um í 11. gr. laganna að tímabundin atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðinu skuli eigi veitt til lengri tíma en sem nemur gildistíma dvalarleyfis viðkomandi útlendings eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartíminn skemmri en gildistími dvalarleyfis. Auk þess er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að sömu takmarkanir gildi við framlengingu tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu og gilda í tengslum við veitingu leyfisins í fyrsta skipti. Er þetta lagt til þannig að samræmis gæti að þessu leyti milli ákvæða laganna er lúta að veitingu atvinnuleyfa en ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Þá er lagt til að 3. og 4. mgr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott en það er í samræmi við 12. og 13. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við þau ákvæði, eftir því sem við getur átt.
    Um 8. tölul.
    Í 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um í hvaða tilvikum heimilt er að veita atvinnuleyfi vegna starfa nánustu aðstandenda íslensks ríkisborgara eða útlendings sem fengið hefur tiltekin dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi. Í ákvæði þessu er lagt til að til viðbótar þeim tilvikum sem talin eru upp í 12. gr. laganna verði jafnframt heimilt að veita tímabundin atvinnuleyfi hér á landi vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem hefur dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga og um er að ræða fram­haldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir hér á landi. Er þetta lagt til í því skyni að veita útlendingum sem stunda framangreint nám eða rannsóknir möguleika á að fá nánustu aðstandendur til sín og þeir geti þá jafnframt verið þátttakendur á vinnumarkaði meðan á námi eða rannsóknum útlendinganna stendur hér á landi enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Ætla má að slíkt fyrirkomulag auki jafnframt í einhverjum tilvikum möguleika á að útlendingar sem stunda hér framangreint nám eða rannsóknir setjist að hérlendis þannig að sérfræðiþekking þeirra nýtist íslensku samfélagi til framtíðar.
    Enn fremur er í ákvæði þessu lagt til að heimilt verði að veita tímabundin atvinnuleyfi hér á landi vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem fengið hefur endurnýjað dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem viðkomandi útlendingur hefur lokið námi hér á landi en dvelur þó enn hérlendis í leit að atvinnu á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar. Er þetta lagt til þar sem almennt þykir mikilvægt að stuðla að því að útlendingar sem lokið hafa námi hér á landi setjist að hérlendis þannig að sérfræðiþekking þeirra nýtist íslensku samfélagi til framtíðar.
    Jafnframt er lagt til að heimilt verði að veita tímabundin atvinnuleyfi vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem hefur verið veitt dvalar- og atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk samkvæmt lögum um útlendinga enda sé gildistími dvalar- og atvinnuleyfis íþróttafólksins a.m.k. eitt ár. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að veita nánustu aðstandendum íþróttafólks sem dvelur hérlendis til lengri tíma, svo sem þegar um er að ræða íþróttaþjálfara í tiltekinni íþróttagrein, möguleika á þátttöku á vinnumarkaði meðan á dvölinni stendur enda sé ekki um að ræða nánustu aðstandendur íþróttafólks sem dvelur hérlendis í skamman tíma í tengslum við afmarkaða leiktíð tiltekinna íþróttagreina ár hvert.
    Þá er gert ráð fyrir að útlendingur sem hefur fengið veitt tímabundið atvinnuleyfi skv. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga í tengslum við dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga, sbr. 78. gr. frumvarps þessa, geti fengi nánustu aðstandendur til sín og þeir geti þá jafnframt verið þátttakendur á vinnumarkaði meðan á dvöl útlendingsins stendur hér á landi enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Ekki er um eiginlega efnisbreytingu að ræða frá gildandi framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga þar sem útlendingum sem taldir eru uppfylla skilyrði laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið hefur í tilteknum tilvikum verið veitt dvalarleyfi hérlendis á grundvelli mannúðarsjónarmiða og hefur því jafnframt verið heimilt að veita þeim tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Auk þess er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita nánasta aðstandanda útlendings, sem hefur fengið veitt tímabundið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa hérlendis enda hafi viðkomandi aðstandandi áður fengið veitt dvalarleyfi hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.
    Í ákvæðinu er enn fremur gert ráð fyrir að ekki verði lengur kveðið á um til hversu langs tíma heimilt er að veita tímabundin atvinnuleyfi skv. 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Í stað þess verði við það miðað að við veitingu tímabundinna atvinnuleyfa samkvæmt ákvæðinu geti gildistíminn aldrei verið lengri tími en sem nemur gildistíma dvalarleyfis þess nánasta aðstandanda sem í hlut á hverju sinni eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartími styttri en gildistími dvalarleyfis nánasta aðstandanda. Gert er ráð fyrir að hið sama eigi við hvað varðar heimild til að framlengja tímabundin atvinnuleyfi skv. 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. er meðal annars heimilt að víkja frá b-lið 1. mgr. 7. gr. við veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu en þar er gert að skilyrði að fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein. Í ákvæði þessu er hins vegar lagt til fyrrnefnd heimild til að víkja frá b-lið 1. mgr. 7. gr. laganna verði felld brott við veitingu atvinnuleyfa skv. 12. gr. laganna enda þykir mikilvægt að áður en atvinnuleyfi er veitt sé tryggt að laun og önnur starfskjör viðkomandi útlendings séu til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um líkt og gert er að skilyrði í c-lið 1. mgr. 7. gr. laganna. Í því skyni að meta hvort svo sé þykir mikilvægt fyrir Vinnumálastofnun að fá umsögn stéttarfélags en í því sambandi má benda á að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur stofnunin nánast aldrei beitt þeirri heimild að víkja frá b-lið 1. mgr. 7. gr. laganna þar sem sú heimild er fyrir hendi í lögunum við meðferð umsókna um tímabundin atvinnuleyfi hér á landi.
    Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er heimilt að framlengja tímabundið atvinnuleyfi ef hjúskap eða sambúð er slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur sætt misnotkun eða ofbeldi í sambandi. Í ákvæði þessu er lagt til að fyrrnefnd heimild verði felld brott úr lögum um atvinnuréttindi útlendinga þar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að útlendingur geti fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið eigi framangreindar ástæður við, sbr. 70. gr. frumvarpsins, og þá jafnframt tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 7. tölul. þessarar greinar.
    Þá er lagt til að 5. og 6. mgr. 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott og er það í samræmi við önnur ákvæði frumvarps þessa, sbr. 12. og 13. tölul. þessarar greinar, og er hér vísað til athugasemda við þau ákvæði.
    Aðrar breytingar á 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sem lagðar eru til í ákvæði þessu eru í samræmi við ákvæði frumvarps þessa er lúta að nýjum lögum um útlendinga og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Um 9. tölul.
    Í ákvæði þessu er lagt til að eitt af skilyrðum þess að heimilt sé að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna náms skv. 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sé að skilyrði b-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna sé uppfyllt en þar er gert að skilyrði að fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein. Er þetta sambærileg breyting og lögð er til í 7. tölul. þessarar greinar vegna 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Er hér með vísað til athugasemda við 7. tölul. hvað þetta varðar.
    Í ákvæði þessu er enn fremur lagt til að við 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði bætt nýjum staflið þar sem fram komi að starfshlutfall útlendings sem fær veitt tímabundið atvinnuleyfi vegna náms hér á landi skuli ekki vera meira en 40%. Enn fremur er lagt til að bætt verði við 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga tveimur nýjum málsgreinum þar fram komi að þrátt fyrir að almennt sé miðað við að starfshlutfall útlendings sem veitt er tímabundið atvinnuleyfi hér á landi vegna náms sé ekki meira en 40% sé heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðinu þegar starfshlutfall viðkomandi útlendings fer yfir 40% í þeim tilvikum þegar starfið fer fram í námsleyfi samkvæmt námsskrá viðkomandi skóla. Jafnframt er gert ráð fyrir að hið sama eigi við í þeim tilvikum þegar útlendingi hefur verið veitt endurnýjað dvalarleyfi hér á landi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem hann hefur lokið háskólanámi hérlendis og dvelur hér í atvinnuleit á grundvelli sérþekkingar sinnar sem og þegar um er að ræða nám sem fram fer á vinnustað. Ekki er um að ræða breytingu frá gildandi rétti, sbr. reglugerð nr. 399/2005, um atvinnuréttindi útlendinga, en lagt er til að skýrt verði kveðið í lögum á um heimild útlendinga til þátttöku á vinnumarkaði sem fengið hafa tímabundin atvinnuleyfi hér á landi vegna náms í stað þess að kveða einungis á um leyfilegt starfshlutfall þeirra í reglugerð.
    Auk þess er í ákvæði þessu gert ráð fyrir að í 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði kveðið á um að áður en veitt er tímabundið atvinnuleyfi hér á landi vegna náms sem fram fer á vinnustað skuli liggja fyrir staðfesting frá hlutaðeigandi menntastofnun, íslenskri eða erlendri eftir því sem við á, um að námið á vinnustaðnum í nánar tiltekinn tíma sé nauðsynlegur hluti af námi viðkomandi útlendings við stofnunina.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að tímabundin atvinnuleyfi hér á landi vegna náms skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en tólf mánaða í senn í stað sex mánaða áður en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma dvalarleyfis vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartími styttri en gildistími dvalarleyfis. Er þetta lagt til í ljósi breytinga hvað varðar gildistíma dvalarleyfa á grundvelli náms samkvæmt nýjum lögum um útlendinga sem lagðar eru til í 65. gr. frumvarps þessa. Í athugasemdum við 65. gr. frumvarpsins kemur meðal annars fram að lengri gildistími dvalarleyfa á grundvelli náms byggist á athugasemdum sem fram hafi komið við ritun frumvarpsins þar sem bent hafi verið á það óhagræði sem tíð endurnýjun leyfa hefði í för með sér ásamt jákvæðri reynslu af samningum við einstaka háskóla og deildir um lengri gildistíma námsleyfanna. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 65. gr. frumvarpsins. Auk þess er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar um er að ræða nám sem fram fer á vinnustað skuli atvinnuleyfi skv. 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga eigi veitt til lengri tíma en sem nemur þeim tíma sem hlutaðeigandi menntastofnun, íslensk eða erlend eftir því sem við á, hefur tilgreint í staðfestingu sinni sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir, sbr. 3. mgr. ákvæðisins, áður en leyfi er veitt. Auk þess er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að sömu takmarkanir gildi við framlengingu tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu og gilda í tengslum við veitingu leyfisins í fyrsta skipti. Er þetta lagt til þannig að samræmis gæti að þessu leyti milli ákvæða laganna er lúta að veitingu atvinnuleyfa en ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Þá er lagt til að 4. og 5. mgr. 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott og er það í samræmi við önnur ákvæði frumvarps þessa, sbr. 12. og 13. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við þau ákvæði.
    Um 10. tölul.
    Samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er heimilt að veita útlendingi tímabundið atvinnuleyfi hér á landi í þeim tilvikum þegar fyrirhugað er að senda hann hingað til lands á vegum erlends fyrirtækis sem ekki hefur starfsstöð hér á landi enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Eitt af þeim skilyrðum er að fyrir liggi þjónustusamningur við fyrirtæki hér á landi þar sem meðal annars komi fram að skilyrði við­skipta­nna sé að starfsmaður hins erlenda fyrirtækis annist þjónustuna. Ekki er gert ráð fyrir breytingum hvað þetta varðar en þó er lagt til að í stað orðsins fyrirtæki verði notað orðið atvinnurekandi. Í ákvæði þessu er lagt til að einnig verði heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi í þeim tilvikum þegar um er að ræða samstarfssamning um samstarf í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf milli atvinnurekanda sem hefur starfsstöð hér á landi og atvinnurekanda sem ekki hefur starfsstöð hér á landi enda sé samstarfsins getið í samstarfssamningnum. Er við það miðað að viðkomandi útlendingur hafi þá lokið í það minnsta grunnnámi á háskólastigi í tengslum við það starf sem um ræðir. Er þetta lagt til í því skyni að koma til móts við þarfir atvinnulífsins, þ.m.t. mennta- og vísindasamfélagsins, vegna aukinnar þátttöku íslenskra atvinnurekenda í alþjóðlegu samstarfi í tengslum við kennslu-, fræði- og vísindastörf. Í þessu sambandi má nefna sem dæmi erlenda gestakennara sem koma hingað til lands í því skyni að kenna í skamman tíma við háskóla hérlendis en laun viðkomandi eru greidd af þeim erlenda atvinnurekanda, erlenda háskóla eftir atvikum, sem hefur ráðið hann til starfa. Enn fremur má nefna sem dæmi erlenda vísindamenn sem koma hingað til lands í því skyni að kynna sér náttúru landsins, svo sem í tengslum við eldgos hérlendis, en laun viðkomandi eru greidd af þeim erlenda atvinnurekanda sem hefur ráðið hann til starfa. Þess ber þó að geta að almennt eru þeir útlendingar sem fengið geta atvinnuleyfi skv. 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur hér á landi, sbr. a- og g-lið 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, en komi til þess að vinna þeirra dragist á langinn eða umfram fjórar vikur er heimilt að sækja um tímabundið atvinnuleyfi fyrir viðkomandi á grundvelli 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þess ber að geta að frumvarp þetta gerir ráð fyrir að fyrrnefnt tímabil verði lengt úr fjórum vikum í 90 daga, sbr. 16. tölul. þessarar greinar. Þá ber að geta þess að ávallt er við það miðað að útlendingar sem fá veitt tímabundin atvinnuleyfi hér á landi skv. 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fái greidd laun frá þeim erlendu atvinnurekendum sem ráðið hafa þá til starfa og að um skattskyldu þeirra hérlendis fari samkvæmt lögum og reglum um greiðslu skatta hér á landi hverju sinni. Jafnframt kemur fram í 3. mgr. 15. gr. laganna að atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðinu skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama samnings. Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir breytingu hvað þetta varðar en vert þykir að vekja á því athygli að samkvæmt orðanna hljóðan er Vinnumálastofnun þannig heimilt að veita atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðinu til styttri eða lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama samnings, allt eftir aðstæðum hverju sinni.
    Í ljósi framangreinds er í ákvæðinu jafnframt lagt til að heiti 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði breytt þannig að ljóst sé að heimilt sé að veita tímabundin atvinnuleyfi hér á landi samkvæmt ákvæðinu hvort sem um er að ræða þjónustusamning eða samstarfssamning um kennslu-, fræði- eða vísindastörf milli atvinnurekanda sem er með starfsstöð hér á landi og atvinnurekanda sem ekki er með starfsstöð hér á landi.
    Þá er lagt til að 4. og 5. mgr. 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott og er það í samræmi við önnur ákvæði frumvarps þessa, sbr. 12. og 13. tölul., og er hér vísað til athugasemda við þau ákvæði.
    Um 11. tölul.
    Í 13. tölul. greinarinnar er lagt til að við 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði bætt nýrri málsgrein, 4. mgr., og því gert ráð fyrir að málsgreinatala 19. gr. laganna breytist samkvæmt því. Eru breytingar í ákvæði þessu til samræmis við þær breytingar.
    Um 12. tölul.
    Í ákvæði þessu er lagt til að 17. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði felld brott þannig að ekki verði lengur um að ræða veitingu óbundins atvinnuleyfis hér á landi líkt og verið hefur. Er þetta lagt til í ljósi þess að ekki þykir unnt að kveða á um frekari skilyrði í lögum um atvinnuréttindi útlendinga fyrir heimild til atvinnuþátttöku hér á landi þegar útlendingar hafa uppfyllt skilyrði þau sem fram koma í 58. gr. frumvarps þessa fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis hér á landi. Þá þykir það almennt í samræmi við löggjöf hér á landi að þeir erlendu ríkisborgarar sem fá heimild til varanlegrar búsetu hér á landi fái jafnframt heimild til atvinnuþátttöku án takmarkana, meðal annars í því skyni að geta séð fyrir sér og sínum.
    Um 13. tölul.
    Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er almennt gert ráð fyrir að atvinnurekandi sem óskar eftir að ráða útlending tímabundið til starfa sæki um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar fyrir hönd útlendingsins áður en útlendingurinn kemur til landsins í fyrsta skipti til starfa nema kveðið sé á um annað í lögunum. Síðan er í ýmsum ákvæðum laganna kveðið á um að dveljist útlendingur hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt lögum um útlendinga sé heimilt að sækja um atvinnuleyfi samkvæmt því ákvæði sem í hlut á hverju sinni þegar viðkomandi útlendingur er staddur á landinu.
    Í ákvæði þessu er lagt til að meginreglan verði áfram sú að atvinnurekandi sem óskar eftir að ráða útlending tímabundið til starfa sæki um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar fyrir hönd útlendingsins áður en útlendingurinn kemur til landsins í fyrsta skipti til starfa. Hins vegar er gert ráð fyrir að heimilt verði að sækja um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi fyrir útlendinga sem staddir eru hér landi í þeim tilvikum þegar fyrir liggur ákvörðun Útlendingastofnunar um að viðkomandi útlendingum sé heimilt að dvelja hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga. Er þetta lagt til í því skyni að auka jafnræði frá því sem nú er þegar kemur að heimild til að sækja um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi þannig að unnt verði að sækja um slík leyfi óháð því á hvaða grundvelli sótt er um atvinnuleyfið auk þess sem ætla má að slíkt fyrirkomulag auðveldi atvinnurekendum að ráða útlendinga til starfa sem staddir eru hér á landi, oft í tengslum við atvinnuviðtöl, en samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga þurfa viðkomandi útlendingar í sumum tilvikum að fara aftur úr landi áður en hlutaðeigandi atvinnurekendur geta sótt um tímabundið atvinnuleyfi fyrir þá hér á landi.
    Í ákvæði þessu er jafnframt gert ráð fyrir að í 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði kveðið á um að umsóknum um tímabundið atvinnuleyfi skuli skila til Útlendingastofnunar sem áframsendir þær svo fljótt sem unnt er til Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að þetta eigi við hvort sem um er að ræða umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa tiltekins útlendings hér á landi í fyrsta skipti eða umsókn um framlengingu á gildistíma tímabundins atvinnuleyfis sem áður hefur verið veitt vegna sama útlendings. Er þetta lagt til í því skyni að taka af allan vafa hvað þetta varðar en ekki er þó um eiginlega breytingu að ræða frá núverandi verklagi þar sem Útlendingastofnun tekur nú þegar við öllum umsóknum um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi þar sem alla jafna er sótt á sama tíma um dvalar- og atvinnuleyfi og umsóknum þar að lútandi skilað til Útlendingastofnunar sem áframsendir umsóknir um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar.
    Almennt ber Vinnumálastofnun að taka til meðferðar umsóknir um tímabundin atvinnuleyfi í þeirri röð sem slíkar umsóknir berast stofnuninni og er það í samræmi við almennar stjórnsýslureglur. Í 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er hins vegar kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að taka til meðferðar umsókn um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna á undan öðrum umsóknum um atvinnuleyfi sem hafa borist stofnuninni enda liggi fyrir undirritaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings. Í ákvæði þessu er lagt til að auk þess verði Vinnumálastofnun heimilt að taka til meðferðar umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli 15. gr. laganna. Er þetta lagt til í því skyni að liðka fyrir að sérhæfðir starfsmenn atvinnurekenda sem ekki hafa starfsstöðvar hér á landi geti hafið störf sem fyrst hér á landi á grundvelli þjónustusamninga eða samstarfssamninga um kennslu-, fræði- eða vísindastörf milli atvinnurekenda sem ekki hafa starfsstöðvar hér á landi og atvinnurekenda sem hafa starfsstöðvar hér á landi. Auk þess er þetta lagt til í því skyni að flýta fyrir meðferð umsókna um tímabundið atvinnuleyfi skv. 15. gr. laganna í þeim tilvikum þegar vinna sérhæfðra starfsmanna atvinnurekenda sem ekki hafa starfsstöðvar hér á landi sem koma hingað til lands á grundvelli þjónustusamninga eða samstarfssamninga um kennslu-, fræði- eða vísindastörf milli atvinnurekenda sem ekki hafa starfsstöðvar hér á landi og atvinnurekenda sem hafa starfsstöðvar hér á landi dregst á langinn en almennt eru þessir aðilar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur hér landi, sbr. a- og g-lið 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þess ber að geta að frumvarp þetta gerir ráð fyrir að fyrrnefnt tímabil verði lengt úr fjórum vikum í 90 daga, sbr. 16. tölul. þessarar greinar.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði í undantekningartilvikum heimilt að taka til meðferðar aðrar umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi en að framan greinir á undan öðrum umsóknum sem borist hafa stofnuninni enda sé þá um sérstakar aðstæður að ræða. Er það lagt til í ljósi þess að frumvarp þetta gerir ráð fyrir forgangs- og flýtiafgreiðslu Útlendingastofnunar í tengslum við umsóknir um dvalarleyfi hér á landi, sbr. 53. gr. frumvarps þessa, en í því sambandi þykir nauðsynlegt að Vinnumálastofnun geti í sömu tilvikum tekið umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi til meðferðar á undan öðrum umsóknum sem borist hafa stofnuninni, sé um slíkar umsóknir að ræða í tengslum við fyrrnefndar umsóknir um dvalarleyfi, svo ekki komi til tafa við meðferð þeirra umsókna um dvalarleyfi hér á landi sem Útlendingastofnun hefur tekið til forgangs- eða flýtiafgreiðslu skv. 53. gr. frumvarpsins.
    Enn fremur er í ákvæði þessu gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti tekið ákvörðun um heimild útlendings til að hefja störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda á afgreiðslutíma umsóknar um tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar óski atvinnurekandinn eftir því. Er í því sambandi gert að skilyrði að Vinnumálastofnun hafi áður veitt tímabundið atvinnuleyfi með fyrirvara um veitingu viðeigandi dvalarleyfis samkvæmt lögum um útlendinga og að atvinnurekandinn ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendingsins komi til þess að honum verði synjað um dvalarleyfið. Er þetta lagt til í því skyni að koma til móts við þær þarfir atvinnulífsins að starfsmenn með mikla sérfræðiþekkingu geti hafið störf sem fyrst enda oft mikil samkeppni á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að því að fá hæft fólk hingað til lands til starfa.
    Þá er gert ráð fyrir að 5. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott enda gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að ekki verði lengur veitt óbundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 12. tölul. þessarar greinar og er hér vísað til athugasemda við það ákvæði.
    Um 14. tölul.
    Í ákvæði þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á 20. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sem leiðir af öðrum breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem kveðið er á um í frumvarpi þessu og þarfnast þær ekki frekari skýringa.
    Um 15. tölul.
    Í 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga eru taldir upp þeir aðilar sem eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi og eru erlendir makar íslenskra ríkisborgara þar á meðal, sbr. c-lið 22. gr. laganna. Í ákvæði því sem hér um ræðir er lagt til að til viðbótar því sem fram kemur í c-lið 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði kveðið á um að sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi. Er þetta lagt til í því skyni að samræma réttindi maka og sambúðarmaka íslenskra ríkisborgara við réttindi maka og sambúðarmaka ríkisborgara ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þannig að ekki sé gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða maka eða sambúðarmaka íslensks ríkisborgara eða ríkisborgara ríkis sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hvað þetta varðar. Í þessu sambandi ber að nefna að almennt er miðað við að þeir útlendingar sem teljast undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi skv. 22. og 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga dvelji löglega hér á landi á grundvelli ákvörðunar Útlendingastofnunar um að þeim sé heimil slík dvöl samkvæmt lögum um útlendinga.
    Enn fremur er í ákvæði þessu gert ráð fyrir að útlendingar sem fá ótímabundið dvalarleyfi hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. f-lið ákvæðisins. Er það í samræmi við 12. tölul. greinarinnar og er hér vísað til athugasemda við það ákvæði.
    Auk þess er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að ekki verði lengur unnt að sækja um dvalarleyfi hér á landi sem flóttamaður samkvæmt lögum um útlendinga heldur verði útlendingum sem uppfylla tiltekin skilyrði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar. Ákvæði þetta gerir því ráð fyrir að ekki verði lengur í e-lið 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga kveðið á um að útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi sem flóttamenn samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi. Þess í stað verði í e-lið 22. gr. laganna kveðið á um að útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi. Er því ekki verið að gera ráð fyrir breytingum á högum þeirra sem samkvæmt gildandi lögum uppfylla skilyrði fyrir dvalarleyfi sem flóttamenn en koma til með að uppfylla skilyrði fyrir dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, verði frumvarp þetta að lögum, en að öðru leyti er vísað til athugasemda við 45. gr. frumvarps þessa.
    Um 16. tölul.
    Í 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga eru taldir upp þeir útlendingar sem eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur hér á landi. Í ákvæði þessu er lagt til að það tímabil sem umræddum útlendingum er heimilt að vinna hér á landi án atvinnuleyfis verði lengt í 90 daga. Er það í samræmi við 20. gr. frumvarps þessa þar sem meðal annars er kveðið á um heimild útlendinga til að dvelja hér á landi í allt að 90 daga á grundvelli vegabréfsáritunar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Er þetta lagt til þannig að ekki verði misræmi milli laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga hvað varðar lengd þess tíma sem útlendingum er í ákveðnum tilgangi heimilt að dvelja og starfa hér á landi án sérstakra dvalar- og atvinnuleyfa. Þykir þetta mikilvægt ekki síst í því skyni að koma til móts við þarfir atvinnulífsins að þessu leyti en ætla má að samræmi milli laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga hvað þetta varðar liðki meðal annars fyrir alþjóðlegu samstarfi á umræddum sviðum. Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar um 20. gr. frumvarps þessa eftir því sem við getur átt.
    Í a-lið 1. mgr. 23. gr. laganna er kveðið á um að vísindamenn og fyrirlesarar, að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi, séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í nánar tiltekinn tíma hér á landi. Við framkvæmd laganna hefur orðalag þetta þótt heldur þröngt, ekki síst í ljósi þarfa atvinnulífsins hvað þetta varðar. Í því skyni að koma til móts við þarfir atvinnulífsins að þessu leyti er í ákvæði þessu lagt til að í a-lið 1. mgr. 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga verði kveðið á um að vísinda- og fræðimenn, þ.m.t. doktors- og starfsnemar, í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf hér á landi eða sambærilega starfsemi, verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í nánar tiltekinn tíma hér á landi eða allt að 90 daga, enda hafi viðkomandi útlendingur lokið háskólanámi í tengslum við það starf sem um ræðir.
    Enn fremur er í ákvæði þessu lagt til að ekki verði lengur í b-lið 1. mgr. 23. gr. laganna kveðið á um að undanþága samkvæmt þessum lið taki ekki til dansara sem koma fram í næturklúbbum, sbr. i-lið 9. gr. laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, sbr. lög nr. 66/2000. Er þetta lagt til í ljósi þess að í 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er lagt bann við því að veitingastaðir bjóði upp á nektarsýningar eða á annan hátt geri út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum. Þykir því ekki lengur þörf á að taka fram í b-lið 1. mgr. 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga að dansarar sem koma fram á næturklúbbum, sbr. i-lið laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, sbr. lög nr. 66/2000, séu ekki undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í tiltekinn tíma hér landi.
    Ljóst þykir að íslenskir atvinnurekendur eru í auknum mæli farnir að reka starfsemi sína víðar en einungis hér á landi og hefur þörfin fyrir að geta nýtt erlenda starfsmenn tímabundið í starfsstöð þeirra hérlendis því aukist að sama skapi. Þykir því ekki rétt að gera það að skilyrði fyrir því að fulltrúar í við­skipta­erindum séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu hér á landi í tiltekinn tíma skv. d-lið 1. mgr. 23. gr. laganna að þeir komi hingað til lands fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis. Er því í ákvæði þessu gert ráð fyrir að ekki verði lengur við það miðað að fyrirtæki sem senda fulltrúa sína hingað til lands í við­skipta­erindum geti ekki jafnframt haft útibú eða starfsstöð hérlendis.
    Um 17. tölul.
    Í 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er meðal annars kveðið á um hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt þannig að Vinnumálastofnun sé heimilt að afturkalla atvinnuleyfi. Er í því sambandi meðal annars kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að afturkalla atvinnuleyfi þegar skilyrðum fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt lögunum er ekki lengur fullnægt, svo sem þegar útlendingur hefur starfað hjá öðrum atvinnurekanda en atvinnuleyfi hans er skilyrt við eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum. Í ákvæði þessu er lagt til að auk þess sem að framan greinir verði Vinnumálastofnun heimilt að afturkalla atvinnuleyfi í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi hefur ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa viðkomandi útlendings. Er þetta lagt til í ljósi þess að í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að í tilteknum tilvikum verði heimilt að veita atvinnuleyfi hér á landi í lengri tíma en samkvæmt gildandi lögum um atvinnuréttindi útlendinga, svo sem skv. 4. og 8. tölul. greinarinnar. Því þykir mikilvægt að Vinnumálastofnun hafi heimild til að kanna hvort ástæða sé til að afturkalla leyfið á gildistíma slíks atvinnuleyfis þar sem atvinnurekandi hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa viðkomandi útlendings en slík skil á skattgreiðslum er eitt af þeim skilyrðum sem gert er ráð fyrir að þurfi að vera uppfyllt áður en unnt er að framlengja tímabundin atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
    Um 18. tölul.
    Í 2. mgr. 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, lögreglu, skattyfirvalda og þjóðskrár að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja að útlendingar starfi löglega hér á landi. Í ákvæði þessu er lagt til að bætt verði við að jafnframt verði heimilt að samkeyra upplýsingar kærunefndar útlendingamála sem og félagsþjónustu sveitarfélaga. Þykir þetta nauðsynlegt, meðal annars í því skyni að tryggja skilvirkni innan stjórnsýslunnar. Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði gert skylt að afhenda hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi eða lögreglu, eftir atvikum, upplýsingar sem stofnunin fær sem gefa til kynna að brotið sé gegn íslenskum lögum og reglum en samkvæmt gildandi lögum er stofnuninni þetta heimilt en þó ekki skylt. Er þetta lagt til í samræmi við 2. mgr. 17. gr. frumvarps þessa þar sem gert er ráð fyrir að tilteknum aðilum verði skylt að afhenda hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi eða lögreglu, eftir atvikum, umræddar upplýsingar.
    Um 19. tölul.
    Þegar lögum um atvinnuréttindi útlendinga var breytt með lögum nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, var nokkrum nýjum ákvæðum bætt inn í lögin sem hafði það í för með sér að númer þeirra ákvæða sem fyrir voru í lögunum breyttist. Svo virðist sem við þá breytingu hafi farist fyrir að breyta tilvísun í nýtt númer refsiákvæðis laganna í 28. gr. laganna þar sem kveðið er á um heimflutning útlendings í tilteknum tilvikum, sbr. einnig 18. gr. eldri laga. Í ákvæði þessu er lagt til að þetta verði leiðrétt þannig að í 28. gr. laganna verði vísað til 27. gr. laganna sem er gildandi refsiákvæði laganna.
    Um 20. tölul.
    Í 32. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun um hvort orðið er við umsókn um atvinnuleyfi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsókn berst. Í ákvæði þessu er lagt til að tekið verði fram í 32. gr. laganna að í því sambandi sé miðað við tvo mánuði eftir að umsókn berst Vinnumálastofnun. Er þetta lagt til í ljósi þess að í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að umsóknum um tímabundið atvinnuleyfi skuli skila til Útlendingastofnunar sem áframsendir þær svo fljótt sem unnt er til Vinnumálastofnunar, sbr. 13. tölul. þessarar greinar.
    Um 21. tölul.
    Þegar lögum um atvinnuréttindi útlendinga var breytt með lögum nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, var nokkrum nýjum ákvæðum bætt inn í lögin sem hafði það í för með sér að númer þeirra ákvæða sem fyrir voru í lögunum breyttist. Svo virðist sem við þá breytingu hafi farist fyrir að breyta tilvísun í nýtt númer þess ákvæðis laganna er kveður á um kæruheimild vegna ákvarðana Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis í 33. gr. laganna þar sem kveðið er á um leiðbeiningarskyldu í málum er varða fyrrnefndar ákvarðanir Vinnumálastofnunar, sbr. einnig 23. gr. eldri laga. Í ákvæði þessu er lagt til að þetta verði leiðrétt þannig að í 33. gr. laganna verði vísað til 34. gr. laganna sem er gildandi ákvæði laganna þar sem kveðið er á um kæruheimild vegna ákvarðana Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis hér á landi.
    Um 22. tölul.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í ákvæði þessu eru í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 12. tölul. greinarinnar og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Um 23. tölul.
    Í 35. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um að ráðherra skuli skipa samstarfsnefnd sem í eigi sæti fulltrúar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Enn fremur skuli ráðherra skipa formann án tilnefningar. Þá er kveðið á um að samstarfsnefndin skuli kölluð saman vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa sem og þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga. Í ákvæði þessu er lagt til að auk þeirra sem að framan greinir skuli ráðherra skipa fulltrúa sinn í samstarfsnefndina sem og fulltrúa þess ráðherra sem fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um útlendinga. Þá er lagt til að kveðið verði á um að nefndin skuli kölluð saman þegar fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga eða lögum um útlendinga, í tengslum við vinnu að stefnumótun íslenskra stjórnvalda hvað varðar möguleika ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins til að dvelja og starfa hér á landi sem og ársfjórðungslega í því skyni að fara yfir stöðuna hvað varðar þátttöku ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins á innlendum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að þessi atriði komi þá til viðbótar þeim atriðum sem að framan greinir þar sem kalla ber samstarfsnefndina saman samkvæmt lögunum. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja samstarf fyrrnefndra aðila í tengslum við þátttöku ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins á innlendum vinnumarkaði.
    Um 24. tölul.
    Lagt er til að tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt, haldi áfram gildi sínu á gildistíma þeirra þrátt fyrir þær breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu. Enn fremur er miðað við að heimilt verði að framlengja tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna, að sömu skilyrðum uppfylltum og giltu um veitingu viðkomandi leyfa.
    Þá er ekki gert ráð fyrir að breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpi þessu hafi áhrif á gildi óbundinna atvinnuleyfa sem þegar hafa verið gefin út við gildistöku laganna. Þó er gert ráð fyrir að óbundið atvinnuleyfi falli úr gildi þegar útlendingur hefur dvalist erlendis samfellt lengur en átján mánuði og er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun taki ákvörðun um að fella leyfi úr gildi. Vinnumálastofnun sé þó heimilt að fenginni umsókn að veita undanþágu frá fyrrnefndum tímamörkum þannig að útlendingur haldi óbundnu atvinnuleyfi þrátt fyrir lengri dvöl erlendis. Er þetta í samræmi við 4. mgr. 17. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga en þar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að 17. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga falli brott, sbr. 12. tölul. þessarar greinar, þykir mikilvægt að ljóst sé hvernig fara skuli með óbundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna, í þeim tilvikum þegar útlendingur dvelur ekki lengur hér á landi.
    Er þetta lagt til þannig að ljóst sé hvaða gildi atvinnuleyfi hafa sem veitt hafa verið við gildistöku laganna.

Um 123.–125. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.