Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1191  —  599. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um verklega þjálfun sálfræðinga.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja tólf mánaða verklega þjálfun sem nauðsynleg verður fyrir leyfi landlæknis til að kalla sig sálfræðing og starfa sem slíkur frá 1. júlí 2017, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1130/2012, um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, og breytingareglugerð nr. 492/2015?
    Á árinu 2012 var unnið að nýjum reglugerðum fyrir allar löggiltar heilbrigðisstéttir. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um heilbrigðisstarfsmenn sem samþykkt voru frá Alþingi 15. maí 2012, en komu til framkvæmda 1. janúar 2013. Í nýrri reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, sem hlaut númerið 1130/2012, var nýjum málslið bætt við 3. gr. að ósk Sálfræðingafélags Íslands og sálfræðideildar Háskóla Íslands um að til viðbótar tilskilinni menntun skyldi umsækjandi um starfsleyfi hafa lokið tólf mánaða verklegri þjálfun, að loknu fram­haldsnámi (cand. psych. námi) undir leiðsögn sálfræðings, á viðurkenndum stofnunum eða starfsstofum sem landlæknir viðurkenndi. Ákvæðið tæki til þeirra sem lykju fram­haldsnámi vorið 2015.
    Við vinnslu reglugerðarinnar funduðu fulltrúar velferðarráðuneytisins með fulltrúum frá Sálfræðingafélagi Íslands, deildarforseta sálfræðideildar Háskóla Íslands og formanni sérfræðinefndar sem skipaður var af ráðherra samkvæmt þágildandi reglugerð um sérfræðileyfi sálfræðinga. Fulltrúum Sálfræðingafélags Íslands og deildarforseta sálfræðideildar Háskóla Íslands var gerð grein fyrir því að skipulagning eins árs þjálfunar yrði alfarið á þeirra hendi og að ráðuneytið kæmi ekki að fjármögnun eða skipulagningu námsstaða á heilbrigðisstofnunum eða starfsstofum sálfræðinga sem landlæknir viðurkennir.
    Í fram­haldi af gildistöku reglugerðarinnar hófust deildarforseti sálfræðideildar Háskóla Íslands og fulltrúar Sálfræðingafélags Íslands handa við að semja við stofnanir og starfsstofur um að taka einstaklinga með cand. psych. nám í þjálfun. Í febrúar 2015 sendu forsvarsmenn sálfræðideildar Háskóla Íslands bréf til forstöðumanna vinnustaða þar sem sálfræðingar starfa til að leita samstarfs um starfsþjálfun sálfræðikandídata. Þá sendu Sálfræðingafélag Íslands og embætti landlæknis út hvatningu til sálfræðinga og forsvarsmanna stofnana og starfsstöðva að taka vel í umleitan sálfræðideildar Háskóla Íslands.
    Í febrúar 2015 barst ráðuneytinu erindi frá forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Sálfræðingafélagi Íslands og Háskólanum í Reykjavík þar sem lýst er áhyggjum af því að þeir nemendur sem kæmu til með að brautskrást frá sálfræðideildum vorið 2015 kæmust ekki í þjálfun þar sem þeir hefðu ekki starfsleyfi frá landlækni og þar með heimild til að kalla sig sálfræðinga til að gegna þeim stöðum sem lausar væru. Með vísan til þess var óskað eftir því að gildistöku ákvæðisins sem varðaði skilyrði um verklega þjálfun fyrir veitingu starfsleyfis yrði frestað fram til vors 2017 og þannig gefið frekara svigrúm til að skipuleggja þjálfunarárið. Ráðuneytið féllst á þá beiðni og var gildistöku breytt í samræmi við hana með reglugerð nr. 492/2015, um breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi nr. 1130/2012.
    Undir­búningur að því að tryggja þjálfun skv. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1130/2012 hefur frá upphafi verið hjá sálfræðideild Háskóla Íslands og Sálfræðingafélagi Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis liggja nú fyrir drög að handbók um þjálfunarárið og greinargerð sem Háskóli Íslands hefur unnið.

     2.      Verður gert ráð fyrir sérstökum fjárheimildum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 vegna framkvæmdar reglugerðarinnar?
    Ekki er hægt að segja fyrir um á þessu stigi hvað fjárlög fyrir árið 2017 bera með sér.