Ferill 758. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1265  —  758. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (veltumörk skattskyldu og fjárhæðarmörk uppgjörstímabila).

Frá atvinnuvega­nefnd.


1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „1.000.000 kr.“ í 3. tölul. 4. gr. laganna kemur: 2.000.000 kr.

2. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „3.000.000 kr.“ í 4. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: 4.000.000 kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á ákvæðum virðisaukaskattslaga sem er einkum ætlað að minnka álag á skattyfirvöld og draga úr reglubyrði smærri aðila með aukna skilvirkni fyrir augum.
    Aukinn straumur ferða­manna til Íslands kallar á að skattkerfið og skattafram­kvæmd sé endur­skoðuð. Síðastliðin áramót tóku gildi ýmsar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem leiddu til þess að skattskyldusvið þeirra var víkkað út og nær það nú í auknum mæli yfir starfsemi ferða­þjónustufyrirtækja. Aukin eftirspurn eftir ferða­þjónustu af ýmsu tagi hefur leitt til þess að aðilum sem veita ferða­mönnum þjónustu, t.d. með sölu á svokallaðri heimagistingu, hefur fjölgað umtalsvert. Umfang rekstrarins er hins vegar í mörgum tilvikum tiltölulega lítið. Umstang skattyfirvalda í kringum smáa rekstraraðila er al­mennt kostnaðarsamt og skatttekjur af þeim takmarkaðar.

Veltumörk 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988.
    Í 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga er kveðið á um að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili, frá því að starfsemi hefst, séu undanþegnir skyldu til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Slíkir aðilar þurfa því ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni en geta á hinn bóginn ekki fengið frádreginn virðisaukaskatt vegna innkaupa sinna.
    Upphaflegur tilgangur undanþáguákvæðis 3. tölul. 4. gr. laganna var að undanþiggja skattskyldu mjög lítil fyrirtæki eða starfsemi sem ein­göngu væri rekin í hjáverkum eða stöku sinnum. Undanþágan helgaðist fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum. Rétt er að geta þess að sk­ráð fyrirtæki sem kaupa aðföng af ósk­ráðum fyrirtækjum, sem þurfa ekki að skila skatti af sölu sinni, geta ekki fengið frádreginn neinn innskatt af þeim kaupum.
    Upphaflega námu veltumörk 3. tölul. 4. gr. laganna 100.000 kr. en hafa frá gildistöku virðisaukaskattslaga verið hækkuð þrisvar sinnum, fyrst árið 1997 upp í 220.000 kr., aftur árið 2008 upp í 500.000 kr. og að lokum árið 2011 upp í gildandi veltumörk, 1.000.000 kr. Eftirfarandi röksemdir hafa legið hækkunum til grundvallar:
     1.      Hagkvæmnisástæður. Einföldun rekstrarum­hverfis þeirra aðila sem hafa lítil umsvif.
     2.      Samræmi við atvinnuskynsreglu 5. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaga. Reglan kveður á um að eigi skuli skrá aðila á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostn­aður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
     3.      Raunlækkun veltumarka vegna verðlags­breytinga.
     4.      Samræmi við fjárhæðir veltumarka í helstu samanburðarlöndum.
    Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá apríl 2014, um nútímavæðingu íslenska virðisaukaskattskerfisins, 1 er lagt til að veltumörk 4. gr. virðisaukaskattslaga verði tvöfölduð, þ.e. hækkuð úr 1.000.000 kr. í 2.000.000 kr. Er hugmyndin sú að með þeirri breytingu verði dregið úr álagi á skattyfirvöld og þeim gert betur fært að beina sjónum sínum að stærri skattaðilum. Í skýrslunni er sérstaklega bent á að tiltölulega hátt hlutfall skattaðila lendi rétt ofan veltumarka og telji jafnan fram hærri innskatt en útskatt við uppgjör virðisaukaskatts með neikvæðum áhrifum á ríkissjóð.
    Til samanburðar má benda á að í Danmörku nema veltumörkin 50 þús. dönskum krónum, eða sem nemur um 940 þús. íslenskum krónum og í Noregi eru þau sem nemur 760 þúsund íslenskum krónum. Finnar hafa hins vegar nýverið hækkað mörkin úr sem nemur rúmum 800 þús. kr. í um 1,2 millj. kr. Í öðrum ríkjum Evrópu eru veltumörkin í mörgum tilvikum mun hærri. Í Þýskalandi nema veltumörkin sem nemur um 2,4 millj. kr., í Belgíu um 2,1 millj. kr., á Ítalíu 1,2–5,6 millj. kr., í Frakklandi um 3,9–5,9 millj. kr., á Írlandi um 5,2–10,5 millj. kr. og í Bretlandi um 15 millj. kr. Veltumörk annarra ríkja Evrópu virðast í flestum tilvikum vera á bilinu 1,4–7 millj. kr.
    Veltumörkin eru ekki vísitölutengd og lækka því að raungildi með tíð og tíma. Ef veltumörk gildandi laga eru uppreiknuð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2011 til mars 2016 nema þau 1.190.918 kr. Með það fyrir augum að létta reglubyrði smærri aðila og létta álagi á skattyfirvöldum er lagt til að veltumörk 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga verði hækkuð úr 1 millj. kr. í 2 millj. kr.

Lengd uppgjörstímabila.
    Samkvæmt 15. gr. virðisaukaskattslaga skulu virðisaukaskattsskyldir aðilar greiða mismun útskatts og innskatts í ríkissjóð vegna hvers uppgjörstímabils virðisaukaskatts. Samkvæmt meginreglu 24. gr. laganna er hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl og svo koll af kolli út almanaksárið. Eftir lok hvers uppgjörstímabils ber skráningarskyldum aðilum að greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt þann sem þeim ber að standa skil á í ríkissjóð.
    Í 4. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna er vikið frá framangreindri meginreglu á þann hátt að ráð­herra er heimilað að kveða á um lengra uppgjörstímabil en tveggja mánaða, og annað greiðslufyrirkomulag, í reglu­gerð að því gefnu að virðisaukaskattsskyld velta skráningarskyldra aðila sé minni en 3.000.000 kr. á ári. Undanþáguheimildina hefur ráð­herra nýtt með setningu 3. gr. reglu­gerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með síðari breytingum. Þannig er gert ráð fyrir því að þeir aðilar sem selja virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 3.000.000 kr. á heilu almanaksári skuli á næsta almanaksári þar á eftir nota heilt almanaksár sem uppgjörstímabil.
    Undanþáguheimild 4. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kom inn í lögin við gildistöku 22. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skatta­málum, og var ákvæðinu ætlað að gera ráð­herra kleift að auðvelda minni rekstraraðilum uppgjör virðisaukaskatts. Við setningu laga nr. 122/ 1993 var áætlað að um 6.000 skattskyldir aðilar væru með skattskylda veltu undir mörkunum en líklegt er að þeir séu fleiri í dag.
    Fjárhæðarmörkunum var síðast breytt með 7. gr. laga nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana). Fram að því voru fjárhæðarmörkin 1.400.000 kr. en var breytt í þeim tilgangi að samræma þau við mörk reglu­gerðar nr. 667/1995. Áður hafði mörkunum verið breytt einu sinni, árið 1997, þau hækkuð úr 600 þús. kr. í 1,4 millj. kr. við gildistöku 7. gr. laga nr. 55/ 1997 með vísan til hækkana á byggingarvísitölu í gegnum árin. Sé fjárhæðin 1,4 millj. kr. uppreiknuð miðað við breytingar á byggingarvísitölu frá 1. janúar 1998 (225,9 stig miðað við vísitölugrunn 1987) til apríl 2016 (643,2 stig miðað við sama vísitölugrunn) ættu mörkin að nema tæpum 4 millj. kr. Svipuð niðurstaða fæst ef fjárhæðin 3 millj. kr. er uppreiknuð miðað við breytingar á byggingarvísitölu frá 1. janúar 2011 (miðað við vísitölugrunn 2010).
    Til að draga úr álagi á skattyfirvöld og tryggja að verðlags­breytingum sé fylgt er lagt til að fjárhæðarmörk heimildar til að breyta uppgjörstímabilum samkvæmt ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 24. gr. virðisaukaskattslaga verði hækkuð úr 3 millj. kr. í 4 millj. kr.
Neðan­málsgrein: 1
1 IMF Country Report No. 14/291: Technical Assistance Report–Modernizing the Icelandic VAT, bls. 13–14. Apríl 2014. Sótt 26. apríl 2016 af www.imf.org/external/pubs/ft/scr/2014/cr14291.pdf