Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1306  —  775. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um ráðstafanir til að bæta fráveitumál á landsbyggðinni og viðbrögð við náttúruvá við Mývatn.


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem fari yfir ástand fráveitumála í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins og geri tillögur til úrbóta sem miðist við að fráveitur sveitarfélaganna uppfylli lögmælt skilyrði og samræmist sjónarmiðum um umhverfisvernd. Enn fremur geri starfshópurinn kostnaðaráætlun vegna þeirra fráveituframkvæmda sem talin er þörf á í hverju sveitarfélagi. Forgangsröðun í þessu starfi verði þannig að fyrst verði fjallað um fráveitur sveitarfélaga þar sem friðlýst svæði eru, þá um fráveitur sveitarfélaga sem ekki liggja að sjó og loks um fráveitur sveitarfélaga almennt. Nauðsynleg aðkoma ríkisins að lausn mála verði skilgreind í hverjum fyrrgreindra flokka sveitarfélaga um sig.
    Þá ályktar Alþingi að veittar verði 15 millj. kr. ár hvert, næstu þrjú ár, til Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn sem varið verði til að styrkja rannsóknir á umhverfi og lífríki Mývatns í því skyni að leita orsaka þeirra lífríkisbreytinga sem þar hafa orðið á undanförnum árum.
    Enn fremur ályktar Alþingi að veittar skuli 170 millj. kr., til helminga á þessu ári og hinu næsta, til fyrsta áfanga fyrirhugaðrar uppbyggingar á hreinsi- og fráveitumannvirkjum í Skútustaðahreppi með það að markmiði að lágmarka áhrif byggðar og starfsemi í hreppnum á Mývatn og vatnasvæði þess.

Greinargerð.

Um þingsályktunartillöguna.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að úrbótum á fráveitumálum sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins sem telja má að séu í mörgum tilfellum nokkuð langt frá því sem æskilegt væri. Það á ekki síst við um sveitarfélög sem ekki liggja að sjó enda verða ráðstafanir til skolphreinsunar og annarra aðgerða sem þörf er á til að tryggja að fráveitur frá byggð og atvinnustarfsemi valdi sem minnstum umhverfisáhrifum óhjákvæmilega kostnaðarsamari í landluktum sveitarfélögum. Forgangsröðun starfshópsins sem lagt er til að skipaður verði ætti einkum að miðast við tvennt, að gera tillögur um ráðstafanir til að koma í veg fyrir umhverfismengun af völdum fráveitna á landsbyggðinni almennt og vernda friðlýst svæði og náttúruminjar sérstaklega fyrir slíkri vá.
    Í ljósi þess að verulegar breytingar hafa orðið til hins verra á lífríki Mývatns, einnar helstu náttúruperlu Íslands, á undanförnum árum er lagt til að ríkissjóður leggi fram fjármuni til tímabundins rannsóknarstarfs á vegum Náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn sem miði að því að leita orsaka þeirrar öfugþróunar sem orðið hefur í lífríki Mývatns.
    Í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit, sveitarfélaginu sem ber ábyrgð á fráveitumálum við Mývatn, eru um 380 íbúar en þar sem vatnið, lífríki þess og umhverfi hefur ákaflega mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk er straumur þess í Mývatnssveit verulegur og áhrif manna á vatnið og umhverfi þess því tvímælalaust langt umfram þau áhrif sem stafa af fastri búsetu í nágrenni vatnsins. Talið er að árið 2014 hafi um 243.000 erlendir ferðamenn lagt leið sína í Mývatnssveit. Sveitin nýtur einnig mikillar hylli íslenskra ferðamanna. Ferðamönnum hefur síst fækkað frá árinu 2014. Ljóst er að Mývatnssveit er einn þeirra staða á landinu þar sem umhverfi og lífríki verður fyrir verulegu álagi af völdum ferðamennsku. Hið fámenna sveitarfélag, Skútustaðahreppur, hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að bregðast við áhrifum ferðamannastraumsins sem þangað liggur með uppbyggingu viðhlítandi fráveitu og hreinsibúnaðar en sökum brýnnar þarfar og skyldu sveitarfélagsins á þessu sviði eru slík mannvirki þó í byggingu. Með tilliti til þessa er hér lagt til að ríkissjóður veiti 170 millj. kr. til fyrsta áfanga áformaðra framkvæmda við hreinsi- og fráveitumannvirki í Skútustaðahreppi og leggi þannig lið viðleitni Mývetninga til að firra sveit sína vandræðum af völdum mengunar af mannavöldum.
    Íslensk stjórnvöld hafa gengist við ábyrgð sinni gagnvart náttúru og umhverfi Mývatns með lagasetningu í verndarskyni, fyrst með lögum nr. 36/1974 og síðar með lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem enn eru í gildi með áorðnum breytingum. Mývatns- og Laxársvæðið er jafnframt á svonefndum Ramsar-lista og nýtur því verndar í samræmi við ákvæði hins alþjóðlega Ramsar-sáttmála um verndun votlendis. Er því ljóst að íslenskt samfélag ber í heild sinni ríka skyldu til að gera allt sem unnt er til að vernda Mývatn og umhverfi þess fyrir mengun og öðrum neikvæðum áhrifum af manna völdum sem kunna að ógna Mývatni, umhverfi þess og lífríki.

Fráveitumál sveitarfélaga.
    Fráveitumál hafa alllengi verið í verkahring sveitarfélaga og eru enn, sbr. lög nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þar sem kveðið er á um skyldur þeirra í þessum efnum, en sveitarfélögin hafa notið tilstyrks ríkissjóðs síðustu áratugi við að sinna þessum mikilvægu verkefnum. Á öndverðum 10. áratug síðustu aldar fór fram úttekt á ástandi fráveitumála á vegum umhverfisráðuneytisins. Niðurstöður hennar lágu fyrir í skýrslu haustið 1993 þar sem lagt var til að ríkið veitti sveitarfélögum styrk til framkvæmda við fráveitur. Í framhaldi af þessu varð til áætlun á vegum stjórnvalda um framkvæmdir í fráveitumálum sem miðaði að því að þeim yrði komið í viðunandi horf á 10 árum. Þessi áform leiddu síðan til þess að síðla vetrar 1995 setti Alþingi lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, sem giltu til ársloka 2005 og voru framlengd til loka ársins 2008.
    Lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum fólu í sér að ríkissjóður styrkti tilteknar fráveituframkvæmdir með framlagi sem nam 20% af raunkostnaði þeirra vegna en hámark árlegs framlags nam þó 200 millj. kr.
    Í skýrslu fráveitunefndar umhverfisráðuneytis, Úttekt á stöðu fráveitumála á Íslandi, sem birtist snemma árs 2003, er að finna stöðumat á fráveitumálum sveitarfélaganna eins og þau voru á þeim tíma sem skýrslan var samin en þá var mjög farið að ganga á gildistíma laga nr. 53/1995. Niðurstaða úttektarinnar var á þá leið að enda þótt ágætur árangur hefði náðst í fráveitumálum á mörgum sviðum eftir gildistöku laga nr. 53/1995 væri enn mjög margt ógert á þessu sviði, einkum í fámennum sveitarfélögum, og bent á að auka þyrfti verulega fjárframlög til fráveituframkvæmda sveitarfélaganna og jafnframt að efla umhverfisvitund. Mun þetta álit hafa orðið til þess, ásamt öðru, að gildistími laga nr. 53/1995 var framlengdur til loka árs 2008 að tillögu tekjustofnanefndar ríkis og sveitarfélaga, sbr. þskj. 340 á 132. löggjafarþingi.
    Undanfarið hafa borist um það fregnir allvíða af landinu að fráveitumálum sé ærið ábótavant og fráveitur margra smærri sveitarfélaga langt frá því að uppfylla gildandi kröfur um slík mannvirki eða samrýmast sjónarmiðum um umhverfisvernd. Það virðist því sem ríkissjóður hafi horfið of snemma frá verkefninu og af fregnum og umræðum um vankanta í fráveitumálum má ætla að tímabært sé að gera ámóta úttekt á fráveitumálum sveitarfélaga og gerð var á árunum 2002–2003 og leggja á ráðin um úrbætur og uppbyggingu með það að markmiði að fráveitur allra sveitarfélaga í landinu standist fyllstu kröfur.
    Eins og texti þingsályktunartillögunnar ber með sér er lagt til að við úttekt á fráveitumálum sveitarfélaganna verði beitt forgangsröðun sem byggist á sjónarmiðum um umhverfis- og náttúruvernd öðru fremur. Í fyrrnefndri Úttekt á stöðu fráveitumála á Íslandi frá 2003 var sveitarfélögunum skipt í þrjá flokka með tilliti til ásigkomulags fráveitumála en einnig var litið til náttúrulegra aðstæðna varðandi viðtöku frárennslis og annarra atriða sem gætu orðið til þess að auka kostnað við gerð fráveitumannvirkja. Hér er lögð til skipting í þrjá flokka eins og áður var en forsendur flokkunar eru aðrar. Lagt er til að friðlýst svæði og náttúruminjar hafi forgang og ræðst það af verndargildi slíkra staða og einnig því að ríkið hefur þar sérstökum skyldum að gegna. Því er eðlilegt að friðlýst svæði og náttúruminjar njóti nokkurs forgangs til framlaga úr ríkissjóði til fráveitumála. Næst í röðinni samkvæmt þessari þingsályktunartillögu eru þau sveitarfélög sem ekki liggja að sjó en allar líkur eru á, eðli málsins samkvæmt, að fráveitumannvirki þeirra verði kostnaðarsamari í uppbyggingu en þar sem unnt er að leiða fráveitu í sjó. Að síðustu er gert ráð fyrir almennri umfjöllun um fráveitur þeirra sveitarfélaga sem liggja að sjó og falla í hvorugan fyrrgreindra flokka.

Mývatn – hnignun lífríkis á verndarsvæði.
    Þróun lífríkis í Mývatni undanfarin ár hefur einkennst af hnignun sem m.a. lýsir sér í því að svokallaður kúluskítur, grænþörungur sem myndaði breiður af grænleitum kúlum á vatnsbotninum, er talinn vera horfinn úr Mývatni. Orsakir þessa eru ekki að fullu ljósar en að margra áliti er líklegast að um sé að kenna ofauðgun köfnunarefnis og fosfórs í vatninu. Styrkur þessara efna hefur mælst hærri undanfarið en fyrr á árum og þótt munurinn sé ekki ýkja mikill getur næringarefnaauðgunin orðið til þess að raska hinu viðkvæma jafnvægi Mývatns sem er af náttúrunnar hendi næringarríkt þannig að lítil viðbót kann að hafa mikil áhrif.
    Auðgun köfnunarefnis í Mývatni veldur því að blágrænar bakteríur í vatninu taka að fjölga sér mjög síðari hluta sumars. Vatnið tekur þá lit og verður gruggugt enda gengur bakteríublóminn undir heitinu „leirlos“ meðal Mývetninga sem þekkja fyrirbærið frá fornu fari. Leirlos er vissulega þekkt frá fyrri tímum en hefur færst mjög í vöxt á síðustu árum og telja margir sem þekkja til staðhátta að þar sé komin skýringin á því að kúluskíturinn þrífst ekki lengur í Mývatni enda kemur bakteríublóminn í veg fyrir að ljós berist niður á vatnsbotninn og án þess lifir kúluskíturinn ekki.
    Bleikjustofninn í Mývatni hefur verið á undanhaldi síðustu ár og ýmis önnur merki eru um að ekki sé allt með felldu í lífríki vatnsins. Umhverfisstofnun heldur úti skrá um svæði í hættu sem unnin er samkvæmt skilgreindum aðferðum. Skráin er tvíþætt; appelsínugulur listi tekur til svæða sem talin eru undir talsverðu álagi og ástæða er til að fylgjast vel með en rauður listi tekur til svæða sem eru undir miklu álagi og krefjast tafarlausra viðbragða. Verndarsvæði Mývatns og Laxár var á appelsínugulum lista þegar skráin var gerð í fyrsta skipti árið 2010 en var fært á rauðan lista árið 2012 og hefur verið þar síðan. Segir það sína sögu um þróun mála á þessu mikilvæga verndarsvæði.
    Kísilgúrnám fór fram á botni Mývatns frá 1966 til 2004 og hráefnisvinnsla í Kísiliðjunni í Reykjahlíð. Talið er að enn verði vart umhverfismengunar frá þessari starfsemi og áhrifa kísilgúrnámsins á vatnsbotninum gætir enn þá. Ferðaþjónusta hefur aukist mjög í Mývatnssveit á síðustu árum og er full ástæða til að kanna áhrif hennar og annarra orsakavalda sem gætu hafa orðið til þess að lífríki Mývatns á nú undir högg að sækja. Mikilvægt er að efla rannsóknir í og við Mývatn og freista þess að finna skýringar öfugþróunarinnar svo að bregðast megi við henni með markvissum og árangursríkum aðgerðum.