Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1328  —  624. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um útblástur frá flugvélum.

     1.      Hvert er að meðaltali magn útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá flugvélum sem skráðar eru hérlendis og notaðar í millilandaflug á hvern floginn kílómetra?
    Umhverfisstofnun hefur reiknað út þessa tölu, út frá upplýsingum úr gagnagrunni Eurocontrol, evrópsku flugmálastofnunarinnar. Miðað er við gögn frá Eurocontrol fyrir árið 2014, sem eru nýjustu gögnin sem hafa verið staðfest, og var losun á kílómetra reiknuð út frá upplýsingum um losun frá tilteknum flugleggjum annars vegar og lengd þeirra hins vegar. Meðaltal var tekið af þremur stærstu flugrekendum á Íslandi sem eru þeir helstu sem fljúga til og frá Íslandi. Meðallosun samkvæmt þeim útreikningum er 0,01452 tonn af CO 2 á hvern floginn kílómetra.

     2.      Er munur á útblæstri þeirra flugvéla sem íslensk flugfélög nota í millilandaflugi hér á landi á gróðurhúsalofttegundum og ef svo er, hverju nemur hann?
    Það er munur á útblæstri flugvélanna, miðað við tölur frá 2014, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Mesti munurinn á milli flugvéla er 35%, þar sem meðaltal þeirra sem losa minnst er 0,0116 tonn á hvern floginn kílómetra en 0,01502 hjá þeim flugrekanda sem losar mest.

     3.      Liggur fyrir hversu mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda er á hverju ári af millilandaflugi opinberra starfsmanna og annarra sem ferðast á vegum ríkisins? Ef svo er óskast upplýsingar um það, ef ekki óskast upplýst hvort áformað er að taka upp slíkt bókhald.
    Slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir og ekki hefur verið áformað að taka upp slíkt bókhald.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir kolefnisjöfnun vegna útblásturs koltvísýrings sem stafar af flugferðum á vegum ríkisins? Ef svo er, með hvaða hætti yrði það gert?
    Ráðherra hefur áhuga á að beita sér fyrir kolefnisjöfnun í ýmissi starfsemi ríkisins og ákvæði um slíkt er í sóknaráætlun í loftslagsmálum sem samþykkt var í ríkisstjórn 2015. Það liggur þó fyrir að takmarkaðar fjárheimildir eru til að hrinda því ákvæði sóknaráætlunar í framkvæmd. Kolefnisjöfnun vegna flugferða sérstaklega gæti verið útfærð í samvinnu við flugfélög sem mörg bjóða upp á kolefnisjöfnun gegn aukalegri greiðslu. Fjölmargir erlendir aðilar bjóða upp á kolefnisjöfnun, en einungis einn íslenskur aðili að því er ráðuneytið veit best, þar sem kaupendum býðst að fjárfesta í skógrækt sem bindur jafn mikið magn koldíoxíðs úr andrúmslofti og nemur losuninni.

     5.      Hver er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna flugvéla sem skráðar eru hér á landi og hvernig skiptist losunin á milli innanlandsflugs og millilandaflugs?
    Umhverfisstofnun hefur aðgang að upplýsingum um losun flugrekenda sem koma fram í gagnagrunni Eurocontrol, þar á meðal átta stærstu flugrekenda á Íslandi. Heildarlosun þessara átta flugrekenda var 1.078.858 tonn af CO 2 árið 2014. Þar af voru losuð 40.000 tonn í innanlandsflugi og 1.038.858 tonn í millilandaflugi (samkvæmt gögnum frá Eurocontrol). Vakin er athygli á því að þetta á við um allt flug erlendis hjá þessum flugrekendum, ekki bara til og frá Íslandi, heldur einnig flug milli tveggja erlendra flugvalla. Í losunarbókhaldi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er millilandaflug ekki undir skuldbindingum einstakra ríkja, en Ísland skilar þó upplýsingum um losun vegna millilandaflugs til skrifstofu samningsins út frá seldu eldsneyti á Keflavíkurflugvelli (sjá svar við 6. lið fyrirspurnarinnar).

     6.      Hversu stóran þátt eiga farþegaflugvélar sem skráðar eru á Íslandi í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskri starfsemi og hvernig skiptist útblásturinn milli innanlandsflugs og millilandaflugs?
    Ekkert heildaryfirlit er til um losun gróðurhúsalofttegunda frá „íslenskri starfsemi“ bæði hérlendis og á alþjóðavísu og því er erfitt að nefna eina prósentutölu í því samhengi. Samkvæmt Kýótó-bókuninni bera einstök ríki ábyrgð á losun frá innanlandsflugi, en ekki frá millilandaflugi eða millilandasiglingum. Unnið er að aðgerðum til að draga úr losun þar á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO). Heildarlosun Íslands sem fellur innan skuldbindinga Kýótó-bókunarinnar árið 2014 var 4.597 þús. tonn og bókfærð losun frá flugi var um 40 þús. tonn árið 2014, eða tæplega 1% af heildarlosun. Sú losun er frá innanlandsflugi, en millilandaflug bæði íslenskra og erlendra flugrekenda til og frá Íslandi er ekki inni í þessum tölum.
    Umhverfisstofnun hefur þó upplýsingar um losun frá millilandaflugi annars vegar og um losun stærstu íslenskra flugrekenda (bæði innan lands og á alþjóðavísu) hins vegar. Þessar upplýsingar eru fengnar í gegnum tölur um selt eldsneyti á Keflavíkurflugvelli og í gegnum upplýsingar frá viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), sem Ísland er þátttakandi í samkvæmt ákvæðum EES-samningsins.
    Ísland skilar árlega upplýsingum um losun frá millilandaflugi til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna þótt sú losun sé ekki hluti innan skuldbindinga Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni. Samkvæmt þeim upplýsingum var losun frá millilandaflugi 558.750 tonn af CO 2 árið 2014. Sú losun er reiknuð af Orkustofnun út frá seldu þotueldsneyti á Keflavíkurflugvelli og ekki er vitað hver hlutur íslenskra flugrekenda er þar annars vegar og erlendra hins vegar. Ekki er heldur inni í þeirri tölu losun frá eldsneyti sem íslenskir flugrekendur kaupa erlendis.
    Í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hefur Umhverfisstofnun upplýsingar um flugfélög sem eru í umsjá Íslands og falla undir viðskiptakerfið. Ríki innan EES skipta með sér umsjón með flugrekendum sem fljúga innan þess og til og frá því og ber Umhverfisstofnun ábyrgð á að safna upplýsingum um fjölda flugrekenda, bæði innlendra og erlendra. Eins og áður segir var losun átta stærstu íslensku flugrekenda, sem upplýsingar liggja fyrir um, samtals 1.078.858 tonn árið 2014, að langstærstum hluta frá alþjóðlegu flugi, en inni í þeirri tölu eru bæði flug til og frá Íslandi og frá flugi á vegum þessara aðila milli tveggja erlendra flugvalla.
    Það er auðvitað hægt að setja þessar tölur í samhengi við þá tölu sem er oftast gefin upp sem heildarlosun Íslands samkvæmt okkar skuldbindingum. Losun frá millilandaflugi (miðað við selt eldsneyti á Keflavíkurflugvelli til íslenskra og erlendra flugrekenda) nemur þá sem svarar um 12% af þeirri losun sem er innan skuldbindinga Íslands í Kýótó-bókuninni. Losun átta stærstu íslensku flugrekendanna í heild (innan lands, til og frá Íslandi og í flugi milli flugvalla erlendis) nemur þá sem svarar um 23% af losun Íslands eins og hún er skilgreind innan Kýótó-bókunarinnar.