Ferill 795. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1375  —  795. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (útboð viðbótarþorskkvóta).

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Páll Valur Björnsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef heildarafli þorsks verður aukinn fyrir fiskveiðiárið 2016/2017, sbr. 1. mgr. 3. gr., skal ráðherra bjóða þann viðbótarkvóta út til hæstbjóðanda. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd útboðsins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þessi lagabreyting byggist á því að við úthlutun veiðileyfa sé æskilegast að lögmál markaðarins ráði við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Í útfærslu tilboðsleiðarinnar skal setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Beinast liggur við að nota tilboð og tilboðsmarkaði þegar kvóta tiltekinnar fisktegundar er útdeilt eða viðbótartonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ólíklegt er að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað á markaðslegum forsendum.
    Einn af kostum tilboðsleiðar er að leigugjald sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæð leigugjalds ekki á matskenndum ákvörðunum og eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, geta treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgang að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum frá einu kjörtímabili til annars.
    Svigrúm innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Reynsla af tilboðsleið til úthlutunar auðlinda er víðtæk um allan heim og auðvelt væri að leita í smiðju nágrannaþjóða, svo sem til Færeyinga og Norðmanna, eftir góðum fyrirmyndum. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningur af hagræðingu innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn.
    Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur án kvóta fisk daglega á tilboðsmarkaði. Þessi fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Aldrei er deilt um fiskverð á fiskmarkaði enda hafa kaupandi og seljandi komið sér saman um verð. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum. Nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í útgerðinni.
    Fleiri góð dæmi má nefna. Loftslagsheimildir eru boðnar út og íslensk flugfélög, álver og fleiri verksmiðjur gera tilboð í loftslagsheimildir á evrópskum markaði en tekjurnar renna í ríkissjóð. Stuðst er við útboð til að velja á milli símafyrirtækja þegar úthluta þarf tíðnisviðum fyrir fjarskipti og þegar ríkið felur einkaaðilum verkefni í samgöngum eru gerð tilboð í sérleyfin. Þegar landsmenn kaupa þak yfir höfuðið eru gerð tilboð á markaði sem stýrt er af fasteignasölum. Það er því góð og víðtæk reynsla af tilboðsleiðinni í ýmsum myndum og hún á mjög vel við þegar úthluta á takmörkuðum gæðum, svo sem náttúruauðlindum.
    Nú geta þeir sem fá úthlutaðan kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum um 200 kr. fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 kr. í veiðigjald samkvæmt fréttum frá Fiskistofu.
    Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum 2016 voru kynntar 20. apríl sl. 1 Niðurstöður stofnmælinga eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Mælingarnar frá því í mars benda til góðs ástands helstu botnfisktegunda og horfur eru á aukinni nýliðun í veiðistofnum þorsks og ýsu. Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.
    Í eftirfarandi töflu má sjá tillögu Hafrannsóknastofnunar um þorskveiði undanfarinna ára.

Fiskveiðiár Þús. tonn
2007/2008 130
2008/2009 124
2009/2010 150
2010/2011 160
2011/2012 177
2012/2013 196
2013/2014 215
2014/2015 218
2015/2016 239

    Fiskveiðikerfinu þarf að breyta í heild sinni en hægt er að taka strax skref í rétta átt. Þorskkvótinn var aukinn á yfirstandandi fiskveiðiári um 21 þús. tonn og mælingar Hafrannsóknastofnunar benda til að kvótinn verði enn aukinn á næsta fiskveiðiári. Ef Hafrannsóknastofnun gerir tillögu um viðbótarþorskkvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 gerir lagabreytingin kleift að bjóða hann út til hæstbjóðenda. Reglur um útboðið, sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða, verði settar með reglugerð. Með því fengist reynsla í framkvæmd útboða af þessu tagi ásamt markaðsverði aflaheimilda.
Neðanmálsgrein: 1
1     Slóð á fréttatilkynninguna er: www.hafro.is/undir.php?ID=19&nanar=1REF=3&fID=22672.