Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1382  —  668. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Benediktsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Hlyn Ingason og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Svein Sölvason frá Össuri hf., Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Davíð Lúðvíksson og Elínrós Líndal frá Samtökum iðnaðarins, Magnús Harðarson og Magnús K. Ásgeirsson frá Kauphöll Íslands hf., Árna Sigurjónsson og Ragnheiði H. Magnúsdóttur frá Marel, Ingvar J. Rögnvaldsson, Jón Ásgeir Tryggvason og Ragnheiði Björnsdóttur frá ríkisskattstjóra, Björn Brynjúlf Björnsson frá Viðskiptaráði Íslands, Berglindi Hallgrímsdóttur frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Halldór Oddsson og Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Hilmar Veigar Pétursson frá CCP, Arnar Guðmundsson frá Íslandsstofu og Tryggva Hjaltason.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, CCP hf., Félagi atvinnurekenda, Íslandsstofu, Kauphöll Íslands hf., Marel, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Tryggva Hjaltasyni, Viðskiptaráði Íslands og Össuri hf.

Um efni frumvarpsins og vinnu nefndarinnar.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja. Helstu breytingarnar snúa að skattlagningu kaupréttar, skattalegri ívilnun til erlendra sérfræðinga, frádrætti vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og skattafslætti vegna hlutabréfakaupa þar sem þeim einstaklingum sem fjárfesta í hlutafélögum eða einkahlutafélögum í vexti gefist kostur á að njóta frádráttar frá tekjuskattsstofni að viðbættum fjármagnstekjum. Markmið breytinganna er m.a. að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja auk stuðnings við nýsköpun og þróun þeirra sem kostur er, t.d. með aðkomu og þátttöku einstaklinga.
    Í athugasemdum sem bárust nefndinni og á fundum um málið komu fram ábendingar sem nefndin telur rétt að taka til nánari skoðunar og leggur hún til nokkrar breytingar til að koma til móts við þær.

Skattlagning á kauprétti hlutabréfa.
    Í 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er fjallað um skattlagningu á hlutabréfum sem starfsmaður eignast samkvæmt kauprétti vegna starfa sinna fyrir annan aðila. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að skattlagningu verði frestað þangað til bréfin eru seld og að mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði teljist til launatekna.
    Í umsögnum og á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að umtalsverð vandkvæði gætu verið á því fyrirkomulagi að skattleggja framangreindan mismun sem launatekjur og leggja umsagnaraðilar til að hann verði fremur skattlagður sem fjármagnstekjur. Einn umsagnaraðili bendir á að þegar tímamark skattskyldu stofnast við mögulega sölu kunni launþegasamband að hafa rofnað og því sé engin tenging til staðar við fyrrverandi launagreiðanda. Í þeim tilvikum sé því hætta á að misbrestur verði á því að staðgreiðslu og tryggingagjaldi af kaupaukanum sé skilað. Tímamark skattlagningar og hvort til hennar stofnast sé með öllu óljóst og þyrfti um ókomin ár að halda sérstaklega utan um þá einstaklinga sem ákvæðið tekur til. Einnig var bent á að það væri íþyngjandi breyting að skattleggja söluhagnað hlutabréfa sem launatekjur í stað fjármagnstekna.
    Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu til að koma til móts við framangreind sjónarmið. Lagt er til að ekki verði gerð breyting á þeim sérstöku reglum sem gilda um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast í starfi fyrir annan aðila. Meginreglan verði áfram sú að líta skuli á mismun á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur sem starfstengda launagreiðslu sem sætir sömu skattalegri meðferð og aðrar launagreiðslur. Hins vegar er lagt til að í stað þess að greiðsla komi til skattlagningar þegar kaupréttur er nýttur verði henni frestað þar til bréfin eru seld. Það innlausnarverð sem liggur fyrir við nýtingu kaupréttarins telst þá, eins og verið hefur, til stofnverðs við síðari sölu, og hagnaður af sölunni þannig reiknaður telst til fjármagnstekna í hendi seljanda. Breytingartillagan felur í sér þá ívilnun að rétthafa kaupréttarins er ekki gert að skylt að greiða tekjuskatt við innlausn hans heldur þegar bréfin eru seld.

Skattlagning breytanlegra skuldabréfa.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að hagnaður einstaklings vegna viðskipta með breytanleg skuldabréf sem breytt hefur verið í hlutabréf á lægra verði en sem nemur markaðsvirði bréfanna teljist til skattskyldra fjármagnstekna þegar hlutabréfin eru seld. Fyrir nefndinni kom það sjónarmið fram að ekki væri ljóst hvort ákvæðið ætti að gilda jafnt um einstaklinga utan atvinnurekstrar og einstaklinga í atvinnurekstri. Til skýrleika leggur nefndin til örlitla orðalagsbreytingu á ákvæðinu til að ljóst sé að ákvæðið eigi við um einstaklinga utan atvinnurekstrar.

Skattlagning erlendra sérfræðinga.
    Með 3. gr. frumvarpsins er lögð til frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi þannig að einungis 75% tekna þeirra verði skattskyldar. 25% tekna verði því skattfrjálsar og undanþegnar staðgreiðslu fyrstu þrjú árin í starfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Nefndinni bárust þónokkrar umsagnir þar sem þessari heimild var fagnað sérstaklega. Nokkrir umsagnaraðilar benda þó á að ýmis vandkvæði geti fylgt heimildinni og þá sérstaklega hvað varðar skilgreiningu á erlendum sérfræðingi. Sérfræðiþekking sé ekki alltaf bundin við menntun og aðra leið væri hægt að fara, t.d. að miða við tekjur. Þá er vakin athygli á skorti á fjölbreyttum hópi iðnaðarmanna hér á landi og því velt upp hvort þeir gætu fallið undir skilgreiningu ákvæðisins um erlenda sérfræðinga. Nefndin telur ljóst að í einhverjum tilvikum kunni einstakir iðnaðarmenn að hafa sérfræðiþekkingu sem falli að þeim skilyrðum sem sett verða með reglugerðinni og teljist þannig til sérfræðinga á grundvelli laganna. Nefndin lítur svo á að ákvæði 3. gr. frumvarpsins feli í sér nauðsynlega breytingu til að laða erlenda sérfræðinga að störfum hér á landi og þá sérstaklega í tækni- og rannsóknarfyrirtækjum og háskólasamfélaginu.
    Fyrir nefndinni var bent á að þar sem gert er ráð fyrir að umsókn um staðfestingu á því að erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðisins megi senda allt að þremur mánuðum eftir að hann hefur hafið störf hér á landi þurfi vinnuveitandi að halda eftir staðgreiðslu af allri launafjárhæðinni þar til umsókn hefur verið staðfest. Vakin var athygli á því að frádráttur vegna iðgjalds í lífeyrissjóð sé reiknaður af sama stofni og frádráttur vegna launa erlendra sérfræðinga. Frádráttur vegna iðgjalds í lífeyrissjóðs verði því að hluta til af tekjum sem ekki komi til skattlagningar. Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, dags. 23. maí sl., kemur fram að ráðuneytið sé tilbúið að taka til sérstakrar skoðunar þessa ábendingu. Ráðuneytið bendir á að möguleiki gæti verið að leiðrétta staðgreiðsluskil viðkomandi aðila aftur í tímann um leið og umsókn væri samþykkt. Nefndin tekur undir þetta og leggur áherslu á að ráðuneytið skoði þetta atriði sérstaklega.

Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa.
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um skattafslátt vegna hlutabréfakaupa og samkvæmt henni verða einstaklingar að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta nýtt sér heimild til frádráttar. Nefndinni barst athugasemd varðandi 1. mgr. 4. gr. og tillaga um að hækka frádráttarhlutfallið úr 30% í 100% af fyrstu 3 millj. kr. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að í Svíþjóð er hlutfallið 50% og 41% í Írlandi. Nefndin leggur til þá breytingu að frádráttarhlutfallið verði 50%.
    Í 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. er ákvæði um að lágmarksfjárfesting skuli vera 500 þúsund kr. Rökin fyrir lágmarkinu eru þau að um áhættufjárfestingu sé að ræða sem henti frekar þeim sem fjárfesta í nokkrum mæli. Nefndinni barst umsögn um að æskilegt væri að lækka lágmarkið í 250 þúsund kr. svo fleiri gætu tekið þátt. Færa má rök fyrir því að lágmarkið valdi því að smærri fjárfestar fjárfesti fyrir hærri fjárhæð en þeir hefðu annars gert. Nefndin leggur til að lágmarkið verði 300 þúsund kr.
    Ábending barst nefndinni um að æskilegt væri að skýrt lægi fyrir hvaða ársreikning eigi að miða við í 2. tölul. 3. mgr. 4. gr. þar sem gert er það skilyrði að árleg velta félagsins og efnahagsreikningur þess sé undir tilteknum mörkum. Í athugasemdum við ákvæðið er sérstaklega tekið fram að miða skuli við samþykktan ársreikning síðasta reikningsárs og því á þetta ekki að valda vandkvæðum í framkvæmd.
    Í umsögn sem nefndinni barst er gerð athugasemd við skilyrði 4. tölul. 3. mgr. 4. gr. um að félag megi ekki vera skráð á hlutabréfamarkað. Í athugasemdum við ákvæði frumvarpsins kemur fram að með „hlutabréfamarkaði“ sé m.a. átt við markaðstorg fjármálagerninga og bendir umsagnaraðili á að umrætt skilyrði megi rekja til 5. mgr. 21. gr. hópundanþágureglugerðar framkvæmdastjórnar ESB, nr. 651/2014. Sú reglugerð útiloki ekki fjárfestingar í félögum sem skráð hafa verið á markaðstorg fjármálagerninga. Nefndin telur ekki nauðsynlegt að ganga lengra í þessu efni en reglugerðin mælir fyrir um og leggur til að í stað hlutabréfamarkaðar verði talað um skipulagðan verðbréfamarkað.
    Í 5. tölul. 3. mgr. 4. gr er sett skilyrði um að félag megi ekki hafa verið starfandi á markaði lengur en fjögur ár frá fyrstu sölu þess í viðskiptalegum tilgangi. Nefndinni bárust ábendingar um að í fyrrgreindri reglugerð væri miðað við sjö ár og þar væri gefið svigrúm til enn lengri tíma að vissum skilyrðum uppfylltum. Þar kemur einnig fram að sala í viðskiptalegum tilgangi innifelur ekki takmarkaðar sölur sem eiga sér stað á þróunartíma vörunnar áður en almenn sala hefst. Nefndin telur rétt að koma til móts við þessar ábendingar og leggur til að í stað fjögurra ára verði miðað við sjö ár.
    Þá barst nefndinni athugasemd um 9. tölul. 3. mgr. sem felur í sér að félagið skuli innan fimm mánaða frá lokum hvers reikningsárs hafa sent ríkisskattstjóra ársreikning sinn fyrir næstliðið reikningsár sem gerður hafi verið í samræmi við lög um ársreikninga. Bendir umsagnaraðili á að umrætt skilyrði geri meiri kröfur til félaga um skil á ársreikningi en samkvæmt lögum um ársreikninga. Nefndin fellst á að fella brott skilyrðið um fimm mánaða frestinn og leggur til breytingu þess efnis.
    Í 12. tölul. 3. mgr. 4. gr. segir að áður en hlutafjáraukning fari fram og árlega eftir það skuli félag fá staðfestingu ríkisskattstjóra á því að öll skilyrði 2. mgr. og 3. mgr. ákvæðisins séu uppfyllt. Að ábendingu frá fjármála- og efnahagsráðuneyti telur nefndin að þetta orðalag geti verið of erfitt í framkvæmd og leggur til að vísun til 2. mgr. verði felld brott.
    Í 2. málsl. 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram hvaða áhrif það hefur ef skilyrði 4. gr. eru ekki uppfyllt. Þar er kveðið á um að ef einstaklingur sem notið hefur frádráttar skv. 1. mgr. ákvæðisins tekur upp tengsl við félagið skv. 6. tölul. 2. mgr. eða ef félagið eða starfsemi þess uppfyllir ekki lengur skilyrði 3. mgr. eða fellur undir 4. mgr. ákvæðisins skuli bakfæra upphaflega frádráttinn. Nefndin leggur til þá breytingu á lokamálslið málsgreinarinnar að talað verði um bakfærðan frádrátt í staðinn fyrir nýttan frádrátt.
    Fram kom það sjónarmið umsagnaraðila að heppilegt væri að taka afstöðu til þess þegar, hvort og hversu háu álagi skyldi beita vegna ofnýtts frádráttar. Nefndin tekur undir það sjónarmið og telur ekki óeðlilegt að beita álagi komi til bakfærslu skv. 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Lagt er til að við bætist að auk bakfærslu skuli einstaklingi sem notið hefur frádráttar skv. 1. mgr. gert að greiða 15% álag af fjárhæð ofnýtts frádráttar skv. 5. mgr.

Hækkun viðmiðunarfjárhæða frádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja.
    Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að núverandi skattaívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja verði hækkaðar verulega. Lagðar eru til tvær breytingar, annars vegar að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 100 millj. kr. í 300 millj. kr. og hins vegar að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar frádrætti hækki úr 150 millj. kr. í 450 millj. kr. þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun.
    Umsagnaraðilar fagna flestir þessum fyrirætlunum frumvarpsins og telja breytinguna mikilvægt skref í þeirri viðleitni stjórnvalda að auka stuðning og efla rannsóknir við tækniþróun á Íslandi. Þónokkrir umsagnaraðilar telja engu að síður að frumvarpið eigi að ganga enn lengra með því að afnema þakið á endurgreiðslunni alfarið til að landið verði samkeppnishæft á alþjóðamarkaði.
    Ljóst er að frumvarpið gerir ráð fyrir þrefaldri hækkun á skattafrádrætti til nýsköpunarfyrirtækja. Þessi ríflega hækkun styður við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti í mun ríkari mæli en áður. Afnám þaks á endurgreiðslunni myndi frekar gagnast þeim fyrirtækjum sem komin eru af vaxtarskeiði og skráð eru á markað. Það er ekki markmið frumvarpsins heldur að auka stuðning og efla rannsóknir við tækniþróun smærri fyrirtækja á Íslandi. Nefndin leggur því ekki til breytingu á þessum þætti frumvarpsins en vill árétta að þegar frekari reynsla verður komin á málið verði þakið endurskoðað og hugsanlega hækkað frekar í þrepum.
    Katrín Jakobsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Guðmundur Steingrímsson skrifa undir álitið en gera eftirfarandi fyrirvara: „Samkvæmt leiðbeiningum ESA er hægur vandi að beita jákvæðri skilgreiningu á nýsköpunarfyrirtæki en þau eru þar skilgreind sem fyrirtæki: a) sem getur sýnt fram á, með mati sem utanaðkomandi sérfræðingur framkvæmir, að það muni í fyrirsjáanlegri framtíð þróa vörur, þjónustu eða verkferla sem eru nýir eða verulega endurbættir miðað við það sem best gerist í viðkomandi atvinnugrein og sem hætta er á að mistakist í tæknilegu eða atvinnulegu tilliti eða b) þar sem rannsóknar- og þróunarkostnaður nemur a.m.k. 10% af heildarrekstrarkostnaði á a.m.k. einu ári af þremur áður en aðstoðin er veitt eða, þegar um er að ræða sprotafyrirtæki og ekki er um nein fullfrágengin reikningsskil að ræða, í endurskoðun á yfirstandandi reikningstímabili eins og vottað er af ytri endurskoðanda. Eðlilegra hefði verið að beita slíkri jákvæðri skilgreiningu þannig að markmið laganna, sem væntanlega á að vera að efla nýsköpun og þekkingariðnað, skilaði sér til fulls í stað þess að beita þeirri aðferð að útiloka tiltekna geira sem eigi að síður ættu að geta rúmast innan nýsköpunarhugtaksins.“
    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                 Á eftir 2. málsl. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Skattlagningu samkvæmt þessari grein skal frestað þar til bréfin eru seld.
     2.      Á eftir orðinu „einstaklings“ í 2. gr. komi: utan atvinnurekstrar.
     3.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað „30%“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: 50%.
                  b.      Í stað „500 þús. kr.“ í 1. tölul. 2. mgr. komi: 300 þús. kr.
                  c.      Í stað orðsins „hlutabréfamarkað“ í 4. tölul. 3. mgr komi: skipulegan verðbréfamarkað.
                  d.      Í stað orðanna „fjögur ár“ í 5. tölul 3. mgr. komi: sjö ár.
                  e.      Orðin „innan fimm mánaða frá lokum hvers reikningsárs“ í 9. tölul. 3. mgr. falli brott.
                  f.      Orðin „2. mgr. og“ í 1. málsl. 12. tölul. 3. mgr. falli brott.
                  g.      Í stað orðsins „Nýttur“ í 3. málsl. 5. mgr. komi: Bakfærður.
                  h.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Auk bakfærslu skal einstaklingur sem notið hefur frádráttar skv. 1. mgr. greiða 15% álag af fjárhæð ofnýtts frádráttar.

Alþingi, 30. maí 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Willum Þór Þórsson. Brynjar Níelsson.
Vilhjálmur Bjarnason. Sigríður Á. Andersen. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara. Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Valgerður Bjarnadóttir,
með fyrirvara.