Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1589  —  762. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um innflutning á kjöti frá Grænlandi.


     1.      Hyggst ráðherra breyta reglum um meðferð kjöts sem ferðalangar frá Grænlandi taka með sér til Íslands á leið til þriðja lands, og ef svo er, hvenær verður það?
    Samráð hefur farið fram á milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, tollyfirvalda og Matvælastofnunar varðandi framkvæmd umflutnings um Ísland í þeim tilgangi að auðvelda farþegum frá Grænlandi að taka með sér dýraafurðir í umflutningi til þriðja lands. Það hefur nú borið þann árangur að nýtt fyrirkomulag hefur tekið gildi með setningu eftirfarandi leiðbeinandi reglna.
    Umflutningur um Ísland:
       a.      Hyggist farþegi flytja dýraafurðir til einkaneyslu um íslenskt yfirráðasvæði þarf ekki leyfi skv. 1. mgr. Heimilaður umflutningur er allt að 10 kg og skal eingöngu vera til einkaneyslu.
       b.      Farþega ber að framvísa vörunni við tolleftirlit í rauðu hliði tollafgreiðslusvæðis. Sé slíkt ekki gert er tollvörðum rétt að gera vöruna upptæka samkvæmt þeim reglum sem gilda þar að lútandi.
    Farþega ber að leggja fram afrit farseðils til staðfestingar áframhaldandi för sinni. Tollverðir innsigla og afhenda vöruna farþega á ný sem ber ábyrgð á vörslu vörunnar og að framvísa henni við tollyfirvöld á brottfararstað við brottför frá Íslandi til staðfestingar því að afurðin fari úr landi.

     2.      Hvaða tegundir kjöts falla undir reglurnar?
    Fyrst og fremst er um að ræða grænlenskt kjöt af sauðnautum og hreindýrum og fiskafurðir.

     3.      Telur ráðherra að einhver hætta sé á innflutningi búfjársjúkdóma samfara innflutningi ferðalanga frá Grænlandi á leyfilegu magni kjöts, 10 kg, þ.m.t. af sauðnautum, hreindýrum og ísbjörnum?
    Af öllum innflutningi getur stafað hætta, þó mismikil. Í þessu tilfelli er ekki verið að fjalla um innflutning til landsins heldur umflutning til þriðja lands, en gert er ráð fyrir að varan verði innsigluð við komuna til Reykjavíkurflugvallar og verði síðan framvísað við tollyfirvöld í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Hafa ber í huga að Grænland er eyja og hefur landið góða sjúkdómastöðu. Það þarf þó alltaf að vera á varðbergi, enda þótt einungis sé um að ræða umflutning um Ísland.