Ferill 854. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1621  —  854. mál.



Frumvarp til laga

um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita tímabundinn rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi.


2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi sem gefin hefur verið út og gerð aðgengileg almenningi.
    Nú fellur meira en 80% af kostnaði við hljóðritun til á Íslandi og er þá heimilt að endurgreiða 25% af þeim endurgreiðsluhæfa kostnaði sem fellur til á Evrópska efnahags­svæðinu.

    
3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Endurgreiðsluhæfur kostnaður: Sá kostnaður sem heimilt er að nota til útreiknings á endurgreiðsluupphæð, sbr. 6. gr.
     2.      Tónlist: Listgrein þar sem tónar og hljómar eru skipulega nýttir til ýmislegrar tjáningar í tónverki.
     3.      Útgáfa hljóðrita og aðgengi fyrir almenning: Hljóðrit telst gefið út og gert aðgengilegt almenningi þegar það er með réttri heimild boðið opinberlega til sölu, láns eða leigu eða dreift til almennings á annan hátt.
     4.      Útgefandi: Sá einstaklingur, hópur eða lögaðili sem er fjárhagslega ábyrgur fyrir útgáfu hljóðrita.


II. KAFLI
Umsóknarferli o.fl.
4. gr.
Umsókn.

    Umsókn um endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hér á landi skal berast ráðuneytinu ásamt fylgigögnum í síðasta lagi sex mánuðum eftir útgáfu nýjasta hljóð­ritsins sem sótt er um endurgreiðslu vegna.
    Sérstök fjögurra manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar nefndina og skulu tveir vera tilnefndir af Samtökum flytjenda og hljóm­plötuframleiðenda, þ.e. einn úr röðum flytjenda og einn úr röðum hljómplötuframleiðenda, einn tilnefndur af STEF og einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Vara­menn skal skipa á sama hátt. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn.
    Við mat á umsóknum um endurgreiðslu getur nefndin aflað álits sérfróðra aðila um hvort skilyrði 5. gr. séu uppfyllt.


5. gr.
Skilyrði endurgreiðslu fyrir útgáfu hljóðrita.

    Til að útgefandi geti hlotið endurgreiðslu vegna hljóðrita sem gefin hafa verið út og gerð aðgengileg almenningi skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt:
     a.      Samanlagður spilunartími tónlistar hljóðritanna nái 30 mínútum.
     b.      Hljóðritin séu gefin út á 18 mánaða tímabili.
     c.      Ekki séu liðnir sex mánuðir frá því að nýjasta hljóðritið var gefið út.
     d.      Sundurliðað bókhald liggi fyrir um endurgreiðsluhæfan kostnað sem féll til við hljóð­ritun ásamt afritum reikninga.
     e.      Upplýsingar liggi fyrir um þá aðila sem komu að hljóðritun og tónlistarflutningi.
     f.      Hljóðritin hafi verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi.
     g.      ISRC-kóða hafi verið úthlutað fyrir hljóðritin og fullnaðarskráningu hljóðritanna lokið á www.hljodrit.is.
     h.      Fullnaðarskráningu hljóðritaðra verka hafi verið lokið hjá viðurkenndum höfundaréttar­samtökum sem og höfundargreiðslu ef við á.
     i.      Upplýsingar liggi fyrir um það hvernig hljóðritin hafi verið gerð aðgengileg almenningi.
     j.      Útgefandi eigi ekki vangreidda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga eða aðrar van­goldnar opinberar kröfur.
    Hljóðritun tónlistar til kynningar á tiltekinni vöru eða þjónustu eða hljóðritun hljóðbóka nýtur ekki endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum.

    
III. KAFLI
Endurgreiðsla.
6. gr.
Endurgreiðsluhæfur kostnaður.

    Heimilt er að endurgreiða hluta af eftirfarandi kostnaði sem fellur til við hljóðritun hljóð­rita sem ekki hafa verið gefin út áður og gefin eru út á 18 mánaða tímabili:
     a.      Tímagjaldi í hljóðveri fyrir hljóðritun.
     b.      Launakostnaði aðkeyptra flytjenda eða tæknimanna sem fellur til við hljóðritun.
     c.      Eftirvinnslu (m.a. hljóðblöndun og lokahljóðvinnslu).
     d.      Ferða- og flutningskostnaði hljóðfæra og aðalflytjenda.
     e.      Eigin vinnu, sbr. 7. gr.
    Þegar hljóðritun á sér stað á tónleikum, sýningum eða annars konar viðburðum er einungis heimilt að reikna til þann hluta kostnaðarins sem eingöngu á við í beinum tengslum við hljóðritun, eftirvinnslu og réttindagreiðslur flytjenda.

7. gr.
Eigin vinna.

    Ef útgefandi og tæknimaður eða flytjandi er sami aðili skal honum heimilt að reikna inn í endurgreiðsluhæfan kostnað eigin laun sem samsvara einum mánaðarlaunum listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun.


8. gr.
Endurgreiðsla.

    Hlutfall endurgreiðslu skal vera 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til við hljóðritun.
    Sami útgefandi getur ekki fengið hærri endurgreiðslu en 30.000.000 kr. á þriggja ára tímabili.


IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
9. gr.
Aðrir styrkir.

    Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu hljóðrita dregst styrkurinn frá þeirri upphæð sem telst innlendur endurgreiðsluhæfur kostnaður.


10. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara. Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, umsóknir, af­greiðslu umsókna og um ákvörðun um endurgreiðslu.


11. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017. Lögin falla úr gildi 31. desember 2022. Endur­greiðslubeiðnir sem mótteknar hafa verið af ráðuneytinu fyrir þann tíma skulu hljóta af­greiðslu.
    Einungis er hægt að sækja um endurgreiðslu á hluta kostnaðar vegna hljóðrita sem gefin eru út og gerð aðgengileg almenningi eftir að lög þessi taka gildi.
    Fyrir 31. desember 2022 skal ráðherra framkvæma árangursmat á því hvaða áhrif lög þessi hafi haft á hljóðritun tónlistar hér á landi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að eitt af markmiðum hennar sé að tónlist njóti sömu hvetjandi ívilnana og kvikmyndagerð, þ.e. að hluti kostnaðar við tónlistar­upptökur verði endurgreiddur. Með frumvarpi þessu, sem samið er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og lagt fram af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er lagt til að komið verði á fót endurgreiðslukerfi vegna kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar á Íslandi.
    Við undirbúning frumvarpsins var kallaður saman starfshópur ráðuneytinu til ráðgjafar. Í honum sátu Erna Jónsdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda, Kjartan Guðbergsson, mark­aðsstjóri, Gray Line, Pétur Jónsson, upptökustjóri og eigandi Medialux, og Jónas Sigurðsson tónlistarmaður.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Íslenskur tónlistariðnaður hefur farið ört vaxandi undanfarin ár og er orðinn ein af mikilvægustu iðngreinum Íslands. Greinin gefur af sér umtalsverðan fjölda starfa á ársgrundvelli. Íslensk tónlist er einnig orðið þekkt vörumerki og mikilvæg landkynning þar sem æ fleiri íslenskir tónlistarmenn hasla sér völl á erlendri grundu. Má sem dæmi nefna að talað er um „hinn íslenska hljóm“ (the Icelandic sound) sem hefur vakið áhuga fjölmargra erlendra tónlistaráhugamanna á landi og þjóð og einnig orðið til þess að erlendir tónlistar­menn vilja koma hingað til lands og hljóðrita tónlist. Samkvæmt upplýsingum frá Félagi hljómplötuframleiðenda hefur sala áþreifanlegra hljómfanga (hljómplatna, hljóðsnælda og geisladiska) varað lengur á Íslandi en öðrum mörkuðum en nú er mikill samdráttur staðreynd hérlendis eins og annars staðar. Það má því segja að ekki sé lengur grundvöllur fyrir starfsemi íslenskra útgefenda. Nokkuð er í land með að tekjur af stafrænni dreifingu standi undir virkri fjárfestingu í nýrri tónlist. Í eftirfarandi töflu má sjá þróun íslenskrar tónlistar­útgáfu síðastliðinna ára:

Fjöldi útgefinna laga Fjöldi útgefinna breiðskífa
2012 2.000 150
2013 2.000 150
2014 1.500 140
2015 1.400 130

    Tónlistariðnaðinum sem iðngrein hefur ekki verið skapaður nægilega traustur grundvöllur eða skilyrði til að þrífast sem fjárhagslega sjálfstæð og öflug atvinnugrein sem skilar verulegum tekjum til þjóðarbúsins. Þessi veika staða hefur leitt til atgervisflótta hæfileika­fólks úr tónlistariðnaðinum. Með minnkandi bolmagni útgáfuaðila á Íslandi hefur tónlistar­útgáfa dregist saman og að mörgu leyti færst á hendur erlendra aðila. Í þessu felst að mikil­væg þekking flyst úr landi. Tónlistarmenn munu í auknum mæli telja ákjósanlegra að fara á samning hjá erlendum útgefendum og að sama skapi verður ekki til sú þekking og reynsla eins og ef íslenskur útgefandi kæmi að útgáfunni. Þá skal einnig nefna þá þætti hljóðritunar sem snúa að iðnaðinum sjálfum, þ.e. hljóðverum og tæknimönnum. Fækkun verkefna mun veikja iðnaðinn. Tímabundnar ívilnanir til þeirra sem fjármagna hljóðritun tónlistar er skynsamleg leið til að sporna við þessari þróun og styðja við íslenskan tónlistariðnað.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Við samningu frumvarpsins var litið til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvik­myndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999. Hljóðritun tónlistar er mun viðaminni en framleiðsla kvikmynda og var því lagt upp með að fylgja endurgreiðslukerfi kvikmyndanna að megin­stefnu en leitast við að setja upp einfaldara kerfi þar sem búast má við að umsóknir um endurgreiðslu vegna hluta upptökukostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar verði mun fleiri en umsóknir um endurgreiðslu vegna hluta framleiðslukostnaðar sem fellur til við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis.
    Markmið frumvarpsins er að efla tónlistariðnaðinn sem iðngrein hér á landi með því að styðja við hljóðritun tónlistar. Í frumvarpinu er lagt til að það séu útgefendur sem njóti ívilnana í formi endurgreiðslu á hluta af kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar. Gert er að skilyrði að hljóðritin hafi verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi, útgáfa hljóðrita er ekki bundin við áþreifanlega hluti heldur getur einnig verið rafræn. Við samningu frumvarpsins var skoðaður sá möguleiki að láta endurgreiðslukerfið ná yfir hljóðritun einstakra laga annars vegar og svo safn laga sem gefin eru út saman á breiðskífu (LP) hins vegar. Ekki þótti álitlegur kostur að láta endurgreiðslukerfið ná til einstakra laga með tilliti til fjölda umsókna sem þá kynnu að berast. Þá var einnig litið til þess að hinn fjárhagslegi þröskuldur væri hærri þegar um væri að ræða stærri verkefni. Á hinn bóginn var einnig talið að það væri ekki í takt við samtímann að koma fram með frumvarp sem þetta og leggja til að einungis yrði stutt við útgáfu breiðskífa þar sem slík útgáfa er á undanhaldi. Niðurstaða starfshópsins var að leggja til að heimilt yrði að endurgreiða hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun á tónlist sem spannar samanlagðan lágmarksspilunartíma og að þau hljóðrit sem sótt er um endurgreiðslu fyrir séu gefin út á 18 mánaða tímabili af sama útgefanda. Ljóst er að flest þau hljóðrit sem falla þarna undir eru gefin út saman á breiðskífu en í frumvarpinu er hins vegar ekki gerð krafa um það. Þannig verður endurgreiðslukerfið einnig opið fyrir umsóknir fyrir hljóðrit sem gefin eru út sem stök lög af sama útgefanda ef samanlagður spilunartími þeirra nær 30 mínútum og þau eru gefin út á 18 mánaða tímabili.
    Lagt er til að umsóknum skuli skila til ráðuneytisins innan sex mánaða eftir að yngsta hljóðritið hefur verið gefið út og gert aðgengilegt almenningi. Frumvarpið mælir fyrir um að ráðherra skipi nefnd sem fari yfir umsóknir og geri tillögur til ráðherra um hvort umsóknirnar uppfylli skilyrðin. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir eftir tilnefningu frá Samtökum flytjenda og hljómplötuframleiðenda og gerð sú krafa að einn verði valinn frá hvorum fyrir sig, þ.e. að annar verði tilnefndur fyrir hönd flytjenda og hinn fyrir hönd hljómplötu­framleiðenda. Þá skal einn vera tilnefndur af STEF og einn skipaður án tilnefningar.
    Þá er lagt til að eingöngu verði hægt að sækja um endurgreiðslu af hluta þess kostnaðar sem talinn er í 6. gr. frumvarpsins: hljóðverskostnaðar, launakostnaðar, eftirvinnslu, ferða- og flutningskostnaðar (á hljóðfærum) og eigin vinnu, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Er þetta gert til að halda endurgreiðslukerfinu sem einföldustu og skilvirkustu.
    Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall endurgreiðslunnar sé 25% af þeim kostnaði sem talinn er í 6. gr. frumvarpsins. Hafi umsækjandi hlotið opinberan styrk við vinnslu eða útgáfu hljóðritanna muni sá styrkur verða dreginn frá endurgreiðsluupphæðinni. Þá er lagt til að sami útgefandi geti ekki fengið meira en 30 millj. kr. endurgreiddar á þriggja ára tímabili. Er þetta gert til að halda endurgreiðslukerfinu innan reglna um minniháttaraðstoð, sbr. umfjöllun í næsta kafla.
    Að lokum er gert ráð fyrir því að gildistími laganna verði til 31. desember 2022 og mælt er fyrir um að áður en gildistími þeirra renni út skuli framkvæma árangursmat á áhrifum laganna á hljóðritun tónlistar hér á landi.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Tillögurnar fela í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES- samningsins). Í ákvæðinu er að finna almennt bann við ríkisaðstoð. Frá því banni eru þó ákveðnar undantekningar líkt og fram kemur í 2. og 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins og afleiddri löggjöf Evrópusambandsins sem tekin hefur verið upp í viðauka EES-samningsins. Eina slíka undanþágu er að finna í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minni­háttaraðstoð sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 98/2014. Samkvæmt bókun 3 við EES-samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls ber aðildarríkjunum almennt að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um fyrirhugaða ríkisaðstoð og bíða samþykkis stofnunarinnar áður en aðstoðin er veitt. Stjórnvöld þurfa þó ekki að leita samþykkis ESA ef framlög til hvers fyrirtækis fara ekki yfir 200.000 evrur á þriggja ára tímabili. Tillögur frumvarpsins miða að því að endurgreiðslukerfið falli undir minniháttaraðstoð þar sem hver útgefandi geti ekki fengið meira en 30 millj. kr. endurgreiddar á þriggja ára tímabili.
    Þá er í frumvarpinu tekið tillit til 36. gr. EES-samningsins um þjónustufrelsi með því að heimila endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til innan EES-svæðisins en utan Íslands hvað varðar þjónustufrelsi, sbr. 2. mgr. 2. gr., og vísast til frekari umfjöllunar um þá grein.

V. Samráð.
    Starfshópurinn hittist þrisvar sinnum á undirbúningstíma frumvarpsins. Þá var einnig haft samráð við Rannsóknamiðstöð Íslands varðandi útfærslu á umsóknarferli og mennta- og menningarmálaráðuneyti til að tryggja samræmi við höfundaréttarlöggjöfina. Frumvarpið var kynnt fyrir starfshópi um hljóðritunarsjóð og einnig var haft samráð við STEF. Þá var við vinnu frumvarpsins einnig haft samband við nokkrar tónlistarútgáfur til að fá raunhæft mat á kostnaði frumvarpsins.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Erfitt er að áætla hver meðalendur­greiðsluupphæð á umsókn verður og einnig hversu margar umsóknir munu berast ráðuneyt­inu. Kostnaður við hljóðritun tónlistar getur verið mjög misjafn og kostnaðarliðir breyst mikið milli verkefna og flytjenda. Starfshópurinn gerði gróflega áætlun í samráði við nokkur útgáfufyrirtæki á þeim kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar og fellur undir gildissvið frumvarpsins.
Tímagjald í hljóðveri 400.000 kr.
Upptökumaður 600.000 kr.
Aðstoðarhljóðfæraleikarar 400.000 kr.
Hljóðblöndun (mixing) 600.000 kr.
Lokahljóðvinnsla (mastering) 150.000 kr.
Flutnings- og ferðakostnaður 50.000 kr.
Laun 300.000 kr.
Samtals 2.500.000 kr.

    Samkvæmt þessari áætlun er gert ráð fyrir að meðalendurgreiðsla fyrir hverja samþykkta umsókn verði um 625 þús. kr. Ef gert er ráð fyrir 130 samþykktum umsóknum á ári mun áætlaður heildarkostnaður við beinar endurgreiðslur nema u.þ.b. 81 millj. kr. á ári.
    Samkvæmt upplýsingum Félags hljómplötuframleiðenda er stærsta starfandi útgáfufyrir­tækið á Íslandi í dag Sena. Önnur útgáfufyrirtæki eru t.d. Record Records, Smekkleysa, 12 tónar, Dimma, Blánótt, Hekla Records, Geimsteinn og Zonnet. Sena gaf út u.þ.b. 13 titla á síðasta ári sem falla undir gildissvið frumvarpsins. Önnur útgáfufyrirtæki gefa út á bilinu 1–10 titla á ári. Ekki er hér um tæmandi talningu útgáfufyrirtækja að ræða heldur er til­gangurinn að sýna fram á fjölbreytnina í útgáfufyrirtækjum og sýna fram á að endurgreiðslur muni ekki einskorðast við fá og stór útgáfufyrirtæki. Þá er mjög algengt að tónlistarmenn gefi út hljóðrit sín sjálfir og séu þannig einnig í hlutverki útgefanda. Gróflega áætlað er talið að af þeim 140 titlum sem gefnir voru út árið 2014 hafi um það bil 90 verið gefnir út í sjálfs­útgáfu. Ætla má að þetta hefði skilað sér í 100 umsækjendum og hefðu um 10 þeirra sótt um endurgreiðslu vegna fleiri en eins verkefnis ef umsóknaheimtur hefðu verið 100%. Árið 2015 voru gefnir út um 130 titlar og af þeim voru um það bil 90 gefnir út í sjálfsútgáfu. Ætla má að þetta hefði skilað sér í 100 umsækjendum og hefðu um 10 þeirra sótt um endurgreiðslu vegna fleiri en eins verkefnis ef umsóknaheimtur hefðu verið 100%. Skilgreiningin á sjálfsútgáfu í þessari áætlun er útgefandi sem aðeins gefur út efni með sjálfum sér sem flytjanda. Þar á bak við geta verið fyrirtæki í einhverjum rekstri, hljómsveitir eða hópar, eða nánast einstaklingar. Óhætt er að spá því að sjálfsútgáfa aukist.
    Þeir fjármunir sem veittir verða í endurgreiðslukerfi fyrir hluta upptökukostnaðar við hljóðritun tónlistar munu því dreifast á marga útgefendur. Verði frumvarp þetta að lögum mun það styrkja innviði tónlistariðnaðarins og verða hvatning fyrir innlenda sem erlenda aðila til að hljóðrita tónlist hér á landi. Þá mun umsóknarferlið einnig leiða af sér auknar hagupplýsingar varðandi tónlistarútgáfu hér á landi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður við framkvæmd þess verði u.þ.b. 81 millj. kr. á ári. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum útgjöldum í útgjalda­ramma gildandi fjárlaga og er því lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2017. M mun því þurfa að finna þeim stað innan útgjaldaramma þessa málaflokks atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum. Ekki er gert ráð fyrir öðrum kostnaði við framkvæmd laganna en endurgreiðslukostnaðinum sjálfum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Markmið laganna er að efla íslenskan tónlistariðnað. Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi. Tónlistarútgáfa er að öllu jöfnu óarðbær og lifa tónlistarmenn yfirleitt af öðrum tekjum en ein­ungis sölu útgefinnar tónlistar. Það eru útgefendur sem greiða kostnað við hljóðritun tónlistar og taka fjárhagslega áhættu á útgáfu hljóðrita og því er lagt til að þeir hljóti endurgreiðsluna. Er þess vænst að endurgreiðslukerfið verði hvatning til hljóðritunar á tónlist og tónlistar­útgáfu.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er gildissvið frumvarpsins skilgreint. Hugtakið tónlist er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins og við ákvörðun á því hvaða hljóðritun tónlistar fellur undir lögin er gert ráð fyrir því að það sé tónlist sem gefin hefur verið út og gerð aðgengileg almenningi. Um skilgreiningu á því hvenær tónlist telst hafa verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi er rétt að líta til 2. mgr. 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 9/2016, um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir), en þar segir að verk teljist gefið út þegar eintök af því hafa með réttri heimild verið boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim dreift til almennings á annan hátt. Gera má ráð fyrir að einhverjir aðilar muni einungis gefa út rafræn hljóðrit og því ekki á áþreifanlegu hljómfangi (hljómplötu, hljóðsnældu eða geisladiski). Telst hljóðrit vera gefið út ef tónlistin er birt á netinu og gerð þannig aðgengileg almenningi.
    Í 2. mgr. gerir frumvarpið ráð fyrir að við útreikning á endurgreiðslu vegna kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar skuli heimilt að endurgreiða kostnað sem eingöngu fellur til á Íslandi að því gefnu að 80% eða minna af kostnaði þeim sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu falli til á Íslandi. Falli meira en 80% af kostnaðinum til á Íslandi skal endurgreiðsla reiknast af heildarkostnaði sem fellur til við upptöku tónlistar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Áþekkt ákvæði er í lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvik­myndagerðar, nr. 43/1999, eins og þeim var breytt með lögum nr. 177/2000 í kjölfar ábend­inga frá Eftirlitsstofnun EFTA um að lögin samræmdust ekki reglum EES-samningsins um þjónustufrelsi. Er því gert ráð fyrir að þær reglur séu uppfylltar með þessu ákvæði.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að nokkur af helstu hugtökum frumvarpsins verði skilgreind. Út­gefandi í skilningi frumvarpsins er sá aðili sem ber fjárhagslega ábyrgð á útgáfu hljóðritanna. Útgefandi getur verið lögaðili eða annar aðili sem sérhæfir sig í útgáfu á hljóðritum, listamaðurinn sjálfur, hópur sem stendur að útgáfu hljóðrita eða hver annar aðili sem tekur að sér útgáfu hljóðrita. Skilgreining á hugtakinu tónlist er fengin úr Íslenskri orðabók og er hugtakið skilgreint mjög vítt. Þegar metið er hvað er tónlist verður að hafa í huga marg­breytileika tónlistar. Þá nær hugtakið tónlist yfir allar tónlistarstefnur enda einskorðast frumvarpið ekki við sérstaka stefnu. Endurgreiðsluhæfur kostnaður er sá kostnaður sem talinn er í 6. gr. frumvarpsins og er það einungis sá kostnaður sem heimilt er að reikna endur­greiðsluna af. Við skilgreiningu á því hvenær hljóðrit teljast hafa verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi var litið til höfundalaga, nr. 73/1972, eins og þeim var breytt með lögum nr. 9/2016. Vísast til þeirra, og einnig til umfjöllunar í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að umsóknum verði skilað til ráðuneytisins og ráðherra taki ákvarðanir um endurgreiðslur á hluta kostnaðar við hljóðritun tónlistar sem gefin hefur verið út og gerð aðgengileg almenningi. Ákvörðun ráðherra er kæranleg til dómstóla. Sett eru þau tímamörk að umsóknum skuli skila innan sex mánaða frá útgáfu nýjasta hljóðritsins. Þetta þýðir að ef sótt er um fyrir nokkur hljóðrit frá sama útgefanda, sem ekki hafa verið gefin út á sama tíma heldur innan sama 18 mánaða tímabils, skal það hljóðrit sem síðast var gefið út hafa verið gefið út innan sex mánaða. Þykir þetta hæfilegur tími og á að vera hvetjandi fyrir útgefendur til að ljúka umsókn sem fyrst eftir útgáfu hljóðrita. Skili aðili inn gögnum en umsókn telst ófullkomin skal umsóknin teljast komin á réttum tíma. Ráðuneytið skal leiðbeina umsækjanda um það hvaða gögn vantar til að umsókn teljist fullgild. Sé réttum gögnum ekki skilað innan hæfilegs frests skal umsókn falla úr gildi. Ekki eru sett tímamörk um þann frest sem ráðherra hefur til að taka ákvörðun um endurgreiðslu en gott er að miða við þrjá mánuði.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra skipi fjögurra manna nefnd. Gerð er sú tillaga að Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) tilnefni tvo menn (flytjanda og útgefanda), einn verði tilnefndur af STEF og að einn verði skipaður án tilnefningar.
    Í 3. mgr. er lagt til að nefndin hafi heimild til að kalla til sín sérfróða menn um það hvort skilyrði til endurgreiðslu séu uppfyllt. Tilvik sem gætu fallið hér undir væru t.d. ef reikningar væru óskýrir, einhver ákveðinn kostnaðarliður hærri en almennt telst eðlilegt, hvað telst eðlilegur hluti kostnaðar af hljóðritun lifandi flutnings o.s.frv.

Um 5. gr.

    Í greininni eru talin upp þau skilyrði sem hljóðrit þurfa að uppfylla til að útgefandi geti fengið endurgreiðslu á hluta kostnaðarins sem féll til við hljóðritun. Öll skilyrðin eru ófrá­víkjanleg.
    Í a- og b-lið eru gerðar þær kröfur að samanlagður spilunartími hljóðritanna sé ekki undir 30 mínútum og að þau séu gefin út á 18 mánaða tímabili. Hér er að vissu leyti verið að vísa til þess sem í daglegu tali eru nefndar breiðskífur (LP) en þó er flytjendum og útgefendum veitt það svigrúm að þurfa ekki að gefa öll hljóðritin út á sama tíma. Ekki er gerð krafa um að það sé sami aðalflytjandi á hljóðritunum heldur getur sami útgefandi sótt um endur­greiðslu vegna kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hjá fleiri en einum flytjanda sem hann gefur út að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í c-lið er gerð sú krafa að ekki megi vera lengra en sex mánuðir frá því að nýjasta hljóðritið var gefið út. Er þessi krafa gerð til þess að útgefendur dragi ekki umsóknir sínar um of. Í d-lið er gerð sú krafa að allur endurgreiðslu­hæfur kostnaður skuli vera bókfærður. Í e-lið er tekið fram að skila skuli inn upplýsingum um þá aðila sem komu að hljóðritun tónlistar og tónlistarflutningi. Í 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er mælt fyrir um að gera skuli mat á áhrifum frumvarpsins verði það að lögum. Við slíkt mat er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um aldur, kyn og dreifingu umsækjenda á landsvísu. Í f-lið er gert að skilyrði að hljóðritin hafi verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi og vísast til 3. gr. frumvarpsins sem og almennra athugasemda um nánari skýringu á því hvenær hljóðrit telst gefið út og gert aðgengilegt almenningi. Í g-lið er gert að skilyrði að fenginn hafi verið ISRC-kóði (International Standard Recording Code) fyrir hljóðritin og fullnaðarskráningu á www.hljodrit.is sé lokið. ISRC-kóði er staðall sem skráir hvert brot af leikinni tónlist á stafrænt form. Sótt er um skráningu fyrir langflest hljóðrit í dag á www.hljodrit.is þar sem þessi skráning er m.a. notuð til að fylgjast með spilun hljóðritanna. Vefsíðunni er haldið úti af SFH (Samtökum hljómplötuframleiðenda og flytjenda) og er megintilgangur síðunnar skráning laga. Í h-lið er gert að skilyrði að höfundarverkin hafi fengið fullnaðarskráningu hjá viðurkenndum höfundaréttarsamtökum og í þeim tilvikum þegar þau eru gefin út á eiginlegum eintökum (til að mynda LP eða CD) skal útgefandi sýna fram á að gengið hafi verið frá greiðslu höfundargjalda. Í i-lið er beðið um upplýsingar um það hvernig staðið hefur verið að dreifingu hljóðritanna. Ekki er gerð krafa um ákveðna lágmarksdreifingu heldur eingöngu að hljóðritin hafi farið í dreifingu. Hins vegar er mjög mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir svo hægt sé að fylgjast með þróun á tónlistar­mörkuðum. Til að mynda verður sumum hljóðritum eingöngu dreift stafrænt en öðrum dreift í efnislegum eintökum. Að lokum er gerð sú krafa í j-lið að útgefandi skuldi ekki skatta eða önnur opinber gjöld.
    Í 2. mgr. er upptalning á því hvaða hljóðrit falla ekki undir frumvarpið.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að einungis verði heimilt að reikna endurgreiðsluupphæðina af ákveðnum skilgreindum kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar. Í a-lið ákvæðisins er lagt til að tímar í hljóðveri falli undir endurgreiðsluhæfan kostnað en það er einn stærsti kostnaðarliðurinn við hljóðritun. Ef útgefandinn er eigandi hljóðversins er heimilt að miða við verð á útseldum tíma í hljóðverinu. Í b-lið er lagt til að launakostnaður aðkeyptra flytj­enda eða tæknimanna sé endurgreiðsluhæfur, þ.e. launakostnaður aukahljóðfæraleikara sem fengnir eru til að koma og spila í hljóðverinu með þeim listamanni eða listamönnum sem verið er að hljóðrita og aukatæknimönnum sem ekki vinna að staðaldri í hljóðverinu. Í c-lið er eftirvinnsla tilgreind og þar er m.a. tekið fram að hljóðblöndun og lokahljóðvinnsla (mixing og mastering) falli þar undir. Í d-lið er talað um ferða- og flutningskostnað fyrir aðalflytjendur og hljóðfæri. Hér er átt við þann kostnað sem fellur til þegar verið er að flytja hljóðfæri til og frá hljóðveri sem og kostnað aðalflytjenda ef þeir koma langt að eða jafnvel kostnað erlendra aðalflytjenda sem koma til Íslands til þess að hljóðrita tónlist. Hér er hvorki átt við leigubílakostnað eða þess háttar til og frá hljóðveri né daglegan bensínkostnað á eigin bíl meðan á hljóðritun stendur. Um e-lið vísast til skýringa við 7. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er fjallað um þau tilvik þegar lifandi flutningur er hljóðritaður til útgáfu. Í slíkum tilfellum stendur tónleikahaldari undir öllum kostnaði við tónleikahaldið og er sá kostnaður ekki endurgreiðsluhæfur. Sá kostnaður sem hér gæti talist endurgreiðsluhæfur er til að mynda réttindagreiðslur til flytjenda vegna útgáfu, hljóðritunin sjálf, eftirvinnsla í hljóðveri, hljóðblöndun og lokahljóðvinnsla. Ekki væri heimilt að reikna inn í upphæðina laun flytjenda meðan á flutningnum stendur eða flutning á hljóðfærum. Strangt mat skal vera á því hvort kostnaður telst endurgreiðsluhæfur samkvæmt þessari grein.

Um 7. gr.

    Þekkt er að tónlistarmenn gefi út tónlist sína sjálfir og sjái um stóran hluta hljóðfæra­leiksins. Í þeim tilfellum er útgefanda heimilt að reikna sér laun sem samsvara einum mán­aðarlaunum listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun, nr. 57/2009, þar sem segir að starfslaun skuli nema 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga 2009. Starfslaun eru veitt listamanni sem telst sjálfstætt starfandi í listgrein sinni. Fjárhæð starfslauna skal koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Um 8. gr.

    Lagt er til að endurgreiðsluhlutfallið verði 25% af þeim kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar og talinn er í 6. gr. frumvarpsins. Með því að takmarka þá kostnaðarliði sem heimilt er að reikna upp í endurgreiðsluna er talið vera svigrúm til að hafa hlutfallið 25% af kostnaðinum.
    Vegna reglna um ríkisstyrki er ekki heimilt að veita sama útgefanda meira en 30 millj. kr. endurgreiðslu vegna útgáfu hljóðrita nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þyrfti að tilkynna slíka aðstoð til ESA. Með því að setja þak á styrki fellur umrædd ríkisaðstoð undir reglur um minniháttaraðstoð og er þar af leiðandi ekki tilkynningarskyld til ESA. Nánar er fjallað um ríkisstyrkjareglur EES-samningsins í almennum athugasemdum.

Um 9. gr.

    Í greininni er tekið á því hvernig fara skuli með aðrar fjárveitingar frá ríkinu og sveitar­félögum vegna sömu hljóðritunar. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að hið opinbera styrki sömu hljóðritun tvisvar. Ekki eru frádregnir styrkir frá einkasjóðum eða einkaaðilum.

Um 10. gr.

    Í greininni er almenn reglugerðarheimild til handa ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Gerð er tillaga um að ráðherra sé heimilt að setja reglur um frestun á endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar. Þá er gert ráð fyrir að ítarlegri reglur um umsóknarferlið verði settar í reglugerð og nánar tilgreint þar hvaða gögnum skuli skila með umsókninni.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2017. Sú tímasetning miðar að því að búið verði að undirbúa framkvæmd laganna, svo sem með setningu reglugerða, sbr. 10. gr. frumvarpsins, og finna þeim stað innan útgjaldaramma þessa málaflokks ráðuneytisins í fimm ára fjármála­áætlun sem og í fjárlögum. Þá er einnig lagt til að lögin verði einungis tímabundin og falli úr gildi 31. desember 2022. Er þetta gert til þess að hægt sé að meta hvort lagasetningin nái fram markmiði sínu og að ívilnanir fyrir tónlistarupptökur sé rétt leið til þess að efla tónlistar­iðnaðinn.
    Áður en lögin falla úr gildi skal framkvæma árangursmat. Í árangursmatinu verður skoðað hvort endurgreiðslukerfið hafi náð fram því markmiði að styðja við hljóðritun tónlistar. Skoða skal m.a. hvaða áhrif endurgreiðslukerfið hefur haft á hljóðritun tónlistar, hvort aukning hafi verið í hljóðritun og útgáfu tónlistar og hvort endurgreiðslukerfið hafi haft þau áhrif að erlendir flytjendur hafi komið í auknum mæli til að hljóðrita tónlist á Íslandi. Þá skal skoða hvort lögin hafi þau áhrif að fleiri flytjendur gefi út hljóðrit sín sjálfir eða hvort þróunin verður sú að umsvif útgáfufyrirtækja í tónlistarútgáfu aukist.