Ferill 872. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1687  —  872. mál.
Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarum skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2015.


    Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum, m.a. opnum fundi 6. september 2016, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um þingsköp Alþingis. Á opna fundinn komu Tryggvi Gunnarsson, um­boðsmaður Alþingis, Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðstoðarmaður umboðsmanns, og Berglind Bára Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu umboðsmanns Alþingis.
    Í skýrslunni er yfirlit yfir störf umboðsmanns Alþingis á árinu 2015 og vakin athygli á meginþáttum í starfsemi embættisins. Í skýrslunni eru jafnframt tölulegar upplýsingar um skráð mál og afgreiðslu þeirra árið 2015 og umfjöllun um álit og aðrar niðurstöður í málum afgreiddum árið 2015.
    Á opnum fundi nefndarinnar var fjallað um helstu ábendingar í skýrslunni sem umboðs­maður vakti athygli á. Þá var sérstaklega fjallað um uppbyggingu íslenskrar stjórnsýslu og fagþekkingu innan hennar auk þess sem rætt var um eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna.

Málaflokkar og málshraði í stjórnsýslunni.
    Í skýrslunni er fjallað um helstu málaflokka hjá embættinu á árinu 2015. Fram kemur að á undanförnum árum hafa flest mál sem koma til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis beinst að töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum og varð ekki breyting á því á árinu 2015. Fram kemur að umboðsmaður Alþingis hafi leitast við að fylgjast með því hvort almennur eða kerfislægur vandi kunni að vera fyrir hendi hjá tilteknum stjórnvöldum við afgreiðslu mála, auk þess hafi verið reynt að leysa úr kvörtunum vegna einstakra mála og áhersla verið lögð á tilvik þar sem málsmeðferðartími virtist fara talsvert umfram lögbundin eða viðhlítandi tímamörk og málaflokka sem varða mikilvæga hagsmuni.
    Á opna fundinum var rætt um að það væri mismunandi hvaða málaflokkar væru áberandi eða reyndi helst á hjá stjórnvöldum á hverjum tíma og að það gæti valdið stofnunum erfið­leikum þegar svo ber undir. Þá kom fram að lögð hefði verið áhersla á að fylgjast með töfum hjá stjórnvöldum við afgreiðslu mála er varða m.a. hælisleitendur og fanga, þ.e. mál þar sem langur afgreiðslutími getur haft mikla þýðingu fyrir þá sem um ræðir.
    Fram kom að aðrir málaflokkar sem hefðu verið fyrirferðarmiklir hjá embætti umboðs­manns Alþingis endurspegluðu jafnan viðfangsefni stjórnvalda á hverjum tíma. Á árinu hefðu mál tengd opinberum starfsmönnum, almannatryggingum, fjármála- og tryggingastarfsemi og sköttum og gjöldum verið áberandi.
    Nefndin leggur áherslu á að stjórnvöld vinni skilvirkt að því að draga úr töfum á af­greiðslu mála. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að þegar ljóst sé að álag á tiltekin stjórn­völd aukist vegna breyttra viðfangsefna stjórnvalda á hverjum tíma verði að bregðast við og koma í veg fyrir málahalla og tafir sem erfitt getur orðið að vinna úr.

Framkvæmd stjórnsýslulaga og óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.
    Varðandi framkvæmd stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráðar grundvallarreglur stjórn­sýsluréttar vakti umboðsmaður athygli nefndarinnar á réttmætisreglu stjórnsýsluréttar en í henni felst að athafnir og ákvarðanir stjórnvalda verða að byggjast á málefnalegum sjónar­miðum. Við mat á því hvort sjónarmið teljist málaefnalegt verður m.a. að horfa til jafn­ræðisreglna, þar á meðal jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Af ákvæðinu leiðir t.d. að við ákvörðun um ráðningu í opinbert starf, þar sem valið er á milli umsækjenda, er almennt ekki heimilt að líta til þátttöku umsækjenda í stjórnmálastarfi, hvorki honum til framdráttar né að það komi niður á umsækjenda í ráðningarferlinu. Hér ber einnig að líta til verndar tjáningar­frelsis. Frá þessu eru þó þröngar undantekningar, t.d. þegar það leiðir af lögum að heimilt sé að líta til slíkra skoðana við ráðningu í starf. Einnig er ekki loku fyrir það skotið að þátttaka í stjórnmálastarfi geti haft áhrif á það traust sem umsækjandi verður að njóta í starfi og teljist þar með málefnalegt sjónarmið við mat á honum í starfið.
    Þá var rætt um að stjórnvöld yrðu að gæta að þeirri skyldu sinni að veita borgurum viðeigandi kæruleiðbeiningar þar sem stjórnsýslukerfið getur verið flókið og mikilvægt er að borgarar fái upplýsingar um hvert þeir geti leitað til að fá ákvörðun endurskoðaða.
    Nefndin leggur áherslu á að stjórnvöld vandi ákvarðanatöku við ráðningar í opinber störf og gæti að grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Nefndin undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að stjórnvöld sinni leiðbeiningarskyldu gagnvart borgurunum.

Málafjöldi og afgreiðslutími.
    Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2015 hafi verið skráð 439 ný mál og kvörtunum hafi fækkað um 11% frá árinu áður. Engin ný frumkvæðismál hafi verið tekin upp á árinu en einu slíku máli lauk í ársbyrjun. Á árinu hafi 450 mál verið afgreidd en þau voru 558 árið áður og er þetta þriðja árið í röð sem afgreidd mál á árinu eru fleiri en mál sem berast embættinu. Í árslok 2015 hafi þannig lokið afgreiðslu nær 90% þeirra kvartana sem bárust á árinu. Rúmlega 57% þeirra mála hafi lokið innan eins mánaðar en um 90% mála ársins 2015 lauk innan fjögurra mánaða og um 94% innan sex mánaða frá því að kvörtun barst.
    Fyrir nefndinni var rætt um að embætti umboðsmanns hefði náð góðum árangri í að stytta afgreiðslutíma kvartana með breytingum á innra skipulagi. Til viðbótar við skráðar kvartanir bærust umboðsmanni þó einnig fjölmargar fyrirspurnir og færi drjúgur tími hjá embættinu í að veita borgurum leiðbeiningar og ráðgjöf. Það lægi þó einnig fyrir að kvörtunum hefur fækkað. Í ljósi þessa má ætla að á næstunni gefist embættinu tækifæri á að leggja einnig frekari áherslu á önnur verkefni, m.a. frumkvæðismál.
    Nefndin telur að mikilvægar og góðar breytingar hafi verið gerðar á skipulagi embættisins að því er varðar afgreiðslu kvartana frá borgurum. Nefndin telur áherslur umboðsmanns Alþingis í þessum efnum eðlilegar í ljósi þess hlutverks sem umboðsmaður gegnir gagnvart bæði borgurunum og Alþingi og þess trausts sem hann nýtur. Nefndin leggur áherslu á að umboðsmaður Alþingis verði þó einnig að geta sinnt frumkvæðisathugunum og telur jákvætt ef svigrúm myndast fyrir frekari vinnu embættisins í slíkum málum.

Frumkvæðismál.
    Í skýrslu umboðsmanns kemur fram að engin ný frumkvæðismál hafi verið tekin upp á árinu 2015 en einu slíku máli lauk í ársbyrjun. Ljóst er að síðustu ár hefur embættið aðeins í takmörkuðum mæli getað sinnt athugunum mála að eigin frumkvæði vegna álags. Umboðsmaður hefur hins vegar í ákveðnum tilvikum farið þá leið að senda stjórnvöldum fyrirspurnir þegar hann hefur talið þörf á að kanna hvort tilefni sé til að ráðast í frumkvæðis­athuganir, þ.e. svokölluð forathugunarmál. Stjórnvöld geta þá brugðist við og jafnvel endur­skoðað mál og verkferla ef ástæða er til án frekari aðkomu umboðsmanns að málinu.
    Á fundinum var rætt um breyttar aðstæður hjá embætti umboðsmanns Alþingis vegna færri kvartana og hvort auknar fjárveitingar þyrfti til þess að umboðsmaður hefði svigrúm til frumkvæðisathugana. Upplýst var að embættið hefði hafið undirbúning átaks til að ljúka eldri málum og skipuleggja þessa starfsemi embættisins til framtíðar. Þá kom fram að gert væri ráð fyrir fjármagni í frumkvæðisathuganir í áætlunum fyrir næsta ár.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að embættinu sé unnt að sinna frumkvæðisathug­unum til að tryggja réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins og stuðla að umbótum í íslenskri stjórnsýslu. Nefndin hefur áður bent á að forvarnargildi getur falist í þessum verkefnum embættisins ef um er að ræða kerfislæg vandamál og kvörtunum til umboðsmanns Alþingis getur þannig fækkað. Nefndin telur mikilvægt að umboðsmaður hefji forathugunarmál þegar ekki hafi verið möguleiki á að ráðast í frumkvæðisathuganir. Nefndin telur þó brýnt að Alþingi hugi að umfangi starfsemi umboðsmanns og telur grundvallaratriði að embættið fái nauðsynlegar fjárveitingar til að sinna þessum athugunum.

Viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns og sjálfstæð stjórnvöld.
    Á fundinum með umboðsmanni Alþingis var rætt um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns. Fram kom að stjórnvöld hefðu í öllum tilvikum á árinu 2015 farið eftir bæði sérstökum og almennum tilmælum umboðsmanns Alþingis.
    Umboðsmaður Alþingis vakti hins vegar athygli nefndarinnar á því að í síðustu ársskýrslu hefði komið fram að í þeim tilvikum þegar stjórnvöld fóru ekki að tilmælum umboðsmanns væri oftast um að ræða sjálfstæð stjórnvöld eða stjórnsýslunefndir sem ráðherra færi ekki með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart. Umboðsmaður Alþingis vakti athygli á að eitt slíkra mála sem fjallað hefði verið um í síðustu ársskýrslu hans og varðaði úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, nú úrskurðarnefnd vel­ferðarmála, hefði farið fyrir héraðsdóm þar sem fallist var á efnislega niðurstöðu umboðs­manns. Rætt var um að það ylli borgurum erfiðleikum ef stjórnvöld færu ekki að tilmælum umboðsmanns Alþingis þannig að þeir þyrftu að fara dómstólaleiðina til að fá leiðréttingu mála sinna.
    Nefndin undirstrikar að umboðsmaður Alþingis er hluti af því eftirliti sem þingið hefur með framkvæmdarvaldinu. Umboðsmaður kemur fram sem sérstakur trúnaðarmaður þingsins gagnvart borgurunum og hefur það lögboðna hlutverk að gæta réttinda þeirra gagnvart stjórnvöldum landsins svo að þeir njóti þeirra réttinda sem Alþingi hefur ákveðið með lögum. Mikilvægt er að stjórnvöld fari að tilmælum umboðsmanns Alþingis, og þá einnig sjálfstæð stjórnvöld og stjórnsýslunefndir. Hafa ber í huga að borgarar geta einungis leitað til umboðs­manns Alþingis vegna ákvarðana þeirra innan stjórnsýslunnar.

Sjálfstæðar úrskurðarnefndir.
    Á opna fundinum var rætt um vandamál sem fylgja því að færa úrskurðarvald um lögmæti ákvarðana lægra setts stjórnvalds úr ráðuneytum til sjálfstæðra úrskurðarnefnda en um þá þróun hefur áður verið fjallað á fundum nefndarinnar með umboðsmanni vegna ársskýrslna embættisins. Með sjálfstæðum úrskurðarnefndum er komið á fót stjórnvöldum þar sem ekki er fyrir að fara ábyrgð með sama hætti og hjá þeim stjórnvöldum sem starfa undir stjórn ráðherra og hann ber ábyrgð á. Fram komu sjónarmið um að með slíku fyrirkomulagi innan stjórnsýslunnar væri hætta á að fagþekking færðist úr ráðuneytunum, eftirlit umboðsmanns Alþingis gæti orðið erfiðara og réttaröryggi borgaranna minna. Þá var rætt um að slíkt fyrirkomulag hefði áhrif á eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu þar sem þingmenn gætu ekki kallað eftir skýringum ráðherra eða komið á framfæri gagnrýni varðandi störf nefndanna líkt og ef um væri að ræða ákvarðanir ráðherra eða stjórnvalda sem starfa undir stjórn hans.     Nefndin hefur lagt áherslu á að þörf sé á að fara ítarlega yfir stjórnskipulega stöðu sjálf­stæðra úrskurðarnefnda með þá meginreglu í huga að ekki eigi að vera til stjórnsýsla án ábyrgðar. Nefndin telur nauðsynlegt að ráðherra veiti slíkum nefndum aðhald á grundvelli almenns eftirlits, þ.e. að sjá til þess að starfsemi þeirra sé í lögmætu horfi eða gera viðhlítandi ráðstafanir til þess að svo sé. Nefndin telur mikilvægt að farið verði í grundvallarskoðun á því hvort og þá hvaða úrskurðarnefndir eigi að vera sjálfstæðar, m.a. út frá sjónarmiðum um hlutleysi æðra stjórnvalds, og þá metið samhliða hvort færa eigi verkefni þeirra inn í ráðu­neytin á ný. Nefndin telur að um sé að ræða forgangsmál sem þurfi að taka til nánari athugunar.
    
Ráðgjafarskyldan og fagþekking innan stjórnsýslunnar.
    Í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis er fjallað um skyldu ráðherra til að leita álits ráðu­neytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt, sbr. 20. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun.
    Fram kemur að á árinu hafi umboðsmaður Alþingis sett fram athugasemdir í tveimur málum um að ákvæði 20. gr. stjórnarráðslaga hefði ekki verið fylgt, annars vegar í máli sem varðaði samskipti innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar í máli sem laut að flutningi höfuðstöðva Fiskistofu. Þá hafi umboðsmaður Alþingis talið tilefni til að vekja athygli forsætisráðherra almennt á að þörf virtist vera á að huga betur að framkvæmd þessarar lagareglu innan stjórnarráðsins og þá í ljósi þessara tveggja mála.     Fyrir nefndinni var rætt um ráðgjafarskyldu og almennt um fagþekkingu innan stjórnsýsl­unnar, m.a. með hliðsjón af sjálfstæðum úrskurðarnefndum og hvort stofnun þeirra gæti stuðlað að því að færa fagþekkingu úr ráðuneytunum. Rætt var um að sú þróun að færa verk­efni úr ráðuneytunum í auknum mæli til sjálfstæðra úrskurðarnefnda hefði einnig orðið í nágrannalöndunum. Umboðsmaður Alþingis vakti athygli nefndarinnar á því að í Danmörku hefði síðustu ár verið talsverð umræða um þetta fyrirkomulag í uppbyggingu stjórnsýslunnar og samskipti embættismanna og stjórnmálamanna, þar á meðal ráðgjafarskylduna og hvernig haga ætti aðstoð við ráðherra, þ.e. pólitískri aðstoð og faglegri ráðgjöf. Rætt hefði verið um að þekkingin sem ætti að vera til staðar hefði færst úr ráðuneytunum og til stofnana og til við­bótar hefði ákveðin stjórnsýsluframkvæmd færst til sjálfstæðra úrskurðarnefnda. Í Danmörku virðist þróunin vera sú að stjórnmálamenn sem koma til starfa í ráðuneytum sækist síður eftir faglegri ráðgjöf.
    Umboðsmaður Alþingis vakti jafnframt athygli nefndarinnar á því að til hans hefðu leitað forstöðumenn opinberra stofnana hér á landi og kvartað yfir því að lítið færi fyrir samráði milli ráðuneytis og stofnana sem þeir standa fyrir, m.a. varðandi undirbúning löggjafar á því sviði sem viðkomandi stofnun starfar á, fyrirkomulag starfsemi stofnunar eða að erindum stofnana væri ekki sinnt hjá ráðuneytum.
    Fyrir nefndinni var rætt um að áveðin fagleg þekking væri í kerfinu sem ætti að nýtast stjórnmálamönnum, bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu, sem koma til starfa og vilja setja mark sitt á stefnumörkun á ákveðnu sviði. Sé ekki gætt að því að sækja hina faglegu þekk­ingu er hætta á að réttarörygginu sem kerfinu er ætlað að þjóna sé fyrir bí.
    Jafnframt var rætt um undirbúning og gæði lagasetningar með hliðsjón af umræðu um fagþekkingu innan stjórnsýslunnar. Fram komu sjónarmið um að undirbúningur nýrrar löggjafar væri oft of hraður í íslenskri stjórnsýslu en að nauðsynlegt væri að fagþekkingin innan stjórnsýslunnar skilaði sér til þingsins í formi lagafrumvarpa. Fram komu sjónarmið um að íslensk stjórnsýsla gæti almennt, og einnig í þessum efnum, litið til fyrirmynda í nor­rænni stjórnsýslu og verklags þar. Umboðsmaður Alþingis vakti hins vegar athygli nefndar­innar á að í íslenskri stjórnsýslu hefur dregið úr slíkum tengslum.
    Nefndin leggur áherslu á að ástæða sé til að skoða þá þróun sem orðið hefur í stjórnsýslu bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum og lýst hefur verið á fundi nefndarinnar með umboðsmanni Alþingis. Nauðsynlegt er einnig að fram fari umræða hér á landi um sam­skipti stjórnmálamanna og embættismanna, en m.a. hefur verið bent á að bæði stofnana­þekking og bakgrunnur ráðherra hefur breyst á síðustu árum. Nefndin telur mikilvægt að ráðgjafarskyldan verði virt og að hlúð verði að faglegri þekkingu innan stjórnsýslunnar. Í því sambandi telur nefndin jafnframt mikilvægt að samskipti stjórnvalda verði efld og sérþekking innan stjórnsýslunnar betur nýtt og styrkt með nauðsynlegum fjárveitingum.
    Nefndin telur nauðsynlegt að við undirbúning löggjafar, hvort sem er í ráðuneytum eða á Alþingi, sé lögð áhersla á vönduð vinnubrögð og virðingu fyrir grundvallarréttindum borganna, ekki síst réttaröryggi þeirra. Í því sambandi leggur nefndin áherslu á að nauð­synlegt sé að löggjafinn gefi sér meiri tíma til að tryggja vandaða lagasetningu. Nefndin telur miður að dregið hafi úr tengslum íslenskrar stjórnsýslu og norrænnar stjórnsýslu og telur að huga þurfi að því að efla kennslu í norrænum tungumálum og norrænt samstarf innan stjórnsýslunnar.

Hlutlægni og sjálfstæði rannsakenda við rannsókn sakamála.
    Í skýrslunni er fjallað um hlutlægni og sjálfstæði rannsakenda við rannsókn sakamála og þær mannréttindareglur sem beinast að því að tryggja að lögreglurannsókn mála sem lögbær yfirvöld hafa ákveðið að hefja fari fram án afskipta þeirra sem ekki eru bærir eða hæfir til þess að koma að þeim málum, þ.m.t. vegna tengsla við viðkomandi mál. Í því sambandi hefur sérstök áhersla verið lögð á að þeir stjórnmálamenn sem jafnframt koma að störfum í stjórnsýslunni og fara þar með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir hafi ekki afskipti af rannsóknum einstakra sakamála.
    Á þessi atriði reyndi í máli þar sem athugun umboðsmanns Alþingis beindist að því hvort það hefði samrýmst gildandi reglum að innanríkisráðherra og aðstoðarmenn ráðherra hefðu tiltekin samskipti við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og embætti hans vann að lögreglurannsókn á kærum vegna meintra brota sem kærendur töldu að mætti rekja til meðferðar innanríkisráðuneytisins og starfsmanna þess á trúnaðarupplýsingum um þá.
    Í skýrslunni kemur fram að sem eftirlitsmaður með stjórnsýslunni telur umboðsmaður Alþingis ástæðu til að undirstrika að þótt í þessu máli hefði verið fjallað um tiltekin samskipti ráðherra og lögreglustjórans sé mikilvægt að borgarar geti jafnan treyst því að rannsókn sakamála í tilefni af kærum þeirra sem beinast gegn stjórnvöldum fari fram án afskipta fyrir­svarsmanna viðkomandi stjórnvalds.
    Nefndin tekur undir með umboðsmanni Alþingis um að borgarar verði að geta treyst því að gætt sé að hlutlægni og sjálfstæði rannsakenda við rannsókn sakamála. Nefndin leggur áherslu á að jafnræðis sé gætt í meðferð sakamála óháð því hver eigi í hlut.
    
Eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna.
    Á opnum fundi með umboðsmanni Alþingis var rætt um hvað félli utan eftirlits embætt­isins. Ljóst er að umboðsmanni Alþingis berast á hverju ári kvartanir er varða störf dómstóla sem falla utan starfssviðs hans. Á fundinum var rætt um samskipti borgara við réttarkerfið og dómstólana og þá réttaróvissu sem ríkir að því er varðar eftirlit umboðsmanns Alþingis með stjórnsýslu dómstólanna.
    Fyrir nefndinni benti umboðsmaður Alþingis á að í lögum um umboðsmann kæmi fram að starfssvið hans tæki ekki til starfa dómstóla. Rætt var um að þegar embætti umboðsmanns Alþingis var sett á fót hefði það haft eftirlit með stjórnsýsluverkefnum dómstólanna þar sem þau heyrðu þá undir dómsmálaráðuneytið. Umrædd verkefni hefðu hins vegar í auknum mæli verið færð til dómstólanna sjálfra og því féllu þau utan eftirlits umboðsmanns Alþingis með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Umboðsmaður Alþingis benti á að þrátt fyrir tilfærslu verkefnanna þyrftu borgarar að leita til dómstólana vegna málefna sem ekki væru orðin, eða yrðu, dómsmál enda giltu sérstakar réttarfarsreglur um meðferð þeirra. Þá geta verið teknar ákvarðanir innan dómstólanna sem varða starfsfólk þeirra.
    Umboðsmaður Alþingis benti á að hann hefði áður vakið athygli á því að umgjörðin um stjórnsýslu dómstólanna væri ekki skýr. Því er ekki ljóst eftir hvaða efnis- og formreglum stjórnsýsla dómstólanna á að starfa. Þar sem stjórnsýslu- og upplýsingalögin gilda ekki er nauðsynlegt að taka afstöðu til þessa álitamáls með hliðsjón af réttaröryggi borgaranna. Varð­andi eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna þarf jafnframt að huga að bæði innra og ytra eftir­liti. Fyrir nefndinni var rætt um að breytingar hefðu verið gerðar á lögum um dómstóla nýver­ið en að ekki hefði verið tekið á fullnægjandi hátt á eftirliti með stjórnsýslu dómstólanna í þeim breytingum.
    Nefndin hefur að undanförnu fjallað um eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna og telur nauðsynlegt að m.a. verði brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis um þá réttar­óvissu sem er uppi og að tryggja þurfi betur réttaröryggi borgaranna í samskiptum þeirra við dómstólana. Nefndin telur æskilegt að ráðist verði í athugun á uppbyggingu stjórnsýslu dóm­stólanna, m.a. með hliðsjón af nýlegum breytingum, og hvernig best verði komið á eftirliti með henni.

Starfsemi umboðsmanns Alþingis.
    Nefndin telur eins og áður mjög mikilvægt að stjórnvöld nýti skýrsluna og niðurstöður umboðsmanns Alþingis til umbóta í stjórnsýslunni. Nefndin telur jafnframt mikilvægt að þingmenn hafi í huga þau álitamál sem umboðsmaður Alþingis sér ástæðu til að vekja athygli Alþingis á í ársskýrslu sinni hverju sinni þar sem starf umboðsmanns Alþingis er mikilvægt í þingeftirliti með framkvæmdarvaldinu.
    Fyrir liggur einnig að húsnæði umboðsmanns Alþingis uppfyllir ekki kröfur um aðgengi fatlaðra. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að embættið fái fjármagn til að ráða bót á því og koma aðgengismálum í lögbundið horf.
    Árni Páll Árnason og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Alþingi, 19. september 2016.

Ögmundur Jónasson,
form., frsm.
Birgir Ármannsson. Birgitta Jónsdóttir.
Brynjar Níelsson. Elsa Lára Arnardóttir. Helgi Hjörvar.
Willum Þór Þórsson.