Ferill 857. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1793  —  857. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.), og breytingartillögu á þingskjali 1791.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Almannatryggingakerfið er mikilvægt framfærslukerfi og nauðsynlegt er að almenn sátt ríki um það. Frumvarpið sem nú er til afgreiðslu felur í sér mikilvæga kerfisbreytingu fyrir ellilífeyrisþega en minni hlutinn harmar að ekki hafi verið fundin leið til að tryggja kerfis­breytingu fyrir örorkulífeyrisþega á sama tíma. Minni hlutinn átelur harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við meðferð málsins. Frumvarpið barst seint til þingsins og tók þá einvörðungu til ellilífeyrisþega. Þær breytingar sem þar voru lagðar fram einfalda vissulega almannatryggingakerfið með sameiningu bótaflokka en bæta í engu kjör þeirra lífeyrisþega sem lökust kjör hafa. Sætti það réttilega mikilli gagnrýni sem og að ekki væru lagðar til neinar breytingar til hækkunnar á greiðslum til lífeyrisþega í samræmi við kjarabætur á vinnumarkaði.
    Við vinnslu frumvarpsins í velferðarnefnd lagði meiri hluti nefndarinnar fram breytingar­tillögur um hækkun lífeyris. Tillögurnar komu fram eftir að starfsáætlun Alþingis var lokið og gafst því afar skammur tími til þess að leggja mat á áhrif þeirra. Fulltrúar minni hlutans óskuðu eftir sviðsmyndum vegna breytingartillagnanna en við þeirri ósk var ekki orðið. Slík flýtimeðferð á eins stóru hagsmunamáli tugþúsunda einstaklinga, sem treysta á almanna­tryggingakerfið vegna framfærslu sinnar, er algjörlega óviðunandi.
    Minni hlutinn hafði mjög knappan tíma til að bregðast við og móta sínar tillögur. Því leggur minni hlutinn til að allir bótaflokkar hækki um 13,4% til að greiðslur almannatrygg­inga haldi í við umsamdar launahækkanir á vinnumarkaði. Þannig fengju allir hlutfallslega sömu hækkun, óháð því hvort þeir búa einir eða með öðrum auk þess sem vægi þeirra bótaflokka sem aðrar tekjur skerða hlutfallslega meira er ekki aukið.
    Minni hlutinn lýsir yfir verulegum vonbrigðum með þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka greiðslur almannatrygginga og fram koma í breytingartillögum meiri hlutans og minnisblaði frá velferðarráðuneytinu. Ljóst er að lítil innstæða er fyrir loforði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um hækkanir til eldri borgara og öryrkja.

Eldri borgarar.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á þeim hluta almannatryggingakerfisins sem lýtur að eldri borgurum. Bótaflokkum er fækkað í einn, ellilífeyri, frítekjumörk eru afnumin og eitt skerðingarhlutfall innleitt fyrir allar aðrar tekjur og verður það 45%. Að auki munu þeir sem búa einir áfram fá greidda heimilisuppbót. Skerðingarhlutfall hennar vegna annara tekna verður 7,5% til viðbótar við hina almennu 45% skerðingu eða 52,5% í heildina.
    
    Í breytingartillögum leggur meiri hlutinn til að ellilífeyrir hækki um 7,1% og verði 227.883 kr. á mánuði fyrir eldri borgara í sambúð. Fyrir þá sem búa einir er heimilisuppbót hækkuð til að brúa bilið upp í 280.000 kr. sem verða lágmarkslaun árið 2017. Þannig er vægi heimilisuppbótar aukið en hún skerðist meira en ellilífeyrir auk þess sem meiri hlutinn leggur til að skerðingarhlutfallið verði hækkað úr 52,5% í 56,9%.
    Minni hlutinn leggur til réttlátari leið og vill hækka ellilífeyri um 13,4%. Þá fengi eldri borgari í sambúð 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði en samkvæmt tillögum meiri hlutans. Eldri borgari sem býr einn fengi 280.000 kr. eins og í tillögum meiri hlutans en skerðingar vegna annara tekna minnka því hlutur heimilisuppbótarinnar í þeirri greiðslu er minni og skerðingu á henni er haldið óbreyttri eða 52,5%. Ráðstöfunartekjur eldri borgara verða því hærri með tillögum minni hlutans. Minni hlutinn styður breytingartillögu meiri hlutans um innleiðingu 25.000 kr. frítekjumarks fyrir allar tekjur eldri borgara og telur hana skref í rétta átt til að mæta gagnrýni um afnám frítekjumarka.

Öryrkjar.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að lífeyrisgreiðslur til öryrkja í sambúð hækki um 7,1% eða í 227.833 kr. á mánuði. Fyrir þá sem búa einir er framfærsluuppbót hækkuð til að brúa bilið upp í 280.000 kr. sem verða lágmarkslaun árið 2017. Framfærsluuppbótin skerðist krónu á móti krónu og tillögur meiri hlutans auka vægi þessara 100% skerðinga sem hingað til hefur verið samstaða um að draga beri úr í almannatryggingakerfinu og eru at­vinnuletjandi.
    Minni hlutinn leggur til réttlátari leið og vill hækka lífeyri öryrkja um 13,4%. Þá fengi öryrki sem býr með öðrum 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hlutans. Öryrki sem býr einn fengi 280.000 kr. eins og í tillögum ríkisstjórnarinnar en allir bótaflokkar hækka um 13,4% og framfærsluuppbótin sem skerðist um krónu á móti krónu hækkar því ekki umfram aðra bótaflokka. Skerðingar aukast því ekki með þessari leið og fólk fær fleiri krónur í vasann.

Hækkun lífeyristökualdurs og sveigjanleg starfslok.
    Í frumvarpinu er lagt til að ellilífeyrisaldur hækki úr 67 árum í 70 ár á 24 ára tímabili. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að þetta kynnu að vera vanhugsaðar tillögur. Eldra fólk stendur höllum fæti á vinnumarkaði og miklar viðhorfsbreytingar þurfi að verða til þess að vaxandi fjöldi eldra fólks þurfi ekki að ljúka starfsævinni á atvinnuleysisskrá. Þá var einnig bent á að nýgengi örorku vex hlutfallslega mjög hratt hjá fólki eftir 60 ára aldur og því muni öryrkjum fjölga ef ellilífeyrisaldur verður hækkaður. Hækkun ellilífeyrisaldurs almannatrygginga þarf einnig að skoða í samhengi við réttindi launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði. Hörð mótmæli við þessari breytingu hafa komið frá Alþýðusam­bandi Íslands eftir að ljóst varð að frumvarp um breytingar á lífeyrissjóðum opinberra starfs­manna verður ekki afgreitt á þessu þingi og því óljóst á þessari stundu hvort lífeyrisaldur þeirra muni hækka í 67 ár eins og stefnt var að. Verði þetta frumvarp samþykkt óbreytt mun munurinn á lífeyrisaldri á opinbera og almenna vinnumarkaðinum aukast enn frekar. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að meiri hlutinn taki ekki tillit til þeirrar breyttu stöðu sem uppi er um samkomulag um lífeyrisréttindi. Meiri hlutinn ætlar sér að þvinga hækkanir á lífeyris­tökualdri í gegn, þvert á vilja heildarsamtaka launafólks á almennum vinnumarkaði. Minni hlutinn hafnar hækkun ellilífeyrisaldurs úr 67 árum í 70 ár að óbreyttu.

Sveigjanleg starfslok.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sveigjanlegri starfslokum en nú er og að heimilt verði að fresta töku ellilífeyris til 80 ára aldurs og njóta þar með hærri lífeyris eða flýta töku ellilíf­eyris til 65 ára aldurs og fá þá skertan lífeyri til frambúðar. Hækkunin og skerðingin mun ráðast af tryggingafræðilegum grunni. Þá er lagt til að hægt verði að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði og almannatryggingum án þess að aðrar tekjur skerði greiðslur frá almanna­tryggingum.
    Þessar breytingar, sem og tillögur um hækkun ellilífeyrisaldurs í 70 ár, eru viðbrögð við hækkandi hlutfalli eldri borgara af mannfjölda og betra heilsufari. Mikilvægt er að almanna­tryggingakerfið vinni ekki gegn atvinnuþátttöku eldri borgara ef fólk vill vinna lengur en lögbundinn ellilífeyrisaldur kveður á um. Það er því eðlilegt að vilja auka sveigjanleika í töku ellilífeyris.
    Minni hlutinn er fylgjandi markmiðinu um sveigjanlegan ellilífeyristökualdur og telur jákvætt að fólk geti hafið töku lífeyris fyrr eða frestað henni. Slíkar breytingar þarf þó að skoða heildstætt í samhengi við ellilífeyrisaldur og því er lagt til að ákvæðin falli brott. Jafn­framt telur minni hlutinn að ákvæðið um greiðslu hálfs lífeyris sé ekki nægilega vel útfært, óljóst sé um framkvæmd þess og kostnað. Minni hlutinn tekur undir athugasemdir Trygg­ingastofnunar og leggst gegn ákvæðinu.

Breyting á aldri ávinnslutímabils réttinda í almannatryggingum.
    Samkvæmt gildandi lögum er ávinnslutímabil til fullra réttinda í almannatryggingakerfinu að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Í frumvarpinu er lagt er til að ávinnslutímabil fulls réttar verði áfram 40 ár en frá 18 til 70 ára aldurs. Minni hlutinn hafnar þessari breytingu og telur engin rök hafa verið færð fyrir því að hækka aldursmörkin úr 16 árum í 18 ár. Þá hefur nefndin aflað upplýsinga um ávinnslualdur annars staðar á Norður­löndum og hefst hann í flestum tilfellum við 15–16 ára aldur. Minni hlutinn leggur því til að þetta ákvæði verði fellt brott.

Aðrar breytingar.
    Minni hlutinn styður breytingartillögu meiri hlutans sem varð við eindregnum óskum um að fella brott 11. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um skert réttindi lífeyrisþega í fangels­um til ráðstöfunarfjár.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skipi starfshóp til að útfæra og koma á fót tilrauna­verkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag á greiðsluþátt­töku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Með ákvæðinu er brugðist við ábendingum um breytt fyrirkomulag greiðslna lífeyrisþega fyrir dvöl á hjúkrunarheimilum og óánægju margra með núverandi fyrirkomulag. Minni hlutinn styður þessa tillögu en leggur áherslu á búsetu- og þjónustuöryggi ellilífeyrisþega óháð fjárhagslegri stöðu þeirra.
    Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerir fyrirvara við þessa grein frum­varpsins og breytingartillögu meiri hlutans sem heimilar sveitarfélögum að innheimta þjón­ustugjöld. Fyrirvarinn lýtur að því að engin útfærsla liggur fyrir um möguleg áhrif aðstöðu­munar lífeyrisþega vegna kjara. Breytingin kynni að valda því að sumir íbúar hjúkrunar­heimila hefðu ekki efni á mikilvægri þjónustu auk þess sem áhrif slíkra breytinga á rekstrarform hjúkrunarheimila eru óljós.
    Halldóra Mogensen sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi Pírata og er samþykk áliti þessu.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. gr. falli brott.
     2.      6. gr. orðist svo:
                      23. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

             Fjárhæð ellilífeyris.

                      Fullur ellilífeyrir skal vera 2.895.500 kr. á ári. Ellilífeyri skal lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Ellilífeyrisþegi skal hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris.
     3.      8. gr. falli brott.
     4.      Við 12. gr.
                  a.      19.–21. tölul. falli brott.
                  b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. skulu greiðslur ör­orkulífeyris, örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar skv. 18., 19. og 21. gr. og 3. mgr. 22. gr. hækka um 13,4% frá og með 1. janúar 2017.
     5.      Í stað „409.512 kr.“ í 2. efnismgr. 14. gr. komi: 464.387 kr.
     6.      7. tölul. brtt. á þskj. 1791 orðist svo: Við 15. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað „184.140 kr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 280.000 kr.; og í stað „157.030 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 241.300 kr.
     7.      Á eftir 15. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Endurhæfingarlífeyrir skv. 7. gr. og heimilisuppbót skv. 8. gr. skulu hækka um 13,4% frá og með 1. janúar 2017. Hið sama gildir um framfærsluviðmið skv. 2. mgr. 9. gr.
     8.      Síðari málsliður 19. gr. falli brott.

Alþingi, 11. október 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Páll Valur Björnsson.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.