Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 3  —  3. mál.
Viðbót.




Tillaga til þingsályktunar


um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.


Flm.: Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að sjá til þess að frá og með skólaárinu 2017–2018 verði öllum nemendum í framhaldsskólum landsins tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda nemenda á hvern sálfræðing o.fl.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 145. löggjafarþingi (629. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt. Fyrsti flutningsmaður var þá Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
    Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í menntun kemur fram að aðeins 44% íslenskra framhaldsskólanema ljúka námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.
    Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa, sem hvorki hafa menntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Það er því mikilvægt að bregðast við kallinu og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.
    Ungt fólk kallar eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. Netbyltingin Ég er ekki tabú var ákall um breytt viðhorf samfélagsins alls til andlegra veikinda og til að benda á gífurlegan kostnað sem fylgir því að leita sér geðheilbrigðisþjónustu. Þá ályktaði Samband íslenskra framhaldsskólanema um málið á sambandsstjórnarþingi sínu í lok árs 2015, en þar er m.a. kallað eftir auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu innan framhaldsskóla landsins.
    Skólaárið 2012–2013 réð Verkmenntaskólinn á Akureyri sálfræðing til starfa í 50% starfshlutfall. Í skýrslu sem skrifuð var meðan á tilraunaverkefninu stóð kemur fram að rúmlega 10% nemenda við VMA nýttu sér þjónustuna. Yfir árið tók sálfræðingurinn að meðaltali 2,5 viðtöl á dag, auk þess sem hann var með hópmeðferðartíma í hugrænni atferlismeðferð (HAM) á vorönn. Í skýrslunni kemur fram að 137 nemendur nýttu sér sálfræðiþjónustu á skólaárinu 2012–2013 og árið eftir 179 nemendur, en það er fjölgun upp á tæplega 31%. Þjónustan skilaði miklum árangri fyrir þá nemendur sem hana nýttu og eftir skólaárið 2014–2015 má sjá mjög aukna aðsókn í þjónustuna en þá tók skólasálfræðingurinn að meðaltali 4,45 viðtöl á dag. Í skýrslunni kemur fram að mikil ásókn nemenda í sálfræðiþjónustu og sá fjöldi viðtala sem veittur var sýni að þörf fyrir slíkt úrræði er til staðar. Þá séu fordómar og skömm hverfandi með auknum sýnileika sálfræðings innan veggja skólans. Ásókn í þjónustuna er nú jafnari eftir einstökum námsbrautum en þegar fyrst var boðið upp á hana sem gefur til kynna tengsl milli sýnileika og aðgengis og nýtingar á þjónustunni.
    Stjórnvöld hafa margvíslegum skyldum að gegna gagnvart nemum í framhaldsskólum landsins. Skv. 2. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er hlutverk framhaldsskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Skv. 33. gr. laganna eiga allir framhaldsskólanemendur rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem m.a. tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Þá ber skv. 1. mgr. 33. gr. b öllum aðilum í skólasamfélaginu að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Skv. 4. mgr. 34. gr. sömu laga skulu framhaldsskólar leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi. Öll framangreind atriði eru þess eðlis að þau snerta andlega líðan nemenda og er ætlað að stuðla að góðri andlegri líðan þeirra. Þá er góð andleg líðan nemenda mikilvæg fyrir árangur í námi. Í lið B.2 í tillögu heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára (338. mál) kemur fram það verkefni að ráðherra verði falið að skipa starfshóp sem geri tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að þær liggi fyrir fyrir árslok 2017. Ekkert er hins vegar í tillögunni vikið að því að nemendum í framhaldsskólum skuli tryggður aðgangur að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu. Taka má þó undir þau ummæli í greinargerð með fyrrnefndri þingsályktunartillögu að skólinn sé ákjósanlegasti vettvangurinn til að ná til sem flestra barna með geðrækt og forvarnir. Verður að telja að það eigi einnig við um framhaldsskóla.
    Markmið þessarar tillögu er að í byrjun skólaárs 2017–2018 verði tryggt að í öllum framhaldsskólum landsins hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu til þess að bregðast við því ófremdarástandi sem skortur á faglegri geðheilbrigðisþjónustu hefur í för með sér. Ráðherra er í tillögunni falið að útfæra það nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt en að miða beri við að einn sálfræðingur í fullu starfi geti sinnt um 700 nemendum. Ber að miða þjónustuþörf fámennari jafnt sem fjölmennari skóla við það hlutfall. Er í því miðað við viðmið samtaka bandarískra skólasálfræðinga (National Association of School Psychologists) sem gera ráð fyrir að fjöldinn fari aldrei yfir 1.000 nemendur á hvern sálfræðing. Sé hlutverk sálfræðingsins meira en aðeins að sinna greiningu og ráðgjöf, t.d. einnig að veita viðeigandi meðferð í hvert sinn án þess að vísa nemendum til sálfræðinga starfandi utan skólans, ber að miða við 500–700 nemendur á hvern sálfræðing. Er í þessu einnig haft í huga að bið eftir þjónustu af þessu tagi getur verið slæm fyrir nemendur og mikilvægt að nemendur sem þurfa á þjónustunni að halda geti komist sem fyrst að.