Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 38  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson, Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Ólaf Stephensen og Ingu Skarphéðinsdóttur frá Félagi at­vinnurekenda, Halldór Árnason og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Björn Brynjúlf Björnsson frá Viðskiptaráði, Ingvar J. Rögnvaldsson og Elínu Ölmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra, Þóreyju S. Þórðardóttur og Þorbjörn Guðmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Unni Gunnarsdóttur, Ingibjörgu Stefánsdóttur og Ara Sigurðsson frá Fjármála­eftirlitinu, Agnesi M. Sigurðardóttur og Odd Einarsson frá Biskupsstofu, Sindra Sigurgeirs­son og Elías Blöndal Guðjónsson frá Bændasamtökum Íslands, Helgu Árnadóttur frá Sam­tökum ferðaþjónustunnar, Katrínu Júlíusdóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjár­málafyrirtækja, Almar Guðmundsson frá Samtökum iðnaðarins, Jóhannes Svavar Rúnarsson frá Strætó bs., Hjalta Rúnar Ómarsson frá Vantrú og Ellen Calmon og Sigríði Hönnu Ingólfs­dóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaks­verslun ríkisins, Biskupsstofu, Bílgreinasambandinu, Félagi atvinnurekenda, Fjármálaeftir­litinu, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, ríkisskattstjóra, Sambandi ís­lenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum atvinnulífsins, Sam­tökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Sveini Jóns­syni, Strætó bs., Vantrú, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Inngangur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er snúa að tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs. Frumvarpið hefur sterk tengsl við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017. Nefndin vekur athygli á að frumvarpið er lagt fram við nokkuð sérstakar aðstæður þar sem ekki hefur verið mynduð ríkisstjórn og meiri hluti á Alþingi. Frumvarp af þessu tagi er lagt fram árlega samhliða fjárlagafrumvarpi en vegna sérstakra aðstæðna í ár er það minna að sniðum og almennara en oft áður. Nefndin hefur í vinnu sinni lagt áherslu á að taka tillit til aðstæðnanna og leitast við að hafa sem breiðasta þverpólitíska sátt um málið enda er ekki um pólitíska stefnumörkun að ræða.

Þjóðhagsspá, vetur 2016.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 og tekjuaðgerðir í frumvarpinu byggjast í grunninn á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá maí 2016. Hinn 4. nóvember sl. birti Hagstofa Íslands uppfærða þjóðhagsspá fyrir árið 2016. Helstu atriði uppfærðrar þjóðhagsspár má finna í Hagtíðindum Hagstofu Íslands 1 þar sem m.a. kemur fram að gert sé ráð fyrir að hagvöxtur á árinu 2016 nemi 4,8% og að einkaneysla aukist um 7,1%, fjárfesting um 21,7% og sam­neysla um 1,8%. Spáð er að hagvöxtur verði 4,4% árið 2017 en að þá aukist einkaneysla um 5,7%, fjárfesting um 7,4% og samneysla um 0,9%. Neysla og fjárfesting standa að baki hag­vexti áranna 2016 og 2017 og hafa verið í örum vexti frá 2014. Vöxtur neyslu, fjárfestingar og ferðaþjónustu er nú talinn verða meiri en áður var spáð. Gert er ráð fyrir að verðbólga aukist seinna en áður var spáð vegna mikillar gengisstyrkingar á síðustu mánuðum. Nú er gert ráð fyrir vaxandi verðbólgu árin 2017 og 2018 en að úr henni dragi eftir það. Ekkert lát er á mikilli styrkingu vinnumarkaðar en búist er við að dragi úr hraða atvinnuaukningar eftir 2017. Laun og kaupmáttur hafa hækkað mikið undanfarin misseri og er óvissa um launa­þróun með minna móti næstu tvö ár ef forsendur kjarasamninga standast. Að mati meiri hlut­ans kallar uppfærð þjóðhagsspá ekki á breytingar á ákvæðum frumvarpsins.

Tryggingagjald.
    Fram komu athugasemdir frá Samtökum atvinnulífsins og Félagi atvinnurekenda um að ekki væri lögð til lækkun á tryggingagjaldi. Fram kom að tryggingagjaldið hefði verið hækk­að til að standa undir stórauknum útgjöldum vegna atvinnuleysis eftir hrunið. Með batnandi hag og aukinni atvinnu hefði stærri hluti tryggingagjalds farið í að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs. Bent var á að skattheimta legðist þungt á minni og meðalstór fyrirtæki og drægi úr samkeppnisfærni þeirra. Einnig kom fram að handsalað hefði verið samkomulag við stjórnvöld um að stefnt skyldi að því að lækka almenna tryggingagjaldið og færa í fyrra horf strax á árinu 2018, enda skapaði lækkun vaxtabyrði ríkissjóðs samhliða lækkun skulda ríkis­ins svigrúm til lækkunar gjaldsins. Meiri hlutinn bendir á að tryggingagjöldin lækkuðu síðast í júlí sl. um 0,5% sem kostaði ríkissjóð 4 milljarða kr. Í fjármálaáætlun segir: „Þá er áætlað að tryggingagjöld skili 85 mia.kr. í ár eða sem svarar til 3,6% af VLF, sem er sama hlutfall og í fyrra, og að tryggingagjöld haldist á því stigi á næstu árum.“ Hagsmunaaðilum mætti því vera ljóst að ekki stóð til að gera frekari breytingar á tryggingagjaldi með frumvarpi því sem hér er til umræðu. Meiri hlutinn telur auk þess að þær sérstöku aðstæður sem uppi eru vegna stöðu í stjórnarmyndun útiloki stefnumarkandi ákvarðanir eins og að lækka tryggingagjald umfram það sem lagt var upp með í fjármálaáætlun.

Tvískipting gjalddaga virðisaukaskatts í tolli.
    Fram kom ósk um að heimild til skiptingar hefðbundinna gjalddaga aðflutningsgjalda á tvo gjalddaga verði sett í lög að nýju. Síðari helmingi aðflutningsgjalda skyldi skilað eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Einnig var séð til þess að þetta fyrirkomulag skerti ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hefði verið greiddur. Fram kom að smærri fyrirtæki telji sig einkum hafa haft mikið hagræði af heimildinni.
    Upphafleg ástæða þess að bráðabirgðareglan var felld inn í tollalög var að nauðsynlegt þótti að bregðast tímabundið við þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna gengisfalls, samdrátt­ar og verðbólgu á síðari hluta ársins 2008. Litið var svo á að reglan fæli í sér greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið sem gerði fyrirtækjum kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalds. Með framlengingu sem kveðið var á um í lögum nr. 46/2011 var vísað til yfirlýs­ingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga en að öðru leyti hafa framlengingar grundvallast á því að nauðsynlegt væri að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna samdráttar í íslensku efnahagslífi.
    Nefndin flutti frumvarp á 145. löggjafarþingi (609. mál) þar sem heimildin var framlengd með eftirfarandi rökum: Í þau skipti þegar reglan hefur verið framlengd hafa legið fyrir áskoranir frá hagsmunaaðilum, samtökum þeirra eða aðilum vinnumarkaðar. Í ljósi betri stöðu íslensks efnahagslífs og þess að ekki hafði verið farið fram á frekari framlengingu rann reglan sitt skeið á enda við lok ársins 2015 og við tóku ákvæði 122. gr. tollalaga. Fyrsti gjalddagi aðflutningsgjalda aðila sem njóta greiðslufrests á árinu 2016 er 15. mars 2016. Fyrirtæki, og þá einkum hin minni, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingum þess að bráðabirgðareglan rann sitt skeið á enda. Í mörgum tilvikum virðast þau illa undirbúin til að takast á við að þurfa að greiða aðflutningsgjöld á greiðslufresti í einu lagi.
    Í athugasemdum við umrætt frumvarp áréttaði nefndin einnig að skilningur hennar væri að bráðabirgðareglan rynni sitt skeið á enda á árinu 2016. Af framangreindu má ráða að ljóst var að heimildin félli brott árið 2016 auk þess sem endurskoðun gjalddaga og greiðslufresta skatta og gjalda með samræmingu að leiðarljósi er í undirbúningi. Í ljósi þess telur meiri hlutinn ekki rétt að taka upp umrædda undanþáguheimild að nýju.

Eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins.
    Fram komu athugasemdir þess efnis að hækkun sú sem boðuð er á eftirlitsgjöldum til Fjármálaeftirlitsins væri of brött og því var velt upp hvort ekki væri nauðsynlegt að auka hag­ræðingu hjá Fjármálaeftirlitinu og gæta aðhalds í rekstri þess og gæta að því að eftirlits­skyldir aðilar fengju ekki á sig of skarpar hækkanir í einu vetfangi. Meiri hlutinn tekur undir að mikilvægt sé að gæta aðhalds í rekstri en bendir einnig á að skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum valda því að síauknar kröfur eru gerðar til eftirlitsstofnana á fjármála­markaði. Þannig hefur umfang starfsemi slíkra aðila vaxið umtalsvert á undanförnum árum og telur meiri hlutinn það útskýra þann aukna kostnað sem af eftirlitinu hlýst.
    Nefndinni hefur verið bent á að nýlegar breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármála­fyrirtæki, sem tóku gildi í september sl., feli m.a. í sér þá breytingu á hugtakanotkun að verð­bréfamiðlanir eru ekki lengur skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki heldur teljast slíkar miðlanir nú sérstök tegund verðbréfafyrirtækja í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna og hafa starfsleyfi sem slík. Afleiðing þessa er sú að verðbréfafyrirtækjum fjölgar. Kallar þetta á þá breytingu á frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar að fella þarf brott f-lið 19. gr. um hækkun þess hlutfalls af álagningarstofni sem miðað er við að verðbréfamiðlanir greiði eftirlitsgjald af. Þar sem í e-lið 19. gr. frumvarpsins er að finna sams konar hækkun á hlut­fallinu er varðar eftirlitsgjald verðbréfafyrirtækja hefur sú breyting að fella f-liðinn brott ekki áhrif á tekjur af eftirlitsgjaldinu. Ljóst er að breyta þarf 5. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, en á annan hátt en f-liður 19. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Hefur nefndin fengið upplýsingar um að vinna að þeirri breytingu sé þegar hafin í ráðuneytinu. Meiri hlutinn leggur í ljósi framangreinds til að f-liður 19. gr. frumvarpsins falli brott.

Niðurfelling virðisaukaskatts af umhverfisvænum hópbifreiðum.
    Nefndinni barst umsögn frá Strætó bs. þar sem óskað var eftir að virðisaukaskattur yrði felldur niður við innflutning og sölu rafmagnsstrætisvagna. Alls voru 845 hópbifreiðar skráðar sem hópbifreiðar II, þ.e. með skráða leyfða heildarþyngd meira en 5.000 kg, í umferð 31. desember 2015. Til samanburðar voru bifreiðarnar 676 31. desember 2013 og þeim hefur því fjölgað umtalsvert. Nær allar hópbifreiðar í flokki II eru knúnar dísilolíu.
    Í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, er kveðið á um flokkun ökutækja og skilgreiningar. Hópbifreiðar eru skilgreindar í lið 01.12. reglugerðargreinar­innar. Til hópbifreiða teljast bifreiðar sem ætlaðar eru til fólksflutninga og gerðar er fyrir fleiri en 8 farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota. Hópbifreiðum er svo skipt í tvo flokka eftir þyngd og miðast mörkin við 5.000 kg. Í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er tollstjóra veitt heimild til að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- og vetnisbifreiðum að hámarki 1.530.000 kr. og af tengiltvinn­bifreiðum að hámarki 1.020.000 kr. Í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar eru þessar viðmiðunarfjárhæðir lækkaðar til samræmis við þá lækkun sem varð á almennu þrepi virðis­aukaskatts með lögum nr. 124/2014 og gildistími ákvæðisins framlengdur um eitt ár. Í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV eru tilgreind þau skilyrði sem uppfyllt þurfa að vera svo undanþága samkvæmt ákvæðinu verði veitt og eru m.a. taldir upp tilteknir ökutækjaflokkar samkvæmt reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja. Fellur hin þyngri gerð hóp­ferðabíla, sem getið er að framan, utan við tilgreinda flokka og nýtur því ekki þess skattalega hagræðis sem í ákvæðinu felst.
    Að sinni leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæðinu í þá veru að bætt verði við upptaln­ingu ökutækjaflokka þeim flokkum sem strætisvagnar falla undir og þar með jafnframt aðrar stærri gerðir hópferðabifreiða. Ætlunin er að ívilnunin nái til hópferðabifreiða fyrir 22 far­þega eða fleiri. Vegna fjárhæðartakmarkananna í 3. mgr. ákvæðisins verður hlutfallslega um tiltölulega lága ívilnun að ræða en meiri hlutinn lítur á breytinguna sem fyrsta skrefið í átt að breyttu umhverfi og nýrri stefnumörkun í málefnum umhverfisvænna hópferðabifreiða. Nefndin hefur verið upplýst um að vinna að slíkri stefnumörkun sé þegar hafin í ráðuneytinu og mælist meiri hlutinn til þess að henni verði lokið fyrir haustþing 2017.

Hækkun vörugjalda af áfengi og tóbaki.
    Með lögum nr. 149/2001 var sú breyting gerð á lögum um áfengisgjald að tekið var upp sérstakt gjald á tóbaksvörur, tóbaksgjald, sem fluttar eru til landsins eða framleiddar hér. Gjaldið kom í stað tolla sem lagðir voru á tóbak en féllu niður til samræmis við skuldbind­ingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og svokallaðrar magnálagningar ÁTVR. Við gildistöku laganna nam tóbaksgjald 167,2 kr. á hvern tuttugu stykkja pakka af vindlingum, 1,97 kr. á hvert gramm af neftóbaki og 5,98 kr. á hvert gramm af öðru tóbaki. Frá þessum tíma hefur tóbaksgjald verið hækkað oftlega og þá annars vegar til að tryggja að fjárhæð gjaldsins fylgi breytingum á verðlagi en einnig til að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs. Árið 2013 var gjald á neftóbak einnig tvöfaldað enda þótti það óeðlilega lágt samanborið við gjald af öðru tóbaki. Hafði neysla neftóbaks aukist umtalsvert um það leyti.
    Ef miðað er við að meðalþyngd tóbaks í hverjum vindlingi sé um 0,9 grömm er tóbaks­innihald hvers vindlingapakka samtals um 18 grömm. Tóbaksgjald á hvert gramm vindlinga­tóbaks samkvæmt gildandi lögum nemur því um 25,5 kr. Tóbaksgjald á hvert gramm nef­tóbaks nemur hins vegar aðeins 15,10 kr. á hvert gramm og gjald á annað tóbak 16,45 kr. á hvert gramm.
    Stjórnvöld hafa um langa hríð unnið að því markmiði að draga úr heilsutjóni og dauðsföll­um af völdum tóbaks með því m.a. að hvetja til minni tóbaksneyslu almennings. Þá standa lýðheilsu-, jafnræðis- og samkeppnisrök til þess að misræmi gjalds miðað við hvert gramm tóbaks verði leiðrétt. Því er lagt til að tóbaksgjald á hvert gramm neftóbaks og annars tóbaks verði hækkað umtalsvert meira en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Gera má ráð fyrir að hækkunin hafi allt að 500 millj. kr. jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs á árinu 2017. Þá mun hún hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs sem nemur um 0,053%.

Aðrar breytingar.
    Auk framangreinds eru lagðar til breytingar til að leiðrétta vöruflokkanúmer í 40. gr. frumvarpsins og breytingar á sólarlagsákvæði í lögum um fjarskiptasjóð sem vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem getið var í inngangi hefur ekki unnist rúm til að breyta fyrr.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Björt Ólafsdóttir og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Þau telja að málið hefði þurft meiri umfjöllun og að nefndin hefði þurft meiri tíma til afgreiðslu þess. Smári styður breytingartillögur meiri hlutans en mun að auki leggja fram fleiri breytingar­tillögur.

Alþingi, 21. desember 2016.

Benedikt Jóhannesson,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Björt Ólafsdóttir,
með fyrirvara.
Elsa Lára Arnardóttir. Sigríður Á. Andersen. Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Bjarnason.
Neðanmálsgrein: 1
1     hagstofa.is/media/50141/hag_161104.pdf