Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 281  —  150. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (leiðrétting).

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Með lögum nr. 116/2016 voru gerðar viðamiklar breytingar á almannatryggingalögum, nr. 100/2007. Vinstri hreyfingin – grænt framboð studdi þær lagabreytingar ekki. Í ljós hefur komið að við frumvarpssmíðina voru gerð mistök þannig að tilvísanir voru í rangar málsgreinar í 16. gr. laganna eins og lýst er í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar. Mistök þessi uppgötvuðust ekki fyrr en við birtingu laganna en þessum ákvæðum laganna hefur ekki verið fylgt heldur hafa lífeyrisþegar fengið greitt samkvæmt ætlun löggjafans. Bókstaflegur skilningur á þessum röngu tilvísunum mundi leiða til stóraukinna útgjalda ríkissjóðs.
    Ýmis álitamál hafa komið fram í meðferð nefndarinnar um málið, sér í lagi hvað varðar afturvirkni laga og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sá möguleiki kann að vera fyrir hendi að þrátt fyrir lagabreytingu þá sem hér er fjallað um skapi ríkið sér skaðabótaskyldu.
    Þó að 2. minni hluti hafi ekki stutt þær breytingar sem gerðar voru á almannatryggingalögum telur hann að ætlun löggjafans hafi komið fram í lögskýringargögnum og þá sérstaklega í athugsemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 116/2016. Sami skilningur á ætlun löggjafans sjáist einnig í umræðum á Alþingi og í samfélaginu og í umsögnum um frumvarpið.
    Í ljósi þess sem að framan er sagt og þess að 2. minni hluti átti ekki aðild að breytingum sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar á sl. ári mun 2. minni hluti ekki greiða atkvæði með málinu en ekki heldur leggja stein í götu afgreiðslu þess.


Alþingi, 24. febrúar 2017.

Steinunn Þóra Árnadóttir.