Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 287  —  36. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir ráðuneytisins sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Seðlabanki Íslands er eina stofnunin sem heyrir undir forsætisráðuneytið sem sinnir eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur.
    Eftirlitsstarf Seðlabanka Íslands felst í eftirliti með framfylgd laga um gjaldeyrismál, nr.
87/1992, með síðari breytingum. Hér er um að ræða eftirlit með framkvæmd fjármagnshafta sem komið var á undir lok ársins 2008 en var að mestu aflétt eftir síðustu áramót. Þá setur bankinn reglur um lágmark lauss fjár lánastofnana, um fjármögnunarhlutfall þeirra í erlendum gjaldmiðlum og um greiðslukerfi og fylgist með framfylgd þeirra.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Þar sem Seðlabankinn er ekki á fjárlögum óskaði forsætisráðuneytið eftir upplýsingum frá bankanum um rekstrarkostnað í þeim deildum sem sinna eftirliti með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja. Á árunum 2010–2016 má ætla að kostnaður bankans af eftirliti hafi verið sem hér segir:

Kostnaður í millj. kr.
2010 80,7
2011 120,5
2012 158,2
2013 208,6
2014 227,6
2015 291,5
2016 313,7

    Tölurnar hér að framan sýna aðeins launakostnað, þ.e. laun og launatengd gjöld. Ekki er reiknað með kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu, enda ekki sundurgreint í kostnaðarbókhaldi bankans fyrir öll þessi ár með þeim hætti að hægt sé með góðu móti að telja með.

     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Seðlabanki Íslands hefur ekki sértekjur sem tengjast eftirlitsstarfsemi hans.

     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
    Heildarfjöldi starfsmanna, sem sinnti viðfangsefnum tengdum eftirliti, í lok árs 2010 var 9,7 en 23,8 í lok árs 2016.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
    Eftirliti Seðlabankans hefur ekki verið útvistað.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Forsætisráðherra hefur ekki látið kanna kosti þess og galla að útvista þeirri eftirlitsstarfsemi sem Seðlabankinn sinnir. Í ljósi þess að fjármagnshöftum á einstaklinga og fyrirtæki var að mestu leyti aflétt undir lok ársins 2016 má gera ráð fyrir að verulega dragi úr kostnaði og starfsmannafjölda vegna þessa eftirlits.