Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 312  —  223. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (akstursþjónusta).

Flm.: Eygló Harðardóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Akstursþjónusta.

    Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar eða annarra skerðinga kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
    Jafnframt skulu aldraðir eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem þeir njóta samkvæmt lögum um þjónustu við aldraða.
    Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur akstursþjónustu á grundvelli þessa ákvæðis. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, bætist ný grein sem fjallar um akstursþjónustu. Ákvæðið er í grunninn sama efnis og ákvæði það sem verið hefur í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Lagt er til að akstursþjónustan verði útvíkkuð þannig að hún nái einnig til aldraðra en mörg sveitarfélög hafa sinnt akstursþjónustu við þennan hóp þótt lög hafi ekki kveðið á um slíkt. Það að kveða almennt á um rétt til akstursþjónustu fyrir alla þá sem þurfa á henni að halda vegna fötlunar eða aldurs fækkar einnig gráum svæðum í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
    Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga er sú að óljós ábyrgðarskil séu á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu annars vegar og fötlunarþjónustu hins vegar. Þessi óljósu skil komi m.a. fram þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur. Sambandið hefur því lagt áherslu á að skýra ábyrgðarskilin og er því lagt til að nýtt ákvæði komi inn í lög um málefni aldraðra sem taki af allan vafa um rétt einstaklinga eftir 67 ára aldur til akstursþjónustu ef viðkomandi getur ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar eða annarra skerðinga til að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda. Sem og til að fara á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við aldraða.
    Rétt er þó að árétta að hér er um nýja lagaskyldu að ræða fyrir sveitarfélögin sem mun fyrirsjáanlega hafa í för með sér kostnaðarauka.