Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 327  —  235. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum (forefni til sprengiefnagerðar, EES-reglur).

Frá dómsmálaráðherra.


1. gr.

    Á eftir 5. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með forefnum til sprengiefnagerðar er í lögum þessum átt við efni og/eða blöndur sem sæta takmörkunum eða eru tilkynningarskyld og hægt er að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna, og sem talin eru upp í reglugerð sem ráðherra setur til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna.

2. gr.

    Við c-lið 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: og forefni til sprengiefnagerðar.

3. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Óheimilt er að búa til, varðveita, hafa í fórum sínum, selja, flytja til landsins eða flytja úr landi heimatilbúnar sprengjur.

4. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 27. gr. a – 27. gr. d, svohljóðandi:

    a. (27. gr. a.)
    Almennum borgurum er óheimilt að hafa í fórum sínum og nota forefni sprengiefna, sem sæta takmörkunum, í meiri styrkleika en viðmiðunarmörk samkvæmt reglugerð kveða á um.
    Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að heimila almennum borgurum að hafa í fórum sínum og nota tiltekin efni skv. 1. mgr. í styrkleika yfir viðmiðunarmörkum að því tilskildu að sá sem gerir efnin aðgengileg skrái öll viðskipti í samræmi við 27. gr. c.
    Ráðherra getur ákveðið að skrá skuli öll viðskipti með forefni skv. 6. mgr. 1. gr. í samræmi við 27. gr. c.

    b. (27. gr. b.)
    Sá sem framleiðir, flytur inn, flytur út eða verslar með forefni til sprengiefnagerðar getur áskilið sér rétt til að hafna grunsamlegum viðskiptum. Skylt er að tilkynna viðskiptin, eða tilraun til slíkra viðskipta, þar á meðal grunsamlegar fyrirspurnir, án óþarfa tafa, þ.m.t., ef mögulegt er, upplýsingar um deili á viðskiptamanninum, til lögreglustjóra, tollstjóra eða annars tengiliðar á landsvísu. Aðeins er skylt að tilkynna ef gildar ástæður eru til að ætla að fyrirhuguð viðskipti með eitt eða fleiri efni sem talin eru upp í reglugerð, eða blöndur eða efni sem innihalda þau, séu grunsamleg viðskipti með hliðsjón af öllum aðstæðum og einkum þegar tilvonandi viðskiptamaður:
     a.      virðist óskýr varðandi fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar,
     b.      virðist ekki vita hver fyrirhuguð notkun efnisins eða blöndunnar er eða getur ekki útskýrt það þannig að trúanlegt sé,
     c.      hyggst kaupa efni í magni, samsetningu eða styrkleika sem er ekki algengt til einkanota,
     d.      er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða hvar hann býr eða
     e.      fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti, þ.m.t. háar fjárhæðir í reiðufé.
    Skylt er að tilkynna um hvarf eða þjófnað á sprengiefni eða miklu magni af forefnum til sprengiefnagerðar sem talin eru upp í reglugerð skv. a- og b-lið 27. gr. d, og blöndum eða efnum sem innihalda þau, til lögreglustjóra, tollstjóra eða annars tengiliðar á landsvísu.

    c. (27. gr. c.)
    Nú ákveður ráðherra með reglugerð að viðskipti með forefni skuli vera skráningarskyld eða að tiltekin forefni sem háð eru takmörkunum verði aðgengileg almennum borgurum í styrkleika yfir viðmiðunarmörkum og skulu þá þeir sem gera efnin aðgengileg halda skrá yfir viðskiptin með efnin. Viðskiptamenn skulu gera grein fyrir hverjir þeir eru með því að sýna lögleg skilríki.
    Í skránni skulu a.m.k. vera eftirfarandi upplýsingar:
     a.      nafn, heimilisfang og, eftir atvikum, annaðhvort kennitala viðskiptamanna eða tegund og númer skilríkis,
     b.      nafn efnisins eða blöndunnar, þ.m.t. styrkleiki,
     c.      magn efnisins eða blöndunnar,
     d.      yfirlýsing viðskiptamanns um fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar,
     e.      dagsetning og staður viðskiptanna,
     f.      undirskrift viðskiptamanns.
    Skráin skal geymd í fimm ár frá viðskiptadegi. Lögreglustjóri eða tollstjóri getur, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að skránni.
    Skráin skal geymd á pappír eða öðrum varanlegum miðli og skal aðgengileg til skoðunar hvenær sem er allt tímabilið sem kveðið er á um í 3. mgr. Öll gögn sem geymd eru rafrænt skulu:
     a.      vera í samræmi við snið og innihald samsvarandi pappírsskjala og
     b.      vera tiltæk hvenær sem er allt tímabilið sem kveðið er á um í 3. mgr.
    Leyfisveitendur skulu senda lögreglustjóra, tollstjóra eða öðrum aðila á landsvísu yfirlit yfir útgefin leyfi einu sinni á ári en oftar sé þess óskað.

    d. (27. gr. d.)
    Ráðherra setur reglugerð um forefni til sprengiefnagerðar sem getur m.a. kveðið á um:
     a.      tegundir forefna sem sæta takmörkunum,
     b.      tegundir forefna sem sæta eingöngu tilkynningarskyldu,
     c.      tegundir forefna sem sæta skráningarskyldu,
     d.      viðmiðunar- og styrkleikamörk,
     e.      skráningu forefna og tilkynningarskyldu,
     f.      tengilið á landsvísu,
     g.      eftirlit,
     h.      heimatilbúnar sprengjur,
     i.      merkingar.

5. gr.

    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 frá 12. desember 2014.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 145. löggjafarþingi (663. mál, þingskjal 1091) en var ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt efnislega. Frumvarpið er samið á vegum innanríkisráðuneytisins.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 frá 12. desember 2014 var reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Til að innleiða reglugerðina í íslenskan rétt er talið nauðsynlegt að breyta vopnalögum, nr. 16/1998, en gert er ráð fyrir því að reglugerðin verði síðan innleidd að fullu með nýrri reglugerð um forefni til sprengiefnagerðar.
    Í frumvarpinu er lagt til bann við heimatilbúnum sprengjum. Þá er lagt til að forefni verði skilgreint í vopnalögum og að ráðherra fái heimild til að kveða á um það í reglugerð hvaða forefni skuli háð takmörkunum og hvaða forefni skuli vera tilkynningarskyld. Enn fremur er lagt til að ráðherra fái heimild til að kveða á um að öll viðskipti með tiltekin forefni skuli skráð og lagðar til leiðbeiningar um það hvað teljist til grunsamlegra viðskipta.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Lengi hefur verið þekkt að tiltekin efni sem notuð eru t.d. í iðnaði og landbúnaði er hægt að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna. Heimsbyggðin hefur ekki farið varhluta af því en efni sem notuð eru t.d. í landbúnaði hafa ítrekað verið uppistaðan í sprengjum hryðjuverkamanna í sprengjuárásum á saklausa borgara. Þá hafa tilraunir til að vinna skaða með tilteknum efnum leitt til þess að hert hefur verið á öryggisleit undanfarna áratugi fyrir flug til að tryggja flugvernd og gerðar hafa verið frekari takmarkanir á hlutum sem taka má með í handfarangri í flug.
    Árið 2008 auðkenndi fastanefnd Evrópusambandsins um forefni mörg efni sem hægt er að nota til að gera hryðjuverkaárásir og lagði til að gripið yrði til viðeigandi aðgerða á vettvangi Evrópusambandsins. Það leiddi m.a. af sér að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna var sett en svo sem fram hefur komið var reglugerðin tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 12. desember 2014.
    Með reglugerðinni er komið á samræmdum reglum um aðgengi, markaðssetningu, umráð og notkun efna eða efnablandna sem nota má til að framleiða ólögleg sprengiefni í þeim tilgangi að takmarka aðgengi almennings að þeim. Einnig er með gerðinni stefnt að því að tryggja tilkynningu á grunsamlegum viðskiptum með tiltekin efni.
    Notuð er sú aðferð að gera ólöglega framleiðslu sprengiefna erfiðari með því að mæla fyrir um leyfileg styrkleikamörk fyrir tiltekin forefni sprengiefna, og eru viðkomandi efni talin upp í I. viðauka við gerðina. Sjö efni eru talin upp í viðaukanum ásamt styrkleikamörkum og er þannig frjáls dreifing þessara efna undir styrkleikamörkunum tryggð. Ríki geta þó kveðið á um að viðskipti með efnin séu skráð. Hins vegar skal takmarka aðgang almennings að þessum efnum þegar þau eru yfir styrkleikamörkunum. Ríki geta þó ákveðið að veita almenningi aðgang að völdum efnum yfir styrkleikamörkum. Ákveði þau að gera það skal koma upp skráningarkerfi þar sem sala er skráð eða komið upp leyfakerfi hjá lögbæru yfirvaldi. Í greinargerð með reglugerðinni kemur fram að koma þurfi upp hvoru tveggja, þ.e. leyfisveitingakerfi og skráningarkerfi. Ákvæðum reglugerðarinnar ber ekki saman við greinargerðina að þessu leyti en samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er valkvætt hvort leyfakerfi er notað með skráningarkerfi eða aðeins skráningarkerfi. Það þýðir að almenningur getur ekki á löglegan hátt orðið sér úti um, flutt inn, haft í vörslu sinni eða notað þessi forefni sprengiefna í styrkleika sem er yfir mörkunum, nema annaðhvort að fengnu sérstöku leyfi og skráningu eða að viðskiptin séu aðeins skráð.
    Þá eru í gerðinni talin upp átta efni í II. viðauka sem tilkynningarskylda gildir um ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað með þau. Þetta á t.d. við þegar tilvonandi viðskiptavinur er óskýr að því er varðar fyrirhugaða notkun, virðist ekki vita hver hún er eða getur ekki útskýrt það svo trúanlegt sé, hyggst kaupa efni í óvenjulegu magni, óvenjulegum styrkleika eða óvenjulegri samsetningu, er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða gefa upp búsetu eða fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti. Rekstraraðilar skulu einnig geta áskilið sér rétt til að hafna slíkum viðskiptum.
    Þá gerir reglugerðin ráð fyrir að nýjum efnum verði bætt á listana í viðaukunum eða styrkleikum breytt ef upp koma nýjar leiðir til að framleiða sprengiefni.
    Mörg þeirra efna sem getið er í I. og II. viðauka í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 eru leyfisskyld á Íslandi en ekki öll. Svo virðist sem leyfisskylda sé fyrst og fremst að formi til en leyfi er alla jafnan veitt sé ekki ástæða til að hafna því. Með þessu fyrirkomulagi er nokkurs konar skráningarskylda. Efnin sem krafist er leyfis fyrir fást ekki tollafgreidd nema með leyfi frá viðkomandi yfirvaldi, sem er ýmist Vinnueftirlitið, Matvælastofnun eða Lyfjastofnun.
    Íslensk lögregluyfirvöld og tollyfirvöld hafa um nokkurt skeið undirbúið viðbrögð og greint hvar skórinn kreppir við að fá yfirsýn yfir forefni sprengiefna með hliðsjón af framangreindri reglugerð og almannaöryggi. Við gerð frumvarpsins naut ráðuneytið afraksturs þessa góða samstarfs sem enn stendur yfir.
    Svo sem fram hefur komið felur reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 í sér takmarkanir á notkun efna, eftirlit og skráningu en skortur er á heimild í gildandi vopnalögum til að hafa eftirlit og takmarka notkun þessara forefna. Þá kveður reglugerðin á um tilkynningarskyldu sem ber að hafa í lögum. Það leiðir af reglugerðinni að framleiðsla heimatilbúinna sprengna verður bönnuð. Slíka bannreglu skortir í íslenskan rétt en nauðsynlegt er að kveða á um það í lögum. Þannig er ekki hægt án lagaheimildar að innleiða reglugerð Evrópusambandsins eingöngu með setningu reglugerðar hér á landi. Þá felur reglugerðin í sér kröfu um vinnslu persónuupplýsinga en nauðsynlegt er að gera því skil í lögum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að óheimilt sé að búa til, varðveita, selja, flytja inn og flytja út heimatilbúnar sprengjur. Flestar sprengjur sem notaðar hafa verið til hryðjuverka og búnar eru til úr forefnum eru framleiddar í heimahúsum eða öðrum híbýlum sem ekki eru gerð fyrir sprengiefnaframleiðslu. Þá nær ákvæðið til sprengna sem þekkt er að einstaklingar hér á landi hafa búið til um áramót úr skoteldum sem teknir hafa verið í sundur, t.d. svokallaðar rörasprengjur.
    Í frumvarpinu er kveðið á um þá meginreglu að almennir borgarar skuli ekki hafa aðgang að forefnum sprengiefna sem sæta takmörkunum samkvæmt reglugerð. Þó er aðgangur almennings heimill að þessum efnum undir ákveðnum styrkleikamörkum. Fjöldi þessara efna og styrkleikamörk geta tekið breytingum og því er rétt að geta um þau í reglugerð. Þessi efni eru talin upp í I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013. Þau eru sjö talsins og nefnast vetnisperoxíð, nítrómetan, saltpéturssýra, kalíumklóríð, kalíumperklórat, natríumklórat og natríumperklórat.
    Þá er gert ráð fyrir að ráðherra geti ákveðið að öll viðskipti með forefni samkvæmt reglugerð, hvort sem þau sæta takmörkunum eða ekki, skuli skráð. Skráning á viðskiptum með efnin mundi án efa styrkja almannaöryggi í landinu og stuðla að því að yfirvöld hefðu yfirsýn yfir magn þessara efna og hvar þau væru. Í dag er lítil yfirsýn yfir efnin þegar þau koma inn í landið en yfirsýnin hverfur alveg eftir að þau er komin inn í landið. Ef skráningarkerfi yrði komið á væru meiri líkur á því að lögregluyfirvöld gætu komið í veg fyrir hryðjuverk ef þau væru áformuð hér á landi með notkun sprengna. Ákvörðun um það hvort skrá eigi þessi efni hefur ekki verið tekin.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að leyfa almenningi að nálgast efni sem háð eru takmörkunum í hærri styrkleikamörkum. Þau efni eru í dag vetnispersoxíð, nítrómetan og saltpéturssýra. Ákveði ráðherra að veita þessa heimild er skylt að skrá viðskiptin á ákveðinn hátt.
    Í II. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 eru talin upp átta efni sem tilkynningarskylda gildir um ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað. Um er að ræða efnin hexamín, brennisteinssýru, aseton, kalíumnítrat, natríumnítrat, kalsíumnítrat, kalsíumammóníumnítrat og ammóníumnítrat. Lagt er til í frumvarpinu að öll forefni í reglugerð sem ráðherra setur verði tilkynningarskyld ef grunsamleg viðskipti, grunsamlegar fyrirspurnir eða tilraun til grunsamlegra viðskipta eiga sér stað. Með grunsamlegum viðskiptum er átt við hvers konar viðskipti, þ.m.t. viðskipti atvinnunotenda, með þau efni sem talin eru upp í reglugerð sem ráðherra setur eða blöndur eða efni, sem innihalda þessi efni, ef gild ástæða þykir vera til að gruna að fyrirhugað sé að nota efnið eða blönduna til ólöglegrar framleiðslu á sprengiefnum. Nánari leiðbeiningar er að finna í ákvæði 27. gr. b. Að þessu leyti gengur frumvarpið lengra en reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins. Tillagan er lögð fram í þágu almannaöryggis og almannahagsmuna og er það mat ráðuneytisins að í þessu tilviki vegi almannahagsmunir og almannaöryggi þyngra en lögmætir hagsmunir einstaklinga til persónufrelsis.
    Með tilkynningarskyldu er gerð krafa um að persónuupplýsingar verði unnar og birtar þriðja aðila ef um er að ræða grunsamleg viðskipti. Þess verður með öðrum orðum krafist að viðskipti verði skráð og þau tilkynnt til lögregluyfirvalda Skráningin og birtingin felur í sér skerðingu á grundvallarréttindum til einkalífs og réttindum til verndar persónuupplýsingum. Sama gildir ef ráðherra ákveður með reglugerð að taka upp skráningarkerfi. Gert er ráð fyrir því að þau grundvallaréttindi til verndar persónuupplýsingum séu vernduð á viðeigandi hátt þegar persónuupplýsingar einstaklinga eru unnar við beitingu laganna og reglugerða sem kunna að verða settar. Höfð hefur verið hliðsjón af lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, sem og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga við gerð þessa frumvarps, einkum um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við skráningu viðskipta og tilkynningar um grunsamleg viðskipti. Taka þarf tillit til almennra meginreglna um gagnavernd sem varða lágmörkun gagna, takmörkun vegna tilgangs, meðalhóf og nauðsyn, sem og kröfuna um að sýna skráðum aðila tilhlýðilega virðingu að því er varðar rétt hans til aðgangs, til leiðréttingar og eyðingar.
    Gert er ráð fyrir að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 verði að fullu innleidd með reglugerð sem ráðherra setur. Vanda þarf til þeirrar reglugerðar og þá sérstaklega hvað samráð varðar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru innleiddar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við lögreglu- og tollyfirvöld auk þess sem leitað var upplýsinga frá innflytjendum viðkomandi efna.
    Frumvarpið var birt til umsagnar á vef ráðuneytisins 10. mars 2016 og almenningi sem og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum til og með 17. mars. Sérstök tilkynning var send opinberum stofnunum sem málið varðar, svo sem Persónuvernd, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlitinu, Umhverfisráðuneyti o.fl., sem og fyrirtækjum eins og Olís, Fóðurblöndunni og Skeljungi svo dæmi séu tekin. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu.

6. Mat á áhrifum.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki hafa teljandi áhrif á hagsmunaaðila en þó gæti skráningarkerfi, verði það sett á laggirnar, haft einhver áhrif á atvinnulífið, en þó hverfandi. Áhrif frumvarpsins á almannahagsmuni og almannaöryggi eru hins vegar talsverð og leiða má líkur að því að öryggi samfélagsins muni aukast. Eftirlitshlutverk hins opinbera mun ekki aukast svo um munar frá því sem nú er og fellur innan fjárheimilda þeirra stofnana sem eftirlitinu sinna sem hluta af daglegum störfum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að hugtakið forefni verði skilgreint í kaflanum um gildissvið laganna. Rétt þykir að skilgreint sé í meginatriðum hvað forefni til sprengiefnagerðar er en efnin geta verið af margvíslegum toga og flest notuð í öðrum tilgangi en til sprengiefnagerðar. Með forefnum samkvæmt lögunum er átt við tiltekin efni sem kveðið er á um í reglugerð og hægt er að misnota til ólöglegrar sprengiefnagerðar. Efnunum er skipt í tvo flokka, annars vegar efni sem eru háð takmörkunum og hins vegar efni sem einungis er skylt að tilkynna um ef viðskipti með þau eru grunsamleg. Ef efni er ekki tilgreint í reglugerð sem ráðherra setur fellur það ekki undir lögin.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við c-lið 1. mgr. 2. gr. bætist orðin „og forefni til sprengiefnagerðar“. Þó að gildandi vopnalög gildi um sprengiefni þá er ekki sjálfgefið að þau gildi um forefni til sprengiefnagerðar, sbr. það sem fram kemur í skýringum við 1. gr. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 3. gr.

    Til að ná fram markmiðum með innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 er nauðsynlegt að leggja bann við heimatilbúnum sprengjum. Því er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 27. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að óheimilt verði að búa til, varðveita, hafa í fórum sínum, selja eða flytja inn eða út heimatilbúnar sprengjur. Þó að með ákvæðinu sé ætlunin að ná til gerðar á sprengjum sem ætlunin er að nota til hryðjuverka þá mun ákvæðið einnig ná til annarra sprengna, svo sem rörasprengna sem dæmi eru um að gerðar hafi verið um áramót og valdið hafa bæði líkams- og eignatjóni.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að á eftir 27. gr. komi fjórar nýjar greinar, 27. gr. a – 27. gr. d.
    Í a-lið (27. gr. a) er kveðið á um aðgangstakmarkanir almennra borgara að efnum sem sæta takmörkum samkvæmt reglugerð. Almenningur hefur aðgang að efnunum upp að ákveðnum styrkleika. Ráðherra er þó heimilt að heimila aðgang að ákveðnum efnum í meiri styrkleika með reglugerð, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
    Efnin sem um ræðir í dag eru sjö og eru talin upp í greinargerð. Það hvaða efni aðgangstakmarkanirnar eiga við og styrkleiki þeirra kann að breytast með tíð og tíma og því er nauðsynlegt að tilgreina efnin í reglugerð. Yfirvöld gætu þurft að bregðast fljótt við ef nauðsynlegt er að bæta við listann eða breyta styrkleikaviðmiðunum og þá er setning reglugerðar fljótlegri en breyting á lagatexta.
    Í 3. mgr. a-liðar er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða á um það að viðskipti með efni sem ákveðin eru með reglugerð, hvort sem um þau gilda aðgangstakmarkanir eða aðeins tilkynningarskylda, verði skráð skv. 27. gr. c. Brýnt er að ráðherra hafi þessa heimild þar sem nauðsynlegt getur verið, með tilliti til almannaöryggis, að fylgjast með efnum sem þessum.
    Í b-lið (27. gr. b) er lagt til að sá sem framleiðir, flytur inn, flytur út eða verslar með sprengiefni eða forefni til sprengiefnagerðar sem talin eru upp í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. I. og II. viðauka í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013, geti áskilið sér rétt til að hafna grunsamlegum viðskiptum. Með grunsamlegum viðskiptum er átt við hvers konar viðskipti, þ.m.t. viðskipti lögaðila, með þau efni sem talin eru upp í viðaukunum, eða með blöndur eða efni sem innihalda þessi efni, ef gild ástæða þykir vera til að gruna að fyrirhugað sé að nota efnið eða blönduna til ólöglegrar framleiðslu á sprengiefnum. Þá er þeim gert skylt að tilkynna viðskiptin, tilraun til viðskipta eða grunsamlegar fyrirspurnir til lögreglustjóra, tollstjóra eða annars tengiliðar á landsvísu sem ákveðinn er með reglugerð. Bent skal á að hér er gengið lengra en reglugerðin segir til um, þ.e. tilkynningarskyldan er látin ná til efna sem sæta takmörkunum, þ.e. efna sem getið er í I. viðauka við framangreinda reglugerð en ekki aðeins efna í II. viðauka svo sem reglugerðin gerir ráð fyrir. Tekið er sérstaklega fram í ákvæðinu að aðeins er skylt að tilkynna ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Þá eru leiðbeiningar í fimm liðum um hvenær viðskipti teljast grunsamleg. Ljóst er að hér er gerð krafa um vinnslu persónuupplýsinga og frekari birtingu þeirra til þriðja aðila ef um er að ræða grunsamleg viðskipti. Sú vinnsla felur í sér alvarlega skerðingu á grundvallarréttindum til einkalífs og réttindum til verndar persónuupplýsingum. Tryggja ber grundvallarréttindi til verndar persónuupplýsingum með viðeigandi hætti þegar unnið er með persónuupplýsingar einstaklinga við beitingu þessara laga í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.
    Í 2. mgr. b-liðar er gert lögskylt að tilkynna um hvarf eða þjófnað á sprengiefni eða forefnum til sprengigerðar. Gert er ráð fyrir því að ráðherra ákveði tengilið á landsvísu með reglugerð sem taki við tilkynningum en meðan enginn tengiliður er starfandi geta menn snúið sér t.d. til lögreglu. Ákvæðið þarfnast ekki sérstakrar skýringa.
    Í c-lið (27. gr. c) er að finna leiðbeiningar um það hvernig skrá eigi viðskipti með forefni til sprengiefnagerðar ef ráðherra ákveður að gera þau skráningarskyld. Rétt þykir að kveða á um það í lögum hvað skuli skráð, hve lengi skráin skuli vera vistuð og önnur grunnatriði. Flest fyrirtæki hafa skráningarkerfi nú þegar um viðskipti og viðskiptamenn sína þannig að hugsanlega, ef af skráningu verður, ætti þetta ekki að valda miklum óþægindum fyrir fyrirtæki og viðskiptamenn. Hins vegar kann að vera að aðgreina þurfi þessa skrá frá öðrum viðskiptaskrám svo að hægt verði að miðla upplýsingum úr skránum til lögreglu eða tollstjóra og/eða veita þessum opinberu aðilum aðgang að þessum upplýsingum. Ekki liggur fyrir hvort búa þurfi til sérstaka skrá sem þurfi að innleiða.
    Í d-lið (27. gr. d) er að finna reglugerðarákvæði sem er nokkuð rúmt. Svo sem fram hefur komið verður reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna innleidd að fullu með reglugerð.

Um 5. og 6. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.