Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 373  —  37. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir ráðuneytisins sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Fjármálaeftirlitið sinnir eftirliti sem fellur undir 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur. Fjármálaeftirlitið starfar samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og ýmsum öðrum lögum á fjármálamarkaði sem leggja á stofnunina ýmsar skyldur og heimildir til inngripa í starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaði vegna almannahagsmuna.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Eftirlitsskyldir aðilar standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins, sbr. lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eftirlitsgjald samkvæmt þessum lögum rennur beint til reksturs Fjármálaeftirlitsins og er innheimt af Fjármálaeftirlitinu. Árið 2012 nam framlag ríkissjóðs 68,0 millj. kr. til viðbótar en ekkert önnur ár.

     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
    Stöðugildi hjá Fjármálaeftirlitinu voru 87 árið 2010 en 117,5 á árinu 2016.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
    Engu eftirliti eða einstökum verkefnum hefur verið útvistað.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Ráðherra hefur ekki látið kanna kosti og galla þess að útvista starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Í tilefni af fyrirspurninni var óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til þessa. Í svari hennar til ráðuneytisins kom fram að hún hefði ekki lagt heildstætt mat á kosti þess og galla að útvista starfseminni að hluta eða öllu leyti. Sérstaklega var þó upplýst að fyrir nokkrum árum hefði verið ræddur hjá stofnuninni sá möguleiki að útvista hluta af starfsemi upplýsingatæknimála. Niðurstaðan þá hefði verið sú að slíkt kæmi ekki til greina en að á komandi misserum kynni viðhorf til þessa þó að breytast í ljósi þess að upplýsingar væru í síauknum mæli vistaðar í tölvuskýjum.
    Ráðherra telur ekki útilokað að útvistun einstakra verkefna Fjármálaeftirlitsins geti komið til greina í framtíðinni. Slíkt verði þó að meta hverju sinni með hliðsjón af þeim reglum og alþjóðlegu skuldbindingum sem um starfsemina gilda sem og möguleikum í tækniumhverfi og þá ekki síst með tilliti til öryggissjónarmiða.