Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 418  —  306. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,
með síðari breytingum
(sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).


Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal Jöfnunarsjóður greiða sveitarfélögum á árinu 2017 sérstakt framlag sem samsvarar 1,06% af tekjum ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010 á árinu 2014, 2,12% af tekjum ríkissjóðs af þessum skatti á árinu 2015 og 2,355% á árinu 2016.
    Sérstakt framlag Jöfnunarsjóðs skv. 1. mgr. skal skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga í samræmi við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari áranna 2013, 2014 og 2015.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um fyrirkomulag greiðslna og uppgjör á hinu sérstaka framlagi samkvæmt þessu ákvæði að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og er efni þess í samræmi við samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27. júní 2014. Innanríkisráðherra lagði fram sambærileg frumvörp á vor- og haustþingi 2015 (574. mál 144. löggjafarþings og 263. mál 145. löggjafarþings), sem ekki hlutu afgreiðslu. Ákvæði þessa efnis var upphaflega í frumvarpi því er varð að lögum nr. 135/2014, en var þá fellt brott að tillögu umhverfis- og samgöngunefndar þar sem nefndin taldi ákvæðið þarfnast nánari skoðunar í ljósi athugasemda sem henni höfðu borist og þess skamma fyrirvara sem hún hafði til meðferðar málsins.
    Tilgangur frumvarpsins er að vega á móti þeim áhrifum sem lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, hafa haft á útsvarstekjur sveitarfélaganna. Er það gert með úthlutun sérstaks framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem samsvarar þeim auknu tekjum sem fallið hafa til sjóðsins frá miðju ári 2014 og út árið 2016 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010.
    Samkvæmt a-lið 8. gr. a laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, er hluti tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga framlag úr ríkissjóði sem nam 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs á árunum 2014 og 2015 en 2,355% á árinu 2016. Auknar tekjur ríkissjóðs vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010 hafa því skilað auknum tekjum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem þessu hlutfalli nemur. Frá miðju ári 2014 og út árið 2016 námu þessar auknu tekjur Jöfnunarsjóðs um 1,3 milljörðum kr. Frumvarpið felur í sér að Jöfnunarsjóður mun á árinu 2017 úthluta sérstöku framlagi til sveitarfélaganna sem samsvarar þessum auknu tekjum sjóðsins og skipt verður milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu útsvari áranna 2013, 2014 og 2015 og þar með í réttu hlutfalli við áhrif laga nr. 40/2014 á útsvarstekjur sveitarfélaganna.
    Það skal tekið fram að umræddar tekjur Jöfnunarsjóðs af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki rynnu ella til sveitarfélaganna eftir almennum reglum laganna um úthlutanir úr Jöfnunarsjóði. Frumvarpið hefur því ekki áhrif á heildarframlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna og er því ekki tilefni til að framkvæma mat á áhrifum þess á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Þá hefur frumvarpið engin áhrif á fjárhag ríkissjóðs.