Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 524  —  394. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir gegn kennaraskorti.


Flm.: Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Einar Brynjólfsson, Gunnar I. Guðmundsson, Elsa Lára Arnardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu að aðgerðum gegn kennaraskorti í framtíðinni.

Greinargerð.

    Nauðsynlegt er að fjölga brautskráðum kennurum og gera skóla að eftirsóttum vinnustöðum. Skortur á menntuðum kennurum er orðinn slíkur að um þriðjungur stöðugilda í leikskólum er skipaður leikskólakennurum og einungis um helmingur grunnskólakennara sinnir kennslustörfum. Fara verður ítarlega yfir starfskjör og vinnuumhverfi stéttarinnar til að tryggja að þeir sem mennti sig til kennslu kjósi að vinna innan skólanna og fleiri sækist eftir því að verða kennarar.
    Með lögum nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla var kennaranám lengt úr þremur árum í fimm. Síðan hefur skráðum kennaranemum fækkað mikið og ljóst er að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í greininni. Haustið 2016 voru 214 nýnemar skráðir við kennaradeildir opinberu háskólanna en þeir voru 440 árið 2009. Fækkunin nemur 51%. Þessar tölur, ásamt þeirri staðreynd að nú þegar er skortur á kennurum, sýna glöggt mikilvægi þess að Alþingi bregðist við með afgerandi hætti.
    Nú er svo komið að börn líða fyrir of einhæft umhverfi vegna skorts á menntuðum kennurum og kennaranemum. Augljóst dæmi er skortur á karlkyns kennurum en þeim hefur fækkað jafnt og þétt á síðustu árum. Þá kemur fækkun kennara einnig niður á sérhæfingu í kennaranámi.
    Mörg fyrrnefndra atriða eru dregin fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þar kemur einnig fram að hærra hlutfall nemenda frá Háskólanum á Akureyri sinnir kennslu en frá Háskóla Íslands. Á móti kemur að námið í Háskóla Íslands er heldur ódýrara. Í skýrslunni eru stjórnvöld hvött til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir aðsteðjandi kennaraskort. Nýta þarf úttektina til að finna lausnir í samstarfi við kennara, nemendur, foreldra, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila.
    Bent hefur verið á ýmsar færar leiðir, svo sem að hvetja kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri til að leita leiða til að laða nýnema í kennaranám og auka skilvirkni í kennaranámi með því að þróa opinbera mælikvarða til að meta kostnað og skilvirkni háskólakennslu.
    Þá þarf að skoða kjör kennara sérstaklega í þessu samhengi og meta hversu stór þáttur þau eru í vandanum. Þar verður líka að meta áhrif endurgreiðslubyrði námslána á kjör þeirra sem leggja stund á kennaranám. Rétt er að minna á að í nýlegu samkomulagi opinberu stéttarfélaganna annars vegar og fulltrúa ríkis og sveitarfélaga hins vegar er kveðið á um að jafna skuli launamun milli starfsmanna hins opinbera og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Í greinargerð með stjórnarfrumvarpi um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem lagt var fram fyrr á þessu löggjafarþingi (6. mál), segir:
    „Þótt það felist ekki í lögfestingu þessa frumvarps liggur fyrir að aðlögun og jöfnun á lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins og sveitarfélaga að sama kerfi og gildir fyrir almenna vinnumarkaðinn er liður í samkomulagi við heildarsamtök þeirra sem jafnframt felur í sér að unnið verði að því að jafna mismun á launakjörum á milli þessara geira vinnumarkaðarins að því marki sem hann telst vera kerfislægur eða ómálefnalegur. Í því skyni verði þróuð aðferðafræði til greiningar á launamun, ákvörðuð hlutlæg viðmið um hvenær leiðrétta beri launamun einstakra hópa og gerð áætlun um launajöfnun á grundvelli kjarasamninga á allt að áratug og helst í samhengi við nýtt vinnumarkaðslíkan sem aðilar vinnumarkaðarins fyrirhuga að móta á næstu misserum. Þessi þáttur samkomulagsins, sem er ein af forsendum fyrir breyttu lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna sem frumvarpið kveður á um, kann að leiða til þess að launahækkanir tiltekinna starfshópa verði meiri yfir tiltekið árabil en annars hefði orðið til að ná markmiðum um samræmingu launakjara.“
    Við stöndum frammi fyrir stærri samfélagsbreytingum á næstu áratugum en við höfum þurft að takast á við mjög lengi, sannkallaða þjóðfélagsbyltingu. Atvinnulíf tekur stakkaskiptum og tæknibyltingin, með gervigreind, vélvæðingu og tölvuvæðingu, mun leiða til mikillar fækkunar á þeim störfum sem eru unnin nú.
    Allar rannsóknir sýna að þau störf sem þó verða áfram unnin af fólki krefjast sérhæfingar og menntunar. Þar mun gott skólakerfi með góðum kennurum leika lykilhlutverk. Aðgerðir til að koma í veg fyrir kennaraskort eru ein stærsta áskorun íslenskra stjórnmála og þurfa að fá meiri athygli Alþingis og stærri sess í þjóðmálaumræðunni. Starfshópur sem gerir tillögu að aðgerðum til að koma í veg fyrir kennaraskort í framtíðinni væri mikilvægt skref í þá átt.
    Með tillögu þessari er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra skipi starfshóp sem geri tillögu að aðgerðum til að koma í veg fyrir kennaraskort í framtíðinni. Aðild að hópnum ættu a.m.k. fulltrúar stéttarfélaga kennara, nemenda, foreldra, háskóla sem bjóða upp á kennaranám, sveitarstjórna og allra þingflokka. Verkefni slíks starfshóps eru ærin og þola enga bið.