Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 556  —  423. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (ritfangakostnaður).

Flm.: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eygló Harðardóttir, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 31. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

3. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum: Í stað „0,264%“ í b-lið 8. gr. a laganna kemur: 0,284%.

Greinargerð.

Inngangur.
    Frumvarp þetta er flutt af talsmönnum barna á Alþingi sem tilnefndir hafa verið af þingflokkum.

Markmið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimildarákvæði í grunnskólalögum um gjaldtöku vegna ritfanga og annarra gagna verði fellt brott. Jafnframt er lagt til að sveitarfélögum verði bættur sjá útgjaldaauki sem frumvarpið felur í sér með auknu framlagi úr ríkissjóði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Efnisatriði.
    Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna. Velferðarvaktin og samtökin Barnaheill og Heimili og skóli hafa vakið athygli almennings og stjórnvalda á að þarna geti verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða fyrir fjölskyldur og farið er fram á að þetta heimildarákvæði verði fellt brott. Barnaheill stofnaði til sérstakrar undirskriftasöfnunar sumarið 2016 til að mótmæla gjaldtökunni þar sem samtökin töldu hana ekki samræmast ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.
    Í könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga á kostnaði foreldra vegna ritfanga sem gerð var 2016 voru skoðaðir listar frá grunnskólum víða um land um nauðsynleg námsgögn. Niðurstaða könnunarinnar var að skólar gerðu mjög mismunandi kröfur um hvaða gögn nemendum bæri að koma með í skólann. Þar af leiðandi getur kostnaður verið mjög mismunandi milli sveitarfélaga og jafnvel umtalsverður á milli skóla í sama sveitarfélagi.
    Gera má ráð fyrir að þessi námskostnaður komi ekki síst illa við þær fjölskyldur sem standa höllum fæti í samfélaginu. Í hvatningu Velferðarvaktinnar haustið 2016 kom fram að kostnaður við námsgögn fyrir barn í grunnskóla gæti verið á bilinu 400–22.000 kr. og að þessi kostnaður kæmi verst niður á efnaminni fjölskyldum. Tekið skal fram í þessu sambandi að í sumum sveitarfélögum, svo sem í Sandgerði, er kostnaður við ritföng grunnskólanemenda greiddur að fullu af sveitarfélögunum og í öðrum að hluta.
    Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á gjaldfrjálsri grunnmenntun. Engin ástæða er til að hafa heimild til undanþágu frá þessu í grunnskólalögum og því er lagt til að heimildarákvæði til gjaldtöku í 31. gr. grunnskólalaganna verði fellt niður.

Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við bréf Velferðarvaktarinnar til sveitarfélaga um námsgagnakostnað og gögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið. Enn fremur voru ýmsar upplýsingar frá Barnaheillum og Heimili og skóla.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá og leiðir til þess að staðið verði við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem felast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.

Mat á áhrifum frumvarpsins.
    Grunnskólar eru reknir á vegum sveitarfélaganna og voru þar 43.760 börn árið 2015. Verði frumvarpið að lögum leiðir það til aukins kostnaðar fyrir sveitarfélögin sem standa straum af kostnaði við starfsemi skólanna.
    Í könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga á kostnaði við ritföng grunnskólanemenda haustið 2015 kom í ljós að mjög mismunandi kröfur eru gerðar um hvaða gögn nemendum ber að koma með í skólann. Kostnaðurinn var þar af leiðandi mjög misjafn á milli sveitarfélaga og einnig gat verið umtalsverður munur á milli skóla í sama sveitarfélagi.
    Málið var aftur skoðað hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga haustið 2016. Leiddi sú skoðun í ljós að ekki höfðu orðið neinar grundvallarbreytingar á kostnaði grunnskólanema á landinu í heild þótt breytingar hefðu orðið á stöku stað. Mikill munur var sem fyrr á hæstu og lægstu tölum milli skóla og hafði sá munur heldur aukist á milli ára. Einnig höfðu hæstu kostnaðartölur hækkað umtalsvert milli ára.
    Í könnuninni kom fram að lægsta tala var 400 kr. og hæsta 22.000 kr. á barn.
Hæsta tala Lægsta tala Meðaltal
1. bekkur 12.000 900 5.900
4. bekkur 10.900 400 6.400
6. bekkur 14.000 1.800 8.300
8. bekkur 22.300 3.500 11.000
10. bekkur 22.100 3.100 11.000
    Meðalkostnaður var á bilinu 7.000–8.000 kr. á barn og áætlaður heildarkostnaður foreldra og forráðamanna vegna námsgagna grunnskólabarna því á bilinu 300–500 millj. kr. á landsvísu.
    Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið að ef Alþingi beitir sér fyrir lagabreytingum á borð við þær sem lagðar eru til í þessu frumvarpi þurfi að leggja á þær kostnaðarmat og bæta sveitarfélögum þann útgjaldaauka sem leiddi af slíkri lagabreytingu.
    Eftir lagabreytinguna yrðu sveitarfélög að sjá um innkaup á nauðsynlegum námsgögnum. Ætla má að sveitarfélög gætu náð umtalsvert hagstæðari innkaupum en einstakir foreldrar og forráðamenn auk þess sem þau gætu ákveðið hver kostnaðurinn ætti að vera, en eins og kannanir leiddu í ljós reyndist munur á kostnaði á milli sveitarfélaga mikill. Ný lög um opinber innkaup skylda sveitarfélög til að bjóða út innkaup á vöru og þjónustu yfir 15,5 millj. kr. Í tilraunaverkefni fjármálaráðuneytisins um hagstæðari innkaup kom í ljós að hægt var að ná mun betra verði á ýmsum vörum með svokölluðum örútboðum. Má sem dæmi nefna að þegar 55 ríkisstofnanir tóku þátt í örútboðum innan rammasamninga á tölvum, tölvuskjám og pappír var lágmarksávinningur af útboðunum metinn á yfir 100 millj. kr. Sameiginleg örútboð á ljósritunarpappír skiluðu 55% afslætti af listaverði bjóðanda. Sambærilegur afsláttur bauðst af tölvubúnaði.
    Lagt er upp með það að útboði, magnkaupum eða öðrum aðferðum til að gera hagkvæm innkaup verði beitt og það leiði til hagstæðara verðs en stendur til boða þeim sem kaupa í smáum einingum. Kostnaður vegna frumvarpsins er því áætlaður 300 millj. kr. á ári og er lagt til að framlag ríkissjóðs af innheimtum skatttekjum og tryggingagjöldum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukist sem því svarar.