Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 572  —  439. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).

Frá félags- og jafnréttismálaráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „lifað sem eðlilegustu lífi“ í c-lið 1. mgr. kemur: búið við sem mest lífsgæði.
     b.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir: Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skal í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      9. tölul. orðast svo: Aðstoð við einstaklinga með fíknivanda og vímuvarnir.
     b.      10. tölul. fellur brott.

3. gr.

    II. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Stjórnskipulag, orðast svo:

    a. (3. gr.)

Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til og sker úr ágreiningi um það hvort reglur sveitarfélaga um félagsþjónustu eigi sér fullnægjandi lagastoð.
    Ráðuneytið hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög þessi og stjórnvaldsfyrirmæli sett samkvæmt þeim kveða á um.
    Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd félagsþjónustu sem byggist meðal annars á skýrslum sveitarfélaga um það efni.

    b. (4. gr.)

Sveitarstjórn.

    Hver sveitarstjórn ber ábyrgð á félagsþjónustu innan marka síns sveitarfélags, eftir atvikum í samvinnu við önnur sveitarfélög.

    c. (5. gr.)

Skipulag.

    Sveitarstjórn kýs fulltrúa í félagsmálanefnd, þrjá hið fæsta en þó a.m.k. fimm ef félagsmálanefnd eru falin verkefni barnaverndarnefndar. Um félagsmálanefnd gilda að öðru leyti ákvæði sveitarstjórnarlaga um fastanefndir.
    Sveitarstjórn getur ákveðið, á grundvelli heimilda í sveitarstjórnarlögum, að víkja frá því skipulagi félagsþjónustu sem 1. mgr. gerir ráð fyrir. Samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skal þá greina frá því hvernig háttað skuli fullnaðarafgreiðslu mála, meðferð einstaklingserinda, endurupptöku mála og öðrum slíkum atriðum. Þegar um er að ræða samstarf sveitarfélaga um félagsþjónustu skal ákvæðum 3.–5. mgr. jafnframt fylgt.
    Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 94. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela byggðasamlagi að veita félagsþjónustu fer um aðild að stjórn byggðasamlags eða þjónusturáði samkvæmt samstarfssamningi. Í stað staðfestingar ráðuneytis sveitarstjórnarmála á samningi skal fá staðfestingu ráðuneytis félagsþjónustu sem skal svo kynnt hinu fyrrnefnda.
    Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 96. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela öðru sveitarfélagi að veita félagsþjónustu fyrir sína hönd má hún jafnframt kjósa áheyrnarfulltrúa í félagsmálanefnd þess sveitarfélags sem þjónustuna veitir. Áheyrnarfulltrúi hefur seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsmálanefndar þegar málefni samstarfsverkefnisins eru þar til umræðu.
    Fulltrúar í sveitarstjórn þeirra sveitarfélaga sem hafa falið öðru sveitarfélagi að annast fyrir sig félagsþjónustu samkvæmt þessum lögum eiga sama rétt á aðgangi að gögnum og upplýsingum um það verkefni hjá því sveitarfélagi sem veitir félagsþjónustu og þeir hefðu ella haft skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga.

    d. (6. gr.)

Kærur og málskot.

    Aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögum þessum til úrskurðarnefndar velferðarmála.
    Ágreiningi um það hvort reglur sveitarfélaga um félagsþjónustu eigi sér fullnægjandi lagastoð verður skotið til ráðherra, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Umsækjandi, hlutaðeigandi sveitarfélag eða samtök þeirra geta borið niðurstöðu úrskurðarnefndar eða ráðherra undir dómstóla eftir almennum reglum. Að öðru leyti fer um málsmeðferð nefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
    Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt er að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr., skuli máli fyrst skotið til félagsmálanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Nýti sveitarstjórn heimild þessa skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.

    e. (7. gr.)

Samvinna sveitarfélaga.

    Sveitarfélögum er heimilt að hafa samvinnu um verkefni samkvæmt lögum þessum sem og önnur verkefni sem félagsþjónustunni er ætlað að sinna. Er sveitarfélögum heimilt að mynda sérstök þjónustusvæði um verkefnin, enda sé gætt ákvæða 5. gr. og sveitarstjórnarlaga.

    f. (8. gr.)

Samráð við notendur.

    Samráð skal haft við notendur félagsþjónustunnar með það að markmiði að þeir séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvörðunar um þjónustu og hvernig henni verður háttað. Þá skal hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög skulu að minnsta kosti árlega funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar og skulu starfrækja sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða meðlimi þeirra. Tryggja skal þátttakendum stuðning og þjálfun til virkrar þátttöku í notendasamráði.

    g. (9. gr.)

Samningar við einkaaðila.

    Sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að þjónustusvæði er heimilt að gera samninga við félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða aðra einkaaðila á þjónustusvæði sínu um að annast þjónustu samkvæmt lögum þessum. Mat á þjónustuþörf og ákvörðun um þjónustu skal þó alltaf vera á hendi sveitarfélags eða byggðasamlags. Óheimilt er að semja um veitingu þjónustu við aðra aðila en þá sem hafa fengið starfsleyfi skv. 10. gr.

    h. (10. gr.)

Starfsleyfi.

    Félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir einkaaðilar sem ætla að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum skulu afla starfsleyfis ráðuneytisins. Ráðuneytið skal afla umsagnar notendaráðs í því sveitarfélagi þar sem starfsemin er, áður en leyfið er veitt.
    Leyfisveitandi skal afturkalla starfsleyfi sem veitt hefur verið skv. 1. mgr. ef rekstraraðilinn hefur ekki sinnt kröfum um úrbætur innan tiltekinna tímamarka eða rekstrinum er verulega ábótavant að mati leyfisveitanda. Þá getur leyfisveitandi afturkallað starfsleyfi ef þjónustuveitandi vanrækir skyldur sínar gagnvart notendum þjónustunnar. Um afturköllun gilda ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins.
    Ráðherra skal setja nánari reglur í reglugerð um skilyrði fyrir starfsleyfi skv. 1. mgr. í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og að fenginni umsögn hagsmunasamtaka.

4. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög skulu hafa á að skipa menntuðu starfsfólki í félagsráðgjöf, sem hefur reynslu og getu til að takast á við verkefni samkvæmt lögum þessum. Þar sem þörf krefur skal ráða þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa. Starfsfólki skal gefast kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína.
    Óheimilt er að ráða í störf sem unnin eru í þágu þjónustu samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum, hvar sem hún er veitt, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem veita fötluðu fólki þjónustu.
    Stjórnendur hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki og einkaaðilum sem fara með þjónustu samkvæmt lögum þessum eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn umsækjandi um starf á þeirra vegum hefur hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga eða annarra ákvæða sömu laga að fengnu samþykki hans.

5. gr.

    VII. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Stuðningsþjónusta, orðast svo:

    a. (25. gr.)

Markmið.

    Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi.

    b. (26. gr.)

Skyldur sveitarfélaga.

    Sveitarfélagi er skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skal þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun, sbr. 62. gr.
    Ráðherra skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu samkvæmt kafla þessum, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjórn skal setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra.
    Heimilt er sveitarstjórn að taka gjald fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt gjaldskrá.

    c. (27. gr.)

Mat á stuðningsþörfum.

    Áður en aðstoð er veitt skal sá aðili sem fer með stuðningsþjónustu meta þörf í hverju einstöku tilviki. Læknisvottorð skal liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður er að ræða.
    Sé stuðningsþörf vegna fötlunar meiri en svo að henni verði mætt með þjónustu eða aðstoð samkvæmt þessum kafla skal stuðningur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir koma til viðbótar og þjónustan samþætt í þágu notanda.

    d. (28. gr.)

Notendasamningar.

    Markmið notendasamninga er að auka val einstaklinga og barnafjölskyldna um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings, að undangengnu faglegu mati. Notendasamningur felur í sér að notandi stjórnar því hver veitir aðstoðina, hvenær hún er veitt og hvernig þannig að best henti hverjum og einum. Notendasamningar geta bæði verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, eða þannig að notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.
    Einstaklingar og barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir stuðningsþjónustu geta sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað er um framkvæmd stuðningsþjónustu. Hlutaðeigandi sveitarfélag gerir slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setur.

    e. (29. gr.)

Akstursþjónusta.

    Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
    Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.
    Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur akstursþjónustu á grundvelli þessa ákvæðis. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

6. gr.

    32. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Félagsþjónustunni er heimilt að fela teymi fagfólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir að annast mat á umönnunarþörf fatlaðra og langveikra barna vegna umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

7. gr.

    33. gr. og IX. kafli laganna, Þjónusta við unglinga, falla brott.

8. gr.

    2. mgr. 38. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.

9. gr.

    Við 40. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélagi er ekki skylt að veita þjónustu samkvæmt þessari grein á sjúkrahúsi eða öldrunarstofnun.

10. gr.

    Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um þjónustu við fatlað fólk, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist samráðshópur um málefni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um þjónustu við fatlað fólk skulu viðkomandi sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu hópsins.

11. gr.

    43. gr. og 3. mgr. 44. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    47. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Húsnæði á vegum sveitarfélaga.

    Sveitarstjórn ákveður farveg fyrir meðferð umsókna um húsnæði á vegum hlutaðeigandi sveitarfélags sem ætlað er að vera heimili umsækjanda um lengri tíma. Jafnframt tekur sveitarstjórn afstöðu til þess hvaða aðili í stjórnkerfi sveitarfélagsins tekur ákvörðun um úthlutun. Um uppsögn leigusamnings um húsnæði sem hefur verið úthlutað á grundvelli laga þessara gilda sömu reglur og um úthlutun þess.
    Um kröfur til húsnæðis á vegum sveitarfélags skv. 1. mgr. fer eftir fyrirmælum í skipulagslögum og lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim lögum. Jafnframt skal farið eftir því sem segir um sértæk húsnæðisúrræði í húsnæðisáætlun og stefnumörkun stjórnvalda um ráðstöfun stofnframlaga.

13. gr.

    1. málsl. 50. gr. laganna orðast svo: Félagsmálanefndir skulu aðstoða þá sem eiga við fíknivanda að stríða við að leita sér viðeigandi meðferðar og aðstoðar.

14. gr.

    Í stað orðanna „áfengissjúkir og misnotendur vímugjafa“ í 51. gr. laganna kemur: einstaklingar með fíknivanda.

15. gr.

    Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Aðstoð við einstaklinga með fíknivanda og vímuvarnir.

16. gr.

    XIV. kafli laganna, Atvinnuleysisskráning og vinnumiðlun, fellur brott.

17. gr.

    Á eftir orðunum „Opinberir aðilar“ í 1. mgr. 62. gr. laganna kemur: þ.m.t. stofnanir ríkisins.

18. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018.

19. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999:
     a.      Í stað orðanna „þjónustuhóps aldraðra“ í 5. tölul. 2. gr., 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 16. gr. laganna kemur: öldungaráðs; og í stað „hans“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: þess.
     b.      Í stað orðanna „þjónustuhópur aldraðra“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr., í fyrirsögn á undan 6. gr. og í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: öldungaráð.
     c.      Í stað orðanna „þjónustuhóp aldraðra“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: öldungaráð.
     d.      Í stað orðsins „þjónustuhópnum“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: öldungaráðinu.
     e.      Í stað orðsins „nefndarmanna“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: öldungaráðsmanna.
     f.      Í stað orðsins „Þjónustuhópurinn“ í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: Öldungaráðið.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Árið 2007 var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks undirritaður fyrir Íslands hönd. Innanríkisráðuneytið fékk það verkefni að stýra vinnu við fullgildingu hans. Starfshópur hefur verið að störfum þar sem í sitja fulltrúar ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Innanríkisráðuneytið vann greiningu á þeim lögum sem breyta þyrfti til þess að fullgilda samninginn og voru lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, þar á meðal. Þá er til þess að líta að ákvæði um endurskoðun laganna hefur lengi verið að finna í bráðabirgðaákvæðum laganna en þar kemur m.a. fram að endurskoðun sú skuli fara fram í samhengi við endurskoðun laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá hefur umræðan um endurskoðun þessara tveggja lagabálka, sem báðir eru komnir til ára sinna, orðið háværari í kjölfar þess að ábyrgðin á þjónustu við fatlað fólk var flutt til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011.
    Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði 17. febrúar 2014 starfshóp um endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, með vísan til ákvæðis til bráðabirgða XII í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, um að endurskoða skyldi báða lagabálkana. Auk þess skyldi unnið að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í samvinnu við ráðuneytið. Í starfshópinn voru skipuð Willum Þór Þórsson, formaður, Rún Knútsdóttir frá velferðarráðuneyti, Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Helga Jóna Benediktsdóttir frá Reykjavíkurborg, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Ragnar Gunnar Þórhallsson frá Öryrkjabandalag Íslands, Soffía Lárusdóttir frá Akureyrarbæ, Teitur Skúlason frá innanríkisráðuneyti, Þór Gíslason frá Rauða krossi Íslands, Tryggvi Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Unnur V. Ingólfsdóttir frá Samtökum félagsmálastjóra, og Vilborg Kristín Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar.
    Þær breytingar urðu síðar á skipun hópsins að við hann bættist Ingibjörg Broddadóttir frá velferðarráðuneyti, Guðrún Ögmundsdóttir tók við af Teiti Skúlasyni sem fulltrúi innanríkisráðuneytis, Haukur Ingibergsson tók við af Jónu Valgerði Kristjánsdóttur sem fulltrúi Landssambands eldri borgara, Ellen Calmon tók við af Ragnari Gunnari Þórhallssyni og Guðrún Sigurðardóttir tók við af Soffíu Lárusdóttur.
    Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til félags- og húsnæðismálaráðherra með tveimur fullbúnum frumvörpum, annað til nýrra heildarlaga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og hitt til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Byggist frumvarp þetta á tillögum hans og eru frumvörpin lögð fram samhliða.
    Í frumvarpi þessu eru þó ekki lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem varða fjárhagsaðstoð en það var niðurstaða starfshópsins að þann hluta laganna þyrfti að taka til sérstakrar skoðunar og að þar þyrfti aðkomu annarra aðila en skipuðu hópinn. Var því lagt til að nýr starfshópur yrði skipaður sérstaklega til að skoða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og samspil hennar við önnur framfærslutryggingakerfi, svo sem almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Mikið hefur breyst á þeim rúmu 20 árum sem eru síðan lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðs fólks voru sett, þau fyrri árið 1991 og þau seinni árið eftir. Hugmyndafræðin að baki þjónustunni hefur breyst sem og notendahópurinn, og vandamálin hafa að einhverju leyti breyst. Verkefni sveitarfélaganna hafa aukist og breyst, til að mynda þegar þjónusta við fatlað fólk var tekin yfir árið 2011 og ábyrgð sveitarfélaganna jókst. Ný nálgun í velferðarþjónustu og mannréttindamálum hefur einnig rutt sér til rúms á þessum tíma, sbr. breytingu á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995, lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 og undirritun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 og fullgildingu hans árið 2016.
    Forsendur þær sem hafðar voru í huga við setningu nýrrar löggjafar á sviðinu er að halda í þá stefnu að hafa rammalöggjöf þannig að svigrúm sé fyrir sveitarfélög að útfæra þjónustuna eftir því sem best hentar á hverjum stað en á sama tíma sjá til þess að grunnréttindi einstaklinganna séu nægjanlega tryggð. Finna þarf jafnvægið milli þess að tryggja ákveðna grunnþjónustu og að skyldur sveitarfélagsins séu skýrar en halda þó í sveigjanleikann og frelsi sveitarfélaga til að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu.
    Þá var horft til þess að löggjöfin tryggði fólki þá þjónustu sem það þarf í stað þess að tryggja öllum sama rétt. Í stað þess að kveða á um að tilteknir þjónustuþættir stæðu öllum sem tilheyrðu ákveðnum hópum til boða var lögð áhersla á að meta einstaklingsbundnar þjónustuþarfir. Þannig þarf að tryggja að jafnræðisreglan sé virt í reynd svo að sambærileg tilvik fái sambærilega meðferð og ósambærileg tilvik ólíka úrlausn. Til þess að það sé mögulegt þarf að leggja ríka áherslu á einstaklingsbundið mat þar sem hvert tilvik sé metið í samráði við þann sem í hlut á til að niðurstaðan samræmist þörfum og óskum viðkomandi.
    Horft var til þess að síðan lög um félagsþjónustu sveitarfélaga voru sett hafa stjórnsýslulegar kröfur um málsmeðferð og ákvarðanatöku aukist, m.a. með tilkomu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og þeirra sjónarmiða sem eru rakin hér að framan um að ákvarðanir um veitingu opinberrar þjónustu byggist í auknum mæli á einstaklingsbundnu mati.
    Það er vissulega ákveðnum erfiðleikum bundið að tryggja að ákvarðanir um þjónustu séu byggðar á vel ígrunduðu mati á þörfum hvers og eins. Tilhneigingin er oft sú að setja fyrirframákveðnar verklagsreglur eða viðmið sem afnema þetta mat að miklu leyti og þarf ný löggjöf að vinna gegn slíku. Á sama tíma þarf að tryggja að matið sé framkvæmt eins á landinu öllu. Þannig er líklega farsælast að þrátt fyrir að lögin eigi að vera rammalög verði heimildir fyrir ráðuneytið að setja leiðbeinandi reglur og hafa ríkt eftirlit með reglum sveitarfélaganna til þess að reyna að girða fyrir að matið verði fellt brott eða þrengt óeðlilega með reglum.
    Huga þarf að því að hóparnir sem leita til félagsþjónustunnar eru aðrir en árið 1991 þegar lögin voru sett. Innflytjendur og flóttafólk er stærri hópur með ákveðnar þarfir, þá má nefna ADHD, fjölgun eldri borgara og meiri kröfur um þjónustu á heimili og breytt hlutverk öldrunarstofnana. Viðhorfin hafa einnig breyst og farið frá réttindaviðhorfum til þess að horfa frekar á þarfir viðkomandi.
    Kröfur um ríkara eftirlit ráðherra með velferðarþjónustunni og auknar kröfur um samræmi milli sveitarfélaga í þeirri þjónustu sem þau veita hafa einnig kallað á endurskoðun lagaumhverfis félagsþjónustunnar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru í fyrsta lagi á ákvæðum laganna um skipulag og stjórn og hlutverk félagsmálanefnda. Eru þar lagðar til breytingar á skipulagi félagsþjónustu innan sveitarfélaga til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Þá er einnig hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra, m.a. með því að fela honum að úrskurða í ágreiningsmálum sem lúta að því hvort reglur sveitarfélagsins eigi sér fullnægjandi lagastoð. Breytingarnar lúta líka að því að skýra feril ágreiningsmála og kæra innan stjórnkerfisins.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu að finna ákvæði um samráð við notendur þjónustunnar og sérstök notendaráð fyrir einstaka hópa notenda. Er þannig að finna sérstök ákvæði um öldungaráð, sem rekin hafa verið í nokkrum sveitarfélögum með góðum árangri, og sambærileg notendaráð fyrir fatlað fólk og fólk sem býr við fátækt.
    Í þriðja lagi er fjallað um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu sem fjallað er um í lögunum. Eru ákvæðin færð til samræmis við ákvæði sem lögð eru til í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Er einnig lagt til að ákvæði um starfsfólk sem vinnur við félagsþjónustu séu færð til samræmis við þau lagaákvæði sem gilda um fólk sem starfar í þjónustu við fatlað fólk.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á VII. kafla sem nú fjallar um félagslega heimaþjónustu. Er lagt til að fyrirsögn hans breytist og verði „Stuðningsþjónusta“. Þá er ákvæðum kaflans breytt á þann hátt að í stað þess að þau taki til svokallaðrar heimaþjónustu, sem að meginstefnu til var veitt til að auðvelda fólki heimilishald, verði þjónustan ekki bundin við heimili heldur nái hún til þjónustu við athafnir daglegs lífs og til að rjúfa félagslega einangrun. Þjónusta þessi er fyrir alla sem hafa viðvarandi eða tímabundnar stuðningsþarfir en gengið er út frá því að þegar þjónustuþarfir verði meiri en sem nemur 10–15 tímum á viku taki við sértækari þjónusta, m.a. á grundvelli frumvarps þess sem lagt er samhliða þessu um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Þannig skal mat á stuðningsþörfum vera samræmt og skal einstaklingur eiga möguleika á að gera notendasamninga sem fela í sér að notandinn hefur stjórn á hvernig og hvenær hann fær þjónustu. Var í þessu horft til hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf, 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fyrirkomulags notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Áréttað er þó að sveitarfélögum er ekki skylt að veita slíka þjónustu inni á öðrum stofnunum, svo sem öldrunarstofnunum. Það á fyrst og fremst við um þjónustu sem veitt er á heimilum, en útilokar ekki skyldu sveitarfélags til að veita annars konar stuðningsþjónustu utan heimilisins, svo sem akstursþjónustu.
    Ákvæði um akstursþjónustu, sem hafa verið í lögum um málefni fatlaðs fólks, eru skýrð og flutt í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem um almenna þjónustu er að ræða fyrir fatlað fólk, óháð því hversu mikla þjónustu því er veitt.
    Að lokum er ákvæðum um húsnæðismál breytt til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, sem ætlunin er að leggja fram aftur, en frumvarpið var lagt fram á Alþingi á 145. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Í því frumvarpi eru ákvæði um skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum gerð skýrari. Er þannig gert ráð fyrir að almenn ákvæði um skyldu sveitarfélaga t.d. til að tryggja framboð á hagstæðu og viðeigandi húsnæði í sveitarfélaginu verði öll á einum stað, í lögum um húsnæðismál.
    Aðrar breytingar lúta að því að lagfæra orðalag og fella á brott óvirk ákvæði eða ákvæði um þjónustu sem falin hefur verið öðrum aðilum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður fyrir Íslands hönd og var fullgiltur 24. september 2016. Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins, eins og fram kemur í 1. gr. hans, er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
    Ástæðan fyrir tilurð alþjóðlegs mannréttindasáttmála um réttindi fatlaðs fólks er sú staðreynd að þrátt fyrir að fatlað fólk eigi sömu mannréttindi og aðrir þá er því oft ekki gert kleift að nýta sér réttindi sín. Samningurinn er því til fyllingar öðrum mannréttindasamningum en felur ekki í sér ný réttindi til handa fötluðu fólki. Öllu heldur eru þar útskýrðar skyldur aðildarríkjanna til að virða og tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda sinna og viðurkennt að til þess að slík réttindi verði virk þurfi oft að koma til aðgerða af hálfu hins opinbera. Kjarni samningsins snýr að jafnrétti sem er m.a. tryggt í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
    Í 3. gr. samningsins er kveðið á um almennar meginreglur sem eru leiðbeinandi fyrir aðildarríki og aðra aðila um túlkun og framkvæmd samningsins. Meginreglurnar eru:
     *      Virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði einstaklinga, þ.m.t. frelsið til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga.
     *      Bann við mismunun.
     *      Full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar.
     *      Virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni.
     *      Jöfn tækifæri.
     *      Aðgengi.
     *      Jafnrétti á milli karla og kvenna.
     *      Virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytast og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.
    Með frumvarpi þessu er m.a. stefnt að því að innleiða ákveðin ákvæði samningsins í íslenska löggjöf og er það liður í fullgildingarferli Íslands. Þau ákvæði sem helst var horft til við vinnslu frumvarps þessa voru ákvæði 19. gr. um sjálfstætt líf og meginmarkmið samningsins um samráð við notendur.

5. Samráð.
    Eins og framar er rakið voru fyrstu drög að frumvarpinu og greinargerð samin af starfshópi sem skipaður var helstu hagsmunaaðilum. Þegar tillögur hópsins voru komnar vel á veg var frumvarpið sett á vef ráðuneytisins og óskað eftir umsögnum, en það birtist á vef ráðuneytisins í júní 2016 og var umsagnarfrestur veittur til loka ágúst sama ár. Alls bárust 18 umsagnir, m.a. frá sveitarfélögum, Landssamtökunum Þroskahjálp, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Félagi heyrnarlausra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroskaþjálfafélagi Íslands, Landssambandi eldri borgara og Hagsmunasamtökum heimilanna. Flestar þeirra voru jákvæðar en þar var einnig að finna margar góðar ábendingar sem orðið var við eins og kostur var. Eftir að starfshópurinn skilaði af sér var frumvarpið sent til umsagnar hjá undirstofnunum ráðuneytisins og þeim gefinn kostur á að koma með athugasemdir við frumvarpið.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum má ætla að það hafi almennt jákvæð áhrif á notendur þjónustunnar. Í fyrsta lagi má benda á að þær auknu kröfur sem gerðar eru til ákvörðunartöku og málsmeðferðar ættu að leiða til betri ákvörðunartöku og færri ágreiningsmála. Þá mun heimild ráðherra til að úrskurða um hvort reglur sveitarfélags eigi sér fullnægjandi lagastoð leiða til meira aðhalds fyrir sveitarfélögin og minnka óvissu. Þá mun aukin aðkoma notenda að stefnumörkun í gegnum notendaráð vonandi leiða til þess að þjónusta verði í takt við þarfir notenda og að forgangsröðun sveitarfélags mæti þeim sem mestu þarfirnar hafa.
    Aðlögun ákvæða laganna að gildandi sveitarstjórnarlögum og framkvæmd sveitarstjórnarmála ættu að veita sveitarfélögum aukið svigrúm til að aðlaga skipulag félagsþjónustunnar að því sem best hentar á hverjum stað.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum um félagslega heimaþjónustu munu að öllum líkindum verða mjög jákvæðar fyrir notendur enda er með þeim stefnt að því að þeir fái í auknum mæli þjónustu í samræmi við þær þarfir sem þeir hafa og að hún sé veitt á forsendum þeirra. Vandaðra mat á stuðningsþörfum mun leiða til þess að þjónustu er markvissara beint þangað sem hennar er þörf en getur leitt til þess að þjónusta við aðra minnki. Óljóst er hvort þessar breytingar muni hafa kostnaðarauka í för með sér en það þarf að meta þegar reynsla kemst á nýtt fyrirkomulag.
    Þá er með frumvarpinu tekið á gráu svæði sem hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga með því að taka af skarið um að sveitarfélögum ber ekki skylda til þess að veita stuðningsþjónustu inni á öðrum stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum.
    Þær auknu eftirlitsheimildir sem ráðherra eru fengnar eru líklegar til að auka eftirlit með þjónustunni en jafnframt má leiða að því líkur að eftirlitið verði markvissara og auðveldara í framkvæmd þegar lagalegar skyldur þjónustuveitenda eru skýrðar. Þá mun það hafa einhver áhrif á ráðuneytið að fá aukin verkefni varðandi stefnumörkun í málaflokknum og sjá um útgáfu starfsleyfa til einkaaðila.
    Eftirtalin atriði í frumvarpinu voru tekin til skoðunar hvað varðar kostnaðaráhrif:
     1.      Notendaráð. Sveitarfélög skulu starfrækja sérstök notendaráð fatlaðs fólks og fólks sem býr við fátækt, sem tryggi aðkomu að stefnumörkun og áætlanagerð, sbr. breytingar á 8. gr. laganna. Breytingin er talin leiða af sér lítils háttar viðbótarkostnað sem ekki mun hafa umtalsverð áhrif á fjárhag sveitarfélaga.
     2.      Víðari skilgreining á stuðningsþjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá því að nota hugtakið félagsleg heimaþjónusta og tekið upp hugtakið stuðningsþjónusta samkvæmt breytingum á 25. og 26. gr. í 5. gr. frumvarpsins. Breytingin felur í sér að stuðningsþjónustan sem hér er lögð til er ekki bundin við heimili eða heimilishald heldur hvers konar aðstoð sem einstaklingar þurfa til að geta lifað sjálfstæðu lífi. Sveitarfélög hafa verið að breyta þjónustunni yfir í meiri alhliða þjónustu og tekið þar meðal annars mið af ákvæðum í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það má því segja að með frumvarpinu sé verið að aðlaga lögin að þjónustunni eins og hún hefur þróast hjá sveitarfélögum. Talið er að breytingin muni ekki hafa þau áhrif á fjárhag sveitarfélaga að leiði til fjárframlags af hálfu ríkisins.
    Með vísan til þess sem að framan segir er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi, verði það að lögum, óverulegan kostnaðarauka í för með sér.
    Varðandi mat á kostnaðaráhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 129 gr. sveitarstjórnarlaga, hefur verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við kostnaðarmat ráðuneytisins. Sambandið vill þó halda því til haga að í samráðsferlinu voru aðilar sammála um að þar sem útgjaldaþróun stuðningsþjónustu er óviss væri rétt að setja á laggirnar samráðsnefnd til þess að fylgjast með þróun kostnaðar við þjónustuna næstu þrjú til fimm ár.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til tvær breytingar á 1. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að í c-lið 1. mgr. verði talað um að einstaklingur skuli geta búið við sem mest lífsgæði í stað þess að tala um að hann lifi sem eðlilegustu lífi. Eðlilegt líf er hugtak sem erfitt er að setja mælikvarða á en auðveldara er að sannreyna hvort einstaklingur búi við mikil lífsgæði. Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði á um að ýtt skuli undir virkni einstaklinga með hliðsjón af einstaklingsbundnu mati. Lagt er til að við 2. mgr. verði bætt við ákvæðum þess efnis að um leið skuli framkvæmd félagsþjónustunnar skapa skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Auk þess skuli þjónustan miðast við valdeflingu og einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. gildandi laga er útskýrt við hvað sé átt með félagsþjónustu í tengslum við tiltekna málaflokka sem taldir eru upp í tíu liðum. Hér er lagt til að í 9. tölul. verði kveðið á um aðstoð við einstaklinga með fíknivanda og vímuvarnir í stað þess að talað sé um aðstoð við áfengissjúka og vímugjafavarnir. Þannig endurspeglar ákvæðið betur þá þjónustu sem veitt er enda er aðstoð ekki aðeins veitt þeim sem eiga við áfengisvanda að stríða heldur einnig þeim sem eiga við fíknivanda vegna annars en áfengis að stríða. Þá er lagt til að 10. tölul. falli brott þar sem nefndir eru málaflokkarnir atvinnuleysiskráning og vinnumiðlun. Ástæðan er sú að þetta verkefni er ekki lengur hjá sveitarfélögunum heldur annast Vinnumálastofnun vinnumiðlun samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til umtalsverðar breytingar á II. kafla gildandi laga. Fyrirsögn kaflans verður Stjórnskipulag og breytast allar greinar hans.
     Um a-lið (3. gr.).
    Í frumvarpinu er lagt til að ítarlegar verði greint frá yfirstjórn málaflokksins. Í 1. mgr. er kveðið á um að ráðherra fari með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til, líkt og nú er, og skeri úr ágreiningi um það hvort reglur sveitarfélaga um félagsþjónustu eigi sér fullnægjandi lagastoð. Þess ber þó að geta að ef talið er að reglur sveitarfélaga hafi verið brotnar þá verður áfram unnt að skjóta slíkri ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðuneytið hafi eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin og stjórnvaldsfyrirmæli sett á þeirra grundvelli kveði á um. Ekki er um breytingu að ræða frá því sem nú er, sbr. 3. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er nýmæli þess efnis að ráðherra skuli á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd félagsþjónustu sem byggist meðal annars á skýrslum sveitarfélaga um það efni. Er hér átt við ársskýrslur sveitarfélaganna en þar er gerð grein fyrir starfsemi þeirra og verkefnum. Til þess að ákvæði þetta nái markmiðum sínum þarf að tryggja að skráningar og upplýsingar sem sveitarfélögin safna í skýrslur sínar séu sambærilegar.
     Um b-lið (4. gr.).
    Ákvæðið er efnislega samhljóða gildandi 4. gr., en hér er lagt til að ákvæðið verði þannig hljóðandi að hver sveitarstjórn beri ábyrgð á félagsþjónustu innan marka síns sveitarfélags, eftir atvikum í samvinnu við önnur sveitarfélög. Er þetta í samræmi við ákvæði 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, um ábyrgð sveitarfélaga á eigin málefnum og 92. gr. sömu laga um að tveimur eða fleiri sveitarfélögum sé heimilt að hafa samvinnu um framkvæmd ákveðinna verkefna. Lagt er til að greinin fá fyrirsögnina Sveitarstjórn.
     Um c-lið (5. gr.).
    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum um skipan félagsmálanefnda í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á sveitarstjórnarlögum. Lagt er til að greinin fái fyrirsögnina skipulag, enda efni ákvæðisins um skipulag félagsþjónustu.
    Í 1. mgr. er líkt og í gildandi lögum gert ráð fyrir að sveitarstjórn kjósi fulltrúa í félagsmálanefnd og er málsgreinin efnislega í samræmi við núgildandi 5. gr. að öðru leyti en því að kveðið er sérstaklega á um að um félagsmálanefndir gildi að öðru leyti en greinir sérstaklega í lögum þessum ákvæði sveitarstjórnarlaga um fastanefndir.
    Að öðru leyti er breytingarnar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og eru til þess að skýra betur samstarf sveitarfélaga á sviði félagsþjónustu.
     Um d-lið (6. gr.).
    Lagt er til að í stað núgildandi 6. gr., sem fjallar um undirnefndir félagsmálanefnda, komi nýtt ákvæði sem fjallar um kærur og málskot. Ekki er lengur þörf á að fjalla sérstaklega um undirnefndir félagsmálanefnda þar sem ákvæði um heimildir til að setja á fót nefndir til að fara með einstök mál eða málaflokka er í 39. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
    Í 1. mgr. er þannig lagt til að kveðið verði á um heimild til að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar verða á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skv. 2. mgr. er þó hægt að skjóta ágreiningi um hvort reglur sveitarfélags eigi sér fullnægjandi lagastoð til ráðherra á grundvelli eftirlitsheimilda hans. Rétt er þó að árétta að hér þurfa öll skilyrði um aðild að vera uppfyllt og ágreiningur þarf að varða lögvarða hagsmuni þess sem óskar eftir úrskurði ráðherra um lagastoð reglna. Séu þau skilyrði ekki uppfyllt er ráðherra þó alltaf heimilt að gefa óbindandi álit sitt á því hvort reglur sveitarfélags séu í samræmi við lög, skv. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands
    Þá er í 3. mgr. lagt til að auk umsækjanda, verði sveitarfélagi eða samtökum á þeirra vegum heimilt að bera úrskurð undir dómstóla enda geta hagsmunir sveitarfélaganna, sem eru sjálfstæð stjórnvöld, verið miklir af því að fá endanlega niðurstöðu í mál sem varðar þau. Er það í samræmi við ákvæði Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga, en slík heimild getur m.a. skipt miklu máli út frá sjálfstjórn sveitarfélaga og haft þýðingu fyrir fjárstjórnarvald þeirra.
    Í 4. mgr. er að finna heimild sveitarfélaga til þess að ákveða í reglum sínum að ákvörðun sæti endurskoðun hjá félagsmálanefnd sveitarfélags áður en henni verður skotið til úrskurðarnefndarinnar. Ástæða þess að þetta er lagt til er að í núgildandi lögum er kveðið á um að endanleg afstaða félagsmálanefndar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun verður kærð. Hefur þetta valdið vafa um heimildir starfsmanna og hvaða réttaráhrif verða bundin við afgreiðslu starfsmanna á umsóknum um þjónustu. Þá er einnig mismunandi hvernig framkvæmdin er milli sveitarfélaga og mismunandi hversu mikið félagsmálanefndir í raun koma að ákvarðanatöku í einstaka málum. Í stærri sveitarfélögum er þessi innri endurskoðun eða endurupptaka mála mjög virk, t.d. í Reykjavík þar sem starfandi er sérstök áfrýjunarnefnd innan velferðarsviðs og hefur það fyrirkomulag reynst vel. Í öðrum sveitarfélögum hefur verið farin sú leið að líta á afgreiðslu starfsmanna sem fullnaðarafgreiðslu mála þar sem félagsmálanefnd setji reglur og marki stefnu en komi minna að einstaklingsmálum. Þótti því rétt að fela sveitarstjórnum að taka afstöðu til þess hvernig þessu verði háttað og gerð sú krafa að það liggi skýrt fyrir hvort afgreiðslu starfsmanna megi kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála eða hvort henni þurfi fyrst að skjóta til félagsmálanefndar. Rétt er þó að árétta að slík innri endurskoðun þarf að vera skjótvirk og má ekki leiða til óþarfa tafa á málinu.
     Um e-lið (7. gr.).
    Í e-lið er lögð til breyting á núgildandi 7. gr. sem fjallar um samvinnu sveitarfélaga. Ákvæðið verður ítarlegra án þess að hér sé um efnisbreytingu að ræða fyrir utan það sem gerð hefur verið grein fyrir í athugasemdum við 5. gr.
     Um f-lið (8. gr.).
    Í greininni er lagt til nýtt ákvæði í stað núgildandi 8. gr. sem kveður á um heimild til að fela sérstakri félagsmálastofnun að sjá um framkvæmd félagsþjónustu undir stjórn félagsmálanefndar. Ekki er lengur þörf á að kveða á um þetta í lögunum þar sem sveitarfélagi er heimilt að gera það innan ramma sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Er því lagt til að þess í stað komi ákvæði um samráð við notendur en áhersla á hvers kyns samráð og samvinnu við notendur hefur rutt sér til rúms innan félagsþjónustunnar og er að mörgu leyti lykilatriði við að aðstoða fólk með valdeflingu að leiðarljósi, fólk verði þannig virkir þátttakendur í mótun á þeim úrræðum og þjónustu sem því stendur til boða. Þannig er í ákvæðinu kveðið á um þríþætt samráð; samráð við notendur í málum sem varða þá sjálfa, samráð við stefnumótun og svokölluð notendaráð. Í fyrsta lagi er mikilvægt að fólk hafi eitthvað um það að segja hvernig þjónustu við það er háttað og að notendur séu virkir þátttakendur í undirbúningi og töku ákvarðana sem varðar þá. Þannig verður mikilvægt að viðkomandi séu vel kunnar þær reglur sem í gildi séu og hvaða valkostir séu í boði. Í öðru lagi er lögð til skylda sveitarfélagsins til þess að funda með hagsmunasamtökum notenda og í þriðja lagi að starfrækja svokölluð notendaráð. Þau hafa verið starfandi í nokkrum sveitarfélögum í tengslum við þjónustu við aldraða, öldungaráð, og fatlað fólk og hefur það fyrirkomulag reynst vel. Hugmyndin er sú að í notendaráðum sitji fulltrúar tiltekins hóps notenda, svo sem fólks sem býr við fátækt, ásamt fulltrúum sveitarfélags og þar sé til umræðu almenn stefnumótun og áætlunargerð sveitarfélaga í þeim málum sem varða viðkomandi notendur. Til þess að notendaráðið nái markmiðum sínum er þó mikilvægt að þeim sem taka þátt í því sé tryggður nægjanlegur stuðningur og eftir atvikum þjálfun til þess að þeir geti tekið virkan þátt í samráðinu. Slík þjálfun og stuðningur er á sama tíma valdeflandi og gefur fólki mikilvæga reynslu sem getur nýst því til að vinna úr aðstæðum sínum og hafa áhrif á þær.
     Um g-lið (9. gr.).
    Hér er um að ræða heimildarákvæði til handa sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa að baki þjónustusvæði til að gera samninga við félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða aðra einkaaðila um að annast þjónustu samkvæmt lögunum. Við gerð slíkra samninga er mikilvægt að gerð sé ítarleg kröfulýsing og er sérstaklega áréttað í ákvæðinu að tryggt skuli að réttarstaða notenda verði ekki lakari við það að þjónustan sé á hendi einkaaðila. Þannig þarf að tryggja í samningum að einkaaðilinn sem samið er við uppfylli allar sömu lagalegu skyldur og sveitarfélagið hefði þurft að uppfylla og að sá sem þiggur þjónustuna hafi leiðir til að leita réttar síns, telji hann á sér brotið. Tekið er fram í ákvæðinu að það sé ávallt á hendi sveitarfélags að meta þörf og taka ákvörðun um þjónustuna en með því er tekið fyrir að slíkt ákvörðunarvald verði framselt til einkaaðila. Það er því með öllu óheimilt að framselja mat og ákvörðun um magn og fyrirkomulag þjónustunnar til einkaaðila og verða samningar því að taka mið af ákvörðunum sveitarfélagsins um þjónustuna. Loks er í ákvæðinu lagt bann við því að semja við aðra aðila en þá sem fengið hafa starfsleyfi eftir ákvæðum laganna.
     Um h-lið (10. gr.).
    Í greininni er kveðið á um starfsleyfi til handa félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og öðrum einkaaðilum sem ætla að veita þjónustu samkvæmt lögunum.
    Í 2. mgr. er ráðuneytinu sem leyfisveitanda heimilað að afturkalla starfsleyfi ef rekstraraðili hefur ekki sinnt úrbótum, hafi verið gerðar athugasemdir við reksturinn af hálfu ráðuneytisins, eða ef þjónustuveitandi vanrækir skyldur sínar gagnvart notendum þjónustunnar. Fer þá um afturköllun eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttarins.
    Í 3. mgr. er lögð sú skylda á ráðherra að setja regluverk um starfsleyfin í reglugerð þar sem m.a. skal setja reglur um almenn eða frekari skilyrði fyrir veitingu leyfa, form leyfisveitinga, útgáfu, endurskoðun leyfa o.fl. Reglugerðin verði sett að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka.

Um 4. gr.

    Í greininni eru lagðar til umtalsverðar breytingar á 18. gr. laganna sem nú kveður á um að félagsmálanefndir skuli leitast við að hafa á að skipa menntuðu starfsfólki í félagsráðgjöf eða á hliðstæðu sviði til þess að annast félagslega ráðgjöf og að starfsmenn sem sveitarfélag ráði skuli hafa viðhlítandi menntun. Til að sveitarfélög geti veitt góða þjónustu og sinnt íbúum þess er nauðsynlegt að þau búi yfir menntuðu starfsfólki í félagsráðgjöf sem hefur reynslu og getu til að takast á við fjölbreytt verkefni í þjónustu við fólk, líkt og lagt er til í 1. málsl. 1. mgr. Jafnframt er tekið fram í 2. málsl. að þar sem þörf krefji skuli ráða þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa. Tekið skal þó fram að ekki er um mikilvægisröð að ræða heldur fer um slíkt eftir þörfum íbúa sveitarfélagsins. Loks er í málsgreininni kveðið á um að starfsfólki skuli gefast kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína, enda óumdeilt að endurmenntun er mikilvæg fyrir allar starfsstéttir. Þess skal getið að ákvæði 1. mgr. er nýmæli sem hefur ekki áður verið bundið í lög á þessu sviði. Þó er að finna í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ákvæði um að aðildarríkin skuli efla þróun grunnþjálfunar og stöðugrar þjálfunar sérfræðinga og starfsfólks sem vinnur við hæfingu og endurhæfingu, sbr. 2. mgr. 26. gr. samningsins.
    Í 2. mgr. kveðið á um að óheimilt sé að ráða í störf sem unnin eru í þjónustu við fólk hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum, hvar sem hún sé veitt, þá sem hlotið hafa refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, en það er kynferðisbrotakafli laganna. Enn sem fyrr er ástæða þess að vísað er sérstaklega til kynferðisbrotakafla hegningarlaga sú að rannsóknir hafa sýnt að sumir kynferðisbrotamenn eru líklegir til að endurtaka brot sín. Þess vegna er talið mikilvægt að kveða á um fyrrnefnt ráðningarbann dæmdra kynferðisbrotamanna. Í 2. mgr. er jafnframt kveðið á um að ef umsækjandi um starf hefur verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum hegningarlaga skuli meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins, og gildir það sama um verktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum í sama skyni. Þannig á ákvæðið við um alla sem sinna þjónustu samkvæmt lögunum, hvort sem um er að ræða þá sem sinna akstursþjónustu, stuðningsþjónustu eða hvaða öðrum störfum þar sem fólki er veitt þjónusta.
    Þá er í 3. mgr. það nýmæli að stjórnendur hjá sveitarfélögum, ríki og einkaaðilum sem fara með þjónustu samkvæmt lögunum eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá viðkomandi umsækjanda um starf, að fengnu samþykki hans. Það veitir þannig stjórnendum heimild til að synja viðkomandi umsækjanda um starf fallist hann ekki á að afhenda sakavottorð. Breytir í því skyni engu fyrir hvaða brot á ákvæðum almennra hegningarlaga umsækjandi hefur hlotið dóm en skilyrði er að hann veiti samþykki sitt fyrir öflun sakavottorðs.
    Ákvæðið er í samræmi við ákvæði sem hafa verið í gildi í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, og lagt er til að verði áfram í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á VII. kafla laganna sem nú fjallar um félagslega heimaþjónustu. Lagðar eru til grundvallarbreytingar á ákvæðum hans m.a. til að styðja við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Þannig er lagt til að kaflinn beri fyrirsögnina „Stuðningsþjónusta“ og þar verði fjallað um þjónustu við þá sem þurfa aðstoð til að geta lifað sjálfstæðu lífi og búið á eigin heimili. Ástæða þess að hér er fallið frá hugtakinu heimaþjónusta er að stuðningsþjónusta sú sem hér er lögð til er ekki bundin við heimili eða heimilishald heldur hvers konar aðstoð sem einstaklingur þarf til að geta lifað sjálfstæðu lífi.
     Um a-lið (25. gr.).
    Í a-lið eru lagðar til breytingar á núgildandi 25. gr. sem kveður á um að sveitarfélag skuli sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Þess í stað er lagt til að kveðið verði á um að markmið stuðningsþjónustu sé að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa vegna aðstæðna sinna stuðning í daglegu lífi og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun og skal hún miða að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi. Sambærilegt ákvæði er að finna í núgildandi 26. gr. laganna.
     Um b-lið (26. gr.).
    Í b-lið er lagt til að í stað núgildandi 26. gr. laganna komi grein sem fjallar um skyldur sveitarfélagsins við veitingu stuðningsþjónustu. Þar er lagt til að kveðið verði á um að sveitarfélögum sé skylt að veita stuðningsþjónustu þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna þeirra ástæðna sem þar eru taldar upp. Þannig skal aðstoð einnig veit barnafjölskyldum og skal hún veitt innan og utan heimils eftir því sem þörf er á. Er hér verið að auka þjónustuna og þarf að meta kostnað við það. Í 2. mgr. er þó áréttað að skylda til að veita stuðningsþjónustu nær ekki til þess að veita hana á þjónustustofnunum sem reknar eru á öðrum lagagrundvelli, svo sem á sjúkrahúsum eða öldrunarstofnunum. Rétt er að árétta að hér er aðeins tekið fram að ekki sé skylt að veita þjónustu á öðrum stofnunum en sveitarfélagi er þó alltaf heimilt að gera slíkt, t.d. að veita stuðningsþjónustu fyrir einstakling sem vistast á slíkri stofnun til að rjúfa félagslega einangrun og fara út af slíkri stofnun og sinna tómstundum. Slíkt yrði þó alltaf að gera í samvinnu við þjónustuveitanda þar sem viðkomandi býr eða vistast.
    Í 3. mgr. segir að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu samkvæmt kaflanum. Mikilvægt er sérstaklega að tryggja að ákveðið samræmi sé í tímafjölda milli sveitarfélaga og að matið á þörfum sé samræmt. Á það sérstaklega við þegar stuðningsþjónustu samkvæmt lögum þessum sleppir og við taka úrræði sérlaga, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, en afmarka þarf skilin milli þessara laga. Þannig hefur við vinnslu þessa frumvarps verið rætt um að mörkin liggi í kringum 10–15 tíma á viku.
    Í 4. mgr. er að lokum að finna ákvæði samhljóða því sem nú er að finna í 2. mgr. 29. gr. og fjallar um heimild til gjaldtöku fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt gjaldskrá. Rétt er þó að árétta að hér um að ræða heimild til að taka gjald fyrir þjónustu sem veitt er á samkeppnisgrundvelli, svo sem heimsendan mat og þrif eins og tíðkast hefur, en ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar þurfi að greiða fyrir þjónustu sem þeim er nauðsynleg við athafnir daglegs lífs.
     Um c-lið (27. gr.).
    Í c-lið er kveðið á um mat á stuðningsþörfum. Er þar lagt til að í stað núgildandi 27. gr., þar sem er að finna skilgreiningu á heimaþjónustu, komi ákvæði sem fjalli um mat á stuðningsþörfum. 1. mgr. er í samræmi við núgildandi ákvæði 28. gr. laganna. Í 2. mgr. er áréttað að sé stuðningsþörf einstaklings meiri en henni verði mætt samkvæmt lögum þessum skuli henni mætt á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks. Vísast annars til athugasemda við b-lið hér að framan.
     Um d-lið (28. gr.).
    Í d-lið er að finna breytingu á núgildandi 28. gr. sem fjallar um mat á þörf fyrir heimaþjónustu. Í frumvarpi þessu er lagt til að í 28. gr. verði fjallað um heimild sveitarfélags eða sveitarfélaga til að gera notendasamninga um form og fyrirkomulag stuðnings og aðstoðar. Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hans séu starfsmenn sveitarfélags.
    Í 2. mgr. er fjallað um það hverjir geta sótt um að gera notendasamning og hverjir geri slíka samninga, en það er hlutaðeigandi sveitarfélag sem gerir samning við einstakling eða barnafjölskyldu sem metnar hafa verið í þörf fyrir slíka þjónustu.
     Um e-lið (29. gr.).
    Í e-lið er lagt til að í stað núgildandi 29. gr. sem fjallar um reglur sveitarfélagsins og gjaldtökuheimild, sem lagt er til að flutt verði í 26. gr., komi ákvæði um akstursþjónustu. Ákvæðið er í grunninn sama efnis og ákvæði það sem verið hefur í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Með þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi því sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu og fjallar um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir þótti fara betur á því að ákvæði um akstursþjónustu, sem er almenn þjónusta, væri í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá er skerpt á réttindum samkvæmt ákvæðinu í samræmi við 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði það sem er í 4. mgr. 5. gr. núgildandi laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólk, færist úr lögum sem fjalla um sértæka þjónustu við fatlað fólk og verði 32. gr. laganna. Í núgildandi ákvæði er að finna heimild til að fela teymi fagfólks sem starfar samkvæmt þeim lögum, að meta umönnunarþörf fatlaðra barna vegna umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Er lagt til að ákvæðið flytjist efnislega óbreytt utan þess að bætt er við það að félagsþjónustunni sé heimilt að annast mat á umönnunarþörf langveikra barna, en hingað til hefur ekki verið hægt að fá sambærilegt umönnunarmat fyrir þau. Er því lagt til að sama regla gildi varðandi fötluð og langveik börn að þessu leyti. Hér er því um nýtt verkefni að ræða hvað varðar langveiku börnin, en sveitarfélögin eru best til þess fallin að meta þessa umönnunarþörf þar sem þau hafa mesta þekkingu og reynslu í að veita börnum með sérstakar þarfir aðstoð og fjölskyldum þeirra stuðning til að annast þau.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er í fyrsta lagi lagt til að 33. gr. laganna falli brott sem fjallar um skyldu sveitarfélags til að tryggja framboð á leikskólarými. Eftir að lög nr. 90/2008, um leikskóla, tóku gildi er ákvæði þetta óþarft en kveðið er á um þessa skyldu þar. Í öðru lagi er lagt til að IX. kafli falli brott. Í 35. gr. og 1. mgr. 36. gr. er fjallað um forvarnastarf í unglingamálum og rekstur athvarfa, ráðgjafar og annarrar þjónustu við unglinga. Æskulýðslög, nr. 70/2007, og barnaverndarlög, nr. 80/2002, hafa leyst þessa skyldu sveitarfélaganna af hólmi. Í 2. mgr. 36. gr. er að finna heimild til að fela félagsmálanefndum umsjón með æskulýðs- og íþróttamálum í umboði sveitarstjórna. Slíkar heimildir er að finna í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, og er ákvæðið því óþarft. Þá er 37. gr. óþörf.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að í stað núgildandi 2. mgr. 38. gr., sem fjallar um heimild til að fela sérstöku öldrunarmálaráði stjórn öldrunarmála í sveitarfélagi, verði lögfest ákvæði um svokölluð öldungaráð sem eru samráðsvettvangur innan sveitarfélaga þar sem fjallað skal um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Talsverð reynsla er komin á starfsemi slíkra ráða en samkvæmt könnun sem Samband íslenskra sveitarfélaga lét gera í ágúst 2016 kom fram að öldungaráð voru starfrækt í 23 sveitarfélögum af 74 en í þeim sveitarfélögum búa um 70% landsmanna. Var reynslan af starfsemi þeirra almennt jákvæð.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að nýr málsliður bætist við 40. gr. þar sem áréttað sé að skylda sveitarfélagsins til að veita þjónustu við aldraða nái ekki inn á öldrunarstofnanir sem reknar eru á grundvelli annarra laga. Ákvæðið er í samræmi við það sem lagt er til í 2. mgr. b-liðar 5. gr. og vísast um nánari skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að í stað núgildandi 42. gr., sem fjallar um þjónustu við fatlað fólk, komi ný grein sem kveði á um að starfrækja skuli samráðsvettvang um málefni fatlaðs fólks að fyrirmynd öldungaráðanna sem gerð var grein fyrir í athugasemdum við 8. gr. hér að framan og er ákvæðið efnislega samhljóða þeirri grein.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að 43. gr. falli brott en fjallað er um stuðningsþjónustu, m.a. við fatlað fólk, í 5. gr. frumvarps þessa og koma ákvæði hennar í stað 43. gr. Þá er lagt til að 3. mgr. 44. gr. falli brott en ákvæðið er úrelt eftir að þjónusta við fatlað fólk fluttist til sveitarfélaganna og svæðisskrifstofurnar voru lagðar niður.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 47. gr. laganna en hún kveður á um að sveitarstjórn sé heimilt að fela félagsmálanefnd umsjón með leiguíbúðum í eigu sveitarfélagsins og útleigu þeirra og geti gert tillögu að úthlutun til húsnæðisnefndar þegar um aðrar félagslegar íbúðir en leiguíbúðir er að ræða. Lagt er til að í stað hennar komi nýtt ákvæði til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á skipulagi félagsþjónustunnar. Þannig er í 1. mgr. lagt til að sveitarstjórn ákveði í hvaða farveg umsóknir um húsnæði á vegum sveitarfélags fari. Það er mismunandi milli sveitarfélaga hverjum er falið þetta verkefni. Þá er sveitarstjórn jafnframt falið að ákveða hvaða aðili taki ákvörðun um úthlutun húsnæðis. Að lokum er áréttað að við uppsögn félagslegs leiguhúsnæðis eigi að fara að sömu reglum og um ákvörðun um úthlutun. Er þessi árétting m.a. til komin vegna álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5544/2008 þar sem umboðsmaður skoðaði að eigin frumkvæði mál tengd Félagsbústöðum hf. Var það m.a. niðurstaða umboðsmanns að reglur stjórnsýsluréttarins ættu við um uppsögn á félagslegu leiguhúsnæði óháð því hvort ákvörðun er tekin af sveitarfélaginu sjálfu eða einkaaðila sem falin eru verkefni á sviðið húsnæðismála fyrir hönd sveitarfélagsins.
    Í 2. mgr. er áréttað hvaða kröfur gildi um húsnæði á vegum sveitarfélaga. Rétt er að árétta að ýmis ákvæði varðandi húsnæði sveitarfélaga, úthlutun þess o.fl., eru nú komin í lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til umorðun á núgildandi 50. gr. laganna en þar segir að félagsmálanefndir skuli „hlutast til um“ að einstaklingar með fíknivanda fái viðeigandi meðferð. Er það ekki félagsmálanefnda að þvinga einstaklinga í meðferð heldur er hlutverk þeirra að aðstoða þá sem eiga við fíknivanda að stríða að leita sér viðeigandi meðferðar og aðstoðar og er lagt til að greinin verði orðuð svo.

Um 14. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting til samræmis við breytingu þá sem lögð er til í 2. gr. á 9. tölul. 2. gr. laganna og 15. gr. frumvarps þessa og vísast til athugasemda við þær greinar.

Um 15. gr.

    Hér er lagt til að í fyrirsögn XIII. kafla verði talað um aðstoð við einstaklinga með fíknivanda og vímuvarnir í stað þess að talað sé um aðstoð við áfengissjúka og vímugjafavarnir. Með þessum hætti endurspeglar heitið betur þá þjónustu sem veitt er enda er aðstoð ekki aðeins veitt þeim sem eiga við áfengisvanda að stríða heldur einnig þeim sem eiga við fíknivanda vegna annarra ástæðna að stríða.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að XIV. kafli sem fjallar um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun falli brott. Ástæðan er sú að þetta verkefni er ekki lengur hjá sveitarfélögunum heldur annast Vinnumálastofnun vinnumiðlun samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.

Um 17. gr.

    Í greininni er áréttuð skylda stofnana ríkisins að hafa samvinnu við aðra aðila sem veita þjónustu á því sviði sem lögin taka til.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að stjórnsýsla í öldrunarmálum verði einfölduð þannig að ekki starfi samhliða þjónustuhópar aldraðra samkvæmt lögum um málefni aldraðra auk öldungaráðs samkvæmt frumvarpi þessu heldur taki öldungaráðið við hlutverki þjónustuhópsins með viðeigandi breytingum á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999.