Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 592  —  237. mál.
Framsögumaður.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (einföldun, búsetuskilyrði).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi atvinnurekenda, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur sem er ætlað að einfalda lagaumhverfið, stemma stigu við misnotkun á félagaformunum og bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við skilyrði um búsetu og heimilisfesti.
    Nefndin leggur til minni háttar orðalagsbreytingar á b-lið 16. gr. og a-lið 21. gr. frumvarpsins til að gæta samræmis við orðalag b-liðar 1. gr. og a-liðar 9. gr. Nefndin leggur einnig til að við 30. gr. bætist ákvæði um áhrif þess að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar missi hæfi til samræmis við a-lið 9. gr. og a-lið 21. gr. með hliðsjón af ábendingu í umsögn ríkisskattstjóra.
    Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemd við a-lið 9. gr. og a-lið 21. gr. frumvarpsins og hvöttu til að leitað yrði leiða til að koma á sjálfvirku eftirliti með hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Nefndin er sammála því að rétt sé að leita leiða til aukinnar sjálfvirkni í þessu efni. Útfærðar leiðir liggja þó ekki fyrir að svo stöddu og nefndin leggur því ekki til frekari breytingar á viðkomandi ákvæðum en fyrr greinir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „sem starfa samkvæmt lögum um lífeyrissjóði“ í b-lið 16. gr. falli brott.
     2.      Við fyrri efnismálslið a-liðar 21. gr. bætist: um það.
     3.      30. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
                  a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Missi stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hæfi skulu þeir upplýsa sjálfseignarstofnanaskrá um það. Sjálfseignarstofnanaskrá hefur heimild til að afskrá stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra sem missa hæfi sem slíkir.
                  b.      Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Búsetuskilyrðið gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þá sem eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu. Búsetuskilyrðið gildir ekki heldur um ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.

    Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. apríl 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Albert Guðmundsson.
Bessí Jóhannsdóttir. Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Lilja Alfreðsdóttir,
með fyrirvara.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Bjarnason.