Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 619  —  138. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fjármagnstekjur einstaklinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir skattskyldir einstaklingar höfðu árið 2016 eftirfarandi fjármagnstekjur:
                  a.      engar,
                  b.      1.000–500.000 kr.,
                  c.      500.001–1.000.000 kr.,
                  d.      1.000.001–2.000.000 kr.,
                  e.      2.000.001–5.000.000 kr.,
                  f.      5.000.001–10.000.000 kr.,
                  g.      10.000.001–20.000.000 kr.,
                  h.      20.000.001–50.000.000 kr.,
                  i.      yfir 50.000.000 kr.?
        Óskað er að fram komi samanlagt fyrir einstaklingana í hverju tekjubili fjármagnstekjur þeirra, greiddur tekjuskattur af fjármagnstekjum, launatekjur, greiddur tekjuskattur af launatekjum og hrein eign.
     2.      Hversu mikið hefði greiddur fjármagnstekjuskattur í hverju tekjubili aukist ef tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga hefði verið:
                  a.      25% af fjármagnstekjum umfram 2.000.000 kr. á tekjuári,
                  b.      30% af fjármagnstekjum umfram 4.000.000 kr. á tekjuári?


    Svar við fyrirspurninni er byggt á álagningu opinberra gjalda fyrir gjaldárið 2016 og tekið er mið af tekjum einstaklinga árið 2015 og eignastöðu þeirra 31. desember 2015. Álagningarskrá ríkisskattstjóra er sívinnsluskrá sem tekur breytingum nánast daglega vegna kæra og endurákvarðana en umrædd gögn miðast við álagningarskrá sem barst ráðuneytinu í júní 2016. Álagning opinberra gjalda fyrir gjaldárið 2017 berst ráðuneytinu ekki fyrr en í júní næstkomandi og er því ekki unnt að byggja svarið á tekjum einstaklinga fyrir tekjuárið 2016.
    Skattar ríflega tuttugu þúsund framteljenda eru handreiknaðir af starfsmönnum ríkisskattstjóra, en upplýsingar um tekjuskattsstofn hjá þessum framteljendum eru ekki tiltækar í álagningarkerfi embættisins. Svar við fyrirspurninni byggist á upplýsingum um alla framteljendur og er tekjuskattsstofn, auk tekju- og fjármagnstekjuskatts, því reiknaður af ráðuneytinu út frá fyrirliggjandi gögnum um laun, bætur, lífeyri, styrki, hlunnindi og aðrar skattskyldar greiðslur, að teknu tilliti til frádráttar. Gögn til útreiknings hreinnar eignar, fyrir handreiknaða framteljendur í álagningarskránni, liggja ekki fyrir og byggist svarið því á hreinni eign að þeim hópi frátöldum.

    1. Fjármagnstekjuskattur er skattur sem lagður er á eignatekjur einstaklinga utan atvinnurekstrar, þ.e. vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur. Ef einstaklingur hefur með höndum atvinnurekstur greiðir hann ekki sérstakan fjármagnstekjuskatt vegna fjármagnstekna sem tilheyra atvinnurekstrinum, heldur eru þær skattlagðar eftir sömu reglum og gilda um aðrar tekjur í rekstrinum. Á fjármagnstekjur er ekki lagt útsvar og þær hafa engin áhrif á þrepaskiptingu tekjuskatts. Hins vegar teljast þær með öðrum tekjum til stofns við útreikning vaxtabóta og barnabóta. Fjármagnstekjuskattur hefur verið 20% frá 1. janúar 2011.
    Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 125.000 kr. á ári hjá hverjum manni, þótt dregin hafi verið staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjunum. Þá var frá og með 1. janúar 2016 ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af 50% af tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda. Þessi regla gildir í fyrsta skipti við álagningu árið 2017 en við álagningu árið 2016 var frítekjumarkið 30%.
    Fjármagnstekjur eru taldar fram hjá því hjóna sem hefur hærri tekjur og því vísa tölur um fjölda framteljenda með fjármagnstekjur til fjölda fjölskyldna en ekki einstaklinga. Heildarfjármagnstekjur fjölskyldna samkvæmt álagningarskránni 2016 voru 104.350 millj. kr. og fjármagnstekjuskattur 18.781 millj. kr. Tekjuskattsstofn þeirra var samtals 1.189.932 millj. kr. og hækkar stofninn að meðaltali samhliða hærri fjármagnstekjum. Hrein eign samkvæmt álagningarskránni var samtals 2.815.398 millj. kr. og hækkar einnig að meðaltali samhliða auknum fjármagnstekjum.
    Alls höfðu 11.623 fjölskyldur, eða 5,5%, alls engar fjármagnstekjur árið 2015 og var tekjuskattsstofn þeirra samtals 38.616 millj. kr. Flestar fjölskyldur, 151.088, eða 72% af heild, voru með fjármagnstekjur á bilinu 1.000–500.000 kr. eins og sjá má í töflu 1. Heildarfjármagnstekjur þessa hóps voru 8.027 millj. kr. sem er um 7,7% allra fjármagnstekna. Þá var tekjuskattsstofn þeirra samtals 885.472 millj. kr., eða 74% af heild, og hrein eign 1.449.438 millj. kr. Eftir því sem fjármagnstekjur hækka fækkar í hverjum hópi og er einungis 0,8% fjölskyldna, eða 1.717, með fjármagnstekjur yfir 10 millj. kr. Heildarfjármagnstekjur þeirra námu 60.866 millj. kr. sem er rúmlega 58% af heildarfjárhæð fjármagnstekna. Tekjuskattsstofninn var samtals 22.358 millj. kr. og hrein eign 325.674 millj. kr.

    Tafla 1. Fjármagnstekjur, fjármagnstekjuskattur, tekjuskattsstofn, tekjuskattur og hrein eign fjölskyldna eftir fjármagnstekjubilum árið 2015 (fjárhæðir í millj. kr.).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    2.a. Greiddur fjármagnstekjuskattur fjölskyldna hefði verið samtals 22.736 millj. kr. ef skattur á fjármagnstekjur umfram 2 millj. kr. hefði verið 25% við álagningu opinberra gjalda 2016. Er það aukning um 3.955 millj. kr. en mest hefði fjármagnstekjuskatturinn aukist hjá þeim sem höfðu mestar fjármagnstekjur, eins og sjá má í töflu 2. Í þessu mati er ekki reiknað með því að fjármagnseigendur bregðist við hærri skatti með ráðstöfunum sem kynnu að draga úr skattgreiðslum. Hið sama gildir um dæmi 2.b.

Tafla 2. Greiddur fjármagnstekjuskattur fjölskyldna, m.v. álagningu 2016, ef fjármagnstekjuskattur af fjármagnstekjum umfram 2 millj. kr. hefði verið 25% (fjárhæðir í millj. kr.).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    2.b. Greiddur fjármagnstekjuskattur fjölskyldna hefði aukist um 7.191 millj. kr. ef fjármagnstekjuskattur af fjármagnstekjum umfram 4 millj. kr. hefði verið 30% við álagningu opinberra gjalda 2016. Samtals væri fjármagnstekjuskatturinn 25.972 millj. kr. og hefði líkt og í a-lið aukist meira samhliða hærri fjármagnstekjum.

    Tafla 3. Greiddur fjármagnstekjuskattur fjölskyldna, m.v. álagningu 2016, ef fjármagnstekjuskattur af fjármagnstekjum umfram 4 millj. kr. hefði verið 30% (fjárhæðir í millj. kr.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.