Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 630  —  314. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um selastofna við Ísland.


     1.      Hyggst ráðherra stuðla að því að gerðar verði ráðstafanir til að bregðast við því að selum við Ísland hefur fækkað mjög að undanförnu, sbr. niðurstöður nýlegrar selatalningar, og í hverju mundu þær ráðstafanir felast?
    Á Íslandi kæpa tvær selategundir, landselur og útselur. Árið 2006 voru sett þau stjórnarmarkmið fyrir stofnana að landselsstofninn skuli ekki að fara niður fyrir 12.000 dýr og útselsstofninn skuli ekki fara niður fyrir 4.100 dýr. Fari stærð stofnanna undir þau mörk skuli grípa til aðgerða.
    Eins og fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um niðurstöður talninga á landsel við Ísland hefur stofnstærðarmat verið framkvæmt frá árinu 1980 og var þá metin stofnstærð um 33 þúsund dýr. Frá þeim tíma hefur landselum fækkað mikið. Árið 2011 var fjöldinn metinn 11.000–12.000 landselir eða nálægt þeim markmiðum sem stjórnvöld höfðu sett sem lágmarksstofnstærð. Árið 2014 voru landselir taldir í stærstu landselslátrum landsins og komu þar fram vísbendingar um frekari fækkun í stofninum. Í talningunum árið 2016 var þessi fækkun staðfest en síðan stofnstærðin var síðast metin 2011 hefur selunum fækkað um þriðjung og um 80% frá árinu 1980. Landselsstofninn er nú metinn vera tæplega 40% minni en viðmið stjórnvalda.
    Reglulegar talningar hafa farið fram á útselsstofninum síðan 1982. Síðast fór talning fram árið 2012 og áætluð stofnstærð var þá 4.200 dýr sem er lægsta stofnstærð sem hefur verið metin á útsel við Ísland. Hefur stofnstærð útsels samkvæmt því minnkað að meðaltali um 5% árlega frá 2005 til 2012.
    Veiði á landsel á sér enn stað og mögulegt er að fækkun landsela geti að hluta skýrst af þeim takmörkuðu veiðum. Lítið er hins vegar veitt af útsel. Verulega hefur dregið úr hefðbundnum nytjum á landsel á undanförnum áratugum. Langstærsti hluti selveiða er á ósasvæði laxveiðiáa en ekki er skylda að skrá slíkar veiðar og því gögn um þær veiðar ónákvæmar.
    Hins vegar veiðast bæði landselir og útselir sem meðafli við fiskveiðar með netum og gæti umfang af þeim völdum verið meira en beinar veiðar.
    Afföll vegna óbeinna veiða (netadauði) eru enn umtalsverð þótt umfang þeirra hafi líklega minnkað undanfarna áratugi. Takmörkuð gögn eru til um óbeinar veiðar en mat er unnið úr gögnum sem safnað er af veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu og úr stofnmælingu í netum sem Hafrannsóknastofnun gerir árlega. Þær upplýsingar benda til að árlega hafi um 40 landselir veiðst að meðaltali í þorskanet á árunum 2010–2015, um 340 landselir að meðaltali í grásleppunet árin 2013–2015 og um 43 landselir hafi að meðaltali fengist í botnvörpu árin 2014 og 2015.
    Sömu gögn benda til að enginn útselur hafi veiðst í þorskanet á árunum 2010–2015, um 260 útselir að meðaltali í grásleppunet árin 2013–2015 og enginn útselur veiðst í botnvörpu árin 2014 og 2015.
    Náttúrulegar sveiflur verða oft í stofnum villtra dýra og þættir eins og hlýnun sjávar og breytingar á fæðuframboði gætu einnig orsakað fækkun í stofnunum. Um alla þessa þætti er ekki nægjanleg vitneskja og nauðsynlegt er að rannsaka þá betur þannig að skýra megi með einhverri vissu þá fækkun sem hefur orðið í selastofnum sem kæpa við Ísland.

     2.      Telur ráðherra rétt að endurmeta stjórnunarmarkmið fyrir selastofna við Ísland í ljósi þeirrar miklu fækkunar sem hefur orðið á sel?
    Þau stjórnunarmarkmið sem sett voru árið 2006 hafa ekki verið metin með tilliti til varúðarsjónarmiða né skilgreind líffræðileg varúðarmörk fyrir stofnana. Það er því full þörf á að endurmeta markmiðin og jafnframt skilgreina til hvaða aðgerða hægt er að grípa. Verður leitað til Hafrannsóknastofnunar og NAMMCO um að slík vinna fari sem fyrst í gang og að henni verði hraðað sem kostur er.
    Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum fyrir landselsstofninn skal stefnt að því að halda landselsstofninum nálægt þeirri stofnstærð sem hann var í árið 2006 en þá var hann metinn um 12.000 dýr og minnki stofninn verulega frá þeirri stofnstærð skal gripið til aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Ekki er tilgreint til hvaða aðgerða yrði gripið. Stofn landsela er nú metinn vera um 40% minni en viðmið stjórnvalda gefa til kynna.
    Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum fyrir útselsstofninn skal miða við að halda stofninum nálægt þeirri stofnstærð sem hann var í 2004 en minnki stofninn verulega frá því sem þá var skuli gripið til aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Stofnstærð útsels hefur minnkað á undanförnum áratugum en síðasta mat á stofnstærð útsels fór fram árið 2012. Þá var stofninn metinn rétt ofan við þau mörk sem stjórnvöld hafa sett. Nýtt mat á stofnstærð útsels mun fara fram á þessu ári og er niðurstaðna að vænta í lok árs.
    Hafrannsóknastofnun telur mikilvægt að samhliða þeim stjórnunarmarkmiðum sem stjórnvöld setja verði jafnframt gerð áætlun um aðgerðir sem mögulegt er að grípa til þegar stærð selastofna fer undir þau viðmið. Þá telur Hafrannsóknastofnun eðlilegt, komi til endurskoðunar á markmiðunum sem og gerðar aðgerðaáætlunar, að leitað verði álits NAMMCO. Jafnframt telur stofnunin mjög mikilvægt að allar skráningar á selveiðum verði lögbundnar þannig að betri upplýsingar fáist um afföll sela.

     3.      Mun ráðherra gera ráðstafanir til að leitað verði skýringa á mikilli fækkun sela hér við land á undanförnum árum?
    Hafrannsóknastofnun hefur verið tryggt fjármagn til flugtalninga og rannsókna á sel og hefur starfsstöð stofnunarinnar á Hvammstanga það meginhlutverk að sinna selarannsóknum við Ísland. Lengst af hefur einn sérfræðingur sinnt þeirri vinnu en frá árinu 2016 hafa þrír starfsmenn unnið við þær rannsóknir. Nú er einn sérfræðingur og tveir rannsóknamenn starfandi við starfsstöðina á Hvammstanga en verið er að ganga frá ráðningu annars sérfræðings. Með haustinu verða því tveir sérfræðingar starfandi í selarannsóknum auk eins rannsóknamanns og þeirra hlutverk er m.a. að sinna rannsóknum sem skýrt gætu fækkun sela við Íslandsstrendur auk þess að vinna að vöktun á stofnstærðum sela við Ísland.