Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 668  —  347. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um stöðu, hlutverk og fjármögnun náttúrustofa og rannsóknarstarf.


     1.      Hvert er viðhorf ráðherra til náttúrustofa og hlutverks þeirra í rannsóknum á lífríkinu og við vöktunarverkefni? Telur ráðherra að halda beri starfsemi náttúrustofanna áfram með sama hætti og verið hefur eða að breytinga sé þörf og sé svo, þá hverra?
    Náttúrustofur gegna mikilvægu hlutverki við rannsóknir og vöktun á náttúru landsins og er það tilgreint í lögum nr. 60/1994, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Náttúrustofurnar eru nú átta talsins, eða jafn margar og heimild er samkvæmt lögum og eru þær starfræktar með samstarfssamningum ríkis og viðkomandi sveitarfélaga eða sveitarfélags. Því er reyndar svo háttað að náttúrustofur eru starfræktar í þeim landshlutum sem þær kenna sig við, en með afar misjafnri aðkomu sveitarfélaga innan viðkomandi landshluta. Mikilvægt er að starfsemi náttúrustofa þróist í samræmi við breyttar þarfir og áherslur. Ráðuneytið hyggst taka upp á þessu ári viðræður við þau sveitarfélög sem starfrækja náttúrustofur um hvort áherslubreytinga sé þörf, en fyrir liggur að endurnýja þarf núverandi samstarfssamninga um náttúrustofurnar sem gilda til ársloka 2017.

     2.      Hvernig hafa fjárveitingar ríkisins til náttúrustofa þróast undanfarin 10 ár? Óskað er upplýsinga um raungildi fjárveitinganna sundurliðað eftir árum.
    Meðfylgjandi tafla sýnir þróun fjárheimilda náttúrustofa sl. 10 ár, bæði á verðlagi hvers árs svo og miðað við uppreiknað miðgildi neysluvísitölu hvers árs.

Þróun fjárheimilda náttúrustofa árin 2008–2017, í millj. kr.
Ár Fjárheimild á
verðlagi hvers árs
Fjárheimild uppreiknuð frá miðgildi neysluvísitölu hvers árs til mars 2017
2008 129,5 185,1
2009 134,3 171,4
2010 127,6 154,5
2011 120,1 139,9
2012 122,1 135,2
2013 142,3 151,7
2014 144,9 151,3
2015 149,5 153,6
2016 175,9 177,8
2017 162,1

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir raunhækkun grunnfjárveitinga til náttúrustofa?
    Mikilvægt er að skoða ráðstöfun á útgjaldaramma málefnasviða hverju sinni í samhengi við markmið, áherslur og skyldur, jafnt til náttúrustofa sem ríkisstofnana og verkefna sem falla undir ráðuneytið.

     4.      Hyggst ráðherra stuðla að því að náttúrustofur taki að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum, þar á meðal verkefni í grunnrannsóknum og vöktunarverkefnum á starfssvæðum sínum?
    Ef hentar er áhugavert að náttúrustofur annist svæðisbundin rannsókna- og vöktunarverkefni eins og víða hefur verið gert. Ágætt dæmi um það er árleg vöktun og stofnstærðarmat á hreindýrastofninum á Austurlandi sem unnið er af Náttúrustofu Austurlands. Áhugavert er að leita leiða til að efla slík svæðisbundin verkefni, ekki síst ef fyrir er fagþekking og geta hjá viðkomandi náttúrustofu.

     5.      Hver er skoðun ráðherra á mikilvægi þess að auka fjölbreytni í rannsóknarstarfi hérlendis og skjóta þannig stoðum undir atvinnulíf á landsbyggðinni?
    Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttu rannsóknastarfi í landinu og leita leiða til að það sé stundað á landsbyggðinni, ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknir og vöktun á náttúru landsins skipta afar miklu máli og eru undirstaða náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar hennar sem eru undirstöður velferðar í landinu. Náttúrustofur, sem eru staðsettar á landsbyggðinni eru mikilvægur vettvangur fyrir rannsóknir á náttúru landsins á landsbyggðinni og hafa orðið til þessa að skapa fjölmörg sérfræðistörf sem auka fjölbreytni og styrkja atvinnulíf víða á landsbyggðinni.

     6.      Hvaða augum lítur ráðherra samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins með tilliti til valddreifingar og nýtingar fjármagns sem varið er til rannsóknarstarfa og hver er framtíðarsýn ráðherra hvað þetta varðar?
    Náttúrustofur eru almennt smáar einingar og því mikilvægt að þær eigi í nánu samstarfi við stofnanir ríkisins, ekki síst Náttúrufræðistofnun Íslands eins og kveðið er á um í lögum nr. 60/1994, m.a. til að tryggja aðgang að fagþekkingu, tækjum, auka samræmingu, yfirsýn, samfellu og hverskonar utanumhald, vörslu og miðlun gagna. Það er áhugavert að leita leiða til að treysta það samstarf enn frekar, ekki síst til að nýta betur styrkleika þessara aðila, svo sem þá sem felast í dreifðri staðsetningu náttúrustofanna nær vettvangi.