Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 744  —  238. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um inn- og útskatt hótela og gistiheimila.


     1.      Hverjar voru fjárhæðir innskatts og útskatts hótela og gistiheimila, sem og endurgreiðslur til þeirra vegna mismunar, hvort ár 2015 og 2016 og hvernig var skiptingin milli rekstrarkostnaðar og stofnkostnaðar?
    Eftirfarandi tafla sýnir þær fjárhæðir sem spurt er um.
    Til nánari skýringar er eftirfarandi tekið fram:
    Upplýsingarnar taka til aðila sem skráðir eru á grunnskrá virðisaukaskatts vegna rekstrar hótela og gistiheimila, með og án veitingaþjónustu, samkvæmt atvinnugreinanúmerunum (ÍSAT-nr.) 55.10.1 og 55.10.2, en þeir voru 519 talsins árið 2015 og 573 árið 2016. Upplýsingarnar taka ekki til aðila sem reka hótel- og gistiþjónustu meðfram aðalstarfsemi sinni.
    Þau grunngögn sem byggt er á eru annars vegar skattframtöl lögaðila og einstaklinga og viðeigandi fylgigögn fyrir rekstrarárið 2015 og hins vegar virðisaukaskattsskýrslur fyrir rekstrarárið 2016. Upplýsingar úr framtölum fyrir rekstrarárið 2016 liggja ekki enn fyrir og því er ekki unnt að svara því hvernig innskattur rekstrarársins 2016 skiptist eftir rekstri og stofnkostnaði.
    Veltu og þar með útskatt má greina eftir skattþrepum. Útskattur í neðra þrepi reiknast af allri veltu í neðra þrepi, en hluti þeirrar veltu hjá þessum fyrirtækjum eru veitingar. Veltan er ekki sundurliðuð í gistingu og veitingar í grunngögnum RSK.
    Innskatt vegna almenns rekstrarkostnaðar er unnt að greina í skattframtölum/rekstrarframtölum, skiptan eftir skattþrepum og útgjaldaliðum.
    Innskattur vegna stofnkostnaðar er greinanlegur út frá upplýsingum í skattframtali annars vegar og eignaskrá hins vegar. Eignaskrá er fylgiskjal með skattframtali rekstraraðila sem inniheldur upplýsingar um kaup og sölu eigna á rekstrarárinu.
    Þau gögn sem fyrr greinir gera kleift að skipta innskatti af aðföngum upp eftir því hvort aðföngin eru til rekstrar eða fjárfestingar. Þau ná þó ekki til alls innskatts sem fyrirtæki kann að fá frádreginn eða endurgreiddan. Til viðbótar koma nokkrir fleiri liðir sem eru tilteknir í kaflanum „Ýmis innskattur“ á skattframtali. Dæmi um það eru innskattur af eigin innflutningi og innskattur af eignfærðum kostnaði. Þeir liðir sem þannig eru ekki skýrt merktir annaðhvort rekstri eða fjárfestingu vega ekki þungt í heildarinnskatti. Þeir eru hér flokkaðir eftir því sem líklegt má telja og þannig fæst sú niðurstaða um skiptingu heildarinnskatts sem sýnd er í töflunni.
    Rétt er að taka það fram að fyrirkomulag eignarhalds á húsnæði fyrir starfsemina getur haft áhrif á skiptingu innskatts fyrirtækisins, eftir því hvort hann tengist rekstrarkostnaði eða stofnkostnaði þess. Innskattur vegna greiddrar húsaleigu er um þriðjungur af heildarinnskatti vegna rekstrarútgjalda atvinnugreinarinnar. Sá liður er sýndur sérstaklega í töflunni. Innskattur vegna stofnkostnaðar við húsnæðið fellur því til annaðhvort hjá leigusala eða rekstraraðila hótelsins. Þau fyrirtæki sem ekki bera kostnað vegna húsaleigu hafa að jafnaði hærri innskatt vegna stofnkostnaðar en þau sem greiða húsaleigu. Niðurstöður töflunnar um innskatt af aðföngum vegna stofnkostnaðar geta því ekki talist traust vísbending um stofnkostnað í því húsnæði sem atvinnugreinin notar.
    Hliðstæðri fyrirspurn sem tók til áranna 2013–2015 var svarað í ágúst 2016 (799. mál á þskj. 1610) og eiga framangreindar skýringar á tölfræðivinnslunni við jafnt nú sem þá.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     2.      Hver hefði inn- og útskattur hótela og gistiheimila, sem og endurgreiðslur til þeirra, verið sömu ár ef þjónusta hótela og gistiheimila hefði verið í almennu virðisaukaskattsþrepi?
    Hefði þjónusta hótela og gistiheimila verið í almennu skattþrepi (24%) í stað neðra þreps (11%) á árunum 2015 og 2016 má ætla að verð þjónustunnar hefði verið hærra og eftirspurn eftir henni því minni en ella. Hvorki liggja fyrir upplýsingar um að hve miklu leyti hærri virðisaukaskatti mundi hafa verið miðlað inn í verðlagningu né um verðteygnina í þessu tilviki og þar með þau áhrif sem slíkt hefði haft á veltu í starfseminni að öðru óbreyttu. Hér er ekki lagt mat á þessa þætti. Hins vegar má með einföldum hætti reikna 24% skatt í stað 11% á þá veltu sem varð í reynd og þannig sjá hver áhrifin hefðu orðið af tilfærslu í almenna skattþrepið að gefinni fastri veltu. Rétt er að benda sérstaklega á nokkur atriði í þessu sambandi: Hluti af veltu og útskatti fyrirtækjanna í greininni er vegna sölu á vöru og þjónustu í almennu skattþrepi og nemur sá hluti innan við 10% bæði árin. Hluti af veltunni í neðra þrepinu eru veitingar (einnig áfengi frá 1. janúar 2016) og er sá hluti ekki aðgreindur frá gistingu í grunngögnum RSK, né heldur er nein slík aðgreining áætluð hér, heldur er reiknað út frá heildarveltu í neðra þrepi. Litið er fram hjá því að einhver hluti innskatts fyrirtækjanna kann að vera vegna kaupa á þjónustu af öðrum fyrirtækjum í sömu atvinnugrein og mundi sá innskattur því einnig hækka. Miðað við þessar forsendur eru þær fjárhæðir sem spurt er um sýndar í eftirfarandi töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.