Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 746  —  522. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun 241. gr. almennra hegningarlaga.


Flm.: Dóra Sif Tynes, Pawel Bartoszek, Jón Steindór Valdimarsson, Andrés Ingi Jónsson, Guðjón S. Brjánsson


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta fram fara endurskoðun á 241.gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, í því skyni að orðalag ákvæðisins samræmist 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og ákvæðinu hefur verið beitt í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Ráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á 241. gr. almennra hegningarlaga á 147. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Hinn 4. maí sl. kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm í máli Reynis Traustasonar, Jóns Reynis Traustasonar og Inga Freys Vilhjálmssonar gegn Íslandi, máli nr. 44081/13. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar hefðu ekki gætt að meðalhófi við beitingu 241. gr. almennra hegningarlaga líkt og áskilið er í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Umræddur dómur er hinn sjötti sambærilegra dóma þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að beiting 241. gr. almennra hegningarlaga af hálfu íslenskra dómstóla brjóti í bága við 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í öllum tilfellum var um að ræða málshöfðun gegn fjölmiðlamönnum í einkarefsimáli þar sem þeir voru dæmdir til greiðslu miskabóta persónulega vegna starfa sinna. Í öllum málunum komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að tjáningarfrelsi blaðamanna hefði verið skert umfram það sem nauðsyn bæri til í lýðræðislegu samfélagi. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að miðlun upplýsinga og öflug starfsemi fjölmiðla er hornsteinn hvers lýðræðislegs samfélags. Þar eð sýnt þykir að íslenskir dómstólar telja sig bundna af núverandi orðalagi 241. gr. almennra hegningarlaga er nauðsynlegt að Alþingi hlutist til um endurskoðun ákvæðisins til að tryggja frekar sjálfstæði fjölmiðla og jafnframt að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.